Wednesday, May 26, 2010

Úrslitakeppnin byrjaði aftur í nótt:


Ágætu lesendur, við erum allt í einu komin með úrslitakeppni.

Fyrir 48 stundum eða svo var fólk að bölsótast yfir því að þátturinn Fólk með Sirrý væri ekki lengur á dagskrá til að stytta því stundirnar fram að úrslitaeinvígi Lakers og Celtics.

Nú má vel vera að það verði gömlu stórveldin sem mætast í lokaúrslitum - allt bendir enn til þess - en mikið óskaplega hafa undanúrslitaeinvígin nú breyst til batnaðar á þessum síðustu tveimur dögum.

Boston á erfiðan leik fyrir höndum í Orlando á miðvikudagskvöldið og eftir dramatíkina í Phoenix í kvöld varð ljóst að meistarar LA Lakers eru komnir á byrjunarreit í einvíginu við baráttuglaða Suns-menn.

Staðan þar orðin 2-2 eftir 115-106 sigur Phoenix í leik fjögur í nótt.

Flestir reiknuðu með því að Lakers-liðið myndi finna svör við svæðisvarnarbrellum Suns frá leik þrjú, en svo var ekki. Líklega hefur engum manni dottið í hug að Phoenix myndi halda áfram að keyra svona mikið á því sem kallað hefur verið "stelpu-svæði(s-vörn)" eða girlie zone, en af hverju að breyta því sem virkar? Alvin Gentry lýsti því yfir strax inni í klefa eftir leikinn að liðið myndi halda áfram á sömu braut í leik fimm.

Öldungar og reynsluboltar í NBA deildinni muna ekki eftir því að lið hafi treyst svona mikið á svæðisvörn í úrslitakeppni fyrr og síðar og sú staðreynd að hún skuli vera að virka svona vel gegn jafn sterku liði og Lakers er algjör forsíðufrétt. Klárlega ein af stóru sögunum í úrslitakeppninni.

En það var ekki bara stelpuvörnin góða sem tryggði Phoenix sigur í leiknum í kvöld. Frammistaða varamanna liðsins í kvöld var ekkert minna en stórkostleg.

Meira að segja Channing Frye hitti úr skotunum sínum. Þetta eru svo miklir toppmenn. Koma öllum í jólaskap. Frábært að sjá svona öskubuskuævintýri í beinni útsendingu.

Sjá þessa skrúbba lúskra á Lakers í öðrum leikhlutanum og útspila svo byrjunarlið Lakers nær allan fjórða leikhlutann. Þetta er epík.

Já, svæðisvörn Suns og frammistaða varamanna liðsins var Disney-leg í kvöld, en hún fær okkur þó ekki til að horfa framhjá því hvað Kobe Bryant er gjörsamlega að tortíma í sóknarleiknum í þessu einvígi.

Synd og skömm að það falli í skuggann af öllum þessum múrsteinum sem félagar hans eru að hlaða - galopnir gegn svæðisvörninni. Við eigum til að gleyma því, en Lakers-liðið með allar sínar sterku hliðar, er alls ekki gott skotlið. Bara alls ekki.

Það er samt alveg rétt sem Lakers-menn bentu á í kvöld. Þeir standa frammi fyrir vandamáli með svæðisvörnina ef þeir geta ekki sett niður galopin skot leik eftir leik, en það er ekki stærsta vandamálið.

Varnarleikurinn er stærsta vandamálið og hann verður að laga. Lakers vann leiki eitt og tvö ekki á frábærum varnarleik - það vann þá af því Phoenix gat ekki náð stoppum til að bjarga lífi sínu (Lakers skaut 58% í báðum leikjum) og af því menn eins og Frye voru með útivallarkvíða.

Eins og við sögðum hér fyrir ofan er nú einvígið komið á byrjunarreit á ný í stöðunni 2-2. Lakers hefur nú tapað tveimur leikjum í röð eftir að hafa ekki tapað leik í 29 daga og þó Kobe og félagar séu langt frá því að fara í eitthvað panikk (sjá: 2-2 stöðu gegn Oklahoma), er ljóst að þeir þurfa að svara helvíti mörgum spurningum á fimmtudagskvöldið.

Nei, meistararnir fara ekki í neitt panikk yfir þessu þó staða þeirra út á við sé orðin allt önnur en hún var fyrir þremur dögum.

Við gátum samt ekki annað en hlegið þegar við sáum drengina í Inside the NBA á TNT óska eftir því að Phil Jackson notaði Sasha Vujacic í leik fimm. Þú veist að þú ert kominn í vandræði þegar menn leggja það til í alvöru að þú grípir til þess að nota Sasha Vujacic þegar þú ert sex sigrum frá meistaratitli.

Og það, gott fólk, er bara þannig!