Sunday, May 30, 2010
LA Lakers 4 - Phoenix Suns 2
Það verða Boston Celtics og Los Angeles Lakers sem leika til úrslita um NBA meistaratitilinn árið 2010. Þetta er í annað sinn á þremur árum sem stórveldin læsa hornum í lokaúrslitum.
Þetta varð ljóst eftir að Lakers kláraði Phoenix Suns 111-103 í sjötta leik liðanna í Phoenix í kvöld.
Rétt eins og í leik sex hjá Boston og Orlando í fyrrakvöld, varð ljóst snemma leiks að Lakers-liðið ætlaði ekki að tapa þetta kvöldið.
Það hefur örugglega ekki verið partur af planinu að Ron Artest (25 stig) myndi halda sóknarleik liðsins á floti framan af, en svona er þetta stundum hjá góðu liðunum. Þau finna leiðir til að klára.
Enn eina ferðina náðu varamenn Suns að snúa töpuðum leik í áhugaverðan og rétt eins og eftir leik fimm mátti lesa gagnrýni á Alvin Gentry úr öllum hornum fyrir að setja Steve Nash og co. of seint inn í fjórða leikhlutanum.
Það er partur af sjarmanum við þetta Phoenix-lið. Sú staðreynd að þjálfarinn eigi erfitt með að velja rétta augnablikið til að taka varamenn sína út úr leiknum.
Kannski hefðum við átt að sjá Nash fyrr inni, maðurinn virðist alltaf vera money í krönsinu, en það má ekki gleyma því að byrjunarlið Phoenix var nú ekki að gera neinar rósir í þessum leik fyrr en varamennirnir pappíruðu það. Og ekki í fyrsta skipti.
Og talandi um að vera money í krönsinu...
Kobe Bryant (37 stig, þar af 9 á síðustu 2 mínútunum) var ólöglega rosalegur á lokasprettinum í þessum leik.
Skotin sem maðurinn var að setja niður á lokamínútunum voru bara kjánaleg. Drápseðlið og kuldinn. Þetta var rosaleg atburðarás.
Svona sést ekki á hverjum degi á stóra sviðinu og hefur ekki sést síðan Þú Veist Hver var að kremja hjörtu andstæðinga sinna á árunum 1991-98.
Kobe er búinn að vera rosalegur síðan um miðbik fyrstu umferðarinnar og sendi frá sér sterka yfirlýsingu í kvöld til þeirra sem kalla LeBron James besta körfuboltamann í heimi. Svo sterka, að það kallar jafnvel á sérstakan pistil.
Það sem skiptir þó mestu máli núna, er að Kobe hefur aldrei verið í öðrum eins drápsham, er eins heill heilsu og hann verður úr þessu - og ætlar að hefna sín á liðinu sem niðurlægði hann árið 2008. Meira um það síðar.
Hvað með Phoenix Suns?
Þessi sprettur liðsins í úrslitakeppninni hefur sannarlega verið óvæntur og skemmtilegur.
Steve Nash hefur oft átt að fara langt í úrslitakeppni með liðið sitt, en þetta var ekki eitt þeirra. Þetta er virkilega skemmtilegur hópur, sem spilar undir stjórn þjálfara sem er að gera góða hluti.
Samningamál Amare Stoudemire og óhjákvæmileg öldrun og heilsa Steve Nash hanga auðvitað yfir Suns-liðinu eins og draugur, en það er fullt af litlum og jákvæðum punktum þarna í mixinu líka. Eins og vaskleg framganga varamanna liðsins.
Þetta er fílgúdd-lið frá a til ö ef Stoudemire er undanskilinn.
Hann er einstakur sóknarmaður, en spurningamerki hvað varðar heilsu, viðhorf og varnarleik (sjá: Carlos Boozer).
Amare á eftir að hugsa sín mál vandlega í sumar og fær eflaust eitthvað af góðum tilboðum. Hann talar um að vinna titla eins og allir aðrir en það á eftir að koma í ljós hvort hann fær nokkru sinni betri meðreiðarsvein en Steve Nash.
Nash eftir leikinn; "Ég taldi Lakers vera betra lið fyrir einvígið, en eftir leiki 3 og 4 var ég ekki svo viss. Ég var virkilega farinn að trúa því að við gætum unnið. Kannski munaði það bara því að við hefðum náð framlengingu í leik fimm og þá kannski fengið tækifæri til að klára heima. Þetta er einstakt lið og ég hef aldrei verið partur af öðrum eins hóp áður á ferlinum."
Nash felldi nokkur tár þegar hann knúsaði þjálfarann sinn inni í klefa eftir leikinn. Það er dálítið átakanlegt að sjá þennan snjalla leikmann og einstaka persónuleika falla úr leik ár eftir ár.
Nash verður áfram dæmdur á því hve oft hann hefur komist í lokaúrslitin og ef hann nær þangað, bíður hans sterkari gagnrýni þangað til hann landar titlinum.
Lífið er tík í NBA sem og annars staðar.