Saturday, May 29, 2010

Boston 4 - Orlando 2

























Sumir sögðu að Boston væri komið í vandræði eftir tvö töp í röð gegn Orlando liði sem stóð varla í lappirnar eftir að lenda undir 3-0. Það reyndist ekki rétt ef við miðum við auðveldan sigur liðsins í kvöld.

Boston spilaði ekki óaðfinnanlega í sjötta leiknum, en Orlando var ekki tilbúið, hafði ekki trú á verkefninu og átti aldrei séns. Niðurstaðan 96-84 sigur Celtics og sætið í lokaúrslitum raunveruleiki. Þegar rykið sest á næstu dögum og fólk nær utan um þessa seríu, kemur 4-2 sigur Boston ekkert á óvart. Ekki eftir að við sáum hvernig Boston fór með Cleveland.

Hvað gerðist í sjötta leiknum? Rondo sló fyrsta höggið gegn Nelson. Rondo meiddist. Nate Robinson skoraði 13 stig í öðrum leikhlutanum og kveikti í Garðinum. Ray Allen opnaði síðari hálfleikinn með stórum þristum og Paul Pierce tók í tauminn og dró liðið í mark í síðari hálfleiknum. Bingó. Leikur.

Doc Rivers spáði því í apríl að Nate Robinson ætti eftir að vinna leik fyrir Boston í úrslitakeppninni.

Það ætti ekki að vera stór spádómur um mann sem skoraði 40 stig fyrir ekki löngu síðan, en Boston hefur ekki getað notað hann.

Nate er ekki beint að blómstra í kerfisbundnum körfubolta með vörn á oddinum. En guttinn getur skorað, elskar sjálfan sig og getur kveikt eld í miðju Þingvallavatni. Átti risavaxinn þátt í sigrinum í kvöld.

Orlando náði sér aldrei á strik í sjötta leiknum. Fór snemma út af game-planinu. Dwight var grimmur en Orlando fer illa að elta. Þristarnir duttu ekki af því liðið náði ekki sama flæði. Orlando var 10-0 í úrslitakeppninni þegar liðið skoraði 9+ þrista en 0-4 þegar það skoraði 8 þrista eða færri.

Við fáum nægan tíma til að fjalla um Boston-liðið þegar kemur fram í lokaúrslitin, en það hefur ekki verið tuggið nógu oft hvað frammistaða þess í annari og þriðju umferðinni hefur verið gígantísk.

Síðustu leikirnir í Cleveland seríunni og fyrstu þrír gegn Orlando voru besti körfubolti sem sést hefur í úrslitakeppninni og það er ekki hægt annað en gefa liðinu A+  fyrir þennan tilkomumikla sprett í gegn um "bestu liðin í Austurdeildinni."  Þú getur alveg reynt að segja að þú hafir spáð þessu í apríl, en þá værir þú að ljúga.

Það er skammarlegt að Boston skuli ekki hafa spilað á fullu gasi alla deildakeppnina en það er ekkert við því að gera. Doc Rivers viðurkenndi fúslega að hann hefði einfaldlega tippað á að reyna að halda liðinu heilu þegar kæmi fram í úrslitakeppni - annars ætti það ekki séns - og það hafi kostað nokkra sigra í deildakeppninni.

"Þetta byrjunarlið hefur aldrei tapað seríu í úrslitakeppninni. Ég vissi að við ættum séns ef allir væru heilir," sagði hann. Og mikið fjandi var það rétt hjá honum - þó ársmiðahafar Boston séu fúlir yfir því að hafa þurft að horfa á Rasheed Wallace dæla þristum og skokka milli þriggja stiga lína með bumbuna sína í vetur.

Hvað er hægt að segja um Orlando?

Þjófavarnarkerfið fór auðvitað á fullt þegar liðið ákvað að fjárfesta 118 milljónum dollara í Rashard Lewis á sínum tíma. Gerði hann liðið betra? Sannarlega. Var þetta gáfuleg framtíðar fjárfesting? Nei. Hefur hún hjálpað Orlando ná takmarkinu? Nei.

Orlando er rosalega vel mannað lið með mikla dýpt - sem er lykill að 50+ sigrum í deildakeppninni (sjá: Cleveland) og sópum í fyrstu umferð - en ekki öðru. Orlando er frábært körfuboltalið en blandan hjá þeim er bara ekki nógu góð.

Þegar upp var staðið í vor, líkt og í fyrra, komu sömu holurnar í ljós. Jameer Nelson er góður, en hann er ekki hefðbundinn leikstjórnandi sem gerir alla félaga sína betri og stjórnar leikjum. Dwight Howard hefur alls ekki tekið nógu miklum framförum þó við viðurkennum fúslega að hann náði sér í nokkur prik hjá okkur í síðustu þremur leikjunum í þessu einvígi. Rashard Lewis er ekki kraftframherji sem spilar vörn og hirðir fráköst.

Og þú vinnur ekki meistaratitil með Vince Carter.

Vince hefur verið með stimpil á sér í mörg ár fyrir að vera linur og þola ekki pressu og hann gerði ekkert annað en að færa sönnur fyrir því í þessu einvígi.

Lewis var í það minnsta veikur, þó það afsaki því miður ekkert á þessu stigi í úrslitakeppninni, en Carter var bara Carter. Það er of átakanlegt til að taka saman hvað maðurinn var að gera og gera ekki í þessari seríu. Hræðilegt.

Orlando átti að geta veitt Boston meiri samkeppni í þessu einvígi, en hóf ekki þátttöku í því fyrr en í fjórða leiknum.  Jú, jú, fyrstu tveir leikirnir í Orlando voru jafnir í lokin, en liðið var bara ekki tilbúið í slagsmálin sem framundan voru. Reynslan sem Dwight Howard og félagar fá af þessari séríu er dýrmæt. Þetta var rosaleg kennslustund. Núna veit Howard hvernig hann þarf að mæta til leiks gegn alvöru liðum. Brosa minna, sveifla fleiri olnbogum. Eða eitthvað þannig.

Orlando-liðið verður ekki sprengt upp, enda hvorki ástæða til þess né raunhæfur möguleiki. En stjórnin verður að djassa liðið eitthvað til ef hún ætlar að vinna titla. Og nei, það er engin lausn að reka Stan Van Gundy og það verður heldur ekki gert. Kannski Patrick Ewing, en ekki Van Gundy. Ekki strax.

Austurdeildin er galopin á næstu árum og því væri ekki viturlegt af forráðamönnum Magic að sprengja upp lið með jafn góðan kjarna. Það er kannski ekki ástæða til ofurbjartsýni í Disney-landi, en flest lið í deildinni sjá það sannarlega svartara.