Wednesday, April 30, 2014

Tvífarar vikunnar


Scott Brooks, þjálfari Oklahoma City Thunder og Dewey Crowe, seinheppinn smáglæpamaður í sjónvarpsþáttunum Justified sem leikinn er af Damon Herriman.


Monday, April 28, 2014

Sunday, April 27, 2014

Meistaraefnin í Vesturdeildinni eru sein í gang


Þetta er ekki alveg að ganga nógu smurt hjá Oklahoma. Satt best að segja, er liðið bara í bullandi vandræðum. Ef ekki hefði verið fyrir epíska frammistöðu varamannsins Reggie Jackson í nótt, væri Oklahoma nú komið 3-1 undir á móti þessu ólseiga liði Memphis.

Við höfum heyrt fjölmiðlamenn halda því fram að þetta Memphis lið sé sterkasta 7. sætis lið allra tíma. Það er kannski full djúpt í árina tekið, en það er ljóst að Memphis er miklu sterkara en hefðbundin 7. sætis lið. Þið sjáið það til dæmis með því að bera Grizzlies saman við Charlotte Bobcats. Einmitt.

Það er auðvitað grábölvað fyrir lið eins og Oklahoma að þræla sér út allan veturinn til að ná í góða stöðu inn í úrslitakeppnina, en fá svo í rauninni eins sterkan andstæðing og fyrir er að finna í Vesturdeildinni strax í fyrstu umferð!

Ef við gæfum okkur að Oklahoma næði nú að leggja Memphis og færi áfram, yrði mótherjinn í næstu umferð Clippers eða Warriors.

Okkur er alveg sama hvað þú segir, það að mæta öðru þessara liða í næstu umferð yrði eins og að spila æfingaleik fyrir Oklahoma eftir að hafa verið í klónum á Memphis.

Það er dásamlegt að vera Miami þessa dagana. Liðið fær mótherja í fyrstu umferðinni sem hefur enga reynslu í úrslitakeppni og er með sinn besta mann á annar löppinni - eins og austrið hafi ekki verið nógu lélegt fyrir.

Ef Indiana heldur áfram að skíta á parketið í staðinn fyrir að spila körfubolta, er ljóst að það verður spegilsléttur sjór í úrslitaeinvígið fyrir meistara Miami. Ekkert lið hefur fengið eins létta leið í úrslit síðan Lakers-liðið var að krúsa í gegn um lélega Vesturdeildina á níunda áratugnum.

Meistaraefnin í Vesturdeildinni eru svo hreint ekki að láta finna fyrir sér. San Antonio er í bullandi vandræðum gegn Dallas og þarf nauðsynlega á sigri að halda í Dallas í næsta leik ef ekki á illa fyrir þeim að fara. Óháð því hvernig þetta einvígi fer, er bara sú staðreynd að Dallas sé búið að vinna tvo af fyrstu þremur leikjunum alveg með ólíkindum.

Það má eiginlega segja sömu sögu af hinum meistaraefnunum í vestrinu, Oklahoma City. Það munaði punghári að liðið lenti undir 3-1 í nótt - og þar með í holu sem sjaldgæft er að lið nái að grafa sig upp úr. Ef Oklahoma tapar í fyrstu umferð, verður Scott Brooks svo rekinn að hann verður sennilega laminn líka.

Þeir Kevin Durant og Russell Westbrook hafa mestmegnis spilað eins og vitleysingar í rimmunni. Durant er að skjóta innan við 40% og aðeins 26% í þristum, meðan Westbrook er enn verri með aðeins 35% og heil 19% í þristum.

Sumpart má segja að Oklahomaliðið hafi verið óþekkjanlegt í einvíginu. Það er samt ekki nema að litlum hluta Oklahoma að kenna - kannski 10-20% - en restin er Tony Allen Memphis að kenna. Það er bara ógeðslegt að spila við þetta lið. Ekki hægt.

Oklahoma og Memphis eru með öllu ólík körfuboltalið, en félögin tvö eru þó í mjög svipaðri stöðu. Þau eru á liltlum markaði og með eigendur sem eru of nískir til að byggja upp meistaralið. Oklahoma og Memphis eru bæði gríðarlega sterk lið, sem fyrir vikið vantar ekki nema 1-3 góða bita til að verða allt frá því að vera alvöru meistaraefni yfir í að landa titlinum.

Hugsaðu þér ef Oklahoma City væri með almennilegan miðherja og eina góða skyttu á bekknum. Hugsaðu þér ef Memphis væri með tvær almennilegar skyttur í viðbót og einn væng sem gæti búið sér til skot sjálfur. Þá yrðu þessi lið ekki hrædd við Miami, það getum við lofað ykkur.

Hvað sem gerist í þessu einvígi og hversu illa sem Oklahoma hefur litið út í fyrstu fjórum leikjunum, erum við nú samt á því að Thunder hafi meira áfram að gera - sé lið sem sé líklegra til að komast lengra en Memphis. Ekki mikið lengra. Aðeins lengra.

Í ljósi þess hve illa Spurs og Thunder fara af stað í úrslitakeppninni, gætum við alveg eins sagt að sé frekar meistarabragur á LA Clippers - nú eða jafnvel Portland. Ætli við verðum ekki að taka þessi lið með í reikninginn.

Clippersliðið ætti ekki að verða í stórvandræðum með að klára Golden State, þar sem Oaklandliðið er auðvitað illa vængbrotið án Andrew Bogut. Það hefur líka sýnt sig, þar sem Blake Griffin og DeAndre Jordan hafa farið illa með Warriors í teignum.

Það verður líka óhemju áhugavert að sjá hvernig sigurvegaranum í Houston-Portland seríunni á eftir að vegna í framhaldinu. Þar eru tvö hörkulið á ferðinni.

Að lokum var svo ein pæling. Eða staðhæfing.

Ef Andrew Bogut væri heill, fullyrðum við að öll liðin í úrslitakeppni Vesturdeildarinnar gætu unnið öll liðin í úrslitakeppni Austurdeildarinnar ef Miami er undanskilið. Og ekki bara unnið, heldur unnið nokkuð auðveldlega.

Gefum okkur það að Dallas, Houston, Golden State og Memphis myndu tapa í fyrstu umferðinni í vestrinu. Ætti einhvert lið annað en Miami úr austrinu stjarnfræðilega möguleika á móti einhverju þessara liða, ef þau væru heil heilsu (Bogut)?

Við segjum nei, ekki síst af því Dallas er komið yfir á móti San Antonio.

Fjandakornið, nei.

Skin og skúrir hjá Vince


Nokkuð magnaður samanburður á tveimur af stærstu skotum Vince Carter á ferlinum, hið fyrra með Toronto fyrir löööngu síðan og svo sigurkarfan gegn Spurs í kvöld. Það eru ekki alltaf jólin í þessu, það veit Vince manna best.



Úrslitakeppnin gæti ekki byrjað mikið betur


Allt í einu rann það upp fyrir okkur...

Ætli það hafi ekki verið þegar þriðji leikur Houston og Portland fór í framlengingu. Þessi fyrsta umferð úrslitakeppninnar í ár er einhver sú skemmtilegasta sem við höfum nokkru sinni séð - og hún er ekki nema hálfnuð!

Við hefðum líklega aldrei spáð því, en einvígi Rockets og Blazers er búið að bera höfuð og herðar yfir önnur að okkar mati. Það hefur sannarlega verið fjör hjá Oklahoma-Memphis, San Antonio-Dallas og Clippers-Warriors, þetta eru allt hágæðaseríur.

En engin þeirra á séns í rimmu Houston og Portland. Hver einasta mínúta í þessu einvígi hefur verið algjör naglbítur og alls ekki fyrir hjartveika. Ein af þessum seríum þar sem hver einasta sóknarlota og hver einasta varnarlota gæti átt eftir að hafa úrslitaþýðingu þegar upp verður staðið.

Þarna erum við að sjá mikla skák milli þjálfaranna, stórstjörnur valda vonbrigðum og fara hamförum til skiptis, dramatík, óvæntar hetjur, stórleiki - nefndu það og þetta einvígi er að bjóða upp á það. 

Það er meira að segja með fallegasta manninn í heimi í NBA deildinni (Chandler Parsons), besta óldskúr póstleikmanninn (LaMarcus Aldridge), besta unga töffarann (Damian Lillard), næstmesta varnargeðsjúklinginn (á eftir Tony Allen, Patrick Beverley), besta flopparann (James Harden), óvæntustu hetju úrslitakeppninnar (Troy "Hver í andskotanum er það nú?" Daniels) og (lang)mest óþolandi leikmann deildarinnar (Dwight Howard). 

Það er nú aldeilis eitthvað!

Staðan í þessu einvígi gæti svo auðveldlega verið 3-0 fyrir Portland, en samt munar ekki nema rykkorni að staðan væri t.d. 2-1 fyrir Houston. Svo glettilega jafnir hafa þessir leikir verið. 

Og eins og svo gjarnan í úrslitakeppninni verða til hetjur og skúrkar. Við reynum oftar að beina sjónum okkar að hetjunum þó við séum alltaf með einhver neikvæðnileiðindi. 

Við vitum að það eru bara búnir þrír leikir í þessu einvígi, en þrír leikir í úrslitakeppni hafa stundum meira vægi en heilt tímabil þegar goðsagnir eru að verða til.

Þannig er það með Damian Lillard og LaMarcus Aldridge að þessu sinni - og þó við hötum af öllu lífi og sál að viðurkenna það - líka helvítið hann Patrick Beverley. 

Damian Lillard er einfaldlega að sýna það og sanna að hann er einn mesti töffari deildarinnar. Hann er að spila eins og sá sem valdið hefur í fyrstu þremur leikjunum sínum í úrslitakeppni. Spilar eins og hann hafi aldrei gert annað en að tryggja liði sínu sigur í úrslitakeppni.

Enn og aftur bjóða Spurs og Mavs upp á klassík


Já, Dallas er komið í 2-1 á móti San Antonio. Það er ekki eina einvígið sem er búið að gjörsamlega eyðileggja allt fyrir veðjandi mönnum, en staðan í því er tvímælalaust einna óvæntust.

Við vonum að enginn hafi misst af þriðja leik Mavs og Spurs í kvöld. Ef þú varst á leiðinni á Norðurpólinn og misstir af honum, réðust úrslit hans á flautukörfu frá nákvæmlega engum öðrum en Vince Carter. Hann er síðasti maðurinn sem við hefðum tippað á að myndi skora sigurkörfu fyrir Dallas í þessu einvígi. Þá teljum við Samuel Dalembert og Mark Cuban með.

Það er formlega staðreynd að San Antonio er bara í bullandi vandræðum með sóknarleik Dallas og á hingað til engin svör við honum.

Þetta beitta sóknarlið sem San Antonio er, hefur ekki náð að refsa Dallas fyrir annmarka sína á hinum enda vallarins og ætti heldur ekki að þurfa þess. Spurs á bæði að vera miklu, miklu betra varnarlið og heilt yfir miklu betra lið en Dallas.

En körfuboltaguðunum gæti ekki verið meira sama.

Við höfum áður séð San Antonio lenda í svona vandræðum og þið vitið hvað gerist þegar San Antonio lendir í vandræðum í úrslitakeppninni. Það fer í sumarfrí. Eins og það gerði á móti Memphis um árið.

Þetta Dallas-lið er ekki eins gott og það Memphis-lið, en við skulum nú ekki vera að dæma Spursmenn úr leik þó þeir séu í vandræðum. Ef þeir vinna næsta leik, er staðan 2-2 og tveir af næstu þremur leikjum í San Antonio.

Gallinn er bara að lærisveinum Rick Carlisle er skítsama.

Wednesday, April 23, 2014

Áhugaverð kosning hjá Michael Smith


Bakvörðurinn skemmtilegi Goran Dragic var valinn framfarakóngur NBA deildarinnar í vetur og er vel að því kominn, eins og reyndar flestir leikmenn Phoenix Suns. 

Það hefði mátt færa rök fyrir því að félagi hans Eric Bledsoe hefði meira að segja frekar átt að fá verðlaunin, en hann spilaði bara 40 leiki, svo hann er víst ekki gjaldgengur.

Það sem okkur þykir hinsvegar áhugaverðast við þetta kjör, er atkvæðaseðillinn hans Michael Smith.  Smith þessi  (til hægri á myndinni til hliðar) er aðstoðarlýsandi LA Clippers og samstarfsmaður goðsagnarinnar Ralph Lawler. Fréttahaukurinn Chris Sheridan á sheridanhoops.com veitti því athygli að þrír efstu mennirnir hjá Smith í kjörinu á framfarakóngi ársins voru:  

1. Kevin Durant, 2. LeBron James og 3. Blake Griffin.

Spurning hvort karlinn fór línuvillt þarna, því þetta er ekki ólíkleg uppröðun í kjörinu á verðmætasta leikmanni ársins. Nema Smith hafi þótt stórstjörnurnar bæta sig svona mikið. Jú, eða hin skýringin auðvitað.

Mafs?

Sögulegt ár hjá Popovich


Þér finnst kannski óþarfi að tíunda það eitthvað frekar að Gregg Popovich hafi verið kjörinn Þjálfari ársins í NBA deildinni. Það má vel vera, en við gátum ekki alveg látið þetta vera. Af því að það sem Popovich er búinn að vera að gera með San Antonio í vetur á sér enga hliðstæðu í sögu deildarinnar.
Pop var hér að hljóta nafnbótina Þjálfari ársins í þriðja sinn á ferlinum, en aðeins þeir Pat Riley og Don Nelson hafa afrekað að vinna þetta þrisvar sinnum. Það er auðvitað skondið að maður eins og Nelson skuli vera með þrjár styttur á hillunni sinni meðan menn eins og Phil Jackson eiga bara eina. Við skulum láta þá umræðu liggja í salti að sinni, en beina sjónum okkar að Popovich.

Það sem gerir þennan vetur alveg einstakan hjá Pop og Spurs er sú staðreynd að enginn leikmaður liðsins spilaði 30 mínútur að meðaltali í leik - hvorki gömlu refirnir, né ungu og efnilegu strákarnir. Þetta er ráðstöfun sem Popovich greip til til þess að minnka líkurnar á álagsmeiðslum og til að halda mannskapnum sínum sæmilega ferskum þegar kæmi fram í úrslitakeppnina. Þeir sem fylgjast eitthvað með NBA vita væntanlega að það er einsdæmi í sögunni að enginn leikmaður liðs spili meira en 30 mínútur í leik yfir veturinn.


San Antonio mátti þola einhvert súrasta tap síðari tíma í lokaúrslitaeinvíginu síðasta sumar og við munum vel eftir því að hafa í kjölfarið hugsað að það væri ekki séns að leikmennirnir næðu að rífa sig upp eftir þetta og komast aftur í úrslitin. Til þess voru lykilmenn liðsins allt of gamlir og tapið allt of hrikalegt. Þetta hlaut bara að hafa verið allra síðasti séns hjá Spurs. Það gat ekki annað verið!

Einmitt.

Við gleymdum víst að reikna með því að kjarni Spurs-liðsins samanstendur ekki bara af eintómum sigurvegurum og snillingum, heldur er nú komið í ljós að þeir eru allir vélmenni líka!

Nei, það lagði sko enginn árar í bát í San Antonio þrátt fyrir mótlætið í júní. Það eina sem liðið gerði var að sleikja sárin og verða deildameistari enn einu sinni.

Og ná besta árangri allra liða og heimavallarrétti í gegn um alla úrslitakeppnina þrátt fyrir að enginn spilaði meira en 30 mínútur í leik.

Og verða fyrsta 60+ sigra liðið sem er ekki með einn mann sem skorar 17+ stig að meðaltali í leik. Þetta er náttúrulega rugl.

Áðurnefnt rugl skrifast mikið til á Popovich. Dæmið sem hann er búinn að búa til þarna í San Antonio á sér enga hliðstæðu í sögu NBA og eins og við höfum sagt ykkur áður, er sigurganga Spurs í deildakeppninni síðan 1997 (þegar Duncan kom til sögunnar) sú langbesta í sögunni.

Þetta er svona; "himininn er blár, vatn er blautt og San Antonio vinnur 50+ leiki." Eða öllu heldur eitthvað í kring um 60 leiki.

Nú erum við alls ekkert að gefa okkur að San Antonio fari aftur í lokaúrslitin þó við séum að gaspra um ágæti liðsins núna.

Við erum aðallega að tala um deildakeppnina núna. Það er árangur Spurs í deildakeppninni sem færir Popovich titilinn Þjálfari ársins í þriðja sinn og annað sinn á þremur árum.

Hann Pop er sannarlega vel að þessu kominn í ár. Vissulega voru margir þjálfarar að standa sig mjög vel í vetur, jafnvel óvenju margir sem áttu skilið stig í kjörinu að þessu sinni. Þar ber Jeff Hornacek nokkuð af eftir Öskubuskuævintýrið sem hann bauð upp á með Suns í vetur. Það voru ekki aðeins sérfræðingarnir vestanhafs sem vanmátu Suns-liðið. Við gerðum það líka og göngumst óhikað við því. Við skitum á okkur þegar við spáðum því að Suns yrði að keppa við Kings og Jazz í kjallara Vesturdeildarinnar og næði líklega aldrei að vinna 20 leiki.

Fleiri þjálfarar sem stóðu sig ákaflega vel í vetur eru Tom Thibodeau hjá Bulls, Steve Clifford hjá Bobcats, Dwane Casey hjá Raptors, Terry Stotts hjá Portland og svo má alveg gefa þjálfurum bestu liðanna í deildinni prik - mönnum eins og Erik Spoelstra hjá Heat, Scott Brooks hjá Thunder og Doc Rivers hjá Clippers. Allir flottir.

Það hefur tíðkast undanfarin ár að skiptast á að veita þessi verðlaun þjálfaranum sem vinnur einna flesta leikina eða þjálfara sem nær óvæntum árangri með takmörkuðum mannskap. Skólabókardæmi um þetta voru Popovich og Hornacek í ár.

Það hefði verið hægt að velja Horny karlinn Þjálfara ársins fyrir ótrúlega frammistöðu hans með Suns, sem vann svo óvænt 48 leiki í vetur. Það er til fólk sem segist hafa spáð því að Phoenix yrði með fínt lið í vetur, en það er að ljúga. Haugaljúga.

Það hefði hinsvegar verið pínulítið endasleppt ef Hornacek hefði verið kjörinn Þjálfari ársins af því Phoenix komst ekki í úrslitakeppnina þrátt fyrir mjög hetjulega baráttu. Það var auðvitað bara af því liðið var í svona ógnarsterkri Vesturdeildinni. Phoenix hefði flogið inn í úrslitakeppnina í austrinu, sennilega með heimavallarrétt í fyrstu umferð.

Nei, í staðinn kusum við manninn hvers lið vann flesta leiki og með hvað mestum tilþrifum og stíl, Gregg Popovich. Sem betur fer kom ekki til þess, en við hefðum með ánægju veðjað milljón á það að San Antonio næði ekki 1. sætinu í vetur eftir það sem á undan gekk. Pop og félagar hlógu hinsvegar að okkur og plægðu sig í gegn um deildakeppnina án þess að svitna. Þetta er með ólíkindum.

"Ég er ekki frá því að Gregg Popovich gæti verið besti þjálfari í sögu NBA deildarinnar," lét góður maður hafa eftir sér fyrir nokkrum dögum.

Sá var sigurvegari sem leikmaður Boston Celtics, einn besti þjálfarinn í NBA í dag og gerði Dallas að meistara fyrir þremur árum. Þetta var Rick Carlisle.

Það hjálpar sannarlega til fyrir Popovich að vera með fagmenn eins og Tim Duncan, Tony Parker og Manu Ginobili í liðinu, en þessi frábæri árangur skrifast samt helst á aðferðafræðina. Pop karlinn er með ákveðið kerfi sem hann vinnur eftir og það skiptir engu máli hvort einhver er meiddur eða fjarverandi. Maður kemur í manns stað. Og þannig var það sannarlega hjá Spurs í vetur, þegar meiðslaalda gekk yfir Texas og lagðist á flesta lykilmenn liðsins.

Svona kerfi eru orðin sjaldgæf í NBA deildinni og það eru ekki mörg lið sem fara eftir fyrirfram ákveðinni aðferðafræði eins og Spurs. En eins og alltaf er þess að vænta að einhver félögin reyni að apa eftir San Antonio, en það er bókstaflega ekki hægt. Gregg Popovich orðaði það best sjálfur með tungu troðið í kinn:


Flott hjá þér, Jóakim


Aldrei þessu vant erum við næstum því fullkomlega sátt við valið á Varnarmanni ársins í NBA deildinni. Eins og við höfum tuðað um annað slagið, er Joakim Noah í miklu uppáhaldi hjá okkur. Hann er ekki bara fjölhæfur og magnaður varnarmaður, heldur litríkur og skemmtilegur persónuleiki í þokkabót.

Meðan eini helsti keppinautur hans, Roy Hibbert hjá Indiana, er öflugastur í því að verjast við körfuna, er Noah bókstaflega að hamast um allan völlinn. Enginn af stóru mönnunum í NBA deildinni kemst nálægt Noah þegar kemur að því að verjast úti á velli, en þar er ekki óalgengt að sjá hann pakka bakvörðum saman þegar hann lendir í því að skipta á manni. Hann veður út í vegginn og veltuna alveg upp undir þriggja stiga línu, en er svo öskufljótur að detta til baka og sópa frá hringnum og taka ruðninga. Þá er leikskilningur hans, einbeiting, dugnaður, útsjónasemi og almenn varnareðlisávísun eins og best verður á kosið.

Noah er upphafið og endirinn á einni öflugustu vörn deildarinnar hjá varnarprófessornum öskrandi Tom Thibodeau, þjálfara Chicago Bulls, sem þið sjáið á myndinni hérna fyrir ofan.

Thibodeau er þessi sem er að reyna að brosa, en er meira á svipinn eins og einhver hafi stungið fatahengi upp í analinn á honum.

Það er gott að vita að fjölmiðlamenn í Bandaríkjunum séu okkur sammála um hver hafi staðið sig best í varnarleiknum í vetur.

Þeir Noah, Hibbert og DeAndre Jordan voru í nokkrum sérflokki og eins og venja er, voru stóru mennirnir áberandi í efstu sætunum meðan prýðilegir varnarjaxlar eins og Andre Iguodala verða að sætta sig við að slefa inn á topp fimm. Þú sérð fimmtán efstu mennina í kjörinu á töflunni hérna fyrir neðan.

Það sem við höfum þó helst við kjörið í ár að athuga er að þeir Patrick "Ekki halda niðri í þér andanum meðan þú bíður eftir því að við fyrirgefum þér fyrir að fokka upp hnénu á Russ" Beverley hjá Houston og Tony Allen hjá Memphis fá nákvæmlega enga ást fyrir sitt framlag í varnarleiknum í vetur, sem er glórulaust.

Tuesday, April 22, 2014

Gæðastund



Hlaðvarpið: 22. þáttur


Nýr þáttur af Hlaðvarpi NBA Ísland er dottinn í loftið, nánar tiltekið 22. þáttur. Viðmælandinn að þessu sinni er gamall kunningi Hlaðvarpsins, Snorri Örn Arnaldsson. Umræðuefnið að þessu sinni er úrslitaeinvígi KR og Grindavíkur og svo auðvitað fyrsta umferðin í úrslitakeppni NBA deildarinnar. Smelltu hérna til að hlusta á þáttinn ef þú áttar þig ekki á því hvernig á að komast á hlaðvarpssíðuna góðu.

Noah varnarmaður ársins


Hér fyrir neðan geturðu horft á athöfnina frá í kvöld þegar Joakim Noah var kjörinn varnarmaður ársins í NBA deildinni. Alltaf gaman að hlusta á þennan litríka pilt.

Clinch-troðslan



Friday, April 18, 2014

Infógrafík: LA Lakers 2014



Góður til síns Brooks



Scott Brooks, þjálfari Oklahoma City, er allt að því ósýnilegur maður. Hann lætur ekki mikið fyrir sér fara og umfjöllunin um hann hefur verið eftir því. Ansi róleg bara.

Í einu skiptin sem nafn hans ber á góma (Bergomi), er það jafnan í tengslum við plott til að reka hann. Það er auðvitað rosalega hart, en við veltum því sannarlega fyrir okkur hvort Brooks hefur nægilega þekkingu og reynslu til að vinna titilinn með Oklahoma. Margt bendir til að svo sé ekki, eins og til dæmis (oft) vandræðalegur sóknarleikurinn og hugmyndaskortur á ögurstundu.

Í ár er það bara dolla eða dauði hjá Oklahoma. Liðið fór í lokaúrslit fyrir tveimur árum og er því ætlað að komast þangað aftur, nú þegar allir eru heilir, þó að nú sé enginn James Harden í liðinu.

OKC hefur sannarlega burði til að fara mjög langt. Hefur til dæmis fádæma sterkt tak á San Antonio eftir að hafa bókstaflega hent því í sumarfrí árið 2012 með því að vinna það fjórum sinnum í röð.

Oklahoma ætti að ná langt í úrslitakeppninni í ár, nema liðið verði óheppið með andstæðing og detti þannig úr leik. Annars eru reyndar ekki mörg lið sem Oklahoma ræður ekki við, svo þeir ættu ekki að vera smeykir við það.

Liðið þarf samt að komast lokaúrslit svo að Brooks haldi starfinu - og helst vinna. Það er okkar tilfinning. Það er náttúrulega glórulaust að reka mann sem er búinn að standa sig jafn vel og Brooks. Hann tók við liðinu af P.J. Carlesimo árið 2008, eftir að það tapaði tólf af fyrstu þrettán leikjum sínum i deildinni. En það var fljótt að breytast þegar Kevin Durant og Russell Westbrook þroskuðust sem leikmenn.

Strax árið eftir vann liðið 50 leiki og hefur svo verið nánast á lóðréttri uppleið síðan. Brooks var kjörinn þjálfari ársins 2010 en er merkilegt nokk enn í sömu vinnunni. Oftast missa menn starfið mjög skömmu eftir að þeir eru útnefndir þjálfarar ársins.

Á þeim fimm heilu árum sem Brooks hefur stýrt Oklahoma, er liðið 271-123, sem gerir 69% vinningshlutfall.

Liðið bætti vinningshlutfallið á hverju ári fyrstu fimm árin hans, eða þangað til í vetur þegar liðið vann einum leik færri en í fyrra (þrátt fyrir að vera lengi án Russ).

Það er kannski ótímabært að fara í þessa pælingu á þessum tímapunkti. Hún bara poppar alltaf upp þegar við hugsum til Oklahoma City. Er Scott Brooks nógu góður þjálfari til að stýra vel mönnuðu liði á toppinn og halda því þar næstu árin?

Ætli við komumst ekki fljótlega að því. Kannski fyrr en þig grunar.

Sjálfsmynd af Svarta Dauða


Hópsjálfsmyndir komust í tísku fyrir skömmu. Hérna er San Antonio liðið að bjóða upp á hressa mynd. Gregg Popovich hefur örugglega grátbeðið þá um að fá að vera með, en ekki fengið.

En svona í alvörunni, er þessi myndataka að fanga vel liðsandann hjá Spurs í vetur. Okkur er til efs að fólki geri sér almennt grein fyrir því hvað þetta lið er að brjóta allar reglur og hefðir með því að vinna alla þessa körfuboltaleiki. Það var út af svona hrikalegheitum sem Spurs fékk gælunafnið Svarti Dauði. Stendur sannarlega undir því í vetur.


Hressir á Twitter



Thursday, April 17, 2014

Kveðja frá Meshuggah


Veislan fer senn að hefjast


Svona verður það



Smá tölur


Hérna er listi yfir þá sem hafa troðið oftast í NBA í vetur og hægra megin er svo listi yfir þá leikmenn sem hafa látið hvað oftast verja frá sér skotin. Michael Carter Williams tekur þann titil eiginlega, þar sem Rose blessaður spilaði svo lítið.


Wednesday, April 16, 2014

Barnett að kveðja


Þeir segja að Jim Barnett, maðurinn sem hefur lýst leikjum Golden State Warriors í gegn um súrt og sætt í þrjá áratugi, taki sinn síðasta leik í kvöld. Forráðamenn félagsins tilkynntu að samningur yrði ekki endurnýjaður við Barnett og vitnað var í gömlu "sameiginlegu ákvörðunina." Einmitt.

Við verðum bara að segja eins og er, að þetta eru drullu leiðinlegar fréttir! Það er eins og ekkert megi endast lengur. Verður alltaf að breyta öllu og fokka í öllu, helst því sem virkar, og fá það til að virka ekki. Helvítis rugl. Það verður hrikaleg eftirsjá í Barnett. Hann er algjör fagmaður og er á pari við þess gömlu góðu eins og Ralph Lawler hjá Clippers. Hann hefur fylgt okkur í gegn um ófáa leikina og alltaf náði hann að gera hlutina áhugaverða, þó liðið hans gæti ekki skít árum saman.

Þeir sem vilja sýna Barnett stuðning geta farið inn á þessa síðu. Það skiptir máli. #KeepJim


Deildakeppninni lýkur í nótt


Í kvöld og nótt fer fram síðasta umferðin í deildakeppninni í NBA, þar sem öll 30 liðin verða í eldlínunni. Enn er ekki endanlega ljóst hvaða lið munu mætast í úrslitakeppninni og því eru leikir eins og viðureign Memphis og Dallas gríðarlega áhugaverðir.

Memphis og Dallas eru nefnilega að spila hreinan úrslitaleik upp á 7. sætið í Vesturdeildinni og losna þar með við að mæta San Antonio skrímslinu í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Liðið sem vinnur leikinn mætir annað hvort Oklahoma eða LA Clippers í fyrstu umferð. Til mikils er að vinna, því Memphis og Dallas eru bæði 0-4 á móti Spurs í vetur.

Sigurvegarinn í slag Griz og Mavs nær þar með í 50. sigur sinn á leiktíðinni og verður þá sjöunda liðið í Vesturdeildinni til að vinna 50 leiki. Metið er átta lið, en það var sett í vestrinu árin 2008 og 2010.

Útlit er fyrir að liðið í 8. sætinu í Vesturdeildinni myndi ná þriðja sætinu inn í úrslitakeppnina ef það væri í Austurdeildinni.

Oklahoma tryggir sér annað sætið í vestrinu með sigri á Detroit á heimavelli í nótt, en undirmannað Clippers-liðið þarf að sækja sigur til Portland og treysta á að Oklahoma tapi til að eiga séns á þriðja sætinu. Oklahoma er búið að vinna síðustu níu leikina sína gegn Detroit.

Svo er víst eitthvað að gerast í Austurdeildinni...

Meiðsli Bogut gætu eyðilagt áform Warriors


Þú ferð út á lífið og hittir föngulega dömu. Ferð með henni heim og leikar taka að æsast. Þið látið vel að hvort öðru og ákveðið að færa aksjónið inn í svefnherbergi. Svo þegar þú klæðir hana úr buxunum... kemur í ljós að hún er með bleyju. Þú nuddar augun og athugar hvort þig er að dreyma, en hjá þessu verður ekki komist. Hún er með bleyju, hvort sem þér líkar betur eða verr.

Svona líður stuðningsmönnum Golden State Warriors eftir að þeir fréttu að Andrew Bogut væri rifbeinsbrotinn og ætti því eftir að missa af úrslitakeppninni.

Eftir langan og strangan vetur var fjörið loksins að byrja. Loksins gátu strákarnir hans Mark Jackson farið að sýna okkur að ágætur árangur þeirra í úrslitakeppninni í fyrra* hafi ekki verið nein tilviljun.

En þá gerist þetta.

Svona er þetta alltaf hjá Golden State og svona hefur þetta raunar alltaf verið hjá Andrew Bogut, hvers heilsufar hefur verið kraftaverk síðustu mánuði miðað við vesenið á honum undanfarin ár.

Í fyrra var það David Lee sem meiddist í úrslitakeppninni og gat lítið beitt sér eftir það. Stephen Curry var líka meiddur þá og er eiginlega alltaf meiddur, því ökklarnir á honum eru ónýtir.

Curry var þó búinn að halda sæmilegri heilsu í vetur eins og Bogut, en nú er sú heilsa úr sögunni eins og hún verður fljótlega hjá keppendunum í þættinum Feitasti einstaklingurinn sem missir fáránlega mikla þyngd á skömmum tíma í sjónvarpi, en dettur svo strax aftur í það og verður feitur aftur af því að fólk sem er svona feitt á oftast við andlegan sjúkdóm að stríða sem kemur grænmeti og hlaupabrettum óskaplega lítið við - sem verið hefur á dagskrá í íslensku sjónvarpi undanfarið.

Þetta er í alla staði ömurlegt dæmi. Og þá erum við að tala um meiðslin, ekki þáttinn (Immit).

Það er kannski of mikil bölsýni að ætla að dæma Warriors úr leik í úrslitakeppninni bara af því það missir einn mann í meiðsli, en staðreyndin er bara sú að þessi maður er mikilvægasti leikmaður liðsins í varnarleiknum, með fullri virðingu fyrir frábærum varnarmanni eins og Andre Iguodala.

Það sem gerir þetta enn verra, er að maðurinn sem ætti með öllu að koma inn í stað Bogut og var meira að segja í byrjunarliði Warriors í helmingi leikja liðsins á síðustu leiktíð, Festus Ezeli, er líka meiddur. Hann er reyndar byrjaður að æfa eftir að hafa verið úr leik í allan vetur, en hann á ekki eftir að gera mikið í úrslitakeppninni ef hann kemur þá yfir höfuð við sögu.

Við erum því að tala um að Golden State sé að fara inn í úrslitakeppnina með Jermaine O´Neal sem eina miðherjann sem Mark Jackson treystir þokkalega. Það væru ágætar fréttir af við værum stödd á árinu 2004, en eins og þið vitið er 2014 núna og það boðar ekki gott þegar haft er í huga að O´Neal var búinn á því strax árið 2009, þegar hann gerði sig bókstaflega að fífli í úrslitakeppninni fyrir framan augun á okkur.

Það stefnir í að mótherji Golden State í úrslitakeppninni verði LA Clippers og ljóst að miðherjalaust Warriors-liðið getur ekki nýtt sér einn af veikleikum Clippers-liðsins sem er skortur á sentimetrum og kjöti í teignum.

Meiðsli Bogut þýða að það verður ekkert annað í boði hjá Warriors en að spila minnibolta. Allir vita að það fer liðinu langbest að tefla fram snaggaralegum leikmönnum undir tvo metra á hæð og hlaupa svo og skjóta eins og andskotinn væri á hælunum á þeim.

Bogut hefur reyndar alltaf verið með í myndinni í þessari fantasíu. David Lee hefur verið málaður út úr henni, sérstaklega eftir úrslitakeppnina í fyrra, en Bogut er alltaf inni.

En nú er hann ekkert inni.

Við gætum kannski trúað því upp á LA Clippers að drulla á sig ef Vinnie del Negro væri enn að þjálfa liðið, en hann er blessunarlega farinn og Doc Rivers er tekinn við af honum.

Undir stjórn Rivers hefur Clippers-liðið bætt sig talsvert þrátt fyrir meiðslavesen og því hefði eflaust verið lítil ástæða til að tippa á Warriors í einvígi liðanna, jafnvel þó Bogut hefði verið inni í myndinni.

Því miður fyrir Warriors, sjáum við því fyrir okkur að öfugt við í fyrra, þegar liðið var heppið með andstæðing og sló Denver út í fyrstu umferð, verði enginn Öskubuskuandi svífandi yfir vötnum í Oakland þetta árið.

Mark Jackson á eftir að predika mikið og við eigum alveg bókað eftir að fá heimsklassadrama í leikjum Golden State í úrslitakeppninni.

Það er hinsvegar spurning hvort Jackson gæti þurft að leita annað með predikanir sínar á næsta tímabili ef illa fer hjá Warriors. Það væri líklega ósanngjarnt í ljósi mótlætisins, en í NBA deildinni snýst þetta um að éta eða verða étinn, hvort sem menn eru andlegir á því eður ei.

* - Við mælum sérstaklega með viðtalinu við George Karl í samantektinni um fyrstu umferðina í úrslitakeppnina í fyrra sem er að finna þegar smellt er á tengilinn. Það er auðvitað eðlilegt.

Lillard móðgar


Damian Lillard er margt til lista lagt en leiklistin virðist ekki vera eitt af því sem hann gerir vel. Í þessari sniðugu auglýsingu sjáum við Lillard móðga þá Chris Webber og Karl Malone.

Monday, April 14, 2014

Sunday, April 6, 2014

Komið að Ká Dé?


Flestir eru nú þegar búnir að velja. Svo virðist sem öll vötn renni til Oklahoma núna. Ef Oklahoma á eitthvað sameiginlegt með Dýrafirði, þannig. Það kæmi okkur gríðarlega á óvart ef Kevin Durant yrði ekki kjörinn verðmætasti leikmaður ársins í NBA árið 2014. LeBron James er alveg eins vel að þessu kominn, en það er langt síðan að fjölmiðlamenn ákváðu að þetta ætti eftir að verða árið hans Kevin Durant. Og það er bara stakur sómi af því.

LeBron James verður nákvæmlega aldrei leiður á því að vinna MVP-styttur og nú er svo komið að með hverri styttunni sem hann fer með heim, kemst hann ofar í últra-elítu NBA deildarinnar. Durant er hinsvegar orðinn dauðleiður á því að lenda alltaf í öðru sæti og spilamennska hans í vetur hefur farið ansi langt með að tryggja honum það.

LeBron James er besti körfuboltamaður í heiminum, um það þýðir ekkert að deila. En þið vitið að hann hefur öðrum og mikilvægari hnöppum að hneppa núna en að vinna MVP-verðlaun. Til dæmis að hvíla sig og halda heilsu til að hafa orku og heilsu í að reyna að komast í lokaúrslitin fjórða árið í röð. Það tekst ekki nema bestu liðum allra tíma.

Á föndrinu þarna fyrir ofan sérðu til gamans samanburð á skotkortunum þeirra félaga í vetur. Taktu sérstaklega eftir ökónómíkinni hjá Kevin Durant, sem virðist ekki eiga veikan punkt á gólfinu þegar hann er á annað borð kominn yfir miðju.

Wednesday, April 2, 2014

Einmitt