Showing posts with label Dramatík. Show all posts
Showing posts with label Dramatík. Show all posts

Friday, June 17, 2016

Hömlulaus LeBron - Oddaleikur í úrslitunum


Ætli sé ekki best að byrja á smá tölfræði á meðan við náum okkur niður eftir þetta rugl þarna í Cleveland í nótt. Þá eigum við sérstaklega við tölfræði LeBron James, sem virðist vera að taka því mjög illa að hafa lent undir 3-1 og vera því á góðir leið með að tapa enn einu lokaúrslitaeinvíginu sínu á ferlinum.

Cleveland er allt í einu búið að jafna metin í einvíginu við Golden State og það er ekki síst að þakka téðum LeBron James, sem er búinn að spila á guðs vegum í síðustu tveimur leikjum. Þar hefur hann boðið upp á 41 stig, 12 fráköst, 9 stoðsendingar, 3,5 stolna bolta, 3 varin skot, þrjá tapaða bolta að meðaltali í leik og +39 í plús/mínus tölfræðinni. Einmitt.



James er skráður með 188 "snertingar" í þessum tveimur leikjum skv. heimasíðu NBA deildarinnar, sem þýðir að hann er meira með boltann en nokkur annar maður í einvíginu og því er með öllum ólíkindum að maðurinn sé aðeins búinn að missa boltann þrisvar sinnum. Við erum að tala um þrjá tapaða bolta á 86 leikmínútum.

Ofan á þetta hefur Golden State skotið 2 af 10 undir körfunni þegar hann er á svæðinu í leikjunum tveimur og einhver tölfræði sagði að Warriors-menn sem James var að dekka í leiknum í nótt, hefðu skotið 0 af 7 utan af velli.

Er þetta ekki nóg, spyrðu!?!

Einmitt.



Á lykilkafla í síðari hálfleik í nótt, skoraði Cleveland 27 stig í röð þar sem James annað hvort skoraði sjálfur eða eða átti stoðsendingu. Hann skoraði 17 stig í fjórða leikhlutanum einum saman (6 af 9 í skotum) og gaf auk þess fjórar stoðsendingar.

LeBron kom að 70 stigum Cleveland í leiknum með beinum eða óbeinum hætti og þó það muni miklu fyrir hann að langskotin hans séu farin að detta, er það sú staðreynd að hann er aftur farinn að skjóta 65% í teignum sem segir okkur að hann sé mættur í slaginn á ný - og rúmlega það.



Hann er sem sagt með 30 stig, 11,3 fráköst, 8,5 stoðsendingar, 2,7 stolna bolta, 2,2 varin skot, 51% skotnýtingu, 40% 3ja stiga nýtingu og +22 í plús/mínus í leikjunum sex í lokaúrslitunum. Þú vissir væntanlega líka að hann er efstur í öllum tölfræðiþáttum í báðum liðum í einvíginu. Hann er reyndar með jafnmörg fráköst og Tristan Thompson, en þú fattar þetta.

Trúlega væri hægt að halda áfram með þetta rugl, en þið eruð örugglega farin að ná því hvað við erum að fara hérna; Það er engu líkara en að LeBron James sé góður í körfubolta. Við sjáum mynd:



Úrslitaeinvígið okkar í ár hefur nú vaknað til lífsins og sprungið út með tilþrifum. Það reyndist forljótur andarungi sem fáir vildu sjá í stöðunni 2-0 og 3-1 fyrir Golden State. Nú er svo komið að meistararnir, sem komu til baka eftir að hafa lent undir 3-1 gegn Oklahoma í síðasta mánuði, eru nú sjálfir búnir að klúðra þessu og missa seríuna í jafntefli.

Þvílíkt einvígi!



Það góða við að vera með frjálsan og óháðan miðil eins og NBA Ísland er að við getum rekið á honum hvaða ábyrgðarlausa áróður sem okkur sýnist án þess að hlusta á kóng eða prest og nú ætlum við að nýta þennan vettvang til að leggja fram boðskap sem á erindi til allra körfuboltakera á landinu.

Þið hafið öll séð hvað narratífið í kring um lið og leikmenn í NBA deildinni eru svakalega fljótt að breytast. Það er að segja hvaða stefnu menn taka þegar þeir fjalla um t.d. úrslitaeinvígið í NBA. Hvernig menn ákveða að segja frá hlutunum - hvað þeir leggja áherslu á og hvað ekki.



Enginn leikmaður í nútímasögu NBA deildarinnar fengið jafn sveiflukennda og dramatíska umfjöllun og LeBron James og það er magnað að horfa upp á það að hann skuli enn vera fær um að breyta narratífinu í kring um sig með handafli. Margir hafa reynt það, en fáum tekst það.

Íslendingur nokkur er einmitt að reyna þetta, gnístandi tönnum af gremju. Hann reynir að skrifa söguna sína sjálfur eftir eigin höfði á hverjum degi en þó nokkrir afskaplega illa gefnir einstaklingar trúi öllu sem hann segir, breytir það engu um það að þetta er ekki raunveruleg saga, heldur átakanlegt bull og lygar örvæntingarfulls manns sem nær aldrei að þurrka mistökin sín út úr sögubókunum, sama hvað hann klórar og grenjar.



Lokaúrslitin 2016 áttu að vera úrslit Warriors-liðsins og leikmanns ársins, Stephen Curry. En á einhverjum pungsparks og kjaftbrúks tímapunkti í þessu einvígi, ákvað LeBron James að taka stílabækurnar sem sagnfræðingar eru búnir að vera að skrifa í í allan vetur og rífa þær í tætlur.

Nota bene, James er ekki búinn að skrifa lokakaflann, hann verður ekki skrifaður fyrr en á sunnudagskvöldið og það er lokakaflinn sem ræður úrslitum í þessu magnaða einvígi. En það sem við viljum árétta sérstaklega hér, er hvað er búið að gerast í síðustu tveimur leikjum.



Það sem gerðist, er að LeBron James tók eitt stykki lokaúrslitaeinvígi í NBA deildinni og barði það í andlitið með með felgulykli. Hann tók sögu sem var nánast alveg búið að skrifa, reif hana í tætlur, eyðilagði hana og er að semja sína eigin. Það vantar bara lokakaflann. En athugaðu að hvernig sem lokakaflinn fer - hver það verður sem skrifar hann, verður LeBron búinn að breyta þessari sögu varanlega og hann þarf að fá sitt hrós fyrir það.

Afar fáir körfuboltamenn hafa hæfileika, skapgerð og burði til að taka lokaúrslitaseríu yfir og breyta henni upp á sitt einsdæmi og við verðum að segja alveg eins og er, að okkur datt ekki í hug að LeBron James hefði það sem til þurfti til að gera neitt slíkt í dag. Sérstaklega eftir að við horfðum á hann klúðra hverju sniðskotinu á fætur öðru í fyrstu leikjunum gegn Warriors og fá litla hjálp frá félögum sínum.



En svo gerist eitthvað. Það er til dæmis alveg pottþétt mál að lið sem er í vandræðum með sóknarleikinn sinn, mun undir öllum kringumstæðum hagnast á því ef besta varnarmanni andstæðingsins er kippt út í eins og einn leik. Ókei, flott fyrir Cleveland, en vannst þessi sigur í leik fimm þá ekki eingöngu út á það að Draymond Green var ekki með? Nei, það virðist ekki vera.

LeBron James losnaði við Green úr vegi sínum í fimmta leiknum, en það er eins og hann hafi gleymt því að hann mætti til baka í sjötta leikinn, því hann bara sótti á körfuna eins og enginn væri morgundagurinn. Það hefur svo engan veginn dregið kjarkinn úr James í ruðningsferðum sínum inn í teiginn þegar hann far að andstæðingur hans númer eitt - Andre Iguodala - byrjaði skyndilega að haltra um völlinn eins og hann væri búinn að gera í buxurnar í nótt. Gera stórt í buxurnar.



Þvílíkt andskotans vesen er orðið á þessu Golden State liði, afsakið hjá okkur orðbragðið, en við erum viss um að leikmenn og þjálfarar orða það ekki á fallegri hátt en þetta. Þetta var allt svo klippt og skorið fyrir nokkrum dögum síðan. Liðið sem gat ekki unnið þá var komið út í horn og allt eins og það átti að vera. Það var ekki annað að gera en vinna það einu sinni enn og svo bara leikur, vindill, kampavín, skál, búið!



En í staðinn er allt komið í óefni hjá meisturunum. Bogut hefur lokið keppni, Iguodala er eins og Robocop á línuskautum, skvettubræður eru upp og ofan og Draymond var daufur. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Golden State mætir mótlæti, þið áttið ykkur alveg á því, en það er dálítið nýtt fyrir þá að gera dálítið í bussan sín með þessum hætti.

Við þurfum alveg örugglega ekki að telja upp fyrir ykkur hvað lið sem spila á útivelli í oddaleikjum eru andskoti ólíkleg til að vinna nokkurn skapaðan hlut. Þið vitið þetta. En á Cleveland þá einhvern séns á sunnudaginn? Sagan segir nei, alveg eins og tölvan forðum, en af hverju ekki?



Það er allt á móti Cavs í þessu sambandi, sama hvort það varðar sögubækur, trend eða tölfræði. Lið sem lenda undir 3-1 vinna ekki seríur og lið sem eru á útivelli vinna ekki oddaleiki og bla bla bla. En af hverju á Cleveland ekki möguleika á að vinna lið sem það er búið að vinna tvisvar í röð í hreinum úrslitaleik? Af hverju á Cleveland ekki möguleika á móti Warriors-liði sem er ekki heilt heilsu og er alls ekki að finna taktinn sinn um þessar mundir?

Við skulum láta þessum spurningum ósvarað til að vera ekki að eyðileggja fyrir ykkur áhorfið á sunnudaginn og ljúkum þessu frekar með því að ítreka það sem við tókum fram hér að ofan: LeBron James reif stílabókina af söguriturum NBA deildarinnar, barði þá í hausinn með henni og er búinn að skrifa kafla fimm og sex í henni algjörlega eftir sínu höfði. Þessar breytingar eru varanlegar óháð úrslitum í sjöunda leiknum, en það er ljóst að það fer allt í eitt risastórt kaos ef Cleveland heldur þessum ótrúlega endaspretti sínum áfram.



Nú eru náttúrulega ekki allir sammála okkur um hvernig á að ganga frá þessari sögu og okkur finnst skemmtilegast að lesa skrif þeirra sem ætla að láta það ráðast í næsta leik hvernig þeir gera ferilinn hans LeBron James upp. Grínlaust, það er fullt af fólki sem ætlar sumsé að gera þetta svona: Ef Cleveland tapar, verður það LeBron James að kenna og því er hann sjálfkrafa stimplaður kokari og aumingi - en ef Cleveland vinnur verður hann bestur í heimi, jafnvel betri en Jordan.

Sigh...



Það er ekki auðvelt að díla við svona, en við skiljum svo sem að hluta af hverju fólk er svona æst. Það er af þvi LeBron James er enn og aftur að sýna okkur að hann er ofurmenni á körfuboltavelli og getur enn tekið gjörsamlega yfir heilu leikina án þess að nokkur fái rönd við reist. Og það sem meira er, við erum öll að taka þessu sem algjörlega sjálfssögðum hlut, eins og þetta sér bara eitthvað eðlilegt að spila svona!

Nei, LeBron James var bara að minna okkur aðeins á það, í þúsundasta skipti, að hann er einn allra, allra besti körfuboltamaður sem uppi hefur verið og þú skalt ekki láta þér detta í hug að sú jafna breytist eitthvað stórkostlega út af einum körfuboltaleik. Sigur á sunnudaginn gæti orðið ágætis kirsuber á toppinn á rjómaísnum sem er ferillinn hans James, þó hann sé auðvitað ekki búinn.

En hvort sem leikurinn tapast eða vinnst um helgina, verður það sífellt stærri áskorun að finna körfuboltamenn í sögunni sem eru betri en LeBron James. Þá má orðið telja á fingrum annarar handar. Þú getur notað sumarið til að díla við það.


Tuesday, December 22, 2015

Af vandamálum Chicago Bulls


Af hverju að vera að eyða orku í að skrifa um þetta Chicago-lið, sem við eru meira að segja búin að afskrifa fyrir löngu? Það er ekki gott að segja. Kannski af því það tekur alltaf upp helminginn af fréttunum á ESPN, alveg sama hvort eitthvað er að frétta af liðinu eða ekki.

Þær eru búnar að vera margar, ekki-fréttirnar af Chicago í vetur, en sú nýjasta var merkilegt nokk ekki ekki-frétt um það hvort Derrick Rose treysti sér til að spila með bólu á rassinum eða tognað nefhár - þetta voru raunveruleg tíðindi. Og auðvitað gátu þau ekki verið jákvæð - þetta er Chicago, grátandi upphátt.

Nei, málið snýst um ummælin sem Jimmy Butler lét falla í viðtali eftir tap Chicago gegn New York á dögunum, þar sem hann viðraði skoðanir sínar á þjálfaranum sínum og meðspilurum með frekar afgerandi hætti.

Það gerist hreinlega ekki á hverjum degi að leikmenn í NBA deildinni rífi þjálfarana sína svona upp á punghárunum og kasti þeim undir næstu rútu, en Butler var greinilega búinn að fá nóg af því viðvarandi ástandi sem ríkt hefur hjá Bulls að undanförnu.

Fjölmiðlar hlupu auðvitað til og slógu því upp að Butler hefði þarna verið að taka þjálfarann sinn af lífi, en það er ekki nema helmingur sögunnar að okkar mati.

Ástæðan fyrir því að Butler var óánægður með þjálfarann var sú að honum þótti Fred Hoiberg ekki nógu duglegur að skamma leikmennina þegar þeir eru með allt lóðrétt niður um sig. Og þeir hafa sannarlega verið með allt á hælunum með reglulegum hætti.

Gagnrýnin í þessu snýr því faktískt meira að leikmönnum Chicago en þjálfaranum og það þýðir að Jimmy Butler er nú orðinn jafn pirraður á leikmönnum Bulls og við! Þó fyrr hefði verið.

Það var þónokkuð skrum í kring um ráðningu Bulls á Hoiberg sem þjálfara í sumar og margir vildu meina að hann ætti eftir að gefa sóknarleik liðsins sterasprautu í anusinn. Hann kann að hafa reynt að gera það í haust, en öll áform hans um að reyna að láta boltann ganga hraðar í sókninni runnu víst fljótlega út í sandinn og eftir stendur eitthvað hnoð sem skilar litlum árangri.

Einhver hefði haldið að lið með menn eins og Derrick Rose, Jimmy Butler og Pau Gasol ætti að geta skorað stig, en gallinn er að þegar nánar er að gáð, er mannskapurinn sem liðið hefur yfir að ráða fullt af ferköntuðum kubbum sem ætlað er að fara niður um kringlótt göt.

Chicago vantar leikmenn sem geta skotið, eins og öll lið í NBA deildinni, af því allur sóknarleikur í dag gengur út á að geta teygt á gólfinu og fengið vörn andstæðinganna til að hlaupa í allar áttir eins og hauslausir kjúklingar.

Vörn sem þarf ekki að hlaupa um allt gólf og hafa áhyggjur af skyttum, getur leyft sér að pakka bara miðjunni og bíða eftir að andstæðingurinn annað hvort missi boltann eða taki skot sem litlar líkur eru á að fari ofan í.

Þetta eru oftar en ekki örlög Chicago-manna í sókninni - það er ekkert að frétta hjá þeim.

En hvernig stendur á þessu? Jú, við fyrstu sýn virðast vera menn í liði Bulls sem eiga að geta bjargað sér sóknarlega, en það er bara ekki svo gott.

Pau Gasol skorar eitthvað af stigum í teignum og Jimmy Butler framleiðir eitthvað af sóknarleik upp á sitt einsdæmi, en það eru langskotin sem liðið vantar svo nauðsynlega að bæta til að geta auðveldað sér lífið í sókninni.

Jimmy Butler var að skjóta ljómandi vel fyrir utan í fyrra, en hefur dalað mjög illa í vetur, Pau Gasol er hættur að taka þriggja stiga skot, Nikola Mirotic ætti varla að taka þau því hann hittir ekki rassgat og besta þriggja stiga skytta liðsins (Mike Dunleavy) er meidd og virðist ætla að verða það næstu árin. Ljósir punktar eins og Doug McDermott hjálpa til, en hann er ekki maður í að fá almennilegan spilatíma nærri strax.

Þá er ótalinn fíllinn í herberginu, Derrick Rose.

Derrick Rose er ekki bara að eiga gjörsamlega hræðilegt tímabil þar sem hann hittir ekki nokkurn skapaðan hlut og spilar stundum eins og hálfgerður vitleysingur - hann er mögulega uppspretta og rót flestra vandamála liðsins. Blessaður karlinn.

Chicago veit ekkert hvað það á að gera við leikmanninn sem er andlit félagsins og fyrrum leikmaður ársins. Tilraunir Bulls að láta bara sem ekkert sé og láta hann spila eru ekki að ganga upp, þannig að mögulega þarf að tækla hlutina með öðrum hætti.

David Thorpe á ESPN kom með róttæka tillögu í dag, þar sem hann stakk upp á því að Chicago myndi hreinlega senda Rose niður í D-deildina til að finna sig. Þar gæti hann fundið sjálfstraustið sitt aftur gegn lélegri varnarmönnum - nú eða komist að því að hann ætti bara ekkert erindi í NBA deildina lengur. Það hlýtur að vera skelfileg tilhugsun fyrir Rose og alla stuðningsmenn Bulls.

En Rose er ekki bara að spila illa, hann hefur átt í vandræðum í einkalífinu og er iðinn við að segja asnalega hluti í fjölmiðlum sem koma af stað veseni.

Rose hefur verið leiðtogi Chicago-liðsins undanfarin ár ásamt Joakim Noah, en nú er svo komið að hann er það bara ekkert lengur. Það er kominn ný stjarna í liðið, maður sem er góður í körfubolta og lætur sig varða um framtíð klúbbsins.

Þessi maður heitir Jimmy Butler og auðvitað er hann að reyna að skipa sér sinn sess hjá liðinu sem langbesti leikmaður Bulls. Þess vegna eru þessi ummæli hans út í þjálfarann og liðsfélagana ansi áhugaverð.

Hefði Butler átt að henda þjálfaranum sínum svona undir rútuna í viðtali? Auðvitað ekki, auðvitað verða menn að reyna að fara fínna í svona hluti, en við verðum samt eiginlega að taka málstað Butler í þessu leikriti.

Það er alveg satt sem hann bendir á - leikmenn Chicago (hann taldi sjálfan sig með) eru allt of oft daufir og áhugalausir og tapandi fyrir skítaliðum. Þetta lið er alls ekki að spila af fullum styrk og meira að segja traustir stuðningsmennirnir í Chicago eru orðnir hundleiðir á þessu - stundum heyrist ekki múkk í þeim, sem er harla óvenjulegt á þeim bænum.

Eins og þið vitið, höfum við ekki hundsvit á körfubolta og því ætlum við ekki að dæma um það hvort Fred Hoiberg er rétti maðurinn til að stýra Chicago fram á veginn - amk ekki hvað varðar x og o og þannig lagað. Við látum mönnum eins og Zach Lowe það eftir - hann skrifaði hlemm um allt þetta Chicago-drama í dag.

Það sem við vitum hinsvegar, er að þessi byrjun hjá Hoiberg er hreint ekki að lofa góðu og það er ljóst að leikmenn hans bera ekki nógu mikla virðingu fyrir honum. Það er ekki ávísun á neitt gott.

Við höfum aldrei verið hrifin af vinnubrögðum forráðamanna Chicago Bulls og þess vegna ætlum við sannarlega ekki að halda niðri í okkur andanum þangað til þeir leysa þessa klemmu sem liðið er komið í núna.

Chicago er með lið sem fyrir það fyrsta passar ekki nógu vel saman, en það er svo þjálfað af óreyndum manni sem nýtur ekki virðingar leikmanna sinna.

Leikstjórnandi liðsins er fyrrum stórstjarna með undarleg viðhorf sem er hætt að geta nokkuð í körfubolta, stórstjarna liðsins er ekki búin að ná tökum á leiðtogahlutverki sínu, andlegur leiðtogi liðsins er slitinn og alltaf meiddur, besta skytta liðsins í gegn um árin er heima hjá sér að horfa á netflix, nýjasti innflutningur liðsins frá Evrópu reyndist vera gallaður og stuðningsmennirnir eru hættir að nenna þessu.

Glæsilegt eða hitt þó heldur...

Það má vel vera - og það hlýtur bókstaflega að vera - að Chicago nái eitthvað að laga ástandið áður en vorar, en þetta lið verður aldrei sú ógn sem það átti að vera fyrir LeBron James. Það lagðist í völlinn og fór að grenja þegar það mætti honum í vor og á eftir að gera það aftur næsta vor, ef það verður þá svo heppið að ná svo langt.

Saturday, November 7, 2015

Kalt er í Kóngsins ríki


Passíf/agressíf skapgerð LeBron James kemur hvergi eins augljóslega fram og í samskiptum hans við Kevin Love, liðsfélaga hans hjá Cleveland Cavaliers. James átti það til að senda Ástþóri pillur á síðustu leiktíð, sem snerust þá oftast um hlutverk Love hjá liðinu (og sumir segja að líkamlegt ástand hans hafi ekki staðist kröfur James).

Í haust var planið að allir byrjuðu með hreint borð. Love mætti tálgaður og flottur til leiks með hárgreiðsluna hans Rick Fox og James lýsti því yfir í öllum viðtölum að Love fengi aukið hlutverk í sóknarleik liðsins meðan hann sjálfur hefði sig minna fram en áður, enda ekki alveg heill heilsu.

Svo virðist þó sem Adam verði ekki lengi í Paradís, því James er byrjaður að senda passífar bæði og agressífar pillur á ný, eins og myndbrotið hér að neðan sýnir.



Venjulegt sér auðvitað ekkert athugavert við þessar sekúndur, en þeir sem fylgjast með NBA daglega sjá að sú staðreynd að LeBron James sleppir því ekki aðeins að hjálpa Love á fætur, heldur bókstaflega lætur eins og hann sé ekki til, er ekkert annað en bleitant yfirlýsing um að hér sé ekki allt með felldu.

Nú hlær einhver og segir okkur að róa okkur á dramanu, en hlæðu eins og þú vilt. Þetta er hrein og klár yfirlýsing hjá James. NBA leikmenn gera ekki annað en klappa hver öðrum á rassgatið og knúsast heilu leikina, alveg sama hvort það eru æfingaleikir eða úrslitaleikir. Þú hleypur yfir völlinn þveran og endilangan til að hjálpa félaga þínum á fætur - sama hvað. Þannig er þetta bara í NBA.

Ef liðsfélagi þinn - tölum nú ekki um ef hann er yfir tveir metrar eins og Kevin Love - liggur flatur í jörðinni við hliðina á þér og þú labbar bara í burtu og þykist ekki sjá hann, eru það skýr skilaboð um að hann sé ekki að fara eftir þeim reglum sem þú hefur sett honum sem liðsfélagi hans, þjálfari, framkvæmdastjóri og eigandi (LeBron James). Þetta er ekki tilviljun. Ekki séns.

Verið alveg róleg, við ætlum ekki að fá einhvern tremma yfir þessu og þetta eyðileggur veturinn alveg örugglega ekki fyrir Cleveland - okkur þótti þetta bara dálítið merkilegt, því svona lagað sérðu ekki á hverjum degi í NBA deildinni.

Hvað sem hver segir, er bara augljóst að Kevin Love kærir sig ekki um að læra leynibankið sem þarf til að komast inn í tréhúsið í bakgarðinum hans LeBron James og það finnst okkur dálítið skondið.

Tuesday, September 3, 2013

What can you do?


Það er grábölvað að verða vitni að því að Lamar Odom sé ekki aðeins orðinn leiður á körfubolta, heldur lífinu öllu eins og það leggur sig.

Hluta af ógæfunni er reyndar hægt að skrifa á hann sjálfan. Hvaða heilvita maður haldið þið að taki saman við (athygli, vændiskona) úr Kardashian-fjölskyldunni? Og verandi þunglyndur fyrir.

Okkur brá þegar við sáum nýjustu myndirnar af Lamar karlinum. Það er eins og hann hafi horast og sé hálf tekinn í framan. Sagan segir að hann hafi verið að taka á því í fíkniefnadeildinni. Það er hraðbraut til helvítis.

Einn af sölumönnum dauðans heldur því fram að Odom hafi mokað kóki fyrir sex milljónir króna í ranann á sér á þremur árum.

Dónalegt að segja það, en útlitið á Odom minnti okkur dálítið á enska miðjumanninn Paul Gascoigne þegar hann horaðist upp í neysluköstunum sínum.

Neyslukast er ekki alvöru orð, en við finnum ekkert betra til að lýsa veikindum Gazza. Hann tekur fíkn og misnotkun á svo miklu hærra plan en venjulegir fíklar og alkohólistar.

Gazza gæti fyrirvaralaust byrjað að misnota bláan Ópal eða brokkolí. Hann er það veikur einstaklingur.

Eins og áður sagði, er því haldið fram að Odom sé búinn að vera í kókaínneyslu í allt að þrjú ár.

Besta dæmið því til stuðnings er að framherjinn drullaði einmitt gjörsamlega í buxurnar sem leikmaður á svipuðum tíma og meint neysla hans á að hafa byrjað.

Odom átti frábært tímabil árið 2010-11 sem var hans síðasta með Los Angeles Lakers, en þegar honum var svo skyndilega skipt til Dallas, hrundi tilvera hans á einu bretti og ástríða hans fyrir körfubolta sömuleiðis. Þessi gæðaleikmaður varð skyndilega labbakútur.

Síðan hefur heldur hallað undan fæti hjá vini okkar, sem er nú bókstaflega kominn í ruglið er marka má fréttir af eiturlyfjaneyslu hans, þunglyndi og Kardashian-raunum.

Þetta er leiðindamál, því Odom er góður strákur. Við vitnum því bara í Tony Soprano:

"Hvað getur maður svo sem gert?"

Monday, June 17, 2013

Þetta gat aðeins farið á einn veg


San Antonio hefur náð 3-2 forystu í úrslitaeinvíginu um NBA meistaratitilinn eftir magnaðan 114-104 sigur á Miami í fimmta leik liðanna í Texas í nótt. Ef ekki væri fyrir NBA Ísland og jinxkrafta ritstjórnarinnar, væri San Antonio undir 3-2 og horfði fram á að þurfa að vinna tvo leiki í röð í Miami.

Auðvitað var pistillinn sem við skrifuðum í gær ekkert annað en vandlega staðsettur þráður í vef örlaganna. San Antonio átti ekki möguleika í fimmta leiknum nema við tækjum okkur til og reverse-jinxuðum x-faktórinn í einvíginu til andskotans.

Við urðum að gæta þess að tilætlanir okkar væru ekki of augljósar og því varð pistillinn að vera sannfærandi. Við urðum að keyra Manu Ginobili í kaf til að gefa örlögunum start og það tókst - með látum.

Við meintum hvert orð sem við sögðum í pistlinum í gær og stöndum við það. Ginobili er ekki sami maður og hann var.

Góður lesandi orðaði það best þegar hann sagði að Manu gæti í besta falli haft áhrif á einstaka leik, en ekki heilu einvígin eins og hann gat áður.

Einhver varð að kasta grjóti í örlögin og við tókum þetta á okkur til að fá sem flesta leiki í einvígið. San Antonio þurfti á hjálp að halda - og þá sérstaklega argentínski vinur okkar.

Það var ekkert, Manu. Nú verður þú hinsvegar að sjá um restina af þessu, við höfum séð um okkar part.

Rödd Charles Barkley ómar í höfðinu á okkur:

"GINOBILIIIIIIIIIII!!!"

Þið megið hlæja að okkur alveg fram á næsta tímabil. Okkur er sama. Þetta dásamlega úrslitaeinvígi verður langt og skemmtilegt og Manu lifir - í versta falli í nokkra daga í viðbót.

Við höfum aldrei gefið okkur úr fyrir að hafa vit á körfubolta, en við getum jinxað hitabylgju yfir Norðurpólinn ef við vöndum okkur.

Og vakið körfuboltamenn upp frá dauðum, greinilega.

En Manu okkar á ekki allan heiðurinn.

Þrátt fyrir að San Antonio hafi á köflum leikið frábæran bolta í fimmta leiknum í nótt, var með ólíkindum hvað Miami var fljótt að keyra inn í leikinn aftur með snörpum áhlaupum sem komu oftast algjörlega upp úr þurru.

Leikmenn Spurs gerðu sig hvað eftir annað seka um einbeitingarleysi og klaufamistök og það er bara dauðasök á móti sterku liði eins og Miami.

Þú tekur tvö illa ígrunduð skot og missir tvo bolta - og allt í einu er Miami búið að taka 11-0 sprett á þig á rúmri mínútu. Það er með ólíkindum.

Þegar þetta er ritað er eflaust verið að lyfjaprófa Danny Green hjá San Antonio. Það nær ekki nokkurri átt hvað drengurinn er að hitta vel.

Green er búinn að skora 90 stig í lokaúrslitunum og skora 25 þrista, en það er meira en hann gerði
í deildakeppninni samanlagt bæði 2010 og 2011.

Hann nýtir 66% þrista sinna í lokaúrslitunum og er búinn að slá met Ray Allen yfir flesta skoraða þrista á stóra sviðinu.

Tony Parker gerði líka sitt þó hann væri augljóslega ekki á fullu gasi. Segir sína sögu um það hvað hann er góður og hvað við leggjum mikið á herðar hans að hann skuli skila 24 stigum (10-14 í skotum) á felgunni vegna meiðsla í læri.

Það getur vel verið að Miami hafi tapað þessum leik og hvað eftir annað lent um 20 stigum undir í þessum leik, en við höfðum það á tilfinningunni að liðið væri aldrei mjög langt undan.

Við fengum samt ekki þessa ofurframmistöðu frá Sólstrandargæjunum og við fengum í leik fjögur.

Okkur grunaði það svo sem, en það var ekki mikið út á frammistöðu þeirra að setja. Stjörnurnar voru að hver um sig að skila ágætisleikjum heilt yfir.

Enn eina ferðina hefur orðið viðsnúningur í þessu einvígi. Enn og aftur er San Antonio komið yfir eftir að hafa verið komið langt undir á stigum og útlitið verið farið að dökkna.

Það lítur ekkert illa út fyrir svona rútínerað lið eins og San Antonio að þurfa bara að vinna einn af næstu tveimur leikjum sínum til að landa titlinum enn eina ferðina - jafnvel þó það þurfi að gerast á útivelli.

En Miami á að sjálfsögðu eftir að líða betur á heimavelli sínum og þið vitið hvað gerist alltaf þegar Miami tapar - það kemur öskrandi í næsta leik.

Ef næsti leikur verður þannig eitthvað í takt við annað í þessu einvígi, vinnur Miami auðveldan stórsigur í næsta leik og við fáum hreinan úrslitaleik á fimmtudaginn.

Það yrði nú ekki leiðinlegt.

Við skulum samt ekki fara fram úr okkur. Draumar okkar allra sem erum hlutlaus í þessu rættust með sigri Manu og félaga í nótt.  Fjörið heldur áfram og við eigum dásamlega leiki í vændum, jafnvel þó hlegið verði að sumum okkar - gangandi um með ullarsokka í kjaftinum.

Það er ekki nema ánægjulegur fórnkostnaður fyrir svona veislu. Amen.