Sunday, June 18, 2017

Lokaúrslitin 2017 - Formáli


Ef fólk ætlar að draga fram lífið af því að skrifa, hvort sem er að heilu eða hálfu, þarf það að geta skrifað þegar það er þreytt, annars hugar, þjáð og þurrausið. Það sögðum við við sjálf okkur í kvöld þegar við vorum búin að henda pistlinum sem var hálfnaður, en fundum ekki hjá okkur anda til að skrifa nýjan.

Við brutum allar reglurnar sem við vorum búin að setja okkur um þetta. Við blöðruðum öllu sem okkur langaði að segja um úrslitakeppnina frá okkur* í hlaðvörpum og á mannamótum og áður en við vissum af, vorum við runnin inn í eftirlokaúrslitasvartholið, 

Eftirlokaúrslitasvartholið er fyrirbæri sem aðeins fólk sem lifir og hrærist í körfubolta þekkir (eða kannski bara við, það er ekki gott að segja). Merking hugtaksins felst í nafninu, stundum grípur okkur ákveðin tilfinning eftir síðasta NBA leik sumarsins - og hún er stundum dálítið... deprímerandi. 

Og við komumst að því núna, að þetta er sérstaklega þungbær tilfinning þegar úrslitakeppnin stendur ekki undir væntingum í fyrsta skipti síðan við fórum allra okkar ferða á reiðhjólum og borðuðum nammi bara á laugardögum. Þetta voru áhyggjulausir tímar, svona ef hægt er að kalla æsku- og unglingsárin áhyggjulausa tíma, því þeir eru það sannarlega ekki hjá öllum.

En allar götur síðan á þessum tímum BMX-hjóla og blands í poka, hefur NBA deildin díliverað fyrir okkur. Hún hefur alltaf skilað sínu, hvort sem var á vetrum, vorum eða sólríkum sumrum.

Þangað til núna.

Og við vitum ekki alveg hvernig við eigum að haga okkur yfir þessu öllu saman. Þið munið að við reynum alltaf að vera heiðarleg hérna á NBA Ísland og það stóð ekki á okkur að viðurkenna að fyrstu þrjár umferðirnar í ár hefðu verið drasl. Þær voru það líka, því miður. Drasl á miðað við hvað, spyrðu? Til dæmis á miðað við allar úrslitakeppnirnar aldarfjórðunginn þar á undan. Það ætti að vera nógu stórt úrtak.

Ókei. 

En þá var komið að lokaúrslitunum sjálfum og það er þar sem fólk byrjar að vera ósammála. 

Við sögðum ykkur (einhvers staðar, í hlaðvarpi, útvarpi, sjónvarpi, á prenti - við munum það ekki) að það gæti vel verið að lokaúrslitin yrðu ekki mjög spennandi rimma (að það væru líkur á því að Golden State myndi vinna einvígið 4-1 - check the tape) per se, en sögðum jafnframt að það truflaði okkur ekkert, því við vissum það að körfuboltinn sem í boði yrði í þessu einvígi yrði ekkert minna en stórkostlegur!

Athugið að það er glapræði að lofa svoleiðis, því það getur enginn vitað upp á hár hvernig körfuboltaeinvígi spilast fyrirfram, sérstaklega ef liðin sem um ræðir mæta til leiks með nýjan mannskap (ef annað þeirra t.d. bætir við sig einum besta körfuboltamanni heims...).

En við lofuðum þessu nú samt - og stóðum við það, fjandakornið. Nánar um það síðar.

Því miður tilheyrum við sennilega frekar fámennum hópi fólks, hvers körfuboltaáhorf gengur ekki alltaf út á að halda með öðru liðinu, heldur erum við mætt til að horfa á körfuboltann sem liðin eru að bjóða upp á hvoru sinni. Hér er alveg sama hvort um er að ræða íslenska boltann eða NBA. Við höldum oftast einfaldlega með körfuboltanum. Og ef leikurinn sem við erum að horfa á hverju sinni er vel leikinn og/eða skemmtilegur, förum við ánægð að sofa.

Stuðningsmenn Cleveland og Golden State hugsa auðvitað ekki svona þegar þeir eru að horfa á liðin sín kljást eina ferðina enn í úrslitum, þó það nú væri. Þeir eru auðvitað brjálaðir allt einvígið og finna liði mótherjans allt til foráttu, það er bara partur af leiknum.

En hvað með alla hina? Hvað með þessa sem áttu ekki hest í kapphlaupinu? Lakers-fólkið og Celtics-fólkið og það fólk allt saman? Gat það ekki notið lokaúrslitanna eins og við?

Hreint ekki allir, virðist vera. Margir af þessum "öllum hinum" urðu fúlir og byrjuðu að vera með leiðindi þegar í ljós kom að einvígi liðanna tveggja sem spiluðu epískan oddaleik í úrslitum árið áður, hefði klárast í fimm leikjum að þessu sinni og "ekki einu sinni verið spennandi!"

Við erum búin að heyra allar mögulegar gerðir af leiðindum varðandi nýafstaðin lokaúrslit, sumar þeirra eiga rétt á sér, aðrar eru hreint út sagt fáránlegar. 

En af því við erum hérna til að hjálpa ykkur, skulum við gæta þess að taka allar þessar helstu vangaveltur fyrir í næstu greinum okkar og pistlum.

Næstu pistlar, hvort sem þeir verða fáir eða fleiri, langir eða stuttir, munu fara í það að leitast við að svara helstu spurningum og/eða fullyrðingum sem orðið hafa á vegi okkar í kring um þriðja lokaúrslitaeinvígi Golden State og Cleveland á jafnmörgum árum.

Ætli þið kannist ekki við megnið af þessum pælingum og fullyrðingum:

* Af hverju í andskotanum var Kevin Durant yfir höfuð að fara til Golden State?
* LeBron James er aumingi af því hann er bara 3-5 í lokaúrslitum - Jordan var 6-0!
* Frammistaða Kevin Durant þýðir einfaldlega að hann er orðinn betri en LeBron James!
* Lokaúrslitaeinvígið var ójafnt og þess vegna var það drasl!
* Iss, (einhver útgáfa af Celtics, Lakers eða Bulls) myndi rústa þessu Warriors-liði í seríu!
* Michael Jordan/LeBron James er klárlega miklu betri en LeBron James/Michael Jordan
* Kevin Durant/Warriors-liðið eyðilagði leiktíðina í ár og ekki bara það, heldur næstu 5 líka!

Þetta er það algengasta, en við eigum eflaust eftir að muna eftir fleiri atriðum þegar við byrjum að takast á við þetta. Við verðum bara að vinna þetta með þessum hætti núna, því fyrstu þrír pistlarnir sem við skrifuðum enduðu alltaf í einhverri algjörri steypu og fóru því í ruslið. 

Þessi hefði sjálfssagt átt að enda í ruslinu líka, flest sem við skrifum ætti að gera það, en við urðum að koma okkur einhvern veginn af stað svo við yrðum búin að klára að gera nýafstaðið tímabil upp áður en það næsta fer af stað í haust.

Hey, það er ekki eins og sé eitthvað mikið annað að gera næstu vikurnar.

Takk fyrir biðlundina.

P.s. - Ef þú ert með spurningar tengdar lokaúrslitaeinvíginu, er þér guðvelkomið að senda okkur þær á nbaisland@gmail.com - við skulum taka þær fyrir og svara þeim ef þær eru gáfulegar.

----------------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Fyrsta regla varðandi (körfubolta)skrif

Reyndu að forðast það að "tæma af tönkunum" í spjalli við vini þína, í hlaðvörpum eða fjölmiðlum áður en þú skrifar um leikinn eða einvígið sem þú ætlar að að taka til umfjöllunar, þvi það getur fipað þig þegar kemur að skrifunum. 

Kannski komast sumir upp með þetta, en hafið þó hugfast að jafnvel reyndari pennar geta fipast eða jafnvel lent í sjálfheldu við skrifin ef þeir brjóta þessa reglu. 

Ef þú ert búin(n) að "tappa þessu öllu af þér" áður en þú ferð að skrifa, gætu töfrarnir staðið á sér þegar á þarf að halda. 

Aðeins fólk sem hefur prófað að skrifa af einhverju viti veit hvað við eigum við þegar við tölum um töfrana, en án þeirra væri ritlistin ósköp fábrotin. Og þetta eru raunverulegir töfrar, sem aðeins ákveðinn hluti okkar fær að upplifa.

Ef þú gerir þetta allt saman rétt og sest beint að lyklaborðinu eftir leik (því fyrr, því betra, þó sumir þurfi að leyfa hlutunum að gerjast aðeins fyrst), er þetta allt saman brakandi ferskt í hausnum á þér og þá hafa fingurnir ekki undan við að drita öllu sem þú þarft að segja á lyklaborðið. 

Stóri bónusinn við að vinna þetta svona er að þá er greinarskrifari líka miklu betur í stakk búinn til að rökræða leikinn/einvígið við hvern sem er, því þá er hann nýbúinn að telja fram allt það markverðasta sem gerðist í því í greininni sinni og það sem meira er - færa rök fyrir skoðunum sínum á því! 

Svona er hægt að hagnast á því að gera hlutina í réttri röð, ekki það að ritstjórn NBA Ísland sé til fyrirmyndar í neinu sem kallast getur skipulag eða hagkvæmni. En þó ekki væri nema einn ungur og upprennandi penni þarna úti - já, eða blaðamaður sem veit ekkert hvað hann er að gera. NBA Ísland er alltaf tilbúið að hjálpa.

Ykkur er alltaf, öllum, meira en velkomið að senda okkur línu um hvað sem ykkur liggur á hjarta. Hvort sem það tengist ritlist eða lokaúrslitaeinvíginu 2017 - ekki hika við að hafa samband. Við svörum öllum tölvupóstum innan skynsamlegra marka. Við erum eftir sem áður með póstfangið 

nbaisland@gmail.com