Monday, December 26, 2016
Kyrie kláraði - Curry fór í köttinn
Þó stjörnufansinn væri mikill og glæsilegur, var leikur Cleveland og Golden State um jólin í fyrra alls ekki eins góður og efni stóðu til og þjálfararnir héldu spilunum fast að vestinu ef svo má segja. Viðureign þessara tveggja sterkustu körfuboltaliða heims þessi jólin olli hinsvegar engum vonbrigðum. Hún var hreint út sagt mögnuð.
Það sem helst vakti áhuga okkar í þessum leik var að ef einhver hefur verið í vafa um hver væri neyðarkarl Warriors-liðsins, þarf hann ekki að vera það lengur. Kevin Durant er fyrsti, annar og þriðji kostur Golden State í sókninni í fjórða leikhluta og enn frekar á ögurstundu.
Þessi pólitík gerir svo ekki annað en styrkjast þegar Stephen Curry nó-sjóar enn einn Cleveland-leikinn fyrir Warriors. Curry þarf svona í alvöru að fara að hætta að fara í feluleik þegar hann er að spila við Cavs, sérstaklega á jólunum, þar sem hann er bara lélegur.
Sérstaklega ef haft er í huga að hann er tvöfaldur leikmaður ársins. Tvöfaldir leikmenn ársins eiga ekki nógu marga slæma leiki til að búa til mynstur. Það kemur bara ekki fyrir. En það er að gerast hjá Curry, sem fer í jólaköttinn að þessu sinni.
Meðan Curry hljóp um völlinn og boraði í nefið, var Kyrie Irving í miklu stuði hjá Cleveland. Það munaði engum 70 stigum á þeim þegar upp var staðið (25-15 fyrir Kyrie) og Irving hitti ekkert sérstaklega vel, en hann fyllti tölfræðiskýrsluna rækilega (25/6/10 og sjö stolnir!) og setti skotin niður þegar á þurfti að halda - skoraði m.a. það sem reyndist sigurkarfan í leiknum.
Irving er mjög sérstakur leikmaður. Hann er algjör æsó-bangsi, dripplar mikið, gefur lítið og tekur mikið af skotum, en það er að hluta til afsakanlegt af því hann er einn besti sóknarmaður í heimi. Hann lítur svo á að það sé alltaf góð hugmynd að hann sjálfur fari einn á einn, sem er viðhorf út af fyrir sig.
Pjúristarnir eru oft ekki hrifnir af honum og við verðum að segja að okkur myndi ekki langa að spila með honum í liði, en hann sýndi okkur það víst í sumar að það er hægt að ná árangri með því að spila svona.
Draymond Green var reyndar ekkert að glansa í þessum leik frekar en Curry (16/4/4 - sex tapaðir og fimm villur), en þó Kevin Durant hafi ef til vill verið einhver blanda af Hans Klaufa og Óheppna-Hans þarna í lokin, er ekki hægt að segja annað en að hann hafi verið magnaður fyrir Warriors í þessum leik.
Við vitum öll hvað hann getur, en við vitum líka (jafnvel og hann sjálfur) að það er hópur af heiterum þarna úti sem eru farnir að pískra um að Durant sé ekki nógu beittur í klötsinu - að hann bogni á ögurstundu. Það er mjög strangur lestur, því ef þú pælir í því, eru körfuboltamenn almennt ekkert góðir á ögurstundu. Slíkt eru algjörar undantekningar, sama hvað Kobe-aðdáendur rífa kjaft.
Cleveland-menn fögnuðu sigrinum á Golden State meira en þeir fögnuðu þegar þeir unnu Austurdeildina í úrslitakeppninni í vor, sem er áhugavert. Það er hinsvegar eðlilegt að þeir hafi verið ánægðir með sig í gærkvöldi af því bæði lið lögðu allt í leikinn og spiluðu af mikilli hörku. Þetta var ekki eins og í fyrra þegar liðin gengu inn á völlinn, þefuðu af anusnum á hvort öðru, urruðu lágt og bofsuðu - ó, nei. Nú var bara flautað og allt á fullt í fætingi. Fabjúlus.
Warriors-menn fara ekkert á taugum þó þeir hafi tapað þessum leik, en þeir eru hundpirraðir á tapinu og þó þeir séu ekki beint hræddir við Cleveland - þeir eru ekki hræddir við neitt lið - eru LeBron og félagar búnir að þröngva þá til virðingar við sig ef svo má segja. Þessi lið eru farin að þekkjast nokkuð vel, en öfugt við síðustu tvö ár, er það Cleveland sem býr yfir meiri stöðugleika og samhæfingu. Þetta skiptir máli.
Cleveland er eina liðið sem er með plan sem gengur reglulega upp á móti Golden State, sem segir okkur ekki annað en það að meistararnir séu helvíti góðir í körfubolta. Það er augljóst að þeir eru alveg tilbúnir í að mæta Warriors aftur í úrslitum ef til þess kemur og vonandi fyrir þá verður hægðaheilinn JR Smith búinn að jafna sig í lúkunni þá.
Það eina sem við höfum áhyggjur af fyrir hönd Cavs er hvað LeBron James er að spila allt of mikið. Liðið er ekki í það harðri keppni í deildarkeppninni að það þurfi að vera að láta hann spila 40 mínútur kvöld eftir kvöld. Það er fullkomlega glórulaust.
Við segjum stundum að alls konar hlutir séu glórulausir, en að láta LeBron spila svona mikið á þessum tímapunkti er glórulausara en allir þeir hlutir samanlagt.
Gaurinn er bara rúmlega þrítugur, en hann er búinn að spila fleiri mínútur en Rolling Stones og þó hann sé geimvera, eru menn með þennan mílufjölda og á þessum aldri (þó LeBron hafi sennilega spilað fleiri mínútur en allir alltaf ever á þessum aldri/árafjölda í deildinni) einfaldlega tifandi tímasprengjur varðandi meiðslahættu.
En hvað um það. Það sem upp úr stendur er að við fengum alveg ógeðslega skemmtilegan jólaleik, sem gerir ekki annað en að bæta hátíðarskap okkar allra. Dásamlegt alveg.
--------------------------------------------------------------------------------------------------------
P.s. - Halló! Nennir einhver að lyfjaprófa Richard Jefferson snöggvast?
Efnisflokkar:
Á ögurstundu
,
Cavaliers
,
Draymond Green
,
Jólaleikirnir
,
Kevin Durant
,
Kyrie Irving
,
LeBron James
,
Stephen Curry
,
Stórustrákabuxurnar
,
Warriors