Saturday, April 16, 2011

Derrick Rose er bara með þetta




























Við vorum búin að lofa því að afhenda nokkur verðlaun fyrir deildakeppnina og hér koma þau. Það er reyndar ekki langt síðan við skrifuðum um stöðu mála í kapphlaupinu um verðmætasta leikmanninn og þjálfara ársins og skemmst er frá því að segja að við höfum aðeins vaxið í þeirri sömu trú. Það eru Derrick Rose og Tom Thibodeau sem landa þessu vandræðalaust hjá okkur í vetur.

Eins og við höfum áður talað um er kríterían sem ræður valinu á leikmanni ársins ansi loðin og fer eftir huglægu mati hvers manns fyrir sig. Við dæmum þetta nokkurn veginn út frá því sem tíðkast hefur undanfarin ár og veljum þann mann sem skarað hefur fram úr í einu af toppliðunum.

Derrick Rose er búinn að fara hamförum í vetur og það er ekki á hverjum degi sem leikstjórnendur skora 25 stig að meðaltali í leik.

Við erum reyndar alls ekki hrifin af því að Rose þurfi að bera svona mikla ábyrgð í stigaskorun, en hann er slúttari liðsins. Eini maðurinn sem getur skapað sitt eigið skot og gerir það ansi vel. Búinn að klára ótrúlega marga leiki í fjórða leikhluta í vetur.

Það helsta sem menn hafa fundið að því að kjósa Rose er að hann er búinn að vera með frekar lélega skotnýtingu eftir stjörnuhelgi eða um eða undir 40%. Þá hefur hann alveg misst þriggja stiga skotið sem virtist vera að koma inn hjá honum framan af vetri.

Það er hinsvegar um miklu meira að tala þegar kemur að jákvæðu punktunum hjá Rose. Það stefnir allt í að hann verði yngsti maðurinn í sögu NBA til að vera kjörinn leikmaður ársins. Það gerist heldur ekki á hverjum degi að maður sé valinn MVP eftir að hafa ekki fengið eitt einasta atkvæði áður í kjörinu.

Rose á þetta bara skilið. Hann er búinn að spila á gríðarlega háu leveli í allan vetur og þó sumum sé kannski illa við að blanda meiðslum inn í dæmið, hélt Rose liði sínu gjörsamlega á floti meðan þeir Joakom Noah og Carlos Boozer voru fjarverandi. Og það voru ekkert fáir leikir.

Svo verður auðvitað að hafa í huga að það er ekkert grín að vera leikstjórnandi í NBA í dag. Úrval gæðaleikmanna í stöðunni er með ólíkindum núna og ekki eins og menn eins og Rose fái "létta leiki" inn á milli. Þeir eru alltaf að spila gegn næsta Chris Paul, Deron Williams, Rajon Rondo eða Russell Westbrook.

Það hefur verið tíska hjá fjölmiðlamönnum í NBA að hafa Dwight Howard ofarlega í MVP kjörinu í ár og raunar er hann sá maður sem talið er að veiti Rose mesta samkeppni. Howard á hrós skilið fyrir að vera hörku varnarmaður og fyrir að hafa bætt sig aðeins í sókninni, en við áttum okkur ekki á því af hverju hann er allt í einu að fá svona mikla athygli einmitt núna þegar Orlando er að vinna færri leiki en undanfarin ár.

Það er alltaf jafn hallærislegt þegar blaðamenn ytra eru að reyna að pimpa inn atkvæði á leikmenn sem spila með liðum sem vinna í kring um 50 leiki eða jafnvel minna. Það er ekkert að fara að gerast. Þú verður að vinna í kring um 60 leiki til að fá þetta, þannig hefur þetta verið og er enn.

Það er líka alveg hægt að tala um LeBron James, Dwyane Wade, Kobe Bryant, Kevin Durant og Dirk Nowitzki svo einhverjir séu nefndir. Þessir menn fá sinn skerf af atkvæðum, en það verður Rose sem tekur þetta og það er óþarfi að pæla mikið í því hverjir verða í sætunum fyrir neðan hann. Það er bara einn MVP og það er Rose sem er búinn að standa upp úr í vetur að okkar mati.