Sunday, November 29, 2015

NBA vertíðin fer ekki eftir handritinu í haust


... og Golden State vinnur allt, alltaf. Þannig er helst að lýsa meisturum Warriors þessa dagana. Fólk er að verða hætt að nenna að tala um þá, þeir eru svo góðir. Það eina sem þeir gera er að slá met og vinna körfuboltaleiki, en ef maður er atvinnumaður eða kona í körfubolta á annað borð, er svo sem ekki galið að verja tíma sínum í þetta tvennt.

Nú síðast settu Stríðsmennirnir ungu nýtt NBA met með því að salla fimmtán þristum (úr fokkíngs 20 tilraunum) og 75 stigum í andlitið á aumingja Phoenix í fyrri hálfleik viðureignar liðanna í nótt. Slökuðu svo á í seinni og luku leik með "aðeins" 22 þrista, sem er félagsmet á þeim bænum og aðeins einum þristi frá NBA metinu í eigu Orlando (2009) og Houston (2013).


Þetta met yfir flesta þrista liðs í leik er líklega eitt ótryggasta metið í NBA í dag, því Warriors-liðið er búið að vera í svo miklu stuði að við höfum á tilfinningunni að það sé dagaspursmál hvenær það slær þetta met.

Hvað ætti til dæmis að aftra Steph Curry frá því að salla 15 þristum á Sacramento í nótt? Vinur hans Klay Thompson skoraði 37 stig í einum leikhluta á Kings í fyrra - því ætti Steph ekki að geta sett tíu þrista í einum leikhluta á móti liði sem hefur ekki hugmynd um hvað það er að gera? Ætti að vera kinderspiel.Skotin sem Stephen Curry er að setja niður eru sum hver bara móðgandi. Sjáðu til dæmis bull-skotið sem hann setti í grillið á vesalingnum honum Ronny Price hérna fyrir ofan. Þetta er nákvæmlega ekkert kirkjurækið við þetta hjá þér, Steph. Þetta er dónaskapur.

Hvurn fjandann eigum við svo sem að segja um þetta Warriors-lið sem hefur ekki þegar verið sagt? Við gætum sýnt ykkur skotkortið hans Steph Curry eins og það lítur út í dag, en þið mynduð örugglega halda að við hefðum fótósjoppað það af því það er svo mikið endemis rugl. Nema þér finnist svona hittni kannski bara eðlileg (rautt þýðir hittni undir meðaltali í deild frá viðkomandi svæði á vellinum, gult þýðir c.a. meðaltal í deildinni en grænt þýðir yfir meðaltali - við erum búin að fara oft yfir þetta. Tölfræðin sýnir okkur sumsé að Curry sé að "yfir meðaltal-a yfir sig" í nóvember.
Þá gætum við prófað að bjóða upp á stutta draugsýn frá leik Warriors og Suns í nótt, svona til að brjóta þetta aðeins upp meðan við pælum í því hverju þetta lið tekur upp á næst.Eins og þið vitið erum við alltaf að taka stöðuna í NBA deildinni fyrir ykkur og því er óhjákvæmilegt að við séum stundum að tyggja það sama aftur og aftur. Golden State er t.d. að verða tugga af því það vinnur alltaf.

Í ljósi þess hve stutt er síðan við tókum síðustu vörutalningu (og hvað við erum húðlöt) ætlum við frekar að skrifa hérna niður nokkra hluti sem vakið hafa athygli okkar í NBA deildinni undanfarna daga. Það er nefnilega fjandi margt og sumpart áhugavert.

Það merkilegasta við fyrsta mánuðinn á leiktíðinni er að sjálfssögðu sú staðreynd að Golden State sé búið að gleyma því hvernig á að tapa (þegar þetta er ritað eru nákvæmlega tíu mánuðir síðan liðið tapaði síðast heimaleik í deildarkeppninni, sem er eðlilegt).


Án þess að vera með neikvæðni og leiðindi, skulum við ekki gleyma því hvað NBA deildin er grimm og vægðarlaus. Lögmál Murphys er alltaf í gildi og hversu oft höfum við ekki séð lið sem eru á löngum sigurgöngum detta á andlitið ofan í drullupoll þegar þeim skrikar aðeins fótur?

Það er nefnilega svo skondið að Golden State, sem tapaði aðeins 15 leikjum á síðustu leiktíð, tapaði fjórum sinnum tveimur leikjum í röð.

Og þessi fjögur "tvítöp" komu eðli málsins samkvæmt eftir góðar sigurgöngur, sem er dálítið sérstakt. Sum þeirra höfðu beint með leikjaröðina að gera (t.d. tveir erfiðir útileikir í restina af löngu keppnisferðalagi), en önnur ekki.

Og hvað erum við að fara með þessu? Jú, ef Warriors myndi hiksta aðeins og endurtaka leikinn í næstu viku - tapa tveimur í röð - myndi muna nákvæmlega einum leik á þeim og San Antonio.

Einum fjandans leik.

Það er svona viðbjóðslega stutt á milli í þessu og leikmenn Warriors vita það 100% þó sumir þeirra hafi ekki mikla reynslu.

Eitt af því fyrsta sem þú kemst að þegar þú byrjar að spila í NBA, er nefnilega að loksins þegar hlutirnir byrja að meika sens og allt fer að verða gaman, áttu leik við San Antonio og þá fer allt umsvifalaust til helvítis í handtösku. San Antonio neyðir þig til að spila sinn leik og tekur þig í leiðinni gjörsamlega út úr þínum leik.

Saturday, November 21, 2015

Meira af raunum hvíta mannsins


Goðsögnin um "Hvíta Líkið" (ens. White Stiff) lifir enn góðu lífi í NBA deildinni. Hvíta líkið er hvítur miðherji sem dettur í jörðina ef hann reynir að tyggja tyggjó meðan hann er að ganga.

Og ekki líta þeir betur út þessi hræ, þegar hinir þeldökku starfsbræður þeirra byrja að hlaupa hringi í kring um þá og hoppa yfir þá. Það eru alveg til svartir skussar líka, en þeir virka færri. Svarti maðurinn er einfaldlega með betri grunntæki en sá hvíti, sem við bíðum alltaf eftir að verði útdauður í NBA deildinni. Svona erum við full af fordómum og kankvís á kynþættina.

En á öllu má finna undantekningar eins og þið sjáið á myndinni hérna fyrir ofan. Við tökum enga ábyrgð á að þessar tölur séu réttar, þær eru vonandi innan skekkjumarka, okkur fannst bara áhugavert að láta reyna á gömlu tugguna um stökkraunir hvíta mannsins á körfuboltavellinum.

Því ekki að setja nokkur met


Án þess að fara í enn einn Golden State-hlemminn hérna, verðum við bara að taka það fram að þetta sem Stephen Curry og liðið hans er að gera um þessar mundir, hefur ekki gerst mjög oft í sögunni. Golden State er nú aðeins einum sigri frá því að jafna metið yfir flesta sigra í röð í upphafi leiktíðar og fimmta liðið til að byrja 14-0. Mikið má vera ef þetta met fellur ekki í vikunni.

Stórstjarnan Stephen Curry er að spila svo vel og í áður óþekktum hæðum og gæðum, að menn eru farnir að velta því alvarlega fyrir sér hvað þeir eigi að kalla þetta æðiskast hans í haust. Hvort hann ætli ekkert að fara að slappa af.

Þið munið kannski eftir því þegar Kobe Bryant var að leika sér að því að verða stigakóngur hérna fyrir um tíu árum síðan, þegar hann skoraði yfir allt og alla þegar honum sýndist.

En Lakers-liðið hans Kobe Bryant í þá daga var lélegt eða amk ekkert sérlega gott, enda var Kobe á græna ljósinu svo um munaði.

Það er hinsvegar ekkert lélegt við 2015 módelið af Golden State Warriors, nema kannski ef Marrese Speights ætlar að hengja jólaskraut á vörtuna á hausnum á sér. Það yrði ekkert spes.

Curry gerir auðvitað margt og mikið meira en að skjóta og er absalút heilinn á bak við allt sýstemið sem er Warriors. Það er bara nóvember, en hver ætlar að taka fram úr Curry í MVP-kapphlaupinu?

Harden? lol
Brúnar? lol
LeBron?
Durant?

Blökkumaður vinsamlegast! 

Russ fengi nokkur atkvæði, en þá er það upptalið. Curry er stunginn af horfir ekki um öxl. Maður lítur ekki um öxl þegar maður er stórskytta. Maður fær sér Engjaþykkni og heldur áfram að slá met.

Þó Warriors-liðið sé á svona fljúgandi siglingu, þýðir það ekki að sigrarnir séu búnir að vera eitthvað auðveldir, enda hafa tíu þeirra komið gegn Vesturdeildarliðum.

Síðustu þrír sigrar Warriors komu eftir æsispennandi lokamínútur með áhlaupum og endurkomum.

Þetta eru bara nauðsynlegar endurtekningar - æfingar fyrir strákana sem fara í reynslubankann sem er nú óðum að stækka.

Það er fyndið að fylgjast með umfjölluninni um liðið í kring um liðið í allri þessari velgengni.

Nær liðið að slá metið yfir flesta sigra í röð í uppafi leiktíðar? Nær það að vinna 72 eins og Chicago forðum? Er þetta sögulega sterkt lið? Er þetta skemmtilegasta lið sögunnar? Er Stephen Curry orðinn besta skytta allra tíma? Er hann besti körfuboltamaður í heimi í dag?

Við komumst að þessu öllu saman fljótlega, en það sem okkur finnst einna áhugaverðast við þetta er að sjá hvort bæði Curry og liðið í heild ná að halda svipuðum dampi í allan vetur. Það yrði ekki spennandi toppbarátta eða MVP-kapphlaup.

Curry þarf að fljúga út á Benidorm og vera þar á fylleríi í tvo mánuði til að einhver annar komist svo mikið sem inn í umræðuna um hver er að spila best allra í deildinni í dag.

Auðvitað kemur að því að Golden State fer að tapa leikjum og töpin koma oftar en ekki í leikjum sem enginn býst við.

Samkvæmt því ætti Golden State einmitt að tapa fyrir Denver eða Lakers í næstu tveimur leikjum og mistakast að setja met með því að komast í 16-0.

Hvort sem þetta tekst eða ekki, er samt áhugavert að skoða leikjaplanið hjá Warriors hérna til hliðar, sem sýnir leikina sem það á eftir fram að áramótum.

Það verður bara að segjast alveg eins og er að þetta er prógramm sem er eins "auðvelt" og það getur stærðfræðilega verið hjá liði í Vesturdeildinni.

Jú, það kemur þarna sjö leikja keppnisferðalag austur, en þetta eru meira og minna leikir gegn liðum sem eru ekki í sömu deild og Warriors hvað gæði snertir.

Því mætti í sjálfu sér ætla að Golden State ætti að geta búið sér til þægilegan púða á toppi Vesturdeildarinnar með öllum þessum huggulegheitum næstu vikurnar. Það er alveg inni í myndinni að liðið verði 30-2 eða eitthvað rugl um áramótin - stungið af.

Annars er þessi Vesturdeild bara algjörlega í ruglinu um þessar mundir og lítið sem ekkert er að spilast eins og það átti að gera (til dæmis til að Vegas-spárnar okkar gangi eftir).  Það eina sem meikar sens að svo stöddu er að það er útlit fyrir að Golden State fái álíka samkeppni (í deildarkeppninni) í vestrinu eins og Cleveland fær í austrinu. O.k., kannski ekki alveg svo litla, en þúst...

Auðvitað bjuggumst við öll við því að Dallas, Phoenix og Utah ættu eftir að fljúga inn í úrslitakeppnina á meðan Houston og New Orleans sætu eftir. Auðvitað.

Við reiknum nú með því að Vesturdeildin eigi eftir að rétta sig eitthvað aðeins af á næstu vikunum, en því er ekki að neita að það er drulluskemmtilegt að hafa þetta svona allt upp í loft.

Friday, November 20, 2015

SódómaKræsingar í KEF


Fjandi öflugur sigur hjá Keflvíkingum á KR í gærkvöldi 89-81. Stöð 2 Sport hitti enn og aftur á frábæran leik til að sýna beint, en það var svo sem nóbreiner að sýna þennan þar sem þetta var toppslagur.

Keflavíkurliðið byrjar þetta 7-0 og er með sprækt og skemmtilegt lið. Það fékk 24/15/6/3 frá Earl Brown yngri og sjóðandi heita fimm þrista frá Reggie Dupree frænda þínum, sem er að skjóta 68% (17 af 25) fyrir utan á leiktíðinni. Risavaxnir ko-hónis þristar Ágústs Orrasonar skemmdu ekki fyrir heimamönnum í restina.

KR skaut og frákastaði betur en heimamenn í þessum leik, en Keflavíkurliðið vann leikinn betur, sem telur aðeins meira. Þetta var ekki dagur meistaranna, sem gátu ekki keypt körfu fyrir utan.

Það eina sem gekk upp í sóknarleik KR voru áætlanaferðir Michael Crayon inn í teiginn, en með fullri virðingu fyrir þeim ágæta leikmanni, var varnarleikur Keflvíkinga gegn honum í besta falli kómískur á köflum. Crayon þakkaði gott boð og hrærði í 29/15 og 4 stolna.

Brynjar Þór, Björn og Tóti Túrbó náðu sér ekki á strik í langskotunum eins og áður sagði. Við hittum mann eftir leikinn sem fullyrti að Brynjar hefði verið að spila meiddur í gærkvöldi. Við erum ekki svona næm á þetta, allra síst í gegn um myndavélalinsuna.

Ægir okkar Steinarsson náði sér aldrei á strik í skotunum fremur en aðrir KR-ingar, en þar fyrir utan drullaði hann tölfræðiskýrsluna vel út með 12 fráköstum, 5 stoðsendingum og aðeins einum töpuðum bolta.

Ægir er að bjóða upp á 11/7/7 meðaltal í vetur, en þarf að skjóta betur fyrir utan til að opna betur fyrir sig. Það köttar þetta ekki að vera innan við 30% í þristum.

Það er ekki annað en ljómandi gott fyrir deildina að Keflavíkurliðið hafi unnið þennan leik og haldi toppsætinu. Það setur bara pressu á lið eins og KR, sem vonandi fer nú að fá þá Helga og Pavel til baka úr meiðslum, því þeirra er sárt saknað.

Við ætlum ekki þvaðra meira um þennan leik annað en það að stemningin í Sláturhúsinu var algjörlega frábær og þið hefðuð geta logið í einhvern að þetta hefði verið leikur í úrslitakeppninni, svo magnað var andrúmsloftið í Keflavík.

Enn og aftur fær Stöð 2 Sport að sýna gullmola af leik í beinni útsendingu og þó við höfum verið á vellinum og misst af veislunni í sjónvarpinu, gerum við fastlega ráð fyrir að það hafi komið einstaklega vel út.

Það gerir þetta svo enn skemmtilegra að vera með strákana úr Körfuboltakvöldi með í prógramminu fyrir og eftir. Rándýrt að vera með Tom og Svala á litnum og Kjartan Atla, Fannar og Jón Halldór að analísera.

Þetta er standandi veisla.

Það er svo dásamlegt að körfuboltinn okkar sé að verða kominn með umfjöllunina og umgjörðina sem hann hefur átt skilið í svo mörg ár. Þetta eru algjörir nammitímar, stanslaus jól fyrir okkur körfuboltasjúklingana - við gerum ekki annað en opna pakka heilu fimmtudagana og föstudagana.

Hey, hvernig líst þér á að kíkja á sex eða sjöþúsund myndir til gamans?

Það var ekkert.
Tuesday, November 17, 2015

Vörutalning: Vesturdeild


Það er talsvert meira mál að setjast niður og telja í vestrinu en í austrinu, en úr því við vorum að asnast í að gera vörutalningu í Austurdeildinni fyrir helgi, verður ekki hjá því komist að gera það í betri deildinni líka. Annað væri asnalegt.

Það er líka ekki eins og kofinn sé tómur. Það er nóg af djúsí stöffi að gerast í Vesturdeildinni, sem í það heila er að spilast mjög ólíkt því sem við og flestir aðrir spámenn höfðu gert sér í hugarlund - og þá tökum við með í reikninginn að tímabilið sé ekki nema tíu leikja gamalt eða svo.

GOLDEN STATE WARRIORS

Stóra fréttin í NBA deildinni það sem af er er að sjálfssögðu byrjunin hjá meisturunum, sem hafa ekki tapað leik þegar þetta er skrifað - eru 11-0.

Með því að byrja svona vel, eru bæði Stephen Curry (33,4 stig að meðaltali í leik - 5 stigum meira en næsti maður) og Warriors náttúrulega að kalla yfir sig mykjustorm af athygli, skrumi og gífuryrðum frá fjölmiðlunum. Það kemur ekkert á óvart.

Við leyfum okkur oft að fljóta með straumnum þegar kemur að einhverju svona jákvæðu og skemmtilegu, en við - alveg eins og leikmenn Warriors - ætlum að hafa báða fætur á jörðinni og missa okkur ekki í eitthvað rugl, heldur reyna bara að njóta augnabliksins.

Þegar við segjum "missa okkur ekki í eitthvað rugl" erum við að meina hvernig sumir fjölmiðlar hafa eytt talsverðu bleki í að bera Golden State saman við sterkasta lið Chicago sem vann 72 leiki í deildakeppninni veturinn 1995-96 og setti með því met yfir flesta sigra í deildarkeppninni.

Því ætti Golden State núna ekki að geta unnið 72 leiki þegar það vann 67 leiki á síðustu leiktíð og allir sjá að það er bara sterkara í ár - spyrja menn.

Við erum svo sem ekki með beina tilvitnun í neinn af leikmönnum Warriors, en trúið okkur, þeir eru ekki að hugsa um að reyna að vinna 72 leiki. Þeir eru að hugsa um að reyna að vinna hvern einasta leik sem þeir taka þátt í  - einn leik í einu - og reyna að halda heilsu fram á vorið og óska þess að þjálfarinn þeirra nái heilsu. Það er allt og sumt sem þeir hugsa og við lofum ykkur því.

En svona skrumlaust, er Golden State auðvitað að spila ljómandi vel. Við höfum áður tíundað hvað Stephen Curry er að spila vel og það sem hann hefur verið að gera undanfarið er efni í annan pistil, sem við munum vafalítið skrifa fljótlega. Og á meðan Klay Thompson er að spila langt undir getu, aðallega vegna bakmeiðsla, eru menn eins og Draymond Green gjörsamlega að fara hamförum.

Hann er kannski ekki að kveikja í með stigaskorinu sínu (12 stig í leik), en eins og við sögðum ykkur um daginn er hann efstur bæði í fráköstum (8) og stoðsendingum (7) hjá liðinu, stelur einum og hálfum og ver einn og hálfan bolta í leik, hótar þrennu á hverju kvöldi og dekkar gjarnan besta leikmann mótherjanna.

Green er alltaf að taka sér stærra og meira leiðtogahlutverk hjá Warriors og er satt best að segja enn að fara fram úr björtustu vonum allra hvað hæfileika snertir. Golden State er að borga honum atvinnuleysisbætur miðað við framlag, þó mörgum þætti hann fá full hressilega kauphækkun í sumar.

Annað sem við veitum athygli hjá Warriors er hvað Festus Ezeli er að spila vel. Hann deilir miðherjastöðunni með Andrew Bogut þegar sá ástralski er á annað borð heill og hefur farið fram á báðum endum vallarins - hann á ekki mjög langt í að verða jafn mikilvægur varnarmaður og Bogut á sinn hátt, af því hann er yngri og miklu meiri íþróttamaður.

Einhver ritstjórnin hefði kannski sleppt því að fara í enn eina upptalninguna á afreksverkum Warriors, en þetta lið á það bara skilið. Þessi undirliggjandi kjaftasaga um að liðið hafi haft heppnina með sér í úrslitakeppninni síðasta vor er nákvæmlega það veganesti sem það þurfti nú í haust.

Þið munið að sögulega samhengið og tölfræðin tala mjög fallega um Golden State og kannski væri upplagt að rifja upp það sem við sögðum ykkur á síðustu leiktíð, þegar tölfræðimódelin byrjuðu að segja okkur að eitthvað sögulegt gæti verið í uppsiglingu hjá Warriors: Reynum að njóta þess.


SAN ANTONIO SPURS

Um leið og við erum búin að afgreiða meistarana, fara hlutirnir að taka áhugaverða stefnu í þessari yfirreið um vestrið. Eins og við sáum þetta í haust, yrðu það Houston, Oklahoma og LA Clippers sem kæmu til með að berjast við meistarana um heimavallarréttinn í vestrinu. Það má vel vera að sú verði raunin þegar upp er staðið, en stöðutaflan í vestrinu í dag er bara bonkers!

Og sem stendur er það gamla góða San Antonio sem er eina liðið sem nær að narta í hælana á meisturunum í töflunni, með átta sigra og tvö töp. Þið munið, San Antonio sem við afskrifuðum enn og aftur um daginn.

Já, já, það eru bara búnir tíu leikir, en ef þér finnst svona leiðinlegt að lesa um þróun mála í NBA deildinni þegar hún er nýbyrjuð, en þú veist að þú getur líka alltaf hring inn á Útvarp Sögu eða smellt þér inn á athugasemdakerfið á dv.is og tjáð þig um vígasamtök íslamska ríkisins eða Schengen-samstarfið.

Eins og svo oft áður, mallar Spurs-vélin bara áfram sama hver er við stýrið. Við vorum öll svo upptekin af því að pæla í því hvort LaMarcus Aldridge ætti eftir að passa inn í liðið að við gleymdum að hann er ekki einu sinni besti leikmaður þess.

Nei, á meðan LaMarcus er að dúlla sér í 16 stigum (45% fg) og 10 fráköstum (sem er ljómandi), er besti leikmaður Spurs að skora 22 stig (52,6% fg) , hirða 7,5 fráköst og stela 1,9 boltum ásamt því að skelfa bestu sóknarmenn andstæðingana á hverju kvöldi. Við erum að sjálfssögðu að tala um Kawhi Leonard.

Þeir Aldridge og Leonard eru einu leikmennirnir í hópnum hjá San Antonio sem eru að spila 30 mínútur eða meira, sem er ekkert nýtt. Það sem er nýtt er að þeir eru einu mennirnir sem eru að spila meira en 27 mínútur í leik hjá Spurs. Allir taka þátt, allir spila vel (nema Danny Green) og allir vita hvað þeir eiga að gera. Sama gamla boring old San Antonio, eh?

Þeir fara nú ekki að gera okkur það að vinna eitthvað næsta vor....

DALLAS MAVERICKS

Þegar þetta er skrifað, er Dallas einhvern veginn í fjandanum í þriðja sæti Vesturdeildarinnar með 7 sigra og 4 töp.

Meltu það í smá stund.

Við vitum að við sögðum að Dallas ætti eftir að drulla á sig og jafnvel tanka í vetur (eigandinn hafði hótað því) en þegar lið eins og Dallas eiga í hlut, neitum við að taka ábyrgð á því þegar við gerum í brækurnar í Vegas-spám í upphafi leiktíðar.

Við sögðum að Dallas yrði lélegt af því það átti enginn að vera heill hjá Dallas fyrr en eftir áramót og þá yrði liðið löngu, löngu, löngu út úr myndinni í úrslitakeppni og öllu því.

En nei. Svo kemur á daginn að það er bara ekkert að þessum andskotum og þeir byrja allir að spila strax. Það sem við héldum að yrðu þrír mánuðir af Jeremy Evans, er bara strax orðið þetta lúmskt flotta-á-pappírunum-lið Dallas, sem maður eins og Rick Carlisle getur alveg fengið til að vinna nokkra leiki.

Saturday, November 14, 2015

Ristill: Hafa ÍR-ingar áhuga á að spila í efstu deild?


Við gáfum okkur blessunarlega langan umhugsunarfrest áður en við hjóluðum í þennan stutta pistil. Ef við hefðum skrifað það sem við vorum að hugsa í gærkvöldi, hefði það líklega endað með ósköpum. Það þýðir samt ekki að við séum í góðu skapi. Ó, nei.

Og það er Íþróttafélagi Reykjavíkur að kenna.

Við höfum ekki lagt það í vana okkar að gagnrýna liðin í úrvalsdeildinni hér heima mikið, enda hefur það verið yfirlýst stefna okkar að vera jákvæð og uppbyggileg þegar kemur að heimabrugginu. Það er allt miklu auðveldara og vinalegra þannig og það er ekki okkar stíll að vera með mjög mikil leiðindi nema kannski út í New York Knicks og svona. Smá stríðni bara.

ÍR-ingar hafa nú orðið til að breyta þessu og það er ekki möguleiki að við getum haldið kjafti yfir því.

Liðum sem spila eins og ÍR hefur verið að gera undanfarið eru stundum líkt við aðalpersónurnar í sögunni sígildu um Undarlegt mál doktors Jekyll og herra Hyde eftir Robert Louis Stevenson. Það er kannski ekki svo galin líking þegar við skoðum úrslitin hjá liðinu í deildinni Domino´s það sem af er. Smellt´á´etta ´elvídi:Tímabilið byrjar á heimatapi fyrir Tindastól, sem var með þjálfara á þeim tíma og því hægt að fyrirgefa Breiðhyltingum það. Þremur dögum síðar gerir það góða ferð á Selfoss og vinnur FSu eins og öll hin liðin í deildinni, en þá má segja að sirkusinn hafi komið í bæinn.

Við vorum vorum í Hellinum þann 22. október sl. þar sem Kanalausir Grindvíkingar hafa líklega lagt grunninn að stórslysinu sem var í vændum. Án þess að vera að bera í bætifláka fyrir ÍR-inga voru Grindvíkingar reyndar í óvenju miklu stuði í leiknum og virtust hitta úr öllu sem þeir grýttu á körfuna.

Þeir unnu leikinn 94-79 og hann var ekki eins "jafn" og tölurnar segja til um. Þetta var einn af þessum dögum hjá þeim gulu og við hugsuðum með okkur að þetta væri sömuleiðis einn af þessum dögum hjá ÍR líka. Bara á hinum endanum í litrófinu. Sjitt heppens, bara. Ha?

Jú, kannski var þetta bara einn af þessum dögum hjá ÍR. Það vorum við alveg viss um þegar við sáum liðið spila annan heimaleik viku eftir Grindavíkurútreiðina, sem við kölluðum Blóðbað í Breiðholtinu í barnaskap okkar. Við höfum greinilega ekki hundsvit á blóðsúthellingalíkingamáli.

Næst komu vel frambærilegir Stjörnumenn í heimsókn í gettóið* og skemmst er frá því að segja að ÍR náði að stela sigrinum 96-93 í hnífjöfnum leik.

Heimamenn spiluðu engan gæðabolta í þá um kvöldið en gerðu jú gott og vel í að klára bölvaðan leikinn og ná sér í mikilvæga punkta. Við skulum bara segja alveg eins og er að Stjörnumenn hafi átt sinn þátt í niðurstöðunni, enda var hinn almennt dagfarsprúði þjálfari Garðabæjarliðsins gjörsamlega á suðupunkti og hundóánægður með leik sinna manna.

Nú hefði einhver ætlað að svona flottur sigur ætti eftir að gefa ÍR-liðinu byr undir báða vængi og blása því baráttuanda í brjóst fyrir næstu tvo leiki gegn Þórsurum og Haukum...

Hvernig eigum við að orða þetta... u, nei.

ÍR lét Þórsara rótbursta sig í Ljósabekknum í Þorlákshöfn 107-64 í síðustu viku. ÍR-ingar voru Kanalausir í leiknum meðan heimamenn voru með erlendan leikmann sem er fagmaður í blóma, en það réttlætir ekki fjörutíu stiga tap. Ekki einu sinni nálægt því.

ÍR skaut 32% í leiknum, en heimamenn sem útfráköstuðu þá líka, skutu 52% með Davíð Konung í fararbroddi (17 stig).

Það er bara tvennt í stöðunni eftir svona útreið - aðeins tvær leiðir færar eiginlega. Annað hvort bíta menn í skjaldarrendur og pappíra sig, leggja sig meira fram, berjast meira og mæta einbeittari til leiks, staðráðnir í að hefna.

Hinn kosturinn er að safna sér saman í miðjuhringinn á heimavellinum fyrir framan tryggustu stuðningsmenn sína og drulla kekkjóttum og blóðugum niðurgangi í brækurnar. ÍR-ingar ákváðu að velja þennan kost, svona alveg án gríns. Þeir ákváðu að tapa með fimmtíu og þriggja stiga mun fyrir Haukum á heimavelli, 109-57!

Ofangreint er sannarlega ekki fáguð skriffinska um körfuboltaleik, en það var heldur nákvæmlega ekkert fágað við frammistöðu ÍR í leiknum og það eina sem okkur dettur í hug til að lýsa huglausri og handónýtri frammistöðu heimamanna er... hægðir.

Við fáum engan Púlitzer fyrir svona Stormskers-lýsingar, en hvurn andskotann eigum við að segja annað um þetta bull? Eigum við að vitna í Hómer eða Hemingway - hekla okkur út úr vandanum, kannski!?!

Við spurðum menn sem vita meira (lesist: eitthvað) um Domino´s deildina en við út í þennan leik og báðum hreinlega um (skot)leyfi til að hrauna yfir ÍR. Það eru jú nokkrir ungir strákar í liðinu og kannski hjálpar það þeim ekkert að verða betri í körfubolta ef eitthvað pakk sem veit ekkert hvað það er að tala um segir þeim að þeir séu vonlausir.

Málið er bara að ÍR-liðið er ekkert kjúklingalið með krakka í öllum stöðum. Það var bullandi reynsla þarna inn á milli og þarna eiga fjandakornið að vera nokkrir leikmenn sem eiga í versta falli að geta komið í veg fyrir að vera niðurlægðir í efstu deild á Íslandi.

Liðinu var reyndar spáð falli, svo það kemur ekkert á óvart að það sé að tapa leikjum, en komm-fokkíng-on sko!

Hvernig í fjandanum geta menn bara kyngt því að láta Hauka, sem eru alls ekki með neitt ofurlið þó þeir séu á réttri leið, koma í heimsókn og láta þá gjörsamlega slátra sér. Og kveikja í kofanum á eftir. Í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport! Fólk borgaði fyrir að fá að horfa á þennan leik!!!

Okkur er alveg sama hvernig erlenda leikmanninum líður, hvort eru meiðsli í hópnum, hvort menn hafa náð að stilla saman strengi eða ekki, hvort liðið er ungt eða ekki.

Þú bara tapar ekki tveimur körfuboltaleikjum í röð með nærri HUNDRAÐ stigum. Tapar ekki með yfir fimmtíu stiga mun á heimavelli fyrir liði sem var nánast með sama stigafjölda í töflunni fyrir leikinn.

Þetta var ein versta frammistaða sem við höfum nokkru sinni séð - meira að segja ef við tökum lið eins og New York Knicks og Aston Villa með í reikninginn.

ÍR-goðsögnin Eiríkur Önundarson hringsnýst í gröfinni núna**, ekkert er vissara. Gengur aftur í Hellinn í nótt og slítur treyjuna sína niður af veggnum, kveikir í henni með Þriggja stjörnu eldspýtum og Zippo-bensíni. Reynir að æla ekki á gólfið í leiðinni.

Við hefðum skilið ef Höttur hefði tapað með fimmtíu fyrir KR. Höttur er með það afleitt lið og KR er með það sterkt lið, eða svona nokkurn veginn. Þið fattið.

Bjarni Magnússon þjálfari ÍR gat ekkert sagt eftir leikinn. Hvað átti aumingja maðurinn svo sem að segja eftir svona útreið, þar sem liðinu hans hefði eflaust vegnað betur ef hann hefði sjálfur fengið að reima á sig skó og fara inn á? Vaskur Vísismaður Stefán Árni Pálsson náði þessu upp úr honum:

„Þetta er versti leikur hjá liði undir minni stjórn. Þetta var bara ömurleg frammistaða frá okkur öllum og bara skammarleg. Svona stuttu eftir leik þá þarf maður ekkert að taka eitthvað tryllingskast inn í klefa, strákarnir vita alveg upp á sig sökina.“

Körfunni punktur is sagði hann að "leikmenn og þjálfarar ættu að skammast sín fyrir frammistöðuna."

Skítlaust, Bjarni.

En við erum einfaldlega ekki tilbúin að kyngja þessum úrslitum í Breiðholtinu í gær. Þú tapar ekki með þessum hætti ef þú hefur einhvern áhuga á því sem þú ert að gera - og eitthvað lágmarks stolt. Lið tapa alveg illa. Við sjáum körfuboltalið tapa með 20+ stiga mun á hverjum degi og 30+ stigum annan hvern dag.

Ekki fimmtíu.

Við höfum ekki skrifað svona áður svo við munum - innlendan ristil - en frammistaða ÍR-inga kallar bara á þetta. Það sem brennur á okkur eftir þennan skrípaleik í gær er fyrst og fremst að fá svar við einni spurningu.

Hefur ÍR raunverulegan áhuga á því að halda áfram að spila í úrvalsdeild karla í körfubolta? Síðustu tveir leikir segja okkur að svo sé ekki. Bara alls ekki. Leiktíðin er ekki búin og það er langt í vorið og allt það, en þetta er bara rugl.

Leikmenn liðsins þurfa allir að líta í eigin barm og hugsa dæmið alveg upp á nýtt og það sem meira er, þarf þjálfarinn alvarlega að spyrja sig hvað hann sé að gera með þetta lið. Hvernig ætlarðu að mæta í vinnuna þegar þú tapar tveimur leikjum á einni viku með hundrað stiga mun? Hvað ætlarðu að segja við strákana á næstu æfingu, ef þú þarft yfir höfuð að mæta á hana?

Þetta eru hörð orð og auðvitað kemur það okkur ekki rassgat við hvað körfuknattleiksdeild Íþróttafélags Reykjavíkur gerir í sínum málum, fyrir svo utan það að öllum ÍR-ingum nær og fjær er líka skítsama um hvað okkur finnst um stöðu mála. En finnst ykkur þetta bara allt í lagi? Finnst ykkur stuðningsmenn og konur liðsins eiga þetta skilið?

Erum við að bregðast of hart við? Fjandakornið, nei! Við værum BRJÁLUÐ ef við værum stuðningsmenn ÍR skulum við segja ykkur og við hefðum öskrað og baulað á liðið allan síðari hálfleikinn ef svo væri.

Sjáið þið bara: Við erum alveg hundpirruð yfir þessu þó við höldum ekki með ÍR frekar en Ómar Ragnarsson eða Idi Amin. Þetta var ekki góð auglýsing fyrir Domino´s deildina okkar.

Annað sem er alveg á hreinu, er að við hefðum verið löngu komin í sturtuna og út úr húsinu áður en leikurinn kláraðist ef við hefðum verið einn af leikmönnum ÍR í gær.

Hvernig keppnismenn eru það sem láta valta svona yfir sig án þess að svara fyrir sig? Láta einhverja gutta koma á heimavöllinn sinn og taka sig í sýnikennslu í viðstöðulausum troðslum til að skemmta áhorfendum Stöðvar 2.

Þú lætur ekki fara svona með þig. Í versta falli sendirðu einn mótherjana í gólfið með áberandi hætti til að gefa út yfirlýsingu um að þú ætlir ekki að láta drulla yfir þig, þó þú sért kannski að tapa leiknum. Við erum ekki að hvetja til ofbeldis hérna, bara segja mönnum láta aðeins vita af sér, óld skúl.

En, nei.

Þetta er í fyrsta og vonandi síðasta skipti sem við skrifum ristil um lélega frammistöðu félags í Úrvalsdeildinni af því við erum alls ekki hrifin af illindum, deilum og leiðindum. Við þekkjum handfylli af ÍR-ingum, eðalfólki, sem á ekki skilið að horfa upp á svona lagað. Við vitum að það finnur til og við finnum til með því og að sjálfssögðu vonum við að liðið drullist til að fara að spila almennilega - þó það nú væri!

Næsti leikur ÍR er útileikur við Njarðvík. Hann vinnst væntanlega, en svo kemur skellur á móti Hetti á heimavelli í umferðinni þar á eftir. Svona ef við leyfum okkur að spá aðeins.

Ef Breiðhyltingar ætla að bregaðst reiðir við þessum pilstli rifnum út úr ristli, þar sem frammistöðu þeirra síðustu viku er lýst með svo gróteskum (en að okkar mati sanngjörnum) hætti, verður bara að hafa það. Þeir ættu samt kannski frekar að eyða púðri í að reyna að finna hjartað í þessu liði sínu svo það húrri ekki lóðrétt úr delidinni í vor.

Og til að koma í veg fyrir að þeir verði sjálfum sér og deildinni til skammar eins og þeir gerðu í beinni útsendingu í sjónvarpi í gærkvöldi.

-----------------------------------------------------------------------------------------------------

 * - Þeir sem hafa búið í gettóinu, eins og við, hafa fullan rétt á að tala um Breiðholtið sem gettóið. Það veður ekki hver sem er um á skítugum skónum með G-orðið - fólk verður að vinna sér inn fyrir því. Ákveðið kred, þið vitið.

** - Auðvitað er Eiríkur sprelllifandi og við hestaheilsu eftir því sem við best vitum, en hér erum við að fá lánaðan talsmáta frá Charles Barkley, sem segir gjarnan að lifandi menn séu að snúa sér í gröfinni yfir því sem illa fer hjá félögum sem þeir tengjast í NBA deildinni. 

Hann gæti þannig sagt að Alex English hringsnúist í gröfinni ef leikmenn Denver eru að spila eins og fífl, en Barkley gerir sér reyndar oft leik úr því að finna minna þekkta leikmenn til að stilla inn í setningarnar: "Minnesota er að spila hræðilega! Randy Breuer hringsnýst í gröfinni!"

Thursday, November 12, 2015

Vörutalning: Austurdeild


Nú ríkir mikil eftirvænting á íslenskum heimilum og það kemur jólahátíðinni ekkert við. Nei, nú er fólki orðið mál að fá vörutalningu frá NBA Ísland til að hjálpa sér að skilja hvað er í gangi í deildinni. Við erum vön að gera þetta nokkrum sinnum á tímabili

Vörutalningin að þessu sinni verður  með styttra sniði enda hefur aðeins eitt lið í deildinni spilað tíu leiki þegar þetta er ritað, flest átta eða níu. Það liggur í augum uppi að það er ekki tímabært að kafa mjög djúpt ofan liðin sem við tökum fyrir svona snemma á leiktíðinni, en í staðinn höfum við fengið nokkrar óvæntar uppákomur og nokkra rosalega leiki.

Venju samkvæmt skulum við byrja á að dýfa tánum aðeins í Austurdeildardrullupollinn áður en við hoppum nakin út í Vesturdeildarlaugina. Við verðum nú samt að viðurkenna að Austurdeildin fer þokkalega af stað og er enn sem komið er bara með tvö lið sem gera sig að fíflum í hverjum leik, Brooklyn og Philadelphia.

Öllum hinum liðunum í austrinu hefur tekist að vinna amk 3-4 leiki og meira að segja friggin´ New York er næstum því með 50% vinningshlutfall. Næstum því.

Eins og við sögðum er ekki hægt að lesa mjög mikið út úr þessu meðan úrtakið okkar er enn svona lítið, en þó er áhugavert að sjá óvænta hluti í töflunni. Þannig eru Detroit (5-3), Indiana (5-4) og Charlotte (4-4) búin að planta sér inn á topp átta meðan klúbbar eins og Washington (3-4), Boston (3-4) og Milwaukee (4-5) eru utan við sæti í úrslitakeppninni.

Það er stutt á milli þegar liðin eru ekki búin að spila nema tíu leiki, en helsta trendið sem við sjáum í þessu er að Detroit, Charlotte og Indiana eru að byrja betur en við reiknuðum með. Við verðum samt að hafa hugfast að austrið er jú að spila mest við austrið og þannig hrannast sigrarnir upp.

Samt verðum við að henda einu kúdósi á Detroit, sem virðist loksins vera að finna sig í leikstjórn Stans van Göndís. Drummond er náttúrulega búinn að vera ofsalegur. 


Annað lið sem við ætlum að gefa sját-át eru kjúklingarnir í Orlando. Þeir eru búnir að tapa 5 af 9 leikjum sínum og flest þessi töp eru skólabókardæmi um reynsluleysi. Þeir eru allir að læra þetta. Við erum nokkuð hrifin af leikstíl Orlando-liðsins sem var einni handsprengju frá Russell Westbrook frá því að leggja Oklahoma á dögunum.

Eigum við að segja að það komi á óvart að Cleveland sé 7-1 út af öllum meiðslunum? Þið ráðið því, en það stefnir óneitanlega í huggulegan vetur hjá Cavaliers.
Það rýkur úr herbúðum Chicago Bulls, þó eldurinn sjáist ekki.

Þvílík gargandi hamingja að við skulum vera búin að endurheimta Paul George nokkurn veginn eftir fótbrotið ógeðslega. Við söknuðum hans mikið meðan hann var frá keppni, enda var hann og er einn besti tvíhliðaleikmaður deildarinnar.

Stuðningsmenn Knicks hafa nú loksins ástæðu til að fara fram úr rúminu á morgnana þar sem nýliðinn knái Kristaps Porziņģis er að reynast duglegur, skemmtilegur og spennandi. 

Hann treður yfir einhvern reglulega með því að hoppa á bakið á honum og þruma niður sóknarfráköstum. 

Það kæmi okkur satt best að segja ekkert á óvart þó sala á geðlyfjum ætti eftir að dragast saman í New York með tilkomu Porziņģis. Svona hengir fólk miklar væntingar á hann. 

Þessi strákur á eftir að læra mjög margt og hans bíður gríðarleg vinna við að byggja upp meiri físík. Hann þarf að taka dálítið vel á hnébeygjunni karlinn.

Já, við vorum ekki lengi að telja Austurdeildina, en í næsta pistli skellum við okkur vestur á bóginn og förum að pæla í alvöru liðum.

Curry gerði allt vitlaust í Húnaveri


Stephen Curry heldur bara áfram að gera hluti sem enginn getur gert nema hann. Og sumir af þessum hlutum eiga ekki að vera hægt. Drengurinn er svo heitur um þessar mundir. Er á allra vörum. Sá virðist einbeittur og ákveðinn í að fá afhenta styttu í vor. Svona styttu eins og hann fékk síðasta vor.

Hvað um það, hér eru tvær klippur með Stephen Curry að ganga á vatni í auðveldum 100-84 sigri Golden State (9-0) á Memphis (3-6) í nótt. Þett´er svo mikið rugl. Hann hættir ekki.


Dásamlega hræðilegar auglýsingar með SA Spurs
Wednesday, November 11, 2015

LíklegtSvona vinnum við


Meistarar Golden State Warriors eru búnir að vera duglegir að minna okkur á sig í upphafi leiktíðar og eru taplausir í fyrstu átta leikjum sínum þrátt fyrir að vera án þjálfara síns Steve Kerr, sem er með ónýtt bak.

Stephen Curry hefur eðlilega stolið megninu af fyrirsögnunum á þessum spretti Warriors, enda hefur þessi prímusmótor liðsins verið einstaklega heitur upp á síðkastið eins og við sýndum ykkur á skotkortinu hans í síðustu færslu.

Það á það til að gleymast að grunnurinn að styrk Golden State liggur í fjölhæfri og viljugri vörninni sem liðið spilar og svo er annað atriði sem sýnir okkur svart á hvítu af hverju Warriors er bæði besta og skemmtilegasta liðið í deildinni í dag. Það eru svona atriði. Atriði sem þú færð ekki að sjá í tilþrifapakkanum daginn eftir, en segja svo mikið um þetta lið.

Þarna erum við að tala um besta skotmann í heimi, sem er sjóðheitur í ofanálag, hætta við að taka skot af því félagi hans (líka einn besti skotmaður í heimi) er í betra færi. En sá piltur, sem skaut 4- af 7 í þristum í leiknum og var á góðu róli, ákvað líka að gefa boltann á annan félaga sinn sem væri í betra færi. Þessi félagi hét Leandro Barbosa og hann kláraði þessa ljóðrænu sókn með því að setja 3ja stiga skotið niður, sem betur fer fyrir lúkkið á sókninni.

En þið skiljið hvað við erum að fara. Besta skytta liðsins, gefur á næstbestu skyttuna sem er í betra færi og næstbesta skyttan gefur á enn annan mann sem er í betra færi. Þetta er kallað óeigingirni og liðsheild - fyrirbæri sem vex ekki á trjánum en dafnar í Golden State og er einn af lyklunum að velgengni liðsins undanfarið.

Eðlilegur CurrySaturday, November 7, 2015

Kalt er í Kóngsins ríki


Passíf/agressíf skapgerð LeBron James kemur hvergi eins augljóslega fram og í samskiptum hans við Kevin Love, liðsfélaga hans hjá Cleveland Cavaliers. James átti það til að senda Ástþóri pillur á síðustu leiktíð, sem snerust þá oftast um hlutverk Love hjá liðinu (og sumir segja að líkamlegt ástand hans hafi ekki staðist kröfur James).

Í haust var planið að allir byrjuðu með hreint borð. Love mætti tálgaður og flottur til leiks með hárgreiðsluna hans Rick Fox og James lýsti því yfir í öllum viðtölum að Love fengi aukið hlutverk í sóknarleik liðsins meðan hann sjálfur hefði sig minna fram en áður, enda ekki alveg heill heilsu.

Svo virðist þó sem Adam verði ekki lengi í Paradís, því James er byrjaður að senda passífar bæði og agressífar pillur á ný, eins og myndbrotið hér að neðan sýnir.Venjulegt sér auðvitað ekkert athugavert við þessar sekúndur, en þeir sem fylgjast með NBA daglega sjá að sú staðreynd að LeBron James sleppir því ekki aðeins að hjálpa Love á fætur, heldur bókstaflega lætur eins og hann sé ekki til, er ekkert annað en bleitant yfirlýsing um að hér sé ekki allt með felldu.

Nú hlær einhver og segir okkur að róa okkur á dramanu, en hlæðu eins og þú vilt. Þetta er hrein og klár yfirlýsing hjá James. NBA leikmenn gera ekki annað en klappa hver öðrum á rassgatið og knúsast heilu leikina, alveg sama hvort það eru æfingaleikir eða úrslitaleikir. Þú hleypur yfir völlinn þveran og endilangan til að hjálpa félaga þínum á fætur - sama hvað. Þannig er þetta bara í NBA.

Ef liðsfélagi þinn - tölum nú ekki um ef hann er yfir tveir metrar eins og Kevin Love - liggur flatur í jörðinni við hliðina á þér og þú labbar bara í burtu og þykist ekki sjá hann, eru það skýr skilaboð um að hann sé ekki að fara eftir þeim reglum sem þú hefur sett honum sem liðsfélagi hans, þjálfari, framkvæmdastjóri og eigandi (LeBron James). Þetta er ekki tilviljun. Ekki séns.

Verið alveg róleg, við ætlum ekki að fá einhvern tremma yfir þessu og þetta eyðileggur veturinn alveg örugglega ekki fyrir Cleveland - okkur þótti þetta bara dálítið merkilegt, því svona lagað sérðu ekki á hverjum degi í NBA deildinni.

Hvað sem hver segir, er bara augljóst að Kevin Love kærir sig ekki um að læra leynibankið sem þarf til að komast inn í tréhúsið í bakgarðinum hans LeBron James og það finnst okkur dálítið skondið.

Heitur CurryThursday, November 5, 2015

Goðsögn í vanda


Lesendur NBA Ísland í gegn um árin vita að ritstjórnin á í nokkuð flóknu sambandi við skotbakvörðinn og goðsögnina Kobe Bryant hjá Los Angeles Lakers. Við berum virðingu fyrir Kobe út af því sem hann hefur afrekað á löngum og glæstum ferli sínum, en síðari ár höfum við átt það til að stríða honum dálítið vegna hugarfars hans og leikstíls.

Það var allt í lagi að gera stundum grín að Kobe Bryant, því hann hefur alltaf staðið undir því og meira til. Hann var kannski á of háum launum og skaut kannski aðeins of mikið en það var allt í lagi, því Lakersliðið undanfarin ár er svo lélegt að það skiptir engu máli hvort Kobe tekur 3 eða 30 skot. Því ekki að halda bara áfram að bomba og reyna að slá met áður en skórnir fara á hilluna?

En svo byrjuðu bölvuð meiðslin að setja strik í reikninginn og eins og þið vitið hafa þau allt nema eyðilagt fyrir honum tvö keppnistímabil í röð. Þegar öll þessi meiðsli eru svo lögð ofan á skrokk sem búið að níðast á í tuttugu ár, er útkoman einhver elsti 37 ára gamli íþróttamaður veraldar.

Það var byrjað að bera á því áður en öll þessi meiðsli komu til. Kobe var byrjaður að dala verulega sem leikmaður, því skrokkurinn á honum var hættur að gera það sem honum var sagt.

Þetta kemur fyrir okkur öll á endanum og flest okkar sætta sig við það og aka eftir aðstæðum.

Ekki Kobe Bryant - varla hefur þú reiknað með því.

Við munum eftir viðtali sem Amad Rashad tók við Bryant fyrir nokkru þar sem hann sýndi áður óþekkta auðmýkt og viðurkenndi að meiðslavesenið hefði fengið á hann.

Var þetta ávísun á að þessi samviskulausi skorari væri farinn að þroskast og ætlaði að taka hugarfar sitt og leikstíl til endurskoðunar?

Ekki svo mikið.

Varast ber að stökkva á of miklar alhæfingar á 82 leikja keppnistímabili þegar búið að spila 5% af því, en nú er ljóst að allir eru farnir að hafa áhyggjur af Kobe Bryant. Bæði við og þið - og meira að segja hann sjálfur. Bryant kallaði sjálfan sig 200. besta leikmann deildarinnar í viðtali á dögunum, þar sem hann fór ófögrum orðum um sjálfan sig - sagðist frekast sjúga.


Það bætir svo ekki úr skák að Lakers skuli vera með eitt lélegasta lið í sögu félagsins um þessar mundir. Það er án sigurs í fjórum leikjum og er með lélegustu vörnina í NBA (fær á sig 113 stig á hverjar 100 sóknir andstæðinga sinna) og það ekki í fyrsta skipti. Og varnarleikurinn er meira að segja áberandi verri þegar Kobe Bryant er inni á vellinum (nærri 117 stig per 100 sóknir), sem er ákveðið afrek.

Við máttum bara til með að skrifa nokkur orð um þetta sérstaka vandamál sem komið er upp í gula hluta Los Angeles í dag, af því við höfum aldrei séð neitt þessu líkt áður. Ein af goðsögnum leiksins - einn besti skotbakvörður í sögu körfuboltans - stendur skyndilega frammi fyrir þeirri staðreynd að hann er ekki skugginn af sjálfum sér. Sjáðu t.d. þessa átakanlegu loftbolta:


Svartsýnustu menn spáðu því að öll þessi meiðsli gætu átt eftir að gera út af við Kobe og raunar þurfti enga svartsýni til. Skrokkur á þessum aldri með allt þetta slit, hefur einfaldlega ekki efni á að meiðast jafn illa og raun bar vitni hjá Kobe Bryant og höggið núna er enn þyngra af því hann er búinn að vera svo lengi frá. Svo poppar hann allt í einu inn í liðið á ný og í ljós kemur að það er allt í einum rjúkandi mínus.

En þarna er ekki öll sagan sögð. Þetta væri kannski ekki svo grábölvað ef Kobe Bryant hefði andlega burði til að takast á við allt mótlætið og setti alla sína orku og einbeitingu í aðlögunarferlið.

Málið er bara að það er ekki stíllinn hans Kobe Bryant. Kobe hefur aldrei farið eftir annari pólitík en sinni eigin - aldrei dansað eftir lögum annara. Hann er búinn að vera maðurinn í fimmtán ár og er búinn að gleyma því hvernig rulluspilarar hjálpa liðum sínum að vinna. Það eina sem kemst að hjá Kobe er að drepa, klára leiki, hleypa alfa-menninu lausu - Svörtu Mömbunni.

Gallinn er bara að lemstraðir fertugir karlar eru engar andskotans Mömbur, sama hve heitt þeir þrá það. Banvæn Svarta Mamban er horfin og í staðinn er kominn drukkinn órangútan með vélbyssu, sem er alveg jafn líklegur til að skjóta sjálfan sig í tætlur og einhvern annan.

"Heppnir" Stríðsmenn í sögulegu samhengi


Við erum reyndari en svo í bransanum að við látum smá flugeldasýningu frá Stephen Curry slá okkur út af laginu og fá okkur til að skrifa pistil um að hann sé últra-mega-bestur í heimi. Það er samt allt í lagi að leyfa sér að brosa og gleðjast þegar drengurinn fer hamförum eins og hann hefur gert nú í upphafi leiktíðar. Um það snýst þetta nú allt saman - að hafa gaman.


Annað atriði sem tengist frammistöðu Curry undanfarin misseri með beinum hætti er gengi liðs hans síðustu tólf mánuði. Það er hlutur sem hefur verið til umræðu undanfarið og í þeirri umræðu hafa komið fram skoðanir sem urðu helsta kveikjan að þessum pistli.

Umræðan um meinta og raunverulega heppni Golden State-liðsins á síðustu leiktíð er nefnilega ekki að deyja og virðist meira að segja lifa góðu lífi. Þannig er ekki langt síðan fjölmiðlar nýttu tækifærið og tóku ummæli Doc Rivers þjálfara Clippers og rifu þau úr samhengi, þegar hann hafði orð á því að vissulega hefði Golden State haft heppnina með sér á leið sinni að titlinum á síðustu leiktíð. Við sögðum þetta nákvæmlega sama oftar en einu sinni, en fólk sá líka ástæðu til að taka það úr samhengi.

Það sem okkur þótti nauðsynlegt að benda á í þessu samhengi, er að þó Warriors hafi ef til vill haft heppnina með sér eins og öll lið sem verða meistarar í NBA, bendir nákvæmlega ekkert til þess að þar hafi verið á ferðinni lið sem grísaðist til að vinna einn meistaratitil. Þvert á móti, segja tölfræðin og sagan okkur að Golden State hafi verið eitt öflugasta lið sögunnar og því vel að titlinum komið hvort sem vegurinn að honum var holóttur eða malbikaður.


Við erum búin að segja ykkur þetta oft áður og ef þið eruð orðin leið á því, skulið þið bara sleppa því að lesa þetta. Ætlun okkar með þessum áróðri er ekki að troða því upp á ykkur að Warriors-liðið sé besta lið allra tíma - okkur langar bara að benda aftur á það að árangur þessa liðs var enginn grís. Langt í frá.

Hvort sem Golden State var heppið á síðustu leiktíð eða ekki, fór árangur liðsins í sögubækurnar af því hann var einn sá besti sem sést hefur. Nóg er að nefna að liðið vann 67 leiki í deildarkeppninni, sem er eitthvað sem við sjáum ekki á hverju ári eins og þessi tafla sýnir.


Frekari tölfræðigröftur sýnir að Golden State var líka með einn hagstæðasta stigamun per 100 sóknir sem sést hefur, enda vann það ekki bara stóra sigra, heldur gat líka leyft sér þann munað að hvíla stjörnurnar sínar í fjórða leikhluta leik eftir leik.

Þeir segja að vörn vinni titla og þó það sé klisja, var það sönn klisja á síðustu leiktíð þegar besta varnarlið deildarinnar varð meistari. En Golden State var nefnilega ekki bara besta varnarlið deildarinnar, það var líka veiðihári frá því að vera besta sóknarlið deildarinnar. Það var í öðru sæti yfir bestu sóknina, rétt á eftir Los Angeles Clippers eins og við höfum tuggið í ykkur 200 sinnum.

Og það er sannarlega ekki algengt að lið séu á eða við toppinn í báðum katagóríum. Síðasta lið sem við munum eftir sem var á toppnum bæði í vörn og sókn var ofurlið Chicago Bulls frá árinu 1995-96 sem margir kalla besta lið allra tíma. Lið eru sæmd slíkum titlum þegar þau vinna 72 leiki í deildarkeppninni (NBA met), eru best í vörn og sókn, hagstæðasta stigamuninn (+13) og vinna loks titilinn.

Hérna er tafla frá tölfræðivélinni John Schuhmann á NBA punktur kom, sem sýnir okkur hina og þessa tölfræði öflugustu liðanna í nútímakörfuknattleik.


Golden State var aðeins þriðja liðið á síðustu 38 árum sem var á topp tvö í bæði vörn og sókn og stigamunur liðsins (+11,4 stig per 100 sóknir) var sá fjórði besti á sama tíma á eftir Chicago-liðunum 1996 (+13,3 og 72 sigrar) og ´97 (+12 og 69 sigrar) og meistaraliði Boston Celtics frá árinu 2008 (+11,5). Þetta Boston lið var besta varnarlið deildarinnar á sínum tíma og vann 66 leiki, en aðeins í tíunda sæti í sókn og fór ekki beint óaðfinnanlega í gegn um úrslitakeppnina eins og þið munið kannski.