Saturday, April 16, 2011

Tom Thibodeau er þjálfari ársins


Margir þjálfarar í NBA deildinni voru að standa sig með prýði í vetur og eiga skilið að vera með í umræðunni þegar kemur að valinu á þjálfara ársins.

Gregg Popovich er auðvitað búinn að ná lygilegum árangri með Spurs-liðið sem átti að vera löngu búið með gasið. George Karl tókst ótrúlega vel til með Denver sem spilaði í skugga Carmelo Anthony-þvælunnar mánuðum saman og er að koma á fínum spretti inn í úrslitakeppnina. Nate McMillan stendur sig jafnan vel með sjúkrahúsið sitt í Portland og ekki má horfa fram hjá Doug Collins sem náði á undraverðan hátt að setja saman sæmilegt lið í Philadelphia. Það má finna fleiri menn til að bæta á þennan lista.

Eins og við komum inn á í síðustu færslu ætlum við að velja Tom Thibodeau þjálfara ársins. Það vel við hæfi að krýna þá félaga Rose og Thibs fyrir frábært tímabil hjá Chicago.

Árangurinn sem Thibodeau er búinn að ná með Bulls í vetur er ekkert annað en frábær og ótrúlegt að hugsa til þess að þetta sé fyrsta árið hans sem aðalþjálfari. Allir vissu að varnarleikurinn yrði númer eitt þegar Thibodeau kæmi til Chicago en hann hefur verið enn betri en menn þorðu að vona. Chicago er með bestu vörnina í deildinni (ásamt Boston) og er mjög sterkt frákastalið. Þessi tvö atriði eru lykillinn að velgengni Chicago.

Við erum þegar búin að krýna Derrick Rose MVP og hann átti frábært ár, en að okkar mati er Tom Thibodeau stærsta breytan á bak við stórbætt gengi Bulls í vetur. Chicago fór frá því að vera sæmilegt fyrstu umferðar lið í það að vera elítulið sem tók toppsætið í deildinni. Af hverju?

Það hjálpaði að fá Carlos Boozer í teiginn, það hjálpaði að fá nokkra brúklega rulluspilara (Watson, Brewer, Korver, Bogans, Thomas osfv), það hjálpaði að Derrick Rose tók miklum framförum, en það sem skiptir mestu máli í þessu stóra stökki sem Chicago liðið hefur tekið er í okkar huga Tom Thibodeau.

Eins og við höfum tekið fram áður er alls ekki gefið að aðstoðarþjálfari í NBA geti tekið að sér aðalþjálfarastarf og náð þar árangri.

Það hefur Thibodeau náð að gera og það sem meira er, hann hefur fengið alla Chicago-leikmennina til að kaupa konseptið sitt.

Konseptið hans Thibs byggist fyrst og fremst því að leika harða og agaða liðsvörn og það er ekkert smámál þegar þú ert með menn eins og Carlos Boozer og Kyle Korver í liðinu, menn sem gætu ekki varið lokaða hurð með haglabyssu.

Það eina sem við höfum áhyggjur af með Thibs er að hann öskri sig út úr liðinu. Hann er mikill öskrari og hikar ekki við að snappa á leikmenn sína út af smáatriðum í leikjum sem skipta litlu sem engu máli.

Menn hafa misst tökin á liðum sínum með því að vera of ákafir og líklega þarf Thibodeau að læra að slappa aðeins af inn á milli ef hann ætlar að ná árangri til frambúðar með liðið. Það er bara eitthvað sem við höfum á tilfinningunni.

Enn og aftur, það var fullt af þjálfurum að gera góða hluti í NBA í vetur, en við getum ekki með nokkru móti horft framhjá því hvað Chicago er búið að taka stórt stökk þegar við gerum upp MVP og þjálfara ársins.

Sagt er að erfiðasta skrefið sem hægt sé að taka í körfunni sé að taka gott lið og gera það frábært. Tom Thibodeau (og Derrick Rose) eru búnir að taka Bulls upp um tvö skref - frá miðlungsliði upp í gott lið upp í frábært lið sem virðist komið til að vera sem contender á komandi árum.

Fokkar ekkert i því.