Friday, June 18, 2010

Los Angeles Lakers er NBA meistari 2010:


























Hún er alltaf jafn sérstök. Þessi tilfinning sem grípur okkur eftir síðasta leik tímabilsins. Los Angeles Lakers er NBA meistari árið 2010, annað árið í röð og í 16. skiptið í glæstri sögu félagsins. Liðið tryggði sér titilinn með 83-79 sigri á Boston Celtics í epískum oddaleik á heimavelli.

Leikurinn var eins og blóðugur hnefaleikabardagi. Gæðin voru í takmörkuðu upplagi, varnarleikurinn kæfandi og stigaskorið lágt. Svona á leikur sjö að vera. Þetta var mögnuð upplifun.

Þeir sem horfðu á leikinn sáu Kobe Bryant eiga mjög erfitt uppdráttar í sóknarleiknum og hætt við að kappinn sá hefði sofið lítið næstu vikurnar ef liðið hans hefði tapað þessum mikilvægasta og stærsta leik í sögu félagsins í minnst tvo áratugi.

En Kobe fékk góða hjálp frá félögum sínum að þessu sinni. Pau Gasol, Ron Artest, Derek Fisher - fjandinn sjálfur - meira að segja Sasha Vujacic henti í púkkið.

Hey, Lakers er besta lið heims með sigursælasta þjálfara í sögu deildarinnar. Þetta snýst ekki allt um Kobe Bryant. Hann var bara skærasta stjarnan á vellinum.

Kobe var spurður að því eftir leikinn hvað þessi titill þýddi fyrir hann persónulega.

"Hann þýðir að ég er búinn að vinna fleiri en Shaq og það getið þið farið með í bankann," sagði Bryant.

Og brosti ekki fyrr en eftir vandræðalega þögn í fjölmiðlaherberginu. Og þið hélduð að Kobe myndi bregðast okkur. Þessari sögu er ekki lokið. Þetta er persónulegt og hann á eftir að strika fleiri atriði út af listanum sínum.

Bryant var auðvitað kjörinn verðmætasti leikmaður lokaúrslitanna, en fjöldi blaðamanna var á því að Pau Gasol hefði ef til vill mátt fá aðeins meira kúdós fyrir framlag sitt í einvíginu.

Og því erum við sammála.

Okkur liggur margt og mikið á hjarta varðandi Gasol. Svo mikið að það gæti verðskuldað sérstaka hugleiðingu eða pistil. En burtséð frá því var Gasol frábær í þessum leik. Frábær leikmaður.

Hversu mikið meira væri Pau Gasol hampað í bandarísku pressunni ef hann væri ekki Evrópumaður? Óendanlega? Stjarnfræðilega? Eitthvað á því bili.

Gaurinn fær svo glæpsamlega litla ást að það grætir okkur. Hann var ekki nema lang stöðugasti leikmaður Lakers í úrslitaeinvíginu. Það er ekkert öðruvísi.

Það mætti einnig skrifa sérstakan pistil um Ron Artest, frammistöðu hans í úrslitaleiknum og viðtölin við hann eftir leikinn. Skemmst er frá því að segja að gaurinn opnaði fyrir allar sínar geðveikustu flóðgáttir eftir lokaflautið.

Ron Artest er í alvörunni súrrandi, súrrandi, súrrandi geðveikur.

Svo veikur er hann, að á meðan flestir höfðu gaman af því að hlusta á rantið hans eftir leikinn, fengum við tak í meðvirknina okkar. Svona eins og þegar við horfðum á Stjána Stuð og Magga Mix í Stjórnun hjá Audda og Sveppa.

Segðu samt hvað sem þú vilt um geðheilbrigði Ron Ron. Hann gerði gæfumuninn (aftur) hjá Lakers í þessum leik.

Það má eflaust draga lærdóm af einhverju af þessu. Til dæmis; "Það snýst ekki um hvað þú segir eða hugsar - heldur hvað þú gerir." Eitthvað þannig.

Derek Fisher átti líka gott framlag með tímanlegum körfum og einu þristunum sínum í einvíginu. Jú, og fíflið hann Sasha Vujacic með þessum rosalega köldu "ekkert nema net" vítaskotum í krönsinu. Við fyrirgefum honum aldrei að hafa hirt Mariu Sharapovu af okkur áður en við fengum tækifæri til að kynna okkur fyrir henni, en við verðum bara að gefa Sasha props fyrir innslagið sitt.

Gallinn við leik sjö er að einhver þarf að tapa honum og það kom í hlut Boston að tapa þessum.

Við erum auðvitað búin að skrifa mikið um ótrúlega úrslitakeppni Boston liðsins og það er engin leið að gera sér í hugarlund hve ömurleg stemmingin hefur verið í gestaklefanum í Staples Center í nótt.

Það væri hægt að analísera það héðan og til tunglsins hvað fór úrskeiðis hjá Boston, en þegar allt er talið vantaði bara aðeins upp á hjá þeim grænu.

Kendrick Perkins hefði eflaust getað hjálpað þeim eitthvað með öll þessi fráköst sem enduðu í krumlunum á Lakers-liðinu í kvöld, Ray Allen hefði eflaust getað sett eitthvað af þessum múrsteinum sínum niður, liðið hefði kannski átt að leita meira að Paul Pierce, Rondo hefði kannski átt að nýta sér betur hvað hann var látinn vera í vörninni, Rivers hefði kannski átt að hvíla stjörnurnar sínar aðeins meira.... take your pick. Það er alltaf hægt að finna eitthvað.

Við höfum bara á tilfinningunni að Boston hafi orðið bensínlaust í kvöld. Kannski hefði þetta dottið þeirra megin ef þeir hefðu getað nærst á orkunni frá eigin stuðningsmönnum, en það var ekki í boði eftir að liðið meilaði inn góðan hluta af deildakeppninni og hafnaði í fjórða sæti í Austurdeildinni.

Spretturinn hjá Boston í þessari úrslitakeppni er samt sem áður búinn að vera ævintýralegur og hann mun ekki falla í gleymsku. Ekki hjá okkur í það minnsta.

Doc Rivers og félagar í þjálfarateymi Boston gerðu nokkuð sem erfitt er að toppa með þetta lið í vetur. Við vonum sannarlega að enginn taki það upp eftir þeim að taka pásu í nokkra mánuði í deildakeppninni, en það var stórfenglegt að sjá liðið valta yfir Cleveland og Orlando og veita meisturunum eins mikla keppni og hægt er með þessum efnivið.

Við erum með þriðja stigs bruna eftir að hafa veðjað á móti Boston í vor og vetur, en það er bruni sem á ekki eftir að endurtaka sig. Þriggja ára ævintýri þessa hóps var frábært, en því er lokið.

Þjálfarateymið leysist upp og/eða fer annað, Ray Allen er með lausa samninga, Rasheed Wallace er jafnvel hættur og elli kelling er farin að taka þungan toll á kjarna liðsins. Það þarf eitthvað stórkostlegt að gerast svo Boston geti átt von á að spila leik í júní á næstunni.

Framtíðin er öllu bjartari hjá Lakers.

Phil Jackson ætlar að taka sér viku til að hugleiða hvort hann á að snúa aftur, en við tippum á að morðhótanir frá Kobe Bryant möguleikinn á fjórðu titlaþrennunni ætti að verða nóg til að lokka hann í eitt ár í viðbót.

Eini dökki punkturinn hjá Lakers-liðinu er brotthætt líkamlegt ástand Andrew Bynum. Dálítið skítt að yngsti lykilmaður liðsins sé stærsta spurningamerkið hvað heilsu varðar, en þannig er það hjá Lakers.

Kobe Bryant fullyrðir að hann sé ekkert að eldast, það eina sem hafi haldið aftur af honum í vetur hafi verið meiðsli - og það má til sanns vegar færa. Kobe mun hægja eitthvað aðeins á sér, en hann er geðsjúkur keppnismaður og mun finna leiðir til að nýtast liðinu til fullnustu þó hann missi óhjákvæmilega skref eða tvö fljótlega. Hann er með meðreiðarsvein í Pau Gasol sem hefur sannað sig og það verða alltaf til peningar í LA til að fylla upp í skörðin með rulluspilurum.

Og hvaða lið er að fara að velta Lakers af stalli á næsta ári - og þá sérstaklega í Vesturdeildinni? Plís.

Það eiga eftir að verða einhverjar hræringar á leikmannamarkaðnum í sumar, en það þarf eitthvað stórkostlegt að gerast svo úr verði lið sem hræðir LA Lakers.

Og það, dömur og herrar, er bara þannig.