Monday, May 8, 2017

Í fréttum var þetta helst: Vesturdeild


Fyrsta umferðin í úrslitakeppni NBA er örugglega orðin nokkuð fjarlæg í minnum margra ykkar, en við ætlum nú samt að gera hana upp hérna á NBA Ísland. Það gerum við af því við vorum svo vitlaus að gera upp fyrstu umferðina í austrinu um daginn, vegna þess að úrslit í 1. umferðinni gætu haft áhrif á framtíð liða og síðast en ekki síst út af sögulega samhenginu.

Það er nefnilega gott að eiga það á blaði hvað gerðist í úrslitakeppninni 2017 ef okkur langar að rifja það upp eftir nokkur ár. Þannig getið þið, með smá þolinmæði, rifjað það upp hvernig úrslitakeppnin leit út í okkar (og stundum ykkar) augum allt aftur á síðasta áratug. En áður en við förum lengra út fyrir efnið, skulum við kíkja á hvað gerðist í 1. umferð úrslitakeppninnar í Vesturdeildinni.GOLDEN STATE 4 - PORTLAND 0

Meistaraefnin í Golden State hefðu sennilega þurft að vinna hvern einasta leik á móti Portland með fimmtíu stiga mun til að fá einhvern til að segja að væri meistarabragur á þeim, af því andstæðingurinn í fyrstu umferðinni var satt best að segja ekki mjög sterkur. En það er einmitt þess vegna sem lið reyna að vinna alla þessa leiki í deildarkeppninni - þá eru meiri líkur á því að þau fái "létta" andstæðinga í fyrstu umferð.

Og það kom á daginn að Portland reyndist ekki erfiður andstæðingur fyrir Golden State, jafnvel auðveldari en þegar liðin mættust í annari umferðinni á síðustu leiktíð, þar sem Portland vann þó amk einn leik. Þar voru flestir leikirnir jafnir og spennandi (Curry missti af einhverjum þeirra vegna meiðsla), en það var ekkert svona uppi á teningnum í ár. Þriðji leikurinn í Portland var einna helst spennandi, en hinir þrír minntu helst á hljóðlátar aftökur.

Stuðningsmenn og konur Portland voru dugleg að benda á að liðið þeirra gekk ekki heilt til skógar í úrslitakeppninni og að það hefði haft áhrif. Líklega er það rétt, þó við efumst um að Bosníumaðurinn Jusuf Nurkic hafi verið það sem skildi á milli 4-0 eða 4-3 sigurs Golden State í einvíginu. 

Nurkic gerði þó heilmikið gagn eftir að hann kom til Portland frá Denver og skoraði 15 stig, hirti 10 fráköst og varði 2 skot að meðaltali í leik hjá Portland. 

Hann gat þó því miður aðeins spilað nokkrar mínútur gegn Golden State og var eflaust sárt saknað þó úrslitin í seríunni hefðu aldrei staðið og fallið með honum - við bara kaupum það ekki.

Stundum getum við mælt út hvað einvígi í úrslitakeppninni eru merkileg, gæðaleg eða þýðingarmikil á því hvað innsæi okkar segir á meðan við fylgjumst með rimmunni og hvað pennann í okkur langar að segja að henni lokinni.

Á síðustu leiktíð skrifuðum við alveg örugglega eitthvað fallegt um Portland og sögðum stuðningsmönnum liðsins að láta 4-1 niðurstöðu á móti Warriors ekki fara með sig í þunglyndi, því það vantaði alls ekki mikið upp á til að Portland gæti orðið eitt sterkasta lið Vesturdeildarinnar.

Að þessu sinni var það ekki Portland sem okkur langaði að tala um að einvígi loknu, heldur Golden State. Þó að Warriors hafi ekki unnið alla leiki í einvíginu með fimmtíu eins og við tókum fram í byrjun, voru þrír af sigrum Golden State sérstaklega áhrifamiklir. 

Sérstaklega fannst okkur fjórði leikurinn draga upp mynd af liði sem var mætt í úrslitakeppni til að afgreiða sín mál en ekki draga lappirnar. 

Hversu oft höfum við séð lið sem er undir 3-0 vinna einn svona á heimavelli til að gefa stuðningsmönnum sínum eitthvað pínulítið til að fara með inn í sumarið?

Eitthvað smávegis til að bjarga litlum hluta af stoltinu og enda leiktíðina ekki í eintómu þunglyndi? 

Leikmenn Golden State vissu að Portland, vængbrotið eða ekki, er alveg með mannskap í að vinna leik fjögur og tryggja sér þannig svokallað herramannssóp (4-1) í staðinn fyrir fullgert sóp (4-0).

Nei. 

Leikmenn Warriors tóku ekkert slíkt í mál. Þeir ætluðu að klára þetta mál og ná að hvíla sig aðeins áður en næsta umferð hæfist. Og það gerðu þeir. Vá. Þeir gjörsamlega slátruðu Portland í fjórða leiknum og voru búnir að sýna heimamönnum strax í fyrsta leikhluta að þeir voru ekki að fara að sjá til sólar í þessu einvígi á nokkrum tímapunkti. Bara, nei!

Á myndinni hérna fyrir neðan sérðu hvað gerðist á fyrstu c.a. sex og hálfri mínútunni í leiknum (ætli þú verðir samt ekki að smella á þetta og halda áfram að hamast á myndinni þangað til þú færð hana í viðráðanlegri stærð - hver veit).Okkur er alveg sama hvað öðrum finnst um þetta. Hvort þetta telur ekki sem meistarataktar af því Portland-liðið er svo slakt eða hvað. Þessi byrjun Golden State í Portland í leik fjögur, sýndi okkur tvennt alveg svart á hvítu: Að Warriors-liðið væri óheyrilega sterkt, þó meiðsli og annað vesen hefðu komið í veg fyrir að liðið næði að komast á það flug sem það hefði viljað í vetur og að leikmönnum liðsins væri alvara - ekkert rugl.

Svo getið þið staldrað aðeins við og spáð í hvað við vorum að segja. Að Golden State hafi eiginlega aldrei komist aaalveg í taktinn sinn í vetur út af meiðslum (og það er alveg satt, fjandakornið), en hafi samt unnið 67 leiki í deildarkeppninni.

Chicago Bulls (x2), Boston Celtics, Philadelphia 76ers og Los Angeles Lakers, eru einu klúbbarnir sem hafa unnið fleiri en 67 leiki á keppnistímabili í NBA - fyrir utan Warriors-liðið sjálft auðvitað. Nei, þeir komust ekki alveg í takt... Einmitt.

Við getum meira að segja sagt ykkur hvað stóð upp úr því sem stóð upp úr í einvígi Warriors og Blazers. Það var ekki sóknarleikur Curry og Durant, sem var svo góður að hann var hreinlega ósanngjarn á köflum. Nei, það var spilamennska Draymond Green og þá sérstaklega varnarleikur hans, sem stóð upp úr í okkar augum. Eins og kannski oft áður.

Draymond Green verður að öllum líkindum kjörinn varnarmaður ársins í NBA í ár og sýning hans á móti Portland var eins og eldrauða berið á toppinn á þeim ís í okkar huga. Vissirðu t.d. að Draymond Green er efstur allra í vörðum skotum í úrslitakeppninni? Hann er ekki hægt þessi maður og liðið sem hann leikur með ekki heldur. 

Við höfum sagt þetta áður og gætum átt eftir að endurtaka það; við gætum átt eftir að horfa til baka eftir nokkur ár og gera okkur grein fyrir því að þetta Warriors-lið hafi verið eitt besta lið sögunnar, svo við notum ekki stærri orð að svo búnu. Það er bókstaflega ósanngjarnt hvað þetta lið er hlaðið hæfileikamönnum í vörn og sókn.

SAN ANTONIO 4 - MEMPHIS 2

Rimma San Antonio og Memphis var sannarlega ekki sexí á pappírunum, enda horfðum við ekki mikið á hana. Þar náði Memphis enn og aftur að sanna að þó hluti af lykilmönnunum sem mynduðu grit and grind einkenni liðsins séu komnir langt yfir léttasta skeið, er langt frá því auðvelt að slá þetta lið út úr úrslitakeppni.

Það má svo sem vel vera að menn eins og Zach Randolph, Tony Allen og Vince Carter séu orðnir helvíti gamlir, en höfum hugfast að það eru Mike Conley og Marc Gasol sem bera þetta lið á herðum sér. Það er eiginlega bara sorglegt að hugsa sér hvað Memphis hefði getað gert í úrslitakeppninni - gegn San Antonio eða hvaða liði sem er - ef það hefði haft þá Chandler Parsons og Tony Allen heila.

En því miður er þetta stundum svona hjá félögum sem keyra á meiðslakálfum og gamalmennum. Þau eru sjaldan með sitt sterkasta lið þegar á þarf að halda og í tilviki Chandler Parsons þarf hreinlega að fara að athuga hvort þessi maður er körfuboltamaður eða bara einhver (hrikalega fallegur) laumufarþegi sem er að stela kaupinu sínu hjá Memphis. 

Parsons ræfillinn getur svo sem lítið að þessu gert, og félagið ekki heldur, en hann verður ríkari með hverjum deginum sem líður á einum versta samningi sem undirritaður hefur verið í NBA deildinni - sem nota bene gildir út keppnistímabilið 2020 (hnnngh!). Parsons þáði 21 milljón dollara í laun á nýafstaðinni leiktíð, þar sem hann spilaði aðeins 34 leiki og var hræðilegur í þeim af því hann var aldrei heill. 

Chandler - fimmtándi launahæsti leikmaður NBA deildarinnar - skaut þannig aðeins 34% utan af velli og 27% í þristum og skoraði aðeins sex stig að meðaltali í leik. Það er ekki Chandler Parsons sem var ágætur varnarmaður, góð skytta og hrikalega myndarlegur fjórtán stiga maður á árum sínum í Texas með Houston og Dallas.

En það gæti því miður verið sá Chandler Parsons sem Memphis stendur til boða á næstunni og klárar samning sinn árið 2020 þar sem hann mun þiggja 25 milljónir dollara fyrir árið. 

Memphis-liðið datt ekki eins mikið niður og fólk var búið að spá í haust. Við létum ekki blekkjast af öllu skruminu um að Memphis væri dautt af því það væru allir orðnir og gamlir og of meiddir. Þeir eru reyndar orðnir allt of gamlir og allt of meiddir, en eins og við komum inn á áðan, er kjarninn í þessu liði mjög góður og það er ekki hægt að segja annað en að David Fizdale hafi gert fína hluti með liðið á sínu fyrsta ári sem þjálfari. 

Helsta ástæðan fyrir þessum hrakspám var heldur ekki spilamennska liðsins, heldur sú staðreynd að það er ekki sexí og margir eru orðnir hundleiðir á því.

Svo fór þó að lokum að San Antonio reyndist of stór biti fyrir Bangsana og þar munaði mest um að það var enginn leikmaður í hópnum hjá Memphis sem gat svo mikið sem fengið Kawhi Leonard til að hugsa sig um - hvað þá að stoppa hann. 

Ef þeir hefðu verið heilir, hefðu þeir Chandler Parsons og Tony Allen fyrst og fremst séð um að dekka Leonard, en hvorugur þeirra spilaði sekúndu í úrslitakeppninni, sem trúlega hafði meiri áhrif á seríuna en flest annað.

Fyrir vikið fór Leonard gjörsamlega hamförum í þessu einvígi með 31 stig, 6 fráköst, 4 stoðsendingar, 2 stolna og skaut 55% utan af velli, 48% í þristum og 97% á línunni. 

Grunur leikur á um að hann hafi á einhverjum tímapunkti haft sig til flugs í einvíginu, en það hefur ekki fengist staðfest. Memphis fann aldrei svar við Leonard í einvíginu, sem er auðvitað grátlegt fyrir stuðningsmenn Húnanna.

Það er erfitt að spila mikið betur en Kawhi gerði í þessari rimmu, en við ætlum að leyfa okkur að fullyrða að þó hann sé stórkostlegur leikmaður, hefði skotnýtingin hans ekki verið svona falleg ef hann hefði verið með Tony Allen í endajöxlunum á sér alla seríuna. Það er bara þannig.

Sigrar í seríum eru að verða eitthvað sem ekki er lengur hægt að búast við í Memphis, en tvennt er alveg öruggt að við fáum alltaf frá þessu liði. Andstæðingur þess græðir á því að spila við Grizzlies ef hann kemst á annað borð áfram og missir ekki hálft liðið í meiðsli eftir slagsmálin við Birnina og er því tilbúinn í hvaða slag sem er. 

Verst að andstæðingar Memphis eru stundum dálítið lurkum lamdir og þreyttir eftir einvígin og þannig var það með San Antonio, sem hefur aldrei verið ólíkara sjálfu sér en þegar það steinlá heima fyrir Houston í fyrsta leik í næstu umferð.HOUSTON 4 - OKLAHOMA 1

Þið vitið vel að Russell Westbrook á ákaft stuðningsfólk á skrifstofum NBA Ísland og að sama skapi hvað við höfðum gaman af því að fylgjast með honum fara eins og fellibylur í gegn um deildarkeppnina, þar sem fullyrt hefur verið að hann verði kjörinn leikmaður ársins (við ritum meira um það síðar, þegar úrslit liggja staðfest fyrir).

Þið ættuð samt líka að vita að þó við séum ekki sérstaklega gáfuð hérna á ritstjórninni, erum við samt ekki eintómir slefandi hálfvitar. Við sáum alveg hvað gerðist í einvígi Houston og Oklahoma þegar fór að síga á ógæfuhliðina hjá Oklahoma. 

Sérstaklega þegar leikmenn Oklahoma áttuðu sig á því að Houston væri einfaldlega með betra lið en þeir af því það var með fjölda vopna sem það gat gripið til í sóknarleiknum, meðan Oklahoma hafði aðeins þessa einu og illa stilltu vélbyssu sem var farin að skjóta á sína eigin menn undir lok rimmunnar.

Hafi Russell Westbrook og Oklahoma sýnt okkur það í deildarkeppninni að það væri hægt að ná sæmilegum árangri með lið þar sem einn maður gerir bókstaflega allt í sóknarleiknum, fuku allar slíkar kenningar á haf út þegar liðið mætti öðru og sterkara liði í úrslitakeppninni.

Og þegar Russell Westbrook sá fram á það að öll sund væru að lokast, gerði hann það sama og allir gera í þessari stöðu - hann greip til eðlisávísunar sinnar. Og eðlisávísun Russell Westbrook segir honum alltaf að skjóta! Alltaf! Og það gerði hann. Og hitti illa. Og bauð upp á tölfræði sem hefur ekki sést áður. Og Oklahoma tapaði.

Nei, við ætlum ekki að verja það hvernig Russell Westbrook spilaði á köflum í þessu einvígi, sérstaklega á löngum kafla í fjórða leiknum og megnið af þeim fimmta. Þar var Vondi-Russ við stjórnvölinn og skaut og skaut, skaut oft á samherja sína svo þeir máttu hlaupa sem fætur toguðu til að bjarga eigin skinni. Svona eins og fólk hleypur undan froskaregni.

Restina af einvíginu, var Russell Westbrook bara ofurstjarnan sem hann er, alveg eins og James Harden vinur hans hinumegin. Það verður eitthvað lítið minnst á það í framtíðinni að Westbrook hafi klárað einvígið með 37 stig, 12 fráköst, 11 stoðsendingar og 2 stolna bolta að meðaltali í leik, þó það skyggi vissulega á tölfræðina hans að hann hafi aðeins hitt úr einu af hverjum fjórum (mörgum ótímabærum og illa ígrunduðum) þriggja stiga skotum sínum og liðið hans tapað fjórum af fimm leikkjum í einvíginu.


Það er til fullt af fólki sem ekki aðeins hatast út í Westbrook, heldur gerir það af metnaði og oft með alls konar ranghugmyndir í farteskinu. Eins og til dæmis þær að James Harden hafi sko ekkert meiri hjálp í Houston heldur en Russell Westbrook í Oklahoma. Þessu fólki er meira að segja alvara þegar það lætur svona út úr sér. 

Við eigum svo sem ekki innistæðu fyrir því að vera að gagnrýna annað fólk fyrir skoðanir sínar á hlutunum, en það eru takmörk fyrir því hvað við getum hlustað á mikla vitleysu áður en við neyðumst til að berja einhvern í andlitið með stunguskóflu.

Houston var með níu leikmenn í hópnum hjá sér sem skoruðu 9 stig eða meira að meðaltali í leik í vetur, á meðan Oklahoma var með fjóra slíka - sá fimmti gekk í raðir liðsins í febrúar (Taj Gibson með 9,0 stig slétt). 

Næst stigahæsti leikmaður Oklahoma í úrslitakeppninni er með 26% þriggja stiga nýtingu að meðaltali á ferlinum og skaut 14% úr vítum í einvíginu við Houston. 

Já, það var Andre Roberson, sem reyndar skaut ótrúlega utan af velli í seríunni, en það er aukaatriði. Hér til hliðar sérðu skotkortið hans Roberson í deildarkeppninni í vetur. Rautt þýðir "undir meðalhittni í deildinni" og eins og þú sérð, er þetta skotkort í rauðara en samnefnt brúðkaup í Game of Thrones. 

Þú vinnur ekki mjög marga meistaratitla þegar Andre flippin Roberson er næst stigahæstur í liðinu þínu. Það er óþarfi að fara mörgum orðum um það.

Margir vilja kenna Russell Westbrook um ófarir Oklahoma frá a til ö, en það er heimskulegt. Hann á sinn þátt í þessu öllu saman, vissulega, en það sér hvaða viðvaningur sem er að sóknarleikur Oklahoma er of einhæfur - alveg eins og hann var undir stjórn Scott Brooks á sínum tíma, nema nú er enginn James Harden, enginn Kevin Durant heldur, ekki einu sinni Ibaka - ekki einu sinni fokkíng Dion Waiters!

Bara Russell Westbrook.

Og þessi "bara Russell Westbrook" leikaðferð, ef leikaðferð skyldi kalla, skilaði Oklahoma-liðinu nú samt 47 sigrum í deildarkeppninni þó hún væri gölluð, en það segir meira um ógnarstyrk Russell Westbrook og óguðlegt úthald hans en nokkuð annað. Þetta slapp í deildinni en krassaði gegn sterkara liði í úrslitakeppninni, eins og allt krassar - alltaf - gegn sterkari liðum í úrslitakeppninni.


Oklahoma þarf að stokka alla sína sóknarfílósófíu upp ef það ætlar að ná lengra en í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í framtíðinni, en hvað sem verður, þarf Westbrook að fá meiri hjálp í sóknarleiknum. 

Hann þarf vissulega að treysta liðsfélögum sínum eitthvað betur, en hann þarf einfaldlega meiri hjálp en það. Eitthvað af þessari hjálp getur komið frá mönnum eins og Steven Adams og Victor Oladipo, en það eitt og sér er ekki nóg til að þetta lið taki næsta skref.

En höfum það hugfast að Houston vann Oklahoma einfaldlega af því það er miklu betra lið. Ekki af því að Harden er betri en Westbrook eða af því Westbrook er svo geðveikur eða bla bla bla. Í guðanna bænum, sko.Oklahoma spilaði 45 mínútur án Russell Westbrook í einvíginu við Houston, sem jafngildir um það bil einum leik (48 mínútur). Oklahoma tapaði þessum 45 mínútum með fimmtíu og átta stiga mun! 

Það yrði líklega saga til næsta bæjar ef körfuboltalið tapaði 45 mínútna leik með næstum því 60 stiga mun. Það er mikil einföldun að teikna þetta upp með þessum hætti og það getur meira en vel verið að einhverjir stærðfræðinördar fái nú tak í Pýþagórasinn sinn, en þetta segir okkur samt ákveðna hluti.

Tímann sem Russell Westbrook var inni á vellinum? Oklahoma var +15 á þeim mínútum, sem segir okkur að Oklahoma var betra lið en Houston meðan Westbrook spilaði. Hann gat bara auðvitað ekki spilað hverja einustu mínútu (þó hann hefði eflaust verið alveg til í það).

Stóri munurinn á Oklahoma og Houston, eins og við erum búin að segja ykkur hundrað sinnum, var að Houston mátti við því að hvíla Harden - og það ljómandi vel meira að segja. Houston-liðið var þannig +19 á mínútunum sem Harden var inni á vellinum, en +24 á mínútunum sem hann hvíldi, eða betri en þegar aðalstjarna þeirra var utan vallar!Þrátt fyrir frekar óeftirminnilega úrslitakeppni, er þetta keppnistímabil búið að vera ævintýri líkast hjá Oklahoma í kring um allt Westbrook-fárið. Forráðamönnum félagsins tókst á snilldarlegan hátt að snúa allri umræðu um brotthvarf Kevin Durant upp í meðbyr fyrir liðið og beitu í MVP-kapphlaupi Russell Westbrook og fólkið skemmti sér konunglega við að telja þrennurnar hans í allan vetur.

Við gerðum það reyndar líka og það er allt í lagi. Það er alltaf gaman þegar menn taka upp á því að gera eitthvað svona snældugeðveikt í NBA deildinni. Það eru að okkar mati tveir menn í NBA deildinni sem hefðu getað gert það sem Russell Westbrook gerði í vetur, en aðeins annar þeirra - Westbrook sjálfur - er nógu geðveikur til að reyna það, og gera það (já, hinn er LeBron James).CLIPPERS 3 - UTAH 4

Ástæðan fyrir því að við vorum svo hrikalega bitur yfir því að Clippers-liðið næði 4. sætinu í Vesturdeildinni á lokasprettinum í deildarkeppninni af því liðið var með miklu léttari töflu en Utah sem hafnaði í 5. sætinu, var að okkur grunaði að einvígi Clippers og Jazz yrði svo jafnt að líklega myndi heimavöllurinn ráða þar heilmiklu.

Þessi spá hefði ekki getað verið mikið vitlausari, því það vannst varla leikur á heimavelli í þessari stórundarlegu en um leið stórskemmtilegu seríu. Clippers-liðið brást hvorki kaldhæðnustu stuðningsmönnum sínum né kaldhæðnum NBA-Twitternum með því að gera það sem það gerir á hverju einasta vori: 

Missa lykilmann eða menn í meiðsli og falla úr keppni eftir að hafa tapað seríu fyrir lægra skrifuðum andstæðingi þar sem það var á einhverjum tímapunkti með forystu í einvíginu (2-1 að þessu sinni).

Gæta þess sumsé að senda allan mannskapinn í sumarfrí í massífu þunglyndiskasti með miklar áhyggjur af framtíðinni og litla sem enga von um betri tíð. Tékk, tékk, tékk, tékk og tékk.

Aumingja Clippers. Aumingja stuðningsmenn Clippers.

Við erum sannarlega ekki sérfræðingar í kjarasamningum og launa- og launaþaksmálum, en meira að segja við sjáum að Clippers-liðið er í spennitreyju fjárhagslega af því það er með þrjá leikmenn á mjög stórum samningum og þjálfara sem er líka framkvæmdastjóri, sem hvergi hefur virkað nema hjá San Antonio - og þó varla þar (Gregg Popovich hefur alltaf verið umkringdur mjög góðu fólki hjá San Antonio).

Þjálfari er ekki í góðri stöðu til að semja við leikmenn af því hann er með nefið ofan í öllu sem þeir gera innan sem utan vallar og er raunar eins og pabbi þeirra (hér væri upplagt að henda inn brandara ef einn af leikmönnum Clippers væri í raun og veru sonur Doc Rivers... nei, bíddu aðeins....).

 Á meðan þjálfarinn er vanur að halda verndarhendi yfir leikmönnum sínum og sinna hlutverki "góðu löggunnar", er framkvæmdastjórinn meira eins og "vonda löggan" í samhenginu. Hann tengist leikmönnum síður á tilfinningalegan hátt og þarf að geta lifað með sjálfum sér þó hann sé bæði óheiðarlegur og ósanngjarn í viðskiptum sínum við eigin leikmenn og annara.

Á meðan gagnrýnin á Clippers-liðið er búin að vera sú sama í nokkur ár (meiðast og komast aldrei upp úr 2. umferð úrslitakeppninnar) er tuggan sem sögð er um Doc Rivers orðinn miklu þreyttari, þar sem honum er gjarnan hrósað fyrir þjálfarastarfið en gagnrýndur harðlega fyrir störf sín sem framkvæmdastjóri.

Það er af því Rivers hefur í framkvæmdastjórastarfinu hefur gert nokkra óheppilega samninga við menn sem hafa ekki staðið undir þeim, hafa gefið frá sér alla valrétti í nýliðavalinu (suma allt of ódýrt í hálfgerðu óðagoti) og samið af sér þannig að klúbburinn er bundinn í báða skó undir launaþakinu og hefur engan sveigjanleika til að gera þær breytingar sem augljóslega virðast þurfa að verða á leikmannahópnum ef liðið á ekki að spóla fast ofan í sama skurðinum ár eftir ár.

Til eru dæmi um lið sem hafa verið föst á sama staðnum árum saman eins og Clippers en svo skyndilega komist yfir þröskuldinn og náð lengra við breyttar aðstæður í deildinni, en við þurfum ekki annað en að horfa á lið eins og Golden State og kannski Houston, San Antonio og jafnvel Utah, til að sjá að það er fátt í spilunum sem bendir til þess að stórar breytingar séu í vændum í valdajafnvægi Vesturdeildarinnar. Að minnsta kosti engar sem fleyta Clippers-liðinu allt í einu í átt að toppnum eða á toppinn.

Framkvæmdastjóra-Rivers á risavaxið sumar í vændum hjá Clippers, því megnið af lykilleikmönnum liðsins eru að losna undan samningum í sumar.

Þessir sömu menn koma til með að krefjast þess að fá enn hærri laun í framtíðinni, sem eru ekki góðar fréttir fyrir félagið sem er fast í sama farinu og kemst aldrei upp úr annari umferð úrslitakeppninnar þrátt fyrir að vera með fjórða hæsta launakostnað deildarinnar upp á tæpar 115 milljónir dollara. 

Þrír af byrjunarliðsmönnum Clippers (Blake Griffin, Chris Paul og Luc Mbah a Moute) eru með svokallaðan player option á næsta tímabil, sem þýðir að þeir geta annað hvort þegið launin sem þeir eiga inni á þessu síðasta ári samnings síns, eða optað út - kosið að losna undan samningi og fá þá jafnvel að velja úr tilboðum sem önnur lið geta gert í þá. 

Þegar stjörnur á borð við Chris Paul og Blake Griffin eru annars vegar, má reikna með því að vel verði boðið í þá og að talsverðar launahækkanir séu í sjónmáli, raunar hvort sem gerð verða tilboð í þá eður ei. Þá er ótalið að skotbakvörðurinn JJ Redick er laus allra mála hjá Clippers í sumar og getur farið þangað sem hann vill, væntanlega fyrir miklu hærri laun en þær 7,4 milljónir dollara sem hann þénaði á leiktíðinni sem lauk um daginn.

Þið sjáið klemmuna sem Clippers er í best á því að ef við tökum samanlögð laun þeirra Chris Paul, Blake Griffin og DeAndre Jordan á tímabilinu sem var að líða (Paul og Griffin eiga rétt á umtalsverðri hækkun þegar þeir skrifa undir næsta samning) fáum við út 68 milljónir dollara. 

Það er ansi hátt hlutfall af launaþaki sem stefnir í að verði 102 milljónir dollara á næstu leiktíð (lúxusskatturinn verður eftir 122 milljónir) og ef við bætum samningi Jamal Crawford sem er á góðri leið með að verða hræðilegur (hann á tvö ár eftir af honum), erum við komin með 82 milljónir og hendum svo samningnum hans Austin Rivers inn í þetta og þá erum við komin með um 94 milljónir. Þið sjáið að hér er ekki mikið svigrúm til stórræða.

En nú erum við raunar komin út í mál sem við höfum ekkert vit á og satt best að segja leiðast alveg hrikalega. Við höfum áhuga á körfubolta en ekki hag- og viðskiptafræði og við gætum í rauninni krufið þessa seríu hjá Clippers og Jazz þangað til að finnst lækning við krabbameini. Við skulum hinsvegar sleppa ykkur við það og reyna að segja ykkur í stuttu máli (immit) hvað gerðist í viðureign liðanna sem höfnuðu í 4. og 5. sæti vestursins í vetur.

Clippers-liðið var sigurstranglegra fyrir þessa viðureign, sama hvað hver segir, af því liðið var með heimavallarréttinn og af því það var búið að vera með meira tak á Utah en nokkru öðru liði í NBA deildinni meira og minna síðan Chris Paul kom til liðsins á sínum tíma.

Clippers vann þannig einvígi liðanna í deildarkeppninni í vetur 3-1 og var búið að vinna 18 af síðustu 20 leikjum sínum gegn Utah, þó síðastnefnda liðið ætti seríuna ef við teljum saman viðureignir liðanna alveg aftur til þess þegar Clippers-liðið flutti til Los Angeles frá San Diego, en þar er Utah yfir 83-47.

Ekki minnkuðu sigurlíkur Clippers þegar maðurinn sem Utah byggir allan sinn varnarleik í kring um, meiddist á hné á fyrstu tíu sekúndunum í leik eitt í Los Angeles. Þarna náttúrulega nýtir Clippers-liðið sér liðsmuninn og heimavöllinn, gengur á lagið og nær öruggri 2-0 forystu áður en það fer á erfiðan útivöllinn í Salt Lake City, ekki satt?

Nei, auðvitað ekki. Þetta er Clippers. Auðvitað tapa þeir fyrsta leiknum eins og fífl en ná að hirða heimavallarréttinn aftur til baka með því að vinna leik tvö og stela svo leik þrjú í Utah, þar sem Chris Paul stjórnar leiknum frá a til ö. Eini gallinn við leik þrjú er að Blake Griffin dettur úr leik í úrslitakeppninni vegna meiðsla annað árið í röð. Hann datt út í fjórða leik í fyrra en spilaði aðeins tvo og hálfan leik að þessu sinni.

Eins og þið vitið öll tókst Clippers ekki að nýta sér heimavöllinn sinn þó það tæki tvo leiki í Salt Lake City. Einvígið var jafnt í sex leiki, en þegar kom að leik sjö í Los Angeles, áttu Clippers bara ekki séns. Hvort þeir leiddu 5-4 og síðan ekki söguna meir, eitthvað þannig. Liðið saknaði Blake Griffin vissulega og hefði getað notað Austin Rivers talsvert meira en þessar mínútur sem hann píndi sig til að spila vegna meiðsla þó hann væri alls ekki tilbúinn í slaginn og mjög ryðgaður.

Málið er bara að við vorkennum Clippers-liðinu ekki neitt í þessu tiltekna einvígi. Utah var án Rudy Gobert í þrjá leiki, Gordon Hayward missti af einum leik og var langt í frá upp á sitt besta í viku vegna matareitrunar (er hægt að gefa NBA leikmönnum eitthvað að éta annað en eitraðan mat þegar þeir eru að spila í úrslitakeppninni? Er það séns?) og Derek Favors var á annari löppinni allt einvígið alveg eins og allan veturinn.


Utah vann einvígið á magnaðri liðsheild, frábæru þjálfarateymi og lykilframlagi manna eins og Joe Johnson og Joe Ingles ofan á ljómandi fína spilamennsku Gordon Hayward til dæmis.

Clippers-liðið var undirmannað og lenti í því sama og það hefur lent í áður. Það varð bensínlaust. Þeir Chris Paul og DeAndre Jordan spiluðu sérstaklega allt of margar mínútur og voru á felgunni í sjöunda leiknum - höfðu bara ekki orku i þetta. 

Chris Paul er stórkostlegur leikmaður, miklu betri en flest ykkar halda, af því þið haldið að það hljóti að vera honum og honum einum að kenna að hann hafi aldrei komist upp úr 2. umferð í úrslitakeppninni. 

En þó hann sé stórkostlegur leikmaður, er hann ekki tvítugur lengur og hann þarf sína hvíld og sína hjálp. Hann gat tekið yfir hluta af seríunni og við vorum reyndar alveg viss um að hann ætti eftir að taka þessa seríu hálstaki og berja hana, sérstaklega meðan Rudy Gobert var ekki með Utah, en hann reyndist ekki hafa gas í það.


Það er rosalega auðvelt að segja að Clippers-liðið eigi að sprengja þetta lið allt í loft upp og byrja upp á nýtt, en þið vitið vel að þannig gerast hlutirnir mjög sjaldan í NBA deildinni og ef þið hugsið aðeins, hljótið þið að átta ykkur á því að moldríkur eigandi liðsins getur ekki bara látið stjörnurnar sínar fara fyrir ekki neitt og rennt sér niður í kjallara deildarinnar við hliðina á nágrönnunum í Lakers.

Steve Ballmer er búinn að eyða gríðarlegum peningum og fyrirhöfn í að reyna að draga þetta handónýta félag upp úr þeim drullupytti sem það hefur verið fast í nánast alla sína tíð og ykkur er óhætt að trúa því að það er ekkert á stefnuskránni að fara allt í einu að kasta því starfi á glæ með því að rífa allt niður og byrja upp á nýtt. 

Nei, stuðningsmenn Clippers, þó taugaveiklaðir og lélegir séu, voru rétt farnir að sjá til sólar í fyrsta skipti í áratugi og það myndi líklega ríða þeim endanlega að fullu ef allt yrði rifið niður á þessum tímapunkti.

Það er ýmislegt í spilunum hjá Clippers - og það er hreint ekki víst að Doc Rivers haldi starfi sínu í gegn um það sem er á döfinni hjá félaginu - en niðurrif og endurræsing er ekki á dagskrá. Ef við ættum að giska á það, reiknum við með því að Rivers reyni að semja við þennan sama mannskap og halda áfram að hjakka ef hann heldur þá starfi sínu.

Fólk á orðið til að gleyma því að þetta Clippers-lið er auðvitað hörkugott körfuboltalið svona heilt yfir þó það drulli alltaf á sig á vorin. Það breytir því ekki að það eru ekki beinlínis flugeldasýningar og veislur í spákortunum fyrir Clippers núna.

Kannski virkaði það ekki beinlínis hvetjandi fyrir Clippers-liðið í sjöunda leiknum að það eina sem biði eftir þeim ef þeir næðu að klára Utah var að vera leiddir inn í sláturhúsið í Oakland og sópað út af Warriors - og það hefði verið mjög líkleg niðurstaða, sérstaklega án Blake Griffin, því Golden State hefur gjörsamlega átt Clippers undanfarin misseri.

En Golden State á Utah-liðið ekkert síður eins og komið hefur á daginn í annari umferðinni. Þetta Utah lið er í grunninn ungt og á framtíðina fyrir sér þó lykilmenn eins og Joe Johnson séu auðvitað komnir á áttræðisaldurinn og þetta lið á skilið að fá gott hrós fyrir að ná að slá Clippers út með því að vinna þrjá leiki í Los Angeles. Það hefði ekki hvaða lið sem er gert, sérstaklega í ljósi þessa endalausa meiðslakjaftæðis sem hefur tröllriðið þessu liði í allan vetur.

Í Golden State er Utah náttúrulega að hitta fyrir ofjarla sína á öllum sviðum körfuboltans og þegar þetta er ritað eru Warriors komnir í 3-0 eftir þrjá mjög svo auðvelda sigra í röð. Þeir verða að teljast mjög líklegir til að klára þetta einvígi í fjórum leikjum, sérstaklega ef þeir koma inn í fjórða leikinn með sama drápseðlið og þeir sýndu í fjórða leiknum í Portland um daginn.


Eitthvað heyrðum við fólk tala um það í fyrstu umferðinni að kannski ætti Golden State bara eftir að fræsa í gegn um þessa úrslitakeppni og vinna titilinn með því að tapa aðeins einum eða jafnvel ekki einum einasta leik á leið sinni í mark. Ekki ætlum við að taka svo djúpt í árina, en við skulum bara segja að þetta Warriors-lið lítur nokkurn veginn eins vel út og hægt er eftir sjö leiki.

Þið verðið nefnilega að hafa það hugfast að Golden State er að spila við raunverulega góð körfuboltalið, sérstaklega í annari umferðinni, öfugt við Cleveland sem er á krúskontról í gegn um ruslið sem verður á vegi þess í austrinu. Jú, jú, það er voða flott hjá Cavs að vera 8-0 og komnir fyrirhafnarlítið í úrslit Austurdeildar enn eitt árið, en alveg eins og í fyrra, eru þeir ekki að fara að mæta alvöru góðu liði fyrr en í lokaúrslitum. Það er bara þannig.

nbaisland@gmail.com