Wednesday, March 30, 2016

Rauntal frá NBA Ísland


Nú eru aðeins tvær vikur eftir af deildarkeppninni NBA og ekki laust við að sé kominn titringur í menn og konur fyrir úrslitakeppninni - hún er jú byrjuð hér heima. Áður en við förum í úrslitakeppnina, þurfum við samt að gera upp nokkur ansi þýðingarmikil atriði.

Þar ber auðvitað hæst hvort Golden State nær að slá met Chicago Bulls frá árinu 1996 yfir flesta sigra í deildarkeppninni (72-10). Við ætlum ekki að jinxa Curry og félaga með því að fjalla um það að svo stöddu, en svo verður líka áhugavert að vita hvort Golden State eða San Antonio nær að fara í gegn um leiktíðina taplaust á heimavelli, sem er afrek sem engu liði í sögu deildarinnar hefur tekist til þessa.

Þessi leiktíð er búin að vera ein sú furðulegasta sem við höfum upplifað frá því við byrjuðum að fylgjast með NBA fyrir um það bil aldarfjórðungi síðan og það ekki bara á "góðan" furðulegan hátt. Það er vegna þess að á meðan Golden State og San Antonio eru búin að keyra í gegn um Vesturdeildina eins og Caterpillar D-11 jarðýtur fastar í botni, er megnið af hinum liðunum vestan megin (og austan megin líka, svo sem) búið að valda okkur gríðarlegum vonbrigðum.

Þið vitið að NBA Ísland talar íslensku þegar kemur að NBA deildinni og að ef við skiptum yfir í #realtalk, þá hefur þessi leiktíð einfaldlega verið léleg.

Það er fáránlegt að segja það í ljósi þess hvað t.d. Warriors-liðið er að gera, en það er því miður bara staðreynd. Þessi leiktíð er búin að vera ein sú slakasta í mörg ár og eins asnalega og það hljómar, má vel vera að það sé að stórum hluta meisturunum að kenna.

Það er til dæmis ekki eins og það sé búin að vera einhver spenna í keppninni um efsta sætið í Vesturdeildinni - og það þrátt fyrir að liðið í öðru sæti sé að bjóða upp á árangur sem hefði nægt því til að ná fyrsta sætinu á nítján af hverjum tuttugu leiktíðum. Nei, strangt til tekið er þetta bara búið að snúast um Golden State-liðið að keppa við sjálft sig í allan vetur - svo ógeðslega sterkt er það búið að vera.


Með fullri virðingu fyrir Golden State, sem á 100% skilið að hirða efsta sætið í allri deildarkeppninni, þykir okkur nauðsynlegt að benda á að ef Vesturdeildin hefði verið jafn sterk í ár og hún hefur verið síðustu tíu ár, er algjörlega útilokað að Warriors væri við það að slá met Bulls frá því fyrir 20 árum.

Það hefur hjálpað Golden State, að megnið af liðunum sem eru búin að vera frábær í vestrinu undanfarin ár, eru búin að valda miklum vonbrigðum í vetur. Þetta er bara staðreynd, en það er auðvitað ekki Warriors að kenna þó þessi lið séu búin að drulla svona á sig. Þú getur bara unnið liðin sem sett eru fyrir framan þig, eins og þið vitið.


Svona tuð segir kannski meira um okkur og okkar "glasið galtómt" viðhorf til lífs og leikja, en við erum amk hreinskilin með það. Það má vel vera að margir þarna úti séu algjörlega ósammála okkur og séu að tapa sér af gleði yfir þessari leiktíð. Við erum samt alveg viss um að mörg ykkar séu sammála okkur - að Golden State sé dálítið búið að eyðileggja þessa leiktíð.

Þetta þýðir þó ekki að körfuboltinn og mennirnir sem spila hann séu búnir að vera eitthvað lélegir, því fer fjarri, og þess vegna eigum við líka von á alveg stórkostlegri úrslitakeppni. Jú, það má vel vera að fyrsta umferðin í vestrinu verði ekki besta skemmtun í heimi, en fjögurra liða úrslit og úrslit þeim megin í landinu verða algjör rjómi.

Styrkur liðanna í austrinu er ekki sambærilegur og þó það sé ólíklegt að Cleveland fái raunverulega samkeppni þar, verður forvitnilegt að sjá hvaða lið nær að koma á óvart og ná alla leið í úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar. Þeim megin eru hlutirnir nefnilega svo jafnir að það er algjörlega ómögulegt að segja til um hvaða lið muni fara áfram í úrslitakeppninni. Við fáum að sjá nokkrar nýjar hetjur verða til í austrinu í úrslitakeppninni. Það er öruggt mál.


En eins og við sögðum, eigum við eftir að gera deildarkeppnina upp áður en við vöðum út í úrslitakeppnina. Þar munum við skrifa stutta hugleiðingu um magnaða deildarkeppni hjá Warriors, hvernig svo sem það endar allt saman, en svo eigum við líka eftir að hrauna yfir nokkur lið sem eru búin að gera sig að fífli í allan vetur.

Og talandi um að gera sig að fífli - við erum ekki undanskilin í þeim efnum. Við eigum eftir að fara yfir Vegas - undir/yfir spá okkar frá því í haust og sjá hvað við erum verstu spámenn í heimi enn eitt árið. Það er alltaf hressandi.

Við erum ekki búin að skrifa mikið að undanförnu og ástæðan fyrir því er það sem við sögðum hérna fyrir ofan. Það breytist mjög líklega í úrslitakeppninni og þið megið eiga von á góðu stöffi frá okkur bæði í skrifum og hlaðvarpi fram í júní.

Þið munið kannski eftir því að við óskuðum eftir framlögum frá áhugasömum og fjársterkum aðilum til að hjálpa okkur við rekstur síðunnar um daginn. Þegar við betluðum í lesendum í fyrra, voru viðtökurnar ljómandi góðar, en um daginn voru þær svo skelfilegar að það mátti sjá fólk fella tár á ritstjórninni. Við vorum satt best að segja hálf móðguð.

Við ætlum því að halda áfram að væla í ykkur þangað til þetta brýna erindi fær betri móttökur. Það eina sem þið þurfið að gera er að smella á gula hnappinn sem á stendur "Þitt framlag" og láta svo hugmyndaflugið ráða. Það þarf ekki mikið til að gleðja okkur, ágætu lesendur.

Útgáfupartí


Fjórði leikur Hauka og Þórs í 1. umferð úrslitakeppninnar í gærkvöldi var einn sá skemmtilegasti sem við höfum séð í vetur - þvílík hávaðaskemmtun sem hann var.

Eins og þið vitið væntanlega, lauk leiknum með sigri gestanna úr Hafnarfirði 100-96 eftir framlengingu, sem þýðir að Haukarnir eru komnir í undanúrslitin. Við viðurkennum fúslega að við dauðsjáum á eftir Þórsliðinu og það er fúlt að Natvélin og félagar séu á leiðinni til Benidorm. 

Blanda af klaufagangi og óheppni liðsins hjálpaði ekkert, en það sem gerði gæfumuninn í þessum leik var sú staðreynd að Vance Hall spilaði gjörsamlega eins og aumingi. Ef hann hefði spilað af 50% getu í þessum leik, hefði Þórsliðið náð að knýja fram oddaleik, en hann valdi slæman dag til að eiga sinn versta leik á tímabilinu og því fór sem fór. Maðurinn hlýtur bara að hafa verið fárveikur. Ekkert annað afsakar þessa arfaslöku frammistöðu hjá þessum annars magnaða leikmanni.

Það sem stendur upp úr í þessum leik kemur Þórsliðinu hinsvegar ekkert við, því hann var að okkar mati útgáfupartí Kára Jónssonar. Drengurinn fór hamförum og kláraði leikinn fyrir Kanalausa Hafnfirðingana. Það er nákvæmlega ekkert eðlilegt við það að drengur sem er ekki búinn að eyða fermingarpeningunum sínum taki bara yfir leik í úrslitakeppni með þessum hætti, en hann gerði það nú samt. Þvílíkur töffari sem þessi drengur er.

Vonsviknir bolir


Þvílík vonbrigði sem það hljóta að hafa verið fyrir þennan hressa Þjóðverja, þegar ESPN-penninn Royce Young í Oklahoma sagði honum að uppáhalds leikmaðurinn hans Kevin Durant yrði ekki með liðinu í nótt - hann yrði hvíldur.

Það er ömurlegt að heyra af svona, þegar fólk leggur á sig löng ferðalög og borgar stórfé til að sjá stjörnurnar sínar í NBA deildinni - en fer vonsvikið heim af því leikmennirnir sem fá borgað fyrir að spila, eru hvíldir.

Við vonum að þetta hafi ekki komið fyrir neinn af lesendum NBA Ísland, en við erum með nokkuð skothelt ráð við þessu leiðinlega vandamáli. Ekki vera kjáni og melda þig á leik á þessum árstíma. Þá ertu að biðja um að lenda í svona bulli. Farðu á leik fyrr á tímabilinu en ekki á lokasprettinum þegar liðin eru að hvíla leikmenn, eða þeir að "meiðast" í tíma og ótíma. Nú eða reddaðu þér miða á leik í úrslitakeppninni, ef þú átt banka.

Wednesday, March 23, 2016

Tuesday, March 22, 2016

Friday, March 18, 2016

Liðið í skugganum er líka að slá met - mörg met



Það fór ekki mikið fyrir sigri San Antonio á Portland í NBA deildinni okkar fallegu í gærkvöldi, en hann var svo sannarlega merkilegur. Sigur Spurs þýddi nefnilega að nú er San Antonio komið með "jákvætt" vinningshlutfall - yfir 50% - gegn ÖLLUM liðunum í NBA deildinni í sögulegu samhengi.

San Antonio varð hluti af NBA deildinni árið 1976 eftir að hafa heitið öllum illum nöfnum í ABA-deildinni sálugu, þar sem það hafði líka aðsetur hér og þar í Texas frá stofnun klúbbsins árið 1967. Það er dálítið skondið að félagið hafi verið stofnað árið 1976, því það er einmitt fæðingarár sigursælasta og besta leikmanns í sögu þess - Tim Duncan.

Duncan þessi verður fertugur í næsta mánuði og er búinn að bera liðið á herðum sér lengst af síðan San Antonio tók hann í nýliðavalinu árið 1997.

Það er auðvitað með ólíkindum að lítið félag eins og San Antonio - en ekki klúbbar eins og Lakers eða Celtics - skuli afreka það að vera með 50+ prósent vinningshlutfall gegn öllum hinum liðunum í deildinni.

Þetta ber fyrst og fremst vott um ótrúlega sigurhefð Gregg Popovich þjálfara, Tim Duncan og aukaleikara hans í gegn um árin, þar sem menn eins og Tony Parker og Manu Ginobili eru vitanlega efstir á blaði.

San Antonio er búið að fara hamförum í deildarkeppninni í vetur og er með 58 sigra og aðeins tíu töp, sem er árangur sem aðeins fimm lið í sögunni hafa státað af eftir 68 leiki.

Þessi frábæri árangur fellur gjörsamlega í skuggann af sögulegu gengi Golden State (61-6) í vetur, enda er Oakland-liðið að hóta því að slá met Chicago Bulls frá árinu 1996 yfir bestu deildarkeppni allra tíma, þegar Jordan og félagar unnu 72 leiki og töpuðu aðeins tíu.

Þetta eru ekki einu rósirnar í hnappagati Texas-klúbbsins. Liðið hefur þannig komist í úrslitakeppnina 19 ár í röð og er búið að vinna 50+ leiki 17 ár í röð, en svo er það líka taplaust á heimavelli í vetur - eins og Golden State.

Það er því hætt við því að eitthvað verði undan að láta á næstu vikum, því Spurs og Warriors eiga eftir að mætast þrisvar sinnum í viðbót áður en yfir lýkur.

Fyrsta viðureignin af þessum þremur fer fram í San Antonio núna á laugardagskvöldið (19. mars) og þar eiga Spursarar harma að hefna, því Warriors-liðið valtaði yfir það í fyrstu viðureign liðanna á árinu.

Það sem er svo allra sérstakast við rimmu Spurs og Warriors á laugardagskvöldið er að sjálfir meistararnir í Golden State hafa ekki unnið deildarleik í San Antonio síðan árið 1997 - ÁÐUR EN Tim Duncan gekk í raðir Spurs það ár. Sigur Warriors þetta ár kom þann 14. febrúar, þegar Stephen Curry var átta ára gamall. Þetta, er náttúrulega alveg eðlilegt.

San Antonio er búið að vinna 43 leiki í röð á heimavelli, sem er þriðja lengsta rispa síns eðlis í sögunni á eftir 44 leikjum Chicago leiktíðina 1995-96 og svo Golden State núna, sem er búið að vinna 50 heimaleiki í röð.

Chicago á metið yfir flesta heimasigra í röð í upphafi leiktíðar, en það var 37 í röð á áðurnefndu tímabili, en San Antonio er komið með 34 í röð í vetur og Golden State hefur unnið 32 fyrstu heimaleikina sína á leiktíðinni.

Engu liði hefur tekist að fara taplaust á heimavelli í gegn um heila leiktíð, þó Boston hafi verið nálægt því um miðjan níunda áratuginn, þegar það tapaði aðeins einu sinni á heimavelli eitt árið.

Þó langt sé í land og þessi ógnarsterku lið eigi mjög erfiða leiki eftir, þyrfti það sannarlega ekki að koma á óvart þó að minnsta kosti eitthvað af áðurnefndum metum ættu eftir að falla. Þessi vetur sem við erum að fá að fylgjast með núna, er einfaldlega það sérstakur.

Það þarf enga sérfræðinga í körfubolta til að sjá að þeir Tim Duncan, Manu Ginobili og Tony Parker eru allir farnir að hægja verulega á sér, enda komnir með ansi margar mílur á lappirnar á sér eftir að hafa spilað 100+ leiki með félagsliði sínu ár eftir ár - svo áratugum skiptir á ferlinum.

Svona óguðlegt álag bæði telur og tekur á skrokkinn. Spyrjið bara menn eins og Kobe Bryant.

En alltaf skulu þeir malla áfram þessir menn. Spurs-arar hafa fengið ljómandi fína hjálp í yngri stjörnuleikmönnum eins og Kawhi Leonard og LaMarcus Aldridge í vetur, en í okkar huga kemst liðið ekki nema ákveðið langt á þessum tveimur nýgræðingum í Spurs-vélinni.

Ef San Antonio á að komast í úrslitaeinvígið enn eitt árið, þarf það að hafa alla sína menn 100% heila og líklega að fá framlag frá mönnum sem eiga einfaldlega að vera orðnir of gamlir og lúnir til að veita það.

En við skulum gæta þess að afskrifa þessa snillinga, sem mynda eitt sigursælasta lið í sögu deildarkeppni NBA deildarinnar. Það gæti leynst eitthvað smá spúnk í þeim gömlu enn. Kannski einn sprettur enn (með Tim Duncan standandi í lappirnar).

Og eins og við segjum í hvert sinn sem þetta lið ber á góma: Ekki myndum við gráta það þó þetta lið tæki eina dollu til. Virðing okkar fyrir þessum klúbbi er nær takmarkalaus.

Hérna fyrir neðan getur þú svo skoðað þetta sem við sögðum ykkur frá í upphafi pistilsins: samantekt tölfræðideildar NBA punktur komm yfir árangur San Antonio gegn öllum hinum liðunum í NBA deildinni frá upphafi. Þetta er ekkert til að henda í ruslið, svo mikið er víst.


Þetta er í nótt



Monday, March 14, 2016

Oklahoma er í bullandi vandræðum


Við urðum að segja eitthvað. Ekki getum við þagað yfir þessu. Yfir áhyggjum okkar af Oklahoma-liðinu okkar. Við erum búin að tuða um það bitur og hás í allan vetur að Oklahoma sé ekki meistaraefni af hinum og þessum ástæðum, en viðurkennum að hafa í leiðinni verið að reyna að jinxa liðið inn á sigurbraut.

Við héldum að Oklahoma yrði að gera nákvæmlega þessa hluti sem San Antonio er að gera í vetur. Ekki svona geimverustöff eins og Golden State, en samt, vinna um það bil átta af hverjum tíu leikjum sínum. Það var allt í spilunum. Loksins voru allir heilir og það var kominn nýr þjálfari, sem átti að blása lífi í þetta og tryggja að nú yrði Oklahoma hættulegasti andstæðingur Golden State í deildar- og úrslitakeppni.

Einmitt.

Sem betur fer misstum við af því þegar Oklahoma drullaði á sig með því að tapa fyrir Minnesota á föstudagskvöldið, því hefðum örugglega brotið eitthvað ef við hefðum orðið vitni að því.

Okkur datt ekki í hug að brjóta eitt eða neitt þegar við sáum OKC tapa fyrir San Antonio kvöldið eftir. Það var ekkert í spilunum að Spurs ætti eftir að tapa þeim leik.

Við ákváðum því að gera tölfræðilega úttekt á því hvað væri að og hvað væri ekki að hjá Oklahoma. Svona af því okkur stendur ekki á sama. Og niðurstaðan úr þeim skítmokstri?

Hún er sú að þeir Russell Westbrook og Kevin Durant eru helvíti góðir í körfubolta og spila oftast vel, þó þeir séu báðir búnir að gera sig seka um alls konar klaufagang að undanförnu.

Sá fyrrnefndi átti til að mynda mjög stóran þátt í því að liðið tapaði fyrir San Antonio. Westbrook var mestmegnis hræðilegur í þeim leik.

Það særir okkur inn að dýpstu hjartarótum að skrifa þetta, en Russ var bara hræðilegur á laugardagskvöldið. Hitti ekki neitt, kastaði boltanum frá sér oftar en góðu hófi gegnir og tók nokkrar varnarstöður sem James Harden hefði skammað hann fyrir.

En eins og við segjum. Þeir Durant og Westbrook spila samt oftast vel og því þurfum við að leita eitthvað annað en til þeirra til að finna hvað er að Oklahoma-liðinu. Og vitið þið hvað? Það er ALLT annað að hjá þeim. ALLT!

Serge Ibaka á nokkrar rispur, Enes Kanter tekur nokkrar rispur, en ALLT annað er handónýtt hjá Oklahoma. Það er kannski ósanngjarnt að ætlast til þess að Billy Donovan búi til ofurlið úr Oklahoma eftir 60 leiki, en okkur er fjandans sama.

Hann hefur einfaldlega fallið illa á prófinu það sem af er í vetur og það hræðilega við það er að hann er ekki einu sinni með aðstoðarmenn. Tveir helstu aðstoðarmenn hans eru fjarri góðu gamni. Annar af því hann þurfti í aðgerð sem kostar að hann verði lengi frá og hinn verður ekki meira með í vetur af því Guð hatar hann.

Og eigum við eitthvað að telja upp þessa svokölluðu aukaleikara hjá Oklahoma? Við missum allan vilja til að lifa við það eitt að heyra einhvern nefna þá Dion Waiters og Kyle Singler á nafn. Þeir geta EKKERT í körfubolta og það hræðilega er, að Billy Donovan er ekki að fatta það.

Hann heldur í raun og veru að það sé bara allt í lagi að senda þá inn á körfuboltavöll og ætlast til þess að þeir geri eitthvað til að hjálpa liðinu að vinna.

Durant og Westbrook spila fjórir á fimm þegar annað hvort Waiters eða Singler er inni á vellinum og því þrír á fimm ef þeir eru báðir inná. Þetta er ekkert grín.

Rúsínan í afturendanum er svo varnarleikur liðsins, sem er gjörsamlega afleitur í níu af hverjum tíu leikjum. Hann var þokkalegur í leikjunum á móti Golden State um daginn og lengst af þokkalegur á móti Spurs um helgina, en það verður líka að taka það með í reikninginn að Oklahoma átti mjög lítinn þátt í því að San Antonio hitti ekki úr nema þremur af þrjátíuogníuþúsund þriggja stiga skotum sínum í leiknum - sem er mjög sjaldgæft.

Til að súmmera þetta upp, er Oklahoma sem sagt með gallað byrjunarlið, gjörsamlega vanhæfan varamannabekk, nennir ekki og kann ekki að spila vörn, er með vanhæfan aðalþjálfara og enga aðstoðarþjálfara.

Þetta er ekkert spes. Ekkert veganesti inn í úrslitakeppni sem byrjar eftir örfáar vikur.

Ekki beint meistaraefni hér á ferðinni.

Ef Clippers-liðið væri ekki að springa á limminu í fjarveru Blake Griffin þessa dagana (50% vinningshlutfall í mars) og með erfiða leiki handan við hornið, myndi Oklahoma missa þriðja sætið í Vesturdeildinni í hendur Clippers.

Og það er alls ekki útilokað að það gerist, þó útlitið virki frekar dökkt hjá Clippers núna.

Við skulum bara segja að ef Griffin fer að drullast aftur í vinnuna og Oklahoma heldur áfram að spila eitthvað í líkingu við það sem það hefur gert frá því í Stjörnuleiknum, er Clippers að fara að hirða þetta sæti af þeim.

Og þið vitið hvað fjórða sæti í vestrinu þýðir. Það þýðir Golden State í annari umferð - ef þú kemst þangað á annað borð.

Oklahoma er 4-8 síðan um Stjörnuleikshelgina í síðasta mánuði, sem á ekki að vera fræðilega hægt. Öll lið eiga sína slæmu daga og erfiðu kafla, NBA deildin er svo grimm að það er óhjákvæmilegt, en að lið með svona mannskap og þetta trakk-rekkord skuli vera að tapa átta af tólf er gjörsasmlega óafsakanlegt og ekkert annað en hálfvitagangur og metnaðarleysi!

Já, við erum bókstaflega sár yfir þessu, þetta er svo lélegt.

Þessi vandræðagangur á Oklahoma er eins og fundinn fjársjóður fyrir fjölmiðla eins og ESPN, sem fá nú átyllu til að skrifa um það hvernig "nú sé Kevin Durant allt nema farinn frá Oklahoma" af því liðið er svo lélegt.

Honum detti ekki í hug að framlengja samning sinn við lið sem tapar átta af tólf. Svona hugsa þessir vitleysingar. Að maður hendi bílnum sínum á ruslahaugana og kaupi sér nýjan af því það var orðið lítið bensín eftir á þeim gamla.

Þið vitið að við hugsum ekki svona og að við vildum óska þess alveg jafn heitt og þið að Kevin Durant væri kominn með nýjan samning svo þetta andskotans skrum í kring um hann hætti, en þetta er víst ekki svo gott.

Svo það komi fram, viljum við umfram allt að Durant framlengi bara við sitt félag og haldi áfram að einbeita sér að því að spila körfubolta, því það eru afar litlar líkur á því að hann geti fundið sér álitlegri pakka hjá einhverju öðru félagi.

Jú, jú, Oklahoma er krummaskuð og sveitabær sem er álíka spennandi og Bergman-mynd, en þar hefur hann allt til alls - eða svo gott sem.

Kannski er hann samt orðinn leiður á því að standa í slagnum í Oklahoma og kannski verður hann þunglyndur þegar liðið fellur úr leik fyrir San Antonio í annari umferð úrslitakeppninnar. Hver veit.

En hvað svo sem verður með þessi blessuðu samningamál hans í framtíðinni, er alveg ljóst að mál málanna akkúrat núna er að rétta liðið sem hann spilar með í dag við hið snarasta af því það er að fara á hliðina.

Og við erum búin að sjá alveg nógu mörg lið fara á hliðina í vetur, svo eitt af toppliðunum fari ekki að gera það líka.

Friday, March 11, 2016

Stjarnan hirti annað sætið (myndir)


Það var gaman að horfa á Stjörnuna og Keflavík berjast um annað sætið í Domino´s deild karla í gærkvöldi. Leikurinn var ekki fallegur á að horfa, en gott ef hann var ekki besta mögulega upphitun liðanna fyrir úrslitakeppnina. Slík voru átökin - og það eðlilega - um hvort liðið gæti frestað því lengur að mæta KR í úrslitakeppninni.

Keflavíkurliðið hefur aðeins verið að gefa eftir undanfarið og við vitum að margir kenna Kanamálum liðsins um - að það hefði aldrei átt að skipta um Kana. Við kaupum ekki að það sé öll sagan á bak við vandræði Keflavíkur, en það er auðvitað rosalega þægilegt að benda á þetta. Kenna bara Jerome Hill um þetta allt saman. Við ætlum nú ekki að gera það, en það er ljóst að Kef þarf að rífa sig vel upp fyrir einvígið við Tindastól, annars er ekki langt eftir af leiktíðinni hjá þeim.

Hérna eru annars nokkrar myndir úr Ásgarði í kvöld:








Wednesday, March 2, 2016

Nýtt hlaðvarp


Stephen Curry er mál málanna í körfuboltaheiminum í dag og einkasýning hans í sigri Golden State á Oklahoma í einum besta deildarleik í sögu NBA á laugardaginn, hefur vakið heimsathygli. Þegar svona mikið gengur á, er gott að fá innlegg frá fagmönnum í umræðuna og því sló Baldur á þráðinn til Friðriks Inga Rúnarssonar þjálfara Njarðvíkur og fékk hann til að deila með okkur skoðunum sínum á Curry og Warriors-liðinu.

Svo skemmtilega vill til að Friðrik er góður vinur Bob McKillop þjálfara Davidson-háskólans sem Stephen Curry lék með á sínum tíma og því er enn áhugaverðara að heyra hvað Njarðvíkurþjálfarinn hefur um Curry að segja.

Þeir Baldur og Friðrik ræða svo margt fleira í þættinum eins og til dæmis Billy Donovan þjálfara Oklahoma, þjálfaramálin hjá Cleveland, hvaða lið eru líklegust til að veita Warriors keppni í úrslitakeppninni og koma m.a.s. aðeins inn á stöðu mála hjá Philadelphia 76ers.

Þið getið hlustað á þáttinn í spilaranum hér fyrir neðan eða farið inn á hlaðvarpssíðuna og sótt hann þar til að setja hann inn á spilarann. Njótið vel, kæru lesendur/hlustendur.