Wednesday, July 27, 2016

Nýtt hlaðvarp


Nýjasti þáttur hlaðvarpsins okkar er helgaður félagaskiptamarkaðnum í NBA, sem hefur verið einn sá fjörlegasti sem sést hefur. Þar ber hæst ákvörðun Kevin Durant að yfirgefa Oklahoma og flytja til Oakland þar sem hann kemur til með að mynda eitt óárennilegasta körfuboltalið sögunnar.

En það var ekki bara Durant sem skipti um heimilisfang. Flest liðin í deildinni bæði losuðu sig við og fengu til sýn nýja leikmenn og þeir Baldur Beck og Gunnar Björn Helgason renna yfir það sem helst vakti athygli þeirra á markaðnum í sumar. 

Í þessum tæplega tveggja tíma langa maraþonþætti færðu m.a. að heyra hvað þeim félögum finnst um umsvif liða eins og New York og Chicago á leikmannamörkuðum í sumar, en þar fara aðeins tvö dæmi um klúbba sem gerðu róttækar breytingar hjá sér fyrir átökin næsta vetur.

Þið getið hlustað á þáttinn í spilaranum hér fyrir neðan eða farið inn á hlaðvarpssíðuna og sótt hann þar á mp3 formi til að setja hann inn á spilarann ykkar. Njótið vel, kæru lesendur/hlustendur.

Athugasemdir og aðfinnslur sendast á: nbaisland@gmail.com

Monday, July 18, 2016

Gæti



Friday, July 15, 2016

Tim Duncan með augum NBA Ísland



















Þú veist að það er eitthvað sérstakt í gangi þegar hörkutól úr bransanum eins og RC Buford framkvæmdastjóri og Gregg Popovich þjálfari San Antonio vatna músum. En það gerðist nú samt á sitt hvorum fjölmiðlafundinum þegar þeir voru spurðir út í Tim Duncan, sem hefur ákveðið að leggja skó sína á hilluna eftir 19 ára feril í NBA deildinni.

Við erum búin að liggja yfir þessu í nokkurn tíma og reyna að átta okkur á því að Tim Duncan verði ekki í NBA deildinni næsta vetur. Rétt eins og verður með Kobe Bryant, eigum við öll eftir að sjá á eftir Tim Duncan þegar hann hverfur inn í sólarlagið, enda höfum við öll getað stillt klukkurnar okkar eftir stöðugri spilamennsku hans í nær tvo áratugi.

Við höfum stundum skrifað minningagreinar um menn þegar þeir hætta að spila í NBA. Við skrifuðum reyndar ekkert um Kobe Bryant á sínum tíma, því okkur þótti við vera búin að gera svo mikið af því í gegn um tíðina. Nú er ekki loku fyrir það skotið að við gerum ferilinn hans Kobe Bryant upp í pistli einn daginn, en þegar við heyrðum að Duncan væri hættur, greip okkur strax einhver tilfinning í ætt við skyldurækni - að við yrðum bara að skrifa pistil um hann.



Tim Duncan er sannarlega ekki litríkasti eða umdeildasti leikmaður í sögu NBA deildarinnar, enda hefur umfjöllun um hann alltaf verið í lágmarki bæði hér og annars staðar. Þar liggja nokkrar ástæður að baki. Duncan var aldrei neitt fyrir það að trana sér fram og vildi helst ekki veita viðtöl, en þar að auki hefur kúltúrinn hjá Spurs aldrei snúist um neitt skrum, frægð eða frama.

Og það var að hluta til Tim Duncan sem byggði þennan fræga kúltúr, þetta stjórnkerfi San Antonio Spurs sem öll hin liðin í NBA deildinni hafa öfundað það af í tvo áratugi. Tim Duncan bara mætti (snemma) í vinnuna, vann vinnuna sína vandlega og fór svo heim til fjölskyldunnar, án frægðarljóma eða flugeldasýninga. Gregg Popovich er arkítektinn á bak við megnið af kúltúrnum hjá Spurs, en Tim Duncan hefur verið kjarni hans í nær tuttugu ár.

Tim Duncan hefur aldrei verið allra og mörgum finnst hann leiðinlegur leikmaður, ekki síst af því stuðningsmenn hinna liðanna í NBA eru búnir að vera að tapa fyrir honum í tuttugu ár. Flest körfuboltaáhugafólk sem við þekkjum hefur hinsvegar vottað Duncan virðingu sína í vikunni, hvort sem það var gefið fyrir leik hans eða ekki, af því þetta fólk veit að þar hverfur af sjónarsviðinu algjör goðsögn í sögu deildarinnar.



Einhver ykkar eru eflaust búin að lesa eina eða fleiri af þeim fjölmörgu greinum sem skrifaðar hafa verið um Duncan síðustu daga. Þær hafa verið misgóðar, en leitað í svipaða sálma; Tim Duncan var frábær leikmaður - allt að því vélrænn - liðið hans vann næstum því alltaf, hann var meiri húmoristi og vænni drengur en flestir gerðu sér grein fyrir og líklega var hann líka betri leikmaður en flestir gerðu ráð fyrir.

Við hefðum kannski getað skrifað pistil í ætt við þetta, en þar sem við höfum alltaf horft á Tim Duncan út frá alveg sérstöku sjónarhorni, ákváðum við frekar að deila því með ykkur sem á annað borð nennið að lesa um hetjuna hæglátu. Nánar um það á eftir.



Fyrsti tendensinn sem vaknaði hjá okkur þegar fyrir lá að skrifa Duncan út, var að reyna að finna út hversu ofarlega hann á heima á lista bestu körfuboltamanna allra tíma. Þá hnussa mörg ykkar og segja að fólk eigi ekki að vera að flokka körfuboltamenn - það sé ekkert hægt að bera saman bakverði og miðherja og enn síður ef líða áratugir á milli þess sem þeir spila í deildinni.

Við skiljum að mörgum finnist svona uppröðun og listar asnalegir, en það eru margir sem hafa gaman af þessu og okkur þykir bara alveg nauðsynlegt að reyna að átta okkur á því hvar við eigum að setja Duncan eftir þennan stórkostlega feril sem hann átti í NBA.

Monday, July 11, 2016

Tuesday, July 5, 2016

Kevin Durant + Warriors = Ofurlið


Umrótið í íþróttaveruleika okkar ætlar engan enda að taka. Á meðan karlalandsliðið okkar í knattspyrnu var að tryggja sér fimmta sætið á EM í Frakklandi, var Kevin Durant að ákveða að hann ætlaði að spila með Golden State Warriors á næstu leiktíð.

Þetta er Warriors-liðið sem vann meistaratitilinn í fyrra og 73 sigra á nýafstaðinni leiktíð og Kevin Durant - maðurinn sem er búinn að vera topp 3 leikmaður í NBA deildinni undanfarin ár. Einmitt.

Warriors-ófreskjan þarf að sjá á eftir Harrison Barnes, Festus Ezeli og Andrew Bogut til að búa til pláss fyrir Durant, en þegar þetta er ritað er félagið komið langt á veg með að tryggja sér þjónustu Zaza Pachulia og David West til að stoppa upp í götin sem þremenningarnir skilja eftir sig.

Enginn getur fullyrt um það hvernig þessi ráðstöfun á eftir að koma út fyrir varnar- og sóknarleik Warriors í framtíðinni, en þeir eru ekki margir sem reikna með að þetta verði flókið dæmi. Eitt besta varnar- og sóknarlið deildarinnar - og sögunnar - varð rétt í þessu MIKLU betra.

Uppstillingin Curry, Thompson, Iguodala, Durant og Green er á pappírunum langbesta sóknarlið sem sett hefur verið saman í sögu deildarinnar. Á pappírunum.

Heldur þú að flæðandi sóknarleikur Golden State með Durant innanborðs eigi allt í einu eftir að verða stirðbusalegur og lélegur? Ekki við heldur. Við þurfum ekki og nennum ekki, að þefa uppi tölfræði fyrir lengra komna til að sýna ykkur að jafn atkvæðamiklar en um leið ökónómískar skyttur/skorarar hafa aldrei sést áður á körfuboltavelli.

Fyrst um sinn er þetta auðvitað allt á pappírunum og það vinnur enginn titla á pappírunum, en það gæti orðið bæði skemmtilegt, en síðan vandræðalegt að horfa á varnir hinna 29 liðanna í NBA eiga við þessa ófreskju sem búið er að setja saman í Oakland.

Eins og við var að búast, eru hatursfullir og neikvæðir netverjar komnir úr felum og skiptast á að hrauna yfir Kevin Durant fyrir að velja auðveldu leiðina eins og LeBron James gerði forðum, nema hvað þeim er enn meira niðri fyrir núna. Durant gekk til liðs við óvininn og er náttúrulega lopasokkur og gunga fyrir vikið.

Við erum orðin allt of gömul til að velta okkur upp úr slíku.

Önnur holskefla er líka farin af stað, en það er kórinn sem syngur um að þetta sé allt Russell Westbrook að kenna. Ef hann hefði ekki verið svona vondur og eigingjarn og mikill fáviti (osfv), hefði þetta aldrei gerst.

Kommon. Við nennum ekki svoleiðis.

Niðurstaðan hér er sú að við erum komin með ofurlið allra ofurliða í NBA deildina. Við höfum oft séð stór nöfn taka sig saman og elta titla, en það gerist oftar en ekki þegar menn eru komnir hátt á fertugsaldurinn - ekki þegar meðalaldur stjörnuleikmanna liðsins er í kring um 27-28 ár.

Þessar sérstöku aðstæður sem myndast í NBA deildinni við þessar ógurlegu hækkanir á launaþakinu og hagstæðir leikmannasamningar (Stephen Curry) gera Warriors kleift að fara þessa áður óséðu leið.

Niðurstaðan verður alveg örugglega eitthvað sem á eftir að skemmta okkur fram undir morgun á hverri nóttu næstu árin.

Skál í boðinu.