Monday, June 8, 2015

Cleveland er betra en Golden State - eftir tvo leiki


Hann var ekki hár, stuðullinn á þennan á Lengjunni...

Ef þú segist hafa spáð því að Cleveland ætti eftir að jafna metin gegn Golden State í 1-1 með ótrúlegum útisigri í nótt, ertu að ljúga af öllum þínum mætti og ættir að venja þig af slíku. Það er ekki fallegt að ljúga.

Og talandi um hluti sem eru ekki fallegir, 95-93 sigur Cleveland á Golden State í nótt  - aftur eftir framlengingu - fær sannarlega engin fegurðarverðlaun. Ekki þessi hefðbundnu fegurðarverðlaun, sem við hefðum ef til vill reiknað með að Golden State ætti eftir að fá í þessu einvígi.

Nei, Cleveland kom inn í lokaúrslitin með plan, sem verður skýrara með hverri stjörnunni sem fellur úr leik hjá liðinu vegna meiðsla - að drulla þetta dálítið út. Og það er að virka.

Það er frekar ótrúlegt að staðan í þessu einvígi sé 1-1, en það sem kemur okkur miklu meira á óvart, er það hvað Cleveland hefur stjórnað tempóinu í því nánast hverja einustu mínútu. Fyrir utan rispuna sem Golden State tók í framlengingunni í fyrsta leiknum, er ekki hægt að segja að það sé búið að ná að spila sinn leik í þessu einvígi. Það er stórmerkilegt.

Meiðsli þeirra Kevin Love og Kyrie Irving þýða að möguleikar Cleveland eru afar takmarkaðir í sóknarleiknum.

Það er bara slátur í matinn alla daga - ekkert annað í boði. En þó Stjörnuleikmennirnir tveir séu að skilja eftir sig risavaxið skarð í sóknarleiknum, saknar þeirra enginn í varnarleiknum. Við skulum bara segja það alveg eins og er.

Þeir Tristan Thompson og Matthew Dellavedova eru engin varnartröll í sjálfu sér, en þeir eru miklu betri en stjörnurnar tvær sem þeir eru að leysa af í byrjunarliði Cleveland. Þetta er Golden State ekki alveg að ráða við, enn sem komið er.

Sóknarleikur Cleveland er einfaldur: Látum LeBron James hafa boltann, setjum kannski fyrir hann eina eða tvær hindranir til að brjóta þetta upp og látum hann svo um að búa eitthvað til.

Svona er þetta í grófum dráttum, engin eldflaugavísindi, bara þessi einfalda staðreynd að það er helvíti erfitt að stöðva LeBron James í að spila körfubolta.

Hetjur verða til í lokaúrslitunum í NBA og í nótt varð til ný hetja, rytjulegur pjakkur frá Ástralíu sem kallaður er Matthew Dellavedova. Hann fyllti ekki út tölfræðiskýrslur en hann sýndi okkur hvað er hægt að gera á körfuboltavelli með klókindum og stóru hjarta.

Það er með hreinum ólíkindum að þessi strákur, sem er heppinn að vera með vinnu í NBA deildinni, skuli vera klár í að hoppa fyrirvaralaust inn í byrjunarlið Cleveland í lokaúrslitum - og ekki nóg með það - heldur eiga stóran þátt í að færa Golden State aðeins fjórða tapið á heimavelli í allan vetur.

Delly hefur áður komið inn í byrjunarlið Cleveland í fjarveru Kyrie Irving, en ekki á svona stóru sviði, í svona björtum ljósum. Og hann hikaði hvergi. Var ekkert hræddur við pressuna. Þvert á móti gaf hann lykilsendingar, skoraði lykilkörfur og náði stórum fráköstum og lausum boltum. Svo kórónaði hann góðan leik sinn með því að ná að hanga í Stephen Curry með þeim afleiðingum að hann átti versta skotleik sinn á ferlinum.

Fyrirfram hefðum við ekki reiknað með því að Stephen Curry myndi byrja 4 af 21 (19%) í þristum í fyrstu tveimur heimaleikjunum sínum í einvíginu, en við erum reyndar vonsviknari með frammistöðu allra hinna.

Fyrir utan smá sprengju frá Klay Thompson í nótt, er nánast sama hvert var litið í liði Warriors, það var óskaplega lítið að gerast í sóknarleiknum.

Golden State þarf engan veginn að missa sig í eitthvað óðagot þó það hafi tapað einum leik í þessu einvígi og hlýtur m.a. að geta huggað sig við að ef Stepen Curry hefði bara hitt ömurlega í leiknum en ekki grátlega (5 af 23), væri Golden State á leið austur til Cleveland með 2-0 forystu í bakpokanum.

Curry á eftir að skjóta betur í framhaldinu, en það sem skiptir langmestu máli fyrir Golden State í þessari rimmu er að það verður að fara að troða sínum leikstíl upp á Cleveland. Það verður erfiðara í Cleveland en það var á heimavellinum - og ekki gekk það fjandi vel þar - svo það er ljóst að verkefnið er stórt og krefjandi fyrir Warriors.

Það meikar bara engan fjandans sens að Cleveland sé að spila svona vel...

Allur leikur Cleveland byrjar og endar hjá sæborginni LeBron James, sem er bara að gera grín að okkur öllum með sínum 42 stigum, tólf fráköstum og níu stoðsendingum sem hann er að bjóða upp á í lokaúrslitunum.

Við getum ekki hugsað til þess hvað gerist ef svo ólíklega vildi til að James næði að vinna meistaratitil með þessu liði. Það á ekki að vera hægt - ekki með nokkru móti. En hann er að hóta því að gera það.

Þegar tveir fyrstu leikirnir í einvígi fara í framlengingu er auðvelt að segja að lið A eða lið B "sé bara hársbreidd frá því að vera 2-0 yfir eða 0-2 undir" og það er alveg rétt. Við bara áttum ekki nokkra einustu von á að þetta yrði svona rosalega jafnt.

Við vorum ekkert að grínast þegar við sögðum að Golden State væri sex sinnum betra lið en Cleveland, en þær spár reiknuðu ekki með þessari útgáfu af Cleveland.

Þessi útgáfa af Cleveland er farin að minna óþægilega mikið á 2007 útgáfuna af Cleveland, sem var ekkert annað en gott varnarlið með einn frábæran sóknarmann. Þá náðu Tim Duncan og Gregg Popovich að spila taktík sem virkaði og slátra Cleveland.

Kannski að Kerr ætti að hringja í gamla þjálfarann sinn og fá ráð hjá honum. Þetta Cleveland-lið sem vann sigur á Golden State í kvöld, er miklu, miklu lakara lið en það sem LeBron drattaði í úrslit fyrir átta árum síðan.

Það getur verið að 2007-LeBron hafi verið örlítið sprækari í löppunum en 2015-LeBron, en það sem er farið að hræða líftóruna úr leikmönnum Golden State er að þeir sjá það langar leiðir á þessum LeBron að hann hefur verið þarna áður og veit nákvæmlega hvað til þarf.

Leikmenn Warriors vita ekki hvað til þarf - hafa ekki verið þarna áður. Við höfum öll séð LeBron James spila vel í úrslitakeppni í mörg ár, en við höfum aldrei séð í þeim ham sem hann er í núna.

Þetta er hans bolti, hans leikur og hans titill og Golden State verður að gjöra svo vel að fara að spila sinn leik ef það ætlar ekki að láta Cleveland tuska sig til og tapa þessu einvígi.

Við ítrekum: Það er gjörsamlega ómögulegt að Cleveland vinni þessa seríu, en ef það gerir það og LeBron James verður í þessum ham allan tímann, þurfum við að rífa upp sögu- og metabækur og rita nýja kafla. James er svo sannarlega ekki búinn að segja sitt síðasta og ef hann næði einhvern veginn að vinna þetta einvígi, yrði það langmesta afrek hans á annars lygilegum ferli.

Magic hafði Jabbar og Worthy, Larry hafði McHale og Parish, MJ hafði Pippen og Rodman. LeBron hafði Wade þegar hann var hjá Miami, en núna hjá Cleveland? Nákvæmlega. Þetta er fáránlegt.

LeBron er búinn að bæta við stórum broskalli í bókina sína með frammistöðu sinni í úrslitakeppninni í ár og okkur er eiginlega alveg sama þó Cleveland tapi þremur leikjum í röð og fari í sumarfrí.

 LeBron James er að gera hluti sem enginn hefur gert áður og enginn er að fara að leika eftir næstu ár nema kannski hann sjálfur. Frammistaða hans í vor er farin að kalla á sérstakan pistil og tröllaleikirnir hans tveir í lokaúrslitunum tryggja að þessi pistill verður skrifaður mjög fljótlega. Þessi pistill gæti orðið umdeildur, en okkur er alveg sama.

LeBron James er að spila þannig að hann neyðir okkur til að skilgreina sig í sögulegu samhengi nú strax, þó hann eigi mörg ár eftir í deildinni.

Það er ekki til siðs að skoða arfleifð manna í NBA fyrr en nokkru eftir að þeir hætta, en James er undantekning á þessu. Hann er kominn það hátt á lista bestu körfuboltamanna allra tíma að það er nauðsynlegt að fara að rita nafn hans á nokkrar vörður á leiðinni.

Svo þið og þeir sem á eftir koma, sjáið hvar hann hefur verið og hvert hann stefnir.

Þetta úrslitaeinvígi er að byrja eins vel og hægt er. Við erum búin að fá framlengingu í fyrstu tveimur leikjunum sem hefur aldrei gerst áður og við erum að verða vitni að stórmerkilegum hlutum, sérstaklega frá Cleveland þessa stundina. Þetta verður ekki mikið fallegra krakkar.