Friday, April 29, 2011

Síðasti tangó San Antonio?


San Antonio hefur verið stórveldi í NBA deildinni í meira en áratug og hefur unnið fjóra meistaratitla með hinn óviðjafnanlega Tim Duncan í miðjunni.

Það er hinsvegar ekki ólíklegt að þetta stórveldi þeirra Gregg Popovich, Duncan, Tony Parker og Manu Ginobili taki sinn síðasta stóra dans í nótt þegar það sækir Memphis heim, undir 3-2.

Vitum ekki með þig, en við ætlum ekki að missa af því.

Hefst á Sportinu klukkan eitt.

Thursday, April 28, 2011

Gary Neal sker San Antonio úr snörunni


Eins og heyra má er lókalþulur Grizzlies gríðarlega sáttur við þessa körfu.
Manu setti risa þrist rétt á undan þessu sem vel mætti vera með í þessu myndbroti.
Þvílík sería sem þetta er. Þvílík úrslitakeppni.

Wednesday, April 27, 2011

Okafor hatar alveg veggspjöldin


Gallo bregður á leik


Það eina skrítna við þetta viðtal er að Gallo myndi aldrei setja 30 í seinni.

Boozer í Digranesinu


Michael og Telly


Tuesday, April 26, 2011

Er öllum sama núna?


Þeir voru nokkrir sem spáðu því að Memphis myndi slá San Antonio út í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Charles Barkley var einn þeirra, en það var nú líklega vegna vinskapar hans við Lionel Hollins þjálfara Memphis.

Sú staðreynd að San Antonio hafi verið í vandræðum í seríunni frá fyrstu mínútu hefur ekki vakið mikla athygli af því þetta eru jú San Antonio og Memphis.

Þú manst að öllum er sama um San Antonio og Memphis.

Það breytist ef Memphis vinnur seríuna.

Og það er sannarlega útlit fyrir það núna í stöðunni 3-1 fyrir Memphis, sem er nota bene að spila án síns launahæsta leikmanns, Rudy Gay.

Það er langt síðan við afskrifuðum Spurs sem lið sem gæti unnið meistaratitil, en vá, þetta eru tíðindi.

Er einhver ástæða til að ætla að San Antonio vinni þessa seríu þegar liðið er búið að tapa 7 af síðustu 8 leikjum sínum í úrslitakeppni? Þessir 60 sigrar í deildakeppninni telja ekki mikið núna.

Þessi úrslitakeppni heldur bara áfram að gefa. Þvílík skemmtun.

Barkley í CrossFit


Svipurinn á manninum eftir síðasta clean-ið (c.a. 2:18) er svo stórkostlega katatónískur.

Sunday, April 24, 2011

Sópar á lofti í Philadelphia og New YorkLeBron James og félagar í Miami eru með sópinn á lofti í Philadelphia. Eru yfir 3-0 og klukkan 17:00 hefst fjórði leikur liðanna í beinni á Stöð 2 Sport. Þá kemur í ljós hvort Sólstrandargæjarnir klára dæmið og fara að gera sig klára fyrir Boston. Klukkan 19:30 er svo fjórði leikur Boston og New York í beinni á NBATV. Kíkjum á þetta.

Takmarkalaus gleði í Portland


Það er alltaf gaman að sjá sögulega atburði í beinni útsendingu og í nótt fengum við dýrari týpuna þegar Brandon Roy skaut Portland til sigurs á Dallas 84-82 í ótrúlegum fjórða leikhluta. Staðan í einvíginu því jöfn 2-2 og allir leikir unnist á heimavelli.

Það leit nákvæmlega ekkert út fyrir að Portland myndi vinna þennan leik, enda var liðið mest 23 stigum undir í síðari hálfleiknum og 18 stigum undir fyrir lokaleikhlutann. Þá kom Brandon Roy til skjalanna og skoraði 18 stig í leikhlutanum, fleiri en allt Dallas-liðið sem gjörsamlega gerði í brækurnar.

Það var rosalega gaman að sjá Roy eiga þennan stjörnuleik. Fyrir stuttu var alls ekki ljóst hvort ferli hans væri hreinlega lokið vegna þrálátra hnémeiðsla en hann hefur skrölt áfram með liði sínu á þrjóskunni. Fór í drama þegar hlutverk hans með liðinu var skorið niður en kom upp sem hetjan í kvöld. Eðal spilari og eðalpiltur hann Roy.

Þetta var aðeins í þriðja sinn í sögu úrslitakeppninnar sem lið nær að koma til baka eftir að hafa verið 18 eða fleiri stigum undir í upphafi fjórða leikhluta. Frábært hjá Portland og gríðarlega mikilvægur sigur. Eins flottur og sprettur Blazers var í lokin, er ekki annað hægt en að setja spurningamerki við leik Dallas-liðsins. Dirk Nowitzki fékk varla að sjá boltann og það var eins og kæmi algjört fát á liðsmenn Dallas sem þó eru með þeim reyndari í deildinni.

Það er dásamlegt að verða vitni að svona sögulegum leikjum eins og þessum. Þessi íþrótt er himnasending. Sjáðu bara gleðina í Portland í myndbrotinu hér fyrir neðan.

Saturday, April 23, 2011

Friday, April 22, 2011

Körfuboltapáskarnir keyrðir í gang í nótt


Eru þetta búnir að vera erfiðir dagar án NBA Ísland? Auðvitað. Lífið gerist. Ekki fara í flækju.

Keyrum þetta í gang í nótt með þremur leikjum. Knicks fá loksins að sjá smá úrslitakeppni í MSG eftir langt hlé. Atlanta ætlar að tapa heima fyrir Orlando í beinni á NBATV á miðnætti og um klukkan hálftvö í nótt fá þeir sem geta vakað og eru með Stöð 2 Sport að sjá hvort New Orleans var bara að stríða okkur í fyrsta leiknum við Lakers um daginn.

Monday, April 18, 2011

Saturday, April 16, 2011

Wade lokar Sixers með stigskoti


Tom Thibodeau er þjálfari ársins


Margir þjálfarar í NBA deildinni voru að standa sig með prýði í vetur og eiga skilið að vera með í umræðunni þegar kemur að valinu á þjálfara ársins.

Gregg Popovich er auðvitað búinn að ná lygilegum árangri með Spurs-liðið sem átti að vera löngu búið með gasið. George Karl tókst ótrúlega vel til með Denver sem spilaði í skugga Carmelo Anthony-þvælunnar mánuðum saman og er að koma á fínum spretti inn í úrslitakeppnina. Nate McMillan stendur sig jafnan vel með sjúkrahúsið sitt í Portland og ekki má horfa fram hjá Doug Collins sem náði á undraverðan hátt að setja saman sæmilegt lið í Philadelphia. Það má finna fleiri menn til að bæta á þennan lista.

Eins og við komum inn á í síðustu færslu ætlum við að velja Tom Thibodeau þjálfara ársins. Það vel við hæfi að krýna þá félaga Rose og Thibs fyrir frábært tímabil hjá Chicago.

Árangurinn sem Thibodeau er búinn að ná með Bulls í vetur er ekkert annað en frábær og ótrúlegt að hugsa til þess að þetta sé fyrsta árið hans sem aðalþjálfari. Allir vissu að varnarleikurinn yrði númer eitt þegar Thibodeau kæmi til Chicago en hann hefur verið enn betri en menn þorðu að vona. Chicago er með bestu vörnina í deildinni (ásamt Boston) og er mjög sterkt frákastalið. Þessi tvö atriði eru lykillinn að velgengni Chicago.

Við erum þegar búin að krýna Derrick Rose MVP og hann átti frábært ár, en að okkar mati er Tom Thibodeau stærsta breytan á bak við stórbætt gengi Bulls í vetur. Chicago fór frá því að vera sæmilegt fyrstu umferðar lið í það að vera elítulið sem tók toppsætið í deildinni. Af hverju?

Það hjálpaði að fá Carlos Boozer í teiginn, það hjálpaði að fá nokkra brúklega rulluspilara (Watson, Brewer, Korver, Bogans, Thomas osfv), það hjálpaði að Derrick Rose tók miklum framförum, en það sem skiptir mestu máli í þessu stóra stökki sem Chicago liðið hefur tekið er í okkar huga Tom Thibodeau.

Eins og við höfum tekið fram áður er alls ekki gefið að aðstoðarþjálfari í NBA geti tekið að sér aðalþjálfarastarf og náð þar árangri.

Það hefur Thibodeau náð að gera og það sem meira er, hann hefur fengið alla Chicago-leikmennina til að kaupa konseptið sitt.

Konseptið hans Thibs byggist fyrst og fremst því að leika harða og agaða liðsvörn og það er ekkert smámál þegar þú ert með menn eins og Carlos Boozer og Kyle Korver í liðinu, menn sem gætu ekki varið lokaða hurð með haglabyssu.

Það eina sem við höfum áhyggjur af með Thibs er að hann öskri sig út úr liðinu. Hann er mikill öskrari og hikar ekki við að snappa á leikmenn sína út af smáatriðum í leikjum sem skipta litlu sem engu máli.

Menn hafa misst tökin á liðum sínum með því að vera of ákafir og líklega þarf Thibodeau að læra að slappa aðeins af inn á milli ef hann ætlar að ná árangri til frambúðar með liðið. Það er bara eitthvað sem við höfum á tilfinningunni.

Enn og aftur, það var fullt af þjálfurum að gera góða hluti í NBA í vetur, en við getum ekki með nokkru móti horft framhjá því hvað Chicago er búið að taka stórt stökk þegar við gerum upp MVP og þjálfara ársins.

Sagt er að erfiðasta skrefið sem hægt sé að taka í körfunni sé að taka gott lið og gera það frábært. Tom Thibodeau (og Derrick Rose) eru búnir að taka Bulls upp um tvö skref - frá miðlungsliði upp í gott lið upp í frábært lið sem virðist komið til að vera sem contender á komandi árum.

Fokkar ekkert i því.

Derrick Rose er bara með þetta
Við vorum búin að lofa því að afhenda nokkur verðlaun fyrir deildakeppnina og hér koma þau. Það er reyndar ekki langt síðan við skrifuðum um stöðu mála í kapphlaupinu um verðmætasta leikmanninn og þjálfara ársins og skemmst er frá því að segja að við höfum aðeins vaxið í þeirri sömu trú. Það eru Derrick Rose og Tom Thibodeau sem landa þessu vandræðalaust hjá okkur í vetur.

Eins og við höfum áður talað um er kríterían sem ræður valinu á leikmanni ársins ansi loðin og fer eftir huglægu mati hvers manns fyrir sig. Við dæmum þetta nokkurn veginn út frá því sem tíðkast hefur undanfarin ár og veljum þann mann sem skarað hefur fram úr í einu af toppliðunum.

Derrick Rose er búinn að fara hamförum í vetur og það er ekki á hverjum degi sem leikstjórnendur skora 25 stig að meðaltali í leik.

Við erum reyndar alls ekki hrifin af því að Rose þurfi að bera svona mikla ábyrgð í stigaskorun, en hann er slúttari liðsins. Eini maðurinn sem getur skapað sitt eigið skot og gerir það ansi vel. Búinn að klára ótrúlega marga leiki í fjórða leikhluta í vetur.

Það helsta sem menn hafa fundið að því að kjósa Rose er að hann er búinn að vera með frekar lélega skotnýtingu eftir stjörnuhelgi eða um eða undir 40%. Þá hefur hann alveg misst þriggja stiga skotið sem virtist vera að koma inn hjá honum framan af vetri.

Það er hinsvegar um miklu meira að tala þegar kemur að jákvæðu punktunum hjá Rose. Það stefnir allt í að hann verði yngsti maðurinn í sögu NBA til að vera kjörinn leikmaður ársins. Það gerist heldur ekki á hverjum degi að maður sé valinn MVP eftir að hafa ekki fengið eitt einasta atkvæði áður í kjörinu.

Rose á þetta bara skilið. Hann er búinn að spila á gríðarlega háu leveli í allan vetur og þó sumum sé kannski illa við að blanda meiðslum inn í dæmið, hélt Rose liði sínu gjörsamlega á floti meðan þeir Joakom Noah og Carlos Boozer voru fjarverandi. Og það voru ekkert fáir leikir.

Svo verður auðvitað að hafa í huga að það er ekkert grín að vera leikstjórnandi í NBA í dag. Úrval gæðaleikmanna í stöðunni er með ólíkindum núna og ekki eins og menn eins og Rose fái "létta leiki" inn á milli. Þeir eru alltaf að spila gegn næsta Chris Paul, Deron Williams, Rajon Rondo eða Russell Westbrook.

Það hefur verið tíska hjá fjölmiðlamönnum í NBA að hafa Dwight Howard ofarlega í MVP kjörinu í ár og raunar er hann sá maður sem talið er að veiti Rose mesta samkeppni. Howard á hrós skilið fyrir að vera hörku varnarmaður og fyrir að hafa bætt sig aðeins í sókninni, en við áttum okkur ekki á því af hverju hann er allt í einu að fá svona mikla athygli einmitt núna þegar Orlando er að vinna færri leiki en undanfarin ár.

Það er alltaf jafn hallærislegt þegar blaðamenn ytra eru að reyna að pimpa inn atkvæði á leikmenn sem spila með liðum sem vinna í kring um 50 leiki eða jafnvel minna. Það er ekkert að fara að gerast. Þú verður að vinna í kring um 60 leiki til að fá þetta, þannig hefur þetta verið og er enn.

Það er líka alveg hægt að tala um LeBron James, Dwyane Wade, Kobe Bryant, Kevin Durant og Dirk Nowitzki svo einhverjir séu nefndir. Þessir menn fá sinn skerf af atkvæðum, en það verður Rose sem tekur þetta og það er óþarfi að pæla mikið í því hverjir verða í sætunum fyrir neðan hann. Það er bara einn MVP og það er Rose sem er búinn að standa upp úr í vetur að okkar mati.

Allar 214 troðslur Blake Griffin í einni syrpu


Blake Griffin fór eins og fellibylur í gegn um NBA deildina á fyrsta árinu sínu. Hann var auðvitað tæknilega nýliði í fyrra en spilaði þá ekki einn einasta leik og er því gjaldgengur sem nýliði ársins 2011.

Hann mun fá fullt hús atkvæða í kjörinu í ár og er búinn að koma með mjög ferska og skemmtilega vinda inn í þetta. Griffin gerði sitt besta til að rífa niður allar körfur í deildinni í vetur og hér fyrir neðan getur þú séð allar troðslurnar hans í einni syrpu.

Það er ekki hægt að líka illa við Griffin. Hann er góður leikmaður, fáránlegur íþróttamaður, skemmtikraftur, húmoristi, kurteis og jarðbundinn og mikið efni. Himnasending þessi drengur.

Thursday, April 14, 2011

Tilfinningaþrungið kvöld hjá Kings:


Það var hrikalega sorglegt að sjá Sacramento Kings ljúka keppni í nótt. Flestir hallast að því að þetta hafi verið síðasti leikur liðsins í Sacramento og að það muni flytja í sumar. Svona er þetta í NBA deildinni í dag. Græðgin veldur því að félögin í deildinni eru í stólaleik um að halda plássi sínu. Þetta bitnar allt á skattgreiðendum eins og aðrar hamfarir, stuðningsmönnunum.

Körfuboltafélagið Kings hefur svo sem ekki verið neitt stórveldi í Sacramento síðan það flutti þangað frá Kansas City árið 1985, en þó er liðið sem spilaði í Sacramento upp úr aldamótunum enn í miklu uppáhaldi hjá mörgum. Það var skipað mönnum eins og Vlade Divac og Chris Webber og náði því að vera með besta árangur allra liða í deildinni einu sinni.

Frægt einvígi Kings og Lakers í úrslitakeppninni á þessum árum verður alltaf á sínum stað í sögubókunum og það var sorglega vel við hæfi að það kæmi einmitt í hlut Lakers að stela sigri í leik sem var mögulega sá síðasti sem spilaður verður í Sacramento.

Derek Fisher, formaður leikmannasamtakanna gekk til leikmanna Sacramento eftir leikinn og bað með þeim bæn. Kobe Bryant skaut Kings í kaf og skemmti sér konunglega. Ah, Svarta Mamban.

Það er ekki gott að segja hvort það er aldurinn á okkur eða hvað það er, en við fylltumst viðkvæmni þegar við fylgdumst með lokakvöldinu hjá Kings í nótt. Þetta er rosalega leiðinlegt allt saman. Við ákváðum að henda hérna inn nokkrum myndum frá lokakvöldinu og sendum með myndband sem sýnir sjónvarpsmenn Kings til margra ára kveðja með tár á hvarmi.

Deildakeppninni er lokið


Jæja, krakkar. Þá er deildakeppninni lokið í NBA og úrslitakeppnin að hefjast á laugardaginn.

Áður en það ball byrjar eigum við eftir að afhenda verðlaun fyrir tímabilið og spá svo í spilin fyrir úrslitakeppnina. Hafið ekki áhyggjur, við hér á ritstjórninni munum svo sannarlega niðurlægja okkur með því að spá í spilin eins og undanfarið. Það verður ákveðin áskorun að koma með verri spá fyrir úrslitakeppnina en í fyrra þegar við ætluðum Cleveland Cavaliers að fara alla leið, en okkur er trúandi til alls.

Við ætlum að leggja höfuðið aðeins í bleyti og velja verðmætasta leikmanninn og þjálfara ársins og kannski finnum við einhver fleiri verðlaun en þessi hefðbundnu. Það er alltaf svo freistandi að missa sig í neikvæðni og skítkasti líka.

Á töflunni hér fyrir neðan sérðu lokastöðuna í Vestur- og Austurdeildunum í vetur. Þú getur skemmt þér við að renna yfir hana og sjá hvernig hún stangast á við væntingar þínar fyrir tímabilið. Það er alltaf dálítið gaman.

Fyrir þá sem ekki vita það sýnir taflan einnig hvaða lið mætast í hvorri deild fyrir sig. Þannig mætir San Antonio (1) liði Memphis (8), LA Lakers (2) mætir New Orleans (7) og svo koll af kolli - eins í Austurdeildinni. Nánar um það síðar.

Beasty Boys lokuðu tímabilinu með stæl


Fyrst var það DeAndre JordanOg Blake Griffin henti líka aðeins í púkkið

Saturday, April 9, 2011

Þetta verður eitthvað


Beasty Boys eru vondir við hvíta manninn
 Hvíti maðurinn átti bara ekki möguleika í þessum leik. Næstur upp á dekk var Blake Griffin.

Þetta er náttúrulega dónaskapur


JaVale McGee býður upp á andlitsmeðferð


Af hverju ættu stuðningsmenn Boston að sakna Kendrick Perkins þegar þeir hafa Nenad Krstic?

Thursday, April 7, 2011

Það sauð á Sanders (via Leikbrot)


Snillingarnir á Leikbrot.is fönguðu það skemmtilega þegar Thomas Sanders týndi þræðinum og fór út fyrir handritið í leik KR og Keflavíkur í kvöld. Svona á úrslitakeppnin að vera, hiti í mannskapnum. Reyndar er óþarfi að stjaka við dómaranum auðvitað. Svona hasar þykir okkur ómetanlegur hluti af leiknum, svona þegar enginn meiðist. Kíktu á þetta hérna fyrir neðan.

CSI Miami


Sælar stelpur, Scal hérna


Mamma LeBron James er enn að gera Gloríur


Þú ert væntanlega búinn að heyra af því að Gloria Sopi, móðir LeBron James, var handtekin fyrir að ráðast á vikapilt á hóteli í Miami af því hann var ekki nógu fljótur að sækja bílinn hennar.

Sú gamla angaði af áfengi og því kannski ágætt að hún komst ekki í bílinn til að keyra á næsta bar.

Smelltu hér til að sjá mynd af piltinum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Gloría gerir skandala, en hún var síðast handtekin fyrir ölvunarakstur árið 2006.

NBA Ísland kveikti áhuga LeBron á Liverpool í júlí sl.
Steve Nash hefur skoðanir á körfubolta


Wednesday, April 6, 2011

Kiss & Tell


Skemmtilegt "Hvað ef" (via BS Report)


Ljúft er að láta sig dreyma


Stóri Sjúkrahúsreikningurinn


Þessi mynd sýnir hvar Shaquille O´Neal hjá Boston bröltir meiddur af leikvelli aðeins nokkrum mínútum eftir að hafa snúið aftur úr meiðslum.

Meira vesenið á stóra. Þetta eru sem betur fer ekki alvarleg meiðsli en við erum varla að sjá Shaq spila eitt ár í viðbót.

Hvað á hann eftir að gagnast Boston í úrslitakeppninni ef hann verður heill?

Kemur hann með meira inn á borðið en hann tekur af því? Líklega er það mat Boston-manna. Kannski ágætt að hafa hann þarna á bekknum ef á þarf að halda.

Annað sem er mjög áhugavert við þessa mynd er að bæði Sasha Pavlovic og Carlos Arroyo eru með vinnu hjá Boston.

Svo væla menn yfir því að útlendingar fái ekki vinnu í Bandaríkjunum! Það er bara ekki rétt.

Ekki eins og þeir séu góðir í körfubolta.