Monday, July 26, 2010

Saturday, July 24, 2010

Friday, July 23, 2010

Thursday, July 22, 2010

Wednesday, July 21, 2010

Monday, July 19, 2010

Sunday, July 18, 2010

LeBron Skýrslan


Eftir að hafa hugsað málið í nokkra daga höfum við komist að því að við þyrftum að gefa út 300 blaðsíðna bók til að komast almennilega yfir það sem okkur liggur á hjarta varðandi LeBron James eftir Sumarið 2010.

Fyrir skömmu birtum við þanka okkar um stöðu LeBron James í nokkuð ítarlegum pistli sem sniðugt væri að lesa aftur áður en þú heldur áfram hér.

Í þessum pistli litum við aðeins á arfleifð James til þessa, stöðu hans sem ofurstjörnu og ráðlögðum honum að lokum að hætta þessu bulli og skrifa undir hjá Cleveland. Við bentum á að James, sem sæti undir sívaxandi pressu um að fara að vinna titla, myndi aðeins auka þessa pressu ef hann yfirgæfi heimaslóðirnar í Ohio.

Eins og þú veist núna, ákvað James að breyta til og ganga í raðir Miami Heat. En það var margt í því samhengi sem kom okkur og flestum öðrum gjörsamlega í opna skjöldu.

Tvö atriði vöktu sérstaka furðu. Annars vegar að LeBron James næði að koma sér í lið með tveimur öðrum stjörnuleikmönnum og hinsvegar sú meðvitaða ákvörðun hans að reyna að drepa atvinnuíþróttir í Cleveland.

Fyrra atriðið er nægur tími til að greina, en það síðara er okkur ofar í huga þessa stundina.

Sagt er að séu tvær hliðar á öllum málum og þannig er það með ákvörðun LeBron James í sumar.

Sumir benda réttilega á að hann hafi verið með lausa samninga og því frjálst að gera hvað sem honum þóknaðist. Það gerði hann líka og meira til. Félögin í NBA eru ekki að velta sér upp úr tilfinningum leikmanna þegar þau versla með þá eins og notaða bíla. Það er alveg rétt - og það er önnur hliðin á málinu.

En það er ekki af eintómum viðskiptasjónarmiðum sem fólk er æst yfir að sjá á eftir James frá Cleveland. Fólkið, stuðningsmennirnir, sveitungar hans, áttu betra skilið en þessa sársaukafullu og opinberu niðurlægingu sem þeir fengu frá óskabarninu sínu. Útreið sem náði hámarki í Versta Sjónvarpsþætti Allra Tíma, "Ákvörðuninni" en var raunar búin að vera að gerjast í lágmark tvö ár.

Þú ert væntanlega búinn að sjá þáttinn og/eða lesa allt sem um hann hefur verið skrifað.

*Þá staðreynd að hafi verið gerður klukkustundarlangur skrípaleikur um þetta í beinni útsendingu á ESPN.

*Að hroðbjóðurinn af manneskju Jim Gray hafi verið fenginn til að taka viðtalið.

*Að meðreiðarsveinar James hafi fengið að selja auglýsingarnar í þáttinn en heimildir herma að aðeins brot af tekjunum hafi skilað sér til þeirra sem áttu að njóta þeirra.

*Hvernig börnin í þættinum voru notuð sem almannatengslatól og leikmunir.

*Hvað James og allir sem komu fram í útsendingunni voru taugaóstyrkir og asnalegir.

*Hve oft James talaði um sjálfan sig í þriðju persónu (5) og sagðist ætla að "flytja hæfileika sína til Suðurstrandar" (hér er gert fimm mínútna hlé til að kasta upp).

*Hvað hann sagði marga hluti sem augljóslega voru haugalygi og að mamma hans hafi verið með í ráðum.

*Og síðast en ekki síst hvað allir í þættinum voru vandræðalegir af því þeir vissu, að þó þarna væri á ferðinni efni sem færi í íþróttaannála næstu 50 ára, væri það í raun ómerkilegra en heimatilbúið hollenskt dvergaklám.

Fæstir íslenskir íþróttaáhugamenn gera sér grein fyrir ömurlegri sögu Cleveland sem íþróttaborgar, en þar á bæ eru hamfarirnar á allra vörum og túlkaðar með formerkinu "The."

Óæskilegar uppákomur í íþróttasögu borgarinnar eins og The Shot, The Drive, The Fumble eru allt atburðir sem sitja húðflúraðir á sálartetur heimamanna og minna þá á eilíf vonbrigði þeirra á íþróttasviðinu síðustu áratugi.

Það hefði því ef til vill átt að hringja einhverjum feigðarbjöllum í Cleveland þegar LeBron James ákvað að kalla klukkustundarlanga sjálfsfróun sína á ESPN "The Decision"

Nú er ekki víst að bakstunga LeBron James verði kölluð "The Decision" í Cleveland framvegis. Kannski verður hún bara kölluð "The helvítis fokkíng fokk" eða þar fram eftir götunum.

Bréfið sem Dan Gilbert, eigandi Cleveland, birti á heimasíðu félagsins skömmu eftir ákvörðun James, var í alla staði skrifað undir þessu íslenska slagorði sem okkur er flestum orðið tamt. Gilbert hafði ekki þennan sama lúxus og við að ná að telja upp í tíu áður en hann skrifaði um málið. Slokraði væntanleg í sig hálfri viskí og settist rjóður við lyklaborðið.

Auðvitað var lítill klassi yfir bréfinu, þar sem hann sakaði James um að hafa gefist upp í úrslitakeppninni í vor og lagði á hann álög - lofaði að Cleveland hampaði titlinum á undan "hinum svokallaða konungi."  Menn eins og Gilbert eiga auðvitað að hafa vit á því að gera ekki svona, en innst inni höfðum við mjög gaman af þessu.

Flestir eru þó á einu máli um að Gilbert hafi alls ekki haft efni á að mála sig sem fórnarlamb í málinu eftir að hafa gengið á eftir bullinu í James og hans mönnum alla tíð hans hjá Cavaliers. Og þar með erum við komin að næsta atriði.

Hvernig eigum við að túlka árin hans LeBron James í Cleveland?

Það er hreint ekki hrist fram úr erminni að búa til meistaralið í NBA. Forráðamenn Cleveland reyndu það en mistókst. Nokkur atriði standa upp úr.

Góður félagi okkar kom með góða kenningu um að kannski hafi ófarir Cleveland byrjað árið 2007 þegar liðið komst óvænt í lokaúrslitin, þar sem því var svo sópað út af San Antonio Spurs.

Getur verið að Cleveland hafi náð of góðum árangri of snemma?

Segja má að komið hafi fát á forráðamenn félagsins eftir úrslitaeinvígið 2007. Kannski hefur uppbygging liðsins á þessum þremur árum miðað meira við að vinna í hvelli og þóknast þar með LeBron James, svo hann færi nú ekki að stinga af um leið og samningur hans rynni út líkt og kom svo á daginn.

Það er erfitt að meta hvort hægt sé að saka James um það sjálfan að vera ekki með minnst einn meistaratitil í vasanum. Líklega ætti það að vera svo þegar hann er búinn að spila með liði sem hefur unnið 60+ leiki síðustu tvö ár.

James til varnar, verður þó líklega að segjast eins og er að hann hafi ekki verið með neinn úrvals mannskap með sér þegar á hólminn var komið.

Ef við skoðum eigandann, forráðamenn félagsins og þjálfarateymið undanfarin ár, þykir okkur ljóst að samvinnan hefur ekki verið til fyrirmyndar og í dag er líka komið í ljós að gullkálfurinn James bar alls ekki næga virðingu fyrir yfirmönnum sínum. Þessi frábæra grein Adrian Wojnarowski á Yahoo! endurspeglar þetta og sviptir reyndar hulunni af ýmsu misjöfnu um hans hátign LeBron James.

Og talandi um misjafna hluti.

Eins og við höfum áður tíundað, er það auðvitað algjörlega undir LeBron James komið hvort hann spilar áfram í Cleveland eða fer annað þegar hann er með lausa samninga. Hann valdi að breyta til og spila með liðinu hans Dwyane Wade. Og það kemur ekkert sérstaklega vel út þegar við tölum um arfleifð James til þessa. Við gerum þessar æpandi kröfur á piltinn af því hann er mjög einstakur leikmaður. Og einstakir leikmenn eiga að geta betur en þetta. Eiga að gera liðin sín að meisturum. En við höfum nægan tíma til að tala um arfleifð James í þessum nýja kafla með Miami Heat.

Tölum um arfleifð hans í Cleveland.

James hefur gefið Cleveland og heimafylki sínu mikið á þeim sjö árum sem hann spilaði með Cavaliers, um það er engum blöðum að fletta. Hann hefur skemmt okkur öllum vel og komið Cleveland á kortið í leiðinni.

En hann er búinn að eyðileggja það allt saman.

Með vanþroska sínum, græðgi og sjúklegri athyglisýki sá hann til þess að félagið gat ekkert gert til að búa sig undir brotthvarf hans í sumar.

Forráðamenn félagsins fengu ekki að vera með í ráðum og hann svaraði ekki einu sinni símtölum þeirra. Þeir fengu að vita ákvörðun hans nokkrum mínútum áður en heimurinn fékk að vita af því.

Og hvernig hann fór með stuðningsmennina...

Setjum það svona. Ef verður ekki uppþot í Cleveland þegar hann spilar fyrsta leikinn sinn þar í búningi Miami Heat, eiga stuðningsmenn Cleveland skilið þá framkomu sem hann sýndi þeim í sumar.

Ef verður ekki baulað á hann í hverjum einasta leik í Cleveland svo lengi sem hann spilar í NBA, segjum við "gott á ykkur" við alla stuðningsmennina sem eru með hnífinn í bakinu eftir hann.

Framkoma LeBron James í garð stuðningsmanna Cleveland er mesta svívirða sem við höfum orðið vitni að í íþróttum.

Svona gerir bara maður sem er annaðhvort nautheimskur eða algjör skíthæll. Mögulega bæði.

Þetta eru ansi hörð orð til handa skærustu stjörnu NBA deildarinnar, en það er ekki hægt að orða þetta öðruvísi.

Eigum við eftir að hafa gaman af því að sjá James spila með Miami? Heldur betur. Það verður frábært. En þessi ungi piltur var ekki mjög langt yfir núllinu hjá körfuboltaguðunum fyrir sumarið 2010 og er nú kominn í hrapandi mínus.

Körfuboltinn er stundum dálítið skrítinn. Það eru ekki mörg ár síðan að LeBron James var elskaður krónprins en þeir Kobe Bryant og Ron Artest voru úthrópaðir skíthælar og glæpamenn.

Og sjáðu hvar þeir eru í dag.

Það verður áhugavert að fylgjast með því hvað körfuboltaguðirnir gera við LeBron James. Verða þeir jafn skilningsríkir við hann og Kobe og Artest?

Við skulum sjá til eftir þrjá meistaratitla. Ekkert nema meistaratitlar getur útmáð aðra eins skitu og James skilur eftir sig í Cleveland. Og þeir þurfa að fara að koma fljótlega. Mjög fljótlega. Annars gæti ævintýrið um arfleifð LeBron James endað sem hrollvekja.

Við hefðum haldið að maður sem hugsar jafn mikið um sjálfan sig og LeBron James ætti að gera sér grein fyrir þessu, en það var áður en við sáum "Ákvörðunina" og veltum fyrir okkur hvort þessi ungi maður vissi yfir höfuð eitthvað hvað hann væri að gera.

Metnaður James til að verða global icon hefur sprungið í andlitið á honum, sama hvað hver segir, rétt eins og metnaður hans til að verða NBA meistari.

Guði sé lof að nú geti hann einbeitt sér aftur að körfuboltanum.

Ef það er þá þar sem metnaður hans liggur.

Póstkassinn


Það er ekki auðvelt verkefni fyrir þessa ritstjórn að setjast niður viku seinna og ætla að ná utan um eitt stærsta mál sinnar tegundar í sögu NBA deildarinnar - Sirkusinn í kring um LeBron James og Samningasumarið Mikla 2010.

Ritstjórnin hefur verið á ferðalagi eins og þið vitið og því höfum við enn ekki tæklað málið. Það hefði verið mun ákjósanlegra að skrifa eitthvað um þetta strax, en því varð ekki við komið. Það er kannski eins gott. Eigandi Cleveland Cavaliers gæti bent á ókostina við að senda frá sér yfirlýsingar um leið og óveður hefur gengið yfir.

Það er samt drullu erfitt að keyra upp anda til að skrifa um þetta eftir smá frí, en þó það verði kannski enginn rjómi, getum við auðvitað ekki skorast undan.

Áður en við hellum okkur í að upplifa aftur fárviðrið sem gekk yfir deildina á dögunum, verðum við að koma á framfæri þakklæti til þeirra sem hafa sent okkur tölvupóst meðan við vorum í fríinu. Það er frábært að heyra frá ykkur og þessir póstar eru ríkuleg laun okkar fyrir vinnu vetrarins.

Það er greinilegt að NBA Ísland hefur stytt mörgum stundirnar frá því vefurinn hóf göngu sína í haust og líklega þótti okkur vænst um að heyra frá fólki sem sagði vefinn hafa endurvakið áhuga þess á NBA körfuboltanum. Það er einmitt einn helsti tilgangur þessarar síðu og gott að heyra að þessi viðleitni skuli falla í ljúfan jarðveg.

Nokkrir lesendur sögðust illa haldnir af þunglyndi skömmu eftir að við létum af daglegum skrifum hérna um daginn og það er auðvitað miður. Þetta fólk skiljum við reyndar mjög vel, sumrin geta verið erfiður tími, eins dásamleg eins og þau eru nú.

Svo finnast lesendur sem sýna velþóknun sína á frumlegan hátt eins og sá sem stofnaði þessa skemmtilegu Facebook-grúppu. Þetta fékk okkur til að íhuga að tala um okkur í þriðju persónu í smá stund.

Við hvetjum ykkur því enn og aftur til að halda áfram að láta í ykkur heyra á netfangið nbaisland (hjá) gmail.com um hvað sem ykkur dettur í hug, það er alltaf gaman að heyra frá ykkur og eflir okkur í ritandanum.

Gleymið heldur ekki að segja vinum ykkar frá NBA Ísland. Það má sannarlega deila um það hvort atburðir síðustu daga í NBA séu sniðugir eða ekki, en það breytir því ekki að línurnar eru lagðar fyrir epískan NBA vetur 2010-11.


Nú verða allir að fylgjast með. Líka rækjusamlokurnar og "ég hætti nú að fylgjast með NBA þegar Jordan hætti" -grátkórinn.

Saturday, July 10, 2010

Friday, July 9, 2010

Drykkjutúrnum að ljúka


Jæja gott fólk. Þá liggur "ákvörðunin" fyrir. Pat Riley og félagar í Miami Heat stóðu uppi sem sigurvegarar skrumsumarið mikla 2010.

Dwyane Wade, LeBron James og Chris Bosh. Ágætis uppskera.

Það er erfitt að ná utan um þetta á fyrstu klukkutímunum eftir tíðindin og þess vegna erum við hérna á ritstjórninni eiginlega fegin að verða á ferðalagi allan föstudaginn.

Við verðum því ekki í aðstöðu til að skrifa mjög mikið næstu daga. Allir verða að fá smá sumarleyfi. Þú veist samt að við höfum skoðanir á þessu. Ekki bara Miami, heldur öllu samningafárinu síðustu daga. Og þær birtast hérna fljótlega. Hafðu ekki áhyggjur.

Það var meðvituð ákvörðun að reyna ekki einu sinni að skrifa um allt bullið sem var í gangi frá mánaðarmótum, en næstu daga fer rykið að setjast og þá verður hægt að skoða málin frá rökrænu sjónarmiði.

Þangað til mátt þú endilega senda okkur þínar skoðanir á þessu öllu saman á nbaisland@gmail.com og halda áfram að fylgjast með á Twitter-síðunni.

LeBron James valdi Miami


Thursday, July 1, 2010

Veigamesta frétt ársins: Jackson tekur eitt ár enn


Eins og við fórum fram á í færslu hér fyrir skömmu, hefur Phil Jackson ákveðið að þjálfa meistaralið Los Angeles Lakers eitt ár í viðbót. Þetta varð niðurstaða fundar hans við lækna, sem gáfu honum grænt ljós á einn slag enn.

Þetta eru frábær tíðindi fyrir Lakers-menn á sama hátt og þetta eru slæm tíðindi fyrir restina af deildinni, ekki síst keppinauta Lakers í Vesturdeildinni.

Hávaðinn í félagaskiptaglugganum er 90% í kring um liðin í Austurdeildinni, svo erfitt er að sjá að valdajafnvægið í vestrinu breytist það mikið að Lakers verði ógnað á toppnum þar.

Það verður gríðarlega áhugavert að sjá hvort Jackson tekst að koma sjötta meistarahringnum á Kobe Bryant líkt og á Michael Jordan - og hvort honum tekst að vinna þrjú ár í röð í fjórða skipti á þjálfaraferlinum.

Það er svo brjálaður möguleiki að það er erfitt að segja það upphátt.

Allir fréttamiðlar eru nú uppfullir af slúðri í kring um leikmenn með lausa samninga en fréttin um Phil Jackson hefur meira vægi í valdajafnvægi deildarinnar árið 2011 en hvað svo sem LeBron James og félagar ákveða að gera á næstu dögum.

Og það, gott fólk, er bara þannig.

Markaðsdeild Nike var með þetta