Sunday, April 29, 2012

Derrick Rose er úr leik með Chicago:


Ef við mættum velja okkur uppákomu til að skemma úrslitakeppni NBA árið 2012, myndi það koma sterklega til greina að slíta krossband í hnénu á Derrick Rose.

Þessi viðbjóður er einstaklega óheppilegur og skemmir augljóslega mikið fyrir Chicago sem ætlaði sér að fara að keppa um titla. Philadelphia verður Bulls engin fyrirstaða þó Rose sé ekki með, en liðið gæti farið að sakna hans þegar lengra er komið í úrslitakeppninni. Chicago er einfaldlega ekki eins sterkt án hans.

Það verður óhemju erfitt að slá Chicago út þrátt fyrir þessi skelfilegu tíðindi. Liðið mun berjast enn harðar í vörninni og veita hvaða liði sem er brjálaða samkeppni. Því er þó ekki að neita að leikmenn Miami hljóta að hugsa sér gott til glóðarinnar núna. Austrið er strangt til tekið þeirra, ef þeir eru klárir í slaginn. Það er bara þannig.

Meiðsli Rose eru ekki aðeins skelfileg tíðindi fyrir stuðningsmenn Bulls, heldur einnig alla þá sem hata LeBron James og Sólstrandargæjana - fólkið sem vill frekar kjarnorkustyrjöld en að Miami vinni titil.

Æ, þetta er ömurlegt. Megi Derrick Rose fá fljótan og góðan bata. Lífið þarf víst að halda áfram.

Saturday, April 28, 2012

Hlaðvarpið: Nýr þáttur um úrslitakeppninaÞað er kominn nýr þáttur af Hlaðvarpinu.

Baldur Beck og Gunnar Helgason spá þar í spilin fyrir úrslitakeppnina í NBA og útnefna m.a. leikmenn og þjálfara ársins í deildakeppninni.

Þú getur hlustað á nýja þáttinn (4. þátt) með því að smella á Hlaðvarps-flipann efst á síðunni.

Ef þú ert sjónlaus og finnur ekki Hlaðvarpssíðuna geturðu þá smellt hér.

Úrslitakeppnin í NBA hefst í dag


Það er ekki auðvelt að fylgjast með þegar allt er að gerast í einu. Við vorum fjarri því búin að átta okkur á að deildakeppnin væri búin þegar við föttuðum að úrslitakeppnin er að byrja. Meiri lætin. Það má segja að leikur Miami og New York á laugardagskvöld sparki þessu öllu af stað. Hann er í beinni á Sportinu klukkan 19:30.

Það er venja að spá aðeins í spilin áður en úrslitakeppnin hefst og það er ekki hægt að komast hjá því. Frammistaða okkar í spámennskunni í úrslitakeppni Iceland Express deildinni var fullkomlega út í hött og því þýðir ekkert að láta þar við sitja. Annars er nú spáin bara til gamans og okkar hefur örugglega komið einhverjum til að hlæja.

Við ætlum aðeins að setja einn fyrirvara áður en við spáum í spilin fyrir úrslitakeppnina í NBA árið 2012, en hann er reyndar nokkuð stór.

Það er gjörsamlega ómögulegt að setja fram rökrétta spá í ár.

Leikjaálagið sem var á liðunum í vetur gerði það að verkum að góð lið skíttöpuðu fyrir lélegum liðum og engin leið var að sjá neitt fyrir eða fá almennilega tilfinningu fyrir því hvar liðin stóðu í raun og veru. Þetta er rosaleg afsökun, en mundu að þú getur alltaf hlegið að spánni þegar við verðum ekki með eitt einvígi í fyrstu umferðinni rétt.

Hér fyrir neðan segjum við nokkur orð um einvígin sem framundan eru og hvaða tilfinningu við höfum fyrir þeim.


VESTURDEILD:

SAN ANTONIO - UTAH

Þetta er ójafnasta einvígið í úrslitakeppninni ásamt Chicago-Philadelphia í austrinu.

San Antonio hirti toppsætið í Vesturdeildinni annað árið í röð, en öfugt við í fyrra þegar liðið klessti á Memphis-vegginn í fyrstu umferð, eru nú allir höfðingjar Spurs ómeiddir.

San Antonio hefur breytt um taktík, er orðið sóknarlið í stað varnarliðsins sem það var áður. Þetta er Popovich þjálfari að gera vel úr þeim spilum sem hann hefur á hendi.

Það er með ólíkindum hvað hann og leikmenn San Antonio eru miklir snillingar. Verður ekki of oft sagt. Við höfum verið á því lengst af í vetur að Tom Thibodeau væri þjálfari ársins, en við verðum að leyfa Pop að eiga þennan titil sömuleiðis. Hann er of mikill snillingur.

Utah gerði gríðarlega vel að komast í úrslitakeppnina, en þangað hefur liðið ekkert að gera gegn fjendum sínum í San Antonio. Það er freystandi að setja einn sigur á Utah vegna hins sterka heimavallar sem liðið hefur, en Spurs nenna ekki að standa í einhverju rugli og loka þessu í fjórum leikjum til að hvíla sig. Framtíðin er Jazzara en þessir guttar hafa ekkert í Spurs að gera þó þeir hafi meira kjöt í miðjunni. Pop og félagar eru of klókir.

MEMPHIS-LA CLIPPERS

Flestir líta svo á að þetta verði harðasta einvígið í fyrstu umferðinni í vestrinu, ef ekki í allri deildinni. Það þyrfti ekki að koma á óvart þó menn tækjust jafnvel eitthvað á án bolta.

Bæði þessi lið ætla sér sigur í rimmunni og bæði teldu það gríðarleg vonbrigði að detta út í fyrstu umferð. Clippers vegna þess að liðið er búið að bæta við sig leikmönnum og auka væntingar. Memphis vegna þess hve óvæntan árangur liðið sýndi í úrslitakeppninni á síðustu leiktíð.

Þetta verður hörð og jöfn sería en við ætlum að tippa á Memphis af því liðið er með heimavöllinn og af því það er með óhemju yfirburði í teignum.

Við höfum alls ekki hrifist af Clippers í vetur þrátt fyrir litrík tilþrif þeirra á köflum og það kemur illa niður á liðinu í úrslitakeppninni að stóru mennirnir geta ekki hitt vítaskotum til að bjarga lífi sínu. Chris Paul á eftir að sýna einhver töfrabrögð í þessu einvígi og vinna jafnvel eins og einn leik upp á sitt einsdæmi, en það verður ekki nóg.

LA LAKERS-DENVER

Það eina sem við vitum um þessa seríu er að Lakers vinnur hana. Það er ómögulegt að segja til um hvað við sjáum frá þessu Denver-liði í úrslitakeppninni. Denver á vafalítið eftir að gera Lakers lífið leitt á heimavelli sínum, en við tippum yfirleitt á stóru mennina. Denver á engin svör við Bynum og Gasol frekar en flest önnur lið og ef Lakers drulla boltanum reglulega inn í teig verður þetta nokkuð þægilegt hjá þeim. Það er okkur samt mikið áhyggjuefni hvað Lakers-liðið er búið að vera slakt í varnarleiknum undanfarið, en við gefum okkur að það lagist í þessu einvígi.

OKLAHOMA-DALLAS

Ef taka ætti mark á gengi þessara liða í vetur, ætti Oklahoma að valta yfir meistarana nokkuð örugglega. Það hefur eiginlega verið skömm að fylgjast með meisturunum í vetur og samnefndur bragur verið fjarri liðinu. Það er engu líkara en að Dallas sé bara að bíða eftir næsta vetri og þeirri uppstokkun sem þá er bókað að verði á liðinu (Deron Williams? Dwight Howard?)

Oklahoma er búið að spila vel í allan vetur og hefur þegar stimplað sig inn sem eitt besta vetrarliðið í NBA, en á eftir að sanna sig að vori. Í ár er árið sem Oklahoma á að brjótast í gegn um Vesturdeildina og það verður því forvitnilegt að sjá hvernig liðið bregst ef það fær nú á kjaftinn frá Dallas snemma í einvíginu.

Við neitum nefnilega að trúa því að meistararnir ætli að halda áfram að spila eins og aumingjar í úrslitakeppninni. Til þess hafa þeir of góðan mannskap og allt of góðan þjálfara, sem ætti að geta nýtt sér veikleika Oklahoma rétt eins og í fyrra. Því miður fyrir Dallas mun það ekki verja meistaratitil sinn að þessu sinni. Það gerir ekkert lið með Vince Carter í lykilhlutverki.AUSTURDEILD:

CHICAGO-PHILADELPHIA

Þetta einvígi verður aldrei spennandi. Chicago er miklu miklu betra lið og Philadelphia er gjörsamlega búið að drulla upp um alla veggi á seinnihluta tímabilsins.

Kannski nær liðið að vinna einn leik fyrir stuðningsmenn sína en fleiri verða þeir ekki. Chicago ætlar og þarf að steikja stærri fisk en Philadelphia og klárar þetta einvígi af fagmennsku. Bulls-menn hafa unnið fyrir því í vetur að fá "auðvelda" mótherja í fyrstu umferð og því geta þeir spilað Derrick Rose í gang í rólegheitunum. Alveg kjörið fyrir þá.

ATLANTA-BOSTON

Það er glapræði að ætla að tippa á Boston í úrslitakeppni. Alveg sama hvaða ár það er. Við förum flatt á því á hverju ári. Ef fólk tippar á móti þeim, vinna þeir og öfugt. Þess vegna spáum við því að einvígi Atlanta og Boston fari alla leið í oddaleik.

Þessi lið eiga sér smá sögu og fóru ótrúlegt nokk í sjö leikja seríu í fyrstu umferð þegar Boston hirti titilinn árið 2008. Boston hefur sýnt að það er ekki alveg dautt úr öllum æðum á síðustu vikum og þess vegna ætlum við að spá því sigri í þessu einvígi.

Þetta verður síðasti sprettur hins frábæra 2008 liðs þeirra Celtics-manna sem alltaf er kennt við Garnett, Allen og Pierce, eins asnalegt og það er nú (Rondo? Halló!). Við trúum því ekki að þessir snillingar hafi hug á því að tapa síðasta einvíginu sínu gegn Atlanta Hawks. Það bara meikar engan sens eins og sagt er.

Það verður líka gaman að sjá geðsjúklingana Zaza Pachulia og Kevin Garnett læsa saman hornum í þessum slag. Þú veist að það verður vesen. Bara spurning hvenær.

INDIANA-ORLANDO

Þetta einvígi hefur alla burði til að verða alveg hrottalega leiðinlegt. Allar spár sem við höfum séð spá Indiana sigri og það er eðlilegt í ljósi þess að Orlando er án Dwight Howard.

Það eina sem Orlando hefur á Indiana í þessari rimmu er betri og reyndari þjálfari og þess vegna gefum við Orlando tvo leiki í þessu. Þeir eiga eftir að vinna tvo leiki bara á því að skjóta allt í kaf en Indiana er allt of vel mannað lið til að klára ekki þessa seríu.

Ef vel er að gáð má líka finna smá pressu á Indiana. Liðið á að vinna þetta einvígi og ætti á þessum tímapunkti uppbyggingarinnar að gera strítt Chicago og Miami aðeins. Sennilega verður það ekki mikið meira en stríðni, en það er ekki hyggilegt að veðja mikið á móti Larry Bird.


MIAMI-NEW YORK

Þetta einvígi mun ekki bjóða upp á besta körfuboltann í fyrstu umferðinni, en það verður sannarlega það langmest áberandi.

New York-miðlunum leiðist nú ekki að vera komnir á stóra sviðið og eftirvæntingin í Eplinu er gríðarleg. Það gerist ekki meira sexí fyrir sjónvarpið að þeir LeBron James og Carmelo Anthony séu þarna að mætast í úrslitakeppni í fyrsta sinn.

Alveg eins og í fyrra virðist Miami í rauninni vera í bullandi vandræðum á leið sinni inn í úrslitakeppnina, en við ætlum að treysta því að þetta smelli hjá þeim þegar þangað er komið eins og í fyrra.

Miami er með miklu betra lið en New York og þess vegna tapar það ekki mörgum leikjum, en sannið til að Knicks eiga eftir að gera þetta eftirminnilega seríu eftir sem áður.

New York liðið er bara ekki mannað til að gera hluti í úrslitakeppni. Á langt í land með það.

Tuesday, April 24, 2012

Bleikt súkkulaðiÆtli sé ekki hægt að telja þá á annari hendi, mennina sem hafa pung í að púlla fataval eins og Súkkulaðiþruman Darryl Dawkins í lokateiti New Jersey Nets í gær.

Dawkins rígheldur sér eins og alltaf, betur en Derrick Coleman - annar fyrrum leikmaður Nets sem er með honum á myndinni hér til hliðar.

Reyndar hefðum við reiknað með því að Coleman væri kominn í 400 pundin núna á miðað við prósentuna hans á síðustu árunum sínum í deildinni.

Hann lítur bara þokkalega út karlinn og heldur sér betur en fyrrum leikstjórnandinn hans Kenny Anderson. Sá hefur líklega lifað á McDonalds síðan hann varð blankur.

Hentum hérna inn nokkrum myndum frá lokaleik Nets í Newark í gær. Það er eiginlega dálítið sorglegt hvað gjörvallri heimsbyggðinni er skííítsama um að þetta lið sé að fara frá New Jersey.

Á sama tíma eru hörðustu stuðningsmenn Seattle Supersonics hvergi nærri hættir að vera bitrir út af ráninu á þeirra liði. Og þeir mega jú alveg vera það.Framvegis verður lítið um körfubolta í Newark


Körfuknattleiksfélagið New Jersey Nets hefur spilað sinn síðasta leik í Newark. Verður framvegis í Brooklyn frá og með næsta tímabili. Alltaf verið að breyta í NBA.

Saga Nets á undanförnum árum hefur ekki verið vörðuð stórsigrum og gleði, en liðið fór þó í lokaúrslitin í tvö ár í röð undir stjórn Jason Kidd (2002-03).

Sé eitthvað fólk í öngum sínum yfir flutningi þessum, hefur ekki heyrst mikið í því.

Þessir 300 manns frá Newark sem bera taugar til liðsins munu þurfa að leggja á sig ansi myndarlegt ferðalag til að fara á Nets leiki framvegis.

Stuðningsmennirnir halda niðri í sér andanum. Afar fátt bendir til þess að Deron Williams muni verða um kyrrt hjá félaginu þegar samningur hans rennur út.

Hann vildi fá Dwight Howard eða viðlíka leikmann með sér til Nets, en nú er útlit fyrir að enginn slíkur glans verði í boði. Hvort sem Jay-Z mætir á leiki eða ekki.

Megum til með að láta þetta stutta myndbrot fljóta með þessari hugleiðingu. Ætla má að þessi gaukur sé einn af 300 harðlínustuðningsmönnum Nets sem munu láta sig hafa þvælinginn til að styðja Nets áfram. En kannski hefur hann bara migið á rafmagnsgirðingu. Hver veit.

Sendingar ársins


Skondin tilviljun að aðeins þrír dagar hafi liðið milli sendingar ársins í NBA og Iceland Express deildinni.

Sending ársins í IE deildinni kom í gærkvöld í fyrsta leik Grindavíkur og Þórs í lokaúrslitunum. Þar var að verki Giordan Watson hjá Grindavík, sem átti fasta snúningssendingu af gólfinu inn í teiginn á Sigurð Þorsteinsson sem skoraði auðveldlega. Glæsileg tilþrif og hér fyrir neðan má sjá þau í boði Leikbrots. Ekki besta sjónarhornið, en það er gaman að eiga þetta á bandi.Sendingu ársins í NBA átti svo Manu Ginobili þann 20. apríl síðastliðinn. Þú hefur líklega séð þessa sendingu nú þegar en það leiðist engum að horfa á þessa bombu svona sautján sinnum í viðbót. Ritstjórnin er hugfangin af Ginobili einmitt vegna svona tilþrifa - án samkynhneigðar.

Monday, April 23, 2012

Það sem þú þarft að vita um úrslitaeinvígið


Úrslitarimman í Iceland Express deild karla hefst í kvöld klukkan 19:15 þegar Grindavík tekur á móti Þór frá Þorlákshöfn. Þið viljið auðvitað vita hvernig þetta fer allt saman, þess vegna eruð þið að lesa þetta.

Ef okkur misminnir ekki, höfum við spáð rétt fyrir um eitt einvígi í úrslitakeppninni fram að þessu, svo við getum sennilega slegið því föstu að Nostradamus er ekki staddur á ritstjórn NBA Ísland þetta árið frekar en önnur.

Það eina sem þú þarft að vita um einvígi Grindavíkur og Þórs er þetta:

Þórsliðið verður Íslandsmeistari ef það fær að spila sinn leik í úrslitunum. Þar eigum við auðvitað fyrst og fremst við varnarleik. Ef þór fær að spila vörn líkt og þá sem liðið spilaði gegn KR, á Grindavík eftir að eiga mjög erfitt uppdráttar.

Þór er eina liðið sem hefur tak á Grindavík í vetur, en þó það segi okkur kannski eitthvað, hefur það ekki úrslitaáhrif þegar komið er í þessa stórleiki sem framundan eru.

Varnarleikur, liðsandi, skipulag og barátta Þórsara hefur verið til algjörrar fyrirmyndar í úrslitakeppninni. Þórsarar hafa fengið að spila nokkuð fast og það er algjört lykilatriði fyrir liðið upp á framhaldið.

Ef dómarar ætla að taka fast á Þórsurum og flauta á þá villur í tíma og ótíma fyrir klapp og strokur, á liðið eftir að eiga mjög erfitt uppdráttar gegn deildarmeisturunum, sem hafa gríðarlega breidd í sínum röðum - jafnvel án Ólafs Ólafssonar. Þórsliðið hefur ekki þessa sömu breidd og er því illa statt ef það lendir í villuvandræðum.

Það er ekkert leyndarmál að erlendu leikmennirnir Watson og sérstaklega Bullock hafa dregið vagninn í sókninni hjá Grindavík í vetur og þeir verða að eiga ofurmannlegt einvígi svo Grindavík nái að standa undir pressunni sem sett var á liðið strax í haust.

Það eru margir mánuðir síðan því var haldið fram hér á þessari síðu, og víðar auðvitað, að það yrði hreinlega skandall ef Grindavík næði ekki að landa titlinum með þennan mannskap. Við stöndum við það, en það er nú reyndar ekki langt síðan að þetta saman var sagt um ofurlið KR. Jón Arnór og félagar lönduðu titlinum á sínum tíma, en ekki fyrr en í síðustu sókn í oddaleik. Þetta dæmi sýnir að það er ekkert gefið í körfubolta og þess vegna elskum við þennan leik svona heitt.

Við ætlum ekki að reyna að fara leynt með það að Þórsliðið hefur unnið hug okkar og hjörtu með frammistöðu sinni í vetur og því er það okkur þungbært að spá liðinu Íslandsmeistaratign. Sá spádómur einn og sér ætti að tryggja Grindavíkurliðinu titilinn.

Við ætlum samt að halda okkur við það að spá nýliðunum í Þorlákshöfn sigri. Varnarleikur þeirra og barátta - auk fyrirfram séðrar ofurframmistöðu Darrin Govens mun tryggja þetta.

Ritstjórnin

Thursday, April 19, 2012

Sturtað


Nýliðarnir úr Þorlákshöfn eru komnir í úrslit


Það hefur verið frábært að fylgjast með framgöngu nýliða Þórs úr Þorlákshöfn í Iceland Express deildinni í vetur. Ævintýrið hans Benedikts Guðmundssonar virðist engan endi ætla að taka og nú eru piltarnir hans komnir í lokaúrslit Íslandsmótsins, fyrstir nýliða.

Þeir sem efast um sannleiksgildi klisjunnar um að vörn vinni titla eru vinsamlegast beðnir að halda áfram að lesa. Vissulega eru Þórsarar ekki búnir að vinna titilinn, en sama hvað gerist er ljóst að liðið mun í versta falli veita liðinu sem stendur uppi sem Íslandsmeistari harða samkeppni. Í besta falli taka titilinn.

Velgengni Þórs er að okkar mati byggð á því að í Þorlákshöfn er búið að halda rétt á spilunum í að byggja upp körfuboltalið. Allt helsta hráefni til að búa til velgengniköku er til staðar.

Traust stjórn með metnað. Öflugur stuðningur. Góður þjálfari með plan, sem fær leikmenn til að kaupa það sem hann ætlar að gera - menn sem treysta honum og eru tilbúnir að láta lífið fyrir málstaðinn. Öflugur varnarleikur, góða rulluspilara, neyðarkarl, nokkra sigurvegara og fjóra til fimm rétta í Kanalottóinu.

Allt þetta hefur Þór. Prógrammið hefur verið til staðar í vetur og óhugnarlegur varnarleikur + ofurmannleg frammistaða Darrin Govens gera það að verkum að liðið er komið alla leið í úrslit. Reyndar má alls ekki gleyma því að hver einasti maður í Þórsliðinu lyfti leik sínum um þrep í rimmunni við KR - ekki bara Govens.

Ef Þór fær að halda áfram að spila sinn (varnar) leik í lokaúrslitum er ljóst að það verður mjög erfitt að eiga við þá, nánast ómögulegt eins og KR fékk að kynnast.

Talandi um KR. Íslandsmeistararnir eru dottnir úr leik. Þeir voru að okkar mati með hörkulið, en þurftu lengri tíma til að komast að því hverjir þeir væru. Þú verður að vita út á hvað liðið þitt gengur þegar þú ferð inn í svona stríð eins og á móti Þór.

KR-ingar munu væntanlega reyna að sleppa við að skipta um lið á miðjum vetri á næstu leiktíð og þá fara þeir lengra. Vonandi fær Hrafn að halda áfram að byggja upp í Vesturbænum. Hann á skilið prik fyrir auðmýkt og prúðmennsku sem hann sýndi eftir að hans menn féllu úr leik.

Monday, April 16, 2012

Þór virðist vera betra en KR í körfubolta


Þór í Þorlákshöfn er í dag betra körfuboltalið en KR. Nýliðarnir geta tryggt sér sæti í úrslitaeinvíginu ef þeir klára KR á heimavelli í fjórða leiknum. Merkilegt staða sem hér er komin upp.

Varnarleikur Þórsara er stórkostlegur og baráttan og samheldnin í liðinu er engu lík. KR-ingar spila dálítið eins og þeir hafi kynnst í gær. Sóknarleikurinn er vandræðalegur og endar oftar en ekki á neyðarskoti frá Utanbæjar-Brown. Hann er kaldur og náði heldur ekki að gera liðsfélaga sína betri.

Darrin Govens er ekki kalt. Hann er meira svona sjóð-bullandi-heitur. Setjum hendur niður með síðum og útnefnum hann besta sóknarmann sem staddur er á Íslandi. Og hann kann líka að gefa boltann.

Tölurnar hans í einvíginu við KR:

27,6 stig, 8 fráköst, 6,3 stoðsendingar, 3,7 stolnir, 60% úr þristum og 35,7 í framlag. 

Mögnuð frammistaða hjá þessum sérstaka leikmanni. Frábært að horfa á hann spila. Nú er KR búið að króa sig af úti í horni og það væri aumt að sjá liðið detta út án þess að slá svolítið frá sér. Við erum alltaf með sama óskalistann. Viljum bara fá sem flesta leiki í þetta.

Það er ljóst að Þór er fjórum sigrum frá því að gera eitthvað alveg sérstakt í körfuboltasögu þessa lands og það er frábært að fá að fylgjast með því lifandi og í beinni.

Dwayne Schintzius allur


Dwayne Schintzius lést í gær, 15 apríl 2012, eftir langa baráttu við illvígan sjúkdóm.

Miðherjinn kaldhæðni var stundum spurður að því hvernig veðrið væri þarna uppi eins og gjarnan er með menn sem eru um og yfir 210 sentimetrar á hæð. "Það eru skúrir," sagði Schintzius einu sinni og hrækti á viðmælanda sinn.

Blessuð sé minning hans.

Sunday, April 15, 2012

Saturday, April 14, 2012

Áætlun Stjörnumanna að ganga upp


Holdafar íþróttafréttamanna hefur oft verið vinsælt umræðuefni þegar fólk er að spjalla - t.d. á Twitter.

Á síðasta ári skrifuðum við smá pung til gamans þegar Stjörnumenn röðuðu upp þrekhjólum fyrir aftan bekkinn hjá sér.

Í framhaldinu settum við fram  kenningu um að þetta væri ætlað til að koma fitubollunum í íþróttafréttunum í betra form í stað þess að bjóða þeim upp á bakkelsi, gos og gotterí.

Einmitt þess vegna urðum við bara að segja frá merkilegum hlut sem við urðum vitni að undir lok annars leiks Stjörnunnar og Grindavíkur.

Karfan með Prins Pólóinu var nánast full og leikurinn að verða búinn. Kaffið var drukkið en svo virðist sem sportpennarnir hafi nær allir neitað sér um súkkulaði á íþróttaviðburði. Það verður að teljast til tíðinda. Batnandi mönnum er best að lifa.

Iceland Express deildin í Excel
Finnur Torfi Gunnarsson, forsprakki excel.is, er ekkert annað en snillingur og er sérlegur aðstoðarmaður ritstjórnar í tæknimálum þegar kemur að Hlaðvarpinu. Finnur er nú búinn að rúlla nýafstaðinni leiktíð í Iceland Express deild karla inn í Excel. Hvetjum alla til að kíkja á þessa snilld hér

Russell Westbrook er sæmilegur íþróttamaður


Thursday, April 12, 2012

Monday, April 9, 2012

Greiðar yfir Splitter


Skin og skúrir í körfuboltanum hjá Boris DiawFlestir eru á því að San Antonio hafi gert ágæt kaup þegar það ákvað að krækja sér í franska framherjann Boris Diaw eftir að hann fór í fýlu hjá Charlotte Bobcats.

Diaw er félagi Tony Parker í franska landsliðinu og þeir þekkjast mjög vel. Diaw er mjög fjölhæfur leikmaður þrátt fyrir að vera stundum í vandræðum með að halda sér í kjörþyngd.

Diaw hefur ekki spilað með almennilegu liði síðán hann var í frábæru liði Phoenix Suns hérna um árið, en nú er hann allt í einu farinn frá lélegasta liði deildarinnar í það fagmannlegasta.

Það er ekki hægt annað en að hlæja að því að Boris Diaw er 9-0 á þeim c.a. þremur vikum sem hann hefur verið í liði Spurs, en Kettirnir í Charlotte voru 7-37 þegar hann fór þaðan.

Það tók hann sem sagt innan við þrjár vikur að vinna fleiri leiki hjá Spurs en hann hafði unnið á næstum fjórum mánuðum með Bobcats. Þetta er lygilegt.

Sunday, April 8, 2012

Til hamingju með daginn, Hondo (72)


Óæskileg tölfræði Nick Young


Menn voru á báðum áttum þegar LA Clippers fékk Nick Young í sínar raðir í vetur.

Young kom frá Washington og þekkir því ekkert annað en að tapa á ferlinum. Hann hefur þó komið boltanum í körfuna annað slagið og því tóku forráðamenn Clippers þá ákvörðun að semja við hann.

Við höfum ekki horft á marga leiki með Nick Young, en við fréttum af tölfræði sem verður líklega til þess að við nennum aldrei að horfa á hann spila - jafnvel þó hann sé að spila með skemmtilegu liði Clippers.

Nick Young er eini leikmaðurinn í sögu NBA sem hefur ekki náð að gefa 350 stoðsendingar samhliða því að skora yfir 3500 stig. 

Og núna er hann búinn að bæta við metið - er kominn í 4000 stig, en enn ekki kominn með 350 stoðsendingar.

Hann er með EINA stoðsendingu að meðaltali í leik á ferlinum og hefur meira að segja lækkað í stoðsendingum síðan hann kom til Clippers.

 Stundum fá menn stoðsendingu þegar þeir missa boltann til félaga sinna eða skjóta loftboltum. Sendingarnar sem Young hefur fengið skráðar á sig hljóta að vera byggðar á slíkum mistökum.

Ef við skoðum menn í hans stöðu til samanburðar, er hann í 32. sæti yfir stoðsendingahæstu skotbakverðina í NBA í vetur. Það er með ólíkindum að leikmaður - og það bakvörður - sé með vinnu þrátt fyrir þennan hrikalega veikleika ef svo má segja.

Friday, April 6, 2012

Meira af NBA Ísland í Chicago


Leikmenn Knicks gætu átt yfir höfði sér fangelsisvist


Fyrirsögnin er kannski dálítið ýkt, en samt ekki. Hér er á ferðinni grafalvarlegt mál.

New York tekur hvorki meira né minna en 22,6 þriggja stiga skot að meðaltali í leik. Aðeins tvö lið reyna fleiri langskot en Knicks að meðaltali í leik. Orlando leiðir deildina með 27 tilraunir eins og flestir vita og New Jersey er svo með næstflestar tilraunir, rétt rúmar 23 í leik.

Orlando getur að einhverju leyti réttlætt fyrir sér skotgleðina, því liðið er með þriðju bestu þriggja stiga nýtinguna í deildinni (38%) á eftir San Antonio og Golden State.

New York hinsvegar, úff. Liðið er aðeins með 31,7% nýtingu fyrir utan. Þegar skoðað er hvaða menn það eru sem eru skotglaðastir hjá New York, má sjá að þeir eru flestir með hreint út sagt hræðilega nýtingu.

Aðeins 3ja stiga sérfræðingurinn Steve Novak er að hitta vel fyrir utan, en hann er reyndar að hitta svo vel að hann er með bestu nýtingu allra leikmanna í deildinni - 47,8% sem er frábært.

Á hinum endanum er vissara að Knicks-aðdáendur taki inn róandi lyf áður en farið er í upptalninguna. Þannig eru Carmelo Anthony og meinta skyttan JR Smith aðeins með 29% nýtingu úr djúpinu og þeir Baron Davis og Mike Bibby slá þeim við með 28% og 26%.

Meira að segja kraftaverkið Jeremy Lin er langt fyrir neðan það sem talist gæti ásættanlegt með 32%.

Grófastur af þeim öllum er svo Toney Douglas, sem einhverra hluta vegna hefur ekki verið handtekinn fyrir að taka 3,5 þriggja stiga skottilraunir í leik og nýta aðeins 23% þeirra. 

Tuttugu og þrjú prósent!

"Ma, ma, ma, ma, ma bara skilur´ettekki!" - Ragnar Reykhás*

*- Gefum sjálfum okkur strax kúdós fyrir að kvóta Ragnar Reykhás hér á síðunni. 
    Gríðarlega ferskur karakter sem á nóg inni eins og allir vita.

NBA Ísland í United CenterBjörgvin Ólafsson, einn af lesendum NBA Ísland, skellti sér á leik Chicago og Boston í nótt. 

Það er ekki mikið að því að fá svona góða kynningu þarna úti - ekki síst á NBA leik.

Algjör snilld raunar. 

Það eru enn nokkrir bolir eftir á lagernum ef þú hefur áhuga á að representa NBA Ísland með þessum hætti. 

Hafðu samband á nbaisland@gmail.com ef þig langar í bol eða ef þú átt svona skemmtilega mynd af þér í NBA Ísland bol.


Við höfum rosalega gaman af svona löguðu.

Framlengdur oddaleikur Star og Kef í Ásgarði í kvöld:


Einvígi Stjörnunnar og Keflavíkur í fyrstu umferð úrslitakeppninnar lauk í kvöld með naumum sigri Stjörnumanna eftir framlengdan oddaleik. Það er eiginlega grábölvað að þetta hafi aðeins verið þriggja leikja séría, svo skemmtileg var hún. Hefði verið hið besta mál að sjá tvo leiki í viðbót í þessum slag.

Auðvitað fór það svo að spáin okkar um Keflavíkursigur fauk út í veður og vind, en lærisveinar Sigurðar Ingimundarsonar voru mjög nálægt því að stela þessu. Mun nær en flestir spáðu. Eins og við minntumst á eftir fyrsta leik liðanna, er Stjarnan bara með fleiri góða leikmenn en Keflavík. Þar lá munurinn.

Nær allir sem spáðu í þessa seríu sögðu (af gömlum vana) að Magnús Þór Gunnarsson væri x-faktórinn í einvíginu. Ef hann hrykki í gang ætti Keflavík möguleika. Það kom líka á daginn. Magnús hitti illa í seríunni og var í strangri gæslu hjá besta manni einvígisins, Marvin Valdimarssyni.

Marvin spilaði eins og kóngur í leikjunum þremur og var með 20 stig að meðaltali. Hann hirti 6,3 fráköst og var með 60% skotnýtingu - 50% í þristum. Varnarleikur hans á Magnús Þór var algjört lykilatriði í seríunni.

Þið vitið að eftirfarandi setning er að koma og hér kemur hún:

Jarryd Cole hefði þurft að sjá meira af boltanum í sókninni. Hann er frábær sóknarmaður og það réði enginn neitt við hann hjá Stjörnunni þegar hann tók sig á.

25 stig, 12 fráköst, 2 varin og 65% skotnýting hjá Cole í einvíginu og eitthvað segir okkur að þessi piltur gæti fengið vinnu hér á landi á næstu leiktíð ef hann verður á lausu.

Eins og við sögðum var Stjarnan að fá sitt framlag úr fleiri áttum en Keflavík og það munaði miklu. Eitthvað af því ættu Keflvíkingar nú samt að geta lagað. Til dæmis fráköstin.

Vissir þú að tveggja metra mennirnir Halldór Halldórsson og Almar Guðbrandsson hirtu aðeins 14 fráköst samanlagt á 124 leikmínútum í einvíginu?

Til samanburðar má geta þess að bakvörðurinn Arnar Freyr Jónsson spilaði 12 mínútur í einvíginu og hirti á þeim 4 fráköst.

Þrátt fyrir hetjulega baráttu Keflavíkur er líklega heppilegra að Stjarnan fari áfram þar sem liði er með meiri breidd en Keflavík. Þar mætir Stjarnan öðru liði sem er með enn meiri breidd - Grindavík.

Það verður algjör veisla. Ekkert annað. En meira um það síðar. Við erum með skemmtilega spá þar líka.

Leikdagar undanúrslitum IE karla


Baráttan um 8. sætið í austrinu


Wednesday, April 4, 2012

Cleveland er að tapa heimaleikjum í körfubolta með svo afgerandi hætti að það er ritað í metabækur


Cleveland er aftur farið að gera Cleveland-lega hluti. Búið að tapa átta leikjum í röð og ellefu af tólf. Liðið setti met í nótt þegar það tapaði öðrum heimaleiknum í röð með 35 stiga mun (eða meira). Það hefur aldrei áður gerst í sögu NBA.

Þetta er gjörsamlega með ólíkindum.

Við notum auðvitað hvert einasta tækifæri sem við fáum til að skjót aðeins á Austurdeildina og grípum því annað hér.

Þegar yfirstandandi keppnistímabil var um það bil hálfnað, vorum við að hugsa með okkur að kannski hefði Byron Scott bara staðið sig nokkuð vel með þetta Cleveland-lið í vetur.

Cavs verður aldrei ruglað saman við gott körfuboltalið, en það var þó farið að vinna leik og leik.

Alveg er það dæmigert fyrir Austurdeildina að skítalið eins og Cleveland skuli fyrir stuttu síðan verið í bullandi séns á úrslitakeppni.

Það verður reyndar að gefa austrinu smá kúdós, því þar eru auðvitað tvö úrvalslið í Miami og Chicago og svo gæti það loksins gerst í vetur að öll liðin í austrinu sem komist í úrslitakeppni nái 50% vinningshlutfalli eða betur.

 Það hefur ekki gerst í mörg ár, sem að okkar mati er dálítið neyðarlegt, meðan slatti af liðum í Vesturdeildinni hefur þurft að sitja eftir og komast ekki í úrslitakeppnina þrátt fyrir að vera með yfir 50% sigurhlutfall.

En það verður að hrósa mönnum þegar þeir bæta sig og Austurdeildin virðist vera að pappíra sig. Það er alveg ljómandi.

Þeir sem sjá svo ekki fram á að komast í úrslitakeppnina detta svo bara í tankinn. Það er mjög vinsælt um þessar mundir (sjá: Golden State).

Þeir voru að verki þegar LA Clippers vann síðast nokkra körfuboltaleiki í röð


Clippers liðið er búið að vinna sex leiki í röð, þökk sé voðalega kósi fimm leikja heimavallarrispu. Gott hjá þeim eftir erfiðar vikur þar á undan sem þó nægðu ekki til að koma þjálfaranum í kurlarann.

Flest lið í NBA deildinni fara nú ekkert á rönguna þó þau vinni sex leiki í röð, en þú verður að taka öllu sem býðst ef þú ert LA Clippers.

Þetta er nefnilega í fyrsta sinn síðan árið 1992 sem Clippers vinnur sex deildarleiki í röð. Það eru tuttugu ár góðir hálsar. Til samanburðar má nefna að Dallas, sem var lélegra lið en Clippers á löngum kafla, hefur unnið sex leiki í röð eitthvað í kring um 25 sinnum á þessum tuttugu árum.

Hvað er langt síðan árið 1992 var og hét? Okkur finnst langt síðan, en þó ekki lengra en svo að það var nýliðaárið hans Shaquille O´Neal í deildinni - og hann er nýhættur.

Við hentum hérna inn tveimur myndum til að sýna ykkur hvaða leikmenn voru í helstu hlutverkum hjá Clippers þegar liðið vann síðast sex í röð leiktíðina ´91-92, en þá náði liðið reyndar líka að vinna átta leiki í röð á öðrum tímapunkti.

Larry Brown tók við þjálfun liðsins á þessu tímabili og aðalspaðar liðsins voru Ron Harper, Mark Jackson, Danny Manning, Ken Norman, Olden Polynice, Gary Grant og Loy Vaught svo einhverjir séu nefndir.

Á þessum árum var Clippers-liðið Spútniklið, en datt út úr úrslitakeppninni í fyrstu umferð ´92 og ´93 og þannig fór um sjóferð þá. Síðan hefur liðið komist hvorki meira né minna en tvisvar sinnum í úrslitakeppni. Datt út í fyrstu umferð ´97 og annari árið 2006.

Jú, fjandakornið. Það er langt síðan árið 1992.

Manu Ginobili og Svarti Folinn


Það er ekkert leyndarmál að ritstjórn NBA Ísland hefur gríðarlegt dálæti á Manu Ginobili, leikmanni San Antonio Spurs.

Það er satt best að segja pínulítið kjánalegt hvað við elskum þennan leikmann, jafnvel þó hann eigi það til að floppa svolítið.

Ginobili yrði sjötti maður hjá okkur ef við þyrftum að setja saman úrvalslið allra tíma.

Ginobili er búinn að vinna nánast allt sem hægt er að vinna í körfubolta og það gjarnan oftar en einu sinni.

Ginobili er einn vanmetnasti leikmaður sinnar kynslóðar í NBA. Ginobili er sigurvegari í orðsins fyllstu merkingu.

Lítið dæmi:

Vissir þú að San Antonio er 10-1 þegar Ginobili spilar 25 mínútur eða meira á leiktíðinni? Og vissir þú að San Antonio er með 83% vinningshlutfall frá upphafi leiktíðar 2010-11 þegar Ginobili er með og leikur áðurnefndan mínútufjölda?

Í öðrum fréttum er það helst að Tim Duncan segist vera í betra standi á skrokkinn nú en hann hafi verið í rúm þrjú ár.

Það er orðið nokkuð langt síðan við afskrifuðum San Antonio Spurs sem meistaraefni, til dæmis með þessum pistli. Þurftum ekki að éta það ofan í okkur í fyrra þegar liðið steinlá fyrir Memphis í fyrstu umferð úrslitakeppninnar, þrátt fyrir að hafa farið hamförum í deildakeppninni.

Það var nefnilega þannig að Memphis, án Rudy Gay, gjörsamlega hakkaði Spurs í fyrra. Þá hlaut að vera hægt að afskrifa liðið endanlega í baráttunni, eða hvað?

Nei, bíddu aðeins með það.

Við skulum standa við okkar og halda okkur við það að segja að Spurs eigi ekki eftir að vinna annan titil í tíð Pop, Manu, Duncan og Parker. Það er ekkert mál.

En þú þarft ekki að afskrifa liðið.

San Antonio var í basli með meiðsli í úrslitakeppninni í fyrra og ekkert lið í allri NBA deildinni hentar Spurs jafn illa og Memphis. Duncan og félagar myndu velja hvaða lið sem er til að mæta í úrslitakeppni nema Memphis, án gríns.

Snillingurinn Pop er búinn að sanka að sér fleiri leikmönnum í sumar og vetur, no-name gaurum sem gera það sem hann segir og hjálpa liðinu að vinna. Í bónus var hann svo að pikka þá Boris Diaw og Stephen Jackson upp og auka á breiddina.

Getur verið að San Antonio, sem hefur unnið átta í röð þegar þetta er skrifað, sé Svarti Folinn í úrslitakeppninni 2012 eftir allt saman?

Það væri amk alveg skoðandi að setja þúsara á þá í Vegas ef fjárhættuspil væru leyfileg.

Monday, April 2, 2012

KR lokaði á Króknum


KR og Grindavík eru komin í undanúrslitin í Iceland Express deild karla eftir að hafa klárað einvígin sín 2-0.

Grindavík átti alltaf að sópa grænum grönnum sínum, enda Njarðvík að okkar mati áberandi slakasta liðið í úrslitakeppninni.

Rimma KR og Tindastóls átti hinsvegar að verða jafnari. Það var hún í rauninni ekki og KR lokaði dæminu 2-0 eins og við spáðum.

Stólarnir börðust vissulega á heimavellinum í kvöld, en okkur fannst þó ekki sami dólgurinn í þeim og var í DHL höllinni á dögunum.

Kannski læddist inn einhver efi hjá Skagfirðingunum eftir tapið í Reykjavík. Ómögulegt að segja.

KR er því komið áfram á fagmannlegan hátt. Það er rosaleg pressa á liðinu með heimavöllinn í þessum 2-3 leikja seríum í fyrstu umferð og því þýðir ekkert að ætla að skokka í gegn um þessa leiki.

Það má ekkert út af bera. KR var ekki að bjóða upp á neinn blástur í þessum leikjum, en við höfðum það aldrei á tilfinningunni að þetta væri í einhverri hættu hjá þeim.

KR er tilbúið í slaginn.

Eitt verður að koma fram að lokum. Tímabært tuð, sem oft hefur heyrst áður reyndar.

Auðvitað er aldrei haugur af blaðamönnum á leikjum Tindastóls þegar liðið spilar á Króknum. Það er skiljanlegt. Það afsakar þó á engan hátt þá staðreynd að aðstaða fyrir blaðamenn er engin í Síkinu. Engin.

Blaðamenn þurfa ekki hægindastóla og fjögurra rétta máltíð þegar þeir mæta á leiki þrátt fyrir að þeir eigi það til að gantast með þessa hluti. Þeir þurfa hinsvegar að geta fengið sér sæti þar sem þeir geta fylgst með leiknum og hafa þráðlaust net. Menn ýmist hlógu eða hristu höfuðið þegar spurt var út í þetta á Króknum. Það hefði allt eins verið hægt að krefjast þess að leikurinn yrði spilaður utandyra.

Við verðum öll að átta okkur á þessu litla atriði:


Ef þú ert með lið í keppni í efstu deild í einhverri af boltagreinunum þremur og ert ekki með stóla, borð og klára nettenginu í húsinu fyrir blaðamenn - þá geturðu alveg eins pakkað saman og hætt þessu. 

Við ætlum ekki að skipta okkur af því hvernig menn gera þetta í fótboltanum og klísturglímunni þó þetta sé sjálfsagt þar líka, en þú bara tekur þig ekki alvarlega sem klúbb í úrvalsdeild ef þú ert ekki með netið klárt. Og það í úrslitakeppninni!

Tindastóll er alls ekki eina félagið sem er með allt niður um sig í þessum efnum. Hvernig væri að forráðamenn félaganna í Iceland Express deildinni myndu nú kíkja á netmálin hjá sér og reyna að hafa þetta í lagi einu sinni?

Þetta er ekki flóknasti hlutur í heimi og að vera ekki með klára tengingu í húsinu árið 2012 er eins og flogaveikur maður með bráðaniðurgang sem ætlar í Twister með Milu Kunis.

Sunday, April 1, 2012

Þá varð ekki aftur snúið
Stjörnuleikurinn árið 1989 er í miklu uppáhaldi hjá okkur, en það var í kring um þann tíma sem segja má að ekki hafi verið aftur snúið hvað áhuga okkar á NBA snertir.

Leikurinn var haldinn í Astrodome-höllinni í Houston fyrir framan tæplega 45 þúsund manns og var mjög fjörugur. Karl Malone var kjörinn verðmætasti leikmaðurinn með 28 stig og 9 fráköst og stórskyttan Dale Ellis bætti við 27 stigum. John Stockton var aðalleikstjórnandi vesturliðsins í fjarveru Magic Johnson og dældi út 17 stoðsendingum á þá Malone og Ellis sem kláruðu leikinn fyrir vestrið.

Leikurinn ´89 var jafnframt síðasti leikur Kareem Abdul-Jabbar sem valinn var inn í liðið í stað félaga síns Magic Johnson hjá Lakers. Þetta var 18. stjörnuleikur Jabbar og er það met sem stendur enn. Á myndinni hér fyrir ofan má sjá lið Vesturstrandarinnar.

Efri röð frá vinstri: John Stockton, Clyde Drexler, Dale Ellis, Alex English, James Worthy og Chris Mullin.
Neðri röð frá vinstri: Karl Malone, Kareem Abdul-Jabbar, Hakeem Olajuwon, Pat Riley þjálfari, Mark Eaton, Kevin Duckworth og Tom Chambers.

Þess má til gamans geta að Kevin Duckworth heitinn, sem þarna var að spila sinn fyrri af tveimur Stjörnuleikjum, á afmæli í dag - rétt eins og leikstjórnandinn Mark Jackson hjá New York sem þarna var að spila sinn fyrsta og eina Stjörnuleik á ferlinum með austurliðinu.

Það sem er þó eftirminnilegast við Stjörnuleikinn 1989 að okkar mati eru leikmannakynningarnar mögnuðu. Þetta árið voru þær rappaðar af Ultramagnetic MC´s og ef við vorum ekki þegar fallin fyrir NBA deildinni áður en við heyrðum þetta rapp, vorum við það sannarlega eftir Stjörnuleikinn árið 1989. Geggjað dæmi.