Saturday, December 31, 2016

Meistaraskýrsla


Sigur Cleveland á Golden State í jólaleiknum um daginn og áhugaverð þróun í spilamennsku lykilmanna liðsins varð til þess að nú höfum við óvart skrifað smá skýrslu um stöðu mála hjá meisturunum á síðasta degi ársins 2016. Ykkur er velkomið að renna yfir hana, hún er meira að segja stutt, svona á miðað við það sem gengur og gerist á þessu vefsvæði.

Ef við skellum Cleveland í gegn um vandamálagreiningarskannann, dúkka fáar niðurstöður upp. Eina vandamálið í herbúðum Cleveland þessa dagana er að (nothæfra) leikmannahópurinn er of fámennur, sérstaklega í ljósi meiðsla JR Smith, sem mætir ekki til vinnu á ný fyrr en lóan kemur.

Þetta er svo sem ekki vandamál í sjálfu sér, því það er ekki eins og Cleveland sé að fá mikla samkeppni í deildarkeppninni í austrinu. Eina liðið sem ógnar meisturunum í keppninni um efsta sætið eystra er Toronto og þó Kanadaliðið sé að spila vel, er Cleveland ekkert hrætt við það - hvort sem það verður með heimavöll eða ekki þegar í úrslitakeppnina er komið.Nei, það eina neikvæða við það að lykilmenn Cleveland séu að spila of margar mínútur í vetur er að LeBron James sé að spila of margar mínútur. Við erum búin að tuða um það í allan vetur, að of mikið álag á James er ekki smámál, heldur lögreglumál

James varð 32 ára í gær og eftir um það bil tíu leiki, verður hann 33. maðurinn í sögu NBA til að spila 40.000 mínútur í deildarkeppninni. Þá eru ótaldar 8.383 mínúturnar sem hann hefur spilað í úrslitakeppni á ferlinum og til að gefa ykkur hugmynd um hvað það er stór viðbót við þessar 40.000, má geta þess að aðeins Kobe Bryant, Kareem Abdul-Jabbar og Tim Duncan hafa spilað fleiri mínútur en James í úrslitakeppni í sögu NBA. Hentu inn í þetta tæpum 2.500 mínútunum hans á undirbúningstímabilum og við erum komin vel yfir 50.000 mínútur að ótöldu landsliðsskaki.

Fimmtíu. Þúsund. Mínútur.LeBron James er einhver blanda af ofurmenni, geimveru, hálfguði og sæborg. Það er það eina sem útskýrir hvernig í ósköpunum skrokkurinn á manninum hefur staðið undir öllu þessu álagi án þess að meiðast nokkru sinni alvarlega.

En svona ef við tölum aðeins í alvöru, er frábært heilsufar LeBron James á körfuboltaferlinum álíka einstakt og lottóvinningur. Líkurnar á að atvinnumaður í deild með jafn miklu álagi og NBA meiðist ekki alvarlega á þrettán og hálfu ári og fimmtíu þúsund mínútum eru álíka góðar og að Jón Viðar Jónsson vakni í svo góðu skapi tvo daga í röð að hann ákveði að sleppa því að drekkja kettlingum í heila viku.

Þið sjáið að þetta mínútumál hans LeBron James liggur þungt á okkur, en það er ekki af ástæðulausu. Cleveland kemur til með að halda áfram að gefa James leik og leik í frí (liðið er búið að tapa öllum leikjunum sem hann hefur sleppt í vetur) en þó það sé hið besta mál, vegur það ekki upp á móti öllum þessum 40 mínútna leikjum hans að undanförnu. 

Ekki segja að við höfum ekki varað ykkur við, Cleveland.Annað sem vekur athygli okkar hjá Cavs í vetur, fyrir utan mínúturnar hans James og þá staðreynd að hann er líka að spila eins og höfðingi eins og hann er vanur (t.d. búinn að laga 3ja stiga nýtinguna sína til muna, sem er ómetanleg staðreynd fyrir hann), er hvað þeir Kyrie Irving og Kevin Love eru líka búnir að vera flottir í vetur.

Kevin Love er hreinlega allt annar maður en hann var í fyrra, þegar meiðsli, taktleysi og andlegur núningur gerðu honum lífið ansi hreint leitt. Nú er hann hinsvegar búinn að fara með liðinu alla leið í úrslitakeppninni og finna sína rullu og sinn takt með liðinu sem gerir það að verkum að lífið er í alla staði léttara hjá honum. Þetta skilar sér beint á tölfræðiskýrsluna eins og þið sjáið og þó hann sé aldrei að fara að taka einhver 25/15 tímabil með þessu Cleveland-liði, er lykiltölfræðin hans búin að taka áberandi kipp í vetur. Þar munar mestu um næstum fimm tikk upp á við í 3ja stiga nýtingunni og hvorki meira né minna en sex stiga bætingu að meðaltali í leik, sem er meira en umtalsvert.

Sömu sögu er að segja af Kyrie Irving. Það hefur ekki borið mikið á honum í vetur ef hetjukarfan hans í jólaleiknum gegn Warriors er undanskilin, en leikstjórnandinn knái er líka búinn að bæta sig helling í tölfræðinni og er að eiga sitt besta tímabil á ferlinum í stórum þáttum eins og stigum og skotnýtingu og er líka að hóta því að bæta sinn besta árangur í stoðsendingum, sem að okkar mati yrði mjög áhugavert.Við komumst nefnilega að því fyrir tilviljun þegar við fórum að skoða tölfræðina hans Irving í dag, að hann er allt í einu farinn að gefa boltann eins og hann fái borgað fyrir það.

Vitið þið hvað Kyrie Irving átti marga 10+ stoðsendinga leiki á síðustu leiktíð? O.k. við skulum bara segja ykkur það. Hann gaf ekki einu sinni tíu stoðsendingar eða meira á síðustu leiktíð - hvorki í deild né úrslitakeppni. Ekki einu sinni! Það getur vel verið að hann sé meiri skorari en leikstjórnandi, en þetta á ekki að þekkjast.

Og hann byrjaði þessa leiktíð með svipuðum hætti. Hann gaf aðeins einu sinni 10 stoðsendingar í október og nóvember, en núna í desember eru stórfurðulegir hlutir að eiga sér stað.

Allt í einu er Kyrie Irving búinn að gefa tíu stoðsendingar eða meira í fimm af síðustu sjö leikjum Cleveland! Þar af 13 stoðsendinga leik gegn Milwaukee, sem var met hjá honum á ferlinum. Ja, batnandi mönnum og allt það...

Þetta voru nokkur orð um meistara Cleveland Cavaliers* og stöðu mála hjá þeim. Sigur liðsins á Warriors á jóladag sýnir að liðið er til alls líklegt í sumar ef það heldur heilsu og meira en það.

Eins og staðan er í dag, er Cleveland nefnilega komið í stöðu sem það hefur aldrei nokkru sinni lent í áður í sögu félagsins. Cleveland er sigurstranglegasta liðið í baráttunni um meistaratitilinn í NBA deildinni árið 2017.

Þú getur dundað þér við að hugsa um þetta það sem eftir lifir af árinu 2016 - einu furðulegasta boltaíþróttaári allra tíma.

Ári Íslands, Leicester City og Cleveland Cavaliers.

------------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Það hættir aldrei að vera súrrealískt að tala um lið frá Cleveland sem meistara í einhverju.

Thursday, December 29, 2016

George Karl er frekar ómerkileg manneskja

Væntanleg bók* fyrrum NBA þjálfarans George Karl sem heitir því stutta og hnitmiðaða hafni Furious George: My Forty Years Surviving NBA Divas, Clueless GMs, and Poor Shot Selection hefur reynst fjölmiðlum sem fjalla um NBA deildina óþrjótandi fréttauppspretta undanfarna daga.

Það sem fjölmiðlum ytra þótti fyrst merkilegt við bókina hans Karl, nú eða það fyrsta bitastæða sem þeir fengu að lesa úr bókinni (hún er ekki komin út), voru miður falleg ummæli sem hann lét falla um Carmelo Anthony sem hann þjálfaði um árabil hjá Denver Nuggets. ´Melo var auðvitað ekki sá eini sem fékk að heyra það frá Carl í þessari stuttu úttekt úr bókinni, því sá gamli lét sér ekki muna um að henda mönnum eins og JR Smith og Kenyon Martin undir rútuna í leiðinni.Við gátum ekki stillt okkur um að glotta þegar við lásum þetta, því hvert einasta orð sem Karl lét hafa eftir sér um leikmennina - sérstaklega Carmelo Anthony - var dagsatt. Hafið hugfast að við erum hér að tala um ummæli Karl um ´Melo og félaga innan vallar, ekki persónu þeirra eða hagi utan vallar (þó þetta tvennt haldist vitanlega stundum í hendur).

Karl sagði sem var að Carmelo Anthony hugsaði bara um annan enda vallarins, væri eigingjarn leikmaður og svo það sem okkur hefur alla tíð þótt augljóst; hann er ekki tilbúinn til að leggja á sig þá vinnu sem til þarf til að verða leikmaður í hæsta gæðaflokki.

Þetta hefur ekki síst með það að Carmelo Anthony á að heita leiðtogi í sínum liðum af því hann fær borgað sem slíkur, en ef leiðtoginn og/eða hæstlaunaðasti leikmaðurinn í liðinu þínu er ekki tilbúinn til að spila vörn og leggja á sig þá vinnu sem til þarf til að fá það mesta út úr liði sínu - þá er enginn í liðinu að fara að gera það.Það sem okkur þótti hinsvegar miður við ummæli Karl var þegar hann fór að blanda persónulegum hlutum eins og því hvort leikmennirnir sem spiluðu undir hans stjórn á sínum tíma áttu feður eða höfðu jákvæðar/heppilegar föðurímyndir og fabúlera um hvort það væri atriðið sem stæði þeim fyrir þrifum sem leikmenn.

Auðvitað getur meira en vel verið að svona issjú skipti máli þegar kemur að kjarna leikmanna bæði sem manna og atvinnumanna og það getur líka vel verið að þetta sé allt saman rétt hjá George Karl, en þú ferð ekki að gaspra um svona lagað í bókinni þinni. Þetta eru hlutir sem eiga ekki að fara út úr búningsherberginu og þarna er því um trúnaðarbrest að ræða - Karl er þarna að brjóta óskráða reglu sem gildir í samskiptum leikmanna og þjálfara sem eiga að vera vopna- og fóstbræður.

Það sem stendur upp úr hvað Denver-hraun Karl varðar, er að okkar mati hvað Carmelo Anthony tók þroskaða afstöðu - háa veginn góða - þegar fjölmiðlar reyndu að fá hann til að hrauna til baka. Hann er kannski ekki mesti sigurvegari í heimi, hann Melo, en hann hefur þroskast gríðarlega síðan hann kom inn í deildina á sínum tíma.
En eins og þið sem fylgist með hafið lesið, virðist George hvergi nærri hættur, því nú síðast var hann byrjaður að hrauna yfir Damian Lillard hjá Portland!

Eins og búast mátti við, var Terry Stotts þjálfari Portland fljótur að gagnrýna George harðlega fyrir þessi leiðindi. Það er ekki nema von að Stotts hafi verið vonsvikinn, því hann bæði spilaði fyrir Karl á sínum tíma og var aðstoðarþjálfari hans um árabil bæði hjá Seattle Supersonics og Milwaukee Bucks.

Við höfum lesið fleiri en eina grein um George Karl í gegn um árin þar sem látið hefur verið í veðri vaka að hann sé ef til vill ekki besti karakter í heimi. Að hann hafi verið fremur leiðinlegur við leikmenn sína, tækifærissinaður og gjarn á að henda þeim undir rútuna.

Þessi bók hans sem er að koma út virðist renna stoðum undir þessar kenningar en við höfum reyndar líka lesið greinar um það að George sé ofmetinn þjálfari ofan á allt saman. Ef fólk vill fara í þá áttina, er svo sem hægt að benda á það hvað hann þjálfaði lengi í deildinni og hvað hann náði miklum árangri á þessum 30 árum sínum eða svo.

Karl var aldrei nálægt því að vinna meistaratitil á ferlinum, en hann var svo sem aldrei með nein ofurlið í höndunum, þó þau væru oftast ljómandi góð. Því eru menn ekki sammála um hvað hann á mikinn heiður skilinn fyrir árangur liðanna hans. Hann fór með Seattle í lokaúrslit gegn Chicago árið 1996, en þar átti liðið aldrei séns eftir að hafa lent 3-0 undir í einvíginu. Á myndinni hér fyrir ofan sérðu fjóra af lykilmönnum ´96 liðs Sonics. Frá vinstri: Gary Payton, Shawn Kemp, George Karl, Sam Perkins og Detlef Schrempf.

Karl fékk svo langþráða nafnbótina Þjálfari ársins eftir margra ára skak með Denver þegar það náði að vinna 57 leiki árið 2012, en  það var engin innistæða fyrir þeim árangri frekar en venjulega - Denver liðið hans datt nánast alltaf út í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Það er svo sem óþarfi fyrir okkur að vera að velta okkur upp úr þessu bulli í George Karl, en það eina sem okkur langar að segja er að okkur þykir það eiginlega með ólíkindum að maður eins og Karl skuli láta svona ómerkilegheit út úr sér á prenti - maður kominn á þennan aldur - og verandi nýbúinn að hafa betur í baráttunni við krabbamein og allar græjur! Nei, best að gefa þá bara út bók og drulla yfir allt og alla sem maður hefur unnið með um ævina! Því ekki það!

Það sem Karl er að láta hafa á eftir sér á prenti í þessari bók sinni er ómerkilegt og ber vott um biturð, tvöfeldni og öðru fremur óhemju lélegan karakter. Við áttum okkur á því að menn verða að segja eitthvað ef þeir ætla sér að selja bækur, en þarna fer Karl yfir strikið og þó við séum sammála honum með margt af því sem hann segir, á margt af því ekkert erindi á prent.

George Karl er augljóslega ekkert sérstaklega merkilegur karakter og hann er svo sem ekki eini sigursæli þjálfarinn í sögu NBA sem virðist vera skítakarakter.

Það fer vel á því að hann skuli sitja í 5. sæti listans aðeins þremur sætum eða svo fyrir ofan annan skítakarakter, Larry "á ég að lána þér húfu og vettlinga til að hafa meðan þú liggur þarna undir rútunni sem ég er að fara að henda þér fyrir á meðan ég fer í viðræður um að þjálfa annað félag þegar ég er með lið í miðri úrslitakeppni" Brown.

Já, það eru sauðir í þjálfarastéttinni eins og öðrum, þó við viljum auðvitað öll halda að þjálfarar séu snillingar upp til hópa eins og Gregg Popovich.

---------------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Lesendur NBA Ísland eru svo heppnir að fá sník pík á báðar bókarkápurnar sem hannaðar voru fyrir nýju bókina hans George Karl hér í þessari færslu. Það var lítið.

Monday, December 26, 2016

Kyrie kláraði - Curry fór í köttinn


Þó stjörnufansinn væri mikill og glæsilegur, var leikur Cleveland og Golden State um jólin í fyrra alls ekki eins góður og efni stóðu til og þjálfararnir héldu spilunum fast að vestinu ef svo má segja. Viðureign þessara tveggja sterkustu körfuboltaliða heims þessi jólin olli hinsvegar engum vonbrigðum. Hún var hreint út sagt mögnuð.

Það sem helst vakti áhuga okkar í þessum leik var að ef einhver hefur verið í vafa um hver væri neyðarkarl Warriors-liðsins, þarf hann ekki að vera það lengur. Kevin Durant er fyrsti, annar og þriðji kostur Golden State í sókninni í fjórða leikhluta og enn frekar á ögurstundu.

Þessi pólitík gerir svo ekki annað en styrkjast þegar Stephen Curry nó-sjóar enn einn Cleveland-leikinn fyrir Warriors. Curry þarf svona í alvöru að fara að hætta að fara í feluleik þegar hann er að spila við Cavs, sérstaklega á jólunum, þar sem hann er bara lélegur.

Sérstaklega ef haft er í huga að hann er tvöfaldur leikmaður ársins. Tvöfaldir leikmenn ársins eiga ekki nógu marga slæma leiki til að búa til mynstur. Það kemur bara ekki fyrir. En það er að gerast hjá Curry, sem fer í jólaköttinn að þessu sinni.

Meðan Curry hljóp um völlinn og boraði í nefið, var Kyrie Irving í miklu stuði hjá Cleveland. Það munaði engum 70 stigum á þeim þegar upp var staðið (25-15 fyrir Kyrie) og Irving hitti ekkert sérstaklega vel, en hann fyllti tölfræðiskýrsluna rækilega (25/6/10 og sjö stolnir!) og setti skotin niður þegar á þurfti að halda - skoraði m.a. það sem reyndist sigurkarfan í leiknum.

Irving er mjög sérstakur leikmaður. Hann er algjör æsó-bangsi, dripplar mikið, gefur lítið og tekur mikið af skotum, en það er að hluta til afsakanlegt af því hann er einn besti sóknarmaður í heimi. Hann lítur svo á að það sé alltaf góð hugmynd að hann sjálfur fari einn á einn, sem er viðhorf út af fyrir sig.

Pjúristarnir eru oft ekki hrifnir af honum og við verðum að segja að okkur myndi ekki langa að spila með honum í liði, en hann sýndi okkur það víst í sumar að það er hægt að ná árangri með því að spila svona.

Draymond Green var reyndar ekkert að glansa í þessum leik frekar en Curry (16/4/4 - sex tapaðir og fimm villur), en þó Kevin Durant hafi ef til vill verið einhver blanda af Hans Klaufa og Óheppna-Hans þarna í lokin, er ekki hægt að segja annað en að hann hafi verið magnaður fyrir Warriors í þessum leik.

Við vitum öll hvað hann getur, en við vitum líka (jafnvel og hann sjálfur) að það er hópur af heiterum þarna úti sem eru farnir að pískra um að Durant sé ekki nógu beittur í klötsinu - að hann bogni á ögurstundu. Það er mjög strangur lestur, því ef þú pælir í því, eru körfuboltamenn almennt ekkert góðir á ögurstundu. Slíkt eru algjörar undantekningar, sama hvað Kobe-aðdáendur rífa kjaft.

Cleveland-menn fögnuðu sigrinum á Golden State meira en þeir fögnuðu þegar þeir unnu Austurdeildina í úrslitakeppninni í vor, sem er áhugavert. Það er hinsvegar eðlilegt að þeir hafi verið ánægðir með sig í gærkvöldi af því bæði lið lögðu allt í leikinn og spiluðu af mikilli hörku. Þetta var ekki eins og í fyrra þegar liðin gengu inn á völlinn, þefuðu af anusnum á hvort öðru, urruðu lágt og bofsuðu - ó, nei. Nú var bara flautað og allt á fullt í fætingi. Fabjúlus.

Warriors-menn fara ekkert á taugum þó þeir hafi tapað þessum leik, en þeir eru hundpirraðir á tapinu og þó þeir séu ekki beint hræddir við Cleveland - þeir eru ekki hræddir við neitt lið - eru LeBron og félagar búnir að þröngva þá til virðingar við sig ef svo má segja. Þessi lið eru farin að þekkjast nokkuð vel, en öfugt við síðustu tvö ár, er það Cleveland sem býr yfir meiri stöðugleika og samhæfingu. Þetta skiptir máli.

Cleveland er eina liðið sem er með plan sem gengur reglulega upp á móti Golden State, sem segir okkur ekki annað en það að meistararnir séu helvíti góðir í körfubolta. Það er augljóst að þeir eru alveg tilbúnir í að mæta Warriors aftur í úrslitum ef til þess kemur og vonandi fyrir þá verður hægðaheilinn JR Smith búinn að jafna sig í lúkunni þá.

Það eina sem við höfum áhyggjur af fyrir hönd Cavs er hvað LeBron James er að spila allt of mikið. Liðið er ekki í það harðri keppni í deildarkeppninni að það þurfi að vera að láta hann spila 40 mínútur kvöld eftir kvöld. Það er fullkomlega glórulaust.

Við segjum stundum að alls konar hlutir séu glórulausir, en að láta LeBron spila svona mikið á þessum tímapunkti er glórulausara en allir þeir hlutir samanlagt.

Gaurinn er bara rúmlega þrítugur, en hann er búinn að spila fleiri mínútur en Rolling Stones og þó hann sé geimvera, eru menn með þennan mílufjölda og á þessum aldri (þó LeBron hafi sennilega spilað fleiri mínútur en allir alltaf ever á þessum aldri/árafjölda í deildinni) einfaldlega tifandi tímasprengjur varðandi meiðslahættu.

En hvað um það. Það sem upp úr stendur er að við fengum alveg ógeðslega skemmtilegan jólaleik, sem gerir ekki annað en að bæta hátíðarskap okkar allra. Dásamlegt alveg.

--------------------------------------------------------------------------------------------------------

P.s. - Halló! Nennir einhver að lyfjaprófa Richard Jefferson snöggvast?


Jóla-RussSaturday, December 24, 2016

Tuesday, December 20, 2016

Takk aftur, Tim


Nú er búið að hengja treyjuna hans Tim Duncan upp í rjáfur í San Antonio eins og þið tókuð eftir. Það var sannarlega ekki verið að drolla við þetta. Ætli forráðamenn Spurs séu ekki hræddir um að hann eigi eftir að hverfa inn í Amazon frumskóginn einn daginn og koma aldrei aftur, eða eitthvað slíkt. Hvað vitum við svo sem um þessa hávöxnu ráðgátu af manni.

Okkur þótti vænt um að horfa á seremóníuna, sem var stutt og hnitmiðuð á miðað við tilefnið, en þið vissuð að það yrðu ekki teknir neinir sjö tímar í að keyra Tim Duncan út. Alveg eins og þegar Duncan tilkynnti að hann væri hættur á sínum tíma, fengum við eitthvað nostalgíukast og hugsuðum að við yrðum nú að skrifa eitthvað um þetta. 
Vorum næstum því búin að gleyma því að við vorum búin að gera það, nokkuð ítarlega meira að segja. Þau ykkar sem nenntuð ekki að lesa það, getið þá kannski gert það núna, ef þið eigið eftir að sakna Duncan eins og við.

Við eigum ekki eftir að sakna þess að horfa á Duncan spila, þannig séð, við erum búin að gera meira af því en flestir á síðustu tveimur áratugum. Við eigum bara eftir að sakna hans af því hann var á sinn hljóðláta hátt ein af undirstöðunum í NBA deildinni, hvort sem hann fór í taugarnar á þér eða þú elskaðir hann.

Það er óþarfi að skrifa annan hlemm um Duncan eins og við gerðum í sumar, en okkur langar bara að vekja athygli á nokkrum atriðum.

Þau ykkar sem horfðuð á athöfnina þegar treyjan hans Duncan fór upp í rjáfur (hún er aðgengileg víða á youtube), hafið eflaust veitt því athygli hvað þeir Tony Parker, Manu Ginobili og Gregg Popovich töluðu lítið um leikmanninn Tim Duncan í ræðunum sínum. Það vita allir að Duncan var góður leikmaður og því var óþarfi að tala um það við þetta tækifæri - Duncan hefði líka ekki nennt að hlusta á það. 

Nei, það eina sem komst að hjá höfðingjunum sem tóku til máls til að heiðra liðsfélaga sinn til 15-20 ára var hvað hann væri góður liðsfélagi og góð manneskja. 

Þeir færðu líka rök fyrir máli sínu. Minntust á hvernig hann peppaði þá upp þegar illa gekk, hvað hann var mikill leiðtogi, hvað hann gaf gott fordæmi og hvað hann var alltaf tilbúinn að eyða tíma í að gera félaga sína betri (eins og að taka aukaæfingar til að reyna að gera körfuboltamann úr Boban á lokaárinu sínu). 

Það var ekki ónýtt fyrir börnin hans Duncan að fá að heyra allt þetta hrós um gamla manninn á þessu sviði. Það er ekki víst að það gerist nema einu sinni enn.

Þetta er allt voðalega boring, við vitum það, svona leiðindi þykja ekki sexí í dag. En þetta segir okkur hvernig manneskja er horfinn af NBA sviðinu - þið vitið hvernig leikmaður er horfinn af sviðinu. Við vorum búin að segja ykkur það.

Eitt í viðbót langaði ykkur að minnast á, sem við tókum ekki í fram í greininni í sumar. Það var að skjóta niður vitleysu sem við höfum heyrt nokkrum sinnum og vekja athygli á öðru atriði í framhaldinu.

Stundum er talað um að Spurs-liðið hans Tim Duncan hafi ef til vill haft heppnina með sér þegar kom að styrkleika mótherja þeirra úr austrinu í lokaúrslitunum. Þetta er rétt, en sömu sögu er að segja af t.d. aldamótaliði LA Lakers. 

Thursday, December 15, 2016

Upphleyptur Exum


Utah-pilturinn Dante Exum er að safna í nákvæma eftirlíkingu af Tröllaskaga á upphleypta Íslandskortinu sem hann er að rækta í grillinu á sér í þessum mánuði. Kominn á gelgjuskeiðið allt í einu. Svona eins og menn gera þegar þeir eru á 22. aldursári. Carlos Boozer fór einmitt á gelgjuna þegar hann var um 25 ára aldurinn þegar hann spilaði með Utah. 

Jazzarar eru orðnir svo örvæntingarfullir að búa til sóknarmann úr ástralska bakverðinum sínum að þeir virðast vera komnir með hann á veðhlaupahestakúrinn sem Robert "Bob" Paulson (ísl. Júlli) notaði í kvikmyndinni Fight Club (ísl. Enginn verður óbarinn biskup) forðum. Nei, auðvitað erum við bara að fíflast. Það er ekkert sem bendir til þess að atvinnuíþróttamenn í Bandaríkjunum séu að nota ólögleg eða á nokkurn hátt vafasöm lyf til að vera samkeppnishæfir í greinum sínum.