Friday, June 12, 2015

Loksins kom svar frá Golden State


Cleveland hafði ekki orku til að vinna þennan. Þú getur analíserað þennan leik í drasl eins og þú vilt, en í okkar huga byrjar þetta allt og endar á þreytu Cleveland-manna. Sérstaklega LeBron James og Matthew Dellavedova - þeir höfðu bara ekki gas í þetta og það hlýtur að vera hrikalega svekkjandi fyrir þá að tapa svona stórt á heimavelli 103-82.

Cleveland skaut 21% úr opnum skotum í leiknum í nótt og ef það er ekki merki um þreytu, vitum við ekki hvað þreyta er. Þar voru þeir James og Dellavedova áberandi verstir, skutu báðir 2 af 9 úr opnum skotum. Golden State skaut 53% úr samskonar skotum.

Við ætlum ekki að ganga svo langt að segja að Golden State hafi náð að taka yfir tempóið í leiknum í nótt, en spilamennskan að þessu sinni var mun nær því að henta Warriors í þessum leik en í fyrstu þremur. Við sögðum ykkur að Cleveland hefði gjörsamlega stjórnað tempóinu í fyrstu þremur, en það missti aðeins af lestinni í þessum.

Steve Kerr er sannarlega hugaður. Rétt eins og þegar liðið hans lenti 2-1 undir gegn Memphis í annari umferðinni, gerði hann drastískar breytingar á því fyrir leik fjögur og aftur skiluðu þessar breytingar góðum árangri. 

Breytingarnar núna voru róttækari og það kostar kjark að taka Bogut út úr byrjunarliðinu og setja tveggja metra mann í staðinn. Þetta hefði getað sprungið í andlitið hjá þeim, en Cleveland hafði ekki það sem til þurfti til að refsa þeim. Risarnir í framlínu Cleveland hirtu fullt af fráköstum og Mozgov skoraði eins og brjálæðingur gegn dvergunum hjá Dubs, en það voru litlu mennirnir sem brugðust.


LeBron James var augljóslega ekki með nægan kraft í þennan leik og Cleveland átti ekki möguleika með hann, Shumpert, Smith og Della skjótandi eins og Stevie Wonder. Við verðum að nota þetta tækifæri til að minna á það hvað okkur er illa við J.R. Smith og hvað við sögðum ykkur þetta. 

Cleveland er í þeirri skelfilegu stöðu að þurfa nauðsynlega á stigum frá honum að halda, alveg eins og Clippers þarf á stigum að halda frá Jamal Crawford, en þessir gaurar hafa bara ekki það sem til þarf til að loka í stóru leikjunum. Sérstaklega J.R. Smith, sem er að skjóta innan við 30% í úrslitunum og hittir úr einu af hverjum fjórum 3ja stiga skotum. Hann fékk tilætlaða athygli þegar hann mætti í leikinn á segway-apparati. Hann er að biðja um að vera hakkaður.

Iman Shumpert er ekki að hitta mikið betur en hann er amk að gera gagn í vörninni. Tristan Thompson var aftur öflugur í teignum en Mozgov spilaði eins og stórstjarna gegn framlínu Warriors sem var höfðinu lægri en hann. Hvernig Cleveland fór ekki inn á hann í hverri einustu sókn, er ofar okkar skilningi. Golden State hafði nákvæmlega engin svör við Moz í teignum.

Það er augljóst að leikmönnum Warriors líður betur eftir þennan sigur og sérstaklega var það mikilvægt fyrir þá að þeir Draymond Green og Harrison Barnes náðu að snúa við blaðinu eftir lélegan leik þrjú.



Svo var það náttúrulega maður leiksins, hann Andre Igoudala. Cleveland sættir sig við það að hann taki þessi skot, enda hittir hann oftast illa úr þeim. Þau duttu hinsvegar í nótt og Steve Kerr kallaði Igoudala besta mann Warriors í einvíginu. Það er ekki svo galin skoðun, hann hefur verið frábær á báðum endum vallarins.

David Lee kom með huggulega hluti inn í þetta alveg eins og í síðasta leik og Stephen Curry náði að henda nægilega miklu í púkkið til að loka þessu. Cleveland byrjaði vel en átti svo í raun ekki séns eftir það. Það kom að því að Golden State spilaði eitthvað í líkingu við það sem fólk spáði, sem sagt miklu betur en Cleveland.

Dásamlegur punktur kom frá Isiah Thomas fyrir leikinn á NBATV, þar sem hann sagði það bara hreint út að Stephen Curry ætti að reyna að koma því inn í hausinn á sér að hann væri leikmaður ársins að spila á móti (lélegum) aukaleikara - varamanni - og ætti því einfaldlega að drífa sig í því að slátra honum. Vaða bara á hann einn á einn hvað eftir annað. Ekkert rugl. Bara slátra honum. Við skulum alveg lofa ykkur að Isiah hefði gert einmitt það ef hann hefði mætt liði með Dellavedova í byrjunarliði.

Curry er svo sem ekki vanur að spila svoleiðis, en þetta er alveg rétt hjá Isiah, hann á að gjörsamlega ganga frá Della og neyða Cleveland í einhverjar varnaraðgerðir í stað þess að láta þennan ástralska titt vera að ýta sér fram og til baka eins og dúkkulísa. Þetta er bara lítið dæmi um hluti sem meika engan sens í þessu einvígi.


Mjög stór hluti spámanna fullyrti að Golden State ætti eftir að vinna þennan leik. Þetta er fólk eins og við, sem taldi gjörsamlega útilokað að Cleveland gæti unnið þetta einvígi. Þegar upp var staðið, hafði Cleveland ekki orku í að vinna þennan leik eins og áður sagði, en við höfum það sterkt á tilfinningunni að það hefði þurft að taka þennan.

Golden State varð að vinna í nótt, því engu liði hefur tekist að koma til baka í lokaúrslitum eftir að hafa lent 3-1 undir. Liðið gerði vel að klára þennan leik og stendur nú frammi fyrir þriggja leikja seríu með tvo heimaleiki. 

Verkefnið hefði fjarri því verið búið hjá Cleveland þó það hefði náð að vinna þennan leik, en þessi úrslit í nótt þýða að einvígið er aftur komið niður á jörðina og hætt að vera steypa. Sem sagt, að betra liðið sé að ná tökum á því.

Það er afar jákvætt fyrir LeBron James og félaga að fá nú þrjá daga til að hvíla sig, þó þeir þurfi að fljúga þvert yfir Bandaríkin í millitíðinni. 

Þessi aukadagur kemur eins og kallaður fyrir Cavs (þó liðið hefði getað notað aukadag fyrir leik fjögur líka) og eykur líkurnar á að liðið nái að stela öðrum í Oakland.

Við sjáum það samt ekki gerast og ætlum að vera svo djörf að spá því að þetta einvígi sé búið. Golden State vinnur stórsigur í næsta leik og keyrir tempóið enn meira upp og klárar þetta svo í Cleveland í leik sex. Blaðran er sprungin hjá Cavs núna - við erum búin að ákveða það - þó við viljum að sjálfssögðu fá þetta í sjö leiki.