Wednesday, March 30, 2016

Útgáfupartí


Fjórði leikur Hauka og Þórs í 1. umferð úrslitakeppninnar í gærkvöldi var einn sá skemmtilegasti sem við höfum séð í vetur - þvílík hávaðaskemmtun sem hann var.

Eins og þið vitið væntanlega, lauk leiknum með sigri gestanna úr Hafnarfirði 100-96 eftir framlengingu, sem þýðir að Haukarnir eru komnir í undanúrslitin. Við viðurkennum fúslega að við dauðsjáum á eftir Þórsliðinu og það er fúlt að Natvélin og félagar séu á leiðinni til Benidorm. 

Blanda af klaufagangi og óheppni liðsins hjálpaði ekkert, en það sem gerði gæfumuninn í þessum leik var sú staðreynd að Vance Hall spilaði gjörsamlega eins og aumingi. Ef hann hefði spilað af 50% getu í þessum leik, hefði Þórsliðið náð að knýja fram oddaleik, en hann valdi slæman dag til að eiga sinn versta leik á tímabilinu og því fór sem fór. Maðurinn hlýtur bara að hafa verið fárveikur. Ekkert annað afsakar þessa arfaslöku frammistöðu hjá þessum annars magnaða leikmanni.

Það sem stendur upp úr í þessum leik kemur Þórsliðinu hinsvegar ekkert við, því hann var að okkar mati útgáfupartí Kára Jónssonar. Drengurinn fór hamförum og kláraði leikinn fyrir Kanalausa Hafnfirðingana. Það er nákvæmlega ekkert eðlilegt við það að drengur sem er ekki búinn að eyða fermingarpeningunum sínum taki bara yfir leik í úrslitakeppni með þessum hætti, en hann gerði það nú samt. Þvílíkur töffari sem þessi drengur er.