Tuesday, June 29, 2010

Viltu meira Kool-Aid?


Ritstjórn NBA Ísland liggur nú í hálfgerðum sumardvala eins og lesendur hafa væntanlega tekið eftir.

Það þýðir þó ekki að við séum ekki með puttana á púlsinum, við dælum skemmtilegum molum og tenglum inn á Twitter-síðuna daglega og þú getur séð megnið af því hér á síðunni.

Það er ekki til mikils að velta sér mikið upp úr slúðrinu í kring um leikmenn með lausa samninga fyrr en eitthvað konkret fer að gerast í þeim efnum upp úr mánaðamótum.

Allir verða líka að kasta mæðinni og hlaða andann eftir svona langt keppnistímabil.

Við höfum ekkert ákveðið hvað við gerum næsta vetur og það liggur líka ekkert á því.

Það væri líka gaman að heyra meira frá ykkur lesendum, sem hafið verið mjög duglegir við að setja ykkur í samband í allan vetur.

Hvernig fannst ykkur veturinn á NBA Ísland? Hvað fannst ykkur skemmtilegast? Hvað vantar á síðuna? Vantar meira af einhverju tilteknu efni? Minna af einhverju?  Hvað sem ykkur liggur á hjarta. Sendið okkur endilega línu á nbaisland@gmail.com svo við höfum eitthvað að lesa inn á milli sigurleikja Þjóðverja á HM.

Ykkar atkvæði skipta alltaf máli.

Friday, June 25, 2010

Nýliðavalið 2010


Nýliðavalið í NBA árið 2010 fór fram í New York í gær.

Skemmst er frá því að segja að þetta var hrútleiðinlegur viðburður eins og síðustu ár.

Það gæti haft eitthvað með það að gera að það er liðin tíð að við sjáum nokkra nýliða koma inn í deildina úr draftinu og virkilega láta til sín taka líkt og tíðkaðist fyrir 15-20 árum.

Ekki nóg með að leikmennirnir séu slakari en áður, heldur hefur sífjölmiðlun gert það að verkum að ekkert kemur á óvart á þessu kvöldi.

Allir vita allt sem þarf að vita um leikmennina sem eru að koma inn. Fólk heima í stofu veit orðið jafn mikið um þá og fjölmiðlamenn.

Internet og 24/7 sjónvarp eiga sinn þátt í þessu.

Strákarnir á Sports Illustrated eru mjög jákvæðir þegar þeir gefa liðunum í deildinni einkunnir fyrir frammistöðu þeirra í nýliðavalinu í gær.

Fólk var almennt á því að hér hefði verið á ferðinni einn best klæddi nýliðahópur sem sést hefur og því er óhætt að segja að flathúfu-trendið hafi ekki verið að gera sérstaka hluti eins og sést hér á myndinni.

Thursday, June 24, 2010

Eitt ár í viðbót, Phil


Eins og flestir vita er Phil Jackson, þjálfari LA Lakers, að íhuga að setjast í helgan stein.

Einn af vinum hans, ritböðullinn Charley Rosen á Fox, skorar til dæmis á Jackson að hætta í pistli sínum í dag, ekki síst af heilsufarsástæðum.

Blessuð heilsan er auðvitað eitt það mikilvægasta í lífinu, það getum við vottað, þó við höfum ekki verið fædd inn í þennan heim þegar Phil Jackson vann sinn fyrsta meistaratitil á ferlinum sem leikmaður Knicks.

Enginn gæti bölvað Jackson fyrir að hætta núna ef hann tekur þá ákvörðun, en hann má bara ekki hætta núna.

Eitt tímabil í viðbót - köllum það svo gott.

Ekki hætta þegar þú ert að þjálfa besta liðið í NBA og átt möguleika á að ná fjórðu þrennunni á ferlinum - nokkuð sem enginn þjálfari mun leika eftir meðan við lifum - eða nokkru sinni kannski, ef út í það er farið.

Ekki meðan þú getur enn öskrað á dómara, tamið útblásin ofursjálf geðsjúkra íþróttamanna og skrölt milli langferðabíla og flugvéla. Meðan þú ert enn með blóðlausar hægðir, bullandi zen og ástríðu fyrir leiknum.

Eitt tímabil í viðbót - og svo á Benidorm og/eða Hrafnistu.

Tólf er miklu fallegri tala en ellefu.

Og NBA deildin er skemmtilegri með Phil Jackson innanborðs.

Tuesday, June 22, 2010

Sunday, June 20, 2010

Saturday, June 19, 2010

Friday, June 18, 2010

Los Angeles Lakers er NBA meistari 2010:


























Hún er alltaf jafn sérstök. Þessi tilfinning sem grípur okkur eftir síðasta leik tímabilsins. Los Angeles Lakers er NBA meistari árið 2010, annað árið í röð og í 16. skiptið í glæstri sögu félagsins. Liðið tryggði sér titilinn með 83-79 sigri á Boston Celtics í epískum oddaleik á heimavelli.

Leikurinn var eins og blóðugur hnefaleikabardagi. Gæðin voru í takmörkuðu upplagi, varnarleikurinn kæfandi og stigaskorið lágt. Svona á leikur sjö að vera. Þetta var mögnuð upplifun.

Þeir sem horfðu á leikinn sáu Kobe Bryant eiga mjög erfitt uppdráttar í sóknarleiknum og hætt við að kappinn sá hefði sofið lítið næstu vikurnar ef liðið hans hefði tapað þessum mikilvægasta og stærsta leik í sögu félagsins í minnst tvo áratugi.

En Kobe fékk góða hjálp frá félögum sínum að þessu sinni. Pau Gasol, Ron Artest, Derek Fisher - fjandinn sjálfur - meira að segja Sasha Vujacic henti í púkkið.

Hey, Lakers er besta lið heims með sigursælasta þjálfara í sögu deildarinnar. Þetta snýst ekki allt um Kobe Bryant. Hann var bara skærasta stjarnan á vellinum.

Kobe var spurður að því eftir leikinn hvað þessi titill þýddi fyrir hann persónulega.

"Hann þýðir að ég er búinn að vinna fleiri en Shaq og það getið þið farið með í bankann," sagði Bryant.

Og brosti ekki fyrr en eftir vandræðalega þögn í fjölmiðlaherberginu. Og þið hélduð að Kobe myndi bregðast okkur. Þessari sögu er ekki lokið. Þetta er persónulegt og hann á eftir að strika fleiri atriði út af listanum sínum.

Bryant var auðvitað kjörinn verðmætasti leikmaður lokaúrslitanna, en fjöldi blaðamanna var á því að Pau Gasol hefði ef til vill mátt fá aðeins meira kúdós fyrir framlag sitt í einvíginu.

Og því erum við sammála.

Okkur liggur margt og mikið á hjarta varðandi Gasol. Svo mikið að það gæti verðskuldað sérstaka hugleiðingu eða pistil. En burtséð frá því var Gasol frábær í þessum leik. Frábær leikmaður.

Hversu mikið meira væri Pau Gasol hampað í bandarísku pressunni ef hann væri ekki Evrópumaður? Óendanlega? Stjarnfræðilega? Eitthvað á því bili.

Gaurinn fær svo glæpsamlega litla ást að það grætir okkur. Hann var ekki nema lang stöðugasti leikmaður Lakers í úrslitaeinvíginu. Það er ekkert öðruvísi.

Það mætti einnig skrifa sérstakan pistil um Ron Artest, frammistöðu hans í úrslitaleiknum og viðtölin við hann eftir leikinn. Skemmst er frá því að segja að gaurinn opnaði fyrir allar sínar geðveikustu flóðgáttir eftir lokaflautið.

Ron Artest er í alvörunni súrrandi, súrrandi, súrrandi geðveikur.

Svo veikur er hann, að á meðan flestir höfðu gaman af því að hlusta á rantið hans eftir leikinn, fengum við tak í meðvirknina okkar. Svona eins og þegar við horfðum á Stjána Stuð og Magga Mix í Stjórnun hjá Audda og Sveppa.

Segðu samt hvað sem þú vilt um geðheilbrigði Ron Ron. Hann gerði gæfumuninn (aftur) hjá Lakers í þessum leik.

Það má eflaust draga lærdóm af einhverju af þessu. Til dæmis; "Það snýst ekki um hvað þú segir eða hugsar - heldur hvað þú gerir." Eitthvað þannig.

Derek Fisher átti líka gott framlag með tímanlegum körfum og einu þristunum sínum í einvíginu. Jú, og fíflið hann Sasha Vujacic með þessum rosalega köldu "ekkert nema net" vítaskotum í krönsinu. Við fyrirgefum honum aldrei að hafa hirt Mariu Sharapovu af okkur áður en við fengum tækifæri til að kynna okkur fyrir henni, en við verðum bara að gefa Sasha props fyrir innslagið sitt.

Gallinn við leik sjö er að einhver þarf að tapa honum og það kom í hlut Boston að tapa þessum.

Við erum auðvitað búin að skrifa mikið um ótrúlega úrslitakeppni Boston liðsins og það er engin leið að gera sér í hugarlund hve ömurleg stemmingin hefur verið í gestaklefanum í Staples Center í nótt.

Það væri hægt að analísera það héðan og til tunglsins hvað fór úrskeiðis hjá Boston, en þegar allt er talið vantaði bara aðeins upp á hjá þeim grænu.

Kendrick Perkins hefði eflaust getað hjálpað þeim eitthvað með öll þessi fráköst sem enduðu í krumlunum á Lakers-liðinu í kvöld, Ray Allen hefði eflaust getað sett eitthvað af þessum múrsteinum sínum niður, liðið hefði kannski átt að leita meira að Paul Pierce, Rondo hefði kannski átt að nýta sér betur hvað hann var látinn vera í vörninni, Rivers hefði kannski átt að hvíla stjörnurnar sínar aðeins meira.... take your pick. Það er alltaf hægt að finna eitthvað.

Við höfum bara á tilfinningunni að Boston hafi orðið bensínlaust í kvöld. Kannski hefði þetta dottið þeirra megin ef þeir hefðu getað nærst á orkunni frá eigin stuðningsmönnum, en það var ekki í boði eftir að liðið meilaði inn góðan hluta af deildakeppninni og hafnaði í fjórða sæti í Austurdeildinni.

Spretturinn hjá Boston í þessari úrslitakeppni er samt sem áður búinn að vera ævintýralegur og hann mun ekki falla í gleymsku. Ekki hjá okkur í það minnsta.

Doc Rivers og félagar í þjálfarateymi Boston gerðu nokkuð sem erfitt er að toppa með þetta lið í vetur. Við vonum sannarlega að enginn taki það upp eftir þeim að taka pásu í nokkra mánuði í deildakeppninni, en það var stórfenglegt að sjá liðið valta yfir Cleveland og Orlando og veita meisturunum eins mikla keppni og hægt er með þessum efnivið.

Við erum með þriðja stigs bruna eftir að hafa veðjað á móti Boston í vor og vetur, en það er bruni sem á ekki eftir að endurtaka sig. Þriggja ára ævintýri þessa hóps var frábært, en því er lokið.

Þjálfarateymið leysist upp og/eða fer annað, Ray Allen er með lausa samninga, Rasheed Wallace er jafnvel hættur og elli kelling er farin að taka þungan toll á kjarna liðsins. Það þarf eitthvað stórkostlegt að gerast svo Boston geti átt von á að spila leik í júní á næstunni.

Framtíðin er öllu bjartari hjá Lakers.

Phil Jackson ætlar að taka sér viku til að hugleiða hvort hann á að snúa aftur, en við tippum á að morðhótanir frá Kobe Bryant möguleikinn á fjórðu titlaþrennunni ætti að verða nóg til að lokka hann í eitt ár í viðbót.

Eini dökki punkturinn hjá Lakers-liðinu er brotthætt líkamlegt ástand Andrew Bynum. Dálítið skítt að yngsti lykilmaður liðsins sé stærsta spurningamerkið hvað heilsu varðar, en þannig er það hjá Lakers.

Kobe Bryant fullyrðir að hann sé ekkert að eldast, það eina sem hafi haldið aftur af honum í vetur hafi verið meiðsli - og það má til sanns vegar færa. Kobe mun hægja eitthvað aðeins á sér, en hann er geðsjúkur keppnismaður og mun finna leiðir til að nýtast liðinu til fullnustu þó hann missi óhjákvæmilega skref eða tvö fljótlega. Hann er með meðreiðarsvein í Pau Gasol sem hefur sannað sig og það verða alltaf til peningar í LA til að fylla upp í skörðin með rulluspilurum.

Og hvaða lið er að fara að velta Lakers af stalli á næsta ári - og þá sérstaklega í Vesturdeildinni? Plís.

Það eiga eftir að verða einhverjar hræringar á leikmannamarkaðnum í sumar, en það þarf eitthvað stórkostlegt að gerast svo úr verði lið sem hræðir LA Lakers.

Og það, dömur og herrar, er bara þannig.

Thursday, June 17, 2010

Hreinn úrslitaleikur um NBA titilinn í nótt


Aðeins þrisvar sinnum á síðustu 25 árum hafa úrslitin í NBA ráðist í oddaleik.

Það er því eðlilega ekki á hverjum degi sem við fáum að upplifa leik eins og viðureign Lakers og Celtics í nótt.

Hreinn úrslitaleikur. Allt undir.

Nú verða ALLIR að horfa. Enginn má missa af þessu.

Gættu þess að stilla mjög tímanlega (00:45 í síðasta lagi) á Stöð 2 Sport í nótt til að vera viss um að missa ekki af mínútu af þessum einstaka viðburði.

Það er ekki víst að sigursælustu og sögufrægustu körfuboltalið NBA deildarinnar mætist aftur í hreinum úrslitaleik næstu áratugina.

Wednesday, June 16, 2010

Lakers knúði fram oddaleik:

























Það er erfitt að gíra upp anda til að skrifa um leik eins og sjöttu viðureign Lakers og Celtics í kvöld.
Hlaut að koma að því að við fengjum að sjá blástur í þessari seríu og úr því hann þurfti að koma, var
fínt að klára hann af í þessum leik.

Þessi leikur var jafn fram í miðjan fyrsta leikhluta ef okkur misminnir ekki og eftir það breyttist hann í
hálfgerða steypu.

Öruggur 89-67 sigur Lakers var aldrei í hættu og þó sigur heimamanna hafi alls ekki
komið á óvart, var lítill klassi yfir því hvernig Boston drullaði á sig í þessum leik.

Boston sleikti metabækurnar víða í þessum leik. Nægir að nefna að stigaskorið var það næstlægsta í sögu lokaúrslitanna og þá fór liðið aðeins tíu sinnum á vítalínuna.

Staðfest tölfræði yfir sniðskotin sem Boston klúðraði í leiknum er ekki komin í hús, en hún var á allan hátt skelfileg.

Heimamenn mættu í þennan leik og Boston kastaði inn handklæðinu snemma og gat ekki nýtt sér tækfærin sem það fékk til að laga stöðuna.

Það hjálpaði ekki að Kendrick Perkins meiddist á hné, yfirgaf völlinn og er ólíklegur í næsta leik.

Heimaeldamennskan fór vel í varamenn Lakers, sem skoruðu 24 stig áður en kollegar þeirra á Boston-bekknum svöruðu.

Þessi leikur var rusl og ekkert við því að gera. Strikum hann út.

Allir búnir að gleyma honum núna og farnir að hugsa um leik sjö á fimmtudagskvöldið. Það var hann sem flestir vildu fá hvort sem var og við erum þegar búin að eyða allt of miklu púðri í að tala um sjötta leikinn.

Það gerist hreint ekki á hverjum degi að lokaúrslit NBA fari alla leið í oddaleik. Raunar hefur það aðeins gerst þrisvar frá því 2-3-2 keppnisfyrirkomulagið var tekið upp árið 1985.

Í þessum þremur tilvikum hefur heimaliðið alltaf unnið sjöunda leikinn. LA Lakers ´88, Houston ´94 og San Antonio ´05.

Alls hefur úrslitaeinvígið 16 sinnum farið í sjö leiki og þar af hefur útiliðið sigrað fjórum sinnum.

Hvað er hægt að segja um þennan sjöunda leik?

Það er auðvitað freistandi að velja meistarana. Þeir eru á heimavelli og búnir að finna sig eftir hikstið í Boston.

En málið er bara að nú er Boston aftur komið í stöðuna sem kallar fram það besta í undirhundunum sem þeir eru. Þeir eru með bakið uppi við vegg, eru á útivelli og allir tippa á móti þeim.

Þannig vilja þeir hafa það og það er ekki hægt að stilla þessum síðasta leik tímabilsins betur upp.

Við höfum áður tíundað það hér hve mikið er í húfi fyrir bæði lið.

Bókin um Kobe Bryant verður ekki eins áhugaverð ef liðið hans þarf að sætta sig við að tapa aftur fyrir Boston í lokaúrslitum. Reyndar alls ekki eins áhugaverð. Og þá þarf hann að svara ansi mörgum leiðinda spurningum og hlusta á fólk minna hann á hvernig hann gat aldrei klárað Boston.

Sérstaklega þykir okkur þó hryllilegt að hugsa til þess að ef Boston tapar þessum leik, fellur ótrúlegt hlaup liðsins í oddaleik lokaúrslitanna 2010 fljótlega í gleymsku.

Ef liðið vinnur, verður þessa spretts hinsvegar minnst í skrautskrift í öllum sögubókum.

Vá, hvað er stutt á milli núna.

Þessi oddaleikur verður kjarneðlisfræðileg epík.

Tvær nettar frá Shannon Brown


Tuesday, June 15, 2010

Leikur 5 í máli og myndum


Hin hliðin


A.C. Green: "Gaaaaas!!!"


Þú vissir það kannski ekki áður, en nú veistu það. A.C. Green segir konum heimsins að verja sig fyrir komandi árásum. Líf þeirra eru í hættu. Notið piparúða! Fagmennirnir nota hann.

Monday, June 14, 2010

Boston er einu stóru skrefi frá titlinum:

























Í fyrsta skipti í þessari úrslitakeppni standa meistarar LA Lakers nú frammi fyrir þeirri staðreynd að verða sendir í sumarfrí ef þeir tapa næsta leik. Þetta varð ljóst eftir að liðið tapaði fimmta leiknum gegn Boston Celtics 92-86 í garðinum í nótt. Boston er nú í fyrsta skipti komið yfir í seríunni og fær nú tvö tækifæri til að klára dæmið í Los Angeles, á þriðjudags- og/eða fimmtudagskvöld.

Einkunnir leikmanna

Allir leikirnir í þessu einvígi hafa á einn eða annan hátt verið dálítið furðulegir. Þessi var engin undantekning. Það er vissulega skrítið að Lakers-liðið hafi verið í bullandi séns á að vinna leik þar sem liðið var lengst af með helmingi lakari skotnýtingu en andstæðingurinn.

Kobe Bryant (38 stig) hafði hægt um sig í fyrri hálfleik en sprakk út í þeim síðari. Skoraði 19 stig í þriðja leikhluta, skoraði á kafla úr sjö skotum í röð og gerði sitt til að bera lið sitt á bakinu. Við höfum oft dissað Kobe fyrir að reyna of mikið, en það er erfitt að blammera hann þegar félagar hans eru úti að aka í sóknarleiknum líkt og í nótt.

Boston hitti loksins á góðan skotleik á heimavelli og fékk flott framlag frá öllum sínu helstu stjörnum í sóknarleiknum. Paul Pierce (27 stig) var loksins almennilega grimmur í heilan leik og Kevin Garnett (18/10) átti fínan leik og Rondo (18/5/8) átti nokkur stórbrotin atriði þó hann hafi líka verið nokkuð mistækur.

Þegar við segjum að Kobe Bryant hafi ekki fengið mikla hjálp frá félögum sínum í leiknum, erum við ekki að grínast. Hann skoraði 38 stig - restin af Lakers-liðinu 48. Mikið mun verða talað um hvort skotsýning hans í þriðja leikhlutanum hafi skemmt fyrir Lakers-liðinu eða ekki, en við ætlum að taka upp hanskann fyrir Kobe að þessu sinni.

Kobe má og verður að skjóta svona þegar hann er að hitta vel og þegar enginn annar í liðinu er að gera neitt í sóknarleiknum. Það er ekki við Kobe að sakast. Hann er ekki þjálfari liðsins. Og þjálfari liðsins á að vita hvað hann er að gera - ef við tökum mark á skartgripasafninu hans.

Við eigum erfitt með að viðurkenna það, en Lakers-liðið saknar Andrew Bynum mikið. Hann reynir að skakklappast eitthvað á þessu meidda hné sínu, en hann hefur ekki verið í essinu sínu í undanförnum leikjum og það er engin tilviljun að þessir leikir eru að tapast.

Boston er að pönkast á framlínu Lakers og harka stóru strákanna hjá Celtics er að snúa einvíginu þeim í hag. Boston er að hrinda Gasol út úr sínum leik og gera honum erfitt fyrir í þríhyrningnum með pönki. Boston er að vinna teiginn á sama hátt og Lakers var að vinna hann í fyrri umferðum úrslitakeppninnar. Með lengd og hörku. Liðið sem vinnur frákastabaráttuna er 5-0 í þessum lokaúrslitum og það eru engin geimvísindi að baki þeirri tölfræði.

Við höfum á tilfinningunni að það virki Boston í hag því lengra sem líður á þessa seríu. Varnartæknar Boston eru sífellt að finna betri leiðir til að sjúga lífið úr Lakers-sókninni. Boston vinnur ekki einvígi sín með því að útspila andstæðinginn á gæðunum eins og Lakers. Boston vinnur á því að ráðast samviskulaust á allt sem þú gerir vel og taka það frá þér þangað til þig langar ekki að spila lengur og vilt bara fara heim.

Talandi um að fara heim. Nú eru Lakers-menn einmitt að fara heim. Til Hollywood. Og þar líður þeim miklu betur. En því er ekki að neita að það hafa orðið straumhvörf í þessu einvígi.

1.) Lakers vann fyrsta leikinn og þar fór meðbyrinn heldur á þeirra band, þó ekki væri nema út af hryllilegri 47-0 tölfræði Phil Jackson og mikilvægi þess að byrja einvígi vel.

2.) Boston stal vindinum óneitanlega með sigri í leik tvö, en allir vissu að liðið tæki heimaleikina ekki 3-0 og því var sigurinn í leik tvö meira lífsnauðsynlegur en einhver risa bónus.

3.) Lakers tók allan meðbyr í einvíginu aftur til sín með góðum sigri í leik þrjú í Boston. Heimavöllurinn var aftur orðinn þeirra og pressan var aftur öll á Boston að klára leiki 4 og 5 heima - ellegar væri staðan nánast vonlaus.

4.) Boston vinnur skyldusigur með bakið uppi að vegg. Dramatíkin á bak við frammistöðu varamanna Boston hleypti nýju lífi í einvígið. Heimamenn eru á lífi, en enn var mörgum spurningum ósvarað.

5.) Boston klárar heimavertíðina með nauðsynlegum sigri og svarar öllum spurningunum sem lágu á borðinu utan einni. Meðbyrinn sem Boston fann lyktina af eftir leik tvö er nú orðinn raunverulegur. Í fyrsta skipti í einvíginu er hægt að segja með vissu að meðbyrinn sé með Boston.

Nú erum við komin aftur til Hollywood og þá liggja fyrir nokkrar áhugaverðar pælingar sem gaman verður að sjá svarað.

Það áhugaverðasta við leik sex er að sjá hvernig Lakers-liðið svarar nú þegar það er loksins komið með bakið upp að vegg.

Liðið hefur bara tapað einum heimaleik í úrslitakeppninni og hefur til þessa svarað lélegum útileikjum með frábærum heimaleikjum í kjölfarið.

Það er reyndar ólíklegra að svo verði í þessu einvígi, einfaldlega út af varnarleik, reynslu og seiglu Boston umfram aðra mótherja Lakers til þessa. Boston leggst ekki í gólfið og gefst upp í Staples eins og reynslu- og getuminni mótherjar Lakers gerðu í fyrri umferðum.

Eitthvað segir okkur að Lakers muni spila betur sem lið í leik sex. Varamenn Lakers spila miklu betur þar en á útivöllum og atriði sem gengu liðinu í mót í Boston gætu átt eftir að falla með því heima. Og geta Lamar Odom og Ron Artest (og listinn heldur áfram) virkilega haldið áfram að spila svona illa?

Rökhugsun leiðir okkur út á þá braut að tippa á að Lakers muni knýja fram ógleymanlegan oddaleik á þjóðhátíðardag Íslendinga þann 17. júní.

Og mikið fjandi væri það sögulegt og skemmtilegt.

Já, trúlega spila meistararnir betur á þriðjudagskvöldið.

En skoðum málið aðeins út frá sjónarhóli Boston.

Hugsið ykkur að Boston er aðeins einum sigri frá því að vinna meistaratitilinn. Það er mjög auðvelt að hugsa til þess að liðinu dugir að vinna einn af tveimur á útivelli - þar sem liðið hefur spilað betur en heima í allan vetur. Pressan er öll á Lakers í sjötta leiknum.

Það er kannski dónalegt á þessum tímapunkti að hugsa lengra en í leik sex, en af því við erum ekki að spila, getum við leyft okkur þann munað.

Hefur þú hugleitt hvað það myndi þýða fyrir liðin ef Boston vinnur titilinn í ár?

*Það myndi þýða að Boston væri óumdeilanlega besta lið heims á árabilinu 2008-10

*Það myndi þýða að það yrði alltaf * aftan við titil Lakers árið 2009 (*Garnett meiddur)

*Það myndi þýða að Kobe Bryant hefði aldrei getað klárað Boston Celtics í lokaúrslitum, nokkuð sem veikir stöðu hans gríðarlega í annálum Lakers og almennum sögubókum.

*Það myndi þýða að leið Boston að titlinum 2010 yrði skrifuð rækilega í sögubækur sem einhver óvæntasta en glæsilegasta framganga nokkurs liðs eftir það sem á undan er gengið.

Liðið myndi slá út fjóra all-nba gaura og liðin í þremur efstu sætunum í deildinni á leið sinni að titlinum.

Nú veistu af hverju Kobe Bryant var froðufellandi eftir tapið í kvöld. Það er ekkert lítið í húfi í þessu einvígi.

Kobe langar ekki að segja "æ, já það var af því Andrew Bynum var alltaf meiddur" þegar fólk spyr hann út í Celtics-töpin í framtíðinni.

Hér er allt undir gott fólk.

Saturday, June 12, 2010

Friday, June 11, 2010

Enn er jafnt hjá Lakers og Celtics:





























Hún lítur ekki vel út, tölfræðiskýrslan hjá byrjunarliðsmönnum Boston eftir fjórða leikinn gegn Lakers
í nótt. Hún gerir það kannski ekki heldur hjá Lakers, en það sem skildi að í 96-89 sigri Boston var
framlag varamanna liðsins. Sjáðu einkunnir leikmanna hér.

Við vissum mætavel að bekkur Boston væri miklu sterkari og það kom berlega í ljós í þessum leik. Fram eftir öllu leit út fyrir að meistararnir ætluðu að refsa Boston fyrir að setja óstaðfest heimsmet í klúðruðum sniðskotum og opnum skotum.

En þá kom til kasta varamanna Boston, þeirra Tony Allen í varnarleiknum gegn Kobe Bryant og svo sóknarframlags Glen "Big Baby" Davis og Nate Robinson. Davis og Robinson skoruðu 30 stig á milli sín og kveiktu svo um munaði í áhorfendum í Garðinum, sem voru byrjaðir að naga neglurnar af kvíða löngu fyrir leikinn.

Þeir sem sáu leikinn í nótt eiga aldrei eftir að gleyma sjónarspilinu þegar þeir frændur fögnuðu eins og óðir væru og Davis slefaði eins og stungið naut. Góðar líkur á að þetta verði kallað "Slefleikurinn" í annálum Baunbæinga framvegis - ekki síst ef Boston nær nú að vinna titilinn. Þá var frammistaða þeirra á blaðamannafundinum eftir leikinn ekki síður goðsagnakennd, þar sem Robinson líkti sér og Davis við Shrek og Asna.

Það er erfitt að skamma Phil Jackson fyrir þá ákvörðun að spila full lengi á byrjunarliðsmönnum sínum í leiknum - hann hefur úr engu að moða á bekknum fyrir utan Lamar Odom - en Kobe og félagar höfðu bara ekki púst í að klára leikinn eftir að hafa orðið fyrir þessari orku-árás frá varamönnum Boston.

Enn og aftur tökum við fram að hvorugt þessara liða skipar sérstakan sess í hjörtum okkar og því var þessi sigur Boston okkur að sjálfssögðu mikið fagnaðarefni.

Við viljum fá þessa seríu alla leið eins og allir hlutlausir körfuboltaaðdáendur. Meira svona.

Thursday, June 10, 2010

Wednesday, June 9, 2010

Twitter


Kloser


Lakers tók forystuna á ný gegn Celtics:

























Það var ekki fallegt, en mikið fjandi var þriðji leikur Celtics og Lakers í nótt skemmtilegur. Lakers með gríðarlega sterkan 91-84 sigur í stórundarlegum leik.

Boston-menn byrjuðu með látum, en grófu sig svo ofan í sautján stiga holu sem þeim tókst ekki að moka sig upp úr. Á góðum degi hefðu þeir getað það - en þetta var einn af þessum Fisher-dögum. Þú þekkir þetta.

Derek Fisher ákvað að hafa einn af þessum dögum og bókstaflega kláraði Boston með einni af þessum ísköldu frammistöðum sínum á ögurstundu. Skoraði 11 af 16 stigum sínum í lokaleikhlutanum og var svo mikið um að hann vatnaði músum í viðtalinu eftir leikinn. Spes.

Það góða fyrir Boston var að Kevin Garnett (25 stig, 11-16 í skotum) fann sig á ný, en Paul Pierce og Ray Allen voru ekki til staðar í sókninni og Rondo var ekki nógu grimmur.

Ray Allen var reyndar aðeins meira en ekki til staðar. Gaurinn skeit múrsteini með 0-13 í skotum - aðeins einu skoti frá verstu skotframmistöðu í sögu lokaúrslitanna.

Auðveldlega mesti viðsnúningur leikmanns á þessu sviði í sögu NBA (32 stig í síðasta leik).

Kobe Bryant skoraði 29 stig úr 29 skotum (flest skot í einum leik í úrslitakeppninni 2010) og var aðeins einu stykki Derek Fisher frá því að skjóta Lakers út úr þessum leik. Sýgur sannarlega að vera ekki að spila á móti vörnum Utah og Phoenix lengur, ha, Kobe?

Lakers vann þennan leik á fráköstum, varnarleik, Derek Fisher, Lamar Odom (það fékkst staðfest í nótt að hann er með í úrslitaeinvíginu) og heppni. Kobe vissi hvað klukkan sló og sagði einfaldlega; "Við erum bara betra lið (en við vorum)" - Og það er hárrétt hjá honum. Lakers hefði tapað þessum leik 2008 - og gerði það reyndar.

Við þurfum líklega ekki að taka það fram aftur hvað það fer í taugarnar á okkur hvað Lakers-liðið virðist heldur vilja teikna upp leikkerfi fyrir Sasha Vujacic og Sam Bowie en drulla boltanum inn á Gasol. Það er hugtærandi.

Staðan er enn bara 2-1 fyrir Lakers, en hún lítur ekkert rosalega vel út fyrir Boston ef við skoðum hálftóma glasið. Liðið verður að klára leiki fjögur og fimm heima. Annars er verkefnið (vinna báða í LA) orðið ansi erfitt.

Við nennum ekki að tala um dómgæsluna, hún er föst á þermistiginu og óþolandi - og er ekkert að hjálpa Boston, svo mikið er víst. Súrt að leikmenn þurfi að taka allt aðra línu í varnarleiknum þegar komið er í sjálf lokaúrslitin.

En burt séð frá því þarf Boston að pappíra sig og spila betur. Það þýðir ekkert fyrir Paul Pierce að bjóða upp á svona stinkera kvöld eftir kvöld og Ray Allen og Garnett þurfa að finna stöðugleika. Boston þarf að hætta að móðga stuðningsmenn sína með því að tapa svona oft á heimavelli og frákasta betur.

En allt liggur þetta á fíngerðum herðum Rajon Rondo að okkar mati. Pierce, Allen og Garnett hafa verið upp og niður og það hefur ekki úrslitaþýðingu. Rondo hefur úrslitaþýðingu fyrir þetta lið. Ef hann er ekki í 100% árásarham í 48 mínútur (ef við gefum okkur að Boston passi upp á vörn og fráköst) - virðist Boston ekki eiga séns í þessu einvígi.

Það er bara þannig.

Monday, June 7, 2010

Celtics jafnaði metin gegn Lakers í nótt:


























Hann var dálítið furðulegur, annar leikur Lakers og Celtics í nótt. Við erum enn að reyna að skilja af hverju heimamenn töpuðu leik sem þeir virtust eiga að taka, en þegar upp er var staðið vann Boston 94-103 sigur á útivelli og jafnaði metin í seríunni í 1-1.

Hvernig fór Boston að því að vinna leik þar sem Kevin Garnett var fjarverandi, Paul Pierce hitti ekkert, Lakers fékk 41 víti gegn 26 hjá Boston og stóru mennirnir hjá Lakers léku sér í kring um körfuna eins og risar á barnaheimili?

Jú, það hjálpaði að Ray Allen (32 stig) var sjóðbullandi og setti met í lokaúrslitum með átta þristum. Sjö þeirra í fyrri hálfleik - í átta tilraunum. Jesus Shuttlesworth gekk á vatni í kvöld. Þetta var rugl!

Og að Rajon Rondo (19/12/10) tók leikinn í sínar hendur og skilaði fyrstu finals-þrennu Boston frá því Larry Bird gerði það árið 1986.

Boston tapar ekki mörgum leikjum sem Rondo spilar á þessu leveli og er 8-1 í úrslitakeppninni þegar hann er með 10 stoðsendingar eða meira. Ekki skemmir fyrir þegar hann er frákastahæsti maður vallarins og nær að fara beint í hraðaupphlaupið. Gaurinn er geimvera.

Boston spilaði af meiri hörku en í fyrsta leiknum, og þar var nóg pláss fyrir framfarir, en ef við værum stuðningsmenn Lakers værum við kastandi húsgögnum af svekkelsi yfir þessu tapi.

Annan leikinn í röð voru lykilmenn beggja liða flautaðir í villuvandræði út af tittlingaskít. Allt of hörð lína tekin í dómgæslu í þessum úrslitum.

Það er óafsakanlegt að menn eins og Ron Artest séu að dæla upp 1 af 10 skotleikjum þegar Gasol og Bynum eru að skjóta 70% í teignum þar sem Boston á engin svör við þeim og komast á vítalínuna að vild.

Æ, við erum bara að röfla eitthvað. Stundum meikar körfubolti bara ekki sens fyrir okkur.

Svona eins og þessi úrslitasería meikar greinilega engan sens fyrir Kevin Garnett og Lamar Odom. Það verða andlitsmyndir af þeim á mjólkurfernum í fyrramálið.

Það sem upp úr stendur er að Boston tapaði baráttunni um fráköstin í fyrsta leik en vann hana í leik tvö. Boston náði ekkert að hlaupa í leik eitt en Rondo slapp laus í leik tvö af því hann Boston frákastaði betur.

Staðan í úrslitaeinvíginu er nú jöfn 1-1 eftir tvo leiki í fyrsta sinn síðan 2004 og því útlit fyrir hrikalega seríu. Það er hel-jákvætt.

Lakers-menn panikka ekkert þó þeir hafi þarna tapað fyrsta leiknum sínum á heimavelli í úrslitakeppninni. Þeir eru eitraðir á útivöllum líka og klárir í næstu þrjá leiki í Baunabæ.

Sigur Boston í kvöld var flottur og nauðsynlegur fyrir einvígið. Gleðin er rétt að byrja.

Eini gallinn er sá að það er ekki spilað nema þrisvar í mánuði í þessum helvítis úrslitum - eða þannig lítur það út fyrir okkur. Og fjölskyldumeðlimir eru farnir að finna fyrir þessu eirðarleysi okkar. HM þarf að fara að byrja til að stytta biðina milli leikja... eða eitthvað. Norður-Kórea vs Slóvenía? Vei.

P.s. - Við minntumst ekki einu orði á Kobe Bryant í þessari færslu. Tókstu eftir því? Spes, ha?

Saturday, June 5, 2010

Uppgjör við LeBron James:


Sirkusinn í kring um LeBron James er farinn að standa dálítið í okkur. Þú hefur líklega heyrt af því að James sat fyrir svörum hjá sjálfum Larry King í kvöld. Við höfum ekki séð viðtalið þegar þetta er skrifað, en það er ómögulegt að nokkuð vitrænt hafi komið út úr því, enda er það bara auglýsingabrella.

Í dag var bárust svo fréttir af því að Nike ætlaði í sérstaka herferð þar sem meiningin væri að gefa út sérstaka skólínu í kring um viðtöl James við þau félög sem ætluðu að reyna að fá hann til sín þegar hann má ræða við þau eftir 1. júlí. Þetta fyllti mælinn hjá ansi mörgum. Talsmenn Nike hafa ekki viljað staðfesta þessar fréttir - kannski sem betur fer - en þær koma ekki á óvart.

Það er engum blöðum um það að fletta að LeBron James verður óvinsælli með hverjum deginum sem líður - og það er enn mánuður í að hann megi svo mikið sem tala opinberlega við forráðamenn annara félaga en Cleveland.

Það fer fyrir brjóstið á fólki að hann hafi farið í þátt Larry King. Til hvers, spyrja menn eðlilega? Og sú staðreynd að viðtalið hafi verið tekið upp fyrir nokkru síðan, svo hafi hluta af því verið lekið rétt fyrir leik eitt í lokaúrslitunum til að stela sviðsljósinu - og svo fór það endanlega í loftið á föstudeginum milli leiks 1 og 2 i úrslitunum. Engin tilviljun í því.

Okkur þykir Ken Berger á CBS negla þetta mjög vel í þessum pistli.

Hann flettar inn í greinina kommentum frá David Stern, Magic Johnson og Kobe Bryant. Þrír af þeim mönnum sem mest ættu að hafa um þetta mál að segja utan Cleveland.

Og talandi um Cleveland.

Sannarlega heppilegt að viðtal James við King skuli fara í loftið nokkrum dögum eftir að þjálfari liðsins er rekinn og sama dag og framkvæmdastjóri félagsins Danny Ferry sagði af sér/var rekinn.

Bæði Stern og Magic benda réttilega á að NBA deildinni veiti ekki af athyglinni.

Stern eru auðvitað í skýjunum að Marv Albert hafi fengið að taka viðtal við sjálfan Bandaríkjaforseta á dögunum (m.a. um James) og fær svo gullkálfinn sinn LeBron i stólinn hjá Larry King litlu seinna. Stern nuddar á sér loðna lófana og hlær á leið í bankann.

Og Magic benti réttilega á að þegar hann var að spila hefðu menn verið að berjast í því að fanga athygli þjóðarinnar og nú þegar það hefði tekist endanlega - væri ekki rétt að væla yfir því. Mjög skiljanlegur punktur.

En okkur þótti það líka mjög áhugavert sem Kobe Bryant sagði þegar hann var spurður hvort það kæmi illa við hann að LeBron væri að stela sviðsljósinu frá sjálfum lokaúrslitunum.

"No," Bryant said. "I don't deal with that, and I don't think about it. I know him personally, and he's a great person; a great person and a hell of a player. My deal with him is, I wish people would just leave him the hell alone and let him do his thing and that's all I'll say about that. I really don't think about anything other than just him doing well." 

Hvað okkur varðar, erum við búin að fá nóg af þessu.

Kasjúal NBA aðdáendur eru ekkert upp með sér yfir því að LeBron James sé að prómótera sjálfan sig hjá Larry King. Hann er að prómótera sjálfan sig og ekkert annað. Og lengra komnir NBA aðdáendur? Þeim er bara óglatt.

Við hér á NBA Ísland eru búin að blása fast í LeBron-trompetinn í allan vetur, en erum hálfpartinn farin að skammast okkar fyrir það.

Ógleðin sem við upplifum stafar af einhverju leyti af því að við erum með nefið ofan í öllum fréttamiðlum 18 tíma á sólarhring og þar er ekkert að finna nema spekúlasjónir um LeBron James og nýjustu útspil viðskiptaskrumvélarinnar sem byggð hefur verið í kring um þennan hæfileikaríka pilt.

Vissulega er það spennandi tilhugsun að sjá LeBron James spila hér eða þar með þessum eða hinum, en við erum búin að fá nóg af þessum órum.

Núna viljum við bara sjá James losa af sér hljóðnemann, þrífa framan úr sér sminkið, skipta um föt og drulla sér inn í sal að æfa. Fara svo í sturtu, kíkja upp á kontór til eiganda Cavaliers og spyrja hann hvar hann eigi að skrifa undir svo hann geti einbeitt sér að komandi átökum af fagmennsku.

Allt annað mun valda vonbrigðum. Sérstaklega fyrir hann sjálfan.

LeBron James var að flestum álitinn besti körfuboltamaður heims fyrir nokkrum vikum.

En tvö ár í röð hefur honum mistekist að gera það sem hann á að gera. Að vinna meistaratitil með Cleveland. Hann hefur brugðist væntingum stuðningsmanna sinna og Cleveland í Ohio og á heimsvísu. Það er honum að kenna að Cleveland fór ekki lengra. Þannig er það bara þegar þú ert ofur-ofur-stjarna - og það vill hann vera - eins og Bird, Magic og Jordan á undan honum.

En LeBron James grét ekki þó liðið hans hafi skitið á sig í úrslitakeppninni. Hann grét ekki eða brást við reiður þegar hann sat á blaðamannafundi eftir tapið gegn Boston.

Hann lagaði bara fötin sín og passaði sig að færa orkudrykkjarflöskurnar frá samkeppnisaðilanum frá myndavélunum áður en viðtölin hófust. Blaðraði svo nokkrar klisjur, talaði um sig í þriðju persónu, og talaði um liðið sitt.

Þar átti hann ekki við lið Cleveland Cavaliers, heldur sjálfan sig, spunakarla sína og auglýsingahákarla. "Hann verður auðvitað að skoða hvað er best fyrir hann og hans fjölskyldu."

Forgangsröðunin hjá James er ekki betri en þetta og það verður hann bara að eiga við sig, en hann er kominn á ansi hálan ís.

Það er ekki víst að hann átti sig á því að hann er að verða búinn að mála sig út í horn í þessu dásamlega listaverki sínu.

Það er nú einu sinni þannig að þegar rykið sest og skrumlúðrarnir í kring um James þagna eftir að ákvörðun hans liggur fyrir í sumar, tekur miskunnarlaus raunveruleikinn við aftur.

Blaðamenn og aðrir hætta að velta sér upp úr því hvert James fer og fara að spá í það hvort hann hafi bætt sig sem leikmaður. Hvort hann hafi það sem til þarf. Hvort hann sé í raun og veru sá útvaldi. Sigurvegari. Spurningar sem hann hefði átt að sitja undir eftir leik sex gegn Boston, en enginn þorði að spyrja.

Og ef James fer frá Cleveland, verða þessar spurningar bara háværari, tíðari og óþægilegri.

Verði honum að góðu.

Friday, June 4, 2010

Auðvelt hjá Lakers í fyrsta leik


























Fyrsti leikur Lakers og Celtics í úrslitunum í nótt var dálítið furðulegur. Lakers fékk að spila nánast á krúskontról allan leikinn og vann auðveldan sigur 102-89. Boston-liðið sem við sáum var ekki sama lið og við sáum sjúga lífið úr Cleveland og Orlando.

Nú höldum við hvorki með Lakers né Celtics, en okkur þótti dapurt að sjá hvað dómararnir flautuðu mikið í þessum leik. Vissulega var það erfitt fyrir Celtics að ná takti í leik þar sem Ray Allen fékk aldrei að koma við sögu vegna villuvandræða. Og hann var ekki eini leikmaðurinn sem féll í þann pytt.

Það er auðvelt að kenna dómurum um allt sem miður fer og við erum að hugsa um að gera það að þessu sinni. Kenna þeim um þá staðreynd að þessi leikur var bara alls ekki skemmtilegur. Lakers spilaði vel, lamdi frá sér og frákastaði Boston í drasl. Það er saga leiksins.

Pau Gasol út-frákastaði Boston liðið nánast upp á sitt einsdæmi og Boston skoraði ekki eitt stig eftir sóknarfrákast (gegn c.a. 16 hjá Lakers ef við munum rétt).

Bandarískir fjölmiðlar hafa gert sér óhemju mat úr "Pau Gasol er soft"-hugtakinu allar götur síðan hann (fínpússaður kraftframherji) varð að láta í minni pokann gegn stóru mönnunum hjá Boston í lokaúrslitum árið 2008. Þeim þótti þessi leikur Gasol í kvöld því snúast fyrst og fremst um að Spánverjinn væri loksins búinn að hrista það af sér. Kannski búnir að gleyma að hann lét Dwight Howard hafa fyrir hlutunum í úrslitunum í fyrra og hann var ekki að láta Kevin Garnett líta sérstaklega vel út í kvöld. Hræðilega reyndar.

Við gætum blaðrað eitthvað meira um hvað gerðist í þessum leik, en þetta er ekkert flókið. Boston mætti bara ekki í þennan leik. Réði ekkert við Lakers. Tók boltann úr netinu allan leikinn, náði ekki að hlaupa, frákastaði illa og vörnin var bitlaus. Fullt af vandamálum, nánar tiltekið. Grænir verða að mæta öskrandi í leik tvö.

Þú veist að Phil Jackson er 47-0 sem þjálfari þegar liðið hans vinnur fyrsta leik í seríu. Búið að minna á það. Lofum að gera það ekki aftur.

Kobe var áfram í drápshamnum sínum. Svo sannarlega. Gaurinn var svo einbeittur að hann blikkaði ekki á bekknum þrátt fyrir mömmubrandara Chris Rock úr sætinu við hliðina og smellti svo einum þrist í lokin þegar úrslitin voru löngu ráðin - til að undirstrika tvo hluti.

A) Komast í 30 stigin. Í 11. skipti í síðustu 12 leikjum og upp í annað sæti all time yfir flesta 30 stiga leiki í úrslitakeppni á eftir þú-veist-hverjum.

B) Til að traðka á andlitinu á Boston og segja; "Ég hætti ekki að hoppa á ykkur fyrr en ég vinn fimmta titilinn minn."  Þú verður að elska samviskulaust drápseðlið í Mamba.

Líka rosalega þægilegt fyrir hann að fá Ray Ray í villuvandræði og geta hvílt sig í vörninni á móti Tony Allen. Munaður sem óvíst er að verði til staðar það sem eftir lifir af einvíginu. Annar punktur í þessu var líka frammistaða Ron Artest gegn Pierce og plúsarnir sem hann kom með í sókninni.

Þetta var bara gult kvöld út í eitt.

Thursday, June 3, 2010

Ballið er að byrja!


Allir saman nú


Leiðrétting - Hin raunverulega spá ESPN


Þetta var neyðarlegt. Lesandi síðunnar benti okkur á að spáin frá sérfræðingum ESPN sem við birtum í síðustu færslu er alls ekki spá þeirra fyrir úrslitin 2010, heldur einmitt spáin frá 2008.

Við birtum þessa spá í góðri trú eftir að blaðamaður á ESPN sendi hlekk á hana og kallaði hana spá ársins 2010.

Má ekki milli sjá hvor er meiri sauður - við eða hann.

Hvað um það. Hér birtum við rétta spá. Hún er talsvert öðruvísi en spáin 2008, þó fleiri hallist að sigri Lakers rétt eins og þá.

Miðað við þessa spá má reikna með að einvígið sem hefst í kvöld verði jafnara en fyrir tveimur árum, en nú tippa fjórir sérfræðingar á sigur Boston í stað eins árið 2008.

Tim Legler heldur sig við Boston eins og fyrir tveimur árum.

Wednesday, June 2, 2010

Spá sérfræðinga ESPN


Celtics hafa verið undirhundar allar götur frá því í annari umferð úrslitakeppninnar og kunna best við það þannig.

Það kemur okkur samt nokkuð á óvart að allir sérfræðingar ESPN skuli veðja á móti Boston nema skyttan geðþekka Tim Legler.

Ekki bara það, heldur tippa aðeins tveir á að Lakers þurfi alla sjö leikina til að klára dæmið. Abbott og Stein mjög kaldir og segja Lakers í fimm leikjum.

Það fyndnasta við þessa spá er að hún er nákvæmlega eins og spáin þeirra árið 2008, þegar aðeins einn álitsgjafi spáði Boston sigri.

Tuesday, June 1, 2010

Leiðin í úrslit (drama)


Leiðin í úrslit


Kejserens nye Klæder


Red


Doc Rivers, þjálfari Boston segir frá.

"Þetta var þegar ég var nýkominn hingað."

"Ég var á skrifstofunni minni og ákvað að fara fram og fá mér eitthvað að borða. Á leið minni fram gekk ég framhjá skrifstofunni hans Red Auerbach. Ég stakk höfðinu inn á kontórinn hans og spurði hvort ég gæti fært honum eitthvað."

"Já," sagði hann. "Þú mátt ná mér í annan meistaratitil."