Showing posts with label Nuggets. Show all posts
Showing posts with label Nuggets. Show all posts
Saturday, February 4, 2017
Jokic í þrennuklúbbinn
Efnisflokkar:
Dauði miðherjans
,
Framfarir
,
Nikola Jokic
,
Nuggets
,
Tölfræði
,
Ungt og efnilegt
,
Þetta er ungt og leikur sér
,
Þrennur
Thursday, December 29, 2016
George Karl er frekar ómerkileg manneskja
Væntanleg bók* fyrrum NBA þjálfarans George Karl sem heitir því stutta og hnitmiðaða hafni Furious George: My Forty Years Surviving NBA Divas, Clueless GMs, and Poor Shot Selection hefur reynst fjölmiðlum sem fjalla um NBA deildina óþrjótandi fréttauppspretta undanfarna daga.
Það sem fjölmiðlum ytra þótti fyrst merkilegt við bókina hans Karl, nú eða það fyrsta bitastæða sem þeir fengu að lesa úr bókinni (hún er ekki komin út), voru miður falleg ummæli sem hann lét falla um Carmelo Anthony sem hann þjálfaði um árabil hjá Denver Nuggets. ´Melo var auðvitað ekki sá eini sem fékk að heyra það frá Carl í þessari stuttu úttekt úr bókinni, því sá gamli lét sér ekki muna um að henda mönnum eins og JR Smith og Kenyon Martin undir rútuna í leiðinni.
Við gátum ekki stillt okkur um að glotta þegar við lásum þetta, því hvert einasta orð sem Karl lét hafa eftir sér um leikmennina - sérstaklega Carmelo Anthony - var dagsatt. Hafið hugfast að við erum hér að tala um ummæli Karl um ´Melo og félaga innan vallar, ekki persónu þeirra eða hagi utan vallar (þó þetta tvennt haldist vitanlega stundum í hendur).
Karl sagði sem var að Carmelo Anthony hugsaði bara um annan enda vallarins, væri eigingjarn leikmaður og svo það sem okkur hefur alla tíð þótt augljóst; hann er ekki tilbúinn til að leggja á sig þá vinnu sem til þarf til að verða leikmaður í hæsta gæðaflokki.
Þetta hefur ekki síst með það að Carmelo Anthony á að heita leiðtogi í sínum liðum af því hann fær borgað sem slíkur, en ef leiðtoginn og/eða hæstlaunaðasti leikmaðurinn í liðinu þínu er ekki tilbúinn til að spila vörn og leggja á sig þá vinnu sem til þarf til að fá það mesta út úr liði sínu - þá er enginn í liðinu að fara að gera það.
Það sem okkur þótti hinsvegar miður við ummæli Karl var þegar hann fór að blanda persónulegum hlutum eins og því hvort leikmennirnir sem spiluðu undir hans stjórn á sínum tíma áttu feður eða höfðu jákvæðar/heppilegar föðurímyndir og fabúlera um hvort það væri atriðið sem stæði þeim fyrir þrifum sem leikmenn.
Auðvitað getur meira en vel verið að svona issjú skipti máli þegar kemur að kjarna leikmanna bæði sem manna og atvinnumanna og það getur líka vel verið að þetta sé allt saman rétt hjá George Karl, en þú ferð ekki að gaspra um svona lagað í bókinni þinni. Þetta eru hlutir sem eiga ekki að fara út úr búningsherberginu og þarna er því um trúnaðarbrest að ræða - Karl er þarna að brjóta óskráða reglu sem gildir í samskiptum leikmanna og þjálfara sem eiga að vera vopna- og fóstbræður.
Það sem stendur upp úr hvað Denver-hraun Karl varðar, er að okkar mati hvað Carmelo Anthony tók þroskaða afstöðu - háa veginn góða - þegar fjölmiðlar reyndu að fá hann til að hrauna til baka. Hann er kannski ekki mesti sigurvegari í heimi, hann Melo, en hann hefur þroskast gríðarlega síðan hann kom inn í deildina á sínum tíma.
En eins og þið sem fylgist með hafið lesið, virðist George hvergi nærri hættur, því nú síðast var hann byrjaður að hrauna yfir Damian Lillard hjá Portland!
Eins og búast mátti við, var Terry Stotts þjálfari Portland fljótur að gagnrýna George harðlega fyrir þessi leiðindi. Það er ekki nema von að Stotts hafi verið vonsvikinn, því hann bæði spilaði fyrir Karl á sínum tíma og var aðstoðarþjálfari hans um árabil bæði hjá Seattle Supersonics og Milwaukee Bucks.
Við höfum lesið fleiri en eina grein um George Karl í gegn um árin þar sem látið hefur verið í veðri vaka að hann sé ef til vill ekki besti karakter í heimi. Að hann hafi verið fremur leiðinlegur við leikmenn sína, tækifærissinaður og gjarn á að henda þeim undir rútuna.
Þessi bók hans sem er að koma út virðist renna stoðum undir þessar kenningar en við höfum reyndar líka lesið greinar um það að George sé ofmetinn þjálfari ofan á allt saman. Ef fólk vill fara í þá áttina, er svo sem hægt að benda á það hvað hann þjálfaði lengi í deildinni og hvað hann náði miklum árangri á þessum 30 árum sínum eða svo.
Karl var aldrei nálægt því að vinna meistaratitil á ferlinum, en hann var svo sem aldrei með nein ofurlið í höndunum, þó þau væru oftast ljómandi góð. Því eru menn ekki sammála um hvað hann á mikinn heiður skilinn fyrir árangur liðanna hans. Hann fór með Seattle í lokaúrslit gegn Chicago árið 1996, en þar átti liðið aldrei séns eftir að hafa lent 3-0 undir í einvíginu. Á myndinni hér fyrir ofan sérðu fjóra af lykilmönnum ´96 liðs Sonics. Frá vinstri: Gary Payton, Shawn Kemp, George Karl, Sam Perkins og Detlef Schrempf.
Karl fékk svo langþráða nafnbótina Þjálfari ársins eftir margra ára skak með Denver þegar það náði að vinna 57 leiki árið 2012, en það var engin innistæða fyrir þeim árangri frekar en venjulega - Denver liðið hans datt nánast alltaf út í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.
Það er svo sem óþarfi fyrir okkur að vera að velta okkur upp úr þessu bulli í George Karl, en það eina sem okkur langar að segja er að okkur þykir það eiginlega með ólíkindum að maður eins og Karl skuli láta svona ómerkilegheit út úr sér á prenti - maður kominn á þennan aldur - og verandi nýbúinn að hafa betur í baráttunni við krabbamein og allar græjur! Nei, best að gefa þá bara út bók og drulla yfir allt og alla sem maður hefur unnið með um ævina! Því ekki það!
Það fer vel á því að hann skuli sitja í 5. sæti listans aðeins þremur sætum eða svo fyrir ofan annan skítakarakter, Larry "á ég að lána þér húfu og vettlinga til að hafa meðan þú liggur þarna undir rútunni sem ég er að fara að henda þér fyrir á meðan ég fer í viðræður um að þjálfa annað félag þegar ég er með lið í miðri úrslitakeppni" Brown.
Já, það eru sauðir í þjálfarastéttinni eins og öðrum, þó við viljum auðvitað öll halda að þjálfarar séu snillingar upp til hópa eins og Gregg Popovich.
---------------------------------------------------------------------------------------------------------
* - Lesendur NBA Ísland eru svo heppnir að fá sník pík á báðar bókarkápurnar sem hannaðar voru fyrir nýju bókina hans George Karl hér í þessari færslu. Það var lítið.
Efnisflokkar:
Bókmenntagagnrýni
,
Carmelo Anthony
,
George Karl
,
Kiljan
,
Nuggets
,
Sonics
,
Undir rútunni
,
Undirmálsmenn
,
Þetta verður vont á morgun
Sunday, March 30, 2014
Dýrið flýgur
Efnisflokkar:
Á ferð og flugi
,
Dýrmennið
,
Kenneth Faried
,
Nuggets
,
Þetta verður vont á morgun
Friday, July 5, 2013
Meiðslafaraldurinn 2013: Vesturdeildin
Meiðsli settu svo leiðinlega stóran svip á deilda- og úrslitakeppni NBA á síðustu leiktíð að okkur fannst ekki annað hægt en að skrifa aðeins um það.
Í gær sögðum við ykkur frá meiðslunum sem herjuðu á liðin í Austurdeildinni en í kvöld færum við okkur yfir í Vesturdeildina þar sem meiðsli höfðu líka mjög mikil áhrif á gang mála í vetur og vor. Alveg eins og í fyrri pistlinum byrjum við á botninum og færum okkur upp á við.
Það eru léleg lið í Vesturdeildinni alveg eins og í Austurdeildinni, en þau eru talsvert færri fyrir vestan.
Sum lið eru bara léleg alveg sama hvort þau glíma við meiðsli eða ekki og þannig hefur það til dæmis verið hjá Sacramento um árabil.
Það var Phoenix sem rak lestina í vestrinu í vetur með 25 sigra, New Orleans vann 27 og Sacramento 28. Öll þrjú glímdu við talsverð meiðsli og máttu engan veginn við því.
Þar má til dæmis nefna endalaust vesenið á skotbakverðinum Eric Gordon hjá New Orleans. Gordon virðist ekki með nokkru móti geta haldið sér heilum og eins og til að bæta gráu ofan á svart, missti liðið Antonio "Brúnar" Davis líka af 20 leikjum.
Ef Dílaskarfarnir verða aðeins heppnari með meiðsli næsta vetur, ættu þeir að geta verið með ágætis lið því þeir eru þegar þetta er skrifað að landa vængmanninum Tyreke Evans frá Sacramento og eru með áhugaverðan nýliða í fyrir framtíðina í Nerlens Noel.
Úlfavaktin/Læknavaktin

Úlfarnir eru kapítuli út af fyrir sig og raunar væri hægt að skrifa sér pistil um ólukkuna sem elt hefur þann klúbb undanfarin misseri.
Eins og þið munið myndaðist gríðarleg spenna fyrir Úlfunum hjá flestum NBA áhugamönnum þegar Ricky Rubio kom loksins til Minnesota.
Hugtakið Úlfavaktin varð til og fljótlega varð mjög þröngt á Rubio- og Úlfavagninum. Flest okkar sem fylgjumst með NBA vorum gríðarlega spennt fyrir möguleikunum sem voru uppi á borðinu hjá Úlfunum fyrir síðustu leiktíð.
Meiðsli höfðu tekið sinn toll árið áður, en nú kæmi ekkert slíkt til greina. Úlfarnir fengu meira að segja spennandi liðsstyrk í formi Andrei Kirilenko og Brandon Roy. Hvorugur þessara kappa hefur sloppið vel við meiðsli á ferlinum og á því varð ekki mikil breyting.

Ástþór skilaði aðeins 18 leikjum í vetur og skyttan Chase Budinger aðeins 20, sem þó var skárra en aumingja Brandon Roy - sem náði aðeins fimm leikjum og gafst upp á kommbakkinu sínu.
Þar með var það þó ekki upptalið - aldeilis ekki. Ricky Rubio missti auðvitað úr 25 leiki eftir að hafa slitið krossband vorið áður og þeir Andrei Kirilenko og Nikola Pekovic misstu báðir úr um það bil 20 leiki. Svo hrikaleg voru meiðslin á Úlfunum að Luke Ridnour var eini maðurinn sem náði að spila 82 leiki.

Fram undan eru erfið mál sem þarf að ljúka eins og að framlengja samninga við Kevin Love og Nikola Pekovic - og það verður að teljast ólíklegt að félagið nái að halda Kirilenko áfram. Við erum ekki alveg viss af hverju, en sjarminn er horfinn af Úlfunum.
Nú verður eitthvað annað lið að taka við kyndlinum sem Spútnik- og/eða League Pass lið vetrarins. Úlfarnir eru búnir að fá næga sénsa, en óheppni hefur gert það að verkum að ekkert hefur orðið úr hlutunum hjá þeim.
Sem betur fer varð þessi umfjöllun um Úlfana bara stutt og hnitmiðuð...
Svona eru vonbrigðin hrikaleg.
Næstum því...
Næstu tvö lið í töflunni, Dallas (41) og Utah (43) voru bæði á höttunum eftir sæti í úrslitakeppninni en urðu að játa sig sigruð og sitja heima.
Þar var meiðslum sannarlega um að kenna, þó hvorugt þessara liða hafi verið líklegt til afreka í úrslitakeppninni með 5-10 sigrum í viðbót í deildakeppninni.
Hjá Dallas spilaði Dirk Nowitzki aðeins 53 leiki og var afar lengi í gang eftir hnémeiðsli. Þá spilaði Shawn Marion aðeins 67 leiki og Chris Kaman aðeins 66.
Utah Jazz missti eina fúnkerandi leikstjórnanda sinn (Mo Williams) hálfa leiktíðina og það eitt og sér var bara of stór biti til að kyngja. Þú hefðir kannski unnið nokkra leiki með þá Earl Watson og Jamaal Tinsley í leikstjórnandastöðunni ef við værum stödd á árinu 2003, en því miður fyrir Jazz er áratugur síðan og þessir tveir eiga jafn mikið erindi í byrjunarmínútur í NBA og Ingvi Hrafn.

Rockets slapp við stórkostleg meiðsli en þau bönkuðu upp á í úrslitakeppninni þegar Jeremy Lin gat lítið sem ekkert beitt sér í seríunni gegn Oklahoma City (4 stig, 25% skotnýting). Houston náði að gera einvígið spennandi á kafla en náði ekki að fara lengra án leikstjórnanda síns.
Ónýtt ár
Mörg lið urðu fyrir barðinu á meiðsladraugnum í vetur, en líklega fór ekkert eins illa og Los Angeles Lakers. Fyrir leiktíðina var þeim gulklæddu spáð góðum árangri enda voru leikmenn eins og Dwight Howard og Steve Nash komnir til að aðstoða Kobe og Pau.

Annars fabúleruðum við talsvert um stöðuna á Lakers í pistlinum um Dwight Howard sem datt hérna inn fyrir skömmu. Þar meðal annars komið inn á meiðsli lykilmanna.
Það hefði verið dálítil bjartsýni að spá LA Lakers titlinum í upphafi síðustu leiktíðar, en á hinn bóginn er alveg öruggt að það hefði unnið miklu fleiri en þessa 45 sigra sem það landaði.
Kannski var það bara nokkuð gott hjá Lakers að komast í úrslitakeppnina þrátt fyrir öll þessi meiðsli, en þar beið þess ekki annað en að vera fallbyssufóður fyrir San Antonio Spurs. Þar hefði hvorki Dallas né Utah gert betur.
Flottir flóamenn
Golden State var sannarlega ein af filgúdd fréttum síðustu leiktíðar. Við skömmumst okkar ekkert fyrir að viðurkenna að við gerðum grín að félaginu þegar það réði Mark Jackson sem aðalþjálfara og hlógum að fólki sem tók sénsinn og tippaði á að Warriors færi nú loksins í úrslitakeppnina.

Golden State væri hinsvegar ekki Golden State ef það hefði sloppið alveg við meiðsli.
David Lee féll þannig úr leik hjá liðinu snemma í úrslitakeppninni og þeir Steph Curry og Andrew Bogut voru meira og minna á felgunni.
Nú ætlum við ekki að segja að Warriors hefði slegið San Antonio út í annari umferð úrslitakeppninnar ef allir leikmenn hefðu verið heilir, en það hefði sannarlega verið gaman að sjá hvað hefði gerst.
Golden State fær öruggt A hjá okkur fyrir frammistöðu sína á síðustu leiktíð, en við óttumst að meiðsli eigi alltaf eftir að hóta að skemma öll plön hjá liðinu. Það er óðs manns æði að ætla Andrew Bogut að vera allt í einu heill og ekki eru ökklarnir á Curry traustvekjandi. Að því sögðu vonum við innilega að þetta bráðskemmtilega lið hafi heppnina með sér í framtíðinni.
Annað lið sem stóð sig prýðilega vel í úrslitakeppninni í vor var Memphis Grizzlies, en þangað gleymdi meiðsladraugurinn alveg að fara að þessu sinni og megnið af lykilmönnum liðsins spilaði í kring um 80 leiki.
Sömu sögu var ekki að segja um mótherja Memphis í fyrstu umferðinni, LA Clippers. Alveg eins og á síðustu leiktíð, lenti Blake Griffin í meiðslum á versta mögulega tíma í úrslitakeppninni. Það hafði kannski ekki úrslitaþýðingu í einvíginu, en þeir Marc Gasol og Zach Randolph óðu yfir Clippers á skítugum skónum þegar Griffin naut ekki lengur við.
Þetta var því annað árið í röð sem Clippers þurfti að sætta sig við að falla snemma úr leik í úrslitakeppninni og ef við segjum hlutina bara eins og þeir eru, var liðið bara lélegt. Meiðsli spiluðu inn í bæði árin, sérstaklega 2012, en þau voru ekki ástæðan fyrir því að liðið fór snemma í sumarfrí.
Clippers er bara ekki nógu vel byggt fyrir úrslitakeppni og var þjálfað af manni sem var ekki starfi sínu vaxinn. Það verður gaman að sjá hvort að ný andlit í leikmannahópnum og Doc Rivers í þjálfarastólnum þýði bættan árangur í úrslitakeppninni. Allt er á sínum stað til að fara að gera eitthvað af viti. Meistaraþjálfari, besti leikstjórnandi í heimi og ungir og efnilegir piltar með í för. Koma svo, Clippers.
Snemma í sumarfrí

Hverjum átti að detta í hug að Denver tæki 57 leiki?
En jú, George Karl náði að púsla saman liði sem nýtti sér heimavöllinn til hins ítrasta og hakkaði hvern andstæðinginn á fætur öðrum með hröðum leik sínum.
Eins og Clippers, reyndist þetta Denver lið hinsvegar ekki vel byggt fyrir átökin í úrslitakeppninni og mátti sætta sig við tap í fyrstu umferð þrátt fyrir að ná 3. sætinu í Vestureildinni. Auðvitað spiluðu meiðsli sína rullu í að knésetja Nuggets.
Það gerðist í formi krossbandaslits Danilo Gallinari og þar með var liðið búið að missa sína helstu skotógn utan af velli og einn sinn besta leikmann. Það er samt algjör óþarfi að gráta fyrir þeirra hönd, lið Warriors var líka krambúlerað eins og við sögðum ykkur áðan.
Læri, læri, tækifæri

Þegar nánar er skoðað, má samt setja fram eins og eitt spurningamerki.
Það var ekki stórmál frekar en venjulega fyrir Spurs þó Tony Parker og Manu Ginobili misstu úr góðan slatta af leikjum í deildakeppninni, en þegar í úrslitakeppnina var komið var allt annað uppi á teningnum.
Parker spilaði eins og engill fram í lokaúrslit en gerði það á meiddu læri sem hægði augljóslega nokkuð á honum.
Var það nóg til að gera gæfumuninn í svona hnífjöfnu einvígi þar sem úrslitin ráðast ekki fyrr en á lokasekúndunum í leik sjö í finals? Hugsanlega.
Þetta er veikur málflutningur og Dwyane Wade var sömuleiðis meiddur hjá Miami, en markmiðið með þessum pistli var að benda á hvað meiðsli höfðu mikil áhrif á landslagið í vetur.
Rotið án Russ

Oklahoma var að flestra mati liðið sem átti að fara upp úr Vesturdeildinni og jafnvel ná fram hefndum á Miami í lokaúrslitunum.
Ekkert slíkt var þó í spilunum og það var eiginlega hálf sorglegt að sjá liðið hrynja án Westbrook.
Þegar við erum að skoða hvort Oklahoma hafi verið kandídat í lokaúrslitin, verðum við samt að hafa í huga að í vor var enginn James Harden hjá Thunder eins og árið áður.
Í staðinn var hann í liði andstæðinganna og að reyna að skjóta sína gömlu félaga í kaf.
Það var mjög augljóst að Oklahoma varð strax lakara lið við að missa Harden. Við ætlum hér að nota tækifærið og minna á að við lýstum yfir áhyggjum yfir því strax í haust að Martin næði ekki að fylla nema hluta af skarðinu eftir Harden - sérstaklega í úrslitakeppninni.
Hann átti leik og leik sem var þokkalegur, en heilt yfir var hann bara alls ekki nógu góður. Þarna kom bersýnilega í ljós hvað Harden var saknað - alveg eins og Westbrook auðvitað.
Þá erum við búin að segja ykkur frá nokkrum af helstu og örlagaríkustu meiðslunum sem lögðust á liðin í bæði austri og vestri og ekki annað eftir en að taka smá súmmeringu á þetta allt saman. Lagt verður upp með að hafa þessa súmmeringu stutta, en þið vitið nú hvernig það endar stundum.
Það kemur í ljós í næsta pistli.
Efnisflokkar:
Clippers
,
Grizzlies
,
James Harden
,
Kevin Martin
,
Lakers
,
Meiðsli
,
Nuggets
,
Rockets
,
Spurs
,
Thunder
,
Timberwolves
,
Úlfavaktin
,
Úrslitakeppni 2013
,
Vesturdeildin
,
Warriors
Tuesday, June 25, 2013
Þjálfari Denver rappar
Loksins fékk Bryan Shaw tækifæri sem aðalþjálfari eftir að hafa verið orðaður við síðustu 1400 djobb þeirrar tegundar sem losnað hafa í NBA síðustu ár.
Shaw hefur undanfarið starfað sem aðstoðarþjálfari Indiana Pacers, en fær nú loksins stóra sénsinn hjá Denver þar sem hann tekur við búi þjálfara ársins, George Karl.
Blaðamaður Denver Post var fljótur að benda á að Bryan Shaw hefði ekki aðeins verið góður rulluspilari sem leikmaður og efnilegur þjálfari í dag, heldur fantagóður rappari líka.
Við leyfum ykkur að dæma um það. Hér rappar Shaw um erfiða tíma á tíunda áratugnm.
Efnisflokkar:
Brian Shaw
,
Nuggets
,
Tónlistarhornið
,
Þjálfaramál
Wednesday, May 8, 2013
Þetta gerðist í 1. umferð - Vesturdeild
Fyrsta umferð úrslitakeppninnar í Vesturdeildinni var skemmtilegri og áhugaverðari en í austrinu eins og verið hefur undanfarin ár. Fólk sem heldur öðru fram er ekki í tengslum við raunveruleikann. Meðan austrið bauð í besta falli upp á eina seríu sem hélt fólki vakandi, voru tvær úrvalsseríur í vestrinu, ein fín og ein sem var drasl.

Annað kom á daginn og San Antonio sópaði lánlausum Lakers í sumarfrí enda náði Mike D´Antoni varla í lið vegna meiðsla.
Lítið um þetta einvígi að segja nema kannski að stuðningsmenn Lakers hefðu átt að öskra sig aðeins hásari yfir að koma þessu liði í úrslitakeppnina.
Einvígi Oklahoma og Houston náði að verða bara fjandi skemmtilegt á kafla, en það kom ekki til af góðu. Valdajafnvægið í NBA deildinni tók stóran kipp og hallar nú mikið í áttina til Miami eftir að hálfvitinn hann Patrick Beverley hjá Houston kastaði sér á hnéð á Russell Westbrook hjá Oklahoma í leik tvö og tók hann úr umferð í úrslitakeppninni.

Oklahoma þurfti að taka á honum stóra sínum til að slá fríska Rockets menn út úr úrslitakeppninni eftir að Russell Westbrook datt úr leik og áður en þú ferð að hnussa yfir því, verður þú að hafa í huga að körfuboltafélagið Oklahoma City Thunder hafði aldrei spilað leik án Russell Westbrook þegar hann datt út.
Westbrook missti ekki úr leik í menntaskóla, ekki í háskóla og hafði ekki misst úr einn einasta sem atvinnumaður heldur. Ein af ástæðunum fyrir því að við elskum hann - og góð og gild ástæða fyrir erfiðleikum Oklahoma í kjölfarið.
Síðan Russ datt út, hefur Kevin Durant spilað stöðu leik-framherja hjá Thunder og stendur sig framar vonum. Hann hefur algjörlega tekið liðið á bakið á sér, en öfugt við marga aðra leikmenn sem telja sig stórstjörnur í þessari deild, treystir hann félögum sínum fullkomlega og það er unun að fylgjast með því. Það er ekki gott að sjá hversu langt Oklahoma kemst án Russell Westbrook, en meiðsli hans eru einfaldlega að rífa annan handlegginn af liðinu sem einna helst átti að geta staðið í Miami.
Ömurlegt. Og við erum enn í smá þunglyndi út af því.
Þegar þetta er skrifað, er nýbúið að útnefna aumingja George Karl hjá Denver þjálfa ársins í NBA.
Beiskt er vínið úr bikar þeim.
Hvað ætli Karl sé að hugsa núna, verandi nýbúinn að horfa á lið án síns næstbesta manns slá hann í sumarfrí - -og það þó hann hafi verið meið heilavallarréttinn á sterkasta heimavelli í vetur? Ekki gott að segja, við ákváðum því að hringja í hann.
Karl: Halló
NBA Ísland: Sæll, NBA Ísland hérna. Bömmer að taka við titlinum þjálfari ársins í dag?
Karl: Þokkalega
Ísl: Þið voruð með heimavöllinn - og þó þið hafið verið án Gallo - vantaði David Lee í GSW!
Karl: Einmitt, hrikalegt.
Ísl: Og þú lést nýliðaþjálfara út-þjálfa þig hvað eftir annað...
Karl: Jebb
Ísl: Sýnir þetta ekki svart á hvítu að leikaðferð ykkar er aðeins fyrir deildakeppnina og að sé erfitt að ná árangri í úrslitakeppninni án þess að vera með stjörnuleikmann?
Karl: Tjah, við erum með Andre Miller...
Ísl: Í alvöru?
Karl: Já, nei, nei, ég segi bara svona.
Ísl: Þetta var nú ekkert á við þegar Sonics tapaði fyrir Denver fyrir 20 árum, en þetta var samt skita hjá þér og þínum mönnum, er það ekki?
Karl: Þokkalega.
Ísl: Hvað er það sem þú ert alltaf með uppí þér á leikjum? Ertu með Ópal eða ertu með tuggutóbak? Hvað er þetta? Þetta er að gera alla vitlausa!
Karl: Þetta er útrunnið Gajol sem Alex English gaf mér, ef þú þarft endilega að vita það!
Ísl: Ókeeeeei. Jæja, ein spurning enn. Heldurðu að þessi dæmigerða tilfinningasemi NBA deildarinnar hafi spilað hlutverk í að þú varst kjörinn þjálfari ársins, þar eð þú hefur nú lent í mótlæti síðustu ár?

Ísl: Góður.
Einvígi Denver og Golden State var mikið augnayndi og fór eins og við vorum að vona, mikið var skorað og nóg af drama. Það kom okkur hinsvegar á óvart að Golden State færi áfram, ekki síst eftir að stjörnuleikmaðurinn David Lee datt úr myndinni meiddur.
Liðið þurfti því ekki að örvænta, því annar maður sem er meiri stjörnuleikmaður en margir sem tóku þátt í þeim leik í febrúar, tók til sinna ráða og skaut Warriors í aðra umferð. Stephen Curry hélt áfram þriggja stiga árás sinni frá því í deildakeppninni og svo voru nýliðar liðsins hvergi smeykir, sem kom dálítið á óvart.

Mark Jackson út-þjálfaði hinn reynda George Karl, nýliðar Warriors spiluðu vel, Curry fór hamförum og Andrew Bogut sprakk loksins út á stóra sviðinu og átti miðjuna.
Þetta er leiðinleg niðurstaða fyrir Denver og þó menn hafi kannski ekki reiknað með því að þeir færu langt í úrslitakeppninni, hefði það nú fjandakornið verið lágmark að klára fyrstu umferð með heimavallarréttinn.
Golden State er með stjörnu. Denver ekki. Munar dálítið um það.

Áður en lengra er haldið í umfjöllun um þessa rimu verðum við þó að gera játningu. Við drulluðum upp á bak þegar við hraunuðum yfir Memphis fyrir að láta Rudy Gay fara.
Gay var eini maðurinn í liði Memphis sem talist gat neyðarkarl, en hann var lélegur neyðarkarl og því alls ekki launa sinna virði. Tayshaun Prince hefur fyllt skarð hans með sóma og Memphis er komið í aðra umferð.
Það er ekki hægt annað en að hugsa "hvað ef" þegar fylgst er með Memphis. Liðið er með langöflugustu framlínu í NBA deildinni, vanmetnasta leikstjórnandann í deildinni, spilar stórkostlega vörn en vantar neyðarkarl og kannski 1-2 alvöru skyttur. Þá er þetta lið meistaraefni og ekkert annað.
Þrátt fyrir að vera án neyðarkarls, er Memphis nú samt komið í aðra umferð úrslitakeppninnar eftir nokkuð öruggan sigur á LA Clippers. Chris Paul var maðurinn sem gerði gæfumuninn hjá Clippers í þessu sama einvígi á síðustu leiktíð, en hann náði ekki að brúa bilið að þessu sinni.

Í fyrra hafði Clippers þá Kenyon Martin og Reggie Evans í baráttunni undir körfunni en nú þurfti það að treysta á DeAndre Jordan, Lamar Odom, Ronny Turiaf og Ryan Hollins.
Það er auðvitað einföldun að segja að þetta sé munurinn á liðunum, en tvö atriði til viðbótar réðu líka miklu í einvíginu.
Í fyrsta lagi kom það á daginn að breiddin hjá Clippers, sem í deildakeppninni var ein sú mesta í deildinni, var alls ekki staðar þegar í úrslitakeppnina var komið. Ef Chris Paul náði ekki að búa eitthvað til upp úr engu, gerðist ekki neitt í sókninni
Aukaleikarar Clippers voru bara alls ekki að skila sínu. DeAndre Jordan var ekki starfi sínu vaxinn, Chauncey Billups og Lamar Odom voru bara lélegir og verstur af þeim öllum var hinn meinti ofurvaramaður Jamal Crawford. Hann skoraði 10 stig að meðaltali í rimmunni og skaut 27% úr þristum. Við þurfum varla að minnast á það hvaða skoðanir við höfðum á komu hans í Clippers-liðið á sínum tíma, er það?

Flest það sem Paul gerði (og það vel) náði Conley að apa eftir honum. Conley fékk vissulega aðstoð við að dekka Chris Paul, en hann er að sýna það betur og betur nú í úrslitakeppninni hvað hann er frábær leikmaður (Hann var t.d. með 26 stig, 10 fráköst og 9 stoðsendingar í leik tvö gegn Oklahoma, en það var ekki nálægt því besti leikur hans í úrslitakeppninni).
Nú er stóra spurningin hvort Chris Paul framlengir samning sinn við Clippers eða fer eitthvað annað. Hann ætti nú ekki að fara í svo dramatískar aðgerðir að stinga af, en ljóst er að breytinga er þörf hjá klúbbnum. Kannski er það ósanngjarnt, en Vinny del Negro þjálfari þarf að fara. Hann er bara ekki nógu góður þjálfari.

Og Memphis? Guð hjálpi okkur öllum ef þetta lið nær í almennilega skorara á vængina.
* Meiðslalisti andstæðinga Miami Heat er orðinn glettilegur. Flestir reiknuðu með endurteknu efni í úrslitunum í júní, en hætt er við því að meiðsli RussWest setji það allt upp í loft. Enn eitt breikið fyrir Miami. Kannski að við ættum að setja * við titilinn árið 2013 rétt eins og sumir gerðu við titilinn í fyrra út af verkbanninu.
Wednesday, April 24, 2013
Af Óða-Georg og Eric Floyd
Í öðrum leik Denver og Golden State í úrslitakeppninni í nótt sem leið, tókst Warriors að gera nokkuð sem aðeins þremur liðum tókst í allan vetur.
Að vinna í Denver.
Fáir hefðu líklega reiknað með þessum sigri Golden State, enda missti liðið einn sinn sterkasta mann (David Lee) í meiðsli í fyrsta leiknum.
Við skulum samt halda því til haga að Denver er líka án eins síns besta manns (Danilo Gallinari) og með annan lykilmann á felgunni (Kenneth "Dýrmennið" Faried).
Lakers komst í 3-0 og gerði sig líklegt til að sópa dæminu, en Floyd frændi ykkar var nú ekki á því og setti NBA met með því að skora 29 stig í fjórða leikhlutanum, 38 í síðari hálfleik og 51 stig alls.
Það fór mjög í skapið á George að Lakers næði 3-0 forystu í einvíginu og tók hann því æðiskast á leikmenn sína í klefanum.
Helsta ástæðan fyrir sigri Golden State í öðrum leiknum var að skyttur liðsins áttu allar góðan dag. Þegar svo er, getur ekkert lið í heiminum unnið Warriors. Það er bara þannig.
Steph Curry skoraði 30 stig fyrir Warriors og gaf 13 stoðsendingar. Golden State hefur vissulega ekki verið mikið í úrslitakeppninni undanfarin ár og því var eðlilegt að það væri langt síðan leikmaður félagsins bauð upp á þessar tölur í leik í úrslitakeppni.
Það vill svo skemmtilega til að þessi leikmaður var Eric "Sleepy" Floyd og leikurinn sem um ræðir var fjórði leikur Golden State og LA Lakers í annari umferð úrslitakeppninnar árið 1987.

Lakersliðið var 14 stigum yfir á kafla í fjórða leikhluta en Floyd skaut Warriors yfir með því að hitta meðal annars úr tólf skotum í röð.
Met Floyd stendur enn, en gamla metið á þessum tíma var 25 stig í einum leikhluta og var reyndar sett aðeins tveimur dögum áður af Isiah Thomas.
Þessi frábæri sigur Golden State dugði þó skammt, því Lakers lokaði einvíginu í fimmta leiknum og varð síðar NBA meistari eins og margir muna.
Gaman að geta þess að þjálfari Golden State á þessum tíma var enginn annar en George Karl, sem í dag er þjálfari Denver Nuggets.

Reiðilesturinn beindist sérstaklega að Joe Barry Carroll sem seinna fékk viðurnefnið Joe Barely Cares, sem lýsti metnaði hans nokkuð vel.
"Ég rústaði skápnum hans í búningsklefanum," sagði George Karl í samtali við Denver Post í dag.
"Ég var æfur eftir tapið í þriðja leiknum en Carroll sagði mér að slappa af, við hefðum átt fínt ár en Lakersliðið væri bara rosalega gott. Ég missti mig og þrumaði körfuboltum í skápinn hjá honum með þeim afleiðingum að hurðin brotnaði af," sagði Karl.
Segja má að æðiskast þjálfarans hafi dugað til að kveikja smá neista í hans mönnum, þó hann hafi aðeins dugað í einn leik. Neistinn varð að minnsta kosti að báli í hausnum á Sleepy Floyd, sem komst svo um munaði í sögubækur þennan dag árið 1987.
Hérna sérðu svipmyndir úr "Sleepy Floyd-leiknum" eins og hann er kallaður.
Efnisflokkar:
Fret úr fortíðinni
,
George Karl
,
Lakers
,
Metabækurnar
,
NBA 101
,
Netbrennur
,
Nuggets
,
Sleepy Floyd
,
Stephen Curry
,
Úrslitakeppni 2013
,
Warriors
Saturday, March 23, 2013
Nokkrir molar um sigurgöngu Nuggets
99% þeirra sem lesa þetta vita að Miami Heat er á næstlengstu sigurgöngu í sögu NBA deildarinnar, en hún var einmitt að tikka í 25 leiki rétt áður en þetta var skrifað.
Við höfum ekkert á móti liði Miami og höfum því ekki í huga að skrifa um þessa rosalegu sigurgöngu, því þið vitið öll að hún myndi enda með það sama í einu risastóru Jinx-Digranesi.
Miami er ekki eina liðið sem er á magnaðri siglingu, því Denver hefur líka unnið þrettán leiki í röð og okkur langar að deila með ykkur nokkrum punktum um Nuggets - þó í þeirri von að við förum nú ekki að jinxa liðið í drasl.

Eins og við spáðum fyrir nokkru, hefur Denver rifið sig upp og verið nær ósigrandi í heimavænu prógramminu. Það þýðir þó ekki að liðið hafi ekki staðið sig vel á útivöllum, þar sem nokkrir mjög góðir sigrar hafa dottið í pokann.
Denver er með gríðarlega sterkan heimavöll. Það er ekki bara af því stemningin í Pepsi-höllinni er góð, heldur stendur Denver svo hátt yfir sjávarmáli að gestaliðunum finnast lungun vera að brenna þegar þau reyna að elta heimamenn, sem alltaf reyna að keyra upp hraðann eins mikið og hægt er.

Nokkrir af hreinustu íþróttamönnum deildarinnar leika með Denver og það kemur sér vel í áðurnefndum aðstæðum þegar keyra á andstæðinginn í kaf.
Nægir þar að nefna þá Andre Iguodala, Dýrmennið Kenneth Faried (nr. 35), Ty Lawson, Corey Brewer og kjarneðlisfræðinginn JaVale McGee.
Það er ekki aðeins í hraðaupphlaupunum sem Denver er í sérflokki, heldur skorar liðið langflest stig allra í NBA inni í teig. Þetta er ekki síst vegna þess að liðið reynir að keyra eins og því er unnt og fær jafnan mörg stig úr hraðaupphlaupum með sniðskotum og troðslum.
Það er ekki laust við að Denver í dag minni dálítið á Suns-hraðalestina undir stjórn Steve Nash þegar það spilar svona hraðann og langskotamiðaðan sóknarleik. Það var ekki fyrr en árið 1997 sem NBA deildin fór að halda tölfræði yfir stig skoruð inni í teig og fari svo sem horfir á Denver líklega eftir að stúta því meti.

Denver skorar í dag hvorki meira né minna en 58 stig að meðaltali í leik inni í teig, sem er með ólíkindum.
Met liðsins í stigum inni í teig í stökum leik í vetur er 78 stig gegn Lakers fyrir áramótin, en til gamans má geta þess að það er einmitt Lakers sem á metið í þessum tölfræðiþætti þegar það skoraði að meðaltali rúm 54 stig inni í teig árið 1998.
Það er því ljóst að Denver er í góðri stöðu til að slá þetta met, því það hefur til dæmis rofið 60 stiga múrinn inni í teig 27 sinnum í vetur.
Hugsið ykkur bara. Liðin í NBA deildinni drita þriggja stiga skotum sem aldrei fyrr, en þó kemur nokkuð oft fyrir að þau lakari séu rétt að slefa í um 70 stigin - þetta er Denver að skora inni í teig og á þá þristana, vítin og skotin af millifærinu eftir. Magnað alveg hreint.

Það er þekkt stærð að Denver er ekki með eina hreinræktaða ofurstjörnu í sínum röðum og þá má segja að langskotin séu ekki sterkasta hlið liðsins. Þar með eru þó helstu veikleikar Nuggets að verða upptaldir.
Stórstjarna eða ekki, það er fullt af snillingum í Denver og George Karl þjálfari getur leyft sér þann munað að rótera 10 mönnum á fullri keyrslu án þess að liðið missi dampinn - sérstaklega á heimavelli þar sem það hefur verið nær ósigrandi í vetur (31-3).

Denver er búið að lauma sér upp fyrir Clippers í þriðja sætið í Vesturdeildinni og okkur sýnist að það verði fjórða liðið í NBA til að ná 50 leikja markinu í vetur. Aðeins Miami, San Antonio og Oklahoma hafa náð því til þessa.
Það verður forvitnilegt ða fylgjast með Denver í úrslitakeppninni í vor og sjá hvernig liðinu tekst að eiga við það þegar hægist á leiknum og það fær ekki að hlaupa eins mikið og í deildakeppninni.
Hver verður það sem stígur á stokk hjá Denver og tekur að sér hlutverk neyðarkarls þegar allt verður undir?
Við fáum að sjá það eftir um það bil mánuð, en það er ljóst að Denver verður ekki auðvelt lið viðureignar í úrslitakeppninni ef marka má frábært gengi þess gegn hinum toppliðunum í Vesturdeildinni.
Á efstu myndinni í þessari færslu má sjá árangur Denver gegn hinum sjö liðunum sem útlit er fyrir að nái inn í úrslitakeppnina í Vesturdeildinni og hann er ekkert slor eins og þið sjáið.
Lakers-liðið er að finna sig betur og betur og mun líklega halda dampi á þessum síðasta mánuði deildakeppninnar þar sem það fer vonandi að endurheimta mannskapinn af meiðslalistanum.
Í fyrsta skiptið í langan tíma er Dallas aðeina að ranka við sér og hefur unnið sjö af síðustu tíu leikjum sínum.
Miði er möguleiki fyrir Dallas, en til þess þarf Lakers að byrja aftur að drulla á sig og við sjáum það ekki gerast á þessum vikum sem eftir eru.
Utah er jú þara á vappinu en getur ekki keypt sigur og er úr leik í kapphlaupinu eins og við sögðum ykkur um daginn.
Vonandi höfðuð þið gaman af þessum molum um hið fríska og skemmtilega Denver-lið. Við mælum eindregið með því að fólk taki spjaldtölvuna bara með á kamarinn og gluggi þar í þetta í ró og næði.
P.s. - Um leið er ekki úr vegi að minna á sjónvarpsleikina sem framundan eru á Stöð 2 Sport um páskana. Sannkallaðir hörkuleikir þar á ferð. Hugsið ykkur bara ef Miami héldi nú bara áfram að vinna og við fengjum að sjá eitthvað sögulegt í beinni!
Chicago-Miami Miðvikudagur 27. Mars 00:00 (skírdagur)
San Antonio-Miami Sunnudagur 31. Mars kl 23:00 (páskadagur)
LA Clippers-Lakers Sunnudagur 7. Apríl 19:30
Efnisflokkar:
Hratt er satt
,
Nuggets
,
Sigurgöngur
Wednesday, February 6, 2013
Sirkus Gallo
Stjörnu-geggjaður sjónvarpslýsandi Denver Nuggets vildi þegar mest lét meina að þetta væri karfa aldarinnar hjá Danilo Gallinari. Það er auðvitað algjört kjaftæði, en það leynir sér ekki að Ítalinn skemmtilegi hefur verið duglegur að fara með bænirnar sínar undanfarið.
Ætli leikmenn Denver hafi ekki allir verið duglegir að biðja. Liðið hefur unnið sjö leiki í röð og þrettán af fimmtán. Megnið af þessum leikjum eru á erfiðum heimavelli þeirra í þunna loftinu, enda var kominn tími á að þetta blessaða lið fengi nokkra heimaleiki eftir sífelld ferðalög í upphafi leiktíðar.
Efnisflokkar:
And1
,
Danilo Gallinari
,
Karfa og skot
,
Nuggets
,
Sirkusinn er kominn í bæinn
,
Undur og stórmerki
Monday, January 21, 2013
Kvöld fyrirbæranna
Leikur Denver Nuggets og Oklahoma City í gærkvöld hafði alla burði til að verða einn af leikjum ársins, en því miður var dómaratríóið búið að ákveða það fyrir leik að hleypa þessum frábæru liðum aldrei á flug.
Án gríns, þeir eyðilögðu leikinn.
Við höfum aldrei séð jafn margar sóknarvillur, skrefa- og tvígripsdóma í einum körfuboltaleik. Það var með ólíkindum.
Í þessi fáu skipti sem skemmtikraftarnir inni á vellinum fengu þó að spila, fórum við að hugsa hvað það væri nú gaman að horfa á þessi tvö lið leika listir sínar.
Það eru nefnilega svo margir sérstakir körfuboltamenn í þessum tveimur liðum - fyrirbæri, ef þannig má að orði komast.
Russell Westbrook var klárlega maður leiksins. Westbrook er ofurhetja með tvö sjálf. Hann er annað hvort góði- eða slæmi Russ. Í nótt var hann lengst af góði Russ, með slettum af vonda Russ, sem er eiginlega skemmtilegasti kokteillinn.
Það er eitt heitasta deiluefni NBA deildarinnar hvort Russell Westbrok sé góður, einstakur, leikmaður, eða ólíkindatól sem skemmi fyrir Oklahoma. Fleiri eru á því að hann sé góður leikmaður, en það er ljóst að hann er enn ekki búinn að ná að temja sig og þroskast eins og lög gera ráð fyrir með úrvalsleikmenn. Það kemur og það er miklu auðveldara að temja villtan hest en að berja lata truntu áfram.

Það er skemmst frá því að segja að Oklahoma hefði aldrei átt möguleika gegn Denver í gær ef Westbrook hefði ekki notið við. Ef tölfræðin er skoðuð, er Kevin Durant fyllilega á pari við félaga sinn, en hann gat ekki blautan í gær - tveimur dögum eftir að hafa skorað yfir 50 stig.
Westbrook hélt uppi eins manns sókn á Denver bróðurpartinn af leiknum þrátt fyrir að hafa snúið sig illa á ökkla í fyrri hálfleik. Hann hefur aldrei misst úr leik á ferlinum og ætlaði nú ekki að byrja á því í Denver af öllum stöðum. Lét bara teipa sig upp á nýtt og hélt áfram. Einn af fjömörgum kostum við Westbrook sem enginn talar um, af því það hefur ekki komið til tals.
Það eru ekki margir leikmenn í NBA deildinni sem geta gert það sem Westbrook gerði í gær. Að halda heilu liði á tánum og koma sér á vítalínuna eða skora sókn eftir sókn eftir sókn. Þetta gerir hann með fádæma grimmd, keppnisskapi, klókindum og líkamlegum burðum sem fáir hafa yfir að ráða.
Við verðum líka að gefa Westbrook auka rokkstig fyrir grínið sem hann bauð upp á undir lokin á leik Denver og Oklahoma í nótt, þegar hann eyðilaggði skemmtiatriði í tvígang fyrir lukkudýri Nuggets - bara til að stríða áhorfendum. Hann fékk líka allt húsið upp á móti sér.

En það vill svo skemmtilega til að Westbrook var ekki eina fyrirbærið á vellinum í Denver í nótt. Liðsfélagi hans Kevin Durant er sannarlega fyrirbæri líka. Hann er öskufljótur, hittinn og getur sett boltann á gólfið þó hann sé langt yfir tvo metra á hæð og sé með vænghaf upp á 230 sentimetra.
Það segir sína sögu um Durant að hann geti átt ömurlegan leik en samt skorað 37 stig. Það hefur með það að gera að hann hefur öðlast virðingu dómara og er líklega bestur allra leikmanna NBA í að koma sér á vítalínuna.
Ekki búinn að taka nema 42 víti síðustu tveimur leikjum!
Denver er líka með fyrirbæri í sínum röðum. Efstur á blaði þar er auðvitað varamiðherjinn Javale McGee á myndinni hér til hliðar.
Hann er ekki bara sjö fet á hæð, heldur gæti hann málað þakið á Hallgrímskirkju með vænghafinu einu saman. Bættu svo við það þeirri staðreynd að hann hoppar hærra en flestir og við erum komin með mann sem truflar flugumferð þegar mest lætur.
Eini gallinn við þetta allt saman er að það er alls ekki víst að sé nokkur heima þó ljósin séu kveikt hjá honum og það er einmitt ástæðan fyrir því að hann er ekki einn besti miðherji heimsins.
Annað fyrirbæri í framlínu Denver er svo Dýrmennið Kenneth Faried (sjá efstu mynd). Hann er með einn besta mótorinn í NBA deildinni, sívinnandi og hefur ótrúlegt nef fyrir því að rífa niður öll fráköst sem skoppa af körfunum á báðum endum vallarins.
Varaleikstjórnandinn Andre Miller er svo fyrirbæri út af fyrir sig, en á allt annan hátt en áðurnefndir félagar hans.
Miller er búinn að vera lengi í bransanum og hefur alla tíð þótt frekar svifaseinn leikmaður. Það bætir hann upp með annars vegar klókindum og hinsvegar... þeirri staðreynd að hann er með þyngsta afturenda í sögu leiksins.
Miller getur póstað upp á helming leikmanna í NBA deildinni þrátt fyrir að vera innan við 190 sentimetrar á hæð af því hann er með skut eins og fimm tonna dísellyftari.
Þú stoppar þetta ekkert ef þetta fer af stað á sléttu gólfi.
Þetta voru nokkur orð um fyrirbærin sem við sáum á flugi í Denver í nótt. Það er ekki bara körfubolti sem ber fyrir augu á leikjum í NBA deildinni.
Við þökkum þeim sem lásu. Góðar stundir.
Efnisflokkar:
Andre Miller
,
Fyrirbæri
,
JaVale McGee
,
Kenneth Faried
,
Kevin Durant
,
Nuggets
,
Russell Westbrook
,
Thunder
Tuesday, October 2, 2012
Fjölmiðladagurinn: Nuggets
Fjölmiðladagurinn árlegi í NBA deildinni fór fram mánudaginn 1. október.
NBA Ísland kíkti í heimsókn til nokkurra liða í deildinni og lagði fram nokkrar athugasemdir, hvort sem það var viðeigandi eða ekki. Þetta tekur nokkrar færslur og í þeirri síðustu tökum við saman skemmtilegustu myndir fjölmiðladagsins 2012.
Það verður gaman að fylgjast með Denver Nuggets í vetur. Þar er á ferðinni hörkulið sem er án stórstjörnu og liggur undir gagnrýni fyrir það. Á móti kemur að Denver hefur spilað sig nokkuð vel út úr Carmelo-umsátrinu og á heiður skilinn fyrir það. Nýjasti liðsmaðurinn, Andre Iguodala frá Sixers, ætti að smella nokkuð auðveldlega inn í liðið og veita því nauðsynlegan varnarleik.
Denver frumsýndi nýjan aukabúning á fjölmiðladeginum. Gárungarnir segja að leikmennirnir líti út eins og ofvaxnar franskar kartöflur í þessu dressi. Okkur finnst þetta geggjaður búningur og fullkominn fyrir utan ljósbláa litinn, sem á alls ekki að vera með þeim gula. Gúddsjitt.
Verkfærin sem Lawson og Gallo munda á myndunum eru dæmi um furðulega hluti sem poppa alltaf upp í einni eða fleiri tökum á fjölmiðladeginum. Líklega eiga hakarnir að vera vísun í nafn liðsins og gullleitaruprunann, en það er gjörsamlega út í hött að mynda leikmenn með þá.
Skemmtileg myndin hérna fyrir neðan af jafnöldrunum Andre Miller og George Karl, skælbrosandi eins og venjulega.

Efnisflokkar:
Fjölmiðladagurinn
,
Nuggets
,
Treyjur og búningar
Subscribe to:
Posts (Atom)