Sunday, January 20, 2013

Ristill: Um afleita frákastavinnu Bosh og Bargnani


Mikið hefur verið gert úr því að Miami hefur ekki verið að spila sérstaklega vel undanfarið. Auðveldast væri að segja að það sé út af varnarleiknum, en fráköst eru sannarlega hluti af varnarleik og þar situr sveðjan í beljunni. Miami er sem stendur í 29. sæti deildarinnar í fráköstum.

Á töflunni hér fyrir neðan sérðu hvað leikmenn Miami eru slappir í fráköstunum. LeBron James gerir nokkuð vel að venju, en strangt til tekið má segja að allir hinir leikmennirnir þurfi að skoða sín mál.


















Það eru auðvitað stóru mennirnir sem eiga að frákasta og því miður fyrir Miami er það Chris nokkur Bosh sem gegnir stöðu miðherja hjá liðinu. Það á eftir að koma í ljós, en við óttumst að Chris Bosh eigi eftir að verða valinn í Stjörnulið Austurdeildarinnar í ár.

Það er eitthvað að ef svo verður. Bosh er búinn að vera hræðilegur undanfarið.

Bosh er sannarlega enginn miðherji og þó hann hafi lengst af á ferlinum verið skráður kraftframherji, er hann líkari skotbakverði á vellinum en kraftframherja.

Hlutverk stórra manna í körfubolta er að spila vörn, verja skot og hirða fráköst. Bosh hefur hinsvegar lítinn áhuga á þessu og sérgrein hans er stökkskot utan af velli, því hann hefur ofnæmi fyrir snertingu.

Þetta fer allt saman rosalega í taugarnar á okkur eins og þið eruð eflaust farin að átta ykkur á.

Bosh átti nokkra skínandi leiki í úrslitakeppninni á síðasta ári og hann á jú sínar sterku hliðar sem leikmaður, en hann mun aldrei vinna fyrir þeim fáránlegu launum sem hann er að fá hjá Miami. Og það fer líka í taugarnar á okkur.

Menn sem vinna engan veginn fyrir kaupinu sínu og stórir menn sem þola ekki snertingu og hirða ekki fráköst, eru atriði á topp 10 lista okkar yfir mest óþolandi hlutina í NBA deildinni.

Lítum aðeins á tölurnar hans Chris Bosh:

Hann er að spila fæstar mínútur á ferlinum og því kemur ekki á óvart að hann sé að hirða færri fráköst en nokkru sinni. Hann er að rífa niður heil sjö fráköst á 33 mínútum, sem er grátlega lélegt. Það er nú ekki eins og hann sé að spila með einhvern Pekovic eða Love við hliðina á sér.

Chris Bosh hirti fjórum sinnum 10 fráköst eða meira í einum leik í nóvember og fjórum sinnum í desember, en hann hefur enn ekki náð tveggja stafa tölunni í janúar.

Hann hefur náð í heilar níu tvennur í allan vetur og hefur ekki náð 10 fráköstum síðan í fyrra.


Við sögðum ykkur frá upplifun okkar þegar við horfðum á Bosh spila gegn Warriors á dögunum. Þar hitti hann 5 af 14 skotum, skoraði 11 stig, hirti 6 fráköst og tapaði 3 boltum.

Það er erfitt að lýsa því með orðum hvað hann var lélegur. Hvað eftir annað var hann að láta kasta sér til og lét bakverði rífa af sér fráköst. Það er sorglegt að horfa á manninn spila.

Það eina sem Chris Bosh getur huggað sig við þessa dagana - og reyndar alltaf - er að þótt ótrúlegt megi virðast, er hann EKKI lélegasti frákastarinn í NBA deildinni! (hér væri upplagt að spila mjög hátt á gamalt kirkjuorgel til að undirstrika þessi gríðarlega óvæntu tíðindi - svona til að auka hughrifin).

Án þess að leggja fram vísindaleg rök fyrir því - fullyrðum við að Andrea Bargnani er lélegasti frákastarinn, ekki bara í NBA deildinni, heldur mögulega í öllum heiminum. Hann lætur Bosh líta út eins og Dennis Rodman í samanburði. Að hugsa sér að þessir menn hafi spilað saman á árum áður. Hvernig náði Toronto fráköstum?

Bargnani er einmitt á svipuðu flugi og Chris Bosh var varðar aumingjaskap í vetur. Hann hefur alltaf verið ömurlegur frákastari en er nú að hóta því að setja ný met í að frussu-drulla á sig á frákastasviðinu.

Bargnani er skráður miðherji eins og Bosh en spilar raunar stöðu kraftframherja. Það er ekki andskoti mikill kraftur í umræddum framherja, því hann heldur auðvitað að hann sé skotbakvörður alveg eins og Bosh.

Þessi 213 sm hái Ítali er að hirða hvorki meira né minna en 4,3 fráköst að meðaltali í leik á 33 mínútum. Þetta er ekki langt frá því að vera heimsmet - það bara getur ekki annað verið.

Bargs er búinn að vera dálítið meiddur í vetur og er bara búinn að spila 21 leik, en þú hugsar örugglega með þér;

"ókei, hann er kannski slappur frákastari, en hann hlýtur að vera búinn að ná sér í EINA tvennu í vetur... er það ekki?"

Nei.

Hann hefur einu sinni tekið níu fráköst.

Tvisvar átta.

Þetta á ekki að vera hægt.

Það eru ellefu bakverðir í NBA deildinni sem hirða fleiri fráköst en Andrea Bargnani.
Hann er í sjöunda sæti í fráköstum í sínu liði! Sjöundi! Bakverðirnir taka fleiri fráköst en hann.

Hvað á að gera við svona aumingja? Án gríns!

Fyrirgefið okkur þessi ógurlegu leiðindi, en við bara getum ekki þagað yfir svona.

REYNIÐ AÐ PAPPÍRA YKKUR, AULAR!