Við erum reyndari en svo í bransanum að við látum smá flugeldasýningu frá Stephen Curry slá okkur út af laginu og fá okkur til að skrifa pistil um að hann sé últra-mega-bestur í heimi. Það er samt allt í lagi að leyfa sér að brosa og gleðjast þegar drengurinn fer hamförum eins og hann hefur gert nú í upphafi leiktíðar. Um það snýst þetta nú allt saman - að hafa gaman.
Annað atriði sem tengist frammistöðu Curry undanfarin misseri með beinum hætti er gengi liðs hans síðustu tólf mánuði. Það er hlutur sem hefur verið til umræðu undanfarið og í þeirri umræðu hafa komið fram skoðanir sem urðu helsta kveikjan að þessum pistli.
Umræðan um meinta og raunverulega heppni Golden State-liðsins á síðustu leiktíð er nefnilega ekki að deyja og virðist meira að segja lifa góðu lífi. Þannig er ekki langt síðan fjölmiðlar nýttu tækifærið og tóku ummæli Doc Rivers þjálfara Clippers og rifu þau úr samhengi, þegar hann hafði orð á því að vissulega hefði Golden State haft heppnina með sér á leið sinni að titlinum á síðustu leiktíð. Við sögðum þetta nákvæmlega sama oftar en einu sinni, en fólk sá líka ástæðu til að taka það úr samhengi.
Það sem okkur þótti nauðsynlegt að benda á í þessu samhengi, er að þó Warriors hafi ef til vill haft heppnina með sér eins og öll lið sem verða meistarar í NBA, bendir nákvæmlega ekkert til þess að þar hafi verið á ferðinni lið sem grísaðist til að vinna einn meistaratitil. Þvert á móti, segja tölfræðin og sagan okkur að Golden State hafi verið eitt öflugasta lið sögunnar og því vel að titlinum komið hvort sem vegurinn að honum var holóttur eða malbikaður.
Við erum búin að segja ykkur þetta oft áður og ef þið eruð orðin leið á því, skulið þið bara sleppa því að lesa þetta. Ætlun okkar með þessum áróðri er ekki að troða því upp á ykkur að Warriors-liðið sé besta lið allra tíma - okkur langar bara að benda aftur á það að árangur þessa liðs var enginn grís. Langt í frá.
Hvort sem Golden State var heppið á síðustu leiktíð eða ekki, fór árangur liðsins í sögubækurnar af því hann var einn sá besti sem sést hefur. Nóg er að nefna að liðið vann 67 leiki í deildarkeppninni, sem er eitthvað sem við sjáum ekki á hverju ári eins og þessi tafla sýnir.
Frekari tölfræðigröftur sýnir að Golden State var líka með einn hagstæðasta stigamun per 100 sóknir sem sést hefur, enda vann það ekki bara stóra sigra, heldur gat líka leyft sér þann munað að hvíla stjörnurnar sínar í fjórða leikhluta leik eftir leik.
Þeir segja að vörn vinni titla og þó það sé klisja, var það sönn klisja á síðustu leiktíð þegar besta varnarlið deildarinnar varð meistari. En Golden State var nefnilega ekki bara besta varnarlið deildarinnar, það var líka veiðihári frá því að vera besta sóknarlið deildarinnar. Það var í öðru sæti yfir bestu sóknina, rétt á eftir Los Angeles Clippers eins og við höfum tuggið í ykkur 200 sinnum.
Og það er sannarlega ekki algengt að lið séu á eða við toppinn í báðum katagóríum. Síðasta lið sem við munum eftir sem var á toppnum bæði í vörn og sókn var ofurlið Chicago Bulls frá árinu 1995-96 sem margir kalla besta lið allra tíma. Lið eru sæmd slíkum titlum þegar þau vinna 72 leiki í deildarkeppninni (NBA met), eru best í vörn og sókn, hagstæðasta stigamuninn (+13) og vinna loks titilinn.
Hérna er tafla frá tölfræðivélinni John Schuhmann á NBA punktur kom, sem sýnir okkur hina og þessa tölfræði öflugustu liðanna í nútímakörfuknattleik.
Golden State var aðeins þriðja liðið á síðustu 38 árum sem var á topp tvö í bæði vörn og sókn og stigamunur liðsins (+11,4 stig per 100 sóknir) var sá fjórði besti á sama tíma á eftir Chicago-liðunum 1996 (+13,3 og 72 sigrar) og ´97 (+12 og 69 sigrar) og meistaraliði Boston Celtics frá árinu 2008 (+11,5). Þetta Boston lið var besta varnarlið deildarinnar á sínum tíma og vann 66 leiki, en aðeins í tíunda sæti í sókn og fór ekki beint óaðfinnanlega í gegn um úrslitakeppnina eins og þið munið kannski.
Eins og taflan hér fyrir ofan sýnir voru yfirburðir Warriors í deildarkeppninni í fyrra slíkir að þeir skjóta meira að segja sögulegum stórveldum á borð við ´86 liði Celtics og ´87 liði Lakers ref fyrir rass.
Enn og aftur, við erum ekki að segja að Golden State sé betra lið en Lakers og Celtics-lið þeirra Medsjik og Börd, við erum aðeins að benda á að strákarnir hans Steve Kerr voru og eru engir skussar.
Strangt til tekið eru ekki nema þrjú lið í því sem við skulum kalla nútíma NBA sem hafa ruslast í gegn um deildarkeppnina með öðrum eins látum og Warriors gerði. Það eru Chicago-liðið hans Djordans frá ´96 sem við nefndum áðan og ógnarsterk lið Lakers og Bucks frá árunum 1971-´72.
Milwaukee-liðið sem vann titilinn árið 1971 með hjálp Karíms Abdúls Djabbars og Óskars Róbertssonar vann 66 leiki í deildarkeppninni, leiddi deildina bæði í vörn og sókn og straujaði úrslitakeppnina 12-2 á leið sinni að titlinum.
Þetta Bucks-lið var að sjálfssögðu frábært árið eftir líka og hefði undir öllum eðlilegum kringumstæðum orðið meistari aftur eftir 63 sigra deildarkeppni. Þetta var hinsvegar ekkert eðlilegt ár, því þetta var ár hins sögulega sterka Lakers-liðs 1972.
Undir styrkri stjórn Jerry West og Wilt Chamberlain vann liðið 69 leiki (þar af 33 í röð sem er enn NBA met), vann leiki sína með 15,9 stigum að meðaltali (NBA met) og ruslaði úrslitakeppninni upp 12-3 þar sem það lagði ógnarsterkt lið Milwaukee í úrslitum.
Lakers var besta sóknarlið deildarinnar þetta ár og í öðru sæti í vörn - Bucks var besta varnarliðið og næstbesta sóknarliðið.
Við skulum ekki íþyngja ykkur frekar með tölfræðinni og vonum að hún hafi náð að vinna Warriors-liðinu nokkur stig hjá ykkur ef þið voruð í hópi efasemdamanna og kvenna Flóaliðsins. En þó þessi tölfræði segi sitt, nær hún ekki að útskýra hvernig liðið fór ótroðnar slóðir að titlinum.
Eins og við erum alltaf að segja ykkur - og þið sjáið sjálf ef þið pælið eitthvað í því - er spilamennskan í NBA búin að breytast óhemju mikið síðustu ár. Sumir segja að þessar breytingar hafi tekið áratug, sumir aðeins fimm ár, en það er ljóst að Golden State er einn af fánaberum nýrra tíma í deildinni.
Við þurfum ekki að líta lengra en aftur til sokkabandsára Tim Duncan í NBA til að sjá hvað spilamennskan í deildinni hefur breyst gríðarlega. Það sem einu sinni var allt að því ofbeldisfullur varnarleikur og lúshægt sóknarhnoð, er í dag orðið að hröðum og flæðandi sóknarleik með bullandi boltahreyfingu og takmarkalausum langskotum. Auðvitað erum við að alhæfa rosalega en þið áttið ykkur á því hvert við erum að fara.
Eitt besta dæmið um þennan nýja sóknarbolta er meistaralið San Antonio frá árinu 2014, en færa má rök fyrir því að nú sé Golden State búið að lyfta honum í alveg nýjar hæðir.
NBA deildin er alltaf hermikrákudeild og í hvert skipti sem kemur fram nýtt sterkt lið með afgerandi leikstíl, fáum við alltaf að sjá nokkur lið reyna að herma eftir þeim. Nýjustu dæmin um þetta má nefna t.d. San Antonio, Miami og nú síðast Golden State. Það kaldhæðna við þetta er að þó þú getir pikkað eitt og annað upp úr leikstíl þessara liða, eru líkurnar á því að þú náir árangri við það litlar sem engar.
Hvar ætlarðu að fá Tim Duncan til að herma eftir San Antonio? Hvar ætlarðu að fá LeBron James, Dwyane Wade og Chris Bosh til að herma eftir Miami? Og hvar í ósköpunum ætlar þú að finna Stephen Curry til að herma eftir meisturum Golden State? Einmitt.
Nei, þú getur reynt að púsla saman góðu varnarliði með fjölhæfum, klókum og vel skjótandi mannskap, en þú nærð aldrei að búa til Golden State af því það er bara til einn Stephen Curry.
Alveg eins og það er bara til einn Tim Duncan og einn LeBron James, er bara til einn Steph Curry og hann er raunar að verða svo einstakur leikmaður að það er ekki útilokað að við fáum að sjá annan Tim Duncan áður en við sjáum annan Steph Curry. Hann er svona einstakur, morðinginn okkar með barnsandlitið.
Við erum að sjá hann skrifa alveg nýja kafla í NBA annálana og við erum að fá að fylgjast með því í beinni útsendingu kvöld eftir kvöld. Þetta eru forréttindi sem þið gætuð átt eftir að monta ykkur af við barnabörnin síðar meir. Ykkur finnst kannski óviðeigandi að við séum að jarma þetta yfir ykkur, en reynslan segir okkur að við megum ekki taka því sem sjálfssögðum hlut að fylgjast með lifandi goðsögnum vinna vinnuna sína.
Við munum eftir Jordan, Magic og Bird, en á meðan tilþrifin þeirra lifa flest í minningunni eða í lélegum myndgæðum á youtube, erum við að fá að fylgjast með mönnum eins og LeBron James, Kevin Durant, Russell Westbrook og Stephen Curry í beinni útsendingu í háskerpu á hverju kvöldi.
Þessir piltar eru ekki aðeins að spila í NBA deild sem hefur aldrei verið sterkari og skemmtilegri, heldur eru þeir hver um sig algjörlega einstakir leikmenn sem við höfum aldrei séð áður og fáum kannski aldrei að sjá aftur. Þetta eru engar ýkjur, þetta eru staðreyndir. Finnið þið annan LeBron, annan Durant, annan Curry - þeir eru ekki til.
Sumir þessara pilta eru einstakir í sögunni vegna líkamsburða og hæfileika - LeBron James er leikstjórnandi í líkama kraftframherja sem á engan sinn líkan, Kevin Durant er sjö feta hár hágæðaskotbakvörður og Stephen Curry er nú þegar orðin hættulegasta langskytta í sögu NBA deildarinnar þó hann sé ekki einu sinni búinn að ná hátindi ferils síns! Sem er fullkomlega bilað!
Í augnablikinu er Curry að skjóta yfir tíu þriggja stiga skotum að meðaltali í leik og það eina sem menn hafa út á það að setja er að kannski ætti hann að taka fleiri!
Eins og svo oft áður breytist pistill hjá okkur í lofræðu og love-fest um deildina okkar fögru, leikmennina sem skipa hana og körfuboltann sem konsept - leik allra leikja.
Leik-inn.
Við biðjumst velvirðingar á því.
Farið í mál við okkur.