Wednesday, April 4, 2012
Þeir voru að verki þegar LA Clippers vann síðast nokkra körfuboltaleiki í röð
Clippers liðið er búið að vinna sex leiki í röð, þökk sé voðalega kósi fimm leikja heimavallarrispu. Gott hjá þeim eftir erfiðar vikur þar á undan sem þó nægðu ekki til að koma þjálfaranum í kurlarann.
Flest lið í NBA deildinni fara nú ekkert á rönguna þó þau vinni sex leiki í röð, en þú verður að taka öllu sem býðst ef þú ert LA Clippers.
Þetta er nefnilega í fyrsta sinn síðan árið 1992 sem Clippers vinnur sex deildarleiki í röð. Það eru tuttugu ár góðir hálsar. Til samanburðar má nefna að Dallas, sem var lélegra lið en Clippers á löngum kafla, hefur unnið sex leiki í röð eitthvað í kring um 25 sinnum á þessum tuttugu árum.
Hvað er langt síðan árið 1992 var og hét? Okkur finnst langt síðan, en þó ekki lengra en svo að það var nýliðaárið hans Shaquille O´Neal í deildinni - og hann er nýhættur.
Við hentum hérna inn tveimur myndum til að sýna ykkur hvaða leikmenn voru í helstu hlutverkum hjá Clippers þegar liðið vann síðast sex í röð leiktíðina ´91-92, en þá náði liðið reyndar líka að vinna átta leiki í röð á öðrum tímapunkti.
Larry Brown tók við þjálfun liðsins á þessu tímabili og aðalspaðar liðsins voru Ron Harper, Mark Jackson, Danny Manning, Ken Norman, Olden Polynice, Gary Grant og Loy Vaught svo einhverjir séu nefndir.
Á þessum árum var Clippers-liðið Spútniklið, en datt út úr úrslitakeppninni í fyrstu umferð ´92 og ´93 og þannig fór um sjóferð þá. Síðan hefur liðið komist hvorki meira né minna en tvisvar sinnum í úrslitakeppni. Datt út í fyrstu umferð ´97 og annari árið 2006.
Jú, fjandakornið. Það er langt síðan árið 1992.
Efnisflokkar:
Clippers
,
Metabækurnar
,
NBA 101