Saturday, June 5, 2010

Uppgjör við LeBron James:


Sirkusinn í kring um LeBron James er farinn að standa dálítið í okkur. Þú hefur líklega heyrt af því að James sat fyrir svörum hjá sjálfum Larry King í kvöld. Við höfum ekki séð viðtalið þegar þetta er skrifað, en það er ómögulegt að nokkuð vitrænt hafi komið út úr því, enda er það bara auglýsingabrella.

Í dag var bárust svo fréttir af því að Nike ætlaði í sérstaka herferð þar sem meiningin væri að gefa út sérstaka skólínu í kring um viðtöl James við þau félög sem ætluðu að reyna að fá hann til sín þegar hann má ræða við þau eftir 1. júlí. Þetta fyllti mælinn hjá ansi mörgum. Talsmenn Nike hafa ekki viljað staðfesta þessar fréttir - kannski sem betur fer - en þær koma ekki á óvart.

Það er engum blöðum um það að fletta að LeBron James verður óvinsælli með hverjum deginum sem líður - og það er enn mánuður í að hann megi svo mikið sem tala opinberlega við forráðamenn annara félaga en Cleveland.

Það fer fyrir brjóstið á fólki að hann hafi farið í þátt Larry King. Til hvers, spyrja menn eðlilega? Og sú staðreynd að viðtalið hafi verið tekið upp fyrir nokkru síðan, svo hafi hluta af því verið lekið rétt fyrir leik eitt í lokaúrslitunum til að stela sviðsljósinu - og svo fór það endanlega í loftið á föstudeginum milli leiks 1 og 2 i úrslitunum. Engin tilviljun í því.

Okkur þykir Ken Berger á CBS negla þetta mjög vel í þessum pistli.

Hann flettar inn í greinina kommentum frá David Stern, Magic Johnson og Kobe Bryant. Þrír af þeim mönnum sem mest ættu að hafa um þetta mál að segja utan Cleveland.

Og talandi um Cleveland.

Sannarlega heppilegt að viðtal James við King skuli fara í loftið nokkrum dögum eftir að þjálfari liðsins er rekinn og sama dag og framkvæmdastjóri félagsins Danny Ferry sagði af sér/var rekinn.

Bæði Stern og Magic benda réttilega á að NBA deildinni veiti ekki af athyglinni.

Stern eru auðvitað í skýjunum að Marv Albert hafi fengið að taka viðtal við sjálfan Bandaríkjaforseta á dögunum (m.a. um James) og fær svo gullkálfinn sinn LeBron i stólinn hjá Larry King litlu seinna. Stern nuddar á sér loðna lófana og hlær á leið í bankann.

Og Magic benti réttilega á að þegar hann var að spila hefðu menn verið að berjast í því að fanga athygli þjóðarinnar og nú þegar það hefði tekist endanlega - væri ekki rétt að væla yfir því. Mjög skiljanlegur punktur.

En okkur þótti það líka mjög áhugavert sem Kobe Bryant sagði þegar hann var spurður hvort það kæmi illa við hann að LeBron væri að stela sviðsljósinu frá sjálfum lokaúrslitunum.

"No," Bryant said. "I don't deal with that, and I don't think about it. I know him personally, and he's a great person; a great person and a hell of a player. My deal with him is, I wish people would just leave him the hell alone and let him do his thing and that's all I'll say about that. I really don't think about anything other than just him doing well." 

Hvað okkur varðar, erum við búin að fá nóg af þessu.

Kasjúal NBA aðdáendur eru ekkert upp með sér yfir því að LeBron James sé að prómótera sjálfan sig hjá Larry King. Hann er að prómótera sjálfan sig og ekkert annað. Og lengra komnir NBA aðdáendur? Þeim er bara óglatt.

Við hér á NBA Ísland eru búin að blása fast í LeBron-trompetinn í allan vetur, en erum hálfpartinn farin að skammast okkar fyrir það.

Ógleðin sem við upplifum stafar af einhverju leyti af því að við erum með nefið ofan í öllum fréttamiðlum 18 tíma á sólarhring og þar er ekkert að finna nema spekúlasjónir um LeBron James og nýjustu útspil viðskiptaskrumvélarinnar sem byggð hefur verið í kring um þennan hæfileikaríka pilt.

Vissulega er það spennandi tilhugsun að sjá LeBron James spila hér eða þar með þessum eða hinum, en við erum búin að fá nóg af þessum órum.

Núna viljum við bara sjá James losa af sér hljóðnemann, þrífa framan úr sér sminkið, skipta um föt og drulla sér inn í sal að æfa. Fara svo í sturtu, kíkja upp á kontór til eiganda Cavaliers og spyrja hann hvar hann eigi að skrifa undir svo hann geti einbeitt sér að komandi átökum af fagmennsku.

Allt annað mun valda vonbrigðum. Sérstaklega fyrir hann sjálfan.

LeBron James var að flestum álitinn besti körfuboltamaður heims fyrir nokkrum vikum.

En tvö ár í röð hefur honum mistekist að gera það sem hann á að gera. Að vinna meistaratitil með Cleveland. Hann hefur brugðist væntingum stuðningsmanna sinna og Cleveland í Ohio og á heimsvísu. Það er honum að kenna að Cleveland fór ekki lengra. Þannig er það bara þegar þú ert ofur-ofur-stjarna - og það vill hann vera - eins og Bird, Magic og Jordan á undan honum.

En LeBron James grét ekki þó liðið hans hafi skitið á sig í úrslitakeppninni. Hann grét ekki eða brást við reiður þegar hann sat á blaðamannafundi eftir tapið gegn Boston.

Hann lagaði bara fötin sín og passaði sig að færa orkudrykkjarflöskurnar frá samkeppnisaðilanum frá myndavélunum áður en viðtölin hófust. Blaðraði svo nokkrar klisjur, talaði um sig í þriðju persónu, og talaði um liðið sitt.

Þar átti hann ekki við lið Cleveland Cavaliers, heldur sjálfan sig, spunakarla sína og auglýsingahákarla. "Hann verður auðvitað að skoða hvað er best fyrir hann og hans fjölskyldu."

Forgangsröðunin hjá James er ekki betri en þetta og það verður hann bara að eiga við sig, en hann er kominn á ansi hálan ís.

Það er ekki víst að hann átti sig á því að hann er að verða búinn að mála sig út í horn í þessu dásamlega listaverki sínu.

Það er nú einu sinni þannig að þegar rykið sest og skrumlúðrarnir í kring um James þagna eftir að ákvörðun hans liggur fyrir í sumar, tekur miskunnarlaus raunveruleikinn við aftur.

Blaðamenn og aðrir hætta að velta sér upp úr því hvert James fer og fara að spá í það hvort hann hafi bætt sig sem leikmaður. Hvort hann hafi það sem til þarf. Hvort hann sé í raun og veru sá útvaldi. Sigurvegari. Spurningar sem hann hefði átt að sitja undir eftir leik sex gegn Boston, en enginn þorði að spyrja.

Og ef James fer frá Cleveland, verða þessar spurningar bara háværari, tíðari og óþægilegri.

Verði honum að góðu.