Sunday, June 16, 2013

Einn dáðasti drengur NBA Ísland á í erfiðleikum


Við höfum andúð á sjálfum okkur fyrir að skrifa svona lagað, en getum ekki að því gert. Þið vitið að það er ekkert við því að gera þegar opnast fyrir flóðgáttirnar á NBA Ísland. Þeir sem fylgst hafa með gangi mála hér á síðunni vita að Manu Ginobili er einn af okkar uppáhaldsleikmönnum og hefur alltaf verið.

Þess vegna fengum við ælubragð í munninn og umsvifalausa andúð á sjálfum okkur þegar okkur datt í hug að skrifa pistil um það hvort Manu Ginobili ætti ef til vill að hætta að leika körfuknattleik.

Hvað eftir annað skrifuðum við fyrstu línurnar, en hentum þeim í ruslið jafnóðum. Fengum okkur ekki til að skrifa svona drullu.

En alltaf leituðum við beint á lyklaborðið aftur. Svona geta hugmyndir farið illa með skapara sína.

Það er helvítis hroki og ekkert annað að fara fram á að fólk úti í bæ hætti í vinnunni sinni og finni sér eitthvað annað að gera. Ekki síst ef viðkomandi er kannski snillingur í sínu fagi eins og Manu Ginobili.

Það er ekki eins og við höfum efni á að tala. Við værum eflaust búin að vinna til margra eftirsóttra verðlauna ef við hefðum staðið okkur eins vel í okkar starfi og argentínska undrið í sínu.

Það er bara svo erfitt að horfa á Manu spila orðið. Hann er engan veginn sami maður og hann var. Jú, jú, hann fær okkur vissulega til að súpa hveljur með færni sinni reglulega, en þessum atvikum er farið að fækka verulega.

Ef við horfum bara blákalt á það, er Manu Ginobili búinn að vera skítlélegur undanfarið.

Lélegur, ef við miðum við það sem hann hefur sýnt okkur síðasta áratuginn. Lélegur, þannig að fólk sé farið að hrópa á það að "Popovich geti bara ekki réttlætt það að hafa hann inni á vellinum lengur."

Við grettum okkur við það eitt að hugsa svona, en þetta er því miður satt.

Og við elskum Manu svo hrikalega að við getum ekki horft upp á hann spila í lokaúrslitum NBA deildarinnar og eiga erfitt uppdráttar nánast hverja einustu mínútu.

Það er ekkert að honum. Aldrei þessu vant, er Manu Ginobili bara nokkuð heill heilsu, en sama hvað hann reynir - nær hann bara ekki að vera Manu. Og það er ömurlegt að horfa upp á það.

Að sama skapi hefur verið erfitt að horfa á Dwyane Wade undanfarið, en Wade er meiddur. Þessi meiðsli hans eru stundum æði dularfull, en hann er meiddur. Ginobili er ekki meiddur. Hann er bara ekki með þetta lengur.

Manu hefur í versta falli alltaf verið x-faktór San Antonio Spurs og í besta falli hefur hann verið besti leikmaður liðsins leik eftir leik. Sú tíð er liðin, löngu liðin - og það er að kosta San Antonio í einvíginu við Miami - enginn getur mótmælt því.

Ginobili gegnir ákveðnu hlutverki í sóknarleik San Antonio. Hann er jóker sem sprengir upp varnir andstæðinganna og leysir Tony Parker af sem aðalleikstjórnandi þegar sá franski hvílir sig á bekknum - jafnvel þó San Antonio sé með helling af eiginlegum leikstjórnendum á bekknum.

Það myndi setja gríðarlega mikla pressu á sterkan varnarleik Miami ef Ginobili væri ferskari. Ef hann væri að skila því sem við áttum von á að sjá frá honum, fengi vörn Miami ekki frið í 48 mínútur stanslaust.

Við þurfum ekki að velta okkur upp úr tölum til að rökstyðja mál okkar en ætlum nú samt að gera það.

 Snillingar eins og Manu Ginobili eiga ekki að vera að skila 10 stigum, 35% skotnýtingu og innan við 20% nýtingu í þristum í lokaúrslitum.  Það er... ekki gott.

Þegar San Antonio varð meistari árið 2005, var Manu með 21 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar að meðaltali í leik í úrslitakeppninni og margir vildu meina að hann hefði verið besti maður liðsins á leið þess að titlinum.

Við þurfum ekki að fara svo langt aftur. 2010 skilaði hann 19/4/6 í úrslitakeppninni og árið eftir 21/4/4. Það var fyrir aðeins tveimur árum síðan, nota bene.

Manu hefur alveg átt leik og leik í úrslitakeppninni í vor eins og við sögðum ykkur. Hann skilaði t.a.m. tveimur ellefu stoðsendinga leikjum í seríunni gegn Golden State og var nálægt þrennunni í einum þeirra (16/7/11) en það eru aðeins plastperlur í fjóshaugnum sem þessi úrslitakeppni hefur verið hjá honum.

Fyrirgefðu, Manu, en svona er þetta bara.

Kannski erum við bara að skrifa þetta til að jinxa hann inn á epíska frammistöðu í restinni af einvíginu við Miami - ekkert myndi gleðja okkur meira - en því miður er útlit fyrir að þessi stórkostlegi leikmaður sé búinn að sjá sína bestu daga.

Þetta er síðasti séns hjá San Antonio. Við höfum sagt þetta í sex ár, en núna er þetta allra, allra, allra síðasti séns hjá þeim svartklæddu.

Líka hjá Manu.

Þetta er búinn að vera sögulegur sprettur hjá honum. Fáir körfuboltamenn hafa náð eins stórkostlegum árangri og nær óslitinni sigurgöngu í íþróttinni og hann. Gildir þá einu hvort við tölum um með landsliðinu, í Evrópuboltanum eða með San Antonio Spurs.

Við erum ekkert að segja að langbesti körfuboltamaður í sögu Suður-Ameríku sé bara búinn, dauður og ónýtur. Hann er það bara ef við berum hann saman við eftirminnilegustu goðsagnir leiksins.

Menn eins og hann sjálfan.