Monday, December 25, 2017

Saturday, December 23, 2017

Þetta hlýtur bara að vera/verða eitthvað


Sennilega er ekki ofsögum sagt að forráðamenn NBA deildarinnar hafi verið leiðandi síðustu áratugi þegar kemur að því að gera vöruna sína markaðsvænni. Eitt mikilvægasta atriðið hvað það varðar er að sjálfssögðu að gera NBA deildina sjónvarpsvænni.

 Það eru ekki nema nokkrir mánuðir síðan NBA gerði talsverðar breytingar á regluverki sínu, t.d. varðandi fækkun á leikhléum, til að verða við kröfu áhorfenda bæði á vellinum og heima í stofu um að fækka ítrekuðum og hundleiðinlegum stoppum undir lok leikja. Þetta er að okkar mati mjög jákvætt atriði - að risavaxin deild á heimsvísu, skuli ekki vera blind og heyrnarlaus þegar kemur að tillögum og aðfinnslum viðskiptavina.

Nýjasta nýtt þegar kemur að tækni- og sjónvarpsmálum í NBA deildinni eru auðvitað sýndarveruleikagræjurnar. Eins og þið vitið, er ritstjórn NBA Ísland svo aftarlega á tæknimerinni, að við myndum tæknilega (pun sooo intended) ekki teljast sitjandi á bakinu á henni.Við verðum þó að viðurkenna að hugmyndin um að njóta NBA-leikja í sýndarveruleika(græjum) vekur hjá okkur talsverða forvitni og við sjáum ekki betur en að talsverðar vonir séu bundnar við að þetta nýja fyrirbæri gæti orðið eitthvað sem næði fótfestu í sjónvarpsupplifun fólks. 

Í myndbandinu hér fyrir neðan sjáum við stutta frétt sem gerð var um þetta nýlega fyrirbæri, en ljóst er að NBA deildin ætlar sér að þróa þessar hugmyndir eins langt og þurfa þykir af því flestum finnast þær jú ansi fróðlegar og spennandi.Það er hægt að sjá fullt af myndböndum á youtube sem sýna sjónarhorn manneskju sem er að horfa á NBA leik í sýndarveruleika, en það litla sem við vitum um þetta fyrirbæri er að það er víst engan vegin sama upplifun að sjá þetta á myndbandi eins og hér í fréttinni fyrir neðan - eða að vera með græjuna á hausnum og upplifa það sjálf(ur). 

Við vitum ekki með ykkur, en við værum alveg til í að prófa. Það hlýtur að vera dálítið spennandi að hafa það á tilfinningunni að LeBron James sé að koma hlaupandi á fullum spretti í fangið á manni.

Friday, December 8, 2017

Afsakið (þetta) hlé


Það er náttúrulega ekkert annað en vanvirðing við þá örfáu lesendur sem enn nenna að kíkja á NBA Ísland að skrifa ekki staf handa þeim í marga mánuði. Hvað sem því líður, getið þið rétt ímyndað ykkur hvort fór ekki um ritstjórn síðunnar þegar hún vaknaði allt í einu upp við það í lok sumars að hún hafði engan áhuga á að skrifa lengur - eftir að hafa gert það nánast daglega í meira en áratug.

Við höfum ekki hugmynd um af hverju ritstjórnin lamaðist skyndilega í ágúst, en mögulega hafa stórar breytingar eitthvað með það að gera. Svona breytingar eins og að flytja höfuðstöðvar okkar úr æsingi höfuðborgarinnar í sveitina og svo, tjah, ýmislegt annað skulum við segja.

Við höfum heldur ekki hugmynd um hvort neistinn til að skrifa er kominn aftur eða ekki. Það eina sem við vitum er að NBA deildin er alveg viðbjóðslega skemmtileg eins og alltaf - og að það er alveg stórkostlega asnalegt að skrifa ekki um það daglega eða vikulega eða hvað það nú er.

Tölvupóstunum hefur auðvitað rignt yfir okkur á nbaisland@gmail.com í þessari löngu og leiðinlegu pásu, þar sem þið lesendur eruð búnir að spyrja okkur hvað sé í gangi. Sum ykkar hafa verið reið yfir þessari leti og kæruleysi, sum ykkar hafið lýst yfir áhyggjum ykkar og spurt hvort við séum yfir höfuð á lífi.*

Við hefðum átt að vera búin að því fyrir löngu, en okkur langaði amk að segja ykkur að við værum enn lifandi, að okkur langaði ekki að loka síðunni, að við hötuðum meira en nokkru sinni að vera ekki lengur með hlaðvarp og að við ætluðum að reyna allt sem við mögulega gætum til að byrja að skrifa aftur. Ef ekki fyrir ykkur, þá fyrir okkur - og ef ekki fyrir okkur, þá fyrir ykkur, fattiði...

Við verðum bara að sjá hvað setur. Þessi færsla er amk byrjun, þó ekki væri annað.

----------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Hvert einasta orð í þessari málsgrein er samviskulaus helvítis haugalygi. Við höfum ekki fengið einn einasta tölvupóst vegna málsins, enda er öllum svo skítsama hvort þessi síða er til eða ekki, en við ætlum bara að loka augum og eyrum fyrir þeirri staðreynd og halda áfram eins og ekkert hafi í skorist. Við erum ekki gáfaðari en þetta, eins og þið komust öll að fyrir mörgum árum.