Monday, May 8, 2017

Þess vegna elskum við Isaiah


Við værum ekki samkvæm sjálfum okkur ef við hefðum ekki skrifað nokkur orð um eina af hetjum úrslitakeppninnar til þessa, hinn smávaxna Isaiah Thomas hjá Boston Celtics.

Við minntumst aðeins á þrautagöngu hans í einvíginu við Chicago í pistlinum um Austurdeildina á dögunum, þar sem við sögðum ykkur frá því þegar Thomas lenti í þeirri hræðilegu lífsreynslu að missa unga systur sína í bílslysi daginn fyrir fyrsta leik í úrslitakeppninni.

Það kemur fyrir annað slagið að leikmaður eða leikmenn í NBA deildinni spila svo vel að þeir heilla okkur upp úr skónum og gera okkur að aðdáendum sínum. Hrifning okkar og allt að því ást á Russell Westbrook undanfarin ár er gott dæmi um þetta, þar sem leikmaður sem strangt til tekið spilar á skjön við öll þau prinsipp sem okkar uppáhalds leikmenn spila venjulega eftir.

Westbrook er bara svo skemmtilegur persónuleiki, líkamleg geimvera og fellibylur í mannsmynd, að hann neyddi okkur á sitt band. Þetta er ekki algengt, en þeir segja að ástin sé blind og þetta er gott dæmi um það.

Þessi hrifning okkar af hinum og þessum leikmönnum í deildinni getur oft haft eitthvað með persónuleika þeirra og/eða skapgerð að gera, en oftast er það nú spilamennskan sem ræður mestu um það hvort við "föllum fyrir leikmönnum" eða ekki.

En nú fyrir nokkrum dögum lentum við í nokkru sem við höfum aldrei lent í áður, þegar við féllum fyrir leikmanni, minnst út af hæfileikum hans og mestmegnis út af skapgerð hans andlegum styrk, eljusemi, dugnaði og góðum húmor ofan á allt saman.

Þetta er auðvitað Isaiah Thomas, leikmaður Boston Celtics.



Þessi hrifning okkar á Thomas er líklega búin að vera lengi að gerjast, því við munum vel eftir því þegar hann var að vinna leiki fyrir Sacramento á sínum tíma og sanna að þó hann gæti ekki spilað vörn til að bjarga lífi sínu - mestmegnis vegna smæðar sinnar - gat hann slúttað leikjum á pari við þá bestu, því það gat enginn maður stöðvað hann einn á einn og getur ekki enn.

Thomas er búinn að fara ansi langt síðan hann var að koma af bekknum hjá Sacramento Kings, sem lét hann auðvitað fara fyrir lítið úr því var hægt að nota hann eitthvað. Eftir stutt stopp í Phoenix endaði kappinn svo hjá þeim grænu á klink og er búinn að borga það ellefufalt til baka eða meira.

Eins og við minntumst eflaust á í pistlinum um Boston um daginn, er það nú ekki þannig að sé eitthvað flókið að hrífast af Isaiah Thomas bæði sem leikmanni og karakter. Og ekki varð það flóknara í vetur þegar hann var einn stigahæsti leikmaður deildarinnar og sprakk út í hverjum 4. leikhlutanum á fætur öðrum og tryggði Boston efsta sætið í austrinu.

Og svo kemur þessi martröð daginn fyrir fyrsta leik í úrslitakeppni - heimaleik við Chicago. Þið þekkið framhaldið. Thomas var grátandi á hliðarlínunni þegar skammt var til leiks, sem varð til þess að Charles Barkley lýsti því yfir að sér þætti óþægilegt að horfa upp á Thomas þjást svona þegar hann átti að vera að spila körfubolta.

Fjöldi fólks tókst ætlunarverk sitt og náði að raka upp skít þegar það ákvað að Barkley hefði verið að gagnrýna Isaiah Thomas með ummælum sínum (sem vissulega voru ekki orðuð neitt snilldarlega). Hann var auðvitað ekki að því. Honum fannst bara fokkíng óþægilegt að sjá fullorðinn mann í ekkasogum á íþróttavelli þegar hann átti að fara að spila körfuboltaleik, andskotinn hafi það!



Fólk sem hefur ekki þurft að smakka á lífinu heldur kannski að Isaiah Thomas hafi bara hrist þessi hræðilegu tíðindi af sér á tveimur dögum og einbeitt sér að fullu að körfubolta eftir það, en auðvitað er þetta langt í frá svo einfalt. Svona sársauki varir mjög lengi, kemur í bylgjum og það er engin leið að segja til um það hvenær þessi hræðilega staðreynd verður 100% raunveruleg í augum Thomas.

Vonandi hefur hann náð að gera þetta að mestu upp og kveðja systur sína í jarðarförinni og á minningarathöfninni um hana, sem haldin á hinum enda Bandaríkjanna - á að giska fimm tíma flugferð frá Boston í miðri úrslitakeppni.

En Thomas gerði annað og meira en að mæta í alla leikina, því með aðeins örfáum undantekningum, spilaði hann eins og hann var búinn að gera í allan vetur og dró Boston-liðið á herðum sér sóknarlega. Hann fór fyrir frábærri endurkomu Celtics gegn Bulls, þar sem liðið sneri við blaðinu og vann fjóra í röð eftir að hafa tapað fyrstu tveimur leikjunum á heimavelli (aldrei gerst áður í 7 leikja seríu í 1. umferð).

Þegar hann var búinn að klára Chicago, flaug hann vestur til Washington-fylkis, fylgdi systur sinni til grafar, hélt ræðu, þar sem hann sagði sem var að hann hefði verið að hugsa um að gefast upp á öllu saman, en mundi svo að systir hans hefði viljað að hann héldi ótrauður áfram í stað þess að gefast upp (en ekki hvað?)

"Þegar ég fékk þessar fréttir, langaði mig satt best að segja að gefast upp og hætta ," sagði Thomas á minningarathöfninni um systur sína. "Og ég hef aldrei á ævi minni hugsað um að hætta. En svo rann það upp fyrir mér að það kæmi ekki til greina að hætta. Það væri að velja auðveldu leiðina. Ég ætla að halda áfram fyrir systur mína, af því ég veit að hún hefði viljað að ég héldi áfram..."

Svo stökk okkar maður upp í næstu vél austur aftur og skoraði 33 stig í sigri Boston á Washington í leik eitt nokkrum klukkutímum síðar.



Hann var þó ekki hættur að heilla, sá stutti, því á einhverjum tímapunkti í upphafi þessarar grófu seríu gegn Washington (þessi lið HATA hvort annað af ástríðu) varð hann fyrir því óláni að missa tönn í barningnum og þurfti oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að fara í aðgerðir til að láta lappa upp á kjaftinn á sér. Hann er sagður hafa verið meira en tíu klukkutíma í stólnum hjá tannlækninum.

Og svo skoraði hann jú 53 stig og tryggði Boston sigur í æsispennandi framlengdum leik tvö og kom sínum mönnum í algjöra lykilstöðu í einvíginu. Það gerist ekki á hverjum degi að menn skori 53 stig í úrslitakeppni í NBA deildinni  - og enn sjaldnar (aldrei) að menn sem eru ekki andskoti mikið hærri en 170 sentimetrar á hæð geri það. Þennan leik, eins og sjálfssagt alla aðra sem hann á eftir að spila um ævina, tileinkaði hann systur sinni, sem hefði átt afmæli þennan dag.

Þessi 53 stig voru það næstmesta sem nokkur leikmaður hefur skorað í sögu Boston Celtics, en það sem var eftir vill enn áhrifameira var að hann skoraði 29 af þessum stigum sínum í fjórða leikhluta og framlengingu - þar sem Thomas einn skoraði fleiri stig en allt Washington-liðið.

"Óskiljanlegt," var orðið sem Brad Stevens þjálfari notaði þegar hann var beðinn að lýsa frammistöðu Isaiah Thomas í gegn um mótlætið í úrslitakeppninni.



Danny Ainge, forseti Boston Celtics, er ekki maður sem er auðvelt að hrífa, enda hefur hann séð ýmislegt á löngum ferli sem leikmaður, þjálfari og síðar yfirmaður í NBA deildinni. Ainge tjáði ESPN að Thomas væri búinn að vera góð fyrirmynd fyrir alla hjá félaginu fyrir það hvað hann hefði höndlað pressuna og mótlætið vel og þá er spilamennska hans ótalin, en Ainge tjáði sig um hana í útvarpsviðtali í Boston á dögunum.

"Maður missir bara hökuna í gólfið þegar hann byrjar," sagði Ainge. "Hann er búinn að eiga einhverja tíu leiki eins og þennan (leik 2 gegn Washington) í vetur og það er alltaf jafn ótrúlegt að horfa upp á það. Ég veit ekki hvernig hann fer að þessu. Hann er gríðarlega hæfileikaríkur og er með ótrúlegan sigurvilja. Hann er búinn að eiga einstakt tímabil í vetur og ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að lýsa þessu öðruvísi en það að það er ekki auðvelt að hrífa mig á körfuboltavelli, en hann er búinn að gera það aftur og aftur í allan vetur," sagði Ainge.

NBA deildinni er náttúrulega skítsama þó fólk sé að skrifa lofræður um Isaiah Thomas og þegar þetta er skrifað er Washington búið að jafna metin í einvíginu í 2-2 með góðum sigrum á heimavelli sínum, en það breytir engu í þessu samhengi. Það sem við erum að reyna að segja er að það getur vel verið að þú sért ekki með hjarta ef þú ert ekki dálítið hrifin(n) af Isaiah Thomas og því sem hann er búinn að afreka í vetur.

Það er ekki nema handfylli af gaurum af þessu stærðarkalíberi sem hefur á annað borð náð að festa sig í sessi sem NBA leikmenn á síðustu þrjátíu árum, en enginn þeirra kemst með tærnar þar sem Thomas hefur hælana sem leikmaður.

Með öðrum orðum, hann er allt of góður til að við séum eitthvað að hjala um það að hann sé "góður á miðað við hvað hann er mikill tittur" eða eitthvað þannig.

Isaiah Thomas er einfaldlega einn skæðasti sóknarmaður NBA deildarinnar í dag, jafnvel þó hann sé örugglega oft eini maðurinn sem trúir því í alvörunni.

Neikvæðir leiðindapésar munu halda áfram að benda á það að Isaiah Thomas muni alltaf gefa megnið af því sem hann gefur Boston-liðinu í sókninni til baka um leið og hann fer yfir á hinn enda vallarins.

Því miður er það á vissan hátt satt og það verður alltaf erfiðara og erfiðara fyrir Boston að "fela" Thomas í vörninni með því að láta hann dekka leikmann eða menn sem engin ógn er af sóknarlega. Það er erfitt á móti Washington og gæti verið ómögulegt í seríu gegn liðum eins og Cleveland og Golden State.

En Isaiah Thomas er búinn að hlusta á svona tuð síðan hann var krakki - að hann geti ekki þetta og geti ekki hitt - en hann er nú samt Stjörnuleikmaður sem var að skora næstum því 30 stig að meðaltali í leik hjá einu frægasta körfuboltafélaagi heims í sterkustu körfuboltadeild heims. Það er kannski táfýla af hárinu áhonum, en hann er nú samt fyrsti kostur hjá liðinu sem vann Austurdeildina í vetur og er búinn að vinna helvítis helling af leikjum fyrir liðið sitt í vetur.

Og hann er búinn að sýna okkur hvað hann er magnaður karakter með spilamennsku sinni og framkomu undanfarnar vikur. Við vitum ekki með ykkur, en við erum öll grjóthörð í #TeamIsaiah hérna á ritstjórninni. Annað væri bara... kaldlyndi og leiðindi í hugum okkar.

Isaiah Thomas er fulltrúi okkar venjulega fólksins í NBA deildinni. Hann er búinn að sanna það að ef maður er nógu harður, duglegur og ákveðinn, er hægt að afreka allan andskotann í þessu lífi.

Drengurinn er 175 sentimetrar á hæð en er samt einn besti sóknarmaðurinn í deild þar sem það er að verða algengara en hitt að leikstjórnendur, sem í gegn um tíðina hafa venjulega verið minnstu mennirnir á vellinum, séu orðnir um og yfir tveir metrar á hæð.

Og þá eru ótaldir allir risarnir sem bíða átekta í teignum og nýta hvert tækifæri sem þeir fá til að berja menn eins og Thomas í gólfið ef þeir ráðast á körfuna. Þetta er ekki auðvelt djobb, en Isaiah Thomas lætur sig hafa það á hverjum degi, oftast með bros á vör. Svona næstum eins og hann sé búinn að fatta það að hann sé raunverulega fulltrúi okkar allra þarna úti.