Friday, March 18, 2016

Liðið í skugganum er líka að slá met - mörg metÞað fór ekki mikið fyrir sigri San Antonio á Portland í NBA deildinni okkar fallegu í gærkvöldi, en hann var svo sannarlega merkilegur. Sigur Spurs þýddi nefnilega að nú er San Antonio komið með "jákvætt" vinningshlutfall - yfir 50% - gegn ÖLLUM liðunum í NBA deildinni í sögulegu samhengi.

San Antonio varð hluti af NBA deildinni árið 1976 eftir að hafa heitið öllum illum nöfnum í ABA-deildinni sálugu, þar sem það hafði líka aðsetur hér og þar í Texas frá stofnun klúbbsins árið 1967. Það er dálítið skondið að félagið hafi verið stofnað árið 1976, því það er einmitt fæðingarár sigursælasta og besta leikmanns í sögu þess - Tim Duncan.

Duncan þessi verður fertugur í næsta mánuði og er búinn að bera liðið á herðum sér lengst af síðan San Antonio tók hann í nýliðavalinu árið 1997.

Það er auðvitað með ólíkindum að lítið félag eins og San Antonio - en ekki klúbbar eins og Lakers eða Celtics - skuli afreka það að vera með 50+ prósent vinningshlutfall gegn öllum hinum liðunum í deildinni.

Þetta ber fyrst og fremst vott um ótrúlega sigurhefð Gregg Popovich þjálfara, Tim Duncan og aukaleikara hans í gegn um árin, þar sem menn eins og Tony Parker og Manu Ginobili eru vitanlega efstir á blaði.

San Antonio er búið að fara hamförum í deildarkeppninni í vetur og er með 58 sigra og aðeins tíu töp, sem er árangur sem aðeins fimm lið í sögunni hafa státað af eftir 68 leiki.

Þessi frábæri árangur fellur gjörsamlega í skuggann af sögulegu gengi Golden State (61-6) í vetur, enda er Oakland-liðið að hóta því að slá met Chicago Bulls frá árinu 1996 yfir bestu deildarkeppni allra tíma, þegar Jordan og félagar unnu 72 leiki og töpuðu aðeins tíu.

Þetta eru ekki einu rósirnar í hnappagati Texas-klúbbsins. Liðið hefur þannig komist í úrslitakeppnina 19 ár í röð og er búið að vinna 50+ leiki 17 ár í röð, en svo er það líka taplaust á heimavelli í vetur - eins og Golden State.

Það er því hætt við því að eitthvað verði undan að láta á næstu vikum, því Spurs og Warriors eiga eftir að mætast þrisvar sinnum í viðbót áður en yfir lýkur.

Fyrsta viðureignin af þessum þremur fer fram í San Antonio núna á laugardagskvöldið (19. mars) og þar eiga Spursarar harma að hefna, því Warriors-liðið valtaði yfir það í fyrstu viðureign liðanna á árinu.

Það sem er svo allra sérstakast við rimmu Spurs og Warriors á laugardagskvöldið er að sjálfir meistararnir í Golden State hafa ekki unnið deildarleik í San Antonio síðan árið 1997 - ÁÐUR EN Tim Duncan gekk í raðir Spurs það ár. Sigur Warriors þetta ár kom þann 14. febrúar, þegar Stephen Curry var átta ára gamall. Þetta, er náttúrulega alveg eðlilegt.

San Antonio er búið að vinna 43 leiki í röð á heimavelli, sem er þriðja lengsta rispa síns eðlis í sögunni á eftir 44 leikjum Chicago leiktíðina 1995-96 og svo Golden State núna, sem er búið að vinna 50 heimaleiki í röð.

Chicago á metið yfir flesta heimasigra í röð í upphafi leiktíðar, en það var 37 í röð á áðurnefndu tímabili, en San Antonio er komið með 34 í röð í vetur og Golden State hefur unnið 32 fyrstu heimaleikina sína á leiktíðinni.

Engu liði hefur tekist að fara taplaust á heimavelli í gegn um heila leiktíð, þó Boston hafi verið nálægt því um miðjan níunda áratuginn, þegar það tapaði aðeins einu sinni á heimavelli eitt árið.

Þó langt sé í land og þessi ógnarsterku lið eigi mjög erfiða leiki eftir, þyrfti það sannarlega ekki að koma á óvart þó að minnsta kosti eitthvað af áðurnefndum metum ættu eftir að falla. Þessi vetur sem við erum að fá að fylgjast með núna, er einfaldlega það sérstakur.

Það þarf enga sérfræðinga í körfubolta til að sjá að þeir Tim Duncan, Manu Ginobili og Tony Parker eru allir farnir að hægja verulega á sér, enda komnir með ansi margar mílur á lappirnar á sér eftir að hafa spilað 100+ leiki með félagsliði sínu ár eftir ár - svo áratugum skiptir á ferlinum.

Svona óguðlegt álag bæði telur og tekur á skrokkinn. Spyrjið bara menn eins og Kobe Bryant.

En alltaf skulu þeir malla áfram þessir menn. Spurs-arar hafa fengið ljómandi fína hjálp í yngri stjörnuleikmönnum eins og Kawhi Leonard og LaMarcus Aldridge í vetur, en í okkar huga kemst liðið ekki nema ákveðið langt á þessum tveimur nýgræðingum í Spurs-vélinni.

Ef San Antonio á að komast í úrslitaeinvígið enn eitt árið, þarf það að hafa alla sína menn 100% heila og líklega að fá framlag frá mönnum sem eiga einfaldlega að vera orðnir of gamlir og lúnir til að veita það.

En við skulum gæta þess að afskrifa þessa snillinga, sem mynda eitt sigursælasta lið í sögu deildarkeppni NBA deildarinnar. Það gæti leynst eitthvað smá spúnk í þeim gömlu enn. Kannski einn sprettur enn (með Tim Duncan standandi í lappirnar).

Og eins og við segjum í hvert sinn sem þetta lið ber á góma: Ekki myndum við gráta það þó þetta lið tæki eina dollu til. Virðing okkar fyrir þessum klúbbi er nær takmarkalaus.

Hérna fyrir neðan getur þú svo skoðað þetta sem við sögðum ykkur frá í upphafi pistilsins: samantekt tölfræðideildar NBA punktur komm yfir árangur San Antonio gegn öllum hinum liðunum í NBA deildinni frá upphafi. Þetta er ekkert til að henda í ruslið, svo mikið er víst.