Saturday, November 16, 2013

Osom í Oakland


Eins og nánast alltaf, er óhemju gaman að fylgjast með Vesturdeildinni í vetur. Þar finnur þú safaríkustu einvígin og í liðinni viku fengum við tvo algjöra toppleiki þar á bæ.

Við sögðum ykkur frá skemmtilegum leik LA Clippers og Oklahoma fyrir skömmu og vorum rétt búin að setja punktinn aftan við lokasetninguna í pistlinum þar þegar flautað var til leiks í viðureign Golden State og Oklahoma. Það er frábær leikur á pappírunum og allir þeir töfrar sem teiknaðir voru á það blað urðu að veruleika í Oakland í fyrrakvöld. Þetta var deildaleikur upp á 9,5 af 10.

Eins og við sögðum ykkur í pistlinum um Oklahoma á dögunum, var Russ vinur okkar Westbrook ekki alveg búinn að stilla miðið þó hann væri komnn á fullt aftur eftir hnémeiðslin. Gegn Warriors fann hann punktinn sinn og sallaði 31 stigi á heimamenn.

Oklahoma var langt undir lengst af í leiknum, en náði góðu áhlaupi í lokin sem endaði á því að Russell Westbrook fór upp í ííískaldan þrist þegar 2-3 sekúndur voru eftir af leiknum og kom Þrumudrengjunum yfir í fyrsta skipti í einhverja klukkutíma.

Eins og flestir vita, dugðu þessi hetjutilþrif ekki hjá Russ, því Andre Iguodala sleit hjartað úr Oklahoma með því að smella niður flautukörfu hægramegin á blokkinni. Sannarlega gaman fyrir Iguodala sem hefur verið að spila eins og engill hjá Warriors.

Liðið hefur enda þurft á allri hans fjölhæfni að halda þar sem meiðslavesen er á varaleikstjórnandanum. Munaður að geta bara hent boltanum í lúkurnar á Iggy, sem er að skila 14 stigum, 4 fráköstum, 6 stoðsendingum og 2 stolnum boltum það sem af er.

Við ætlum ekki að lesa meira út úr þessum leikjum í bili, enda er ekki búið nema korter af deildinni. Það er hinsvegar morgunljóst að þessi vetur verður partí frá upphafi til enda - og Golden State er eitt af liðunum á VIP-listanum.