Monday, January 21, 2013
Kvöld fyrirbæranna
Leikur Denver Nuggets og Oklahoma City í gærkvöld hafði alla burði til að verða einn af leikjum ársins, en því miður var dómaratríóið búið að ákveða það fyrir leik að hleypa þessum frábæru liðum aldrei á flug.
Án gríns, þeir eyðilögðu leikinn.
Við höfum aldrei séð jafn margar sóknarvillur, skrefa- og tvígripsdóma í einum körfuboltaleik. Það var með ólíkindum.
Í þessi fáu skipti sem skemmtikraftarnir inni á vellinum fengu þó að spila, fórum við að hugsa hvað það væri nú gaman að horfa á þessi tvö lið leika listir sínar.
Það eru nefnilega svo margir sérstakir körfuboltamenn í þessum tveimur liðum - fyrirbæri, ef þannig má að orði komast.
Russell Westbrook var klárlega maður leiksins. Westbrook er ofurhetja með tvö sjálf. Hann er annað hvort góði- eða slæmi Russ. Í nótt var hann lengst af góði Russ, með slettum af vonda Russ, sem er eiginlega skemmtilegasti kokteillinn.
Það er eitt heitasta deiluefni NBA deildarinnar hvort Russell Westbrok sé góður, einstakur, leikmaður, eða ólíkindatól sem skemmi fyrir Oklahoma. Fleiri eru á því að hann sé góður leikmaður, en það er ljóst að hann er enn ekki búinn að ná að temja sig og þroskast eins og lög gera ráð fyrir með úrvalsleikmenn. Það kemur og það er miklu auðveldara að temja villtan hest en að berja lata truntu áfram.
Það er skemmst frá því að segja að Oklahoma hefði aldrei átt möguleika gegn Denver í gær ef Westbrook hefði ekki notið við. Ef tölfræðin er skoðuð, er Kevin Durant fyllilega á pari við félaga sinn, en hann gat ekki blautan í gær - tveimur dögum eftir að hafa skorað yfir 50 stig.
Westbrook hélt uppi eins manns sókn á Denver bróðurpartinn af leiknum þrátt fyrir að hafa snúið sig illa á ökkla í fyrri hálfleik. Hann hefur aldrei misst úr leik á ferlinum og ætlaði nú ekki að byrja á því í Denver af öllum stöðum. Lét bara teipa sig upp á nýtt og hélt áfram. Einn af fjömörgum kostum við Westbrook sem enginn talar um, af því það hefur ekki komið til tals.
Það eru ekki margir leikmenn í NBA deildinni sem geta gert það sem Westbrook gerði í gær. Að halda heilu liði á tánum og koma sér á vítalínuna eða skora sókn eftir sókn eftir sókn. Þetta gerir hann með fádæma grimmd, keppnisskapi, klókindum og líkamlegum burðum sem fáir hafa yfir að ráða.
Við verðum líka að gefa Westbrook auka rokkstig fyrir grínið sem hann bauð upp á undir lokin á leik Denver og Oklahoma í nótt, þegar hann eyðilaggði skemmtiatriði í tvígang fyrir lukkudýri Nuggets - bara til að stríða áhorfendum. Hann fékk líka allt húsið upp á móti sér.
Ef Scott Brooks hefði haft vit á því að láta Kendrick Perkins ekki spila í þessum leik, hefði Westbrook meira að segja örugglega átt síðasta orðið.
En það vill svo skemmtilega til að Westbrook var ekki eina fyrirbærið á vellinum í Denver í nótt. Liðsfélagi hans Kevin Durant er sannarlega fyrirbæri líka. Hann er öskufljótur, hittinn og getur sett boltann á gólfið þó hann sé langt yfir tvo metra á hæð og sé með vænghaf upp á 230 sentimetra.
Það segir sína sögu um Durant að hann geti átt ömurlegan leik en samt skorað 37 stig. Það hefur með það að gera að hann hefur öðlast virðingu dómara og er líklega bestur allra leikmanna NBA í að koma sér á vítalínuna.
Ekki búinn að taka nema 42 víti síðustu tveimur leikjum!
Denver er líka með fyrirbæri í sínum röðum. Efstur á blaði þar er auðvitað varamiðherjinn Javale McGee á myndinni hér til hliðar.
Hann er ekki bara sjö fet á hæð, heldur gæti hann málað þakið á Hallgrímskirkju með vænghafinu einu saman. Bættu svo við það þeirri staðreynd að hann hoppar hærra en flestir og við erum komin með mann sem truflar flugumferð þegar mest lætur.
Eini gallinn við þetta allt saman er að það er alls ekki víst að sé nokkur heima þó ljósin séu kveikt hjá honum og það er einmitt ástæðan fyrir því að hann er ekki einn besti miðherji heimsins.
Annað fyrirbæri í framlínu Denver er svo Dýrmennið Kenneth Faried (sjá efstu mynd). Hann er með einn besta mótorinn í NBA deildinni, sívinnandi og hefur ótrúlegt nef fyrir því að rífa niður öll fráköst sem skoppa af körfunum á báðum endum vallarins.
Varaleikstjórnandinn Andre Miller er svo fyrirbæri út af fyrir sig, en á allt annan hátt en áðurnefndir félagar hans.
Miller er búinn að vera lengi í bransanum og hefur alla tíð þótt frekar svifaseinn leikmaður. Það bætir hann upp með annars vegar klókindum og hinsvegar... þeirri staðreynd að hann er með þyngsta afturenda í sögu leiksins.
Miller getur póstað upp á helming leikmanna í NBA deildinni þrátt fyrir að vera innan við 190 sentimetrar á hæð af því hann er með skut eins og fimm tonna dísellyftari.
Þú stoppar þetta ekkert ef þetta fer af stað á sléttu gólfi.
Þetta voru nokkur orð um fyrirbærin sem við sáum á flugi í Denver í nótt. Það er ekki bara körfubolti sem ber fyrir augu á leikjum í NBA deildinni.
Við þökkum þeim sem lásu. Góðar stundir.
Efnisflokkar:
Andre Miller
,
Fyrirbæri
,
JaVale McGee
,
Kenneth Faried
,
Kevin Durant
,
Nuggets
,
Russell Westbrook
,
Thunder