Wednesday, June 10, 2015

Cleveland hótar að gera eitthvað sögulegt


Stundum skiljum við hvorki upp né niður í körfubolta. Eins og núna. Golden State, sem er miklu betra lið en Cleveland með alla sína leikmenn heila, er komið 2-1 undir í úrslitaeinvígi NBA deildarinnar. Það er ekkert eðlilegt við þetta. Þetta gæti verið óvæntasta staða sem við höfum orðið vitni að í úrslitaeinvígi.

Þessi pistill verður mjög stuttur, af því hann segir það nákvæmlega sama og sá síðasti. Cleveland er bara að taka Golden State og berja það í andlitið með kjöthamri og það er ekkert sem leikmenn Warriors geta gert í málinu.

LeBron James er að spila þannig að ef hann vinnur tvo leiki í viðbót á þessari leiktíð, verður pistillinn sem við skrifum um hann í kjölfarið annað hvort ein setning eða efni í heila bók.

Matthew Dellavedova er gjörsamlega ekki hægt. Hann er Öskubuskuævintýri, ef ævintýrið um Öskubusku fjallar um maurætu með hundaæði sem slær í gegn með reggíhljómsveit og flýgur til mars úr geimflaug sem það smíðaði sjálft úr fótanuddtæki og sviðasultu.

Steph Curry sýndi smá rokk í lok leiks í kvöld, en það var ekki nóg. Við vonum hans vegna og Warriors vegna að hann sé búinn að finna svægið sitt, því annars er Golden State bara fögt!

Þetta meikar bara engan sens! 

Cleveland ræður tempóinu í þessu einvígi 100% og ef Golden State breytir því ekki í næsta leik, er það fögt. Þá er þetta bara búið og allar hugmyndir okkar um körfubolta foknar til andskotans.

En mikið ógeðslega, óhuggulega er þetta nú skemmtilegt allt saman. Vá!