Friday, May 28, 2010

LA Lakers 3 - Phoenix 2

























Það kann að vera eftir bókinni að LA Lakers hafi nú náð 3-2 forystu í einvígnu við Phoenix í úrslitum Vesturdeildar eftir 103-101 sigur á heimavelli í kvöld, en fleira stendur ekki í þeirri ágætu bók. Eftir að hafa verið mest 18 stigum yfir í síðari hálfleik, þurftu meistararnir í LA Lakers á kraftaverki frá Ron Artest að halda til að klára leikinn í lokin og geta nú farið til Phoenix og klárað dæmið.

Ef við eigum að segja alveg eins og er, þótti okkur þessi leikur lengst af frekar leiðinlegur, öfugt við hina fjóra leikina í seríunni. Varnarleikurinn var stífari og hvorugu liðinu tókst að finna taktinn. Við ætlum að vona að það hafi ekki orðið til þess að einhver hafi gert þau afdrifaríku mistök að slökkva og fara í rúmið.

Phoenix neitaði að gefast upp í þessum leik þrátt fyrir að fá rispu í andlitið í hvert einasta skipti sem liðið náði að minnka muninn í 6-8 stig. Alltaf var Lakers yfir.

Það var því eiginlega hálf skrítið þegar Steve Nash skaut liðið inn í leikinn aftur og náði að hleypa spennu í lokamínúturnar.

Þú hefur væntanlega séð helstu atriði úr leiknum núna. Phoenix jafnaði leikinn þegar 3,5 sekúndur voru eftir með þristi frá Jason Richardson í spjaldið og ofan í.

Lakers mistókst að stíga út hvað eftir annað og það hlaut bara að enda með því að eitt þessara skota færi ofan í.

Þú veist samt að 3,5 sekúndur eru eilífð þegar þú spilar á móti Kobe Bryant.

Auðvitað fékk hann boltann, og það sem er vanmetið við skot hans í lokin var að hann passaði að taka það strax og skildi þannig eftir tíma fyrir sóknarfrákast.

Skotið var ómögulegt, en eins og heimsbyggðin veit núna, hreinsaði Ron Artest upp frákastið og tryggði Lakers sigurinn á flautunni.

Artest fór þarna frá geit til hetju á nokkrum sekúndum, því hann hafði skömmu áður tekið tvö mjög illa ígrunduð skot.

Fjölmiðlar væru að tæta hann í sig núna ef hann hefði ekki sett boltann ofan í þarna í lokin.

Alvin Gentry þjálfari Suns var blessunarlega búinn að æla í fyrri hálfleiknum, svo hann hafði ekkert til að kasta upp eftir að úrslitin lágu fyrir.

Hann sýndi samt mikið æðruleysi og klassa á blaðamannafundinum eftir leikinn og gerði grín að öllu saman. Steve Nash var eðlilega skúffaður að horfa á enn eina frábæra frammistöðu sína (29/11) fara í súginn, en hann sagðist ákveðinn að koma aftur til LA í leik sjö - og við trúum honum alveg.

Við nennum ekki að velta okkur meira upp úr sub-plottum í leiknum eins og hræðilegri hittni Ron Artest fyrir lokaskotið (1-8), góðri frammistöðu Lamar Odom (ávísun á sigur Lakers), frábærum leik Fisher, enn einum draugaleiknum frá Bynum, sigurhrinu Lakers á heimavelli í úrslitakeppninni (11, þriðji besti árangur síðustu 15 ára), ælu Alvin Gentry á hliðarlínunni eða slagsmálum Slóveníu-undranna Vujacic og Dragic.

Í augnablikinu ætlum við bara að sjúga atmosið úr þessum leik aðeins í okkur og fagna því að þessari úrslitakeppni skuli vera borgið. Það ber að elska.