Saturday, November 16, 2013
Korver nálgast met
Kyle Korver, leikmaður Atlanta Hawks, er ein besta þriggja stiga skytta sem stigið hefur inn á gólf í NBA deildinni. Korver smellti þremur þristum í nótt þegar lið hans skellti Spútnikliði Philadelphia 113-103 og er nú ekki langt frá því að skrá nafn sitt aftur í sögubækurnar.
Þetta var 82. leikurinn í röð sem Korver setur að minnsta kosti einn þrist niður. Hann vantar nú aðeins sjö leiki upp á að jafna NBA metið yfir flesta leiki í röð með einn þrist eða fleiri.
Það á Dana Barros sem setti það þegar hann var leikmaður Boston Celtics um miðjan tíunda áratuginn. Hann sló þá met Michael "græna ljósið" Adams, sem var 79 leikir í röð.
Þess má til gamans geta að Barros endaði þessa miklu rispu á sínum tíma með því að bjóða upp á 0-8 í þristum í leik gegn Golden State í janúar 1996. Hann hafði þá sett einn eða fleiri þrista allar götur síðan á Þollák árið 1994.
Ef Korver tekst að halda áfram að hitta, mun hann jafna met Barros þann 27. nóvember og slá það tveimur dögum seinna í leik gegn Dallas Mavericks. Það er engin ástæða til að efast um að hinum hug- og hárprúða prestssyni takist þetta.
Korver er að hitta yfir 51% úr þristum í vetur og setti m.a. NBA met árið 2010 þegar hann setti 59 af 110 þristum sínum niður (53,6%) með Utah Jazz, sem er besta nýting sem leikmaður í NBA hefur skilað á heilu tímabili. Hann sló þá met sem Steve Kerr setti árið 1995 með Chicago Bulls (52,4%). Þá á hann einnig NBA metið yfir að vera líkastur Ashton Kutcher.
Skyttan mikla hóf feril sinn með Philadelphia 76ers árið 2003 og var þar í fimm ár. Þá var hann í þrjú ár hjá Jazz, tvö hjá Chicago og er nú á öðru ári sínu með Atlanta.
Korver er með um 10 stig að meðaltali í leik á ferlinum og 42% þriggja stiga nýtingu. Alls hefur hann sett 1344 þrista, sem reyndar kemur honum ekki nema í 27. sætið yfir flesta skoraða þrista í sögu NBA.
Rétt er að taka fram að þessum pistli er ekki ætlað að jinxa aumingja Korver. Við tökum það á okkur ef hann klikkar á þessu, en við heitum á piltinn að hitta fram í desember.
Efnisflokkar:
Hawks
,
Kyle Korver
,
Metabækurnar
,
Netbrennur
,
Þristar