Thursday, June 4, 2015

Hátíðin hefst í kvöld


Jæja, þá er loksins komið að því. Það hefur tekið sinn toll fyrir okkur öll að vera NBA-laus í heila viku, en í kvöld, fimmtudagskvöldið 4. júní, hefst lokaúrslitaeinvígi Golden State og Cleveland með látum í Oakland. Leikurinn er klukkan eitt eftir miðnætti að íslenskum tíma og er sýndur beint á Stöð 2 Sport, eins og restin af leikjunum sem eftir eru.

Við höfum sannarlega haft góðan tíma til að hugsa um þetta einvígi og erum satt best að segja búin að taka inn of stóran skammt af Warriors-Cavs upphitunum. Svo stóran að við vildum óska þess að einvígið færi bara að byrja svo við fáum loksins að sjá hvernig þessi skák spilast í alvörunni.

Ef þú vilt sökkva þér á kaf í pælingar um einvígið er rétt að benda þér á hlaðvarpið okkar síðan í gær, þar sem farið er nokkuð ítarlega yfir helstu styrkleika og veikleika liðanna og hvernig þau koma til með að passa saman. Kjósir þú heldur að fara einföldu leiðina að þessu, erum við boðin og búin til að segja þér allt um þetta. Þetta er nefnilega alls ekki flókið dæmi. Málið er bara hvort hlutirnir eiga eftir að meika sens í úrslitunum eða ekki.

Ef hlutirnir meika sens, ef allt er eðlilegt og eftir bókinni, á Golden State ekki að vera í teljandi vandræðum með að vinna Cleveland í sjö leikja seríu. Enda hefur fjöldi spekinga spáð því að Warriors klári þetta í fimm leikjum. Það er vegna þess að Golden State er miklu, miklu betra lið en Cleveland. Og þess vegna verður Golden State meistari í ár, nema eitthvað stórfurðulegt gerist.

Golden State er körfuboltalið með þrjá veikleika, það er nú allt og sumt. Einn veikleikinn er reynsluleysi, en hann verður horfinn úr liðinu í næsta mánuði og þá standa aðeins eftir varnarfráköst og tapaðir boltar.

Golden State er á eða við toppinn í flestum tölfræðiþáttum bæði varnar- og sóknarlega en á það stundum til að hreinsa illa til í teignum, sem kemur sér illa á móti góðu frákastaliði eins og Cleveland með sóknarfrákastavélina kanadísku Tristan Thompson á kantinum.

Það eina sem Golden State þarf að gera í þessu einvígi er að reyna að passa upp á boltann, hreinsa upp fráköstin sín og spila sinn leik, þá er þetta í húsi. Hugsið ykkur hvað þetta er einfalt! Þetta á heldur ekki að vera fjandi flókið þegar þú ert með lið eins og Golden State.

Þetta lið er með gott þjálfarateymi, ofurstjörnu, bilaðar skyttur, spilað á stórum mönnum eða minnibolta, frábæra sendingamenn sem kaupa sýstemið og leita alltaf að opna manninum og síðast en alls ekki síst - og þetta er það sem ræður úrslitum - fjölhæfan og bókstaflega kæfandi varnarleik.

Það þyrfti sannarlega ekki að koma neinum á óvart ef þeir busl-bræður ættu eftir að skjóta Cleveland í kaf í einhverjum af þessum leikjum, en við veðjum frekar á að það verði stoppin þeirra á hinum endanum sem ráða úrslitunum.

Cleveland hefur aðeins tvo hluti fram yfir Golden State í þessu einvígi og þeir hvíla báðir á LeBron James. Annars vegar er hann besti körfuboltamaður í heimi og hinsvegar er hann með sjöhundruðogfjörutíu sinnum meiri reynslu af að fara djúpt í úrslitakeppninni en allt Golden State liðið til samans.

Við höfum ekki pláss á harða disknum til að fara yfir alla veikleika Cleveland-liðsins og það er svo sem alveg nóg að nefna þá helstu. Fyrsta mál á dagskrá þar er auðvitað bölvuð meiðslin og sú staðreynd að Cleveland mætir í úrslitin með haltrandi Kyrie Irving og engan Ástþór. Munað hefur um minna.

Lið Cavs var fjarri því gott varnarlið í deildinni í vetur en hefur farið fram úr væntingum á því sviði í úrslitakeppninni. Gallinn er bara sá að Golden State er ekki Boston eða Atlanta. Við rákum augun í einhverja grein eftir einvern ofur-njörðinn um daginn (líklega Kevin Pelton) sem fullyrti að samkvæmt tölfræðinni væri Cleveland alveg jafn gott varnarlið í úrslitakeppninni og Golden State, jafnvel þegar væri búið að reikna með því hvað Austurdeildin er léleg.

Þetta er algjört bull og það á eftir að koma í ljós, nema þetta einvígi leysist upp í algjöra vitleysu.

Það er búið að vera reglulega gaman að fylgjast með Golden State drulla yfir alla deildina í allan vetur án þess að taka sér svo mikið sem smókpásu og því yrði það algjör sómi ef þetta lið tæki dolluna.

Það yrði verðskuldað í einu og öllu, því þetta lið er búið að spila á pari við mörg af bestu liðum sögunnar í vetur, bæði í deild og úrslitakeppni.

Það yrði hinsvegar miklu stærri frétt og með öllu merkilegra ef Cleveland næði að vinna titilinn. Það yrði ekki aðeins fyrsti titill Cleveland-borgar í boltagreinum í hálfa öld, heldur næði dramatíkin í kring um LeBron James alveg nýjum hæðum.

Allir blaðamenn í heimi stökkva til og segja söguna af Davíð og Golíat og hvernig James færði fólkinu sínu loksins titil heima í Cleveland.

Annað er samt merkilegra, ef Cleveland tekst nú einhvern veginn í fjandanum að vinna þetta. Ef LeBron James nær að draga þetta lið yfir endalínuna við þessar aðstæður, þurfum við að taka mál hans fyrir aftur í héraðsdómi og endurraða lista bestu körfuboltamanna sögunnar. Þeir eru ekkert rosalega mörg nöfn fyrir ofan hann á þessum lista - og hann er bara um þrítugt.