Showing posts with label Frumraunir/frumsýningar. Show all posts
Showing posts with label Frumraunir/frumsýningar. Show all posts

Wednesday, March 30, 2016

Útgáfupartí


Fjórði leikur Hauka og Þórs í 1. umferð úrslitakeppninnar í gærkvöldi var einn sá skemmtilegasti sem við höfum séð í vetur - þvílík hávaðaskemmtun sem hann var.

Eins og þið vitið væntanlega, lauk leiknum með sigri gestanna úr Hafnarfirði 100-96 eftir framlengingu, sem þýðir að Haukarnir eru komnir í undanúrslitin. Við viðurkennum fúslega að við dauðsjáum á eftir Þórsliðinu og það er fúlt að Natvélin og félagar séu á leiðinni til Benidorm. 

Blanda af klaufagangi og óheppni liðsins hjálpaði ekkert, en það sem gerði gæfumuninn í þessum leik var sú staðreynd að Vance Hall spilaði gjörsamlega eins og aumingi. Ef hann hefði spilað af 50% getu í þessum leik, hefði Þórsliðið náð að knýja fram oddaleik, en hann valdi slæman dag til að eiga sinn versta leik á tímabilinu og því fór sem fór. Maðurinn hlýtur bara að hafa verið fárveikur. Ekkert annað afsakar þessa arfaslöku frammistöðu hjá þessum annars magnaða leikmanni.

Það sem stendur upp úr í þessum leik kemur Þórsliðinu hinsvegar ekkert við, því hann var að okkar mati útgáfupartí Kára Jónssonar. Drengurinn fór hamförum og kláraði leikinn fyrir Kanalausa Hafnfirðingana. Það er nákvæmlega ekkert eðlilegt við það að drengur sem er ekki búinn að eyða fermingarpeningunum sínum taki bara yfir leik í úrslitakeppni með þessum hætti, en hann gerði það nú samt. Þvílíkur töffari sem þessi drengur er.

Saturday, October 31, 2015

KR slátraði Njarðvík í frumraun Hauks Helga


Við áttum von á talsvert mikið jafnari leik í Vesturbænum í gærkvöldi. Við flýttum okkur í Frostaskólið og tókum upphitun, hitting og burger áður en flautað var til leiks - allt eins og það á að vera fyrir hörkuleik tveggja stórliða.

En Íslandsmeistarar KR voru ekkert á því að halda einhverri spennu í viðureign sinni við Njarðvík. Þeir þurftu hvorki á Helga Magnússyni né Pavel Ermolinski að halda, þegar þeir völtuðu yfir þá grænklæddu 105-76.

Njarðvíkingarnir voru vissulega ekki með fullt lið heldur. Handsprengjan Stefán er í gönguskó og spilar ekkert með liðinu á næstunni, en dagurinn í gær snerist alls ekki um að væla út af meiðslum, heldur fagna komu Hauks Helga Pálssonar inn í Njarðvíkurliðið.

Haukur er slíkur hvalreki fyrir Suðurnesjaliðið að við ætluðum honum auðvitað að keyra beint í borgina og vinna KR. Það fór ekki alveg þannig eins og áður sagði, en það fer heldur enginn á taugum yfir óhagstæðum úrslitum í október - nema kannski Skagfirðingar.

Það var svo fjandi mikið að gera hjá okkur að taka myndir handa ykkur að við misstum af stórum hluta leiksins. Það er erfitt að lesa í spilamennsku á bak við linsuna. Við skulum kalla þetta ljómandi góða afsökun fyrir því að skrifa lítið sem ekkert um leikinn.

En þó voru nokkur atriði sem fóru ekki framhjá okkur. Við tókum eftir því að KR spilaði ljómandi fínan sóknarleik (reyndar gegn slökum varnarleik Njarðvíkinga) þar sem boltinn fékk á tíðum að fljúga milli manna og skapa opin þriggja stiga skot. Þetta er merkilegt þegar horft er til þess að það vantar jú besta leikstjórnanda deildarinnar í KR-liðið. Bæði lið lentu í klafsi og vandræðum annað slagið vegna leikstjórnarskorts, en KR tókst augljóslega betur að takast á við það. Leikmenn KR skiluðu flestir ljómandi góðum leik í gær og við vorum sérstaklega hrifin af því að þrír byrjunarliðsmenn meistaranna skiluðu 6+ stoðsendingum.

Þar fór Ægir Þór Steinarsson fremstur í flokki og reyndi að þrenna þetta upp með sjö stigum (sjö stigum? kommon), tíu fráköstum og níu stoðsendingum. Fagmaðurinn Darri Hilmarsson sletti líka á skýrsluna með 13/11/7 og Brynjar og Crayon voru solíðir.

Það var svo hinn 17 ára gamli Þórir Þorbjarnarson sem stal senunni í leiknum. Pilturinn skoraði 21 stig og henti niður fimm þristum í sjö tilraunum og er að neyða Finn þjálfara til að leyfa sér að spila, því hann hefur bætt við sig bæði stigum og mínútum í öllum fjórum leikjum KR í deildinni til þessa. Svo er það líka sérstakur plús að hann skuli vera örvhentur, það er alltaf gaman að horfa á örvhenta menn skjóta, jafnvel þó skotið þeirra sé dálítið flatt. Ef það fer ofan í, er öllum sama.

Þessi stóri skellur sem Njarðvíkingar fengu var ekki frumsýningin sem Haukur Helgi var búinn að sjá fyrir sér - það vitum við án þess að hafa sagt eitt orð við manninn. Hann gerði þó það sem hann gat og sýndi okkur annað slagið hvað hann er óhemju sterkur og fjölhæfur körfuboltamaður. Hann á eftir að gata nokkrar tölfræðiskýrslur í vetur, það er öruggt mál.

Njarðvíkurliðið á helling inni og þeir Friðrik Ingi Rúnarsson og Teitur Örlygsson munu sjá til þess að ná meira út úr því. Þetta var dálítið ljótt í gær og ljóst að það er mikil vinna fram undan hjá grænum, en þeir geta nú líka huggað sig við að þurfa ekki að spila við KR aftur alveg strax.

Það er haust og því fer enginn að missa sig í óðagot þó hann tapi körfuboltaleikjum. Við erum enn í október (þó að sé kominn nóvember þegar þú lest þetta) og þú vinnur ekkert í október, svo við rúllum okkur aðeins í 2. persónuna eins og Hubie Brown.

Það hefur ekki tíðkast hjá Friðrik Inga og Teiti að afsaka sig og sitt lið með væli út af meiðslum, en auðvitað gefur það augaleið að það vantar helling í Njarðvíkurliðið þegar það er án leikstjórnandans síns.

Saturday, November 30, 2013

Að tapa fyrir Kings


Þessar tvær skemmtilegu myndir tók ljósmyndarinn Rocky Widner. Sú fyrri (t.v.) var tekin árið 2003 þegar LeBron James spilaði sinn fyrsta leik í NBA deildinni. Þá tapaði hann fyrir heimamönnum í Kings með liði sínu Cleveland Cavaliers.

Seinni myndin var svo tekin snemma á þessu ári, tæpum tíu árum seinna. Þar er James aftur á flugi en nú með Miami Heat og í þetta skiptið vann hann auðvitað sigur, verandi tvöfaldur meistari og besti leikmaður heims.

Eins og þið sjáið á gólfinu eru báðar myndirnar teknar í Sacramento. Það boðar fátt annað en gott að tapa sínum fyrsta NBA leik gegn Kings á útivelli ef marka má söguna.

Það vill svo skemmtilega til að Kevin Garnett þreytti einnig frumraun sína í Sacramento og mátti hann líka sætta sig við tap.

Ferill miðherjans Sam Bowie var reyndar ekki jafn farsæll. Hann spilaði sinn fyrsta leik á ferlinum gegn Kings árið 1984 en náði aldrei að halda heilsu - var í meiðslaveseni allan ferilinn.

Ætli það hafi ekki verið af því hann vann fyrsta leikinn sinn gegn Kings.

Umrætt tímabil var liðið reyndar ekki komið til Sacramento, heldur var það á síðasta árinu sínu í Kansas sem Kansas City Kings. Félagið var í Kansas á árunum 1972 til 1985.

Árið 1983 spilaði svo skotbakvörðurinn Byron Scott sinn fyrsta NBA leik með Los Angeles Lakers gegn Kings í Kansas. Scott lét sér nægja að setja eina körfu í leiknum, meðan Kareem Abdul-Jabbar (25/10) og Magic Johnson (16/11) drógu vagninn fyrir Lakers.

Þarna eruð þið komin með ágætis trivíu fyrir næsta pöbb kvis. Það var lítið.
























P.s. - Á myndinni hér fyrir ofan sjáið þið goðsögnina Reggie Theus, sem var einn þeirra leikmanna sem fluttu með félaginu frá Kansas alla leið vestur til Sacramento. Þú ert ekkert að hjóla það.

Wednesday, October 31, 2012

Leiktíðin byrjaði á körfuboltaleikjum


 Jæja, þá er tímabilið loksins byrjað og allir geta tekið gleði sína á ný.

Nema Lakers og KR kannski. Gengur ekki vel hjá stórveldunum þessa dagana.

Lakers fékk skell á heimavelli í fyrsta leik tímabilsins og þó það drepi engan að tapa körfuboltaleik, var ekki beint glamúr og glans yfir ofurliði Lakers svona í fyrsta leik.

Steve Nash lítur ekki vel út ef hann spilar eins og 38 ára gamall bleiknefji og það gerði hann í þessum leik.

Lakers á eftir að spila miklu betur en þetta, en liðið virkar eins og svartsýnustu menn spáðu fyrir um. Leikmenn liðsins þekkjast lítið sem ekkert og lykilmenn hafa lítið spilað saman. Margir voru hreinlega sprungnir á limminu.

En af hverju var ekki þetta nákvæmlega sama uppi á teningnum hjá Dallas?

Strangt til tekið hafa orðið alveg jafn miklar breytingar á liði Dallas, ef við tökum inn í þetta að Þjóðverjarnir voru ekki með og Jason Terry er farinn til Boston.

Mörg ykkar hlakkaði eflaust til þess að sjá okkur hakka Lakersliðið í spað af því það skeit á sig, en þó við séum viðvaningar, erum við ekki alveg svo vitlaus.

Lakers tapaði samt með liði með Eddy Curry í byrjunarliði.

-----------

Hey, Miami er rosalega gott körfuboltalið líka og finnst við erum farin að tala um skít, er ekki úr vegi að benda á það að meistaranir litu drulluvel út í fyrsta leik.

Það þó LeBron James fengi krampa og eitthvað af því hann hefur ekki nennt að setja á fullt ennþá.

Við vitum að Ray Allen er góð skytta og þó hann verði líklega aldrei aftur eins góður og hann var hjá Celtics upp á sitt besta, verður Miami hrikalegt ef hann setur niður skotin sín.

Rashard Lewis gæti líka reynst liðinu stærri fengur en flestir þorðu að vona. Hann var eftir allt mjög góður leikmaður, þó hann væri í raun notaður vitlaust allan sinn feril hjá Orlando.

Lewis drullaði undir hjá Washington, en þú hefðir líka gert það ef þú hefðir þurft að spila körfubolta með liði fullu af tapírum á krakki.

Ef Miami fær fullt framlag frá Lewis (og Allen) í vetur, getur þú bara gleymt þessu, gæskur.

* Kevin Garnett er frábær körfuboltamaður, fer í höllina og allt það, en hann er fáviti. Sorry.

* Kyrie Irving er rosalegur - og það er Andy Varejao líka - en þú vissir það nú þegar.

* Veikindi eru æði.

* Immit.

Monday, October 22, 2012

Fyrsta karfa Hávards reyndist ekki þristur


Vel við hæfi að fyrsta karfan hans Dwight Howard hafi verið ein viðstöðulaus eftir sendingu frá Pau Gasol. Þær verða ansi margar svona hjá Lakers í vetur, væntanlega enn fleiri en í fyrra þegar liðið leiddi deildina í þeim flokki.



Það ríkti mikil eftirvænting í Staples Center í nótt og enginn að hugsa um að hér væri á ferðinni leikur á undirbúningstímabilinu. Þetta var fyrsti leikurinn hans Dwight Howard. Við fengum að sjá forsmekkinn af því hvað þetta þýðir fyrir Lakers.

Meira að segja viðvaningar eins og við sjá hvað nærvera Howard í sókninni opnar allt upp á gátt fyrir Lakers, ekki síst þegar liðið keyrir á fyrsta tempói og með stóra manninn jafnvel á kantinum. Skelfileg tilhugsun fyrir lið að þurfa að hafa áhyggjur af honum og Gasol inní og Kobe og Nash fyrir utan í transisjónum. Úff.

Þeir sem lesa NBA Ísland að staðaldri vita að við erum ansi gagnrýnin á Dwight Howard. Við leyfðum okkur þó að taka frumraun hans inn alveg fordómalaust og það er ljóst að veturinn verður ekkert rosalega leiðinlegur hjá Lakers. Gaman fyrir þá að vera komnir með fullt lið af fræknum köppum.

Ónotatilfinning fer um mann.

Er það ekki hroki og kjánaskapur að veðja á móti svona ofurmönnuðu liði?

Jú, það er það.