Friday, July 15, 2016

Tim Duncan með augum NBA Ísland



















Þú veist að það er eitthvað sérstakt í gangi þegar hörkutól úr bransanum eins og RC Buford framkvæmdastjóri og Gregg Popovich þjálfari San Antonio vatna músum. En það gerðist nú samt á sitt hvorum fjölmiðlafundinum þegar þeir voru spurðir út í Tim Duncan, sem hefur ákveðið að leggja skó sína á hilluna eftir 19 ára feril í NBA deildinni.

Við erum búin að liggja yfir þessu í nokkurn tíma og reyna að átta okkur á því að Tim Duncan verði ekki í NBA deildinni næsta vetur. Rétt eins og verður með Kobe Bryant, eigum við öll eftir að sjá á eftir Tim Duncan þegar hann hverfur inn í sólarlagið, enda höfum við öll getað stillt klukkurnar okkar eftir stöðugri spilamennsku hans í nær tvo áratugi.

Við höfum stundum skrifað minningagreinar um menn þegar þeir hætta að spila í NBA. Við skrifuðum reyndar ekkert um Kobe Bryant á sínum tíma, því okkur þótti við vera búin að gera svo mikið af því í gegn um tíðina. Nú er ekki loku fyrir það skotið að við gerum ferilinn hans Kobe Bryant upp í pistli einn daginn, en þegar við heyrðum að Duncan væri hættur, greip okkur strax einhver tilfinning í ætt við skyldurækni - að við yrðum bara að skrifa pistil um hann.



Tim Duncan er sannarlega ekki litríkasti eða umdeildasti leikmaður í sögu NBA deildarinnar, enda hefur umfjöllun um hann alltaf verið í lágmarki bæði hér og annars staðar. Þar liggja nokkrar ástæður að baki. Duncan var aldrei neitt fyrir það að trana sér fram og vildi helst ekki veita viðtöl, en þar að auki hefur kúltúrinn hjá Spurs aldrei snúist um neitt skrum, frægð eða frama.

Og það var að hluta til Tim Duncan sem byggði þennan fræga kúltúr, þetta stjórnkerfi San Antonio Spurs sem öll hin liðin í NBA deildinni hafa öfundað það af í tvo áratugi. Tim Duncan bara mætti (snemma) í vinnuna, vann vinnuna sína vandlega og fór svo heim til fjölskyldunnar, án frægðarljóma eða flugeldasýninga. Gregg Popovich er arkítektinn á bak við megnið af kúltúrnum hjá Spurs, en Tim Duncan hefur verið kjarni hans í nær tuttugu ár.

Tim Duncan hefur aldrei verið allra og mörgum finnst hann leiðinlegur leikmaður, ekki síst af því stuðningsmenn hinna liðanna í NBA eru búnir að vera að tapa fyrir honum í tuttugu ár. Flest körfuboltaáhugafólk sem við þekkjum hefur hinsvegar vottað Duncan virðingu sína í vikunni, hvort sem það var gefið fyrir leik hans eða ekki, af því þetta fólk veit að þar hverfur af sjónarsviðinu algjör goðsögn í sögu deildarinnar.



Einhver ykkar eru eflaust búin að lesa eina eða fleiri af þeim fjölmörgu greinum sem skrifaðar hafa verið um Duncan síðustu daga. Þær hafa verið misgóðar, en leitað í svipaða sálma; Tim Duncan var frábær leikmaður - allt að því vélrænn - liðið hans vann næstum því alltaf, hann var meiri húmoristi og vænni drengur en flestir gerðu sér grein fyrir og líklega var hann líka betri leikmaður en flestir gerðu ráð fyrir.

Við hefðum kannski getað skrifað pistil í ætt við þetta, en þar sem við höfum alltaf horft á Tim Duncan út frá alveg sérstöku sjónarhorni, ákváðum við frekar að deila því með ykkur sem á annað borð nennið að lesa um hetjuna hæglátu. Nánar um það á eftir.



Fyrsti tendensinn sem vaknaði hjá okkur þegar fyrir lá að skrifa Duncan út, var að reyna að finna út hversu ofarlega hann á heima á lista bestu körfuboltamanna allra tíma. Þá hnussa mörg ykkar og segja að fólk eigi ekki að vera að flokka körfuboltamenn - það sé ekkert hægt að bera saman bakverði og miðherja og enn síður ef líða áratugir á milli þess sem þeir spila í deildinni.

Við skiljum að mörgum finnist svona uppröðun og listar asnalegir, en það eru margir sem hafa gaman af þessu og okkur þykir bara alveg nauðsynlegt að reyna að átta okkur á því hvar við eigum að setja Duncan eftir þennan stórkostlega feril sem hann átti í NBA.

Duncan hefur einhvern veginn alltaf bara "verið þarna" og var búinn að svæfa okkur dálítið á verðinum á síðustu tveimur árum. Við vorum hætt að pæla sérstaklega í því hvað hann var góður og sigursæll körfuboltamaður. En nú þegar hann er hættur og við lítum yfir ferilskrá hans, er það ekkert vafamál að þar fer einn allra besti körfuboltamaður allra tíma.



Ástæðan fyrir því að við horfum ef til vill öðrum augum á Duncan en aðrir er sú að við vorum ákaflega hrifin af Karl Malone sem leikmanni hér á árum áður og sögðum hverjum sem heyra vildi að hann væri besti kraftframherji allra tíma.

Malone var hinn fullkomni fjarki sem svo má segja, því auk þess að spila vörn og hirða fráköst eins og fjarka var siður, var hann líka öskufljótur, slúttaði hraðaupphlaupum og varð alltaf betri og betri skotmaður á átján fetunum í stað þess að athafna sig bara í kring um körfuna.

Karl Malone skilaði alltaf sínum 25 stigum og 10 fráköstum og tryggði að Utah Jazz fór í úrslitakeppnina öll átján árin hans hjá félaginu. Hann er einn stöðugasti leikmaður í sögu deildarinnar og skilaði sínu yfir fertugt líkt og Tim Duncan.

Eins hrifin og við vorum af járnkarlinum Karl Malone og harðákveðin í að hafa hann í efsta sæti kraftframherjalistans, eru þónokkur ár síðan við urðum að láta það eftir og hleypa manninum að sem á sætið skuldlaust í dag. Það er Tim Duncan, ef þú varst ekki búin(n) að átta þig á því.

Sem áhangendur Karl Malone og Utah-liðsins á tíunda áratugnum, fengum við að kynnast því hvað Tim Duncan var frábær leikmaður nánast frá því hann spilaði sinn fyrsta leik með San Antonio árið 1997.

Utah og San Antonio voru miklir keppinautar á þessum árum. Bæði liðin voru mjög sterk allan áratuginn og spiluðu mikið af því þau voru saman í riðli. Ofan á það mættust þau svo nokkrum sinnum í úrslitakeppninni líka.

Og það var einmitt í úrslitakeppninni árið 1998 sem við fengum að kynnast því "frá fyrstu hendi" hvað Tim Duncan var stórkostlegur leikmaður.

Árið 1998 var miðherjinn David Robinson hjá Spurs ennþá í fullu fjöri og þess vegna grettu menn sig af hryllingi þegar San Antonio datt í lukkupottinn og landaði Tim Duncan með fyrsta valréttinum og gat stillt honum upp við hlið Robinson í teignum.

Þeir mynduðu strax ógurlegt varnartvíeyki og á meðan San Antonio hafði verið gott lið allan áratuginn eftir að Robinson kom þangað um 1990, varð það framúrskarandi þegar Duncan var kominn líka.

San Antonio menn þurftu nú samt að bíða aðeins eftir því að byrja að vinna meistaratitla þó það væri komið með tvíturnana sína, því það náði ekki lengra en í aðra umferð úrslitakeppninnar á nýliðaárinu hans Tim Duncan veturinn 1997-98. Og ástæðan fyrir því að liðið fór ekki lengra? Jú, Karl Malone og Utah Jazz, sem þurfti ekki nema fimm leiki* til að henda Spurs í sumarfrí á leið sinni í lokaúrslitin annað árið í röð.

Utah-liðið var ógnarsterkt á þessum árum, en þó það hafi klárað seríuna sína við San Antonio 4-1 vorið 1998, varð okkur það ljóst strax í fyrsta leik liðanna í úrslitakeppninni að í Tim Duncan færi maður sem ætlaði að vera með einhver læti í deildinni í framtíðinni.

Utah vann fyrsta leik liðanna með einu stigi 83-82 á heimavelli, en þar var nýliðinn Tim Duncan - sem var að spila sinn fimmta leik í úrslitakeppni - besti maður vallarins með 33 stig, 10 fráköst og fjögur varin skot.

Við misstum hökuna nokkrum sinnum í gólfið þegar við sáum þennan unga svein mæta á einn erfiðasta útivöll deildarinnar og eiga í fullu tré við besta kraftframherja deildarinnar.

Það var ljóst að þarna færi maður sem myndi láta mikið til sín taka í deildinni á næstu árum og hann var heldur ekki lengi að því - hann vann meistaratitilinn með Spurs árið eftir.

Það er strangt til tekið frekar hæpið að bera þá Tim Duncan og Karl Malone saman þó þeir spili sömu leikstöðu að nafninu til, því Duncan er ekki aðeins með allt annan leikstíl en Malone, heldur spilar hann oft meira eins og miðherji en framherji (og stundum spilar hann einfaldlega miðherjastöðuna - raunar mjög oft).

Malone er með betri tölfræði á flestum sviðum og var fyrst og fremst miklu meiri skorari en Duncan nokkru sinni. Gott dæmi um það er sú staðreynd að Duncan skoraði fimm sinnum 22 stig eða meira að meðaltali í leik á ferlinum - en Malone gerði það fimmtán sinnum.

Malone skoraði 25 stig og hirti 10 fráköst að meðaltali á nítján ára ferli sínum en Duncan lét sér nægja 19 stig tæp 11 fráköst á sínum nítján árum.

Bæði Malone og Duncan fóru fyrir liðum sem voru glettilega stöðug og unnu í kring um 50 leiki og fóru í úrslitakeppnina hvert einasta ár, en það er einmitt í úrslitakeppninni sem Duncan tryggði sér titilinn besti kraftframherji allra tíma í okkar bókum með því að vinna fimm meistaratitla og vera þrisvar kjörinn leikmaður lokaúrslitanna.

Þessi velgengni Duncan væri nóg til að ýta honum upp fyrir hvaða fjarka sem er, en rúsínan í pylsuendanum hjá honum er svo hvað hann er góður varnarmaður. Það er eiginlega hneyksli að Tim Duncan hafi aldrei verið kjörinn varnarmaður ársins, en það hefur heldur aldrei verið rekin nein áróðursherferð fyrir því eins og tíðkast svo oft með þessa nafnbót (sjá t.d. Doc Rivers og DeAndre Jordan).

Duncan er það sterkur á varnarendanum að það má færa rök fyrir því að hann sé ekki bara besti leikmaður sinnar kynslóðar í NBA deildinni, heldur mögulega besti varnarmaður hennar líka.
























Nú er mögulegt að aðdáendur manna eins og t.d. Kevin Garnett verði óðir, en við gefum Duncan okkar atkvæði út á það hvað hann réði betur við að dekka stóra menn en Garnett, þó sá síðarnefndi hafi verið léttari á fæti við að elta bakverði út á 3ja stiga línu.

Þó stóri maðurinn hafi vissulega átt undir högg að sækja í NBA deildinni á allra síðustu árum, er annað risavaxið atriði sem eykur hróður Tim Duncan sem besta fjarka allra tíma. Það er sú staðreynd að á þessum tveimur áratugum hans Duncan í NBA, hefur úrval gæðaleikmanna sem spila sömu stöðu og hann aldrei í sögu deildarinnar verið jafn blómlegt.

Þegar nánar er athugað er það nefnilega þannig að kraftframherjastaðan var mjög líklega sú staða sem gat af sér fæsta úrvalsleikmenn á fyrstu fjórum áratugum deildarinnar. Ef þið pælið í því, eru flestar af virtustu stjörnum gamla tímans í NBA annað hvort miðherjar eða bakverðir.



Gott dæmi um þetta er þegar NBA deildin hélt upp á hálfrar aldar afmæli sitt árið 1996 var ákveðið að velja 50 bestu leikmennina sem spilað hefðu í deildinni á þeim tíma. Ef þið rennið yfir þann lista, eru afar fáir menn á honum frá fyrstu áratugum deildarinnar sem hægt að er að kalla hreinræktaða kraftframherja eins og við skiljum þá í dag, en nær okkar tímum læddust þar inn Karl Malone, Charles Barkley og Kevin McHale.

Nei, það voru ekki margir Tom Pettit-ar í NBA deildinni fram á níunda áratuginn, en þegar komið var fram yfir 2000 var kraftframherjastaðan allt í einu orðin gríðarlega vel mönnuð í NBA deildinni. Ef níundi áratugurinn var blómlegur þegar kom að miðherjum, voru aldamótin tími fjarkanna.

Þá voru tveir af bestu mönnum deildarinnar í stöðunni frá áratugnum á undan - Barkley og Malone - að komast á síðasta snúning, en nú var staðan komin í gríðarlega framþróun með mönnum eins og Duncan, Dirk Nowitzki, Chris Webber, Kevin Garnett, Rasheed Wallace, Elton Brand, Chris Bosh, Pau Gasol og Amare Stoudemie.



Eins og þið sjáið á þessari upptalningu, er ekki um að ræða nein smá nöfn og því verðum við eiginlega að telja Tim Duncan það til sérstakra tekna að hafa náð að skera sig úr og bera af í þessum hóp þar sem m.a. má finna tvo fyrrum leikmenn ársins (Dirk og Garnett). Tim Duncan spilaði sannarlega á gullöld kraftframherjanna í NBA deildinni og var bestur þeirra allra.

En hvað var það nú sem gerði Duncan að þessum sigursæla og stöðuga leikmanni sem við (og fleiri - flestir) eru búnir að útnefna besta kraftframherja sögunnar?

Jú, þú gast treyst á að Duncan skoraði sín 20 stig, ýmist með því að hnoðast á póstinum eða smella honum af glugganum af 4-5 metra færinu. Hann var úrvalsfrákastari og skotin sem hann varði voru aðeins brotabrot af þeim sem hann breytti og/eða kom í veg fyrir.



Eins og við nefndum áðan var Duncan frábær varnarmaður og hefur algjörlega verið bæði tölvan og mótorinn í San Antonio vörninni undanfarin ár. Þú sást glögglega að Duncan var kominn af léttasta skeiði, en eitt af því sem gleymist stundum í umræðunni um hann er hvað hann var ógeðslega klár leikmaður. Hann vissi einfaldlega hvar hann átti að vera og hvort og þá hvert hann ætti að fara, þó hann færi það ekki hratt.

Ekki tók tölfræðin fyrir lengra komna á móti Duncan, en hann er búinn að koma vel út úr öllu slíku allan ferilinn, hvort sem um er að ræða plús/mínus fræði, stig per 100 sóknir, framlagsformúlur og hvað þetta drasl heitir nú allt saman. NBA deildin er búinn að breytast gríðarlega síðan Duncan varð partur af henni, en alltaf hefur gamli dísel náð að lifa af.



En það er fleira sem gerir Duncan að þessari goðsögn sem hann er löngu orðinn. Fáir ef einhverjir leikmenn í NBA deildinni hafa eins gott orðspor sem leiðtogar og liðsfélagar og Tim Duncan. Hann bjó yfir fádæma þolinmæði og jafnaðargeði á vellinum, sem hann kryddaði svo með skrælþurrum húmor sem við fengum aldrei að heyra eða sjá.

Duncan var fyrirmynd innan sem utan vallar og það sem helst er hægt að finna að honum er að hann var feiminn, fámáll, léleg vítaskytta og svo verslaði hann fötin sín í Hagkaup. Það er svo sem ekkert að því að versla fötin sín í Hagkaup, en það er spurning hvort menn splæsi stundum í eitthvað aðeins flottara þegar þeir eru búnir að þéna 30 milljarða króna á ferlinum fyrir utan alla auglýsingasamninga.



















Þá er í raun ekki annað eftir en að koma Duncan fyrir á lista bestu leikmanna allra tíma í NBA. Við vorum að skoða þennan lista aðeins um daginn þegar við skrifuðum LeBron James inn í hæsta gæðaflokk sem til er hjá okkur - Elítuklúbb NBA Ísland.

Félagsskapurinn sem LeBron fékk í klúbbnum var ekki alveg staðfestur þá og er það raunar ekki enn. Það eina sem við gátum sagt ykkur var að James væri kominn í elítuna með þeim Michael Jordan, Magic Johnson, Larry Bird, Wilt Chamberlain, Bill Russell og Kareem Abdul-Jabbar.

Og vitið þið nú hvað? Við erum alvarlega að hugsa um að setja Tim Duncan inn í þennan klúbb líka. Maðurinn er ekki búinn að gera neitt annað en vinna körfuboltaleiki allar götur síðan hann kom inn í deildina.



San Antonio með Tim Duncan innanborðs er sigursælasta atvinnuíþróttalið Bandaríkjanna á tímanum frá 1997 til dagsins í dag og hann var tvisvar kjörinn leikmaður ársins og þrisvar leikmaður lokaúrslitanna á leið sinni að fimm meistaratitlum. Aðeins þrettán leikmenn í sögu NBA hafa unnið fleiri titla en Duncan og hann er búinn að vera akkerið í liði sem er búið að slátra öllum metum sem hafa með langtímavelgengni að gera.

Duncan er eini leikmaðurinn sem hefur unnið meistaratitla í NBA á þremur mismunandi áratugum frá árinu 1999 til 2014 og hann er því búinn að taka í spaðann á þremur mismunandi forsetum í kjölfarið.



Mörg ykkar kannast við verk fyrrum ESPN-mannsins Bill Simmons, en árið 2009 gaf hann frá sér 700 blaðsíðna doðrant sem hann kallaði Körfuboltabókina, þar sem hann rankaði bestu körfuboltamenn sögunnar ekki ósvipað og við höfum verið að gera.

Skrif og skoðanir Simmons eru engin heilög ritning, en til gamans getum við sagt ykkur frá því að Simmons setti Tim Duncan í sjöunda sæti yfir bestu leikmenn allra tíma í bókinni sinni og þá átti hann eftir að vinna áhrifamesta titilinn sinn árið 2014. Þið getið því rétt ímyndað ykkur hvort hann er ekki búinn að hoppa eitthvað upp á þessum lista Simmons í dag.

Fyrir þau ykkar sem eruð forvitin um það, setti Simmons Michael Jordan í fyrsta sætið, Bill Russell í annað, Kareem Abdul-Jabbar í þriðja, Magic Johnson í fjórða, Larry Bird í fimmta, Wilt Chamberlain í sjötta og Duncan í sjöunda.

Allt er þetta auðvitað afstætt, en Simmons færir ágætis rök fyrir máli sínu og þessi listi er alls ekki galinn í okkar augum. Eina spurningin er hvort Duncan er búinn að hoppa yfir Wilt á listanum... eða Larry - eða jafnvel Magic! Já, þegar stórt er spurt krakkar...



Það væri hægt að skrifa í tvo daga í viðbót um alla tölfræðisúpuna sem liggur eftir Duncan en þið getið rétt ímyndað ykkur hvort við nennum því. Tölfræðin hans Tim Duncan endurspeglar hann sjálfan fullkomlega. Hún rífur ekki hárið af neinum, en er samt nokkuð áhrifamikil þegar allt er talið.

Eina skiptið sem við munum eftir því að hafa vó-að yfir tölunum hans Duncan var þegar hann gekk frá New Jersey Nets í lokaúrslitunum árið 2003 með því að skila 21 stigi, 20 fráköstum, 10 stoðsendingum og 8 vörðum skotum, eða tveimur blokkeríngum frá því að bjóða upp á fernu í finals, sem hefði verið bærilega sick. Þarna var hann með öllu óstöðvandi, sérstaklega gegn Austurdeildarliði sem hafði ekkert í San Antonio að gera.

Brotthvarf Tim Duncan úr NBA deildinni var jafn skjótt og koma hans inn í hana fyrir nítján árum.

Allt í einu kom tilkynning frá Spurs um að hann væri hættur og skömmu síðar poppaði upp stutt og hnitmiðað bréf (hér til hægri) frá Duncan þar sem hann þakkaði samstarfsfólki og aðdáendum fyrir ferðalagið.

Það var ekki fjaðrafokið á honum þegar hann kvaddi frekar en búast mátti við og þó forráðamenn Spurs ætli að reyna allt sem þeir geta til að halda Duncan í einhvers konar djobbi í kring um liðið í framhaldinu, skulið þið ekki halda niðri í ykkur andanum þangað til þið sjáið hann næst.

Duncan ku vera alveg jafn mögnuð persóna og manneskja eins og hann er leikmaður og því er skiljanlegt að þeir RC Buford og Gregg Popovich hafi klökknað þegar þeir voru að tala um hann á fjölmiðlafundunum í vikunni.

Við erum hinsvegar 99% viss um að einhver hluti af þessum tárum sem runnu, komu af því að þeir félagar Buford og Popovich eru nú að horfast í augu við það í alvöru að þeir séu ekki lengur í auðveldustu djobbum í deildinni. Það var Tim Duncan að þakka að vinnan þeirra var svona auðveld og Popovich kom líka inn á það í spjalli sínu við fjölmiðla.

Hann laug engu þegar hann sagði að Tim Duncan væri með kröftum sínum búinn að tryggja tugum eða hundruðum fólks atvinnu með beinum eða óbeinum hætti á þessum tveimur áratugum.

Ef þið spáið í það, væri meira að segja alls ekkert gefið að lítill klúbbur á borð við San Antonio væri hreinlega starfandi í dag ef hann hefði ekki dottið í lukkupottinn og landað Duncan í nýliðavalinu 1997.

Sjáið bara svörtu skýin sem liggja yfir Oklahoma þessa dagana, þegar Durant er farinn og Westbrook er orðaður við annað hvert félag í deildinni.

Það er ekki langt á milli í þessu og það vita Popovich og félagar. Þeir gera sér fulla grein fyrir því að þeir eru búnir að keyra körfuboltaliðið sitt áfram á manni sem er týpa sem kemur kannski fram á þrjátíu ára fresti í heiminum - ef það.

Þeir vita að það hefur myndast svarthol á miðjum vellinum og raunar í miðjum klúbbnum. Þeir vita að það verður ekki auðvelt að halda hlaupinu áfram án Tim Duncan. Framleiðslu á gaurum eins og honum var hætt fyrir löngu - og því ólíklegt að við fáum nokkru sinni að sjá annan slíkan.

--------------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Rimma Utah og San Antonio í annari umferðinni árið 1997 var á margan hátt forvitnileg og fyrir þá sem hafna kenningunni um að NBA boltinn sé búinn að taka byltingarkenndum breytingum á síðustu árum er fyndið að rifja upp hvernig þeir Jerry Sloan þjálfari Jazz og Gregg Popovich hjá Spurs stilltu upp byrjunarliðum sínum.

Utah tefldi þannig fram byrjunarframlínu sem innihélt miðherja/kraftframherja í Greg Foster, kraftframherjann Karl Malone og var svo með annan kraftframherja í stöðu minni framherja á formi Adams nokkurs Keefe, sem á sínum tíma var svar NBA deildarinnar við Gary Doherty.

San Antonio ákvað að bæta um betur og tefldi fram sjöfetungunum og miðherjunum David Robinson og Will Perdue og setti svo þriðja (tæplega) sjöfetunginn - Duncan - í stöðu minni framherja.

Þjálfararnir í NBA í dag fengju bráðaniðurgang og gulu ef þeir svo mikið sem heyrðu af þessum liðsuppstillingum, hvað þá notuðu eitthvað sambærilegt.