Sunday, December 30, 2012

Kisurnar og Clippers með andstæðar rispur:


Mánudagurinn 26. nóvember sl. var nokkuð merkilegur dagur á NBA almanakinu okkar í ár. Þá áttu sér stað tveir tapleikir sem mörkuðu upphafið að miklum rispum í sitt hvora áttina.

Þessi lélega afsökun af körfuboltaliði sem kölluð er Charlotte Bobcats tapaði þetta kvöld hrottalega fyrir Oklahoma City 114-69 og lauk þar hreinlega keppni á tímabilinu, sem hafði byrjað svo efnilega.

Eins og frægt er orðið  vann Charlotte aðeins sjö leiki alla leiktíðina í fyrra og skilaði lélegasta vinningshlutfalli í sögu NBA deildarinnar.

Kisurnar byrjuðu ótrúlegt nokk 7-5 í haust og gott ef okkur varð ekki á að hrósa liðinu fyrir að jafna sigrafjölda síðustu leiktíðar strax í nóvember.  Síðan þetta var hefur beinlínis verið drulluslóð á eftir Charlotte, sem gæti allt eins verið með Sigga Storm og Axl Rose í byrjunarliði sínu.

Eins og þeir vita sem fylgjast með NBA, hefur Charlotte nú tapað 18 leikjum í röð frá 26. nóvember.

Á hinum endanum á spektrúminu er það Los Angeles Clippers sem brillerar sem aldrei fyrr.

Clippers hefur nefnilega ekki tapað leik síðan á umræddu mánudagskvöldi og hefur síðan unnið hvorki meira né minna en 16 leiki í röð, sem er löngu orðið félagsmet og meira til.

Það var nú ekki merkilegra lið en New Orleans Hornets sem var síðasta liðið til að leggja Clippers að velli, en Chris Paul og félagar töpuðu reyndar fjórum leikjum í röð áður en þeir fóru á þessa svakalegu rispu sem þeir eru á núna.

Ef allt væri eðlilegt myndi þessi pistill sem við skrifum um sigurgöngu Clippers nægja til að jinxa liðið í 87 stiga tap í næsta leik, en þannig vill til að andstæðingur liðsins í kvöld á álíka gengi að fagna og Aston Villa um þessar mundir svo við höfum engar áhyggjur af jinxi.

Sextándi sigurinn í röð hjá Clippers kom gegn Jazz á útivelli í fyrrakvöld og það eftir að gestirnir höfðu lent 19 stigum undir í þriðja leikhluta. Sautjándi sigurinn í röð kemur einnig gegn leikstjórnandalausu Jazz-liði í Los Angeles í kvöld.

Fyrrum Clippers-maðurinn Mo Williams er frá vegna meiðsla hjá Jazz og er hans vægast sagt saknað. Mennirnir sem sjá um að fylla skarð hans, Jamaal Tinsley og Earl Watson eru samtals 1 af 8 í skotum með 12 stoðsendingar og 13 tapaða bolta í síðustu tveimur leikjum. Væri gaman að sjá hvort Ingvi Hrafn Jónsson næði að skila betra framlagi. Þessir snáðar gætu ekki hitt úr skoti þó þeir sætu uppi á spjaldinu og andstæðingum þeirra á ekki eftir að leiðast neitt sérstaklega í svæðinu ef þeir kveikja þá á því að spila það gegn Jazz til að eiga náðugt kvöld.


Sigurganga Clippers er orðin svo löng að það hefur unnið Jazz tvisvar á útivelli meðan á henni stendur. Liðið hefur reyndar unnið þrjá útileiki í röð gegn Jazz og það hefur ekki gerst í rúm 30 ár eða síðan Clippers spilaði í San Diego. Til gamans má geta þess að Joe "Jellybean" Bryant, pabbi hans Kobe Bryant, var í liði Clippers á þessum tíma.

Clippers er aðeins 23. liðið í sögu NBA sem nær að vinna 16 leiki í röð, svona til að gefa ykkur mynd af því hve mögnuð þessi sigurganga er nú.

Það var að sjálfssögðu Chris Paul sem lokaði leiknum þegar Clippers lenti í þessum vandræðum gegn Jazz í fyrrinótt og olli mestum skaða á vítalínunni, því hann lenti merkilegt nokk í vandræðum þegar hann vær í gæslu Gordon "Ásmundar" Hayward og skaut aðeins 1-6 gegn honum í fjórða leikhlutanum.


Það gefur ágæta mynd af því hvað Clippers er búið að vera að strauja andstæðinga sína í vetur að fyrir þennan hetjuskap Chris Paul gegn Jazz í fyrrakvöld hafði hann ekki komið við sögu í nema 21 af 29 síðustu 4. leikhlutum hjá liðinu. Í þessum tilvikum hefur hann setið rólegur á bekknum og fylgst með varamönnum klára leiki þar sem úrslitin hafa verið ráðin.

Fyrir leikinn í fyrrakvöld, hafði Clippers verið 15+ stigum yfir í 17% af spiluðum leikmínútum liðsins. Það er með hreinum ólíkindum. Þetta lið er svo sterkt að það lætur Jamal Crawford líta vel út, en það hefur verið í plús hverja einustu mínútu sem hann hefur spilað á sigurgöngunni.  Meira að segja Willie Green er að skila framlagi með 42% þriggja stiga nýtingu.

Þegar lið taka rispur eins og Clippers er eðlilegt að menn fari að spyrja sig hvort þeir eigi að taka þau alvarlega og kalla þau meistaraefni. Það er kannski dálítið snemmt að fara að pæla í því, en það má alveg skjóta í stutt krossapróf og athuga hvort Clippers hefur þessa helstu fídusa sem meistaralið þarf að hafa.

Ef lið ætla að verða meistarar þurfa þau meðal annars að spila úrvalsvörn, vera með sýstem, frákasta vel, karakter og mannskap sem kaupir konseptið, hafa neyðarkall, góðan bekk, rulluspilara og góðan þjálfara

Clippers getur krossað í alla reiti þarna nema kannski fráköstin og þjálfarann. Gárungarnir segja að styrkur Vinny Del Negro sem þjálfara sé að vera ekki að skipta sér að því hvað Chris Paul er að gera með liðið.

Það verður gríðarlega áhugavert að fylgjast með þessu Clippers-liði fram á vorið og sjá hvað í því býr. Það er ljóst að það vantar ekki mikið upp á að þessi gamli brandari NBA deildarinnar sem Clippers-liðið er, geti gert alvöru atlögu að meistaratitli.

Brooklyn-blús



























Það er búið að reka Avery Johnson frá Brooklyn Nets eins og þú vissir. Við verðum bara að skrifa nokkrar línur um það af veikindavaktinni þó þetta sé gömul frétt.

Nokkuð sérstakt að þjálfari mánaðarins í nóvember sé rekinn nokkrum vikum síðar, en svona er þetta í NBA deildinni - sérstaklega hjá félögum sem eru að borga há laun og ætlast til að fá sigra í staðinn.

Avery Johnson var lengi vel búinn að vera í kósí djobbi hjá Nets. Hann notaði óþolandi röddina sína til að öskra á menn sem kunnu ekki körfubolta og töpuðu óhemju fjölda leikja. Það var ekkert verið að erfa það við Johnson, því það ætlast enginn til þess að þú farir með Jet Black Joe í úrslitakeppnina í NBA.

Núna er landslagið hinsvegar orðið allt annað. Nets er með besta bakvarðapar deildarinnar á pappírunum, borgar fullt af körfuboltamönnum fullt af peningum og nú á að fara að vinna.

Það heppnaðist framan af þegar liðið átti flúgandi 11-4 start í nóvember og vann meðal annars LA Clippers og New York Knicks, en svo datt botninn úr öllu saman.

Desember hófst á átta töpum í fyrstu tíu leikjunum og þeir fimm sigrar sem Nets hefur náð að druslast til að vinna í mánuðinum eru gegn stórveldum eins og Detroit, Cleveland, Charlotte og Toronto.

Aðeins sigurinn gegn Philadelphia getur talist góður sigur, hin liðin gætu tapað fyrir Newcastle og Norwich á góðum degi.

Það er rosalega auðvelt og freistandi að kenna Deron Williams um hvernig fór fyrir Johnson og við ætlum að gera það. Williams er hjartað og sálin í liði Nets og framtíð þess veltur öll á honum.

Eina afsökunin sem Williams hefur er sú að hann gengur ekki heill til skógar og hefur ekki gert síðan hann gekk í raðir Nets. Þegar Williams er í lagi, er hann launa sinna virði og í klúbbi með bestu leikstjórnendum heims.

En þegar úlniðurinn á honum er í klessu og hann fer í fýlu út í þjálfarann sinn,  hjálpar hann liðinu sínu sorglega lítið. Og sú var raunin og þjálfarinn fékk sparkið.

Kannski er ósanngjarnt að klína öllu á Deron Williams. Hann þvertekur fyrir að vandræði Nets og brottreksturinn sé honum að kenna, en segist gera sér grein fyrir að hann fái blammeringarnar og segist gangast við þeim hvort sem það er sanngjarnt eða ekki.

Okkur er alveg sama hvort það er sanngjarnt eða ekki. Deron Williams er nú orðinn staðfestur þjálfaramorðingi í okkar augum. Var reyndar þegar orðinn það, en nú hefur hann tekið af allan vafa.

Deron Williams er ástæðan fyrir því að Jerry Sloan hætti að þjálfa og það er fyrst og fremst honum að kenna að Avery Johnson er á atvinnuleysisskrá.

Hvað framtíðina varðar hjá Nets, voru fjölmiðlar að sjálfssögðu fljótir að orða alla bestu þjálfara heims við félagið af því þeir vita að eigandi Nets þarf ekkert að brjóta sparigrísinn ef hann ætlar að landa góðum manni. Hann á nóg af aurum.

Einmitt þess vegna var strax byrjað að tala um Phil Jackson og eitthvað svoleiðis. Að okkar mati er það útilokað að Jackson tæki við Nets. Vissulega fengi hann feit laun og það freistar hans örugglega, en Jackson er í bransanum til að vinna titla og það er enginn efniviður til þess hjá Nets sem stendur.

Nets vegna vonum við að þjálfarinn sem landar djobbinu verði sterkur karakter, því það er ljóst að Deron Williams virðist hreint ekki tilbúinn til að vinna með hverjum sem er. Það höfum við fengið að sjá.

Það verður mikil áskorun að gera alvöru lið úr Nets þó vissulega séu þar hörkuspilarar inn á milli. Það hjálpar í þjálfaraleitinni að staðan verður vel borguð, en ekki búast við að næsti þjálfari verði þar í átta ár. Ekki frekar en að PJ Carlesimo geri góða hluti þar sem aðalþjálfari.


Ríki Derons


(Smelltu til að stækka)


Wednesday, December 26, 2012

Þetta er blessunarlega ekkert creepy



Metnaður Lamar Odom


Lamar Odom hefur kannski ekki metnað í að vera góður í körfubolta lengur, en hann hefur metnað fyrir því að vera með mynd af  Sætabrauðsdrengnum á skónum sínum í jólaleiknum.


En Matt Barnes toppaði allt og alla



Kobe mætti í jólaleikinn með dautt dýr um hálsinn



Monday, December 24, 2012

Fjörið er að byrja



Stöðutékk um jólin


Við veljum okkur aldeilis daginn til að taka vörutalningu og stöðutékk. En það er bara kominn tími á það, þriðjungur tímabilsins í húsi og skemmtilegir og óvæntir hlutir að gerast.

Þá er bara að reyna að komast af með minna en sem nemur sautján símaskrám í texta til að koma þessu áfram til ykkar. Þið verðið auðvitað að hafa eitthvað að geraa á aðfangadag, nema þið lumið á gömlum þáttum af Útsvari eða Frúin fer sína leið á VHS til að stytta tímann fram til klukkan 18 í kvöld.

Við skulum byrja yfirreið okkar í Austurdeildinni. Þar er staðan orðin örlítið meira eftir bókinni en hún var fyrir einhverjum dögum síðan, þegar New York Knicks sat í efsta sætinu. Það þýðir ekkert fyrir Knicks-menn að fara í dramakast þó við segjum eins og er að það er bara rugl að New York sé í efsta sæti í Austurdeildinni.

Knicks hefur tekið gríðarlegum framförum og er það vel en við trúum ekki öðru en að draumabyrjun liðsins hafi nú líklega gefið örlítið ýkta mynd af raunverulegum styrk liðsins, nema þú trúir því að það vinni yfir 60 leiki í vetur.

Nei, nú er það Miami sem er á toppi Austurdeildarinnar og þannig verður það fram á vorið, það er aldrei að vita nema New York nái að hirða annað sætið. Sportmiðlamenn sem hallir eru undir New York - og þeir eru ansi margir - hafa hátt um það að Carmelo Anthony sé alvarlegur kandídat í að verða kjörinn Mest Verðmæti Pilturinn í vor.

Þessi hávaði er að hluta til réttmætur, því New York er búið að vinna fjölda körfuboltaleikja og þeir sem kjósa MVP hafa það fyrir vana að afhenda nafnbótina besta leikmanni besta liðsins eða þar um bil.

Því miður verður Anthony að sætta sig við að vera ekki einu sinni verðmætasti leikmaður Austurdeildarinnar. Það er að sjálfssögðu LeBron James. Hann gerir allt á vellinum (á báðum endum, taktu eftir því, Melo) og ber meistaraliðið á herðum sér. Hann er að skjóta minna en nokkru sinni áður en hitta og frákasta betur en nokkru sinni.

Carmelo er líka með fínar tölur og hann hefur líka bætt sig, en hann var með svipaðar tölur árið 2007 og hafnaði þá í 15. sæti í MVP-rallinu (með jafn mörg atkvæði og Baron Davis, þá hjá Warriors, sem nokkrum dögum síðar sló MVP-ið Dirk Nowitzki og 67 sigra deildameistara Dallas Mavericks út í fyrstu umferð úrslitakeppninnar).

Denver 2007 var ekki með jafn góðan árangur og Knicks stefnir á að ná í vor, en þú hafðir gaman af þessum gagnslausu upplýsingum nema þú sért fnæsandi Knicks-maður.

Þetta var ágæt tilraun, ´Melo, en þú þarft að sýna okkur eitthvað meira svo við tökum þið alvarlega(r) í þessari umræðu elsku vinur.

Við þurfum ekkert að fjalla um Miami. Liðið er á krúskontról og bíður eftir úrslitakeppninni. Eitt og eitt tíst hefur heyrst af því liðið nennti ekki að spila meistaravörn að hausti eftir að hafa unnið titilinn, en fyrir utan það hefur Heat fallið gjörsamlega í skuggann af Lakers og Knicks og elskar það.

Atlanta er eitthvað að gimpast í þriðja sætinu í Austurdeildinni og þó það sé fínasti árangur hjá liðinu, er gjörvallri heimsbyggðinni alveg nákvæmlega sama. Reyndar eru meiri líkur á því að heimsendir hafi orðið í gær en að einhver hafi trú á að Atlanta spili eftirtektarverðan körfubolta á næstunni.

Chicago situr í fjórða sætinu og hefur gert vel í að halda sjó í fjarveru Derrick Rose, sem nú fer bráðum að mæta til leiks á ný. Joakim Noah er maður sem fær karlmenn til að vilja bæði skipta um lið og skipta um lið. Lið sem vilja mæta Bulls í úrslitakeppninni í vor munu ekki þurfa að fara í röð.

Haldið þið að Indiana sé ekki bara í fimmta sætinu og réttu megin við 50% merkilegt nokk. Pacers er að spila hrikalega góðan varnarleik en leikmenn liðsins eru eins og sæðisfrumur í skólpræsi í sókninni - það eru litlar líkur á að eitthvað sé að fara að gerast.

Milwaukee er líka réttu megin við 50% en á eflaust eftir að detta niður í 40+ prósentin þar sem því líður best, en Scott Skiles þjálfari verður einmitt rekinn í vor þegar liðið kemst ekki í úrslitakeppnina eða fellur út í fyrstu umferð.

Suma daga nær Milwaukee að vinna hvaða lið sem er í heiminum með bakvarðaparið Brandon Jennings og Monta "Into the Void" Ellis* en fleiri daga ertu bara Milwaukee og tapar. Það hjálpar ekki þegar Tyrkinn þinn tekur Hedo-inn á þetta og nennir ekki að spila eftir að hafa fengið feitan samning.

(Copyright, @gilsi -þó það hafi sennilega verið óvart).

Brooklyn og Boston eru bæði að valda vonbrigðum, hvort á sinn hátt.

Það skiptir engu máli hvað Boston vinnur marga leiki í deildakeppninni ef það skríður í úrslitakeppnina. Á meðan Celtics er með þennan mannskap, verður deildakeppnin dálítið eins og belgískt blackmetal fyrir utan Rajon Rondo. Snýst allt um að reyna að skrölta gömlu mönnunum í gegn um deildakeppnina stórslysalaust. San Antonio er að gera nákvæmlega sama hlut, nema hvað Spurs spilar skemmtilegan körfubolta og er ekki með skíthæl eins og Kevin Garnett í sínum röðum.

Það hengdu allir of miklar væntingar á Brooklyn. Jú, jú, það eru þarna stjörnur í liðinu, en varnarleikurinn virkar ekki nema í fimmta hverjum leik í besta falli. Hvað frammistöðu einstaka leikmanna varðar munar klárlega mestu um að Deron Williams gengur ekki heill til skógar. Hann er ekki þessi D-Will sem hann var þegar hann var hjá Jazz og gat tekið yfir leiki. Ekki sá maður sem Nets ætlar að borga 100 amerískar kúlur. Vonandi kemur þetta nú samt hjá honum og Nets einn daginn.

Philadelphia er rétt undir 50 prósentunum og verður í kring um þá meðalmennskutölu í vetur. Þú segir kannski að Sixers sé alveg jafn seigt og Bulls að halda sjó "án Andrew Bynum" en Bynum þessi hefur bara ekkert spilað með liðinu og það er alls óvíst hvort hann á nokkuð eftir að gera það yfir höfuð. Ferlegt fyrir stuðningsmennina að geta ekki skammast út í Iggy þegar illa gengur, en Jrue Holiday tekur ef til vill við því sverði í ár. Þeir Frímann og Evan Turner eru óhemju spennandi spilarar og framtíð Sixers-liðsins - ekki Andrew Bynum.

Orlando er að villa á sér heimildir og er aðeins þremur leikjum undir 50%. Jacque Vaughn er að gera rosalega fína hluti með þetta lið á sínu fyrsta ári sem þjálfari. Gleymum ekki að margir spáðu því að Magic yrði eitt af lélegustu - ef ekki lélegasta - liðiði í deildinni í vetur.

Það getur svo sem vel verið að Orlando detti niður í að verða drullu lélegt lið (ekki hjálpar að Glen Davis sé að meiðast) en það verður að minnsta kosti ekkert sögulega lélegt. Það er nú líka ekki eins og Magic sé með lélegasta bakvarðaparið í deildinni í þeim Jameer Nelson og Arron Afflalo. Látt´ekki svona!

Við gætum rætt um restina af Austurdeildinni en þessi pistill er orðinn of langur og okkur er ekki mál að drulla. Kíkjum heldur í Vesturdeildina, þar sem alltaf er skemmtilegra að vera.

Auðvitað er Oklahoma í efsta sæti í vestrinu mar, forgetaboutit!

Það munar nú samt nánast engu á fyrsta og öðru sætinu þar sem Clippers-liðið er á ógurlegri þrettán leikja sigurgöngu og setur félagsmet á hverjum degi. Hugsið ykkur bara ef einhver hefði sagt honum Ralph Lawler það fyrir nokkrum árum að liðið ætti eftir að landa Chris Paul og vinna þrettán í röð.

Sá gamli myndi segja að þú værir galinn, enda hefur liðið ekki unnið nema einhverja fimmtán leiki í úrslitakeppni á ÞRJÁTÍU ÁRA ferli sjónvarpslýsandans Lawler með félaginu. Oh me oh my!

Breiddin hjá Clippers er óhemju góð og sem fyrr er algjör veisla að horfa á þetta lið spila.

Já, hún er æsileg toppbaráttan í Vesturdeildinni, þar sem munar punghári á 1-4 sætinu. Oklahoma og LA Clippers vinna sína riðla mjög auðveldlega, en það verður gaman að sjá San Antonio og Memphis berjast um efsta sætið í Suðvesturriðlinum, því liðið sem hafnar í öðru sæti þar poppar alla leið niður í fjórða sætið eins og þið vitið af því sigurvegarar í riðlum raðast alltaf í efstu þrjú sætin inn í úrslitakeppnina.

Þessi fjögur lið verða með heimavallarrétt í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í vor, það er alveg bókað. Oklahoma hefur hvorki misst tikk né takk úr takti þrátt fyrir að láta James Harden fara og fá Kevin Martin í staðinn. Hann hefur staðið sig óskaplega vel, er ökónómískur að venju og er einn besti varamaður deildarinnar þó hann verði auðvitað aldrei spielmacherinn sem Harden er.

Þegar fólk var að tapa sér yfir brottför Harden í haust, gleymdi það alveg að taka nokkur atriði með í reikninginn. Og ekki bara það að Kevin Martin næði að fylla upp í megnið af skot- og stigahlutanum. Við gleymdum að faktóra það inn í að lykilmen Oklahoma eru allir rétt skriðnir yfir tvítugt og eru því á fullu að bæta sig á hverju ári. Og það hafa þeir sannarlega gert, ekki síst Kevin Durant og Serge Ibaka.

Durant er mjög ofarlega í hugum fólks þegar kemur að Mest Verðmæta Piltinum og er það engin furða.

Hann er bara að skila 28 stigum, 8 fráköstum, fjórum stoðsendingum, tæpum þremur í stolnum + vörðum skotum og svo rúsínan í afturendanum: Hin mjög svo sjaldgæfa 50/40/90 lína.

Tímabilið er auðvitað ekki búið en það eru bara snillingar sem skjóta yfir 50% - yfir 40% úr þristum og 90% á línunni.

Serge Ibaka er sömuleiðis hættur að vera sprellikall af bekknum og orðinn alvöru leikmaður. Stekkur úr 9 stigum í 14 og er upp á við í öllum tölfræðiþáttum. Það er engin furða að þetta Thunder-lið sé að troða á andstæðingum sínum eins og stjórnlaus gufuvaltari á mauraþúfu.

San Antonio þekkja allir. Liðið heldur áfram að byggja á stórkostlegum sóknarleik og keyra á öllum sínum mannskap. Vorið sem leið hjá Spurs var eitt hið skrítnasta sem við höfum séð frá nokru liði, en þið vitið alveg hvað klukkan slær með Spurs. Það er verið að hlaða í enn einn síðasta sénsinn á meistaratitli og reyndar hefur Tim Duncan gefið þeim metnaði aukin byr með því að spila sinn besta bolta í nokkur ár.

Sumum kemur það á óvart að Memphis skuli ganga jafn vel og raun ber vitni en við blásum á það.

Jú, jú, liðið lét O.J. Mayo fara til Dallas þar sem hann blómstrar eins og Holtasóley í hænsnaskít.

En við megum ekki gleyma því að það var fyrst í sumar sem Zach Randolph, besti maður liðsins, jafnaði sig almennilega eftir meiðslin sem háðu honum á síðustu leiktíð.

Húnarnir eru með eins gott byrjunarlið og hvaða klúbbur sem er í heiminum, en það verður bekkurinn hjá þeim sem ákvarðar hve langt liðið nær í úrslitakeppninni í vor. Þegar liðið fær eitthvað frá misjöfnum bekknum, er það í einu orði sagt hrikalegt.

Eins og áður sagði verða það Oklahoma, LA Clippers, San Antonio og Memphis sem munu 99,5% taka fjögur efstu sætin í Vesturdeildinni, en það er meira pláss fyrir óvænta hluti og drama í næstu fjórum sætum og nú þegar er meira að segja farið að bera á því.  Þetta er sannkölluð súpa þarna frá sæti fjögur og alla leið niður í það tólfta.

Hvað er Golden State til dæmis að gera í fimmta sæti Vesturdeildarinnar, ÁTTA leikjum yfir 50 prósentunum? Fyrirgefið, en hvaða rugl er það allt í einu?

Þetta er eins og að sjá Friðrik Ómar og Jógvan taka Unfit Earth með Napalm Death live á tónlistarhátíðinni í Narsarsuaq!

Margir hafa reynt að útskýra af hverju Golden State er allt í einu farið að vinna körfuboltaleiki.

Það hefur eitthvað að gera með vörn og fráköst, það hefur verið sannað, en eins skammarlegt og það er nú, er ein helsta ástæðan fyrir framförunum einfaldlega sú að leikmennirnir eru farnir að leggja á sig! Þetta höfum við eftir öruggum heimildum frá innanbúðarmanni hjá Warriors. Magnað alveg hreint, þó erfitt sé að sjá hvernig Golden State á eftir að takast að halda þessum Öskubuskudampi fram á vorið.

Þorri spekinga spáði því í sumar að Houston ætti eftir að verða í ruglinu í vetur, en það var áður en liðið fékk til sín þá Jeremy Lin - og það sem meira er James Harden. Lin hefur ekki alveg náð að brillera nema í stuttum skorpum en Harden hefur heilt yfir verið mjög öflugur og er að skora á pari við LeBron James (rúmlega 26 stig í leik).

Það er ekki víst að þessi neðri lið í vestrinu geti komið á óvart og sigrað í fyrstu umferð úrslitakeppninnar, en keppnin um síðustu fjögur sætin verður alveg rosaleg, þar sem átta lið eru sem stendur að berjast.

Þar eru meðal annars LA Lakers og Dallas Mavericks ekki að ná inn á topp átta sem stendur og mikið yrði það skrítið ef þau næðu nú ekki inn að lokum í vor.

Ætli það sé ekki líklegra að Lakers og Mavs lyfti sér upp fyrir lið eins og Portland, Houston, Utah og hugsanlega Denver og Golden State.

Sumir hafa gagnrýnt Denver fyrir að byrja illa, en það verður að taka með í reikningsdæmið að liðið er búið að spila 19 af fyrstu 28 leikjum sínum á útivelli. Þetta eru flestir útileikir í deildinni til þessa og það telur bara nokkuð mikið, ekki síst þegar lið eins og Denver á í hlut, því það nýtur forgjafar á heimavelli. Þar eigum við ekki við hressa áhorfendur, heldur hæðina yfir sjávarmáli. Það er vísindalega sannað að Denver - og reyndar Utah í nokkuð minni mæli - njóta forskots á andstæðinga sína vegna þynnra lofts sem rekja má til hæðar heimavallanna yfir sjávarmáli.

Af restinni af liðunum inni í myndinni í Vesturdeildinni er að lokum gaman að minnast á blessaða Úlfana í Minnesota. Rétt eins og fleiri lið í deildinni hefur Minnesota náð að halda sjó þrátt fyrir að hafa þar til nýverið þurft að vera án Ricky Rubio og stundum án Kevin Love líka.

Ekki virðist nú Brandon Roy tilraunin ætla að virka hjá þeim, en Andrei Kirilenko hefur skilað hlutverki sínu með sóma og tröllið Pekovic er að verða einn af fáum alvöru miðherjum í NBA ofan á það að vera líklega hrikalegasti maður í deildinni.

Fjölmargir aðdáendur Úlfanna eiga bókstaflega eftir að gráta af gleði þegar þeir fylgjast með þessu skemmtilega liði í vetur og fram á vorið.

Já, svona er þetta elskurnar. Þetta voru nokkur orð um stöðu mála í deildinni okkar fögru. Við vonum að þetta stytti ykkur stundir í jólafríinu. Megið þið öll eiga gleðileg og hamingjurík jól og munið eftir Miami-Oklahoma á Sportinu á jóladagskvöldið.

Ást og virðing,

Ritstjórnin

Þetta sáu auðvitað allir fyrir



Hnjaskur stendur (fellur) undir nafni



Sunday, December 23, 2012

Heimsendir


Mörg ykkar hafa eflaust hlegið af spádómnum fræga um heimsendir á árinu 2012. Hélduð þið virkilega að þetta yrði bara ein sprenging og búið?

Nei, þessi heimsendir verður miklu miklu hræðilegri en það. Hann gerist hægt og rólega og er meira að segja byrjaður, það hafa bara ekki allir tekið eftir því.

Við höfum tekið eftir því og erum farin að þjást gríðarlega. Svo mikið að við erum að verða hætt að geta horft á körfubolta.

Dömur og herrar, við kynnum, heimsendir, 2012:


Stigaskorun 2001 árgangsins



Saturday, December 22, 2012

Goðsagnakennt, með sanni




via karfan.is

Ódámurinn Eric Bledsoe


Eric Bledsoe er að verða einn af vinsælustu leikmönnum NBA deildarinnar sem ekki eru stórstjörnur.

Leikstíll hans er blanda af Dwyane Wade og LeBron James þegar báðir voru upp á sitt besta.

Hann minnir á Wade á þann hátt að hann lætur sig vaða í allt og er ekkert að hugsa um afleiðingarnar.

Minnir á James af því hann er svo óhugnalega sterkur. Tekur snertingu og högg vel og er eins og naut í teginum þó hann sé sannarlega ekki hár í loftinu.

Þá er alltaf stutt í næstu tilþrif hjá kappanum með þennan stökkkraft, anda og ímyndunarafl.

Aðeins menn eins og Bledsoe geta orðið innblástur að svona vitleysisgangi eins og hér fyri neðan.












Tæknivillurnar


Hér er skilti sem sýnir atkvæðamestu menn deildarinnar í tæknivillum. Óljóst hvort tæknivillurnar sem Carmelo Anthony fékk í gærkvöld náðu inn á þetta skilti sem sjónvarpsmennirnir í Los Angeles buðu upp á.


Er Pelíkönunum hugað líf?


New Orleans Hornets getur farið í aðra hvora áttina á allra næstu árum. Orðið efnilegasta liðið í deildinni, eða sigið hægt og rólega í holræsið. Með nafn eins og New Orleans Pelicans, væri síðari kosturinn ekki óhugsandi. Kannski er þessi mynd svona táknræn vígspá félagsins.


Greiðar meinar Hibbert aðgang



Thursday, December 20, 2012

Bill Simmons þarf að vinna um jólin


Það verður ekkert slor prógramm í NBA á jóladag eins og fram hefur komið. Besti leikurinn (Miami-Oklahoma) verður í beinni á Stöð 2 Sport klukkan 22:30. Hér fyrir neðan sérðu þá Michael Wilbon, Bill Simmons og Jalen Rose spjalla um jólaleikina.


5000 snuddur hjá Paul


Chris Paul náði þeim áfanga í nótt að gefa 5000. stoðsendinguna sína í 510. leiknum sínum á ferlinum. Paul er á svipuðu róli og bestu sendingamenn sögunnar og hér fyrir neðan sérðu skilti sem sýnir okkur þá leikmenn sem voru fljótastir að ná í 5000 stoðsendingar á ferlinum.



















Góði Hirðirinn



Tuesday, December 18, 2012

Monday, December 17, 2012

John Stockton og auglýsingarnar


John Stockton lék ekki í mörgum auglýsingum á ferlinum, enda með sannkallaða fjölmiðla- og myndavélafælni. Það kom okkur því nokkuð á óvart þegar við rákumst á þessa skemmtilega hræðilegu Diet Pepsi auglýsingu með leikstjórnandanum goðsagnakennda.



Og úr því við vorum að opna þessa ormadós, er hér önnur jafnvel skelfilegri auglýsing með Stockton og Hot Rod Hundley í aðalhlutverki. Skondið að America 1st credit union er enn í dag einn stærsti styrktaraðili Utah Jazz. Líklega vegna þess að samstarfið var reist á þessari frábæru auglýsingu.


Friday, December 14, 2012

Klámfengin skotkort tveggja snillinga


Skotkort eru ákaflega skemmtilegt fyrirbæri sem dregið geta upp glögga mynd af frammistöðu leikmanna í NBA deildinni.

Það er ekki langt síðan farið var að bjóða okkur upp á að skoða skotkort fyrir leikmenn í deildinni, en við erum reyndar ekki alveg búin að ná tökum á því enn.

Þeir passa að hafa þetta flókið svo fólk eins og við (sem er vel undir meðalgreind) geti ekki nýtt sér þessa skemmtilegu framsetningu til fullnustu.

Okkur langar samt að sýna ykkur dálítið skemmtilegt.

Hér til hægri sérðu myndir af nokkrum hefðbundnum skotkortum frá nokkrum ónefndum leikmönnum í NBA.

Hægt er að draga upp skotkort bæði liða og leikmanna, hvort heldur sem er úr einum leik eða jafnvel 82 ef því er að skipta.

Taktu eftir því að kortið fer frá því að vera rautt, þá yfir í gult og að lokum í grænt.

Guli liturinn táknar að hittni leikmannsins okkar á þeim tiltekna reit er í kring um meðaltal í deildinni. Sé reiturinn rauður er hittni leikmannsins á því svæði undir meðaltali í deildinni en sé hann grænn, er leikmaðurinn að hitta yfir meðaltali í deildinni.

Þannig er til dæmis ekki óalgengt að sjá að menn sem eru lélegir við að slútta við körfuna séu rauðleitir í teignum en svo kannski grænir fyrir utan þriggja stiga línu úr sitt hvoru horninu ef það er uppáhalds staðurinn þeirra.

Á efri myndinni eru nokkur skotkort af algjöru handahófi sem við límdum saman til að gefa ykkur smá hugmynd um hvernig skotkort "mannlegra" leikmanna geta litið út.

Kíktu svo á þetta:


Hér fyrir ofan sérðu svo nokkuð sem er ekki hægt að kalla annað en listaverk hjá tveimur af hagkvæmustu skorurum deildarinnar á síðustu leiktíð, þeim Kevin Durant hjá Oklahoma og Steve Nash á lokaárinu sínu með Phoenix Suns (smelltu til að stækka).

Hér eru á ferðinni heildarskottölur 2011-12. Taktu eftir því að þeir eru báðir við eða yfir meðaltali í deildinni á nánast öllum reitunum!

Þetta er með algjörum ólíkindum!

Það er ástæða fyrir því að svona kallar eru með gott kaup!

Þetta er rugl!

Jordan hataði ekki Vampíruvaktina



Thursday, December 13, 2012

Allir gáfu þeir öðru fólki körfubolta


Jóhannes Snævarr var fljótastur að svara rétt í getraun dagsins, sem var hundlétt að þessu sinni. Piltarnir á myndinni sem við sýndum ykkur áttu það augljóslega sameiginlegt að vera leikstjórnendur, auk þess að hafa leitt NBA deildina í stoðsendingum nákvæmlega einu sinni hver.

Mark Jackson naut góðs af því að spila með Denver líkt og Andre Miller á sínum tíma en þar á bæ hafa hraði og skotgleði oftast verið í forgrunni. Þegar Golden State þjálfarinn Jackson leiddi deildina í stoðsendingum árið 1997 var hann fyrstu 50 leikina hjá Denver (12,3) en lauk árinu hjá Indiana (9,8) og endaði með 11,4 snuddur í leik - heilli stoðsendingu fleiri en næsti maður (John Stockton 10,5).

* "Tiny" Archibald, sem síðar átti eftir að gera garðinn frægan með Boston Celtics (meistari 1981), varð bæði stiga- og stoðsendingakóngur þegar hann lék með Kings árið 1973.

Það er algeng pub-quiz spurning hver sé eini maðurinn í sögu NBA sem leitt hafi deildina í stigum og stoðsendingum á sama tímabili, en tæknilega var Archibald annar maðurinn í sögunni til að gera það.

Þannig var að Oscar Robertson var með hæsta meðaltal allra í deildinni í báðum þessum tölfræðiþáttum árið 1968, en þá var farið eftir heildartölum en ekki meðaltali þegar þessi verðlaun voru veitt.

Það var sjálfur Wilt Chamberlain sem fékk því stoðsendingatitilinn þetta ár þó hann væri "aðeins" með 8,6 stoðsendingar að meðaltali í leik gegn 9,7 hjá Robertson. Ansi sögulegur titill hjá miðherjanum Chamberlain, sem er eina fimman í sögunni sem hefur landað þessari nafnbót sem oftast er eign leikstjórnendanna.