Friday, June 1, 2018

Meira svona, strákar!


Þetta var nú meiri vitleysan þarna í nótt...

Þvílíkur hvalreki fyrir fjölmiðlana, leikur eitt í lokaúrslitunum í ár.

Hvalreki fyrir fjölmiðlamennina. Þessa lötu - klárlega. Þessa sem hafa ekkert vit á leiknum, þessa sem hafa engan áhuga á leiknum - tékk, tékk. Og ekki gleyma þessum sem eru bara í þessu fyrir klikkbeituna og senseisjónalismann. Ekki leiddist þeim þetta.

Ofangreindar (en ekkert endilega mjög greindar) manngerðir mynda sorglega stóran hluta fjölmiðlafólks þarna úti. Og það má deila um það hvort við erum eitthvað skárri með því að opna hugleiðingu um fyrsta leik lokaúrslitanna á svona skítkasti en ekki umræðu um körfubolta. Leiðinlegt, en svona er þetta bara.

(Vertu samt ekkert að lesa lengra ef þér er illa við samhengislaust rant í allar áttir, sem byrjar sem körfubotamas en þróast svo fljótlega út í fordæmingar á barnaefni með vafasaman boðskap svo eitthvað sé nefnt. Þið vitið hvernig hlutirnir ganga fyrir sig á þessu vefsvæði. Takið það og margfaldið það með þrjátíu - og þá fáið þið út vitleysuna sem flæðir í gegn um þessa færslu. Við berum enga ábyrgð á þessu. Þið hafið verið vöruð við

Annað var það, jú. Þessi aurskriða af hugleiðingu varð svo andskoti löng að við hvorki nennum né höfum tíma til að lesa yfir hana, svo farið umfram allt ekki að grenja þó hún sé full af bulli og villum. Við erum að reyna að starta okkur í gang aftur. Sýnið okkur umburðalyndi. Nú eða... fokkoff. Þetta er frítt efni. Lol).




Það kemur okkur sjálfum reyndar frekar á óvart að það fyrsta sem kemur niður á blað hjá okkur eftir þennan leik sé að byrja að hrauna yfir fjölmiðlana, sem flestir einbeittu sér að JR Smith og því að "hann hefði klúðrað leiknum" fyrir Cleveland. Einhvern tímann hefðum við tekið í sama streng, því eins og þið hafið kannski tekið eftir, er JR Smith í litlu uppáhaldi hjá okkur og hefur aldrei verið.

Það var jú þessi ritstjórn sem fullyrti það á sínum tíma að Cleveland yrði aldrei NBA meistari með menn eins og JR Smith í lykilstöðum. Seinna fengum við það jú í andlitið, en við kusum reyndar að snúa því þannig að sú staðreynd að LeBron James næði að leiða Cleveland til sigurs 2016 þrátt fyrir að vera með JR Smith í liðinu, væri trúlega eitt af hans allra fræknustu afrekum.

Nei, við gætum vissulega hraunað yfir JR eins og allir hinir, en við nennum því ekki. JR Smith er, hefur alltaf verið og verður alltaf, vitleysingur. Og það vita allir leikmenn og þjálfarar Cavs. Þeir vita að þeir geta átt von á svona bulli. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem JR Smith hagar sér eins og hálfviti undir lok leiks af því hann hefur ekki andlega burði eða greind til að átta sig á því hver staðan er.



Það er eitt að gera svona fáránleg mistök þegar þú ert að spila með rusli eins og New York, en að flaska á þessu í lokaúrslitum... Það er bara svo dæmigert fyrir Smith að okkur finnst það hvorki sorglegt né fyndið. Þetta er bara dæmigerður JR. Sjáið bara viðbrögð hans á vellinum annars vegar og á blaðamannafundinum hinsvegar.

JR Smith vissi ekkert hvað hann var að gera þegar hann hljóp eins og fáviti út í loftið í stað þess að skora sigurkörfuna í leiknum. Hann vissi ekki hver staðan var í leiknum, en hann vissi heldur ekki hvort hann var að koma eða fara. JR Smith veit sjaldnast hvort hann er að koma eða fara yfir höfuð, svo líkurnar á því að hann átti sig eitthvað á því hvað hann er að gera þegar pressan er svona mikil eru hverfandi.

Ef nákvæmlega sama staða kæmi upp í leik tvö, myndum við setja peninginn á það að Smith myndi skjóta - og það áður en tíminn rynni út - og hann gæti meira að segja hitt, af því færið væri ómögulegt og JR Smith er manna duglegastur við að taka ómöguleg skot, því honum þykja þau skemmtilegri en skólabókarskot.

Eini gallinn við þessi tilþrif hans yrði auðvitað að hann væri að skjóta á vitlausa körfu.

Ef þér finnst þetta út í hött, hefurðu ekki horft á JR Smith spila körfubolta lengi. Við trúum honum 100% til að verða fyrsti maðurinn í sögu NBA til að tryggja andstæðingum sínum sigur í leik með því að skora sjálfsflautukörfu langleiðina frá miðju.

En, svona án gríns, hefurðu séð þetta frá sjónarhorninu hérna fyrir neðan?

LeBron hefði getað hellt sér upp á kaffi áður en hann tæki skotið. Hann er bókstaflega einmanna þarna úti. En óheppilegt, eh?



Það er bara einn maður þarna úti sem er þakklátur fyrir það hvað JR Smith er mikill vitleysingur. Þú áttar þig eflaust á því hver það er. Það er jú maðurinn sem væri miklu nær að kenna um þetta. Maðurinn sem brenndi af vítinu sem mögulega hefði getað tryggt Cleveland sigur í leik eitt, maður að nafni George Hill.

Við misstum hökuna hálfa leið í gólfið þegar Hill hitti úr fyrra vítinu, því svipurinn á honum þegar hann steig á vítalínuna var ekki eins og á klaufdýri sem er að verða fyrir bíl, heldur meira eins og á manni sem er kastað ofan í gryfju fulla af glorsoltnum ljónum.



Svo voru þarna alls konar atvik sem settu dómgæsluna í sviðsljósið og sitt sýndist hverjum um það eins og alltaf. Við komum ekki nálægt því. Höfum hvorki þekkingu né áhuga á því að taka umræðu um frábæran körfuboltaleik og snúa henni upp í eitthvað helvítis væl um dómgæslu, eða stóradóm um breinfört eða mannleg mistök.

Tölum um körfubolta.

Munið þið hvað Golden State átti að taka þetta auðveldlega? Við höfum aðeins séð tvær útgáfur af spám fyrir þetta einvígi. Annað hvort 4-0 eða 4-1 fyrir Golden State. Ekkert annað í boði. Eðlilega.



Þetta var bara spurning hvort Warriors næðu að gera betur en í fyrra og sópa - eða hvort þeir myndu tapa einum leik, sem yrði þá annað hvort af því þeir yrðu of kærulausir til að sópa eða vegna þess að ofurmennska LeBron James yrði þeim ofviða í einum leiknum.

Þótti okkur þessar spár úti í hött? Alls ekki. Við kvittuðum undir þetta. Fyrir og eftir leik eitt, erum við á sömu skoðun - að þetta klárist í fjórum eða fimm leikjum. Það er okkar skoðun, vegna þess að Golden State er svo mikið betra lið en Cleveland, að það á ekki að vera stærðfræðilegur möguleiki að það taki Vesturdeildarklúbbinn meira en fimm leiki að afgreiða málið.



Rökin þar að baki áætla að úr því miklu betra Cleveland lið með Kyrie Irving innanborðs, náði bara að vinna Golden State einu sinni í fyrra. Og þar sem áður var Kyrie Irving í Cleveland, eru nú Jordan Clarkson og Jeff Green (hnnnngh!)