Saturday, May 27, 2017

NBA Ísland í hlaðvarpi hjá karfan.is


Hlaðvarp NBA Ísland er því miður í dauðateygjunum þessa dagana, en ef þið kaupið það grunnkonsept að hlaðvarp sé hlaðvarp, getið þið vonandi sætt ykkur við það í bili að heyra fulltrúa NBA Ísland í hlaðvarpi á öðrum miðli. Baldur Beck á ritstjórn NBA Ísland varð þess heiðurs aðnjótandi að fá að vera gestur í hlaðvarpi þeirra Davíðs Elds og Ólafs Þórs Jónssonar, ritstjóra karfan.is í lok vikunnar. 

Í þættinum er rýnt í tilurð og sögu vefsíðunnar NBA Ísland og svo er púlsinn að sjálfssögðu tekinn á NBA deildinni í dag, úrslitakeppninni, nýliðavalinu, úrvalsliðunum ársins og öðrum verðlaunahöfum á nýafstöðnu tímabili. Þetta er útskýrt nánar á karfan.is. 

NBA Ísland vill nota þetta tækifæri til að þakka ritstjórum karfan.is fyrir að taka fyrrnefndu síðuna til umfjöllunar og veita henni góða kynningu í eyru fjölmargra hlustenda/lesenda sem annars hefðu ef til vill aldrei heyrt af henni. Smelltu hér til að nálgast hlaðvarpið á karfan.is.

Friday, May 26, 2017

NBA Ísland gerir upp undanúrslitin


Undir nánast öllum kringumstæðum hefðum við skrifað tvo pistla til að gera upp undanúrslitaeinvígin í úrslitakeppni NBA deildarinnar. En þó þessi pistill verði sjálfssagt fjórum sinnum lengri en hann þarf að vera eins og allir okkar pistlar, segir það sína sögu um úrslitakeppnina í ár að það er algjör óþarfi að skrifa sitthvorn pistilinn til að gera upp austur og vestur. Einn er yfirdrifið nóg.

Úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar lauk í nótt þegar Cleveland gjörsamlega slátraði Boston Celtics í Boston, að þessu sinni 135-102. LeBron James og félögum leið einfaldlega miklu betur í leikjunum í Boston í þessu einvígi, sem er í besta falli stórfurðulegt, en engu að síður staðreynd.Ef framtíð Celtics væri ekki jafn björt og raun ber vitni, væru þessi ljótu töp liðsins á heimavelli meira að segja kjörin ástæða til að skella sér í gott þunglyndi eitthvað fram eftir sumri.

Lið sem nær besta árangrinum í Austurdeildinni nokkuð óvænt, kemst í úrslit austursins nokkuð óvænt og er með fyrsta valrétt í nýliðavalinu í sumar, gæti svo sem ákveðið að fara í þunglyndiskast, en það yrðu sett lög á það undir eins líkt og lögreglumenn sem ætluðu í verkfall.

Nei, það gekk allt of margt upp hjá Celtics í vetur og vor svo þeir hafi efni á að fara í þunglyndiskast. Var súrt fyrir þá að spila ekki mínútu gegn Cleveland í úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar án síns besta sóknarmanns? Vissulega. Var fúlt að það voru fleiri leikmenn hjá Boston en bara Thomas sem voru meiddir? Vissulega. Hefði 100% heilsa þessara manna breytt útkomunni á þessu einvígi? Aldrei.Þessi sprettur Celtics-manna í úrslitakeppninni núna var ekki annað en generalprufa fyrir það sem koma skal hjá liðinu. Þeirra ár er ekki í ár og ekki á næsta ári heldur, hvort sem þið sættið ykkur við það eða ekki. Markmið Danny Ainge var ekki að vinna titil á þessu ári, því það sér hver manneskja að ef svo hefði verið, hefði hann skipt einhverju af valréttunum sem liðið á uppi í erminni fyrir leikmann á borð við Jimmy Butler eða Paul George, ef við gefum okkur að þeir hefðu verið falir yfir höfuð (sem er alls ekkert víst, hvað sem slúðursögur segja).

Í stað þess að horfa svo stutt fram á veginn, ákvað Ainge hinsvegar að einbeita sér að langspilinu og það er hárrétt ákvörðun að okkar mati. Trúið okkur, ef Ainge stendur eitthvað gott til boða til að gera Boston liðið að alvöru áskoranda í nánustu framtíð, mun hann ekki hika við að stökkva á tækifærið.En eins og staðan er núna, er hann að horfa lengra fram á veginn. Og það er ekkert sem bendir til annars en að Boston (þökk sé glórulausri ákvarðanatöku eiganda Brooklyn Nets á sínum tíma) sé í langbestum málum allra liða í Austurdeildinni ef Cleveland er undanskilið, akkúrat í augnablikinu.

Öll umræða um Boston Celtics í ár og í nánustu framtíð er alltaf fljót að fara í farveg sem kemur málinu ekkert við, alveg eins og hún gerði akkúrat núna hjá okkur. Meiningin var að skoða árangur liðsins í úrslitakeppninni í ár, en auðvitað byrjum við strax að hugleiða framtíðina hjá þeim. Umræðan um Boston fer nefnilega alltaf annað hvort út í valrétti í nýliðavalinu eða framtíð Isaiah Thomas.

Ef við sleppum því, er ekki hægt að segja annað en að þetta lið hafi farið fram úr björtustu væntingum í vetur. Það er okkar skoðun og eins og þið vitið, sjáum við glasið næstum alltaf hálftómt, svo við erum alveg harðákveðin í að Celtics hafi gert vel í vetur.En þó Boston hafi farið fram úr væntingum, þýðir það þá samt ekki að liðið hafi ógnað Cleveland á nokkurn hátt í úrslitakeppninni, því það gerði það alls ekki.

Cleveland lauk í nótt við eitthvað það undarlegasta heiðursmanna-sóp sem við höfum nokkru sinni séð og við eigum aldrei, aldrei eftir að gefa okkur með þá samsæriskenningu að LeBron James hafi ákveðið að gefa þriðja leikinn til að ná sér í smá pening í Vegas í ljósi þess að stuðullinn á Boston-sigur í leiknum var sá hæsti í Las Vegas í áratugi.

Einvígi Boston og Cleveland var svo ójafnt að lýsendur nær og fjær voru á köflum uppteknari við að leika sér að því að fylgjast með ferðalagi LeBron James upp tölfræðimetalistana.

Í nótt náði hann ansi merkum áfanga þegar hann fór upp fyrir Michael Jordan og varð stigahæsti leikmaður allra tíma í úrslitakeppni.

Það er ekki dónalegt afrek hjá manni sem aldrei hefur litið á sig sem skorara, per se, og hefur alltaf leitast við að koma liðsfélögum sínum inn í leikinn alveg eins og honum sjálfum.

Manni sem hefur alltaf fundist körfuboltinn vera liðsíþrótt sem snerist um að spila "á réttan hátt" og finna besta skotið.

Þessi grundvallarmunur á LeBron James og Michael Jordan (sem var auðvitað skorari númer eitt, tvö og þrjú, körfuboltalegur böðull sem var lengi að tileinka sér "leyndarmálið" svokallaða) - manni sem er fyrirmynd hins svokallaða hetjubolta í dag.Það má vel vera að Austurdeildin sé búin að vera eitt allsherjar andskotans rusl megnið af árunum sem LeBron James er búinn að spila í NBA deildinni, en það breytir því ekki að sú staðreynd að maðurinn sé að fara í sín áttundu lokaúrslit og nú sín sjöundu í röð, er eitt af bestu rökunum fyrir því að hann sé í raun og veru geimvera. Við erum alltaf að bíða eftir því að LeBron James missi til dæmis af eins og einum leik í úrslitakeppni af því hann snýr sig á ökkla eða eitthvað. En, nei.

Tuesday, May 23, 2017

Friday, May 19, 2017

Allt um aðra umferð úrslitakeppninnar


Þegar úrslitakeppnin í NBA er upp á sitt versta, er hún dálítið eins og pizza. Oft fær maður pizzu sem er ekkert spes, en pizza er alltaf pizza og hún slær á hungrið og veitir einhverja (litla) næringu, þó hún sé kannski ekki best í heimi í það skiptið. Það má alveg eins setja kynlíf inn í þessa jöfnu í stað flatböku, fyrir þau ykkar sem borða ekki flatbökur.

Við ætlum að vona að einhver ykkar lesi NBA Ísland að staðaldri af þvi þið treystið því að við segjum ykkur sannleikann um deildina okkar. Við reynum alltaf að gera það - vera samkvæm sjálfum okkur og kalla endur endur og erni erni.

Og það þarf enga sérfræðinga til að segja ykkur að úrslitakeppnin í NBA 2017 er búin að vera afskaplega döpur og ef við eigum að vera alveg hreinskilin, er þetta mögulega ein slappasta úrslitakeppni sem við munum eftir á seinni árum.

Það þurfti hvorki Nasa-starfsmenn né Nóbelsverðlaunahafa til að spá því strax í haust að líklega ættum við eftir að fá lokaúrslit með sömu liðunum þriðja árið í röð. Cleveland færi þangað þriðja árið í röð af því það spilaði í Austurdeild sem var svo mikið drasl að ekkert lið gæti ógnað því.


Golden State kæmist ekki hjá því að komast þangað eftir að það bætti Kevin Durant í leikmannahóp sinn - og þá alveg sama hvort það yrðu meiðsli í herbúðum liðsins eins og á síðustu leiktíð eða ekki. Já, margir urðu hreinlega reiðir og sögðu að tímabilið væri ónýtt og kenndu Kevin Durant helst um allt saman. 

Því miður gengu þessar spár eftir í deildarkeppninni, því Golden State fræsti sig í gegn um deildarkeppnina og náði besta árangri allra liða í deildinni með lítilli fyrirhöfn, þó San Antonio hafi þó veitt því sæmilegt aðhald lengst af í vetur. 

Og þessar leiðindaspár hafa mestmegnis gengið eftir í úrslitakeppninni, því þegar þetta er ritað, eru Golden State (10-0) og Cleveland (9-0) enn taplaus í úrslitakeppninni og hafa ekki aðeins verið miklu betri en allir andstæðingar sínir, heldur hafa þau líka verið miklu heppnari en andstæðingarnir (með meiðsli). 

En ætlun okkar með þessum pistli er ekki að greina undanúrslitin eða úrslitin, það kemur síðar, heldur ætlum við að renna stuttlega yfir hvað gerðist í annari umferð úrslitakeppninnar. Og já, við erum í alvörunni að spá í að reyna að gera þetta stuttlega að þessu sinni, þó þessi langloka okkar hérna í byrjun gefi sannarlega merki um eitthvað allt annað.*

Látum okkur sjá. Byrjum fyrir austan eins og venjulega:CLEVELAND 4 - TORONTO 0

Andstæðingar Cleveland í austrinu eru löngu búnir að gera sér grein fyrir því að það útheimtir ákveðna auðmýkt að mæta LeBron James og félögum í úrslitakeppninni. Toronto-liðið er eitt þessara liða og eftir þessa nýjustu rimmu þessara liða er lúbarinn og vælandi hundur, liggjandi á götunni, fyrsta myndlíkingin sem kemur upp í hugann þegar við hugsum um þetta einvígi.

Við vitum vel að Kyle Lowry var meiddur og missti af megninu af seríunni. Hann er besti leikmaður Toronto og því vantar að sjálfssögðu ansi mikið í Kanadaliðið ef hans nýtur ekki við. Vitið þið hvað? Það skiptir samt ekki nokkru einasta helvítis máli. 

Þetta Toronto lið - sem var meira að segja búið að sækja sér liðsstyrk sem átti að hjálpa til við að veita Cleveland meiri keppni - hafði aldrei, aldrei trú á því að það gæti unnið Cleveland. Ekki einu sinni í sínum villtustu draumum.

Og þetta fundu James og félagar, sem voru byrjaðir að leika sér að Toronto liðinu eins og háhyrningar að vönkuðum selskóp þegar aðeins örfáar mínútur voru liðnar af leik eitt. 


Það var hreinlega átakanlegt að horfa upp á þetta. Toronto liðið var ekki jafn vonlaust og karakterslaust og Atlanta hér um árið, en við vorkenndum Snareðlunum frá fyrsta leik. Þær höfðu ekkert í þessa rimmu að gera og hefðu alveg eins getað setið heima.

Það er eitt að tapa seríu, annað að gera sig nánast að fífli. Það er stór munur þarna á, eins og við munum koma að síðar í þessum pistli. Sóp er ekki endilega það sama og sóp, sjáið þið.

Nú eru gríðarlega stórar ákvarðanir á döfinni hjá Toronto. Forráðamenn félagsins þurfa að ákveða hvort þeir ætla að framlengja samningana við nokkra af lykilmönnum sínum, þar sem Kyle Lowry og samningurinn hans stendur auðvitað hæst. 


Toronto er nú þegar með 7. hæsta launakostnaðinn í NBA deildinni en ef félagið ætlar að framlengja við alla sína menn, fer það svo hátt yfir launaþakið að það þyrfti líklega að borga lúxusskatt sem nemur launakostnaði 2-3 félaga í viðbót. Það gefur augaleið að það er ekki raunhæfur valkostur og þó ekki væri nema bara þess vegna, er augljóst að breytinga er að vænta hjá Toronto.

Auðvitað eru stuðningsmenn Toronto og ansi margir hlutlausir í netheimum, löngu byrjaðir að öskra upphátt og heimta að forseti körfuboltamála hjá félaginu Masai Ujiri sprengi liðið algjörlega upp og byrji upp á nýtt. 

Flestir tippa á að Dwane Casey þjálfari verði látinn fara í sumar (persónulega erum við nokkuð hissa á því að hann skuli enn halda starfi sínu) og að Raptors verði með duglegri félögum á markaðnum í sumar. Gallinn er bara að það lítur enginn við mannskapnum hjá þeim og tæki sennilega ekki við honum gegn greiðslu.

Útlitið hjá Toronto er ekki alveg svart, það eru nokkrir ungir leikmenn í hópnum sem gefa einhverja ástæðu til bjartsýni, en það er ljóst að aðalliðið hans Casey með þá Lowry og DeRozan í fararbroddi, er bara ekki að gera sig þegar kemur að úrslitakeppni, þó þeir vinni 50 leiki í svefni í deildarkeppninni.

Hér komum við að þessari sígildu spurningu sem alltaf er fyrst fram á varirnir þegar kemur að því hvort félög eiga að halda baráttunni áfram með óbreytt lið eða stokka allt upp á nýtt. Það er hvort félagið treystir sér til þess að bjóða stuðningsmönnum sínum upp á þau óhjákvæmilegu ár sem framundan eru ef taka á ákvörðun um að byrja upp á nýtt. Og félög á borð við Toronto eru einfaldlega mjög rög við að fara út í svo drastískar aðgerðir, af því forráðamenn félagsins muna enn allt of vel hvernig það var að vera skítalið sem enginn tók alvarlega, átti enga aðdáendur alþjóðlega, enga stjörnuleikmenn og aldrei komst í úrslitakeppnina. 

Á þessum ógeðslega stað var Toronto um árabil og rétt eins og er með LA Clippers og við sögðum ykkur frá í vesturhelmingi uppgjörsins um 1. umferðina, eigum við erfitt með að sjá að stjórn Toronto hafi kjark í að fara í dramatískar aðgerðir þegar hún er með 50 sigra lið í höndunum - alveg sama hversu ógeðslega LeBron James niðurlægir það á hverju einasta vori. 

Það er ekki eins og þetta sé eitthvað skemmtileg staða sem þeir eru í, aumingja Toronto-mennirnir. Það er ekki víst að sé ljós í enda ganganna, hvora leiðina sem þeir velja.

BOSTON 4 - WASHINGTON 3

Einvígi Boston og Washington átti fátt sameiginlegt með jarðarförinni í Toronto, því fyrir það fyrsta voru þar á ferðinni tvö körfuboltalið sem voru áþekk að styrkleika. Munurinn á liðunum var bara tvíþættur þegar upp var staðið - og allt hugsandi fólk gat sagt sér það fyrir einvígið - Boston var með heimavallarréttinn og var, öfugt við Washington, með körfuboltamenn á varamannabekk sínum sem voru með mælanlegan púls.

Thursday, May 11, 2017

Nýtt hlaðvarp


Í 78. þætti Hlaðvarps NBA Ísland fara Baldur Beck og Kjartan Atli Kjartansson yfir stöðu mála í úrslitakeppni NBA deildarinnar, þar sem Houston og San Antonio (leikur 6 á miðnætti í nótt á Stöð 2 Sport) og Washington og Boston (leikur 6 annað kvöld á miðnætti á Stöð 2 Sport 2) berjast um réttinn til að lenda í klónum á Golden State og Cleveland í fjögurra liða úrslitum.

Þá skyggnast þeir inn í framtíðina hjá liðum eins og Toronto, LA Clippers, Boston og Utah, stöðu LeBron James á lista bestu leikmanna allra tíma, muninn á NBA deildinni í dag og á 9. áratugnum og ótalmargt fleira.

Þið getið hlustað á nýjasta þáttinn í spilaranum hér fyrir neðan eða farið inn á hlaðvarpssíðuna og sótt hann þar á mp3 formi til að setja hann inn á t.d. símann ykkar eða mp3 spilarann.  Rannsóknir hafa sýnt að Hlaðvarp NBA Ísland er ein besta kostnaðar- og (nánast) auglýsingalausa afþreying sem völ er á í heiminum.*  Njótið vel, kæru lesendur/hlustendur.* - Þetta er auðvitað haugalygi. Ekki trúa öllu sem þú lest, nema hér á NBA Ísland. Það hafa auðvitað ekki verið gerðar neinar rannsóknir á því hvað Hlaðvarp NBA Ísland er góð afþreying, en við gætum ímyndað okkur að ef einhver væri nógu vitlaus til að taka þetta til rannsóknar, gætu niðurstöður hennar leitt eitthvað þessu líkt í ljós.

Tuesday, May 9, 2017

Er Golden State göldrótt eða heppnasta lið heims?


Það er að eiga sér stað þróun í úrslitakeppninni núna sem fær okkur til að gretta okkur. Alveg eins og á þarsíðustu leiktíð þegar Golden State vann meistaratitilinn, eru andstæðingar Warriors í úrslitakeppninni núna hægt og bítandi að missa lykilleikmenn sína á meiðslalista.

Þetta er farið að minna okkur svo mikið á 2015 að það er eiginlega hætt að vera fyndið. Fyrir það fyrsta þarf lið eins og Golden State auðvitað alls ekki hjálp, því það er eins hlaðið snillingum og nokkurt annað körfuboltalið í sögunni og í öðru lagi HÖTUM við meiðsli, sem eru búinn að fara langt með að eyðileggja nokkur af síðustu tímabilum.

Hvað sem öðru líður er áhugavert að rifja upp hvað gerðist hjá Warriors fyrir tveimur árum og skoða nánar hvort það geti raunverulega verið að hlutirnir séu að renna í svipaðan farveg

Þau ykkar sem hafið fylgt okkur eftir hér á síðunni munið vel eftir Fílnum í Herberginu þegar kom að meistaratitlinum sem Warriors-liðið vann fyrir tveimur árum. 

Flestir samþykktu að þetta Golden State lið hefði ekki aðeins verið ljómandi skemmtilegt, heldur líka ógnarsterkt, enda vann það haug af leikjum (67 ef við eigum að vera nákvæm, rétt eins og liðið þeirra í ár) og var jafnbesta liðið í deildinni allan veturinn.

En þá eigum við eftir að tala um þennan fíl, því hann var helvíti stór. Auðvitað munið þið hvað hann stóð fyrir. Eini gallinn við þetta Warriors-lið og titilinn sem það vann, var að það fékk allt of mikla hjálp við það. Hjálp, sem það þurfti engan veginn á að halda eins og þið munið. Hjálp í formi heppni og stundum í formi óheppni og ógæfu sem hellist yfir andstæðinga Warriors..

Þau ykkar sem munið vel eftir þessu eruð örugglega orðinn hrikalega leið á þessari orðræðu, því hún lá eins og svart ský yfir Warriors-liðinu lengi á eftir og eins og þið munið létu einhverjir hausar hafa það eftir sér um sumarið og haustið á eftir að Golden State menn hefðu verið "heppnir" að vinna titilinn. Þessi ummæli voru svo teygð og toguð og misskilin í alla kanta, en við vissum alveg hvað menn voru að meina þegar þeir töluðu um þessa heppni.

Golden State 2015 var fyrst og fremst heppið af því það hélt sæmilegri heilsu á leiktíðinni, enda fékk það svo að kynnast því strax á leiktíðinni á eftir hvað gerist þegar menn eru ekki heilir í úrslitakeppninni  - og þá sérstaklega í lokaúrslitunum þegar þeir mæta liði eða liðum sem eru jafngóð eða betri.

En það var sannarlega ekkert svoleiðis uppi á teningnum árið 2015 og fyrir þau ykkar sem muna ekki eftir þessu eða tóku hreinlega ekki eftir þessu, skulum við hlaupa yfir þetta í hvelli (immit).

Ástæðan fyrir því að menn töluðu um heppni í Warriors-liðinu var ekki að það hefði verið að hitta þriggja stiga skotum frá miðju og að andstæðingar þess hefðu verið að klikka á sniðskotum, heldur áttu menn þá við að á meðan Golden State hélt allt að því fullkominni heilsu í úrslitakeppninni - voru allir andstæðingar liðsns á leiðinni að titlinum vængbrotnir að einhverju leyti vegna meiðsla.

Ef við tökum þetta eftir röð, byrjaði Golden State á því að mæta New Orleans í fyrstu umferðinni og þó Warriors-menn hefðu unnið þá seríu 4-0, áttu Dílaskarfarnir ágætis spretti í rimmunni og náðu að gera eitthvað af þessum leikjum áhugaverða. En það sem gerði útslagið hjá New Orleans í seríunni var að leikstjórnandinn og (líklega) næstbesti leikmaður liðsins var á annari löppinni allt einvígið og missti að okkur minnir af amk einum af þessum fjórum leikjum.

Ekki minnkaði mótspyrnan í annari umferðinni þegar Golden State mætti hnefaleikurunum í Memphis, því eins og frægt er orðið, komst Memphis yfir 2-1 í seríunni áður en Steve Kerr og félagar í þjálfarateymi Warriors gerðu breytingar sem hafa síðan verið fastir liðir í spilamennsku liðsins. 

Þessi sería er mjög merkileg fyrir þær sakir að þetta var ein af rimmunum þremur* sem að okkar mati stuðlaði að því að Golden State hætti að vera efnilegt lið sem vann fullt af leikjum í deildarkeppninni en fékk svo skrekk í úrslitakeppninni. Leikmenn Warriors urðu fullorðnir í þessari seríu og öðluðust grunninn að því sjálfstrausti sem þeir hafa í dag þegar þeir náðu að snúa við blaðinu og slátra Memphis eftir að hafa verið undir 2-1 í einvíginu og auðsjáanlega nokkuð slegnir í hávaðanum í Memphis. 

Golden State á sem sagt skilið að fá klapp á bakið fyrir þennan viðsnúning sinn á sínum tíma, en þar erum við ekki komin að fílnum í herberginu í þessari seríu. Það var nefnilega ekki bara góður leikur Warriors sem tryggði þeim sigur í einvíginu, því nákvæmlega eins og New Orleans í seríunni á undan, var Memhis með vængbrotið lið af því leikstjórnandi liðsins og næstbesti leikmaður var meiddur og átti alls ekki góða seríu. 


Þið þurfið ekki að horfa lengra en til spilamennsku Mike Conley í 1. umferðinni í ár til að sjá hvað hann er gríðarlega þýðingarmikill liði sínu og bara drullu góður í körfubolta! Aftur fóru Warriors áfram í næstu umferð með því að vinna lið með meiddan leikstjórnanda, að þessu sinni 4-2.

Næsta lið á dagskrá hjá Warriors var Houston í úrslitum Vesturdeildarinnar en þetta Houston-lið var þó að minnsta kosti ekki með leikstjórnandann sinn og besta varnarmann í meiðslum eins og fyrstu tveir andstæðingar, andskotinn hafi það....?

Hvað heldur þú? Auðvitað vantaði leikstjórnandann í Houston-liðið! Þriðju seríuna í röð. Þessi leikstjórnandi sem vantaði hjá Rockets var reyndar aðeins öðruvísi týpa en Conley og Holiday og var til að mynda saknað frekar lítið í sóknarleiknum en hann skildi eftir sig risastórt skarð í varnarleiknum. 

Það hefði til dæmis augljóslega komið í hlut Patrick Beverley að dekka Stephen Curry megnið af seríunni, en í staðinn fyrir að hafa hann, var það áttatíu og fjögurra ára gamall Jason Terry sem sá um að koma upp með boltann fyrir Houston þegar James Harden nennti því ekki.


Við getum augljóslega ekki kennt fjarveru Beverley um það að Houston skíttapaði seríunni 4-1 og leit frekar illa út á meðan. Golden State var búið að finna fjölina sína, komið í bullandi takt og engin meiðsli til að tala um ennþá, fyrir utan smá brak í hálsinum á Stephen Curry eftir að hann lenti í óvæntri flugferð í Houston-seríunni.

Það var því ljóst að Warriors-menn voru komnir í lokaúrslit í fyrsta skipti í áratugi, en andskotinn hafi það, ekki vantaði þó leikstjórnandann í þetta Cleveland lið líka? 

Þú mátt giska...

Cleveland mætti undirmannað í lokaúrslitaeinvígið af því hálfvitinn Kelly Olynyk mölvaði handlegginn á Kevin Love skömmu áður og eins og þú varst eflaust búin(n) að átta þig á, hrundi Kyrie Irving í gólfið með ónýtt hné undir lok fyrsta leiksins. 

LeBron James tókst einhvern veginn að koma liðinu sínu yfir í einvíginu 2-1, en þá gerði Steve Kerr síðustu stóru breytinguna á liðinu sem lagði grunninn að sigri þess í rimmunni og allir hafa verið skíthræddir við þetta lið allar götur síðan.

Þið verðið nú að gefa okkur það, að við vorum ekki lengi að útskýra þetta frekar en við erum vön. Einmitt. En hérna er þetta samt, svona á myndrænan hátt, ef svo má segja:

Ókei, þá erum við búin að tækla fílinn í herberginu árið 2015, en við vorum löngu búin að kryfja hann (lifandi) með handþeytara. Það sem er að bögga okkur núna, er að það er aftur kominn fíll í helvítis herbergið og þó fjölmiðlar (aðrir en Utah) séu ekki búnir að fatta það. 

Þessi 2017 fíll er nefnilega mjög líkur hinu kvikindinu og ef við eigum að vera alveg hreinskilin, erum við einum meiðslum frá því að kalla þetta bölvun.

Hverjar haldið þið í alvöru að séu líkurnar á því að lið sem vinnur meistaratitilinn mæti fjórum andstæðingum í röð sem missa byrjunarliðsleikstjórnandann sinn í meiðsli? Um það bil engar, það er ekki lengi verið að reikna það.

Golden State sem sagt flýgur í gegn um úrslitakeppnina 2015 og vinnur titilinn á tiltölulega sannfærandi hátt, en tapar svo í úrslitaeinvíginu árið eftir, að hluta til vegna þess að í þetta skiptið voru það leikmenn Warriors sem voru meiddir en ekki leikstjórnendur andstæðinganna.

En núna erum við komin með það sterklega á tilfinninguna að þetta sé allt saman að þokast í sömu átt og fyrir tveimur árum. Við ákváðum að prófa að föndra þessa pælingu saman á myndrænan hátt svo fólk geti skoðað þetta og vonandi fattað þetta án þess að þurfa að lesa þessar sextán þúsund blaðsíður sem þessi pistill er.

Skoðum þetta bara ofan í kjölinn. Andstæðingar Warriors í fyrstu umferðinni þetta árið voru Portland og eins og eftir formúlunni, gat nýjasti liðsmaður Portland ekki tekið þátt í einvíginu nema í örfáar mínútur vegna meiðsla. 

Jusuf Nurkic var ekki stærsta breytan í þessu einvígi og við ætlum ekki að segja að fjarvera hans hafi vegið þyngra en ef Portland hefði t.d. verið án Damian Lillard, enda skiptir það svo sem ekki máli. Portland var ekki með fullskipað lið í einvíginu. Golden State hefði sópað þessu alveg sama hvort einn maður, sjö menn eða ennginn hefði verið meiddur hjá Portland.

Næsti!Já, næsti andstæðingur Warriors var svo Utah Jazz og Curry og félagar voru ekki að drolla við að senda þá í sumarfrí frekar en Portland, en þarna eru þeir aftur farnir að halda í hefðina, því Utah var án leikstjórnanda síns í þremur leikjum af fjórum vegna meiðsla og tveir aðrir lykilmenn Jazz voru tæknilega á annari löppinni (Derrick Favors er búinn að haltra um gólfið alla úrslitakeppnina og Rudy Gobert þarf að hlífa hnénu á sér þegar hann er að setja hindranir og er því ekki að skila sínu venjulega framlagi).

Á hvaða tímapunkti förum við bara að kalla þetta það sem það er, en ekki eitthvað krúttlegt og eða asnalegt eins og að tala um fílinn í herberginu. Svarti galdur, kukl og bölvanir eru sannarlega ekki eitthvað sem við myndum kalla krúttlegt. Og ef þið trúið þessu ekki ennþá, getið þið bara skoðað dæmið lengra fram í tímann.

Golden State mun mæta sigurvegaranum í einvígi San Antonio og Houston í úrslitum Vesturdeildarinnar og við þurfum ekkert að bíða eftir úrslitum í Texasslagnum til að meta framhaldið þar. Þið vitið að Tony Parker er leikstjórnandi San Antonio, er það ekki? Og þið vitið að hann meiddist í vikunni og er ekki að fara að spila körfubolta  í meira en hálft ár (kannski heilt). 

Houston svaraði meiðslum Frakkans með því að missa algjöran lykilmann í sínu liði í meiðsli. Sá heitir Nene og (ekki um jólin!) er frá Brasilíu - og leiktíðin er líka búin hjá honum, þó hún yrði framlengd út ágúst. 

Ætli við verðum ekki að segja eins og er að við séum hissa að það skuli hafa verið Nene sem meiddist hjá Houston en ekki annar hvor leikstjórnandinn (Beverley, Harden) en gleymið ekki að það er enn tími til stefnu hjá Warriors að kukla einn eða tvo góða leikmenn frá Houston í vel útilátin meiðsli áður en serían hefst - ef það verður Houston sem fer áfram úr Texas-stríðinu, það er að segja.

Hér fyrir neðan er svo 2017-útgáfan af brakketinu okkar sem sýnir skörðin sem höggvin hafa verið í andstæðinga Warriors - og meira að segja í nokkur af hinum liðunum líka, svona eins og til vara! Til dæmis Blake Griffin hjá Clippers.

Og þá er bara eitt lið eftir og það er Cleveland. Eins og staðan er í dag hljóta að vera yfir 90% líkur á því að það verði Cleveland sem verður fulltrúi austursins í lokaúrslitunum og þó líkurnar séu kannski ekki alveg eins góðar hjá þeim í vestrinu, þarf eitthvað mjög furðulegt að gerast ef Golden State á ekki að fara í úrslitaeinvígið.

Og ef við gefum okkur að það verði Warriors og Cavaliers sem fara í úrslitin þriðja árið í röð, er bara einni spurningu ósvarað áður en lokarimman hefst - og hún er ísköld:

Hvaða lykilleikmaður Cleveland mun meiðast áður en lokaúrslitin hefjast?


NBA-spjall á Suðurland FM


Fulltrúi NBA Ísland fór í létt NBA-spjall hjá Gesti frá Hæli í sportþættinum Mánudagskvöld á Suðurland FM í kvöld, þar sem m.a. var farið yfir stöðu mála í úrslitakeppninni og kapphlaupið um nafnbótina Verðmætasti leikmaður ársins í NBA.

Monday, May 8, 2017

Þess vegna elskum við Isaiah


Við værum ekki samkvæm sjálfum okkur ef við hefðum ekki skrifað nokkur orð um eina af hetjum úrslitakeppninnar til þessa, hinn smávaxna Isaiah Thomas hjá Boston Celtics.

Við minntumst aðeins á þrautagöngu hans í einvíginu við Chicago í pistlinum um Austurdeildina á dögunum, þar sem við sögðum ykkur frá því þegar Thomas lenti í þeirri hræðilegu lífsreynslu að missa unga systur sína í bílslysi daginn fyrir fyrsta leik í úrslitakeppninni.

Það kemur fyrir annað slagið að leikmaður eða leikmenn í NBA deildinni spila svo vel að þeir heilla okkur upp úr skónum og gera okkur að aðdáendum sínum. Hrifning okkar og allt að því ást á Russell Westbrook undanfarin ár er gott dæmi um þetta, þar sem leikmaður sem strangt til tekið spilar á skjön við öll þau prinsipp sem okkar uppáhalds leikmenn spila venjulega eftir.

Westbrook er bara svo skemmtilegur persónuleiki, líkamleg geimvera og fellibylur í mannsmynd, að hann neyddi okkur á sitt band. Þetta er ekki algengt, en þeir segja að ástin sé blind og þetta er gott dæmi um það.

Þessi hrifning okkar af hinum og þessum leikmönnum í deildinni getur oft haft eitthvað með persónuleika þeirra og/eða skapgerð að gera, en oftast er það nú spilamennskan sem ræður mestu um það hvort við "föllum fyrir leikmönnum" eða ekki.

En nú fyrir nokkrum dögum lentum við í nokkru sem við höfum aldrei lent í áður, þegar við féllum fyrir leikmanni, minnst út af hæfileikum hans og mestmegnis út af skapgerð hans andlegum styrk, eljusemi, dugnaði og góðum húmor ofan á allt saman.

Þetta er auðvitað Isaiah Thomas, leikmaður Boston Celtics.Þessi hrifning okkar á Thomas er líklega búin að vera lengi að gerjast, því við munum vel eftir því þegar hann var að vinna leiki fyrir Sacramento á sínum tíma og sanna að þó hann gæti ekki spilað vörn til að bjarga lífi sínu - mestmegnis vegna smæðar sinnar - gat hann slúttað leikjum á pari við þá bestu, því það gat enginn maður stöðvað hann einn á einn og getur ekki enn.

Thomas er búinn að fara ansi langt síðan hann var að koma af bekknum hjá Sacramento Kings, sem lét hann auðvitað fara fyrir lítið úr því var hægt að nota hann eitthvað. Eftir stutt stopp í Phoenix endaði kappinn svo hjá þeim grænu á klink og er búinn að borga það ellefufalt til baka eða meira.

Eins og við minntumst eflaust á í pistlinum um Boston um daginn, er það nú ekki þannig að sé eitthvað flókið að hrífast af Isaiah Thomas bæði sem leikmanni og karakter. Og ekki varð það flóknara í vetur þegar hann var einn stigahæsti leikmaður deildarinnar og sprakk út í hverjum 4. leikhlutanum á fætur öðrum og tryggði Boston efsta sætið í austrinu.

Og svo kemur þessi martröð daginn fyrir fyrsta leik í úrslitakeppni - heimaleik við Chicago. Þið þekkið framhaldið. Thomas var grátandi á hliðarlínunni þegar skammt var til leiks, sem varð til þess að Charles Barkley lýsti því yfir að sér þætti óþægilegt að horfa upp á Thomas þjást svona þegar hann átti að vera að spila körfubolta.

Fjöldi fólks tókst ætlunarverk sitt og náði að raka upp skít þegar það ákvað að Barkley hefði verið að gagnrýna Isaiah Thomas með ummælum sínum (sem vissulega voru ekki orðuð neitt snilldarlega). Hann var auðvitað ekki að því. Honum fannst bara fokkíng óþægilegt að sjá fullorðinn mann í ekkasogum á íþróttavelli þegar hann átti að fara að spila körfuboltaleik, andskotinn hafi það!Fólk sem hefur ekki þurft að smakka á lífinu heldur kannski að Isaiah Thomas hafi bara hrist þessi hræðilegu tíðindi af sér á tveimur dögum og einbeitt sér að fullu að körfubolta eftir það, en auðvitað er þetta langt í frá svo einfalt. Svona sársauki varir mjög lengi, kemur í bylgjum og það er engin leið að segja til um það hvenær þessi hræðilega staðreynd verður 100% raunveruleg í augum Thomas.

Vonandi hefur hann náð að gera þetta að mestu upp og kveðja systur sína í jarðarförinni og á minningarathöfninni um hana, sem haldin á hinum enda Bandaríkjanna - á að giska fimm tíma flugferð frá Boston í miðri úrslitakeppni.

En Thomas gerði annað og meira en að mæta í alla leikina, því með aðeins örfáum undantekningum, spilaði hann eins og hann var búinn að gera í allan vetur og dró Boston-liðið á herðum sér sóknarlega. Hann fór fyrir frábærri endurkomu Celtics gegn Bulls, þar sem liðið sneri við blaðinu og vann fjóra í röð eftir að hafa tapað fyrstu tveimur leikjunum á heimavelli (aldrei gerst áður í 7 leikja seríu í 1. umferð).

Þegar hann var búinn að klára Chicago, flaug hann vestur til Washington-fylkis, fylgdi systur sinni til grafar, hélt ræðu, þar sem hann sagði sem var að hann hefði verið að hugsa um að gefast upp á öllu saman, en mundi svo að systir hans hefði viljað að hann héldi ótrauður áfram í stað þess að gefast upp (en ekki hvað?)

"Þegar ég fékk þessar fréttir, langaði mig satt best að segja að gefast upp og hætta ," sagði Thomas á minningarathöfninni um systur sína. "Og ég hef aldrei á ævi minni hugsað um að hætta. En svo rann það upp fyrir mér að það kæmi ekki til greina að hætta. Það væri að velja auðveldu leiðina. Ég ætla að halda áfram fyrir systur mína, af því ég veit að hún hefði viljað að ég héldi áfram..."

Svo stökk okkar maður upp í næstu vél austur aftur og skoraði 33 stig í sigri Boston á Washington í leik eitt nokkrum klukkutímum síðar.Hann var þó ekki hættur að heilla, sá stutti, því á einhverjum tímapunkti í upphafi þessarar grófu seríu gegn Washington (þessi lið HATA hvort annað af ástríðu) varð hann fyrir því óláni að missa tönn í barningnum og þurfti oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að fara í aðgerðir til að láta lappa upp á kjaftinn á sér. Hann er sagður hafa verið meira en tíu klukkutíma í stólnum hjá tannlækninum.

Og svo skoraði hann jú 53 stig og tryggði Boston sigur í æsispennandi framlengdum leik tvö og kom sínum mönnum í algjöra lykilstöðu í einvíginu. Það gerist ekki á hverjum degi að menn skori 53 stig í úrslitakeppni í NBA deildinni  - og enn sjaldnar (aldrei) að menn sem eru ekki andskoti mikið hærri en 170 sentimetrar á hæð geri það. Þennan leik, eins og sjálfssagt alla aðra sem hann á eftir að spila um ævina, tileinkaði hann systur sinni, sem hefði átt afmæli þennan dag.

Þessi 53 stig voru það næstmesta sem nokkur leikmaður hefur skorað í sögu Boston Celtics, en það sem var eftir vill enn áhrifameira var að hann skoraði 29 af þessum stigum sínum í fjórða leikhluta og framlengingu - þar sem Thomas einn skoraði fleiri stig en allt Washington-liðið.

"Óskiljanlegt," var orðið sem Brad Stevens þjálfari notaði þegar hann var beðinn að lýsa frammistöðu Isaiah Thomas í gegn um mótlætið í úrslitakeppninni.Danny Ainge, forseti Boston Celtics, er ekki maður sem er auðvelt að hrífa, enda hefur hann séð ýmislegt á löngum ferli sem leikmaður, þjálfari og síðar yfirmaður í NBA deildinni. Ainge tjáði ESPN að Thomas væri búinn að vera góð fyrirmynd fyrir alla hjá félaginu fyrir það hvað hann hefði höndlað pressuna og mótlætið vel og þá er spilamennska hans ótalin, en Ainge tjáði sig um hana í útvarpsviðtali í Boston á dögunum.

"Maður missir bara hökuna í gólfið þegar hann byrjar," sagði Ainge. "Hann er búinn að eiga einhverja tíu leiki eins og þennan (leik 2 gegn Washington) í vetur og það er alltaf jafn ótrúlegt að horfa upp á það. Ég veit ekki hvernig hann fer að þessu. Hann er gríðarlega hæfileikaríkur og er með ótrúlegan sigurvilja. Hann er búinn að eiga einstakt tímabil í vetur og ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að lýsa þessu öðruvísi en það að það er ekki auðvelt að hrífa mig á körfuboltavelli, en hann er búinn að gera það aftur og aftur í allan vetur," sagði Ainge.

NBA deildinni er náttúrulega skítsama þó fólk sé að skrifa lofræður um Isaiah Thomas og þegar þetta er skrifað er Washington búið að jafna metin í einvíginu í 2-2 með góðum sigrum á heimavelli sínum, en það breytir engu í þessu samhengi. Það sem við erum að reyna að segja er að það getur vel verið að þú sért ekki með hjarta ef þú ert ekki dálítið hrifin(n) af Isaiah Thomas og því sem hann er búinn að afreka í vetur.

Það er ekki nema handfylli af gaurum af þessu stærðarkalíberi sem hefur á annað borð náð að festa sig í sessi sem NBA leikmenn á síðustu þrjátíu árum, en enginn þeirra kemst með tærnar þar sem Thomas hefur hælana sem leikmaður.

Með öðrum orðum, hann er allt of góður til að við séum eitthvað að hjala um það að hann sé "góður á miðað við hvað hann er mikill tittur" eða eitthvað þannig.

Isaiah Thomas er einfaldlega einn skæðasti sóknarmaður NBA deildarinnar í dag, jafnvel þó hann sé örugglega oft eini maðurinn sem trúir því í alvörunni.

Neikvæðir leiðindapésar munu halda áfram að benda á það að Isaiah Thomas muni alltaf gefa megnið af því sem hann gefur Boston-liðinu í sókninni til baka um leið og hann fer yfir á hinn enda vallarins.

Því miður er það á vissan hátt satt og það verður alltaf erfiðara og erfiðara fyrir Boston að "fela" Thomas í vörninni með því að láta hann dekka leikmann eða menn sem engin ógn er af sóknarlega. Það er erfitt á móti Washington og gæti verið ómögulegt í seríu gegn liðum eins og Cleveland og Golden State.

En Isaiah Thomas er búinn að hlusta á svona tuð síðan hann var krakki - að hann geti ekki þetta og geti ekki hitt - en hann er nú samt Stjörnuleikmaður sem var að skora næstum því 30 stig að meðaltali í leik hjá einu frægasta körfuboltafélaagi heims í sterkustu körfuboltadeild heims. Það er kannski táfýla af hárinu áhonum, en hann er nú samt fyrsti kostur hjá liðinu sem vann Austurdeildina í vetur og er búinn að vinna helvítis helling af leikjum fyrir liðið sitt í vetur.

Og hann er búinn að sýna okkur hvað hann er magnaður karakter með spilamennsku sinni og framkomu undanfarnar vikur. Við vitum ekki með ykkur, en við erum öll grjóthörð í #TeamIsaiah hérna á ritstjórninni. Annað væri bara... kaldlyndi og leiðindi í hugum okkar.

Isaiah Thomas er fulltrúi okkar venjulega fólksins í NBA deildinni. Hann er búinn að sanna það að ef maður er nógu harður, duglegur og ákveðinn, er hægt að afreka allan andskotann í þessu lífi.

Drengurinn er 175 sentimetrar á hæð en er samt einn besti sóknarmaðurinn í deild þar sem það er að verða algengara en hitt að leikstjórnendur, sem í gegn um tíðina hafa venjulega verið minnstu mennirnir á vellinum, séu orðnir um og yfir tveir metrar á hæð.

Og þá eru ótaldir allir risarnir sem bíða átekta í teignum og nýta hvert tækifæri sem þeir fá til að berja menn eins og Thomas í gólfið ef þeir ráðast á körfuna. Þetta er ekki auðvelt djobb, en Isaiah Thomas lætur sig hafa það á hverjum degi, oftast með bros á vör. Svona næstum eins og hann sé búinn að fatta það að hann sé raunverulega fulltrúi okkar allra þarna úti.

Í fréttum var þetta helst: Vesturdeild


Fyrsta umferðin í úrslitakeppni NBA er örugglega orðin nokkuð fjarlæg í minnum margra ykkar, en við ætlum nú samt að gera hana upp hérna á NBA Ísland. Það gerum við af því við vorum svo vitlaus að gera upp fyrstu umferðina í austrinu um daginn, vegna þess að úrslit í 1. umferðinni gætu haft áhrif á framtíð liða og síðast en ekki síst út af sögulega samhenginu.

Það er nefnilega gott að eiga það á blaði hvað gerðist í úrslitakeppninni 2017 ef okkur langar að rifja það upp eftir nokkur ár. Þannig getið þið, með smá þolinmæði, rifjað það upp hvernig úrslitakeppnin leit út í okkar (og stundum ykkar) augum allt aftur á síðasta áratug. En áður en við förum lengra út fyrir efnið, skulum við kíkja á hvað gerðist í 1. umferð úrslitakeppninnar í Vesturdeildinni.GOLDEN STATE 4 - PORTLAND 0

Meistaraefnin í Golden State hefðu sennilega þurft að vinna hvern einasta leik á móti Portland með fimmtíu stiga mun til að fá einhvern til að segja að væri meistarabragur á þeim, af því andstæðingurinn í fyrstu umferðinni var satt best að segja ekki mjög sterkur. En það er einmitt þess vegna sem lið reyna að vinna alla þessa leiki í deildarkeppninni - þá eru meiri líkur á því að þau fái "létta" andstæðinga í fyrstu umferð.

Og það kom á daginn að Portland reyndist ekki erfiður andstæðingur fyrir Golden State, jafnvel auðveldari en þegar liðin mættust í annari umferðinni á síðustu leiktíð, þar sem Portland vann þó amk einn leik. Þar voru flestir leikirnir jafnir og spennandi (Curry missti af einhverjum þeirra vegna meiðsla), en það var ekkert svona uppi á teningnum í ár. Þriðji leikurinn í Portland var einna helst spennandi, en hinir þrír minntu helst á hljóðlátar aftökur.

Stuðningsmenn og konur Portland voru dugleg að benda á að liðið þeirra gekk ekki heilt til skógar í úrslitakeppninni og að það hefði haft áhrif. Líklega er það rétt, þó við efumst um að Bosníumaðurinn Jusuf Nurkic hafi verið það sem skildi á milli 4-0 eða 4-3 sigurs Golden State í einvíginu. 

Nurkic gerði þó heilmikið gagn eftir að hann kom til Portland frá Denver og skoraði 15 stig, hirti 10 fráköst og varði 2 skot að meðaltali í leik hjá Portland. 

Hann gat þó því miður aðeins spilað nokkrar mínútur gegn Golden State og var eflaust sárt saknað þó úrslitin í seríunni hefðu aldrei staðið og fallið með honum - við bara kaupum það ekki.

Stundum getum við mælt út hvað einvígi í úrslitakeppninni eru merkileg, gæðaleg eða þýðingarmikil á því hvað innsæi okkar segir á meðan við fylgjumst með rimmunni og hvað pennann í okkur langar að segja að henni lokinni.

Á síðustu leiktíð skrifuðum við alveg örugglega eitthvað fallegt um Portland og sögðum stuðningsmönnum liðsins að láta 4-1 niðurstöðu á móti Warriors ekki fara með sig í þunglyndi, því það vantaði alls ekki mikið upp á til að Portland gæti orðið eitt sterkasta lið Vesturdeildarinnar.

Að þessu sinni var það ekki Portland sem okkur langaði að tala um að einvígi loknu, heldur Golden State. Þó að Warriors hafi ekki unnið alla leiki í einvíginu með fimmtíu eins og við tókum fram í byrjun, voru þrír af sigrum Golden State sérstaklega áhrifamiklir. 

Sérstaklega fannst okkur fjórði leikurinn draga upp mynd af liði sem var mætt í úrslitakeppni til að afgreiða sín mál en ekki draga lappirnar. 

Hversu oft höfum við séð lið sem er undir 3-0 vinna einn svona á heimavelli til að gefa stuðningsmönnum sínum eitthvað pínulítið til að fara með inn í sumarið?

Eitthvað smávegis til að bjarga litlum hluta af stoltinu og enda leiktíðina ekki í eintómu þunglyndi? 

Leikmenn Golden State vissu að Portland, vængbrotið eða ekki, er alveg með mannskap í að vinna leik fjögur og tryggja sér þannig svokallað herramannssóp (4-1) í staðinn fyrir fullgert sóp (4-0).

Nei. 

Leikmenn Warriors tóku ekkert slíkt í mál. Þeir ætluðu að klára þetta mál og ná að hvíla sig aðeins áður en næsta umferð hæfist. Og það gerðu þeir. Vá. Þeir gjörsamlega slátruðu Portland í fjórða leiknum og voru búnir að sýna heimamönnum strax í fyrsta leikhluta að þeir voru ekki að fara að sjá til sólar í þessu einvígi á nokkrum tímapunkti. Bara, nei!

Á myndinni hérna fyrir neðan sérðu hvað gerðist á fyrstu c.a. sex og hálfri mínútunni í leiknum (ætli þú verðir samt ekki að smella á þetta og halda áfram að hamast á myndinni þangað til þú færð hana í viðráðanlegri stærð - hver veit).Okkur er alveg sama hvað öðrum finnst um þetta. Hvort þetta telur ekki sem meistarataktar af því Portland-liðið er svo slakt eða hvað. Þessi byrjun Golden State í Portland í leik fjögur, sýndi okkur tvennt alveg svart á hvítu: Að Warriors-liðið væri óheyrilega sterkt, þó meiðsli og annað vesen hefðu komið í veg fyrir að liðið næði að komast á það flug sem það hefði viljað í vetur og að leikmönnum liðsins væri alvara - ekkert rugl.

Svo getið þið staldrað aðeins við og spáð í hvað við vorum að segja. Að Golden State hafi eiginlega aldrei komist aaalveg í taktinn sinn í vetur út af meiðslum (og það er alveg satt, fjandakornið), en hafi samt unnið 67 leiki í deildarkeppninni.

Chicago Bulls (x2), Boston Celtics, Philadelphia 76ers og Los Angeles Lakers, eru einu klúbbarnir sem hafa unnið fleiri en 67 leiki á keppnistímabili í NBA - fyrir utan Warriors-liðið sjálft auðvitað. Nei, þeir komust ekki alveg í takt... Einmitt.

Við getum meira að segja sagt ykkur hvað stóð upp úr því sem stóð upp úr í einvígi Warriors og Blazers. Það var ekki sóknarleikur Curry og Durant, sem var svo góður að hann var hreinlega ósanngjarn á köflum. Nei, það var spilamennska Draymond Green og þá sérstaklega varnarleikur hans, sem stóð upp úr í okkar augum. Eins og kannski oft áður.

Draymond Green verður að öllum líkindum kjörinn varnarmaður ársins í NBA í ár og sýning hans á móti Portland var eins og eldrauða berið á toppinn á þeim ís í okkar huga. Vissirðu t.d. að Draymond Green er efstur allra í vörðum skotum í úrslitakeppninni? Hann er ekki hægt þessi maður og liðið sem hann leikur með ekki heldur. 

Friday, May 5, 2017

Monday, May 1, 2017

Í fréttum var þetta helst: Austurdeild


Ritstjórn NBA Ísland er búin að vera ansi dugleg að hrauna yfir Austurdeildina í allan vetur (og lengur) og því er eðlilegt að fólk sé hreinlega að spyrja sig: Var eitthvað varið í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í austrinu sem var að ljúka?

Áður en lengra er haldið, skulum við hafa eitt alveg á hreinu: Austurdeildin veturinn 2016-17 er lélegasta deild sem við höfum séð í NBA deildinni á þeim aldarfjórðungi sem við höfum fylgst með bestu deild í heimi. 

Hún var svo léleg - og við deilum þessu bara með ykkur í algjörum trúnaði, ágætu lesendur - að stundum langaði okkur helst að sparka í barn eða troða yfir nunnu í örvinglan okkar og eirðarleysi! Þið sjáið strax að þetta er ekkert gamanmál.

Það er eitt virkilega gott lið í Austurdeildinni (sem er búið að vera brothætt í allan vetur), þrjú þokkalega góð, fjögur eða fimm lið sem eru í besta falli skítsæmileg en versta falli... eiginlega bara drasl. Og restin... er svo algjörlega guðsvolað rusl. 

Er þetta heit taka, hugarórar eða rauntal? Þið megið túlka það eins og þið viljið, en ef þið treystið okkur, getið þið lesið áfram. (Endilega lesið líka áfram ef þið treystið okkur ekki, það kemur bara eitthvað skemmtilegt út úr því, sannið til).

Og hvað gerist þegar deild með svona lið innanborðs gerir sér dagamun og fer í úrslitakeppni? Eitthvað svipað og við höfum fengið að sjá síðustu vikur og við skulum bara segja ykkur hvað gerðist í eins stuttu máli og okkur er unnt, og staldra þá helst ekki við nema þar sem eitthvað kom fyrir sem vakti áhuga okkar.

CLEVELAND 4 - INDIANA 0

Besta lið Austurdeildarinnar, sem er Cleveland, þó það hafi ekki séð sóma sinn í því að hirða efsta sætið þar í deildarkeppninni, gerði sitt besta til að leyfa Indiana að hanga með sér í seríu með því að spila varnarleik sem hefði ekki verið verri þó þeir hefðu verið með Claudio Bravo í miðherjanum í stað Tristan Thompson. Eins og flestir tippuðu á, kom það ekki að sök, því Cleveland nokkurn veginn skaut Indiana bara í sumarfrí.

Paul George spilaði nokkuð vel fyrir Indiana í einvíginu, en hélt áfram að vera fremur lítill inni í sér á ögurstundu og eyddi meiri tíma í að hrauna yfir slaka liðsfélaga sína en skora stórar körfur, svo gleðin varði stutt hjá Indiana þetta vorið. 

Stuðningsmenn Pacers geta því eytt sumrinu í að spá í það hver kemur til með að fylla stöðu Larry Bird á skrifstofunni eftir að hann hætti nokkuð skyldilega á dögunum og hvort eftirmanni hans eða konu tekst að sannfæra Paul George um að það sé honum frekar í hag að gerast grilljarðamæringur með nýjan samning í Indiana en milljarðamæringur einhvers staðar annars staðar. Frábært sumar alveg.

Án þess að glossa alveg yfir þetta einvígi, verðum við að geta þess að þó mótstaðan hafi kannski ekki verið hin mesta fyrir LeBron James í þessu einvígi, spilaði drengurinn alveg eins og engill í seríunni og minnti okkur mannlega fólkið enn og aftur á það að hann sjálfur er það alveg örugglega ekki.TORONTO 4 - MILWAUKEE 2

Toronto, með allan sinn liðsstyrk og (oft á tíðum) bitru reynslu síðustu ára í úrslitakeppninni, tókst enn og aftur að valda stuðningsmönnum sínum sárum vonbrigðum með frammistöðu sinni í fyrstu umferðinni. Einhver hefði haldið að þetta lið myndi nú á endanum kannski ná að vinna fyrsta leikinn sinn í úrslitakeppni - á heimavelli - en það er alveg sama hver mótherjinn er.

Mótherjar Kanadaliðsins að þessu sinni voru Milwaukee-menn, með Undrið frá Grikklandi í fararbroddi og þó leikaðferð liðsins væri hvorki flókin né leikmennirnir reyndir, náðu þeir nú samt að gera helminginn af andstæðingum sínum frá Toronto stingandi gráhærða áður en yfir lauk í seríunni.

Þið haldið kannski að við ætlum að hrósa Toronto fyrir að klára þetta einvígi strax í sex leikjum, en það verða engar slíkar bollakökur í boði á þessu stigi málsins. 

Toronto fær líka að máta sig við um það bil ellefu sinnum sterkara lið strax í næstu umferð, svo við þurfum ekki að hafa fleiri orð um það ágæta lið fyrr en við sjáum hvernig því vegnar á næsta stigi. 

Við veittum því athygli að skrumið í kring um gríska undrið hjá Milwaukee, Giannis Antetokounmpo, náði alveg nýjum hæðum í úrslitakeppninni.

Þar sáum því m.a. fleygt fram af (allt að því) lærðu fólki að hinn útlimalangi framherji Bucks væri mögulega þegar orðinn næstbesti leikmaður Austurdeildarinnar á eftir LeBron James. 

Við skiljum æsinginn í fólki þegar það er loksins búið að setjast niður og gefa sér raunverulega tíma til að horfa á 3-4 leiki með Antetokounmpo. 

Við vorum líka hrifin þegar við sáum þessa að því er virðist ótakmörkuðu hæfileika piltsins fyrir tveimur árum síðan og ekki hafa þeir minnkað síðan. Við tökum því undir með fólki sem segir að ef drengurinn lærir nú einn daginn að skjóta körfubolta, munu framkvæmdastjórar liðanna í Austurdeildinni sækja um flutning yfir í Vesturdeildina næsta áratuginn - eða eitthvað sem líklegra yrði að teljast, snúa sér að kartöflurækt. 

Við skulum bara orða þetta svona núna. Framtíðin er sannarlega hans ef hann heldur áfram að bæta sig í öðrum eins stökkum. Giannis er vafalaust einn mest spennandi körfuboltamaður heims í dag og topp tíu leikmaður deildarinnar í framtíðinni, eða eins eins og lappir hans lofa.

Framtíð Bucks er að sama skapi björt, en það er stutt á milli bjartrar framtíðar og einskærrar örvæntingar í NBA deildinni, svona ef við horfum bara kalt á það hvað er mikið úrval af skrifstofufólki í deildinni sem veit hvað það er að gera (ekki mjög mikið) og hvað það er erfitt að vinna eitthvað í þessari deild (mjög, mjög erfitt).

WASHINGTON 4 - ATLANTA 2

Einvígi Washington og Atlanta fór nokkurn veginn eftir bókinni, af því Washington er í dag betra lið en Atlanta. Það er aðallega vegna þess að Atlanta er búið að láta frá sér dálítið af mannskap af því það sá ekki hag sinn í því að tvöfalda launasamninga við menn sem gerðu lítið annað en að gera sig að fíflum í úrslitakeppninni á hverju vori.

Forráðamenn Hawks hafa verið gagnrýndir fyrir að fara ekki alla leið í enduruppbyggingu sinni og klára dæmið með því að leyfa mönnum eins og Paul Millsap að fara frá félaginu (líkt og Al Horford) og sleppa því þá jafnvel að leigja sér froðusnakka eins og Dwight Howard. 

En fólk sem gagnrýnir þetta svona harðlega, tekur kannski ekki mið af því að það er óvíst að klúbbur eins og Atlanta myndi lifa það af að fara alla leið í uppbyggingunni og sprengja allt upp. Vitað er að þar á bæ eru menn logandi hræddir um að það arfaslaka aðdráttarafl sem liðið hefur í dag þrátt fyrir hlutfallslega velgengni, myndi hverfa með öllu ef forráðamenn félagsins tækju tappann alveg úr baðkarinu. Atlanta er ekki eini klúbburinn sem hugsar svona (sjá: t.d. Memphis) og það á sér sínar eðlilegu skýringar, þó megi vel vera að forráðamenn félaganna í NBA deildinni séu ef til vill að vanmeta gáfnafar stuðningsmanna liðanna sinna og misskilja óskir þeirra, því ætla mætti að stuðningsmenn sem eru með eitthvað á milli eyrnanna á annað borð, myndu flestir gangast við því ef félagið þeirra lýsti því yfir að það ætlaði að strauja harða diskinn og byrja upp á nýtt ef það yrði gert af skynsemi.

Haukarnir náðu að gera seríuna áhugaverða og jafna hana eftir að hafa tapað fyrstu tveimur leikjunum, það er ennþá til staðar einhver snefill af sterku leikskipulagi Mike Budenholzer þjálfara þó hann hafi ekki lengur mannskap til að framkvæma það (Schröderinn þýski kom sérstaklega á óvart og Millsap var hann sjálfur, sem er gott, en aðrir gerðu minna).En nóg um Atlanta að svo stöddu. Washington-liðið var eitt fárra liða í austrinu sem gat sagt það án þess að fara að hlæja að það hefði gert sæmilega hluti í vetur. 

Liðið var afspyrnu lengi í gang í haust af ýmsum ástæðum, en þegar menn voru að hugsa um að fara að copy-paste-a brandarana um fyrrum þjálfara liðsins yfir á Scott Brooks, tók liðið skyndilega kipp og var á góðri leið með að sanna sig sem ágætis lið í deildarkeppninni þegar henni lauk á dögunum. 

Byrjunarlið Wizards með bakveðina John Wall (hér fyrir neðan, troðandi yfir Atlanta) og Bradley Beal (myndin fyrir ofan) í fararbroddi er alveg ljómandi gott. Þar fyrir utan, er Brooks þjálfari á góðri leið með að troða tusku upp í þá sem fóru með hann eins og pínjötu á lokaárum hans í Oklahoma.

Við áttum okkur á því að við erum líklega ekki alveg saklaus þegar kemur að þessu tiltekna atriði, enda erum þegar farin að setja til hliðar tíma fyrir hinar ýmsu auðmýktaræfingar sem verður hægt að grípa til þegar Brooks og hans menn verða byrjaðir að velgja Cleveland hressilega undir uggum í úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar eftir nokkrar vikur. 

Eini gallinn við þetta þokkalega lið er að breiddin í því er eins nálægt því að vera engin og hægt er í NBA deildinni. Um leið og þetta lið þarf að hvíla lykilmenn svo einhverju nemi, kemur svona Westbrook-slagsíða á það og allt fer umsvifalaust í óefni.

Þetta mátti Washington reyna í einvíginu við Atlanta, en varamannabekkur höfuðborgarliðsins var ekki nógu lélegur til að eyðileggja fyrir því seríuna, þó líklega hafi það nú verið lykilmenn Washington sem áttu heiðurinn að því að Atlanta er komið í sumarfrí. 

Svona ef við sleppum allri kaldhæðni einhver í tuttugu slög á lyklaborðið eða svo.

Ef Washington gat lifað með því að vera með máttlítinn bekk í einvígi sínu við Atlanta, er ekki víst að það sama verði uppi á teningnum þegar það sækir Boston heim í annari umferðinni. 

Þegar þetta er ritað er það nú raunar svo að Boston er komið yfir 1-0 í því einvígi eftir að hafa skotið allt í kaf í fyrstu viðureign liðanna aðfararnótt 1. maí, en þetta eru áþekk lið sem reglulega hata hvort annað og því er engin ástæða til annars en að búast við ljómandi skemmtilegri og sjóðheitri rimmu milli þessara tveggja kandídata.

BOSTON 4 - CHICAGO 2

Og já, tölum aðeins um Boston hérna í lokin. Það er svo sem ekki aumingja Boston-liðinu að kenna þó það hafi hafnað í efsta sæti Austurdeildarinnar í deildarkeppninni með auma 53 sigra, en þannig var það nú samt af því Cleveland hafði hvorki heilsu né nennu til að hirða toppsætið.

Ekki misskilja okkur, 53 sigrar er ljómandi fínt, sérstaklega hjá liði sem vann 48 leiki árið áður, 40 árið þar áður og ekki nema 25 leiki árið þar á undan. 

En að 53 sigrar séu nóg til að hirða toppsætið í deildinni sinni? Deild, sem ofan á það er líklega sú lélegasta sem við höfum nokkru sinni séð á bráðum þrjátíu ára sporbaug okkar um NBA?

Kommon, Boston-karlar og konur. Þið eruð ekki nógu vitlaus til að láta það fara í taugarnar á ykkur ef einhver bendir ykkur á þá augljósu staðreynd að deildin sem þið náðuð að toppa í vetur hafi verið drasl. Þið þekkið söguna of vel - og þau ykkar sem eruð of ung til að þekkja hana, hljótið fjandakornið að átta ykkur á því að það er ekki áratugur frá því að Boston var með reglulega gott körfuboltalið. Lið, sem meira að segja vann meistaratitilinn, fjandakornið.Nei, Boston er ekkert rosalega sterkt körfuboltalið akkúrat núna, þó það sé fjarri því auðveldur andstæðingur. Boston 2017 er svona eins konar blanda af Everton, West Brom og Southampton, liðunum í sjöunda, áttunda og níunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu þegar þetta er ritað (farðu ekki að henda grjóti, leyfðu okkur að útskýra þetta betur).

Ef þú tækir þessi þrjú ofangreindu ensku úrvalsdeildarlið og blandaðir þeim saman, fengir þú út einhverja (mögulega dálítið grugguga) blöndu af relatífum stöðugleika og fornri sigurhefð (Everton), í bland við ágætis uppbyggingar- og æskulýðsstarf (Everton og Southampton) til framtíðar og loks hrjóstrugan dass af Tony Pulis (West Brom) til að kýla þetta saman og gefa þessu þennan nauðsynlega Boston-íska/Pulis-íska/Keflavíkur/ Óld Skúl/Tommy Heinsohn/Ég lem þig á næsta balli-fídus sem er inngróinn í erfðaefni Boston-búa (þó Boston sé strangt til tekið varla sama borg og hún var fyrir 30 árum).

Ofangreint hljómar kannski ekki eins og fullkomin uppskrift að meistaraliði, enda er Boston-liðið í dag ekkert meistaralið.

Ef þú færð þér hinsvegar stöndugt prik og rótar aðeins í þessu, sérðu að þarna eru bæði bein og trefjar og seigustu sinar; það vantar bara smá vöðvamassa á þetta og þá er hægt að klessa skúlptúrnum saman.

Ef þessi Frankensteins-metafóra okkar hefur skilað sér alla leið inn í hug ykkar, kæru lesendur, áttið þið ykkur á því af hverju við erum ennþá dálítið skeptísk á möguleika Celtics í úrslitakeppninni þetta árið.

Það var einmitt þessi ófullkomni óskapnaður þeirra Celtics-manna sem hóf leik í úrslitakeppninni fyrir um tveimur vikum og byrjaði á því að tapa fyrstu tveimur leikjunum sínum á heimavelli fyrir öðrum og enn hræðilegri óskapnaði - glórulaust samsettri ófreskjunni Chicago Bulls.

Hérna þurfum við að staldra aðeins við og láta hugann að reika aðeins aftur: 

Ef við sjáum Celtics-lið dagsins í dag fyrir okkur sem frumgerð hinnar sígildu ófreskju doktors Frankenstein úr gotnesku skáldverki Mary Shelley frá 1818, dytti okkur helst í hug að lýsa Chicago-liðinu 2017 eitthvað á þá leið að það líktist helst einhverju hefði orðið eftir á botninum ef Quasimodo úr Hringjaranum frá Notre Dame hefði eignast afkvæmi með Jason Voorhees úr Föstudeginum þrettánda og troðið því í gegn um trjákurlara.

Það sem við erum að reyna að segja hérna, er að á ýmsu var von þegar Boston og Chicago hófu leik á dögunum, en ef við eigum að vera samkvæm sjálfum okkur og halda áfram að greina enivígið, verðum við að tvíkúpla og skipta hér gróflega um gír.

Ekki er útilokað að einhver okkar verði búin að gleyma því þegar einvígi Boston og Chicago í 1. umferð úrslitakeppninnar 2017 verður gert upp í framtíðinni, hvað kaldlyndi örlaganna spilaði stóran þátt í umgjörð fyrstu leikjanna og eflaust einvígisins alls.Látið ykkur ekki detta það í hug þó við sláum á létta og sumpart ógeðfellda strengi við þetta tilefni, að við ætlum með því að gera lítið úr raunum aðalstjörnu Boston-liðsins Isaiah Thomas og félaga hans allra daginn áður en rimman hófst. Thomas sýndi fádæma hugrekki og skapfestu þegar hann fór fyrir liði sínu í gegn um alla seríuna þrátt fyrir að vera nærri bugaður af sorg eftir að hafa misst yngri systur sína í umferðaróhappi.

Við vitum að landar okkar ranghvolfa stundum augunum yfir tilhneigingum Bandaríkjamanna til að blóðmjólka minnstu tilfinningaleg tilefni og matreiða úr þeim fréttir og tilkynningar, en þessi skelfilega uppákoma fellur ekki í þann flokk - ekki í okkar bókum í það minnsta.

Það er ótrúlega auðvelt að hrífast af baráttuanda og skapgerð Isaiah Thomas alla ósköp venjulega daga vikunnar og því gefur augaleið að þessi hræðilegi atburður hefur þjappað bæði leikmönnum, þjálfurum og öllum stuðningsmönnum Celtics enn betur að baki þeim stutta, sem þegar átti hug og hjörtu flestra sem að klúbbnum koma og auðvitað enn víðar.Hafði harmleikur Isaiah Thomas áhrif á það að Boston varð fyrsta 1. sætis-liðið til að tapa fyrstu tveimur heimaleikjum sínum í sjö leikja seríu í fyrstu umferð? 

Tvímælalaust einhver, en eins og til þess að leypa narratífinu öllu upp í loft (og ýta enn betur undir ófreskju- og óskapnaðarmyndlíkingu okkar að ofan), var það týndi Boston-sonurinn Rajon Rondo (nú hjá Chicago) sem setti hlutina formlega á haus hjá Celtics með því að taka skyndilega upp á því að byrja að spila eins og maður eftir að hafa hagað sér eins og spjátrungur og lydda síðan (áður) hann fór frá þeim grænu forðum.

Og eins og eftir bókinni, þegar Rondo var búinn að eyðileggja allar njósnaskýrslur Boston-liðsins og vera maðurinn á bak við sigur Chicago í tveimur fyrstu leikjunum, féll hann sjálfur úr leik vegna meiðsla og átti ekki afturkvæmt.

Eins og þið vitið, var eftirleikurinn tæknilega séð auðveldur fyrir Boston, sem tók á sig rögg, sópaði næstu fjórum leikjum og sendi Chicago-ófögnuðinn í sumarfrí.

Ekki halda að við höfum eitthvað á móti hinu ágæta körfuknattleiksfélagi Chicago Bulls þó við látum hafa það eftir okkur við þetta tilefni að það hefði orðið hið mesta hneyksli ef þessi tiltekna útgáfa af Chicago-liðinu hefði farið áfram í keppninni og sent þá grænu í snemmbúið sumarleyfi.

Við viðurkennum það, við fundum dálítið til með þessum örfáu stuðningsmönnum Bulls sem létu Rondo leiða sig inn í þennan sveitarómans sem enga hafði fæturna. 

En þroskaðir stuðningsmenn líta ekki við glópagulli eins og því sem forráðamenn félagsins buðu þeim upp á í vetur. 

Chicago verður að líta í eigin barm, svo ekki hljóti harm, eins og götuskáldið Mola-Ísar orti í brag sínum Gætt´að því hvað þú gerir, maður! fyrir réttum aldarfjórðungi. 

Jafnvel hroðvirknisleg heilræði á borð við þetta eru þó líklega allt of seint á ferðinni eins og annað hjá Chicago þessa dagana og staða mála hjá Bulls í dag er ekki annað en lítið en sársaukafullt dæmi um það hvað gæfan er fallvölt í NBA deildinni okkar.

Eins og áður kom fram í þessari endalausu hugleiðingu, hefur Boston-liðið byrjað talsvert betur í einvígi sínu við Washington en það gerði þegar það tók á móti Chicago um daginn. Það er enda talið mun vænlegra til árangurs úrslitakeppni í körfubolta að hefja einvígi á því að vinna fyrsta leik en að tapa honum.


Þar eð við vorum ekki þeirrar gæfu aðnjótandi að sjá umræddan leik í beinni útsendingu (það var eitthvað verið að spila körfubolta á Íslandi á sama tíma - meira um það síðar), ætlum við að brjóta karakter að þessu sinni og sleppa því að fabúlera um eitthvað sem við vitum ekkert um (eiður sem ekki á eftir að endast að eilífu, við áttum okkur á því).

Við segjum því ekki annað um Boston-liðið að svo stöddu en að þeirra er framtíðin, að minnsta kosti á þessu stigi málsins - og sömu sögu er að segja af liði höfuðborgarbúa. Við skoðum það betur þegar fram líða stundir og kannski þegar við verðum búin að skrifa önnur áttahundruðogfjörutíuþúsund orð eða svo um fyrstu umferð Vesturdeildarinnar, sem eins og þið vitið er öllu merkilegri pappír en sá sem hér var rúllaður upp og reyktur.

Við biðjum ykkur engu að síður velvirðingar á því hvað er langt síðan þið heyrðuð frá okkur, kæru lesendur. Ykkur er óhætt að trúa því að þetta ótímabæra hlé okkar frá ritstörfum olli okkur hundrað sinnum meira hugarangri en ykkur nokkru sinni, en þið ráðið því hvort þið trúið því. 

Við þökkum þeim sem voru að hugsa um að senda okkur línu og hvetja okkur til ritstarfa á ný fyrir hugulsemina. Hún nær auðvitað mjög langt.

Þangað til næst, elskurnar...

Ritjstórnin