Showing posts with label Leikurinn. Show all posts
Showing posts with label Leikurinn. Show all posts

Wednesday, June 10, 2015

Cleveland hótar að gera eitthvað sögulegt


Stundum skiljum við hvorki upp né niður í körfubolta. Eins og núna. Golden State, sem er miklu betra lið en Cleveland með alla sína leikmenn heila, er komið 2-1 undir í úrslitaeinvígi NBA deildarinnar. Það er ekkert eðlilegt við þetta. Þetta gæti verið óvæntasta staða sem við höfum orðið vitni að í úrslitaeinvígi.

Þessi pistill verður mjög stuttur, af því hann segir það nákvæmlega sama og sá síðasti. Cleveland er bara að taka Golden State og berja það í andlitið með kjöthamri og það er ekkert sem leikmenn Warriors geta gert í málinu.

LeBron James er að spila þannig að ef hann vinnur tvo leiki í viðbót á þessari leiktíð, verður pistillinn sem við skrifum um hann í kjölfarið annað hvort ein setning eða efni í heila bók.

Matthew Dellavedova er gjörsamlega ekki hægt. Hann er Öskubuskuævintýri, ef ævintýrið um Öskubusku fjallar um maurætu með hundaæði sem slær í gegn með reggíhljómsveit og flýgur til mars úr geimflaug sem það smíðaði sjálft úr fótanuddtæki og sviðasultu.

Steph Curry sýndi smá rokk í lok leiks í kvöld, en það var ekki nóg. Við vonum hans vegna og Warriors vegna að hann sé búinn að finna svægið sitt, því annars er Golden State bara fögt!

Þetta meikar bara engan sens! 

Cleveland ræður tempóinu í þessu einvígi 100% og ef Golden State breytir því ekki í næsta leik, er það fögt. Þá er þetta bara búið og allar hugmyndir okkar um körfubolta foknar til andskotans.

En mikið ógeðslega, óhuggulega er þetta nú skemmtilegt allt saman. Vá!

Saturday, November 16, 2013

Osom í Oakland


Eins og nánast alltaf, er óhemju gaman að fylgjast með Vesturdeildinni í vetur. Þar finnur þú safaríkustu einvígin og í liðinni viku fengum við tvo algjöra toppleiki þar á bæ.

Við sögðum ykkur frá skemmtilegum leik LA Clippers og Oklahoma fyrir skömmu og vorum rétt búin að setja punktinn aftan við lokasetninguna í pistlinum þar þegar flautað var til leiks í viðureign Golden State og Oklahoma. Það er frábær leikur á pappírunum og allir þeir töfrar sem teiknaðir voru á það blað urðu að veruleika í Oakland í fyrrakvöld. Þetta var deildaleikur upp á 9,5 af 10.

Eins og við sögðum ykkur í pistlinum um Oklahoma á dögunum, var Russ vinur okkar Westbrook ekki alveg búinn að stilla miðið þó hann væri komnn á fullt aftur eftir hnémeiðslin. Gegn Warriors fann hann punktinn sinn og sallaði 31 stigi á heimamenn.

Oklahoma var langt undir lengst af í leiknum, en náði góðu áhlaupi í lokin sem endaði á því að Russell Westbrook fór upp í ííískaldan þrist þegar 2-3 sekúndur voru eftir af leiknum og kom Þrumudrengjunum yfir í fyrsta skipti í einhverja klukkutíma.

Eins og flestir vita, dugðu þessi hetjutilþrif ekki hjá Russ, því Andre Iguodala sleit hjartað úr Oklahoma með því að smella niður flautukörfu hægramegin á blokkinni. Sannarlega gaman fyrir Iguodala sem hefur verið að spila eins og engill hjá Warriors.

Liðið hefur enda þurft á allri hans fjölhæfni að halda þar sem meiðslavesen er á varaleikstjórnandanum. Munaður að geta bara hent boltanum í lúkurnar á Iggy, sem er að skila 14 stigum, 4 fráköstum, 6 stoðsendingum og 2 stolnum boltum það sem af er.

Við ætlum ekki að lesa meira út úr þessum leikjum í bili, enda er ekki búið nema korter af deildinni. Það er hinsvegar morgunljóst að þessi vetur verður partí frá upphafi til enda - og Golden State er eitt af liðunum á VIP-listanum.