Friday, December 14, 2012
Klámfengin skotkort tveggja snillinga
Skotkort eru ákaflega skemmtilegt fyrirbæri sem dregið geta upp glögga mynd af frammistöðu leikmanna í NBA deildinni.
Það er ekki langt síðan farið var að bjóða okkur upp á að skoða skotkort fyrir leikmenn í deildinni, en við erum reyndar ekki alveg búin að ná tökum á því enn.
Þeir passa að hafa þetta flókið svo fólk eins og við (sem er vel undir meðalgreind) geti ekki nýtt sér þessa skemmtilegu framsetningu til fullnustu.
Okkur langar samt að sýna ykkur dálítið skemmtilegt.
Hér til hægri sérðu myndir af nokkrum hefðbundnum skotkortum frá nokkrum ónefndum leikmönnum í NBA.
Hægt er að draga upp skotkort bæði liða og leikmanna, hvort heldur sem er úr einum leik eða jafnvel 82 ef því er að skipta.
Taktu eftir því að kortið fer frá því að vera rautt, þá yfir í gult og að lokum í grænt.
Guli liturinn táknar að hittni leikmannsins okkar á þeim tiltekna reit er í kring um meðaltal í deildinni. Sé reiturinn rauður er hittni leikmannsins á því svæði undir meðaltali í deildinni en sé hann grænn, er leikmaðurinn að hitta yfir meðaltali í deildinni.
Þannig er til dæmis ekki óalgengt að sjá að menn sem eru lélegir við að slútta við körfuna séu rauðleitir í teignum en svo kannski grænir fyrir utan þriggja stiga línu úr sitt hvoru horninu ef það er uppáhalds staðurinn þeirra.
Á efri myndinni eru nokkur skotkort af algjöru handahófi sem við límdum saman til að gefa ykkur smá hugmynd um hvernig skotkort "mannlegra" leikmanna geta litið út.
Kíktu svo á þetta:
Hér fyrir ofan sérðu svo nokkuð sem er ekki hægt að kalla annað en listaverk hjá tveimur af hagkvæmustu skorurum deildarinnar á síðustu leiktíð, þeim Kevin Durant hjá Oklahoma og Steve Nash á lokaárinu sínu með Phoenix Suns (smelltu til að stækka).
Hér eru á ferðinni heildarskottölur 2011-12. Taktu eftir því að þeir eru báðir við eða yfir meðaltali í deildinni á nánast öllum reitunum!
Þetta er með algjörum ólíkindum!
Það er ástæða fyrir því að svona kallar eru með gott kaup!
Þetta er rugl!
Efnisflokkar:
Allt er vænt sem vel er grænt
,
Fánýtur fróðleikur
,
Kevin Durant
,
Skotkort
,
Steve Nash
,
Tölfræði