Wednesday, April 4, 2012
Manu Ginobili og Svarti Folinn
Það er ekkert leyndarmál að ritstjórn NBA Ísland hefur gríðarlegt dálæti á Manu Ginobili, leikmanni San Antonio Spurs.
Það er satt best að segja pínulítið kjánalegt hvað við elskum þennan leikmann, jafnvel þó hann eigi það til að floppa svolítið.
Ginobili yrði sjötti maður hjá okkur ef við þyrftum að setja saman úrvalslið allra tíma.
Ginobili er búinn að vinna nánast allt sem hægt er að vinna í körfubolta og það gjarnan oftar en einu sinni.
Ginobili er einn vanmetnasti leikmaður sinnar kynslóðar í NBA. Ginobili er sigurvegari í orðsins fyllstu merkingu.
Lítið dæmi:
Vissir þú að San Antonio er 10-1 þegar Ginobili spilar 25 mínútur eða meira á leiktíðinni? Og vissir þú að San Antonio er með 83% vinningshlutfall frá upphafi leiktíðar 2010-11 þegar Ginobili er með og leikur áðurnefndan mínútufjölda?
Í öðrum fréttum er það helst að Tim Duncan segist vera í betra standi á skrokkinn nú en hann hafi verið í rúm þrjú ár.
Það er orðið nokkuð langt síðan við afskrifuðum San Antonio Spurs sem meistaraefni, til dæmis með þessum pistli. Þurftum ekki að éta það ofan í okkur í fyrra þegar liðið steinlá fyrir Memphis í fyrstu umferð úrslitakeppninnar, þrátt fyrir að hafa farið hamförum í deildakeppninni.
Það var nefnilega þannig að Memphis, án Rudy Gay, gjörsamlega hakkaði Spurs í fyrra. Þá hlaut að vera hægt að afskrifa liðið endanlega í baráttunni, eða hvað?
Nei, bíddu aðeins með það.
Við skulum standa við okkar og halda okkur við það að segja að Spurs eigi ekki eftir að vinna annan titil í tíð Pop, Manu, Duncan og Parker. Það er ekkert mál.
En þú þarft ekki að afskrifa liðið.
San Antonio var í basli með meiðsli í úrslitakeppninni í fyrra og ekkert lið í allri NBA deildinni hentar Spurs jafn illa og Memphis. Duncan og félagar myndu velja hvaða lið sem er til að mæta í úrslitakeppni nema Memphis, án gríns.
Snillingurinn Pop er búinn að sanka að sér fleiri leikmönnum í sumar og vetur, no-name gaurum sem gera það sem hann segir og hjálpa liðinu að vinna. Í bónus var hann svo að pikka þá Boris Diaw og Stephen Jackson upp og auka á breiddina.
Getur verið að San Antonio, sem hefur unnið átta í röð þegar þetta er skrifað, sé Svarti Folinn í úrslitakeppninni 2012 eftir allt saman?
Það væri amk alveg skoðandi að setja þúsara á þá í Vegas ef fjárhættuspil væru leyfileg.
Efnisflokkar:
Manu Ginobili
,
Spurs