Monday, May 31, 2010

NBA Ísland er með lausa samninga í sumar


Traffíkin á NBA Ísland hefur aldrei verið meiri. Það er gaman að segja frá því að flettingar á vefnum í maí fóru yfir 25.000 nú undir kvöldið.

Þær munu fara yfir 100.000 í heildina um það bil sem Lakers og Celtics hefja leik í lokaúrslitunum á fimmtudagskvöldið.

Þetta er ekki tölfræði sem sprengir samræmda vefmælingu Modernus-manna en við hérna á ritstjórninni erum ákaflega ánægð með hve vel þessu litla framtaki okkar hefur verið tekið síðan það hóf göngu sína í desember.

Við nutum þess vissulega að vera kynnt til sögunnar á visir.is, kki.is og karfan.is en þess utan hefur hróður síðunnar og traffík skapast af orði götunnar mann fram af manni. Lesendur hafa líka verið ákaflega duglegir að senda okkur tölvupósta með ábendingum og jákvæðum anda yfir skrifum okkar. Fyrir það erum við ákaflega þakklát eftir sem áður. Við eigum mjög dannaða og jákvæða lesendur ef marka má viðbrögðin.

Skrifin hafa verið þétt hérna í allan vetur þrátt fyrir mótbyr í formi t.d. tölvuhruns og veikinda og hér hafa dottið inn ein til fimm færslur á hverjum einasta degi frá því hafist var handa í upphafi leiktíðar.

Við höfum enn ekki ákveðið hvað tekur við eftir að úrslit liggja fyrir í júní, né heldur með næsta vetur. Það tekur sannarlega sinn toll að halda svona fyrirtæki gangandi. Tæplega verður síðunni lokað, en það er annað hvort það eða að bæta í og gera enn betur næsta vetur. Það veltur á ýmsu. Ok, það veltur mikið á því hvort við getum orðið okkur út um stuðningsaðila. Það er bara þannig. Og það er ekki okkar sterkasta hlið.

Kannski getur þú hjálpað. Kannski vilt þú leggja okkur lið. Við viljum ekki hljóma eins og Omega, en við þurfum á hjálp að halda við að halda skútunni á floti. Ef þú hefur góðar hugmyndir þessu tengt, máttu endilega senda okkur línu á nbaisland@gmail.com

Takk fyrir að fylgjast með.

kveðja,
ritstjórn NBA Ísland

Grunnt á því góða milli Boston og L.A.


Það verða LA Lakers og Boston Celtics sem leika til úrslita um NBA meistaratitilinn árið 2010. Fyrsti leikur verður á fimmtudagskvöldið.

Þetta verður í tólfta sinn sem stórveldin leika til úrslita, en Boston hefur unnið 9 af 11 fyrri viðureignum liðanna á stóra sviðinu.

Öll þessi töp fyrir Boston voru kannski kveikjan að þessari eldfimu bloggfærslu sem birtist á vef LA Times, en var skömmu síðar tekin út eftir að hún olli miklu fjaðrafoki í netheimum. Þykir ekki fyndið að gera grín að því þegar Paul Pierce var stunginn forðum.

Vonandi verður ekki búið að fjarlægja hana endanlega þegar þú smellir á tengilinn hér fyrir ofan.

Það er ekki á hverjum degi sem liðin sem mætast í úrslitum NBA hata hvort annað, en sú er raunin að þessu sinni. Og hatist leikmenn liðanna, er það ekkert í líkingu við eldinn sem logar milli stuðningsmanna liðanna.

Lamar Odom hjá Lakers telur þannig ólíklegt að hann geti boðið skutfríðri eiginkonu sinni á leikina í Boston af ótta við að hún verði fyrir aðkasti stuðningsmanna Celtics.

Sunday, May 30, 2010

Tilþrifin úr sjötta leik Phoenix og LA Lakers


LA Lakers 4 - Phoenix Suns 2


























Það verða Boston Celtics og Los Angeles Lakers sem leika til úrslita um NBA meistaratitilinn árið 2010. Þetta er í annað sinn á þremur árum sem stórveldin læsa hornum í lokaúrslitum.

Þetta varð ljóst eftir að Lakers kláraði Phoenix Suns 111-103 í sjötta leik liðanna í Phoenix í kvöld.

Rétt eins og í leik sex hjá Boston og Orlando í fyrrakvöld, varð ljóst snemma leiks að Lakers-liðið ætlaði ekki að tapa þetta kvöldið.

Það hefur örugglega ekki verið partur af planinu að Ron Artest (25 stig) myndi halda sóknarleik liðsins á floti framan af, en svona er þetta stundum hjá góðu liðunum. Þau finna leiðir til að klára.

Enn eina ferðina náðu varamenn Suns að snúa töpuðum leik í áhugaverðan og rétt eins og eftir leik fimm mátti lesa gagnrýni á Alvin Gentry úr öllum hornum fyrir að setja Steve Nash og co. of seint inn í fjórða leikhlutanum.

Það er partur af sjarmanum við þetta Phoenix-lið. Sú staðreynd að þjálfarinn eigi erfitt með að velja rétta augnablikið til að taka varamenn sína út úr leiknum.

Kannski hefðum við átt að sjá Nash fyrr inni, maðurinn virðist alltaf vera money í krönsinu, en það má ekki gleyma því að byrjunarlið Phoenix var nú ekki að gera neinar rósir í þessum leik fyrr en varamennirnir pappíruðu það. Og ekki í fyrsta skipti.

Og talandi um að vera money í krönsinu...

Kobe Bryant (37 stig, þar af 9 á síðustu 2 mínútunum) var ólöglega rosalegur á lokasprettinum í þessum leik.

Skotin sem maðurinn var að setja niður á lokamínútunum voru bara kjánaleg. Drápseðlið og kuldinn. Þetta var rosaleg atburðarás.

Svona sést ekki á hverjum degi á stóra sviðinu og hefur ekki sést síðan Þú Veist Hver var að kremja hjörtu andstæðinga sinna á árunum 1991-98.

Kobe er búinn að vera rosalegur síðan um miðbik fyrstu umferðarinnar og sendi frá sér sterka yfirlýsingu í kvöld til þeirra sem kalla LeBron James besta körfuboltamann í heimi. Svo sterka, að það kallar jafnvel á sérstakan pistil.

Það sem skiptir þó mestu máli núna, er að Kobe hefur aldrei verið í öðrum eins drápsham, er eins heill heilsu og hann verður úr þessu - og ætlar að hefna sín á liðinu sem niðurlægði hann árið 2008. Meira um það síðar.

Hvað með Phoenix Suns?

Þessi sprettur liðsins í úrslitakeppninni hefur sannarlega verið óvæntur og skemmtilegur.

Steve Nash hefur oft átt að fara langt í úrslitakeppni með liðið sitt, en þetta var ekki eitt þeirra. Þetta er virkilega skemmtilegur hópur, sem spilar undir stjórn þjálfara sem er að gera góða hluti.

Samningamál Amare Stoudemire og óhjákvæmileg öldrun og heilsa Steve Nash hanga auðvitað yfir Suns-liðinu eins og draugur, en það er fullt af litlum og jákvæðum punktum þarna í mixinu líka. Eins og vaskleg framganga varamanna liðsins.

Þetta er fílgúdd-lið frá a til ö ef Stoudemire er undanskilinn.

Hann er einstakur sóknarmaður, en spurningamerki hvað varðar heilsu, viðhorf og varnarleik (sjá: Carlos Boozer).

Amare á eftir að hugsa sín mál vandlega í sumar og fær eflaust eitthvað af góðum tilboðum. Hann talar um að vinna titla eins og allir aðrir en það á eftir að koma í ljós hvort hann fær nokkru sinni betri meðreiðarsvein en Steve Nash.

Nash eftir leikinn; "Ég taldi Lakers vera betra lið fyrir einvígið, en eftir leiki 3 og 4 var ég ekki svo viss. Ég var virkilega farinn að trúa því að við gætum unnið. Kannski munaði það bara því að við hefðum náð framlengingu í leik fimm og þá kannski fengið tækifæri til að klára heima. Þetta er einstakt lið og ég hef aldrei verið partur af öðrum eins hóp áður á ferlinum."

Nash felldi nokkur tár þegar hann knúsaði þjálfarann sinn inni í klefa eftir leikinn. Það er dálítið átakanlegt að sjá þennan snjalla leikmann og einstaka persónuleika falla úr leik ár eftir ár.

Nash verður áfram dæmdur á því hve oft hann hefur komist í lokaúrslitin og ef hann nær þangað, bíður hans sterkari gagnrýni þangað til hann landar titlinum.

Lífið er tík í NBA sem og annars staðar.

Saturday, May 29, 2010

Boston 4 - Orlando 2

























Sumir sögðu að Boston væri komið í vandræði eftir tvö töp í röð gegn Orlando liði sem stóð varla í lappirnar eftir að lenda undir 3-0. Það reyndist ekki rétt ef við miðum við auðveldan sigur liðsins í kvöld.

Boston spilaði ekki óaðfinnanlega í sjötta leiknum, en Orlando var ekki tilbúið, hafði ekki trú á verkefninu og átti aldrei séns. Niðurstaðan 96-84 sigur Celtics og sætið í lokaúrslitum raunveruleiki. Þegar rykið sest á næstu dögum og fólk nær utan um þessa seríu, kemur 4-2 sigur Boston ekkert á óvart. Ekki eftir að við sáum hvernig Boston fór með Cleveland.

Hvað gerðist í sjötta leiknum? Rondo sló fyrsta höggið gegn Nelson. Rondo meiddist. Nate Robinson skoraði 13 stig í öðrum leikhlutanum og kveikti í Garðinum. Ray Allen opnaði síðari hálfleikinn með stórum þristum og Paul Pierce tók í tauminn og dró liðið í mark í síðari hálfleiknum. Bingó. Leikur.

Doc Rivers spáði því í apríl að Nate Robinson ætti eftir að vinna leik fyrir Boston í úrslitakeppninni.

Það ætti ekki að vera stór spádómur um mann sem skoraði 40 stig fyrir ekki löngu síðan, en Boston hefur ekki getað notað hann.

Nate er ekki beint að blómstra í kerfisbundnum körfubolta með vörn á oddinum. En guttinn getur skorað, elskar sjálfan sig og getur kveikt eld í miðju Þingvallavatni. Átti risavaxinn þátt í sigrinum í kvöld.

Orlando náði sér aldrei á strik í sjötta leiknum. Fór snemma út af game-planinu. Dwight var grimmur en Orlando fer illa að elta. Þristarnir duttu ekki af því liðið náði ekki sama flæði. Orlando var 10-0 í úrslitakeppninni þegar liðið skoraði 9+ þrista en 0-4 þegar það skoraði 8 þrista eða færri.

Við fáum nægan tíma til að fjalla um Boston-liðið þegar kemur fram í lokaúrslitin, en það hefur ekki verið tuggið nógu oft hvað frammistaða þess í annari og þriðju umferðinni hefur verið gígantísk.

Síðustu leikirnir í Cleveland seríunni og fyrstu þrír gegn Orlando voru besti körfubolti sem sést hefur í úrslitakeppninni og það er ekki hægt annað en gefa liðinu A+  fyrir þennan tilkomumikla sprett í gegn um "bestu liðin í Austurdeildinni."  Þú getur alveg reynt að segja að þú hafir spáð þessu í apríl, en þá værir þú að ljúga.

Það er skammarlegt að Boston skuli ekki hafa spilað á fullu gasi alla deildakeppnina en það er ekkert við því að gera. Doc Rivers viðurkenndi fúslega að hann hefði einfaldlega tippað á að reyna að halda liðinu heilu þegar kæmi fram í úrslitakeppni - annars ætti það ekki séns - og það hafi kostað nokkra sigra í deildakeppninni.

"Þetta byrjunarlið hefur aldrei tapað seríu í úrslitakeppninni. Ég vissi að við ættum séns ef allir væru heilir," sagði hann. Og mikið fjandi var það rétt hjá honum - þó ársmiðahafar Boston séu fúlir yfir því að hafa þurft að horfa á Rasheed Wallace dæla þristum og skokka milli þriggja stiga lína með bumbuna sína í vetur.

Hvað er hægt að segja um Orlando?

Þjófavarnarkerfið fór auðvitað á fullt þegar liðið ákvað að fjárfesta 118 milljónum dollara í Rashard Lewis á sínum tíma. Gerði hann liðið betra? Sannarlega. Var þetta gáfuleg framtíðar fjárfesting? Nei. Hefur hún hjálpað Orlando ná takmarkinu? Nei.

Orlando er rosalega vel mannað lið með mikla dýpt - sem er lykill að 50+ sigrum í deildakeppninni (sjá: Cleveland) og sópum í fyrstu umferð - en ekki öðru. Orlando er frábært körfuboltalið en blandan hjá þeim er bara ekki nógu góð.

Þegar upp var staðið í vor, líkt og í fyrra, komu sömu holurnar í ljós. Jameer Nelson er góður, en hann er ekki hefðbundinn leikstjórnandi sem gerir alla félaga sína betri og stjórnar leikjum. Dwight Howard hefur alls ekki tekið nógu miklum framförum þó við viðurkennum fúslega að hann náði sér í nokkur prik hjá okkur í síðustu þremur leikjunum í þessu einvígi. Rashard Lewis er ekki kraftframherji sem spilar vörn og hirðir fráköst.

Og þú vinnur ekki meistaratitil með Vince Carter.

Vince hefur verið með stimpil á sér í mörg ár fyrir að vera linur og þola ekki pressu og hann gerði ekkert annað en að færa sönnur fyrir því í þessu einvígi.

Lewis var í það minnsta veikur, þó það afsaki því miður ekkert á þessu stigi í úrslitakeppninni, en Carter var bara Carter. Það er of átakanlegt til að taka saman hvað maðurinn var að gera og gera ekki í þessari seríu. Hræðilegt.

Orlando átti að geta veitt Boston meiri samkeppni í þessu einvígi, en hóf ekki þátttöku í því fyrr en í fjórða leiknum.  Jú, jú, fyrstu tveir leikirnir í Orlando voru jafnir í lokin, en liðið var bara ekki tilbúið í slagsmálin sem framundan voru. Reynslan sem Dwight Howard og félagar fá af þessari séríu er dýrmæt. Þetta var rosaleg kennslustund. Núna veit Howard hvernig hann þarf að mæta til leiks gegn alvöru liðum. Brosa minna, sveifla fleiri olnbogum. Eða eitthvað þannig.

Orlando-liðið verður ekki sprengt upp, enda hvorki ástæða til þess né raunhæfur möguleiki. En stjórnin verður að djassa liðið eitthvað til ef hún ætlar að vinna titla. Og nei, það er engin lausn að reka Stan Van Gundy og það verður heldur ekki gert. Kannski Patrick Ewing, en ekki Van Gundy. Ekki strax.

Austurdeildin er galopin á næstu árum og því væri ekki viturlegt af forráðamönnum Magic að sprengja upp lið með jafn góðan kjarna. Það er kannski ekki ástæða til ofurbjartsýni í Disney-landi, en flest lið í deildinni sjá það sannarlega svartara.

Friday, May 28, 2010

LA Lakers 3 - Phoenix 2

























Það kann að vera eftir bókinni að LA Lakers hafi nú náð 3-2 forystu í einvígnu við Phoenix í úrslitum Vesturdeildar eftir 103-101 sigur á heimavelli í kvöld, en fleira stendur ekki í þeirri ágætu bók. Eftir að hafa verið mest 18 stigum yfir í síðari hálfleik, þurftu meistararnir í LA Lakers á kraftaverki frá Ron Artest að halda til að klára leikinn í lokin og geta nú farið til Phoenix og klárað dæmið.

Ef við eigum að segja alveg eins og er, þótti okkur þessi leikur lengst af frekar leiðinlegur, öfugt við hina fjóra leikina í seríunni. Varnarleikurinn var stífari og hvorugu liðinu tókst að finna taktinn. Við ætlum að vona að það hafi ekki orðið til þess að einhver hafi gert þau afdrifaríku mistök að slökkva og fara í rúmið.

Phoenix neitaði að gefast upp í þessum leik þrátt fyrir að fá rispu í andlitið í hvert einasta skipti sem liðið náði að minnka muninn í 6-8 stig. Alltaf var Lakers yfir.

Það var því eiginlega hálf skrítið þegar Steve Nash skaut liðið inn í leikinn aftur og náði að hleypa spennu í lokamínúturnar.

Þú hefur væntanlega séð helstu atriði úr leiknum núna. Phoenix jafnaði leikinn þegar 3,5 sekúndur voru eftir með þristi frá Jason Richardson í spjaldið og ofan í.

Lakers mistókst að stíga út hvað eftir annað og það hlaut bara að enda með því að eitt þessara skota færi ofan í.

Þú veist samt að 3,5 sekúndur eru eilífð þegar þú spilar á móti Kobe Bryant.

Auðvitað fékk hann boltann, og það sem er vanmetið við skot hans í lokin var að hann passaði að taka það strax og skildi þannig eftir tíma fyrir sóknarfrákast.

Skotið var ómögulegt, en eins og heimsbyggðin veit núna, hreinsaði Ron Artest upp frákastið og tryggði Lakers sigurinn á flautunni.

Artest fór þarna frá geit til hetju á nokkrum sekúndum, því hann hafði skömmu áður tekið tvö mjög illa ígrunduð skot.

Fjölmiðlar væru að tæta hann í sig núna ef hann hefði ekki sett boltann ofan í þarna í lokin.

Alvin Gentry þjálfari Suns var blessunarlega búinn að æla í fyrri hálfleiknum, svo hann hafði ekkert til að kasta upp eftir að úrslitin lágu fyrir.

Hann sýndi samt mikið æðruleysi og klassa á blaðamannafundinum eftir leikinn og gerði grín að öllu saman. Steve Nash var eðlilega skúffaður að horfa á enn eina frábæra frammistöðu sína (29/11) fara í súginn, en hann sagðist ákveðinn að koma aftur til LA í leik sjö - og við trúum honum alveg.

Við nennum ekki að velta okkur meira upp úr sub-plottum í leiknum eins og hræðilegri hittni Ron Artest fyrir lokaskotið (1-8), góðri frammistöðu Lamar Odom (ávísun á sigur Lakers), frábærum leik Fisher, enn einum draugaleiknum frá Bynum, sigurhrinu Lakers á heimavelli í úrslitakeppninni (11, þriðji besti árangur síðustu 15 ára), ælu Alvin Gentry á hliðarlínunni eða slagsmálum Slóveníu-undranna Vujacic og Dragic.

Í augnablikinu ætlum við bara að sjúga atmosið úr þessum leik aðeins í okkur og fagna því að þessari úrslitakeppni skuli vera borgið. Það ber að elska.

Thursday, May 27, 2010

Orlando 2 - Boston 3


Körfuboltaguðirnir hafa séð að sér. Það sem virtust ætla að verða ansi bitlaus undanúrslit er óðum að líkjast alvöru úrslitakeppni. Orlando tókst í kvöld að minnka muninn í 3-2 í einvígi sínu við Boston með nokkuð öruggum heimasigri í leik fimm í úrslitum Austurdeildar.

Orlando-liðið hamraði áfram á járnið sem hitnaði óvænt í fjórða leiknum og er nú farið að spila körfubolta sem minnir óþægilega mikið á boltann sem tryggði því einn besta árangurinn í deildakeppninni í vetur.

Þetta var í meira lagi furðulegur leikur og þeir sem horfðu voru flestir farnir að efast um að gestirnir frá Boston gætu teflt fram mannskap til að klára leikinn. Kendrick Perkins, sem alla jafna er handfylli fyrir dómara sem aðra út af hreinum og klárum leiðindum, hitti á það mánaðarlega hjá dómurum leiksins og var sendur í bað með tvær tæknivillur.

Báðar þessar villur voru ansi ódýrar og í rauninni bara kjánalegar, en Perkins hefur svo sem alveg unnið sér það inn að vera ekki beint í náðinni hjá dómurum.

Flestir virðast strax vera komnir á þá skoðun að tæknivillur þessar verði dregnar til baka og það er ekki lítið hagsmunaatriði fyrir Boston þar sem kappinn ætti með öllu að taka út leikbann í næsta leik. Hann fékk þarna sína sjöundu tæknivillu í úrslitakeppninni og það þýðir sjálfkrafa eins leiks bann.

Við skiljum mætavel að Celtics-menn séu ósáttir við þessar tæknivillur, en við erum alfarið á móti því að þær verði dregnar til baka. Leikmenn vinna sér inn fyrir tæknivillum og ef dómarinn á vellinum sér ástæðu til að flauta tæknivillu á leikmann, er það bara vegna þess að honum þykir hann eiga það skilið. Dómarar dæma ekki óvart tæknivillu á leikmenn og því á hún að standa. Og ekki koma með eitthvað "hann hefði aldrei dæmt seinni tæknivilluna á hann ef hann hefði munað að Perkins var þegar kominn með eina í leiknum" -kjaftæði. Það er bara bull.

En þetta var ekki eina dramatíkin hjá þeim grænu í leiknum.

Glen Davis át Howard-olnboga, fékk heilahristing og datt í fangið á Crawford dómara (tæpur fyrir leik 6)
Marquis Daniels skallaði bringuna á Gortat og fékk heilahristing (tæpur fyrir leik 6)
Rasheed Wallace tognaði í baki um leið og hann fékk 6. villuna (tæpur á geði)
Paul Pierce rifjaði upp axlarmeiddið sitt og fann ógurlega til (tæpur leikari)
Rajon Rondo er hálfur á við það sem hann var í leikjum 1-3, mögulega meiddur (tæpt fyrir Boston)
Tony Allen er meiddur og er svipur hjá sjón (Tæp... æ, eitthvað)

Bættu við þetta þeirri staðreynd að varnarleikur Boston er allt í einu búinn að dala umtalsvert, Orlando er búið að fínstilla sóknarleikinn sinn, raðar þristum á ný og er búið að finna sjálfstraustið.

Hentu því inn að mamma hans Ray Allen var ekki á leiknum og einhver gæti haldið að Boston væri í vandræðum.

Við skulum alls ekki fara fram úr okkur þó þessi upptalning líti ekki vel út fyrir þá grænu.

Boston hefði tekið því fyrir þetta einvígi ef einhver hefði boðið því að vera 3-2 yfir á móti Orlando fyrir leik sex á heimavelli. Án þess að blikka. Og ekki halda að Boston óttist að spila leik sjö á útivelli ef til þess kæmi.

Rétt eins og hjá Lakers-liðinu er ekkert panikk komið í Boston menn. En mikið þeir voru bölvaðir klaufar að klára þetta ekki heima í fjórða leiknum og sleppa við þennan barning. Orðnir allt of gamlir fyrir svona læti.


Það er samt afar hressandi að við skulum allt í einu vera komin með bullandi seríur bæði í austri og vestri úr því sem komið var þegar Lakers var yfir 2-0 og Boston 3-0.

Þeir sem hallast að hálftóma glasinu bölva því eflaust að Boston og Lakers séu nú að eyða óþarfa púðri í að láta Orlando og Phoenix lemja á sér í stað þess að spara það fyrir lokaúrslitin, en við tökum þessari óvæntu þróun mála fagnandi.

Það veitti ekki af smá drama í þessa blessuðu úrslitakeppni og þú veist það.

Wednesday, May 26, 2010

Úrslitakeppnin byrjaði aftur í nótt:


Ágætu lesendur, við erum allt í einu komin með úrslitakeppni.

Fyrir 48 stundum eða svo var fólk að bölsótast yfir því að þátturinn Fólk með Sirrý væri ekki lengur á dagskrá til að stytta því stundirnar fram að úrslitaeinvígi Lakers og Celtics.

Nú má vel vera að það verði gömlu stórveldin sem mætast í lokaúrslitum - allt bendir enn til þess - en mikið óskaplega hafa undanúrslitaeinvígin nú breyst til batnaðar á þessum síðustu tveimur dögum.

Boston á erfiðan leik fyrir höndum í Orlando á miðvikudagskvöldið og eftir dramatíkina í Phoenix í kvöld varð ljóst að meistarar LA Lakers eru komnir á byrjunarreit í einvíginu við baráttuglaða Suns-menn.

Staðan þar orðin 2-2 eftir 115-106 sigur Phoenix í leik fjögur í nótt.

Flestir reiknuðu með því að Lakers-liðið myndi finna svör við svæðisvarnarbrellum Suns frá leik þrjú, en svo var ekki. Líklega hefur engum manni dottið í hug að Phoenix myndi halda áfram að keyra svona mikið á því sem kallað hefur verið "stelpu-svæði(s-vörn)" eða girlie zone, en af hverju að breyta því sem virkar? Alvin Gentry lýsti því yfir strax inni í klefa eftir leikinn að liðið myndi halda áfram á sömu braut í leik fimm.

Öldungar og reynsluboltar í NBA deildinni muna ekki eftir því að lið hafi treyst svona mikið á svæðisvörn í úrslitakeppni fyrr og síðar og sú staðreynd að hún skuli vera að virka svona vel gegn jafn sterku liði og Lakers er algjör forsíðufrétt. Klárlega ein af stóru sögunum í úrslitakeppninni.

En það var ekki bara stelpuvörnin góða sem tryggði Phoenix sigur í leiknum í kvöld. Frammistaða varamanna liðsins í kvöld var ekkert minna en stórkostleg.

Meira að segja Channing Frye hitti úr skotunum sínum. Þetta eru svo miklir toppmenn. Koma öllum í jólaskap. Frábært að sjá svona öskubuskuævintýri í beinni útsendingu.

Sjá þessa skrúbba lúskra á Lakers í öðrum leikhlutanum og útspila svo byrjunarlið Lakers nær allan fjórða leikhlutann. Þetta er epík.

Já, svæðisvörn Suns og frammistaða varamanna liðsins var Disney-leg í kvöld, en hún fær okkur þó ekki til að horfa framhjá því hvað Kobe Bryant er gjörsamlega að tortíma í sóknarleiknum í þessu einvígi.

Synd og skömm að það falli í skuggann af öllum þessum múrsteinum sem félagar hans eru að hlaða - galopnir gegn svæðisvörninni. Við eigum til að gleyma því, en Lakers-liðið með allar sínar sterku hliðar, er alls ekki gott skotlið. Bara alls ekki.

Það er samt alveg rétt sem Lakers-menn bentu á í kvöld. Þeir standa frammi fyrir vandamáli með svæðisvörnina ef þeir geta ekki sett niður galopin skot leik eftir leik, en það er ekki stærsta vandamálið.

Varnarleikurinn er stærsta vandamálið og hann verður að laga. Lakers vann leiki eitt og tvö ekki á frábærum varnarleik - það vann þá af því Phoenix gat ekki náð stoppum til að bjarga lífi sínu (Lakers skaut 58% í báðum leikjum) og af því menn eins og Frye voru með útivallarkvíða.

Eins og við sögðum hér fyrir ofan er nú einvígið komið á byrjunarreit á ný í stöðunni 2-2. Lakers hefur nú tapað tveimur leikjum í röð eftir að hafa ekki tapað leik í 29 daga og þó Kobe og félagar séu langt frá því að fara í eitthvað panikk (sjá: 2-2 stöðu gegn Oklahoma), er ljóst að þeir þurfa að svara helvíti mörgum spurningum á fimmtudagskvöldið.

Nei, meistararnir fara ekki í neitt panikk yfir þessu þó staða þeirra út á við sé orðin allt önnur en hún var fyrir þremur dögum.

Við gátum samt ekki annað en hlegið þegar við sáum drengina í Inside the NBA á TNT óska eftir því að Phil Jackson notaði Sasha Vujacic í leik fimm. Þú veist að þú ert kominn í vandræði þegar menn leggja það til í alvöru að þú grípir til þess að nota Sasha Vujacic þegar þú ert sex sigrum frá meistaratitli.

Og það, gott fólk, er bara þannig!

Tuesday, May 25, 2010

One Crazy Summer


Orlando vill spila meiri körfubolta


Orlando náði að halda lífi í úrslitakeppninni í kvöld með 96-92 seiglusigri á Boston í framlengdum leik fjögur í Garðinum. Staðan því 3-1 fyrir Boston.

Orlando-liðið hefði auðveldlega getað velt sér grenjandi í gólfið og tapað þessum leik,  en sýndi síðbúið hjarta og en gerði það ekki.

Við verðum að gefa Magic-mönnum smá kúdos fyrir að sýna neita að fara í sumarfrí, þó þessi nýfundna seigla komi auðvitað allt of seint.

Til að gera langa sögu stutta var það veggurinn og veltan (Nelson-Howard) sem var munurinn á Orlando-liðinu í þessum leik. Meiri hreyfing og hraði. Howard (32/16/4) fær sérstakt hrós frá okkur fyrir að druslast loksins til að spila upp í skrumið. Þristarnir tveir hjá Nelson (23/9) í upphafi framlengingar voru stórir þó þeir væru ekki fallegir og virkuðu dálítið eins og óðagot. En hvað eiga menn að gera þegar Vince Carter (1-9, 3 stig) á að vera helsta sóknarvopn liðsins.

Það má vel vera að Orlando hafi loksins spilað betur en við, eins og kvikindin sem við erum, skrifum þetta tap á Boston-liðið. Boston átti að vinna þennan leik.

Paul Pierce var frábær í fyrri hálfleik, en það dró mjög af honum í síðari. Hann reyndi að bera sóknina uppi en hafði ekki gas í það. Ray Allen kom með góðar bombur undir lokin en það dugði ekki.

Varnarleikur Boston var ekki eins grimmur í kvöld og í fyrstu þremur leikjunum, en það sem gerði (ó)gæfumuninn fyrir þá grænu var að Rajon Rondo náði sér ekki á strik.

Skrifum við það á meiðslin hans eða villuvandræði? Nei. Hann gerði það amk ekki sjálfur í viðtölum eftir leik.

Þetta fær okkur til að hugsa aftur um mikilvægi Rondo fyrir Celtics. Hann var ekki jafn grimmur og hann hefur verið til þessa í einvíginu og Boston hikstar verulega um leið. Okkur þykir þetta undirstrika enn frekar hvað þessi snáði hefur a) verið að spila hrikalega vel og b) hvað hann er ómetanlegur Celtics-liðinu.

Það sem gat verið huggulegur sópur er því allt í einu orðið allt önnur sería.

Boston á eftir að laga sig að breyttum áherslum Nelson og Howard og allt það, en það er bölvað vesen fyrir þessa gömlu fauska að þurfa að þvælast aftur niður til Orlando - alveg sama þótt þeir hafi unnið báða leikina þar til þessa.

Boston hefði alveg geta notað smá frí, en nú þarf liðið helst að vinna þriðja útileikinn í röð í Orlando til að missa þessa seríu ekki upp í eitthvað vesen.

Gefum okkur það í smá stund að Orlando finni nú fjalirnar sínar á heimavellinum og nái í annan sigur - eitthvað sem er alls ekkert ómögulegt. Þá er leikur sex í Boston allt í einu orðinn hálfgerður úrslitaleikur fyrir heimamenn, því ekki nenna þeir að þurfa enn og aftur til Orlando og klára dæmið í sjö leikja slöggfesti.

Svona er þetta skrítið. Maður fer á kostum, vinnur tvo á útivelli, kemst í 3-0 og allir fara að syngja "Beat LA", en svo tekur maður fótinn af bensíngjöfinni í smá stund og þá er bara orðið drullu stutt á milli Óskars og Ófeigs á ný.

Þetta er sérstakur leikur.

Monday, May 24, 2010

Phoenix afstýrði neyðarástandi á kústamörkuðum


Strákústarnir eru uppseldir í útibúum Byko og Húsasmiðjunnar í Bandaríkjunum eftir undarlega og óþolandi sópvertíð í úrslitakeppni NBA deildarinnar árið 2010.

Því var það öllum mikill léttir í kvöld þegar Phoenix minnkaði muninn í 2-1 í einvígi sínu við LA Lakers í úrslitum Vesturdeildar með 118-109 sigri á heimavelli. Öllum nema stuðningsmönnum Lakers auðvitað.

Phoenix notaði eina vopnið sem það gat gripið til, svæðisvörnina. Og keyrði á henni. Það virkaði.

Lakers-liðið setti félagsmet í þriggja stiga skotum (32) en nýtti aðeins 9 þeirra. Phoenix tjaldaði á vítalínunni og var +22 í vítaskotum. Þessa tölfræði má að hluta til skrifa á alla þessa svæðisvörn.

Lakers-liðið var með 31% skotnýtingu í 42 sóknum gegn svæðisvörn Phoenix í leiknum en 56,6% nýtingu í 63 sóknum gegn maður á mann vörn samkvæmt tölfræðideild ESPN. Og þú ert að velta því fyrir þér af hverju Phoenix fór í svæðisvörnina (Lakers skaut 58% í fyrstu tveimur leikjunum).

Kobe (36/9/11) og Gasol (23/9) héldu uppteknum hætti hjá Lakers og spiluðu undurvel og Fisher var sprækur framan af (18), en þá er það upptalið hjá meisturunum. Andrew Bynum gerði ekkert og Artest og Odom gátu ekki refsað Phoenix í svæðinu (er ekki upplagt að nota Luke Walton á móti svæðisvörn?).

Amare Stoudemire hefur fengið það óþvegið frá okkur í þessu einvígi en hann var líkari sjálfum sér í þessum leik (42/11). Amare í árásarham er viðskotaillt fyrirbæri og það var hann svo sannarlega í þriðja leiknum.

Okkur þykir ljóst að Phoenix mun ekki vinna þessa seríu með svona vörn, en er á meðan er. Channing Frye þarf áfallahjálp. Heimavöllurinn gerði honum ekkert og það var ljóst á fyrstu múrsteinahleðslu hans í þessum leik. Grátlegt, því hann er gríðarlega mikilvægur fyrir Suns til að teygja á vörn Lakers. Búinn að klikka á einhverjum 17 skotum í röð í einvíginu. Ekki að þétta hlutabréfin sín. Kominn í John Starks-landhelgi með þetta.

Sunday, May 23, 2010

Rondo bræddi Hvíta Súkkulaðið


Jason "Hvíta Súkkulaðið" Williams hjá Orlando var ekki í góðu skapi eftir tap hans manna fyrir Boston í gærkvöld. Myndbandið hér fyrir neðan sýnir hvernig kappinn lætur blaðamenn heyra það inni í klefa eftir leik.



Spurning hvort Williams var svona svekktur yfir tapinu eða þeirri staðreynd að hann lék aðalhlutverkið í þættinum Tekinn með Rajon Rondo. Sumir kalla þetta tilþrif úrslitakeppninnar til þessa. Skref eða ekki skref - þetta er rugl.

Orlando sér svart í faðmi grænu kyrkislöngunnar









Boston hefur náð 3-0 forystu gegn Orlando í úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar í NBA. Sigur Celtics var aldrei í hættu í þriðja leiknum í Boston í gær. Heimamenn leiddu frá fyrstu mínútu og unnu að lokum auðveldan 94-71 sigur.

Þriðji leikurinn var leikur sem Orlando varð að vinna úr því sem komið var, en Boston byrjaði vel og hélt sig við upptekinn sið að sparka í hreðjar andstæðingsins strax í byrjun. Leikmenn Orlando gáfust upp í þessu einvígi í gær. Það er bara þannig.

Við erum því komin yfir það að reyna að telja saumana í peysunni sem er leikur Orlando Magic. Það er gagnslaust að tala um strategíu héðan í frá. Ekkert sem liðið gerir héðan af mun breyta gangi þessa einvígis.

Orlando er eins og mánaðar gamalt dádýr í helgjargreipum svangrar kyrkislöngu. Í hvert sinn sem þeir reyna að slá frá sér, herðir Boston kyrkislangan bara takið. Orlando er búið að missa andann og veit að spilið er búið. Bíður bara eftir að sjá svart og kveðja þennan heim.

Saturday, May 22, 2010

Boston-Orlando #3 í beinni í kvöld


Þriðji leikur Boston og Orlando í úrslitum Austurdeildar fer fram í Boston klukkan hálfeitt í nótt og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Staðan er 2-0 fyrir Boston í einvíginu eins og þú líklega vissir og því verður Orlando að koma með svör NÚNA ef liðið ætlar að gera eitthvað í þessu einvígi.

Við ætlum að spá Boston sigri í kvöld svo komist einhver spenna í þessa seríu. Við höldum áfram að fylgjast með gangi mála á Twitter og þú getur lesið ágrip af því efst til hægri á síðunni.

Friday, May 21, 2010

Thursday, May 20, 2010

Félagsfræðileg úttekt á körfubolta í austri og vestri


Það hefur löngum verið talsverður munur á körfuboltanum sem spilaður er á austur- og vesturströnd Bandaríkjanna.

Nærtækasta dæmið um þetta er einvígi Boston Celtics og LA Lakers á níunda áratugnum. Þar stangaðist á harður naglabolti austursins og glamúrbolti vestursins.

Þetta reyndar dálítið í takt við steglingsmyndir úr amerískri þjóðarsál.

Svona eins og þegar þú mætir í gleðskap í ljótum fötum.

Í Los Angeles segði viðmælandi þinn "Nei, váááá - ógó flott föt. Gaman að sjáááá þiiiig. Ekk´allt gott að fréééttaaa? Æðisleeeegt." En um leið og þú snýrð þér undan fer hann að baktala þig og spyrja hvaða fáviti hafi eiginlega boðið þér í samkvæmið.

Undir sömu kringumstæðum í New York myndi viðmælandi þinn líklega mæla þig út með vanþóttasvip og spyrja; "Bíddu, klipptirðu þessa fatagarma af líkinu af ömmu þinni? Ertu vangefinn?"

Snúum okkur aftur að körfubolta, áður en bæði Comte og Durkheim fara heilhring í gröfum sínum.

Dæmigerð austurlið undanfarinna ára eru Boston níunda áratugarins, Ódælu drengirnir í Detroit í kring um ´90, New York-fantarnir um miðjan tíunda áratuginn, meistaralið Detroit frá ´04 og svo núverandi útgáfa Boston-liðsins.

Í vestrinu höfum við auðvitað glanslið Magic Johnson og co frá níunda áratugnum, Sacramento-liðið um aldamótin, Dallas-lið Dirk Nowitzki og Phoenix-hraðalestina hans Steve Nash, svo einhver séu nefnd.

Af hverju erum við að velta þessu upp?

Jú, í fyrsta lagi vegna þess að sumir lesenda okkar eru ef til vill svo ungir eða óreyndir að þeir átta sig ekki á þessu.

Og í öðru lagi af því einvígin sem við erum að fylgjast með núna í austri og vestri bera svo rosalega sterkan keim af ofangreindum fabúleringum.


Einvígi Boston og Orlando er rosalega austurstrandarlegt. Og það er af því Boston ræður ferðinni í rimmunni. Orlando er miklu meira vesturlið - svona eins og sigursælt lið San Antonio undanfarinna ára minnir meira á austurlið.

Boston spilar ekta austurbolta og það er hann sem er að drepa Orlando. Við viðurkennum það fúslega að okkur þótti boltinn sem Boston spilaði á köflum í deildakeppninni álíka skemmtilegur og gyllinæð. En þegar komið er í úrslitakeppnina og liðið spilar alvöru austurbolta - með tilheyrandi hörku, slagsmálum og þú munt ekki komast lifandi út úr þessari seríu-varnarleik - þá er gaman. Eintóm fegurð. Algjör klassi.

Leikir Orlando og Boston hafa verið slöggfest og slagsmál út í gegn, en þeir hafa samt verið ljómandi skemmtilegir. Þessir fyrstu tveir leikir hafa verið miklu meira einvígi en leikirnir tveir í LA.

Rimman í vestrinu gæti ekki mannlega mögulega verið ólíkari þeirri í austrinu.

Ef Doc Rivers hefði horft upp á sína menn gera jafn mörg mistök í vörninni í leikjunum tveimur við Orlando og Phoenix hefur gert í einum leikhluta gegn Lakers (völdum af handahófi) væri Rivers búinn að kveikja í bílnum hans Brian Scalabrine og segja af sér.

Rimma Lakers og Suns er hreint út sagt ekki sama íþrótt og verið er að spila fyrir austan.

Þýðir það að hún sé leiðinlegri? Hreint ekki. Meira tempó, fleiri mistök í vörninni, fleiri tilþrif, miklu hærra stigaskor. Hvar er vandamálið?

Þetta gæti vissulega verið jafnara einvígi, en öfugt við slaginn fyrir austan, er Phoenix nú að fara í leiki 3 og 4 á huggulegum heimavelli sínum, þar sem fregnir herma að Channing Frye geti til dæmis hitt körfuhringinn úr langskotum.

Orlando er að fara til Boston, þar sem grjótharðir stuðningsmenn liðsins munu leggja sitt af mörkum til að brjóta niður afganginn af særðu stolti Magic-manna í Garðinum á laugardagskvöldið.

Það er orðið afskaplega vinsælt að tala um Lakers og Celtics  lokaúrslitum þetta árið.

Það var vinsælt umræðuefni fyrir annan leik Lakers og Suns, en eftir að Lakers moppaði gólfið í Staples með Phoenix í leik tvö í nótt, er ekki talað um annað.

Vissulega lítur það þannig út núna.

Almenn skynsemi segir að Boston eigi auðveldara verkefni fyrir höndum en Phoenix út af heimavellinum, en við sjáum það á hinn veginn.


Phoenix hlýtur fjandakornið að vinna annan heimaleik sinn, þó liðið eigi í besta falli stjarnfræðilega möguleika í einvíginu.  Ástæðan fyrir því að við tippum frekar á að eitthvað rætist úr rimmu Boston og Orlando er sú að Boston hefur ekki verið sérstaklega sannfærandi á heimavelli, Orlando er fínt á útivöllum og spilar nú með mun minni pressu á sér en áður. Svo hlýtur bara að fara að koma að því að Boston eigi off-leik eftir að hafa verið með hakkavélina í botni svona lengi.

Hvað sem gerist á næstu dögum, erum við varla að fá leik sjö í undanúrslitunum. Ótrúlegt að aðeins ein rimma hafi farið í sjö leiki til þessa. Já, þetta er rosalega slöpp úrslitakeppni, það verður bara að viðurkennast. Stórfurðuleg úrslitakeppni, en slöpp. Við gerum nánari úttekt á því eftir lokaúrslitin þegar við gerum úrslitakeppnina upp.

Þar fá nokkur lið að kenna rækilega á því *hóst*Cleveland*hóst*Atlanta*hóst*Dallas*hóst* osfv.

Wednesday, May 19, 2010

Boston hakkavélin 2008-10


Orlando er allt nema fögt.

Boston náði í gærkvöld 2-0 forystu í einvígi liðanna í úrslitum Austurdeildar og næstu tveir leikir fara fram í Boston. Ekki gæfulegt útlit hjá Orlando.

Boston hefur aldrei tapað seríu eftir að hafa náð 2-0 forystu (32-0). Merkilegt að liðið er þarna að komast í 2-0 í einvígi með sigrum á útivelli í fyrsta skipti í glæstri sögu félagsins.

Boston hefur verið agressorinn í báðum leikjum, Orlando hleypti spennu í þetta í lokin, en hafði ekki það sem til þurfti. Mistökin sem liðið gerði á lokasprettinum í öðrum leiknum eru í leiðinlega sögulegum takti.

Vítin sem Vince Carter klikkaði á voru Nick Anderson-leg. Og svo brainfartið hjá JJ Redick, sem er erfitt að kyngja því hann hefur verið einn af fáum jákvæðum punktum hjá Orlando.

Og Boston? Liðið heldur bara áfram að sjúga lífsviljann úr andstæðingum sínum með 2008 vörninni sinni. Neyða Orlando til að vinna eftir öðrum leiðum en tryggðu liðinu svo góðan árangur í vetur.

Og ekki gleyma sóknarleiknum. Hann er heldur ekkert slor.

Já, Boston tók sér pásu milli áramóta og páska í ár og blekkti okkur öll, en það er hægt að súmmera upp hvað við erum að sjá núna með einföldum hætti.

2008- Boston meistari. Besta liðið. Borið uppi af Kevin Garnett, Paul Pierce og Ray Allen.

2009- Meiðsli Kevin Garnett gerðu það að verkum að liðið strandaði í úrslitakeppninni þrátt fyrir hetjulega baráttu. Mikilvægi Garnett fyrir þetta lið var og er gríðarlegt.

2010- Helstu keppinautar Boston, Cleveland og Orlando, vígbúast hvor gegn öðrum í leikmannamálum og gleyma meisturunum frá árinu 2008. Boston er með alla sína menn heila og þeir þrífast vel á að vera underdogs. Drápseðlið, reynslan og kæfandi varnarleikur eru enn á sínum stað. Eftir upphitun gegn Miami  Dwyane Wade í fyrstu umferð, byrjar liðið seríurnar gegn krúttliðunum Cleveland og Orlando með því að sparka í punginn á þeim með tilhlaupi.

Hvað er öðruvísi við 2010 Boston en 2008 Boston?

Liðið er enn reyndara og búið að spila lengur saman. Jú, Garnett og Pierce eru eðlilega búnir að missa smá hraða og snerpu, en Allen spilar enn eins og hann sé tvítugur, Perkins er tveimur árum eldri og reyndari (ótrúlegt að maðurinn sé bara 25 ára - andlitið á honum lítur út eins og veðurbarið Inka-líkneski) og síðast en ekki síst....

Rajon Rondo

Árið 2008 var Rajon Rondo litli strákurinn sem spilaði af stjörnunum þremur og reyndi að sleppa við að gera mistök. Allt sem hann kom með í púkkið var bónus.

Núna er Boston liðið hans Rajon Rondo. Gjörsamlega óstöðvandi á báðum endum vallarins á löngum köflum. Er treyst fyrir liðinu og hefur unnið sér óskipta virðingu frá liðsfélögum sínum. Getur borið leik liðsins uppi þegar gömlu mennirnir eru ekki að finna sig. Einn besti, ef ekki besti leikmaður úrslitakeppninnar til þessa.

Svona er þetta í meginatriðum.

Boston drullaði yfir deildakeppnina og ársmiðahafa sína í vetur. Lakers gerði það á suman hátt líka á lokasprettinum. En þeim er líklega nokk sama ef þeir fara í úrslitin.  Erfitt að dissa liðin fyrir þetta, en að sama skapi erfitt að horfa framhjá þessu.

En við höfum engan tíma til þess núna. Það er úrslitakeppni í gangi.

Tuesday, May 18, 2010

KG og Baby taka "Lost" (spoiler alert... kannski)



'Lost' audio: Garnett explains the island to 'Big Baby' from The Basketball Jones on Vimeo.

Phoenix á erfitt verkefni fyrir höndum


Fyrsti leikur LA Lakers og Phoenix Suns í úrslitum Vesturdeildar í gær, gaf ekki góð fyrirheit fyrir seríuna. Fyrir þá sem halda með Suns.

Þetta er bara einn leikur og allt það, en það sem við sáum í gær var nokkurn veginn í takt við það sem við höfðum reiknað með.

Þessi svokallaði bætti varnarleikur Phoenix var hvergi sjáanlegur og hæð Lakers-liðsins og drápseðli gerði það að verkum að þetta var langt kvöld fyrir Suns-menn.

Þú vinnur ekki LA Lakers þegar Kobe skorar 40 stig í 23 skotum, Lamar Odom gælir við 20/20 leik og Pau Gasol klikkar varla á skoti.

Phoenix getur spilað betur og á eflaust eftir að gera það, en Lakers-liðið er ekki að fara að tapa þessari seríu.

Phil Jackson, þjálfari Lakers, hefur 46 sinnum á ferlinum komist yfir 1-0 í einvígi í úrslitakeppninni. 46 sinnum hefur lið hans unnið. Þar af eru 22 af þessum seríum með LA Lakers - restin með Chicago Bulls.

Flestir blaðamenn sem staddir voru á leiknum í gær voru sammála um að stemmingin í Staples Center hefði verið grátlega léleg - ekki betri en á merkingarlausum deildarleik.

Það eina spennandi sem gerðist í áhorfendastæðunum var þegar leikarinn David Arquette lenti í slagsmálum við stjörnudólg nokkurn, sem illa tókst að yfirbuga.

Hvað þarf að gera til að koma Jessica Alba og Alyssa Milano í vatnsslag?

Það var mjög áhugavert að sjá borðann sem rann yfir skjáinn í íþróttafréttunum á Stöð 2 í kvöld þar sem leikur LA Lakers og Phoenix Suns var auglýstur í beinni útsendingu "í kvöld."

Þetta er alls ekki rétt.

Orlando og Boston eru að spila í kvöld. Lakers og Suns mætast öðru sinni á miðvikudagskvöldið og sá leikur, sem og restin af þessari seríu, verður sýndur beint á stöðinni.

Gætið þess að fylgjast með á NBA Ísland þegar kemur að dagskránni, hana er alla að finna hér og látið endilega vini og vandamenn vita af því.

Svo skorum við á fólk sem hefur gaman af NBA deildinni að skella sér á Twitter og ganga í lið með NBA Ísland þar. Þið sjáið ekki nema brot af því besta frá okkur á Twitter hér á síðunni og það er afar hressandi að fylgjast með gangi mála þar meðan leikir standa yfir - og bara alltaf, reyndar.

Beinar útsendingar á Stöð 2 Sport


Þá er loksins hægt að staðfesta beinar útsendingar á Stöð 2 Sport frá undanúrslitunum í NBA.

Við tökum ekki ábyrgð á því að leiktímar séu 100% réttir, svo fylgist vel með því.

Góða skemmtun.

Mið. 19. maí                 01:00     LA Lakers – Phoenix #2
Lau. 22. maí                 00:30     Boston – Orlando #3
Sun. 23. maí                 00:30     Phoenix - LA Lakers #3
Mán. 24. maí                 00:30     Boston – Orlando #4
Þrið. 25. maí                 01:00     Phoenix - LA Lakers #4      
Mið. 26. maí                 00:30     Orlando – Boston #5*
Fim. 27. maí                 01:00     LA Lakers – Phoenix #5*
Fös. 28. maí                 00:30     Boston – Orlando #6*
Lau. 29. maí                 00:30     Phoenix - LA Lakers #6*
Sun. 30. maí                 00:30     Orlando – Boston #7*
Mán. 31. maí                01:00     LA Lakers – Phoenix #7*

* - Ef þarf

Allir leikir í lokaúrslitum verða sýndir beint á Stöð 2 Sport.

Lakers-Suns er að byrja... núna!


Það varð aldrei neitt úr því að við hituðum upp fyrir einvígi LA Lakers og Phoenix hérna á vefnum.

Það er orðið full seint þar eð leikurinn er að byrja þegar þetta er skrifað.

Kannski slepptum við því að koma með spá af virðingu við stuðningsmenn Lakers.

Við höfum nefnilega verið á þeirri skoðun alveg frá byrjun að Lakers-liðið myndi vinna þetta einvígi nokkuð örugglega (t.d. 4-2).

Ef marka má spádómsgáfu ritstjórnarinnar hingað til í úrslitakeppninni, þýðir það væntanlega að Phoenix vinni einvígið 4-1.

Styrkur Phoenix (Nash-Stoudemire) spilar reyndar inn á veikleika Lakers-liðsins (veggs-og-veltu-varnarleikur), en við tippum á að hæð Lakers-liðsins fyrst og fremst (og svo reynsla og drápseðli) muni klára þessa seríu.

Þeir gulu sýndu okkur spretti í Utah-seríunni sem gáfu til kynna að þeir væru í ágætu standi.

Það hefur samt verið mjög fyndið að fylgjast með fjölmiðlaumræðu um þessa seríu síðustu daga. Það talar enginn um Lakers. Bara um Suns og mögulegakannskimöguleika liðsins í einvíginu. Mjög spes.

Phoenix-liðið er hlaðið höfðingjum og góðum drengjum og við óskum því alls hins besta í þessari erfiðu rimmu.

Monday, May 17, 2010

Sumarskrumið 2010


Svona virkar sóknarleikur Phoenix Suns


Svona vinnur Boston körfuboltaleiki


Ert þú með athyglisbrest og nennir ekki að horfa á körfuboltaleiki, en vilt samt vita af hverju Boston-liðið er allt í einu orðið svona gott? Drullastu þá til að setjast niður og horfa á þessar tæpu sex mínútna löngu samantekt úr leiknum þar sem Boston kláraði Cleveland. Flott efni.

Fréttaskot: Þú ert ekkert Ofurmenni, Dwight!


Það er með ólíkindum að "skemmtiatriðið" sem ABC (ESPN) sjónvarpsstöðin bauð upp á í hálfleik á viðureign Orlando og Boston í kvöld skuli ekki enn vera komið á youtube og aðra slíka miðla þegar þetta er skrifað.

Okkur misbauð þetta atriði.

Atriðið var í stuttu máli þannig að Dwight Howard tók viðtal við sjálfan sig. Annars vegar dubbaður upp sem Clark Kent og hinsvegar Ofurmennið (hann sjálfur). Sem sagt tveir Dwight Howard-ar.

Við munum ekki hvert umræðuefnið var, en það tengdist eitthvað hans eigin ágæti sem leikmanns og meintri ofurmennsku hans á körfuboltavellinum.

Atriðið var ekki bara kjánalegt, heldur sorglegt. Og ekki leit það betur út í ljósi þeirrar staðreyndar að Howard var jú að drulla á sig á vellinum bæði fyrir og eftir að atriðið var spilað í leik eitt gegn Boston.

En það er líka sorglegt af því Dwight Howard er alls ekki Ofurmennið.

Í fyrsta lagi hafa amk tveir leikmenn notað/fengið þetta viðurnefni á undan honum.

Þeir hafa unnið samanlagt tíu meistaratitla í NBA og annar þeirra er enn að spila og er með stórt húðflúr á upphaldleggnum máli sínu til stuðnings, þó hann sé nú fyrir nokkru kominn yfir sitt besta.

Við fáum dálítið tak í meðvirknina okkar í hvert sinn sem við erum með leiðindi út í Dwight Howard, því auðvitað er hann vænsti piltur. Gamansamur, góðhjartaður og hefur gaman að lífinu. Margir verri menn en hann í deildinni.

En þegar menn sem eru svona ofmetnir stela viðurnefnum sér eldri og reyndari manna án þess að eiga nokkra innistæðu fyrir því, haga sér eins og vitleysingar og fróa asnalegu egói sínu í nafni skemmtunar í miðjum leik þar sem þeir eru að gera upp á bak, getum við bara ekki sleppt því að tjá okkur um það.

Munið þið eftir atriðinu með Bill Russell og Kevin Garnett í úrslitakeppninni árið 2008? Það var dálítið kjánalegt, ok - mjög kjánalegt - en það var meining í því. Kevin Garnett sat þarna eins og hundur og át upp allt sem Russell sagði við hann. Af því hann bar/ber virðingu fyrir þeim gamla og hringjunum hans ellefu.

Það getur vel verið að atriðið hans Howard hafi bara átt að vera saklaus glens - og vissulega var það einmitt það, þó það væri ekki skemmtilegt - en þessi ungi maður þarf að fara að kíkja á forgangsatriðin sín.

Eins og við höfum 8947 sinnum tekið fram á þessu vefsvæði í vetur, á Howard eftir að einoka sæti miðherjans í úrvalsliði NBA næsta áratuginn af því miðherjastaðan er nær útdauð í NBA. Þessu fylgir mikil ábyrgð. Miðherjar í úrvalsliði NBA haga sér ekki eins og fávitar ef þeir geta ekki staðið sig inni á vellinum. Hagaðu þér eins og fífl þegar þú ert búinn að vinna eitthvað (sjá Shaquille O´Neal) eða kannski þróa eitthvað með þér sem heitir sóknarleikur.

Dwight Howard þarf að eyða minni tíma í vitleysu og meiri tíma í að vinna í leik sínum.

Howard er nú þegar orðinn ofmetnasti miðherji síðustu 30 ára í NBA deildinni.

Patrick Ewing var ofmetinn á sínum tíma, en hann er það ekki við hliðina á Howard. Getur huggað sig við þá staðreynd nú þegar hann er að reyna að kenna drengnum að spila körfubolta sem aðstoðarþjálfari.

Ewing hefði reyndar étið hann með morgunmatnum þegar hann var upp á sitt besta og þarf að segja drengnum það daglega og tvisvar á sunnudögum.

Við erum svona hörð við Howard af því það sjá það allir að hann á að geta miklu, miklu, miklu betur.

Af einhverri furðulegri ástæðu halda fjölmiðlar aftur af sér við að tæta Howard í sig. Kannski af því þeir vita að hann er eina von Bandaríkjanna um almennilegan miðherja. Kannski af því hann er svo næs og vinsæll. Nú eða af því þeir vita innst inni að hann er bara meingallaður leikmaður en því miður er ekkert annað í boði.

Hvað um það. Howard þarf að fara að pappíra sig. Þetta getur ekki gengið svona mikið lengur. Gaurinn er að drulla á sig og það þarf einhver að fara að tala um það.

Ekki segja að við séum ekki búin að því.

Boston heldur áfram að vinna körfuboltaleiki


Þá eru undanúrslitin í NBA farin af stað. Boston náði í kvöld 1-0 forystu gegn Orlando í úrslitum Austur-deildar með mjög þýðingarmiklum 92-88 sigri á útivelli.

Þetta var leikurinn sem Boston átti að sækja og liðið gerði það. Orlando-liðið hafði ekki spilað í næstum viku eftir 8-0 skemmtisiglingu í gegn um vanhæfa andstæðinga í fyrstu tveimur umferðunum, en í kvöld lenti Magic-liðið í klónum á alvöru körfuboltaliði.

Og tapaði.

Varnarleikurinn sem Boston bauð upp á lengst af í þessum leik var ekkert minna en frábær. Celtics-piltar gengu að prímusmótornum í Orlando liðinu, tóku hann úr sambandi og spörkuðu honum á hliðina.

Boston getur reyndar spilað betur en það gerði í kvöld, sem er kannski áhyggjuefni fyrir Orlando. Heimamenn geta líka spilað betur og munu eflaust gera það í leik tvö - sem er auðvitað algjör möst-leikur fyrir þá.

Boston getur leyft sér munað sem Charlotte og Atlanta (svo dæmi séu nefnd) geta ekki - það er að verjast Howard mestmegnis einn á einn. Og þegar það er gert - lokast mikið til á þriggja stiga skyttur Orlando.

Við skiljum ekki af hverju lið tvídekka Howard svona mikið, því hann er allt nema afleitur sóknarmaður. Við munum ekki eftir því að hann hafi unnið marga leiki á ferlinum með sóknarleik sínum og því ekki ástæða til að ætla að hann fari að byrja á því núna.

Kallið okkur viðvaninga (og það erum við sannarlega), en við áttum okkur ekki á þessu.

Vince Carter var stigahæstur hjá Orlando, hitti úr helmingi skota sinna og keyrði meira að segja á körfuna í leiknum! Hann verður laminn í gólfið í næsta leik og gerir þetta þá væntanlega ekki aftur. Mun ekki eiga annan leik með 50% skotnýtingu í þessu einvígi. Þú last það hér (eins og að Cleveland yrði meistari 2010).

Já, við tókum eftir innkomu JJ Redick í þessum leik. Það er ekkert nýtt að hann komi inn og geri fína hluti fyrir þetta lið.

Og við tókum líka eftir frammistöðu Dwight Howard (3-10 í skotum, 7-12 í vítum, 13 stig, 7 tapaðir boltar). Enn minna nýtt á ferðinni þar. Ekki nema von að hann hafi fengið atkvæði frá sínu fólki sem verðmætasti leikmaður deildarinnar (eins og LeBron James frá NBA Ísland).

Boston-vélin mallaði líka þokkalega í sókninni, þó hún hóstaði aðeins á lokasprettinum og hleypti spennu í leikinn.

Ray-Ray (Allen) heldur bara áfram að bæta við fallegan gagnabanka sinn með enn einum huggulega leiknum (og ísaði leikinn á vítalínunni í lokin).

Paul Pierce átti mjög ökonómískan leik í sókninni.

Tony Allen heldur áfram að vinna sér inn Tommy (Heinsohn) punkta með kraftmiklum innkomum.

Þá verður ekki skafið af þeim Perkins, Wallace og Davis, sem stóðu vaktina mjög vel í því að loka miðjunni.

Rasheed Wallace laumaði líka inn 13 stigum í bónus og Doc Rivers þjálfari þorir ekki annað en að taka undir yfirlýsingar leikmannsins sjálfs - að hann hafi verið fenginn til liðsins til að spila vel í úrslitakeppni - ekki í deildakeppninni.

Segðu það sem þú vilt, Wallace mun aldrei vinna sér inn þá virðingu sem hann telur sig eiga skilið á þessari ristjórn. Aldrei.

Leikur tvö í þessari rimmu, sem er síður en svo falleg eins og áhorfendur sáu í kvöld, verður óhugnanlega áhugaverður.

Fólk var byrjað að tala um Celtics-Lakers úrslitaeinvígi um leið og Boston náði 20 stiga forystu í þessum leik.

Bíðum nú aðeins með þær spár, en úr því sem komið er - er sú pæling ekki sú vitlausasta í heimi.

Hugsið ykkur bara...

Sunday, May 16, 2010

Úrslit Austurdeildar hefjast í kvöld


Í kvöld klukkan 19:30 hefst úrslitaeinvígi Orlando Magic og Boston Celtics í Austurdeildinni. Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 3.

Orlando er 8-0 í úrslitakeppninni, hefur leikið vel, en fengið litla mótspyrnu til þessa.

Boston var að ljúka við að pakka deildarmeisturum Cleveland saman flestum að óvörum.

Því er fullkomlega ómögulegt að spá fyrir um þetta einvígi. Það er bara ekki hægt að mynda sér skoðun á því fyrr en liðin eru aðeins búin að berja hvort á öðru. Og þau munu sannarlega gera það.

Við ætlum að láta okkur nægja að segja að ef Orlando vinnur tvo fyrstu leikina á heimavelli, fer liðið í úrslit annað árið í röð. En ef Boston vinnur leik eitt eða tvö - fer liðið í úrslit.

Þetta er risastórt skákeinvígi sem er að fara í gang. Gæti orðið ugly á köflum.

Blaðamenn eru á því að Orlando vinni. Sérfræðingar tippa á Boston.

Við hefðum tippað á Orlando, en Boston er allt annað lið en það var í vetur. Við viljum líka ekki gefa Boston þann óþarfa meðbyr að tippa á móti því aftur.

Saturday, May 15, 2010

Phil Jackson hagar sér eins og smákrakki


Phil Jackson, þjálfari LA Lakers, hefur þurft að punga út vænum summum í sektargreiðslur á vordögum.

Það er ekki langt síðan hann eitraði fyrir einvíginu gegn Oklahoma með því að lýsa því yfir að Kevin Durant fengi stjörnumeðferð hjá dómurum, en skömmu áður hafði hann hraunað yfir dómara undir lok deildakeppninnar.

David Stern tók fast í taumana þá og sektaði hann.

Jackson þurfti ekki á neinum svona yfirlýsingum að halda fyrir einvígið gegn Utah í annari umferðinni, en hann gat ekki stillt sig um að halda áfram þegar hann tjáði sig um einvígið við Phoenix í úrslitum Vesturdeildar.

Hann var spurður hvernig Lakers-liðinu gengi að undirbúa sig undir það að mæta Steve Nash.

"Það er erfitt að búa sig undir það. Við getum ekki leyft okkur að skrefa með boltann eins og hann," sagði Jackson.

Önnur yfirlýsing frá sigursælasta þjálfara í sögu NBA sem ber ekki beint vott um klassa.

Við biðum spennt eftir svari frá Phoenix. Eða öllu heldur engu svari. Svona yfirlýsingar eru ekki svaraverðar.

Nema þeim sé svarað fast til baka, líkt og Steve Nash sjálfur gerði í dag.

"Þið eruð að segja mér fréttir. Ég hef greinilega verið svona heppinn. Þetta hefur ekkert verið dæmt á mig hingað til. Besti þjálfarinn í deildinni fann ekkert athugavert við þetta í síðustu viku," sagði Nash og vísaði þar í Gregg Popovich, þjálfara San Antonio.

Líklega hefði verið best að sleppa því að svara þessu bulli frá Jackson, en við erum að meta svarið frá Nash.

Jackson má samt fara að sýna smá klassa. Ef hann á hann ennþá til. Þetta er orðið sorglegt.

Friday, May 14, 2010

Við hugsum upphátt um körfubolta meðan Cleveland fer til Benidorm


Ritstjórn NBA Ísland vill nota þetta tækifæri til að óska stuðningsmönnum Boston Celtics til hamingju með sætið í úrslitaeinvígi Austurdeildar eftir öruggan sigur á Cleveland í sjötta leik liðanna í annari umferð í gær.

Aðeins trufluðustu stuðningsmenn Boston og færustu miðlar hefðu þorað að spá fyrir um þessa niðurstöðu.

Það er óþarfi að skrifa langan pistil um þennan leik eftir hlemminn sem við skrifuðum eftir leik fimm.

Cleveland mætti tilbúið í þennan leik og sýndi baráttu og karakter í rúmar 46 mínútur, en liðið átti bara aldrei möguleika gegn sterkari liðsheild Boston. Hvorki í gær né í einvíginu öllu - og er því á leið til Benidorm.

Hvað stendur þá upp úr eftir þessa seríu?

Boston laug. Liðið er miklu betra en það var í deildakeppninni. Boston-liðið sem kláraði Cleveland núna er miklu líkara meistaraliði Boston frá 2008 en þessu drasli sem liðið var frá áramótum og fram á vorið.

Við bárum virðingu fyrir meistaraliði Celtics en sú virðing var að engu orðin þegar þessi úrslitakeppni byrjaði. Þess vegna spáðum við því að liðið félli úr leik gegn Miami í fyrstu umferð. Svona er lífið.

Cleveland er líka búið að fara illa með okkur í vetur. Við spáðum liðinu meistaratitli eins og mörg önnur fífl.

Cleveland er komið í flokk með liðum Phoenix og Dallas á undangengnum árum. Liðum sem stormuðu í gegn um deildakeppnina en strönduðu í úrslitakeppninni.

Þess ber að geta að við veðjuðum aldrei einu sinni á Dallas og Phoenix á sínum tíma. Stukkum ekki um borð í þá rútu. Þessi lið voru ekki nógu sterk varnarlið, höfðu ekki nógu öfluga "closera" (dæmi: Kobe Bryant), reynslu og drápseðli.

Cleveland var öðruvísi lið. Það rúllaði aftur í gegn um deildakeppnina í fimmta gír þrátt fyrir meiðsli og var spáð góðu gengi, en öfugt við Dallas og Phoenix hefur Cleveland verið mjög öflugt varnarlið, hafði mikla breidd og reynslu og er jú með einn LeBron James í sínum röðum - mann sem er besti leikmaðurinn á gólfinu í flestum seríum.

Þess vegna stukkum við um borð í Cleveland-lestina.

En hún fór nú út af sporinu annað árið í röð.

Og í þetta sinn virðast allir farþegar hafa týnt lífi.

Cleveland er búið að gera okkur að nógu miklum fíflum svo við förum að spá í hvað gerist hjá félaginu í sumar.

Liðið skeit á sig í úrslitakeppninni og leikmannamál eru óráðin, svo það er ótímabært að fara að spá í það.

LeBron James er auðvitað með lausa samninga og fjölmiðla-sirkusinn í kring um það mun yfirgnæfa allt annað fram í júlí.

Það eina sem er ljóst er að forráðamenn Cleveland þurfa að skoða sín mál mjög vandlega og byrja á því að reka Mike Brown. Hann er ekki maðurinn til að uppfylla metnað félagsins þó hann sé drengur góður. Það sýndi sig endanlega í einvíginu gegn Boston.

****

Það er ekki laust við að gæti timburmanna á ritstjórninni eftir þetta einvígi Cleveland og Boston.

Fjölmiðlasirkusinn og skrumið í kring um "endalok körfuboltans í Cleveland" var með þvílíkum ólíkindum að það mun taka fjölmiðla, sem og aðra, talsverðan tíma að gíra sig upp í að fara nú að fylgjast með aktúal körfubolta á ný.

Körfuboltinn er ekki dauður í Cleveland og LeBron James breyttist ekki í geimveru, flaug upp af blaðamannafundinum og sprakk í loft upp eins og margir áttu von á.

Það fór hinsvegar óstjórnlega í taugarnar á okkur að það eina praktíska sem James gerði á blaðamannafundinum eftir leikinn í gær var að hirða Gatorade-flöskurnar af borðinu og leggja þær niður á gólf.

James er með styrktarsamning við íþróttadrykkinn Vitamin Water og vildi því ekki láta mynda sig með Gatorade-flösku nálægt sér.

Hann var að tapa stærsta leik sínum á ferlinum, illa. Lið hans, sem hefur verið langbesta liðið í NBA í vetur, var tekið og rassskellt af gömlum hundum sem áttu ekki að eiga erindi í þessa seríu.

James svaraði engu á þessum blaðamannafundi. Vék sér fimlega undan öllu og svaraði í fyrirframákveðnum klisjum. Hafði ekkert að segja um hvernig stóð á því að liðið hans skeit á sig og hann gat ekkert gert til að aftra því. Það var ekkert passjón í honum. Hafi hann verið reiður eða tapsár - faldi hann það fullkomlega. Gaf ekkert.

Það eina sem hann passaði upp á var að láta nú ekki nappa sig á mynd með Gatorade-flösku nálægt sér.

Ef hægt er að finna eitthvað að LeBron James, er það nákvæmlega þetta.

Stundum er eins og hann sé uppteknari við að nostra við vörumerkið sitt en vinna í að verða einn af fimm bestu körfuboltamönnum allra tíma.

Við setjum ómannlega pressu á hann af því við sjáum að hann hefur hæfileikana til þess, en fram að þessu hefur hann ekki staðið undir væntingum okkar. Það er ekki auðvelt að vera LeBron James.

Flestir af bestu og sigursælustu körfuboltamönnum sögunnar voru létt geðveikir. Russell og Jordan eru gott dæmi um þetta. Þeir hefðu lamið ömmur sínar til að vinna - sama hvort það var í ólsen ólsen eða í lokaúrslitum NBA.

LeBron James hefur þetta ekki. Ekki enn að minnsta kosti.

En hann er nú bara 25 ára gamall. Ekki hengja hann alveg strax.

Við ætlum ekki að gera það.