Friday, February 28, 2014

Ristill: Körfuboltalið New York Knicks er


Þetta er vægast sagt afdráttarlaus fyrirsögn, en hún er með þeim sannari sem skrifaðar hafa verið á þetta vefsvæði. Það er alveg sama hvernig þú teiknar það upp - hvort þú ert fullur eða edrú - hvort sem þú elskar eða hatar New York Knicks. Þetta körfuboltafélag er fullkomið rusl og stjórn þess, þjálfarateymi og leikmenn eiga ekki skilið að fá borguð laun síðustu fjóra mánuði.

New York var eitt af Spútnikliðum síðasta vetrar og óvænt gengi liðsins kom engum fagmanninum á óvart, því það er sama hvort um er að ræða hörðustu stuðningsmenn Knicks eða blaðamenn í Bandaríkjunum - allir virðast jafnan halda að Knicks-liðið sé um það bil helmingi betra en það er í raun og veru.

Og auðvitað héldu bæði sérfræðingar og vitleysingar þess vegna að Knicks myndi byggja á árangrinum á síðustu leiktíð og verða enn betra í vetur.

Sem dæmi um þetta má nefna spá þeirra ESPN-manna Jalen Rose í haust. Þeir eru einmitt skemmtileg blanda af sérfræðingum og vitleysingum og þeir spáðu því að New York yrði eitt af tíu bestu liðunum í NBA í vetur.

Eins og staðan er í dag, er New York ekki einu sinni eitt af tíu bestu liðunum í Austurdeildinni og þó vill svo vel til að þessi Austurdeild er sú lang, langlélegasta sem við höfum orðið vitni að á þeim áratugum sem við höfum fylgst með NBA deildinni.

Ef við skoðum töfluna í dag, eru sex lið með verri árangur en New York og nokkur þeirra eru búin að skipta frá sér öllum NBA leikmönnunum sínum og spila á D-deildarmönnum.

Utah Jazz er með betri árangur en New York Knicks þegar þetta er skrifað. Já, sama Utah Jazz liðið og efast var um að ætti eftir að vinna tíu leiki í vetur eftir að það byrjaði 1-14 í haust.

Ein af sorglegustu staðreyndunum við þetta allt saman er að aðalstjarna liðstins, Carmelo Anthony, er að eiga eina af sínum bestu leiktíðum síðan hann kom inn í deildina með LeBron James og Dwyane Wade árið 2003. Hann hefur aldrei spilað jafnmargar mínútur og hefur aldrei frákastað eins vel.

En það er engin fylgni milli spilamennsku Carmelo Anthony og stöðu Knicks í töflunni. Carmelo Anthony er fyrst og fremst skorari og er vissulega í heimsklassa sem slíkur, en þar með er öll sagan sögð.

´Melo nær ekki að gera hina fjóra mennina sem spila með honum betri, það er orðið augljóst og fyrir vikið kemst liðið hans aldrei yfir ákveðinn þröskuld.

Það eru strangar kröfur á hvaða körfuboltamann sem er að ætla honum að gera meðspilara sína betri, en það eru eðlilegar kröfur á mann í launaflokki og stöðu Carmelo Anthony. Það eru ekki nema örfáir leikmenn í NBA deildinni sem uppfylla þessar kröfur, en það eru líka hinar sannkölluðu ofurstjörnur.

Það er Carmelo Anthony ekki.

Carmelo Anthony er fyrst og fremst frábær skorari, sem er byrjaður að ógna um leið og hann stígur yfir miðju, en hann er langt frá því að vera hagkvæmur skorari og seint verður sagt að skotval hans sé mjög gott.

´Melo getur spilað ágætis varnarleik ef honum sýnist svo, en það er bara mjög sjaldan sem honum sýnist svo. Það er svo fyrst núna í vetur sem hann er að frákasta eins og hann hefur burði til, en fram til þessa hefur hann oftar en ekki verið með lélegar tölur í þeirri deildinni.

Lykilatriðin á bak við listina að gera meðspilara sína betri eru boltameðferð, sendingageta og útsjónasemi og þá gefum við okkur að viðkomandi leikmaður hafi líka áhuga á að gefa boltann - sé óeigingjarn. ´Melo hefur eitthvað af þessu, en hann virðist ekki hafa nægan áhuga á að eyða tíma í þessa þætti leiksins.

Sjáðu bara pilt eins og Paul George hjá Indiana, strák sem spilar sömu stöðu og Carmelo Anthony. Það eru mörg ár síðan menn vissu að George hefði alla burði til að verða stórstjarna, en áður en svo mátti verða þurfti hann að laga tvo stór atriði. Hann var jú alls ekki góður skotmaður og svo var hann með afleita boltameðferð.


Skottækni geta menn alltaf lagað og hún fer oftar en ekki batnandi hjá mönnum eftir því sem árin líða í NBA deildinni. George hefur enda bætt sig sem skotmaður og á sjálfsagt eftir að halda því áfram.

En það var ekki skottæknin sem varð til þess að hann fór frá því að verða efnilegur yfir í að verða einn af fimm bestu alhliðaleikmennum í deildinni. Það var boltameðferðin. Og hana bætti pilturinn stórlega með þrotlausri vinnu.

Boltameðferðin hjá Paul George er enn ekki eins og best verður á kosið og skotnýtingin hans er líka oft upp og ofan. Það er samt skondið að sjá það að á síðasta rúma ári eða svo, hefur George að okkar mati tekið fram úr Anthony.

Jú, jú, Melo er með eitthvað betri tölfræði, en þið megið ekki gleyma því að leikurinn fer fram á tveimur vallarhelmingum.

Svo má kannski minnast á að Indiana-liðið hans George (þó það sé vissulega betur mannað en Knicks) er búið að vinna meira en helmingi fleiri leiki en liðið hans Anthony (44 vs 21).

Við höfum hundrað sinnum skrifað um vandræðaganginn á Knicks og þá staðreynd að hann hefur alltaf byrjað á skrifstofunni.

Það er bara svo grátlegt að forráðamenn félagsins virðast alltaf svo staðráðnir í því að binda félagið í báða skó og reka það eins og íslenskan banka. Keyra allt áfram á glórulausum lánum og halda áfram að hnoða stærri og stærri snjóbolta sem bara stækkar og stækkar.

Það hefur legið í loftinu í fjölda ára, en ekkert hefur verið gert í því. Núna bendir hinsvegar flest til þess að verði ekki bara gerð uppstokkun hjá Knicks, heldur verði spilastokknum bókstaflega hent og nýr keyptur í staðinn.

Það hefur ekkert annað verið í stöðunni í nokkur ár, en forráðamenn Knicks virðast alltaf vera einu aðilarnir sem fatta það ekki.

Það er ómögulegt að segja hvað verður um Carmelo Anthony þegar þessi uppstokkun á sér stað, en það vill svo vel til að kappinn er með lausa samninga í sumar og því er augljóst að það kemur í ljós á næstu mánuðum hvort hann er í framtíðarplönum Knicks.

Vissulega er það hroki og besserwiss að segja svona, en ef forráðamenn Knicks ætla sér að gera eitthvað í framtíðinni, eiga þeir að láta Carmelo Anthony fara - hvort sem þeir fá eitthvað fyrir hann eða ekki.

Við erum löngu búin að sjá hvað lið getur náð langt með Carmelo Anthony sem aðalstjörnu, bæði með lélegan og þokkalega góðan mannskap í kring um hann. Ef metnaður Knicks gengur út á að vera í kring um 50% vinningshlutfallið og detta út í 1-2 umferð úrslitakeppninnar, er um að gera að semja við ´Melo sem fyrst.

Sé metnaðurinn meiri, verður hann að fara.

Og það krakkar, það er bara þannig.

Draumaliðið



Thursday, February 27, 2014

Þýðingarmikill sigur hjá Stjörnumönnum


Spennan í Domino´s deild karla er að verða óbærileg. Í kvöld fór fram sex stiga leikur í Ásgarði, þar sem heimamenn í Stjörnunni unnu nauman sigur á Snæfelli 93-88 í bráðfjörugum leik.

Sigurinn lyfti Garðbæingum upp fyrir Hólmara á innbyrðisviðureignum, því liðin eru jöfn að stigum í deildinni - Stjarnan í sjöunda sæti en Snæfell í því áttunda. Þetta getur þó átt eftir að breytast fljótlega, því ÍR ingar eru skammt undan og eiga leik inni. ÍR-ingarnir verða þó að komast upp fyrir bæði Stjörnuna og Snæfell, sem bæði hafa betri stöðu í innbyrðisviðureignum í vetur.

Haukarnir gerðu sér lítið fyrir og sóttu sigur í Keflavík í fyrsta skipti í einn og hálfan áratug á bak við þrennu frá Emil okkar Barja. Þeir eru ekkert að grínast þessir Hafnfirðingar og eru sannarlega að setja fjör í þennan lokasprett í deildinni eins og ÍR-ingarnir.

Það virðist vera smá deyfð yfir Keflvíkingum þessa dagana og heimildir okkar herma að andinn sé ekki með besta móti í herbúðum þeirra. Það er samt nægur tími fyrir Keflvíkingana til að snúa bökum saman og koma flottir inn í úrslitakeppnina.

Það er nánast sama hvert er litið, það er ljóst að það verður extra pressa á liðunum með heimavallarréttinn í úrslitakeppninni í vor, af því liðin í neðri sætunum eru mörg hver mjög óárennileg þessa dagana.

Hey, nokkrar myndir úr Ásgarðinum í kvöld =>





Monday, February 24, 2014

Hvítasta mynd vikunnar



Tvífarar vikunnar


Einhverjir eru eflaust ósammála okkur með þetta, en okkur dettur alltaf í hug Josh Homme, söngvari og gítarleikari rokksveitarinnar Queens of the stone age þegar við sjáum mynd af hinum litríka Louis van Gaal, landsliðsþjálfara Hollendinga.

Það er víst líka til smástirnabelti úti í geimnum sem heitir 14616 Van Gaal. Hvað sem því líður, erum við ekki að fara að búa til hasstagg úr orðinu smástirnabelti. Það er bara rugl.

300 hjá Spoelstra


Erik Spoelstra, þjálfari Miami varð í nótt sjötti þjálfarinn í sögu NBA til að vinna 300. leikinn sinn áður en hann tapaði þeim 150. Eins og þið sjáið á töflunni fyrir neðan er hann því kominn í mjög töff hóp með m.a. guðföður sínum Pat Riley og Phil Jackson.

Spoelstra er á sínu sjötta ári með Miami og er óðum að sanna að kannski sé hann bara ágætis þjálfari eftir allt saman, þó hann hafi ekki getað neitt í körfubolta og byrjað þjálfaraferilinn í vídeóspólunum.

Sigur Miami á Chicago í nótt þýðir að liðið er komið með 39 sigra og fjórtán töp. Þetta er fjórða árið í röð sem Miami er 39-14 á einhverjum tímapunkti í febrúar, sem er dálítið skondið.


Ruud



Sunday, February 23, 2014

Komandi kynslóð


Hann heitir LeBron James, hann er góður í körfubolta, setur upp 25/8/8 leiki, vinnur mót og er kjörinn verðmætasti leikmaður mótsins. Og hann er bara níu ára.

Þetta er annar sonur hans LeBron James - þú veist - besta körfuboltamanns í heimi. Pabbi var að fagna jr. á Instagram í kvöld eins og þið sjáið á myndinni hérna fyrir neðan.

Hugsið ykkur bara ef krakkinn erfir genetíkina frá föður sínum og við fáum annað svona náttúruundur inn í NBA eftir tíu ár!


Til hamingju Haukar


NBA Ísland óskar Haukastúlkum hjartanlega til hamingju með bikarsigurinn á Snæfelli í gær, 78-70. Ljósmyndari frá okkur sló þessu upp í kæruleysi og óð inn í kvennaklefann þar sem hann tók þessar hressu myndir af Haukastúlkunum baða sig kátar í kampavíninu.



Saturday, February 22, 2014

Beggja vegna veggspjaldsins


San Antonio og Phoenix skiptust á að veita hvort öðru andlitsmeðferðir í nótt eins og þú sérð í myndbrotinu hérna fyrir neðan. Það þarf varla að taka það fram að Phoenix-liðið drullaði yfir Spurs og heldur áfram að lifa í einhverjum allt öðrum veruleika en við hin - annari vídd. Þetta er löngu hætt að vera öskubuska.

Jeff Hornacek þjálfari virðist hafa selt djöflinum sál sína og stefnir á að vinna 50 leiki með undirmönnuðu Suns-liði sem spáð var að næði 20 sigrum í allra besta falli.

Vertu úti, Hornacek! Og þegiðu! Og farðu svo í lyfjapróf eða eitthvað!

Friday, February 21, 2014

Allir í Höllina



Murder was the Case



Kíkjum á þetta



Miami er enn að spila körfubolta - LeBron líka







































Meistarar Miami ákváðu í nótt að minna okkur á að þeir ætla að verða með í baráttunni um titilinn eins og venjulega, þegar þeir drulluðu yfir Oklahoma á útivelli, 103-81.

Skondið hvernig þessi leikur var andstæða fyrri viðureignar liðanna 29. janúar, þar sem Oklahoma vann auðveldan sigur í Miami þrátt fyrir að vera án Russell Westbrook.

Það eru helvíti litlar líkur á því að þú vinnir Miami þegar þrennan þeirra skorar yfir 80 stig og hittir úr tveimur af hverjum þremur skotum sínum. LeBron James spilar alltaf vel, en hvað ætlarðu að gera ef Chris Bosh skilar 24/8 og Dwyane Wade hleður í 24/7/10?

Akkúrat ekkert. Þú vinnur ekkert svoleiðis.

Gaman að sjá LeBron James stimpla sig svona skemmtilega inn í MVP umræðuna með frammistöðu sinni í síðustu leikjum.

Þessi sigur hans á Kevin Durant bæði í leiknum og á tölfræðisviðinu færir honum nokkur stig í MVP baráttunni.

James er með 30/9/8/3 meðaltal í febrúar, þar sem Miami hefur bara tapað einum leik - þegar það sofnaði í Utah á dögunum.

Já, hann LeBron er ekkert búinn að segja sitt síðasta. Hann segir að það skipti hann ekki miklu máli, en það er ekki rétt.

James er búinn að hljóta þessa nafnbót fjórum sinnum nú þegar og ef hann tekur þetta einu sinni enn, verður hann aðeins einn af fjórum leikmönnum í sögunni til að vera kjörinn MVP fimm sinnum.

Það er Kareem Abdul-Jabbar sem á metið í þessu, en hann var sex sinnum kjörinn verðmætasti leikmaður ársins á sínum tíma (1971, '72, '74, '76, '77, '80).

Þeir Michael Jordan (1988, '91, '92, '96, '98) og Bill Russell (1988, '91, '92, '96, '98)  hirtu þetta fimm sinnum, LeBron (2009, ´10, ´12, ´13) og Wilt Chamberlain (1960, '66, '67, '68) fjórum sinnum og næst koma þeir Magic Johnson (1987, '88, '90), Larry Bird (1984, ´85 og ´86) og Moses Malone  (1979, '82, '83).

Það er ljóst að James á möguleika á því að komast í sögubækurnar í þessum efnum, því hann er ekki nema 29 ára gamall.

Ef við gefum okkur að hann haldi áfram að vera svona hrikalegur næstu árin, er alls ekki ólíklegt að hann komist upp að hlið Kareem - eða jafnvel einn á toppinn. Ekki gleyma því að Michael Jordan var t.d. tvisvar valinn MVP eftir þrítugt (32 og 34 ára), svo þetta er ekkert útilokað.

Aðdáendum Kevin Durant er þrátt fyrir þetta alveg óhætt að anda rólega. Hann á eftir að lyfta þessari styttu lágmark 1-2 á ferlinum. Hver ætti svo sem að hirða hana af honum og James á næstu árum?

Thursday, February 20, 2014

Monday, February 17, 2014

ÍR-ingar gera sig breiða


Himininn er blár, vatn er blautt og ÍR vaknar úr rotinu með hækkandi sól.

ÍR vann enn einn leikinn í kvöld þegar það lagði Stjörnuna 106-99 í einstaklega áhorfendavænum leik í Hellinum.

Í haust voru stuðningsmenn ÍR helst að vona að liðið myndi nú ná að halda sér í deildinni, en nú er annað hljóð komið í mannskapinn.

Heimildir okkar herma að liðið sé búið að vinna 6 af 8 leikjum eftir áramót og þar af er naumt tap fyrir KR þar sem ÍR var vængbrotið án Matthíasar Sigurðarsonar.

Það er alltaf gaman þegar lið sem hafa verið í vandræðum ná að rífa sig upp og komast á beinu brautina og nú er svo komið að Breiðhyltingarnir eru allt í einu komnir upp að hlið Stjörnunnar og Snæfells í 7.-9. sæti deildarinnar.

Menn þurfa svo sem ekkert að vera hissa á því að þetta ÍR-lið sé gott, fjandakornið. Sjáðu bara jafnt og gott framlag lykilmanna liðsins í sigrinum á Stjörnunni í kvöld.

Stórhöfðinginn Sveinbjörn Claessen skilaði 22/7, Hjalti Friðriksson 20/7/8, Björgvin Ríharðsson 18, Nigel Moore 16/12/9, Matthías Orri 16/7 og svo koma spaðar eins og Ragnar Örn Bragason inn í nokkrar mínútur og henda inn 12 stigum (4/5 í þristum). Það er ekkert að þessu!

Þetta var ekki amalegt veganesti fyrir Breiðhyltinga fyrir bikarúrslitin um helgina og ef þeir spila eitthvað í líkingu við það sem þeir gerðu í kvöld, getur allt gerst í Höllinni.

Leikmenn og þjálfarar Stjörnunnar voru augljóslega hund-pirraðir eftir tapið í Hellinum í kvöld. Þeir voru aftur komnir með Matthew Hairston inn í liðið eftir leikbann, en varnarleikur liðsins var bara alls ekki nógu góður.

Eins og við komum inn á í upphafi, var leikurinn í kvöld mjög áhorfendavænn, því á löngum köflum var bara allt í  - beggja vegna vallarins.

Ætli Teitur og félagar nái ekki að skrúfa sig saman og laga þetta hjá sér. Annað kæmi okkur á óvart. En það er ljóst að nú má ekki misstíga sig neitt. Það er stutt í vorið og baráttan  um sæti í úrslitakeppninni verður rosalega hörð.









Sunday, February 16, 2014

Magnús setti 60


Eins og þið vitið er NBA Ísland aldrei nokkru sinni með puttann á púlsinum þegar kemur að fréttamolum í körfuboltanum hér heima og erlendis.

Í kvöld gerði stórskyttan Magnús Þór Gunnarsson hjá Keflavík sér lítið fyrir og skoraði 60 stig í einum og sama leiknum með b-liði Keflvíkinga í sigri þess á b-liði Skallagríms. 

Engan þarf að undra að stigin 60 komu öll úr þriggja stiga skotum, enda engin ástæða til að vera að hnoðast inni í teig þegar lið eru með mann sem setur niður 20 af 35 þristum.

Við erum auðvitað alls ekki fyrsti miðillinn sem segir frá þessu skemmtilega afreki Magnúsar, en við göngum hér skrefinu lengra og sýnum ykkur skotkortið hans Magnúsar úr leiknum. 

Þetta er þjónusta sem við efumst um að þið fáið á hinum miðlunum. Það var ekkert.


Friday, February 14, 2014

Steve Nash neitar að gefast upp


Grantland hefur verið að fylgja Steve Nash eftir í endurhæfingunni hjá Lakers. Hann heldur fast í drauminn um að fá að vera sæmilega heill í einhvern tíma svo hann geti gefið fólkinu eitthvað fyrir peninginn. Nash hefði ekki náð eins langt og raun ber vitni ef hann væri ekki baráttumaður. Kíktu endilega á myndbandið hérna fyrir neðan, þar sem þú getur meira að segja fengið að fylgjast með því hvernig Nash fær sprautur á kaf í anusinn á sér.

Grindavík sótti stigin í Ásgarðinn


Íslandsmeistarar Grindavíkur sóttu Stjörnuna heim í úrvalsdeildinni í gærkvöldi og höfðu nokkuð sannfærandi sigur 94-90.  Stjarnan var sem fyrr án Júníors Hairston sem tekur út leikbann og munar um minna. Það var nú samt gaman að horfa á Garðbæingana berjast fyrir sínu svona Kanalausa. Þeir voru alveg í séns, en þetta var bara ekki að detta fyrir þá.

Nú er lið Stjörnunnar annars loksins að skríða saman eftir mikil meiðsli framan af vetri og því forvitnilegt að sjá hvernig það flýtur inn í vorið. Íslandsmeistararnir eru bara að chilla í kring um þriðja sætið og hafa engar stórar áhyggjur af þessu öllu saman. Hérna eru nokkrar myndir