Friday, June 5, 2015

Stórleikur LeBron James dugði ekki til


Ef og hefði... það er svo mjótt á munum í leiknum okkar fallega. Ef leikmenn Cleveland voru ekki búnir að fatta það, eru þeir búnir að því núna. LeBron James er reyndar löngu búinn að fatta það, en hann á við ofurefli að etja.

Hann er sterkari leikmaður í dag en hann var þegar hann fór síðast í úrslit með Cleveland (´07) en það má færa rök fyrir því að liðið hans í dag sé veikara en liðið sem lét San Antonio sópa sér í úrslitum árið 2007. Það veikir öll lið að missa einn og tvo stjörnuleikmenn í meiðsli.

Heilladísirnar gættu Warriors-manna í nótt þegar þeir höfðu 108-100 sigur í framlengingu í fyrsta leiknum við Cleveland og náðu 1-0 forystu í einvíginu. Þetta var gjörsamlega magnaður leikur og nákvæmlega það sem við vonuðumst eftir að sjá frá þessum frábæru liðum. Hér fyrir neðan er stutt umfjöllum um ástandið og tæplega tuttuguþúsund myndir og tölfræði. Bara fyrir ykkur.

Það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar við horfum til baka yfir þennan leik, er lokasóknin hjá Cleveland. Hún var handónýt með öllu og endaði á vonlitlu skoti frá LeBron James af allt of löngu færi. Auðvitað fór það ekki ofan í, en mikið fjandi munaði litlu að Iman Shumpert næði að kyss´ann ofan í um leið og flautan gall. Sá hefði farið í sögubækurnar.



Hugsið ykkur hvað það hefði gert fyrir Cleveland ef boltinn hefði dottið ofan í hjá Shumpert - eða meira svona ef LeBron James hefði haft kraft og úthald til að keyra einu sinni enn á körfuna. Hefði hann ekki átt sæmilegan séns á að framleiða stig út úr þeirri aðgerð, þó ekki væri nema á vítalínunni?

Auðvitað.

En svona er þetta stundum. Við sem höfum ekki hundsvit á körfubolta stöndum stundum á gati þegar við sjáum svona aðgerðafræði. Cleveland hafði ekkert í framlenginguna að gera. Þeir voru dauðþreyttir og búnir á því - hefðu ekki skorað eitt einasta stig ef Golden State hefði ekki leyft James að lauma einu sniðskoti í til að bjarga andlitinu þarna í lokin.


Þetta er hrikalega þungt tap fyrir Cleveland, sem mætti með aðgerðaáætlun og fór eftir henni. Megnið af sóknaraðgerðunum voru máske full frumstæðar, en þær skiluðu árangri og uppskeru fram á lokamínútuna þó ekki væru þær fallegar. Þjálfari Stjörnunnar orðaði það líklega best þegar hann tísti:


Já, það er eðlilegt að fólk bendi á lokasóknina hjá Cavs þegar það ætlar að finna hvað fór úrskeiðis, en það var ekki það eina. Það voru fleiri þættir sem þýddu þungbært tapið í nótt og þar munaði mest um getuleysi aukaleikara liðsins. J.R. Smith var eini varamaðurinn í Cleveland sem skoraði körfu í leiknum og það sem verra er, tók restin af bekknum hjá liðinu samtals eitt skot, sem er glæpsamlegt.

Cleveland þarf því miður lífsnauðsynlega á því að halda að JR Smith spili eins og maður í hverjum einastta leik ef það á að eiga séns í þessu. Það byrjar ekki vel, því eftir að hafa sett þrjá þrista í byrjun leiks, kólnaði Smith niður fyrir frostmark og lauk keppni með 3 af 13 í skotum. Engan veginn nógu gott eins og þið sjáið:



LeBron James fór náttúrulega hamförum og skoraði 44 stig, en þurfti að nota 38 skot til þess, sem er Kobe-tölfræði sem James hefur ekki boðið mikið upp á undanfarinn áratug - þangað til í ár. Hérna er yfirlit yfir skotglöðustu leiki hans á ferlinum og hér fyrir neðan er skotkortið hans í nótt:























Þeir James, Kyrie Irving og Timofey Mozgov voru atkvæðamestir hjá Cleveland en fengu frekar litla hjálp frá félögum sínum. Hérna er skotkort þeirra:




















Og hérna fyrir neðan er skotkort Cleveland síðustu sjö mínúturnar í leiknum. Þetta er ekkert sérstaklega fallegt og það sem meira er, tapaði liðið fjórum boltum á þessum tíma líka.




















Eins og áður sagði gekk leikaðferð Cleveland nokkuð vel upp, því liðið náði að drepa niður hraðann og hnoðast. LeBron James skoraði ógurlega, en varð að hafa reglulega mikið fyrir hlutunum. Andre Iguodala fékk gjarnan það hlutverk að dekka James og hér sjáið þið hvernig Iggy gekk með kónginn:



















Það var téður Iguodala sem var leynigesturinn í leiknum í kvöld, því hann spilaði ekki bara góða vörn á James, heldur spilaði hann sóknarleik líka. Fimmtán stigin hans af bekknum reyndust algjör lottóvinningur fyrir Warriors ofan á 26 stig Curry og 21 stig Thompson.

Á meðan leikaðferð Cleveland gekk 99% upp, var það planið hjá Golden State sem skilaði sigrinum. Þeir geta vissulega þakkað fyrir að hafa ekki tapað þessu þarna í lokin, því það eru ágætis líkur á því að LeBron James geti refsað þér ef hann á síðustu sóknina í jöfnum leik.

Planið hjá Warriors reyndist vera svipað og margir höfðu spáð, en það gekk einfaldlega út á að neita því alfarið að tvídekka James og leggja þess í stað áherslu á að neita honum um sendingaleiðir á skytturnar þegar hann óð í gegn um vörn Warriors. Þetta var kannski ekki alveg svona einfalt, en í grunninn gekk vörnin hjá Warriors út á þetta.


Sóknarleikur Golden State hefur oft verið betri en hann var í nótt, en við erum að sjá þetta lið vaxa með hverjum leiknum, því hvað eftir annað nær það að klára leiki sem eru í járnum þó þeir séu kannski ekki að spila neitt sérstaklega vel í sókninni.  Það er jú vörnin sem leggur grunninn að öllum sigrum Golden State, þó það eigi það vissulega til að skjóta lið út úr húsinu annað slagið.

Þið haldið kannski að tapið hjá Cleveland sé stærsti bömmerinn hjá liðinu í kvöld, en því fer fjarri. Flestir tapa einum eða tveimur leikjum í lokaúrslitum, það er ekkert hættulegt, en það er öllu verra þegar menn byrja enn og aftur að týna tölunni - hrynja úr keppni vegna meiðsla.


Kyrie Irving hefur örugglega verið loðdýrabóndi eða tannlæknir í fyrra lífi, því meiðsladjöflinum fannst ekki nóg að hafa hann haltrandi á öðru hnénu. Hnéð sem var að stríða honum síðustu daga var með besta móti í leiknum í nótt - þangað til hann meiddi sig á hinu hnénu!

Hann á eftir að fara í myndatöku í dag, en þó ekkert sé slitið, rifið eða brotið, er nokkuð ljóst að þessi viðbótarmeiðsli eru hvorki að fara að hjálpa honum né Cleveland í þessu einvígi. Meiðslabölvunin sem er búin að vaða í gegn um deildina eins og Keflvíkingur með keðjusög ætlar engan endi að taka. Menn virðast ætla að meiðast fram á síðustu mínútu á þessari álagaleiktíð.

Við ætlum að spara ykkur klisjutölfræðina yfir það hvað líkurnar á sigri Warriors í einvíginu hafa aukist mikið í kjölfar þessa fína sigurs í leik eitt, en hvort sem það er klisja eða ekki, eru sveinarnir hans Steve Kerr nú búnir að setja góða pressu á Cleveland. Eins og hlassið á bakinu á LeBron hafi ekki verið nógu þungt.

Ef við kjósum að kalla vatnsglasið hálffult (eins og við gerum auðvitað alltaf) getum við huggað okkur við það að öll þessi meiðsli hjá Cavs þýða einfaldlega að við fáum að sjá besta körfuboltamann í heimi fara hamförum í nánast hverri einustu sókn framvegis.

Við getum ekki ítrekað það við ykkur nógu oft hvað það eru mikil forréttindi að fá að fylgjast með LeBron James vinna vinnuna sína. Það eru álíka forréttindi og að fá að horfa á Lionel Messi spila fótbolta; þessir menn eru gjörsamlega í ruglinu!

Næsti leikur í einvígi Warriors og Cavs fer fram á miðnætti á sunnudagskvöldið og fer fram í Oakland líkt og sá fyrsti. Leikur þrjú og fjögur verða í Cleveland og svo skiptast þau á að spila á heimavelli þar til úrslit fást.

Það er sem sagt búið að breyta 2-3-2 kerfinu sem hefur verið í lokaúrslitum undanfarin ár og taka upp hið hefðbundna 2-2-1-1-1 sýstem.

Allir leikirnir í lokaúrslitunum verða sýndir beint á Stöð 2 Sport eins og venjulega og ef restin af þessu einvígi verður eitthvað í líkingu við þessa bombu sem boðið var upp á í nótt, erum við í góðum málum með tvær síðustu vikurnar af NBA boltanum á þessari leiktíð.

Því ekki að líta á nokkrar myndir frá því í nótt úr því við erum að þessu? Þið hafið ekkert nema gott af því. Smellið á myndirnar til að stækka þær.