Thursday, May 27, 2010

Orlando 2 - Boston 3


Körfuboltaguðirnir hafa séð að sér. Það sem virtust ætla að verða ansi bitlaus undanúrslit er óðum að líkjast alvöru úrslitakeppni. Orlando tókst í kvöld að minnka muninn í 3-2 í einvígi sínu við Boston með nokkuð öruggum heimasigri í leik fimm í úrslitum Austurdeildar.

Orlando-liðið hamraði áfram á járnið sem hitnaði óvænt í fjórða leiknum og er nú farið að spila körfubolta sem minnir óþægilega mikið á boltann sem tryggði því einn besta árangurinn í deildakeppninni í vetur.

Þetta var í meira lagi furðulegur leikur og þeir sem horfðu voru flestir farnir að efast um að gestirnir frá Boston gætu teflt fram mannskap til að klára leikinn. Kendrick Perkins, sem alla jafna er handfylli fyrir dómara sem aðra út af hreinum og klárum leiðindum, hitti á það mánaðarlega hjá dómurum leiksins og var sendur í bað með tvær tæknivillur.

Báðar þessar villur voru ansi ódýrar og í rauninni bara kjánalegar, en Perkins hefur svo sem alveg unnið sér það inn að vera ekki beint í náðinni hjá dómurum.

Flestir virðast strax vera komnir á þá skoðun að tæknivillur þessar verði dregnar til baka og það er ekki lítið hagsmunaatriði fyrir Boston þar sem kappinn ætti með öllu að taka út leikbann í næsta leik. Hann fékk þarna sína sjöundu tæknivillu í úrslitakeppninni og það þýðir sjálfkrafa eins leiks bann.

Við skiljum mætavel að Celtics-menn séu ósáttir við þessar tæknivillur, en við erum alfarið á móti því að þær verði dregnar til baka. Leikmenn vinna sér inn fyrir tæknivillum og ef dómarinn á vellinum sér ástæðu til að flauta tæknivillu á leikmann, er það bara vegna þess að honum þykir hann eiga það skilið. Dómarar dæma ekki óvart tæknivillu á leikmenn og því á hún að standa. Og ekki koma með eitthvað "hann hefði aldrei dæmt seinni tæknivilluna á hann ef hann hefði munað að Perkins var þegar kominn með eina í leiknum" -kjaftæði. Það er bara bull.

En þetta var ekki eina dramatíkin hjá þeim grænu í leiknum.

Glen Davis át Howard-olnboga, fékk heilahristing og datt í fangið á Crawford dómara (tæpur fyrir leik 6)
Marquis Daniels skallaði bringuna á Gortat og fékk heilahristing (tæpur fyrir leik 6)
Rasheed Wallace tognaði í baki um leið og hann fékk 6. villuna (tæpur á geði)
Paul Pierce rifjaði upp axlarmeiddið sitt og fann ógurlega til (tæpur leikari)
Rajon Rondo er hálfur á við það sem hann var í leikjum 1-3, mögulega meiddur (tæpt fyrir Boston)
Tony Allen er meiddur og er svipur hjá sjón (Tæp... æ, eitthvað)

Bættu við þetta þeirri staðreynd að varnarleikur Boston er allt í einu búinn að dala umtalsvert, Orlando er búið að fínstilla sóknarleikinn sinn, raðar þristum á ný og er búið að finna sjálfstraustið.

Hentu því inn að mamma hans Ray Allen var ekki á leiknum og einhver gæti haldið að Boston væri í vandræðum.

Við skulum alls ekki fara fram úr okkur þó þessi upptalning líti ekki vel út fyrir þá grænu.

Boston hefði tekið því fyrir þetta einvígi ef einhver hefði boðið því að vera 3-2 yfir á móti Orlando fyrir leik sex á heimavelli. Án þess að blikka. Og ekki halda að Boston óttist að spila leik sjö á útivelli ef til þess kæmi.

Rétt eins og hjá Lakers-liðinu er ekkert panikk komið í Boston menn. En mikið þeir voru bölvaðir klaufar að klára þetta ekki heima í fjórða leiknum og sleppa við þennan barning. Orðnir allt of gamlir fyrir svona læti.


Það er samt afar hressandi að við skulum allt í einu vera komin með bullandi seríur bæði í austri og vestri úr því sem komið var þegar Lakers var yfir 2-0 og Boston 3-0.

Þeir sem hallast að hálftóma glasinu bölva því eflaust að Boston og Lakers séu nú að eyða óþarfa púðri í að láta Orlando og Phoenix lemja á sér í stað þess að spara það fyrir lokaúrslitin, en við tökum þessari óvæntu þróun mála fagnandi.

Það veitti ekki af smá drama í þessa blessuðu úrslitakeppni og þú veist það.