Wednesday, April 23, 2014

Áhugaverð kosning hjá Michael Smith


Bakvörðurinn skemmtilegi Goran Dragic var valinn framfarakóngur NBA deildarinnar í vetur og er vel að því kominn, eins og reyndar flestir leikmenn Phoenix Suns. 

Það hefði mátt færa rök fyrir því að félagi hans Eric Bledsoe hefði meira að segja frekar átt að fá verðlaunin, en hann spilaði bara 40 leiki, svo hann er víst ekki gjaldgengur.

Það sem okkur þykir hinsvegar áhugaverðast við þetta kjör, er atkvæðaseðillinn hans Michael Smith.  Smith þessi  (til hægri á myndinni til hliðar) er aðstoðarlýsandi LA Clippers og samstarfsmaður goðsagnarinnar Ralph Lawler. Fréttahaukurinn Chris Sheridan á sheridanhoops.com veitti því athygli að þrír efstu mennirnir hjá Smith í kjörinu á framfarakóngi ársins voru:  

1. Kevin Durant, 2. LeBron James og 3. Blake Griffin.

Spurning hvort karlinn fór línuvillt þarna, því þetta er ekki ólíkleg uppröðun í kjörinu á verðmætasta leikmanni ársins. Nema Smith hafi þótt stórstjörnurnar bæta sig svona mikið. Jú, eða hin skýringin auðvitað.

Mafs?